Færsluflokkur: Menntun og skóli

Háskólar Íslands í ruslflokki?

Nýverið var forseti Havard háskólans rekinn úr starfi.  Ástæðan var ritstuldur og það að hún, Claudine Gay, gat ekki eða vildi ekki fordæma árásir á nemendur skólans af gyðinga uppruna.

Menningarstríðið sem nú er háð á Vesturlöndum rís hæst í Bandaríkjunum. Það hófst fyrir rúmum fimmtíu árum en þar hefur ný-marxisminn graserað og kom upp á yfirborðið um aldarmótin. Helsta birtingamynd nýrrar heimsmyndar er wokisminn, þar sem öllum viðteknum sannindum er snúið á hvolf. Hægri menn hafa snúist til varnar, enda ráðist á málfrelsið um leið.

Minni virðing er borin fyrir háskólanámi en áður

Háskólarnir hafa útungað heilu farmana af nemendum með þessa ný-marxísku hugmyndafræði og nú er svo komið það þetta fólk boðar kenninguna opinberlega og hefur yfirhöndina í umræðunni. En andstæðingarnir hafa tekið slaginn. Styrktaraðilar hafa dregið að sér höndina og þegar peningar hætta að streyma inn, fara stjórnendur háskólanna loks að ranka úr rotinu.

Hugmyndaheimur þessi smitast úr virtustu háskólunum yfir aðra og þar á meðal þeirra íslensku. Þær deildir sem kalla má húmanískar, með faggreinar félagsfræði, mannfræði, sagnfræði, heimspeki og menntunarfræði, eru nú undirlagðar af þessari hugmyndafræði. Aðrar deildir, svo sem lögfræði eða verkfræði, halda áfram að vera það sem þær eru og eiga að kenna, faggreinadeildir.

Verðbólgan í einkunnargjöf hefur leitt til metfjölda nemenda í háskólum landsins.  Skólarnir eru ekki lengur bara akademískir, heldur prófgráðu skólar. Hvað er átt við með því? Jú, kennt er á háskólastigi til einkunna en án rannsóknarþáttarins. Það að háskólar séu virtir og í raun háskólar, fer eftir því hversu miklar rannsóknir eru stundaðar í skólunum. Háskólar eru ekki bara menntastofnanir, heldur einnig rannsóknastofnanir.

Þegar bara er horft á rannsóknarþáttinn og heildareinkunargjöf skora íslenskir háskólar lágt.  Ef litið er á einkunnargjöf Times Higer Education stigalistann er Háskóli Íslands í 505 sæti og á milli 601-700 á Shanghai Ranking.  Háskóli Íslands segist vilja vera meðal 100 bestu háskóla heimsins, en það er greinilega langt í land.

HÍ er ekkert einsdæmi. Háskólinn í Reykjavík montar sig af árangri sínum þrátt fyrir lélegt gengi.  Á vefsíðu hans segir:

"Á nýjum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims fyrir árið 2023 er Háskólinn í Reykjavík áfram efstur íslenskra háskóla og heldur stöðu sinni í sæti 301-350. Þá er HR enn meðal allra efstu skóla er kemur að mati á hlutfallslegum áhrifum rannsókna, fjórða árið í röð í sjöunda sæti tæplega 1800 háskóla. Áhrif rannsókna eru metin út frá fjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum."

Menn hafa verið að fárast yfir niðurstöður PISA og lélegan námsárangur nemenda en þessa nemendur fá framhaldsskólarnir og háskólarnir í sínar hendur. Ekki bara það að háskólarnir eru lélegar rannsóknarstofnanir, heldur eru nemendurnir margir hverjir ekki nægilega vel undirbúnir undir háskólanám. Ekki bætir úr skák að fjögurra ára nám er nú orðið að þriggja ára námi.

Hvað er til ráða? Í fyrsta lagi að gera ekki allar faggreinar að háskólanámsgreinar. Ekki er allt sem kennt er, þess eiginleika að þurfa að vera á háskólastigi. Ef menn vilja lyfta einhverju fagi yfir á háskólastig, þá þarf rannsóknarþátturinn að fylgja með. 

Í öðru lagi að menn fái löggildi í sínu fagi á BA/BS stigi en þurfi ekki að fara yfir á meistaranámsstig. Ef menn vilja fimm ára háskólanám, t.d. til að geta kennt, þá mætti námið sem nú er á meistarastigi vera starfsnám. Svo á við margar aðrar faggreinar.  Ein helsta gengisfelling háskólagráða eða -náms er einmitt að venjulegir nemendur eru látnir læra á meistarastigi án þess að rannsóknarþátturinn fylgi með. Og til hvers þarf t.d. kennaraneminn að stunda akademískar rannsóknir þegar hann er í raun í starfsþjálfun??? Og þessar "rannsóknir" eru í skötulíki?

Í þriðja lagi að efla háskólann sem rannsóknarstofnun. Það má gera með betri tengingu við atvinnulífið en mörg fyrirtæki á Íslandi eru framúrskarandi og leiðandi á tækni og vísindasviði. Þessi samvinna á rannsóknarsviðinu mun leiða til betri einkunargjafar háskólana.

En það verður erfitt fyrir íslensk stjórnvöld að bakka frá "verðbólgu" kröfur á námi háskólanema. Líklegt að enginn þori að taka af skarið. Kannski að gervigreindin breyti myndinni?

Í blálokin: Kannski er hér of mikil svartsýni. Það er kannski nokkuð gott að vera meðal 500 bestu háskólum heimsins. Erfitt er að slá tölu á fjölda háskóla í heiminum, talan 25 þúsund kemur upp. En í vestrænu samhengi eru íslenskir háskólar langt frá því að teljast meðal þeirra bestu.

 

 


Lestrarkunnátta á Íslandi 1773 og 2023

Í 250 ára sögu lestrarkunnáttu á Íslandi hefur margt breyst. Menn hafa kunnað að lesa og skrifa síðan a.m.k. um árþúsundið 1000. En mikil breyting varð á tímum upplýsingar á Íslandi um miðja 18. öld og nú voru það ekki bara íslenskir fyrirmenn sem lærðu að lesa, heldur einnig almúginn. Menntun á landinu hefur alla tíð verð háð lestrarkunnáttu þjóðarinnar.

Árið 1750 var tímamót með tilkomu píetismans. Þá var lögð áhersla á að ein manneskja á hverju heimili ætti að kunna lesa og sú manneskja ætti að deila þeirri þekkingu með heimilisfólki sínu en presturinn átti að hafa yfirumsjón með náminu. Þessi áhersla á lestrarkunnáttu gerði það að verkum að fleira fólk og fjölbreyttari þjóðfélagshópar gátu lesið bækur og tímarit og varð bókmenntaheimurinn opinn fyrir stærri hluta þjóðarinnar.

Píetisminn eða heittrúarstefnan gerði það líka að verkum að almennt fólk sem kunni nú að lesa tók frekari þátt í útbreiðslu og framleiðslu rita. Almenn útgáfa tímarita og bóka hófst.

Skriftarkunnátta Íslendinga jókst verulega hundrað árum síðar eða um 1850, á þessum tíma fór fleira fólk að skrifa bréf og dagbækur o.s.frv. Á þessum tíma fór lestrar- og skriftarkunnátta ekki hönd í hönd eins og við þekkjum nú til dags.

Í frægari grein eftir Harvey J. Graff er fjallað um óvenjulega háu lestrarkunnáttu í Svíþjóð á 18. öld, framförum Svíþjóðar var þakkað tvískiptrar herferðar, fyrst var lögð áhersla á að lesa guðlega texta í kringum 1700 og seinna var áherslan beint að hefðbundni skólagöngu árið 1850. Með þessari grein var hægt að benda á að lestrarkunnátta Svía þróaðist mun hraðar en skriftarkunnátta þeirra, en í öðrum löndum gekk það yfirleitt hönd í hönd. Þetta módel hefur verið notað til þess að útskýra bilið milli lestrar- og skriftakunnáttu Íslendinga.

Það merkilega við lestrarkunnáttu Íslendinga er að þrátt fyrir að hefðbundin skólaganga hafi ekki hafist fyrr en löngu seinna var um helmingur af Íslendingum læs 1750, og 50 árum seinna 1790 var það um 90 prósent af þjóðinni. Skilvirka kerfi heittrúarstefnunar, að heimilisfólk kenndi hvor öðru, var greinilega að skila sér, með viðleitni bæði ríki og kirkju til hjálpar.

Stofnun grunnskóla á landinu gekk hægt og 1874 voru 7 skólar talsins á öllu landinu, á þessum tíma var skriftarkennsla nýbyrjuð. Minni skólar risu hér og þar út um allt land í þorpum og bæjum og krakkar í dreifbýli reiddu sig á kennara sem flökkuðu milli bæja, svo kallaðir farkennarar, sumir stunduðu líka nám hjá prestum.

Ekki var mikið val í boði fyrir frekari menntun, einu menntastofnanir voru á vegum kirkjunnar, sem voru aðalega ætlaðar fyrir menntun klerka. Kirkjan hafði haldið uppi öllum menntastofnunum frá miðöldum til enda 18. aldar þegar skólarnir sem voru reknir af biskupstólunum á Skálholti og Hólum lokuðu. Frá þeim tíma voru opnaðir skólar ótengdir kirkjunni, eins og Hólavellir sem starfaði í tvo áratugi 1786 – 1805 og svo Bessastaðarskóli 1805 – 1846, og svo að lokum Lærði skólinn í Reykjavík eða öðru nafni Latínu skólinn, sem er fyrirrennari Menntaskóla Reykjavíkur. Árið 1847 var reistur prestaskóli í Reykjavík ásamt öðrum skólum sem kenndu þá sérgreinar eins og landbúnað, kennslu og kvennaskólar urðu til. 

Mikilvægur þáttur í þéttbýlismyndun og nývæðingu á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar var stofnun barnaskóla og myndun barnakennarastéttar. Upphafið teygir sig nokkra áratugi aftur á 19. öld en lög um almenna fræðslu barna voru ekki sett, sem kunnugt er, fyrr en 1907. Í lögunum var gerður skýr greinarmunur á barnafræðslu eftir þéttbýli og dreifbýli, eða með öðrum orðum, eftir því hvort kennslan færi fram í föstum skólum eða farskólum.. Á fyrstu þremur áratugum aldarinnar festi þetta fræðsluskipulag sig í sessi á sama tíma og þéttbýli óx hröðum skrefum í landinu. Þýðingarmikill liður í stofnfestingu barnaskólakennslu í landinu var stofnun Kennaraskóla Íslands 1908 (heimild: Loftur Guttormsson).

Í ritinu Íslenska skólakerfið (2002) segir að lög um skólaskyldu voru fyrst sett hér á landi árið 1907. Frá þeim tíma hefur skólastarf tekið miklum breytingum og skólaskylda barna og ungmenna lengst úr 4 árum í 10. Alþingi ber lagalega og pólitíska ábyrgð á skólakerfinu og ákveður grundvallarmarkmið þess og skipan en menntun á leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi heyrir undir menntamálaráðuneytið. Í menntamálum á Íslandi hefur gilt sú meginregla að allir hafi jafnan rétt til náms án tillits til kyns, fjárhags, búsetu, trúar, fötlunar og menningarlegs eða félagslegs uppruna. Langflestir skólar heyra undir hið opinbera og innan skólakerfisins eru fáar einkastofnanir. Nær allir einkaskólar njóta opinbers stuðnings.

Á árunum 1994-1997 voru sett ný lög um öll fjögur skólastigin. Nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla voru gefnar út árið 1999 og þannig lagður grunnur að skólastarfi í þekkingar- og tæknisamfélagi 21. aldarinnar. Í aðalnámskrám eru markmið laga um þessi skólastig útfærð nánar, sett viðmið og veittar leiðbeiningar um framkvæmdina.

Þetta er grunnurinn að íslenska menntakerfinu.  En nú ber svo við að lestrarkunnátta hefur ekki farið mikið fram á 250 árum, og  ef eitthvað er, fer hún versnandi. Hvað segir Menntamálaráðuneytið um niðurstöður Pisa könnunnar 2022?

"Nemendum á Íslandi líður almennt vel í skólanum og upplifa að þeir tilheyri þar. Ólíkt nemendum flestra landa koma þeir betur út úr þessari mælingu 2022 en 2018. Þeir hafa jákvæða upplifun af kennurum sínum og upplifa sjaldan einelti. Í þessum atriðum standa þeir betur en jafnaldrar sínir í OECD-ríkjum og á Norðurlöndunum. Nemendur af 1. kynslóð innflytjenda á Íslandi standa hins vegar verr en aðrir nemendur á Íslandi í öllum mælingum á líðan." Og þetta: "Nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út í könnuninni þvert á þátttökulönd. Merki eru um aukningu í ójöfnuði í námsárangri í PISA á Íslandi yfir tíma, einkum í lesskilningi, og er svipaður hér og á hinum Norðurlöndunum.

Lægra hlutfall drengja nær grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi (61%) en stúlkna (68%) en kynjamunur er mestur í grunnhæfni í lesskilningi (53% hjá drengjum á móti 68% hjá stúlkum)."

Hérna er verið að lýsa ástandi, ekki orsök.  Hver er orsökin? Einn skólaspekingurinn segir að aðalnámskráin (tekin upp held ég um 2014) sé umbúðir án innihalds. Kennurum, þ.e.a.s. skólum, er leyfð of mikil túlkun og markmiðin eru ekki skýr.

Það eitt sér getur ekki verið skýring. Hana má líka leita inn á heimilin. Svo getur verið að börnin fá ekki uppeldi (þetta er alhæfing), heldur er látin afskiptalaus heima, skrákarnir í tölvuleikum, þar sem aðal tungumálið er enska? Þeir tala því n.k. blending af íslensku og ensku og eru ekki færir í hvorugu tungumálinu. Bæði stúlkur og drengir eru almennt hætt að lesa bókmenntir eða a.m.k. lesa minna bækur.

Drengjum gengur verr í skólum en stúlkum. Af hverju? Getur verið að skólastarfið sé ekki sniðið að athafnaþörfum drengja? Þeir þurfa mikla hreyfingu og námsefni við hæfi. Barnabækur og skólabækur í dag eru ekki lengur ævintýrabækur, heldur bækur með samfélagslegum áróðri um rétta hegðun. Hver nennir að lesa áróðursrit alla daga? Drengir vilja lesa, ekki kannski ekki það sem skólarnir eru að bjóða upp á. 

Bækur eru undirstaða dýpri lesskilnings, aukins orðaforða og skilnings á málfræði íslenskunnar. Skólinn getur ekki komið á móts við þessa aðferð við að læra lestur, enda með takmarkaðan tíma og áherslan í skólastarfinu liggur á mörgum sviðum. Eins og komið hefur verið inn á, sinna skólarnir alls konar kennslu, íþróttir, smíði, handyrðar, heimilsfræði o.s.frv. Það fer því frekar lítill tími í sjálfa kennslu í íslensku, minni en menn ætla.  Getur verið að þarna liggur megin orsökin? Of lítill tími sem fer í íslensku kennslu? Og skólarnir höfða ekki til áhugasviðs drengja?

Getur verið að drengjum (og stúlkum) skorti karlkyns fyrirmyndir í skólanum? Í dag eru karlar einn tíundi kennara í grunnskólum landsins og flestir eru þeir sérgreinakennarar, kenna t.d. smíði eða íþróttir en almennt eru þeir ekki í kennslu á yngsta stiginu eða miðstigi. Börnin kynnast ekki jafnt kvennkyns og karlkyns kennurum fyrir á unglingastigi. Mörg börn fráskildra foreldra umgangast ekki karlmenn nema aðra hverja helgi, þegar þau hitta pabba sinn. Það er ekki mikið. Kannski að skólarnir ættu að fara í átak að fjölga karlkyns kennurum?

Kannski einkaskólar breyti stöðunni? Þeim myndu keppast við að bjóða upp á bestu þjónustuna. Samkeppni.

Umskiptin úr að vera fátækasta þjóð Evrópu um 1900, sem bjó í moldarkofum, í að vera ein menntaðasta þjóð veraldar sem býr í hátæknisamfélagi, byggist á almennri lestrarkunnáttu. Grunnurinn var lagður á 18. öld. Ef Íslendingar ætla að haldast meðal forystuþjóða í tækni og vísindakunnáttu, þarf skólastarfið heldur betur að taka breytingum. Ábyrgðin liggur líka hjá heimilunum. Íslenskukennslan hefst þar.


Vandi skólakerfisins og lestrarkunnátta barna

Réttilega hefur verið bent á að vandinn í skólakerfinu felst fyrst og fremst í hvernig það er uppbyggt.  Síðan svokallaður opinn skóli var innleiddur, var hætt að flokka nemendur eftir getu, heldur átti að blanda öllum nemendum saman, burt séð frá getustigi.  Mennta spekingarnir vissu að þetta myndi skapa vanda innan skólastofunnar og í skólunum í heild. Því átti stoðþjónustan að mæta þessu með námsaðstoð inn í bekk eða sérstökum námsverum. Hún hefur aldrei mætt þessari þörf að fullu.

Menntafrömuðirnir sáu ekki fyrir að hálfgert fjölmenningar samfélag yrði komið á Íslandi en fjöldi barna sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, eða börnin eiga foreldra sem tala ekki né skilja íslensku, hefur margfaldast. Skólarnir eiga í erfiðleikum með að mæta þessum nýja veruleika og svo hefur menntakerfið sjálft brugðist með því að efla ekki stoðþjónustuna. Of fáir sérkennarar og þroskaþjálfarar eru í skólakerfinu.

Kannski er opni skólinn vandinn og skipting nemenda eftir getu ætti að koma á aftur? Ofurnemendur fá þá loks þá námsefni sem hæfir hraða þeirra og svo á við um hina nemendurna sem þurfa léttara og minna námsefni og við hæfi. Svo er það að fjöldi nemenda á kennara er of mikill.  25 nemendur á einn kennara er of mikið. Hver nemandi fær kannski mínútu í 40 mínútna kennslustund ef hann fær á annað borð einhverja athygli kennarans.

Almennur vandi er að íslensk börn eru almennt hætt að lesa bækur en þar fá þau orðaforða sem er ekki í talmáli. Það er ein ástæðna fyrir að fagorðaforði er lítill og hugtakaskilningur og -orðaforði er lítill. Hlustun er almennt lítið sinnt en hún eflir ímyndunaraflið og hljóðkerfið. Það er ekki nóg að geta talað, maður verður að geta hlustað og skilið.

Skiptum þessu upp eftir til hvers við notum málið:

Almennur orðaforði eða grundvallarorðaforði. Þetta er fjöldi almennra orða sem maður kann og notar reglulega. Þessi orð geta verið einföld og algeng, eins og hús, bíll, matseðill o.s.frv. Flestir hafa þennan orðaforða en börnin þurfa að læra þennan orðaforða heima við, ekki er hægt að varpa alla ábyrgð yfir á skólann. Ábyrgð foreldra er hér mikil.

Fagorðaforði. Hversu mikið maður kann af orðum og orðasamböndum sem tengjast fagi eða hagsmunasviði sem maður er sérhæfður í. Dæmi um þetta gætu verið orð sem tengjast starfi, tómstundariðju, menningu, eða öðrum áhugamálum. Hver og einn lærir þennan fagorða forða með tímanum - í sínu fagi. En verra er að almenn hugtakaþekking er lítil og þar er um að kenna litlum lestri heima við, foreldrar sinna ekki íslenskukennslu (hún hefst við fæðingu), útskýri allt sem fyrir augun ber og svo skólarnir sem eru uppteknir af annarri kennslu en íslensku kennslu.

Tungumálaþjálfun. Byggist á að vera fær í móðurmálinu en það er grunnurinn að öllu öðru tungumálanámi. Ef maður t.d. skilur ekki hugtakið fjallaskarð eða veit ekki af því (vegna þekkingaskorts), hvernig á maður að þýða þetta hugtak yfir á önnur tungumál? Ekki hægt.

Skilningur og áhuga á málfræði. Byggist á því hversu vel maður skilur uppbyggingu og reglur tungumálsins, og hversu hrifinn maður er af áhugaverðum og flóknum hliðum tungumálsins. Málfræðinni er almennt vel sinnt í íslensku skólakerfi.

Skólinn í dag er fjölbreyttur, börnin læra alls kyns færni, svo sem sund, íþróttir, smíðar, myndmennt o.s.frv. og gerir þetta skólastarfið skemmtilegt fyrir börnin.  En grunnurinn að öllu námi, líka t.d. í eðlisfræði, samfélagsfræði, stærðfræði, o.s.frv. er íslenskan.  Ekki ætti að kenna annað tungumál en íslensku fyrr en á miðstigi. Þá fyrst eru þau tilbúin(n) að yfirfæra íslenskuna á önnur tungumál.

Tala, hlusta, skrifa og lesa er færni í tungumáli og alla þessa þætti þarf að þjálfa og setja í skiljanlegar setningar.

En það þarf að efla orðaforðann. Það er erfitt að segja hversu mörg orð eða hversu mikinn orðaforða einstaklingur þarf að hafa til að teljast hafa "almennan orðaforða", því það fer mjög mikið eftir hvernig maður skilgreinir "almennur orðaforði". Hins vegar er áætlað að meðalmanneskja kunni um 20.000-35.000 orð í íslensku, en þessi tala er einungis ágiskun og breytist eftir mörgum þáttum, svo sem menningaráhrifum, menntun, aldri og hagsmunum viðkomandi. Hversu mikill er orðaforði nemanda eftir 10 ára nám í grunnskóla? Það er hægt að mæla þetta.

 


Er nútímaskólinn úreldur?

Er skólinn úreldur? Spyr úreldur ríkisfjölmiðillinn RÚV. Þetta er góð spurning í ljósi tækniframfara og gervigreindar.  Kveikur talaði við "framúrstefnufólk" um stöðu menntunar í dag. Athygli vakti að fulltrúar kennarastéttarinnar voru fjarverandi þessa umræðu sem er ansi skrýtið.

Þar var haldið fram að menntun hafi lítið breytst í 2300 ár. Það er athyglisvert en er það ekki til marks um að menntunin sé það góð að lítil ástæða er til að breyta grunn hennar?  Hver er tilgangur náms? Að fræðast eða menntast?  Eða hvorutveggjast? Hið fyrra byggist á að öðlast meiri þekkingar og það getur byggst á utanbókarlærdómi. Hann aftur á móti er ekki slæmur í sjálfu sér, því að hann þjálfar minni.

Hið síðara er menntun. En hvað er menntun? Jú, að þroska einstaklinginn og gera hann að ábyrgum borgara og virkum. Þetta er líka í gangi í nútíma skólakerfi og þessi menntunar krafa er mætt á margvíslegum hætti.  Fjölgreind kallast það þegar allir hæfileikar nemandans eru þjálfaðir, allar greindir hans. Sjá t.d. Howard Gardner og fjölgreindarkenningu hans sem skiptir greinina í marga hluta.

Sjálfsþekkingargreind; umhverfisgreind; líkams- og hreyfigreind; rýmisgreind; málgreind; samskiptagreind; rök- og stærðfræðigreind og tónlistargreind.

Ekki er hér farið nánar í kenningar hans en íslenski grunnskólinn þjálfar allar þessar greindir í dag og notar alla nútímatækni sem býðst til þess. Tölvur, spjaldtölvur, þrívíddaprentarar o.s.frv., og þau forrit sem til eru til kennslu. 

Kennd eru svo mörg kennslufög, að erfitt er að telja þau öll upp, en tek sem dæmi, eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði, heimspeki, tungumál eins og íslensku, dönsku, ensku (og önnur í vali), samfélagsfræði (landafræði, saga, félagsfræði), smíði, myndmennt, handyrðar, tónmennt (hljóðfæri og söngur), heimilisfræði, upplýsingartækni (tölvur og þeim tengdar), íþróttir, náttúrufræði, útikennsla og eflaust margt annað, eins til dæmis skákkennsla. Svo mörg eru kennslufögin að þau eru sum hver kennd í valkennslu, allt eftir áhugasviði og getu nemenda.

Nemendur fara út í samfélagið í vettvangsferðir og kynnast atvinnu- og menningarlífinu. Þau verkfæri sem eru fyrir hendi eru notuð. 

Kennarinn í dag er sannkallaður fjölfræðingur og hann þarf að kunna nýjustu tækni og vísindi til að valda starfi sínu. Hann er því í standslausri starfsþjálfun viðkomandi sveitarfélags og menntunferill hans líkur aldrei, því að framfarirnar virðast endalausar. Starf kennarans í dag er flókið og erfitt. Hann þarf að eiga í samstarfi við yfirmenn sína, samkennara, börnin og foreldra. Hann þarf að vera ein allsherjar upplýsingaveita og miðla málum milli nemenda og jafnvel við foreldra.

Það þýðir ekkert að gefast upp og segja að gervigreindin taki bara við og krakkarnir þurfi enga fræðslu, það sé hvort sem er bara hægt að goggla þetta á nokkrum sekúndum. 

En skólakerfið snýst ekkert um að ná í upplýsingar sem skemmtum tíma, heldur að koma börnunum til manna; til þroska sem borgarar. Ekki að gervigreindin taki við sem kennari sem hún getur aldrei, þ.e. tekið við kennslu ungdómsins. Gervimennið getur aldrei verið mannlegt en börn þurfa alúð og umhyggju, ekki síður en fræðslu og menntun. Að læra mannleg samskipti er mikilvægur þáttur í námi barna og geta hreinlega starfað í hópi og verið í hópi sem getur verið ansi krefjandi fyrir suma nemendur. Þetta læra þau í hópastarfi barna í skólum landsins og íþróttafélögum.

En kíkjum aðeins á þessa "slæmu" menntun forfeðrarnna og þá sérstaklega á Rómverja en kennsla miðalda byggðist að miklu leyti á þeirra menntakerfi og þar með á okkar menntakerfi.

Menntunarheimspeki Rómverja var athyglisverð en hún byggðist á kenningum grískra heimspekinga. Rómversk menntun var nytsamlegri og einbeitti sér að því að búa til góða borgara og stjórnendur fyrir heimsveldið. Litið var á menntun sem leið til að styrkja rómverska ríkið.

Í Róm var menntun formlegri og skipulagðari en áður þekktist í fornöld. Grunnmenntunin, þekkt sem „lúdus“, hófst um 7 ára aldurinn og var lögð áhersla á lestur, ritun og reikning. Framhaldsnám innihélt málfræði, orðræðu og bókmenntir og var venjulega boðið upp á einkakennara eða skóla. Sum sé að þroska einstaklinginn.

Rómversk menntun lagði ríka áherslu á hagnýt efni, svo sem orðræðu og lögfræði, þar sem þessi færni var nauðsynleg fyrir einstaklinga sem stunduðu stjórnmála- eða stjórnunarstörf. Námsefnið innihélt einnig bókmenntir, sagnfræði og einhverja heimspeki.

Kennarar í Róm gegndu virtri stöðu í samfélaginu og var ætlast til að nemendur sýndu þeim mikla virðingu. Áberandi heimspekingar og ræðumenn störfuðu oft sem kennarar enda virðingastaða.

En menntunin var ekki fyrir alla. Bæði í Grikklandi og Róm var menntun fyrst og fremst frátekin fyrir frjálsfædda karlmenn. Konur og þrælar höfðu takmarkaðan aðgang að formlegri menntun, ef þá nokkra. Hins vegar gætu stúlkur úr efnuðum fjölskyldum í Róm fengið einhverja menntun í lestri, ritun og heimilishaldi.

Í Grikklandi sem er móðir allrar kennslu var þetta jafnvel þróaðra.

Menntun í Grikklandi hinu forna var mikils metin og talin nauðsynleg til að þróa vel  borgaranna í samfélaginu og dyggðir. Grikkir töldu að menntun ætti að beinast að vitsmunalegum og siðferðislegum þroska einstaklings enda byggðist lýðræðið á slíkum vel upplýstum borgurum.

Í Grikklandi til forna hófst formleg menntun við sjö ára aldur og hélt áfram til 18 ára aldurs. Menntun var að miklu leyti einkamál þar sem foreldrar eða forráðamenn sáu um að fá kennara (oft þræll kallaður uppeldisfræðingur) fyrir börn sín. Skólar voru ekki eins algengir og í Róm.

Námsefnið í Grikklandi til forna innihélt fög eins og stærðfræði, tónlist, ljóð, heimspeki og líkamsrækt. Frægasti menntaheimspekingur þess tíma var Platon sem lagði áherslu á víðtæka menntun með áherslu á heimspeki, fimleika og tónlist. Nemandi hans, Aristóteles, talaði fyrir meiri hagnýtri þekkingu.

Áberandi heimspekingar og fræðimenn störfuðu oft sem kennarar. Samband kennara og nemanda var mikils metið og nemendur fylgdu oft ákveðnum heimspekingi eða kennara til að afla sér þekkingar.

Íþróttamenntun. Grikkir lögðu mikla áherslu á líkamsrækt og töldu að heilbrigður líkami væri nauðsynlegur fyrir heilbrigðan huga. Starfsemi eins og fimleikar, glíma og Ólympíuleikar voru hluti af fræðsluupplifuninni.

Er eitthvað að kennslu fornaldar? Nei, en kennslan tók að sjálfsögðu mið af því sem var við hendi. En svo hafa nútíma uppeldisfræðingar bætt við það sem síðan hefur bæst við og byggist fyrst og fremst á innleiðingu nýrra tækni og þekkingu.

Íslenski grunnskólinn er vel í stakk búinn að takast á við áskoranir nútímast (og leikskólinn sem er mjög nútímalegur og öflugur) og aldrei áður hefur hann reynt að mæta nemandanum á hans eigin grundvelli og í dag. Það er gert með einstaklingsmiðuðu námi, fyrir þá sem þess þurfa og stoðkerfi skólanna aldrei verið eins öflugt og það er í dag. En auðvitað má gera betur, hafa fleiri sérkennara o.s.frv. en það eru bara áskoranir dagsins í dag og vilja stjórnmálamanna til að veita fé í verkefnið, ekki menntakerfisins sem kerfis.

Að lokum. Uppeldið sjálft sem er ákveðin kennsla hefst á heimilinu og hjá foreldrum. Frá því að barnið fæðist er það þjálfað í að verða samfélagsþegn og helst það til fullorðins ára. Barnið lærir það hjá foreldrum sem ber að halda utan um menntun barna sinna til fullorðins ára. Að gera börnin að manneskjum er í höndum foreldra, ekki skólakerfisins. Ríkið kemur aldrei í stað foreldris, við þekkjum dæmin úr sögunni sem eru víti til varnaðar.

 

 

 

 

 


Kenna þarf gagnrýna hugsun í skólum landsins

Það fyrsta sem flestir nemenda í háskólum landsins þurfa að læra er gagnrýnin hugsun á ákveðnum námskeiðum.  Þeir þurfa líka að læra aðferðafræði viðkomandi námsfags en hún undantekningalaust kennir aðferðir sem eru byggðar á gagnrýnni hugsun.

Vísindaleg vinnubrögð byggjast á staðreyndum sem ákveðinn þekking er byggð á.  Aldrei má vísindamaðurinn blanda saman skoðun sína eða tilfinningu í rannsóknum sínum, það skekkir að minnsta kosti vísinda niðurstöðuna, eða þá kolröng niðurstaða gefin fyrirfram.

Hinn trúðaði segist trúa og viðurkennir þar með að hann viti ekki. Það er heiðarleg niðurstaða og allir vita hvað átt er við og taka hana eins og hún er.  Kíkjum á skilgreiningar  á skoðunum og gagnrýna hugsun samkvæmt ChatGPT:

"Gagnrýnd hugsun og skoðun eru bæði hugtök sem tengjast því hvernig einstaklingar túlka og velta fyrir sér hugmyndum og skoðunum. Það er hins vegar munur á þeim tveimur:

  1. Gagnrýnd hugsun (critical thinking):

    • Gagnrýnd hugsun er ferli sem felst í að skoða, meta og rannsaka hugmyndir, fullyrðingar og ályktanir með hliðsjón af rökræðu og rökinu sem liggja að baki þeim. Markmiðið er að skilja og greina hvaða rök og gögn liggja til grundvallar ályktunum.
    • Gagnrýnd hugsun byggir á rökræðu, skoðunarflæði, aðgreiningu hugmynda, staðhæfinga og niðurstaðna, og að meta og rannsaka þær með vísindalegum hætti.
    • Hugmyndin er að gagnrýnd hugsun sé óhlutdræg, vísindaleg, og leiði þátttöku að betri skilningi og ályktunum sem byggja á sterkri rökfærslu.
  2. Skoðun (opinion):

    • Skoðun er skoðun einstaklingsins, persónuleg skoðun sem byggir á því hvernig hann upplifir og túlkar heiminn. Hún getur verið byggð á skoðunum, trú, persónulegum upplifunum, menningarlegum áhrifum og mörgum öðrum þáttum.
    • Skoðanir eru oftast ekki vísindalegar eða röklegar, heldur eru þær hvernig einstaklingur upplifir eða telur vera rétt eða rangt, og þær geta breyst með tímanum eða með nýjum upplifunum.
    • Skoðanir eru oftast persónulegar og undantekningar, og þær kunna að vera á móti opinberum skoðunum eða almennu samkomulagi."

Af þessu má sjá að woke menningin sem byggist mest megnið á skoðunum og persónulegu sjónarhorni einstaklingsins, án nokkurra tengsla við vísinda hugsun og aðferð, fer ekki saman við almenna skynsemishyggju. Og það er algjört glapræði að blanda woke fræðin saman við almenn vísindi í háskólakennslu.

"Woke menningin" er oft lýst sem áherslu á samfélagsleg réttindajöfnuði, fjölbreytileika og kynjajafnrétti. Gagnrýnendur hennar geta hins vegar litið svo á að það sé hætta á of mikilli áherslu á þessum þáttum, svo að það verði takmarkað rými fyrir fjölbreytileika hugsunar og gagnrýna hugsun. Verst er þegar woke kenningin hefur læðst inn í háskólakennslu og alls kyns fræði, byggð á hindurvitni og ranghugmyndum, hafa myndað kennslugrundvöll á þessum "fræðum".

Af þessu má draga ályktun að samfélagið, þar með skólasamfélagið, hefur litast um og of af ofangreindri woke menningu. 

Woke menning getur verið dragbítur á framþróun samfélagsins, jafnvel hamlað hana.  Það er því full þörf að kenna börnunum sem fyrst sjálfstæða hugsun - gagnrýna hugsun, í skólum landsins.

Alls kyns upplýsinga óreiða er í gangi á samfélagsmiðlunum, en í stað þess að banna og hamla, eins og vinstri sinnaðir wokistar vilja gera, ætti að kenna ungmennunum að vinsa út vitleysuna frá staðreyndum. 

Af því að heimurinn er síbreytilegur, upplýsingarnar eru margbreytilegar og flestar nýjar, verður að kenna gagnrýna hugsun og það er ekki hægt eitt skipti fyrir öll. Það er ekki gert með sjálfs ritskoðun, bælingu hugsana né með valdboði að ofan.

Að lokum, besta leiðin til að öðlast gagnrýna hugsun er í gegnum heimspeki nám, sem getur verið sniðið að hugarheimi ungmennanna. Kennum heimspeki, sérstaklega mætti kenna sókratíska aðferðafræði sem byggist á rökræðu, spurningum og athuganum um siði og siðferði - rökræður og samræður. Þessi aðferðafræði er undirstaða vísindalega aðferðafræði.  

Sókratísk aðferðafræði og vísindaleg aðferðafræði eiga bæði það sameiginlegt að þær leggi áherslu á leit að réttum niðurstöðum og skoðunum, en þær nota mismunandi aðferðir til að ná þessum markmiðum. Sókratísk aðferðafræði byggir á rökræðu, spurningum og samræðu til að rannsaka hugmyndir og siði, meðan vísindaleg aðferðafræði leggur áherslu á kerfisbundna rannsókn og skýringu á orsökum.


Íslenskunámið hefst hjá foreldrum

Að hlusta á börn tala í dag getur verið tyrfið. Þau eru flest öll í tölvuheiminum drjúgan hluta dagsins. Þar er ríkjandi tungumál enska.

Foreldrar eiga í raun frekar lítinn tíma með börnunum sínum dags daglega, a.m.k. á virkum dögum. Börnin eru í skóla. Foreldrar geta því  ekki leiðbeint um rétt málfar.  Svo taka húsverkin, matarinnkaupin og eldamennskan við í lok vinnudags og komið er fram á kvöld þegar sest er niður. Það eru því frekar fáir tímar sem foreldrar eyða með börnum sínum og geta þannig haft áhrif á málfar þeirra.

Það er því skólinn, vinirnir sem eru á sama aldri og netið/tölvuleikirnir sem kenna börnunum íslensku að mestu leyti.  Tölvuleikirnir taka tíma frá lestri bóka. Fyrir vikið er orðaforði barna minni en áður og í raun frekar fábrotinn.  Þau grípa því til ensku og búa til blending af íslensku og ensku.  Openaðu gluggann; seifaðu playið o.s.frv. segir barnið þegar það skortir orð. 

En þrátt fyrir litla samveru með barnið (þetta er alhæfing sem á ekki við um alla foreldra en virðist vera algengt) geta foreldrar haft áhrif.  Þeir geta leiðrétt börnin þegar þau koma með enskusléttur.  En ég er ekki svo viss um að foreldrar yfirleitt nenna því eða hafi orðaforða sjálft til að leiðrétta. Þegar maður hlustar á ungt fólk, sem e.t.v. er orðið foreldrar, finnst manni orðaforði þess og málfar ábótavant. Mikið um enskusléttur hjá fullorðnu fólki.

Það þarf ekki annað en að fylgjast með athugasemda reiti samfélagsmiðlanna til að sjá urmull stafsetningavilla, ranga málfræði en síðan en ekki síst dónaskapinn í athugasemdum þess til að hugleiða að eitthvað er að í uppeldi og námi fólks í dag.

Íslensku nám er ekki bara að læra að lesa og skrifa íslensku, auka orðaforða og læra stafsetningu í skóla; það er vegferð lífsins og við erum alla ævi að læra íslensku.

----

Þeir sem kunna að lesa geta eflt sjálfa sig, fjölgað möguleikum sínum, gert lífið fyllra, þýðingarmeira og áhugaverðara.

Aldous Huxley

 

 

 


Tvískiptur framhaldsskóli?

Skilin á milli framhaldsskóla og háskóla á Íslandi

Nokkuð hefur verið kvartað yfir styttingu framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú.  Talað er um meira álag á nemendur og skorið sé niður kennslu í sumum fögum. 

Annað sem er mjög óeðlilegt en það er að nemendahópurinn sem skiptist í tvo hópa, annars vegar börn/unglinga, ólögráða og hins vegar fullorðið og lögráða fólk komið yfir 18 ára aldur, er látið læra undir sama menntakerfi. Þetta gerir samskipti heimila og framhaldsskóla erfiðara fyrir og staða nemenda breytist við 18 ára aldurs. Síðasta árið klárar nemandinn sem fullorðinn einstaklingur. Áður síðustu tvö árin.

Þriðja atriðið er að háskólar á Íslandi kvarta yfir illa undirbúna nemendur sem koma í háskólanna.

Það er því góð spurning hvort það megi ekki skipta framhaldskólanum í tvennt, svipað og er í Bandaríkjunum, sem skiptir aldurshópnum 16-20 ára í tvo hópa.

Þar eru krakkar í "high school" (miðskólar) fyrstu tvö árin frá grunnskólanámi en þau sem eru orðin 18 ára (og lögráða) eru í "junior collages" (forháskóli). Framhaldsskólar í Bandaríkjunum eru nefndir forháskólar og miðskólar. Forháskólar eru oft staðsettir í sameiningu við háskóla með gráðu kerfi.  

Íslenski framhaldsskólinn getur verið áfram undir sama þaki, þótt hann sé tvískiptur, sbr. grunnskólinn sem sameinar gagnfræðiskólann og barnaskólann oft undir sama þak.

Með öðrum orðum er hægt er að gera meiri kröftur til nemenda og undirbúið þá betur undir almennt háskólanám í forháskóla og komið fram við þá eins og þeir eru, fullorðið fólk. Nemendur fá betri undirbúning undir almennt háskólanám í tveggja forháskólanámi og álagið á þá er minna.

 

 

 

 


Umræðan um læsi og íslenskuna

Umræðan um læsi og lestrarkennslu er tímabær. Íslenskan á undir höggi að sækja og hefur verið undanfarna áratugi. Nokkrar ástæður eru fyrir því.

Þær helstu eru að tæknibyltingin á nú sér stað, börn almennt eru hætt að lesa bækur og nota tæki eins og tölvur og farsíma sem eru með efni að mestu er á ensku. Börnin fá ekki nauðsynlegan orðaforða eða réttara sagt aukinn orðaforða sem næst með bóklestri. Þau læra hugtök og setningar sem eru að mestu á ensku. Þau eru hvorki almennilega læs á ensku né íslensku. Út úr þessu kemur hrafnaspak og „pignic“ íslenska.

Annað er að hópur útlendinga, búsettur á Íslandi, er orðinn býsna stór, a.m.k. 60 þúsund manns sem að mestu leyti er óskrifandi eða lesandi á íslenska tungu. Það fólk notar ensku í daglegum samskiptum sín á milli eða við Íslendinga. Þeir síðarnefndu neyðast til að tala ensku í samskiptum við t.a.m. fólk sem er í afgreiðslustörfum eða störfum sem byggð á samskiptum. T.d. að fara í strætó getur verið vandamál, ef strætisvagnabílstjórinn er ekki einu sinni mælandi á ensku. Til þess að geta búið á Íslandi í dag og átt samskipti við fólk, þarf maður að vera tvítyngdur.

Hið þriðja er að atvinnulífið og hið opinbera hafa gefist upp og nota samhliða íslenskunni ensku eða taka hana jafnvel fram yfir íslenskuna. Gott dæmi um þetta er merkingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli, enskan er þar alls ráðandi. Þetta var í fréttum á dögunum. Fjölmiðlar eins og RÚV eru með fréttir á pólsku og það þýðir að við eru að aðlaga okkur að Pólverjum, en þeir ekki að okkur. Með öðrum orðum, það er engin hvatning fyrir þá að læra tungumálið.

Góður vinur minn sem bjó hér í tvo áratugi, bandarískur, vildi læra íslensku, en fékk aldrei tækifæri til þess, vegna þess að fólk skipti sjálfkrafa yfir í ensku er það heyrði að hann var enskumælandi. Með þrjóskunni tókst honum þó að læra íslensku, án hjálpar Íslendinga í kringum hans, bara vegna þess að hann vildi það, ekki vegna þess að það var nauðsynlegt. Fólk býr hérna jafnvel í áratugi, án þess að geta tala málið.

Með markvissi íslensku kennslu, skyldunám þeirra sem hafa t.d. dvalið 6 mánuði á landinu, gæti breytt miklu. Verkalýðsfélög ættu að setja þetta á stefnuskrá sinni, að íslenskunám sé hluti starfsins og það sé borgað.

En við eru hér aðallega að ræða um læsi.  Hvað er læsi? Kíkjum á Lesvefinn. Hann skiptir læsi í almennri og sérfræðilegri merkingu:

„Læsi í almennri merkingu

Hin almenna merking orðsins er breytileg eftir málnotanda og samhengi hverju sinni. Í hinni almennu merkingu orðsins læsi er átt við þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það, það er að vera læs eins og almenningur skilur það hugtak. Orðið getur einnig átt við þá færni að geta skrifað texta samkvæmt viðurkenndri stafsetningu, að vera læs og skrifandi. Það að geta notað tölur í einföldum útreikningum hefur stundum verið talið hluti af því að vera læs, en um þá færni er einnig notað hugtakið talnalæsi (e. numeracy).

Læsi í sérfræðilegri merkingu

Hugtakið læsi í ýmsum skilningi

Íðorðið læsi, eins og það er notað í sérfræðilegri merkingu í tengslum við menntun hefur verið skilgreint á nokkra mismunandi vegu (Ehren, Lenz og Deshler, 2004, bls. 690). Hefðbundin skilgreining á læsi byggist á skilgreiningum á lestri (e. reading). Þrengsta skilgreining tekur einungis til þeirrar tæknilegu færni að geta lesið og skrifað tiltekið tungumál eða táknmál, en viðtekin fræðileg skilgreining á læsi felur í sér tvo meginþætti (Hoover og Gough, 1990 ):

  • Færni í umskráningu(e. decoding) og orðakennslum (e. word recognition)
  • Málskilning(e. linguistic comprehension)

Færni í umskráningu og kennslum orða vísar fyrst og fremst til þeirrar tæknilegu færni að geta tengt ritmál og talmál, lesið úr skrifuðum texta og tengt hann munnlegri málfærni og málskilningi.“ Heimild: Lesvefurinn | Lesvefurinn (hi.is)

Í umræðunni um íslensku kennslu undanfarna daga, hefur verið rifist um hvernig eigi að mæla lestrarkunnáttu grunnskólanemenda.  Grunnþættir læsi teljast vera lesfimi, lesskilningur, ritun, orðaforða og málskilningur. Lesfimi er samsett færni sem felst í leshraða, lestrarnákvæmni, áherslum og hrynjandi í lestri. Með öðrum orðum, lesfimi samanstendur af þremur meginþáttum, sjálfvirkni, nákvæmni og lestrarlagi sem einnig hefur verið nefnt hljóðfall. Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Fjölmargar rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli lesfimi og lesskilnings og með því að bæta lesfimi nemenda eflist lesskilningur jafnframt.

Um mælinguna í lesfimi hefur stað styr. Gagnrýnt hefur verið að það sé verið að mæla lestrarhraða. Grunnskólaneminn þarf að taka þrjú lesfimi próf yfir veturinn, og í hvert skipti sami textinn. En grunnskólinn er ekki bara að mæla lesfimi, heldur einnig lesskilning og tekin eru tvö lesskilningspróf yfir veturinn (Orðarún), samtals fjórir textar og er hæsta möguleg stig 20 á hvoru prófi. Segja má að öll þessi fimm próf sé stöðluð og tekin hjá öllum grunnskólum.

Á sama tíma eru grunnskólarnir að leggja margvísleg próf fyrir nemendur, kannski ekki samræmd, svo í málfræði, stafsetningu, ritun og bókmenntum. Það er því algjör misskilningur að taka einn prófþáttinn úr, og skammast út í hann. Allir þættir íslensku kunnáttu eru prófaðir í grunnskólum landsins.

Svo er það annað mál hvort lesfimi prófin séu sálarbrjótar og brjóti niður nemendur með því að láta þá lesa upphátt með tímamælingu. Annað er að við lesum hraðar í hljóði en upphátt.

Eiga grunnskólar ekki bara að halda áfram með gott starf og hlúa að íslenskunni eftir sem áður? Engir aðrir aðilar virðast ekki gera það, nema ef til vill foreldrar.

 


Formbreyting á franskri framhaldsskóla menntun 1865-1920

Hér er framsaga sem ég hélt í Háskóla Íslands. Líklega um 1998. Ég birti þetta, þar sem þetta er nokkuð athyglisvert viðfangsefni. Ekki man ég tilefnið að ég hélt þessa framsögu.

Napóleon Bonaparte skapaði mjög miðstýrt og reglubundið kerfi fyrir hinn almenna framhaldsskóla. Lykilhlutverkinu í því gegndi hinn ríkisrekni menntaskóli (lycée), út alla 19. öldina. Þar til um 1865 var námskrá hans nær eingöngu byggð á klassískum eða sígildum námsgreinum. Þessi menntaskóli var yfirleitt stofnaður í stórum borgum og rekinn beint af miðstjórninni í París.

Svipaðar skólastofnanir og ríkismenntaskólarnir voru svokallaðir colléges. Þeir voru oftast staðsettir í minni bæjum og að hluta til styrktir af viðkomandi bæjarstjórn eða sveitafélagi. Námskrá þeirra var eins og í ríkismenntaskólunum, en margir voru ólíkir hinu fyrrnefndu að því leytinu til, að marga þeirra skorti efri bekkina.

Á meðal margra mismunandi framhaldsskólastofnanna í einkaeign, var Jesúsíta colléges þeirra mikilvægasta. Líkt og ríkismennaskólarnir og colléges, undirbjuggu þeir marga nemendur undir baccalauréat, sem var lokapróf með prófskírteini og líktist mjög þýska stúdentsprófinu Abitur og hinu íslenska. (Framhaldsskólinn var nánast algjörlega aðskilinn grunnskólanum í Frakklandi sem og var einnig í Þýskalandi og Íslandi).

Eftir að hafa fengið stúdentspróf eða baccalauréat gráðu um 18. ára aldur, gátu franskir nemendur haldið áfram og gengið í hvaða menntastofnun á háskólastigi sem er og tekið einhverja háskólagráður og þannig að endingu komist inn í eina af hinu lærðu stéttum.

Frá enseignement spécial (almennur sérskóli á framhaldskólastigi) til enseignement moderne

Milli 1863 og 1865 kynnti menntamálaráðherrann Victor Duruy svo kallað enseignement spécial eða sérnám á framhaldsskólastigi. Þetta var meðal fyrstu tilraununum til að breyta kerfisbundið franskri framhaldsskólanámsskrá síðan í byrjun 19. aldar. Þetta enseignement spécial var hannað til þess að geta boðið upp á skýrari og fleiri möguleika á framhaldsskólastiginu en hingað til hafði verið í boði, en þetta nýja nám átti að fara fram í sama skólahúsnæði og þáverandi framhaldsskólar eða menntaskólar voru í. Þetta var fjögurra ára áfangi eða nám, sem byrjaði við 11 ára aldur, en í því var lögð áhersla á hagnýt vísindi, rannsóknastofuvinnu og jafnvel verkþjálfun.

Duruy taldi að með þessari ráðstöfun væri verið að mæta aukinni þörf í iðnaði, verslun og landbúnaði fyrir þjálfuðum starfsmönnum. Þetta enseignment spécial nám, sem fór fram í næsta framhaldsskóla og var álitið á framhaldsskólastigi, átti að skera sig algjörlega frá hinu almenna klassíska námi á framhaldsskólastigi. Þeir nemendur sem kláruðu þetta fjögurra ára námi fengu ekki baccalauréatgráðu eða luku ekki stúdentspróf og ekki var ætlast til að þeir héldu áfram námi á háskólastigi.

Duruy virðist hafa litið á hinu nýju námskrá sem sérstaklega hentuga fyrir minna gefna nemendur, sem hefðu kannski ekki farið á framhaldsskólastig vegna erfiðs náms í hinum fornu eða klassísku málum (grísku og latínu). Á sama tíma virðist Duruy, í gengum umbótum sínum, vera að reyna að koma félagslegum umbótum á með því að opna leið fyrir félagslegan hreyfanleika, það er að segja að leyfa hinum mismunandi stéttum að ganga í sama skóla, skóla sem byði upp á tvennskonar möguleika eða námsskrár.

Hvað sem Duruy ætlaði sér með þessu nýja námi, þá komst það í mikla samkeppni eða baráttu við að öðlast jafna stöðu og klassíska námið. Þetta kom skýrast í ljós á níunda áratugi 19. aldar. Árið 1882 var sérnámið (enseignement spécial) breytt þannig, að nú var það skipt í tvennt. Fyrri hlutinn spannaði 3 ár en sá síðari 2 ár og þannig var námið lengt úr fjórum árum í fimm. Árið 1886 var sjötta árinu bætt við. Á sama tíma var sérnáms-baccalauréat eða ,,sérnámsstúdentsprófi´´ og skírteini komið á fyrir þá nemendur sem luku 6 ára nám. Með þessari ráðstöfun átti að gera sérnámið sambærilegt við hið klassíska. Breyta átti einnig enseignement spécial heitinu í enseignement classique francais en það mætti mikilli mótstöðu verjenda hiðs klassíska náms. Þá var því breytt í enseignement moderne 1891. Á þessum tíma var sérnámið orðið næstum því alveg eins og það klassíska að uppbyggingu. Hin nýja námskrá fyrir sérnámið var aðeins öðru vísi að því leytinu til að engin latína eða gríska var kennd og í henni var meðal annars náttúruvísindi, nútímamál og franskar bókmenntir.

Árið 1881 birtust á sjónarsviðið tvær nýjar gerðir af frjálsum almennings-grunnskólum með efri bekki (public higher primary schooling) en sumir af þeim tóku einnig upp fulla verknámskennslu eða sérskólanám sem enseignement spécial kerfið hafði hingað til eingöngu sinnt. Á meðan sérnámið var að taka breytingum á níunda áratugi 19. aldar tóku því nýjar gerðir af skólum að taka við hlutverki þess, enda myndaðist við það tómarúm er sérnámið var orðið næstum því klassískt. Um aldarmótin nítján hundruð kom upp sérstök hreyfing (Society for the Study of Question of Secondary Education), sem var reiðubúin til að veita námskeiðum eða námi sem innihéldi ekki klassísk fræði sömu stöðu og menntaskólinn, svo fremur sem hann héldist ,,hagnýtur´´ í reynd. Þessi hreyfing héld því einnig fram að enseignment spécial kerfið eða sérnámið sem Duruy kom á, hafi verið gott og gilt og því hefði ekki átt að breyta eða falla frá.

 

Aðlögun og vörn hins klassíska náms

Frá áttunda áratugar 19. aldar, og þar til enda hennar, voru einnig uppi deilum um hlutverk menntaskólans, það er að segja hvernig haga ætti hinu klassíska námi. Átti að breyta náminu þannig að það tæki inn námsgreinar eins og ensku og þýsku, franskar bókmenntir, sögu, landafræði og umfram allt, náttúruvísindi? Sem sagt, átti að gera námið nútímalegra. Eftir miklar deilur, var komið á málamiðlun. Nú var bætt við hið klassíska nám mun fleiri tíma í ,,nútímanámsgreinum´´ en engu sleppt úr því klassíska. Þessi ráðstöfun leiddi til þess að foreldrar nemenda kvörtuðu yfir miklu námsálagi á þeim.

Árin 1884-85 og 1890 voru breytingar gerðar á hinu klassíska námi, til að leysa vandamálið varðandi álagið á nemendurna. Kennslustundum fyrir hverja viku var fækkað til muna og kom það mest niður á nútímanámsgreinunum, en fornmálin fengu eftir sem áður jafnmargar kennslustundir.

Á níunda áratugnum voru flestir á því, að það eigi að skipta framhaldsskólastiginu niður í hluta og gefa ætti þeirri hugmynd upp á bátinn, að sameina ætti sérnámið við hið klassíska.

1899 var skipuð þingnefnd undir forsæti Alexandre Ribot til að rannsaka til fullnustu framhaldsskólakerfið. Í fyrstu snérist rannsóknin um það, hvers vegna nemendur sæktust svo mikið í Jesúítaskólanna í stað ríkismenntaskólanna og colléges. En hins vegar kom fljótlega upp á yfirborðið deilan um ,,nútímanámsgreinarnar´´ og hið klassíska.

Niðurstaðan úr þessari rannsókn var sú, að tilskipun var gefin út árið 1902, en hún batt endi á deilurnar um framhaldsskólann sem höfðu verið viðvarandi á seinni helmingi 19. aldar. Þessi tilskipun bjó til ramma fyrir franska framhaldsskólastig, sem hélst óbreytt að mestu þar til eftir seinni heimstyrjöld.

Hið sjö ára langa framhaldsskólanám, sem hófst við 11 ára aldur, var nú skipt í tvo hluta eða helminga. Hinn fyrri var fjögur ár að lengd en sá síðari þrjú. Í fyrri hlutanum gátu nemendur valið um nútímabraut (modern stream) eða klassíska, en sú síðari bauð upp á grísku sem valáfanga. Í öðrum hlutanum héldu þeir sem völdu nútímabraut, áfram á braut sem kallaðist (nútíma) tungumála-vísindabraut (Modern) Languages-Sciences), á meðan hinir sem komu úr fornfræðibrautinni eða hinni klassísku, gátu valið um eða kosið latínu-grískubraut (Latin-Greek), latínu-vísindabraut (Latin-Sciences) eða latínu-nútímamálabraut (Latin-(Modern) Languages).

Áður en nemendurnir hófu sjöunda árið eða lokaárið á seinni hlutanum, urðu þeir að standast fyrri hluta baccalauréat prófsins eða stúdentspróf. Ef þeim tókst það, gátu þeir innritast í annað hvort stærðfræði- eða heimspekigeira á útskriftaárinu. Valið í stærðfræði- eða heimspekigeirans byggðist aðallega á því hvort nemandinn hafði valið náttúruvísindi í seinni hlutanum. Eftir lokapróf, gátu þeir sem náðu, öðlast baccalauréatgráðu (stúdentsgráðu) í annað hvort stærðfræði eða heimspeki. Tilskipunin gerði engan greinamun á þessum tveimur gráðum og heldur ekki á hinum fjórum leiðum sem leiddu til þessara gráða. Þetta gaf í raun alla, sem kláruðu framhaldsskólanám, jafnan rétt til þess að hefja háskólanám.

 


Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband