Lestrarkunnátta á Íslandi 1773 og 2023

Í 250 ára sögu lestrarkunnáttu á Íslandi hefur margt breyst. Menn hafa kunnað að lesa og skrifa síðan a.m.k. um árþúsundið 1000. En mikil breyting varð á tímum upplýsingar á Íslandi um miðja 18. öld og nú voru það ekki bara íslenskir fyrirmenn sem lærðu að lesa, heldur einnig almúginn. Menntun á landinu hefur alla tíð verð háð lestrarkunnáttu þjóðarinnar.

Árið 1750 var tímamót með tilkomu píetismans. Þá var lögð áhersla á að ein manneskja á hverju heimili ætti að kunna lesa og sú manneskja ætti að deila þeirri þekkingu með heimilisfólki sínu en presturinn átti að hafa yfirumsjón með náminu. Þessi áhersla á lestrarkunnáttu gerði það að verkum að fleira fólk og fjölbreyttari þjóðfélagshópar gátu lesið bækur og tímarit og varð bókmenntaheimurinn opinn fyrir stærri hluta þjóðarinnar.

Píetisminn eða heittrúarstefnan gerði það líka að verkum að almennt fólk sem kunni nú að lesa tók frekari þátt í útbreiðslu og framleiðslu rita. Almenn útgáfa tímarita og bóka hófst.

Skriftarkunnátta Íslendinga jókst verulega hundrað árum síðar eða um 1850, á þessum tíma fór fleira fólk að skrifa bréf og dagbækur o.s.frv. Á þessum tíma fór lestrar- og skriftarkunnátta ekki hönd í hönd eins og við þekkjum nú til dags.

Í frægari grein eftir Harvey J. Graff er fjallað um óvenjulega háu lestrarkunnáttu í Svíþjóð á 18. öld, framförum Svíþjóðar var þakkað tvískiptrar herferðar, fyrst var lögð áhersla á að lesa guðlega texta í kringum 1700 og seinna var áherslan beint að hefðbundni skólagöngu árið 1850. Með þessari grein var hægt að benda á að lestrarkunnátta Svía þróaðist mun hraðar en skriftarkunnátta þeirra, en í öðrum löndum gekk það yfirleitt hönd í hönd. Þetta módel hefur verið notað til þess að útskýra bilið milli lestrar- og skriftakunnáttu Íslendinga.

Það merkilega við lestrarkunnáttu Íslendinga er að þrátt fyrir að hefðbundin skólaganga hafi ekki hafist fyrr en löngu seinna var um helmingur af Íslendingum læs 1750, og 50 árum seinna 1790 var það um 90 prósent af þjóðinni. Skilvirka kerfi heittrúarstefnunar, að heimilisfólk kenndi hvor öðru, var greinilega að skila sér, með viðleitni bæði ríki og kirkju til hjálpar.

Stofnun grunnskóla á landinu gekk hægt og 1874 voru 7 skólar talsins á öllu landinu, á þessum tíma var skriftarkennsla nýbyrjuð. Minni skólar risu hér og þar út um allt land í þorpum og bæjum og krakkar í dreifbýli reiddu sig á kennara sem flökkuðu milli bæja, svo kallaðir farkennarar, sumir stunduðu líka nám hjá prestum.

Ekki var mikið val í boði fyrir frekari menntun, einu menntastofnanir voru á vegum kirkjunnar, sem voru aðalega ætlaðar fyrir menntun klerka. Kirkjan hafði haldið uppi öllum menntastofnunum frá miðöldum til enda 18. aldar þegar skólarnir sem voru reknir af biskupstólunum á Skálholti og Hólum lokuðu. Frá þeim tíma voru opnaðir skólar ótengdir kirkjunni, eins og Hólavellir sem starfaði í tvo áratugi 1786 – 1805 og svo Bessastaðarskóli 1805 – 1846, og svo að lokum Lærði skólinn í Reykjavík eða öðru nafni Latínu skólinn, sem er fyrirrennari Menntaskóla Reykjavíkur. Árið 1847 var reistur prestaskóli í Reykjavík ásamt öðrum skólum sem kenndu þá sérgreinar eins og landbúnað, kennslu og kvennaskólar urðu til. 

Mikilvægur þáttur í þéttbýlismyndun og nývæðingu á Íslandi á fyrstu áratugum 20. aldar var stofnun barnaskóla og myndun barnakennarastéttar. Upphafið teygir sig nokkra áratugi aftur á 19. öld en lög um almenna fræðslu barna voru ekki sett, sem kunnugt er, fyrr en 1907. Í lögunum var gerður skýr greinarmunur á barnafræðslu eftir þéttbýli og dreifbýli, eða með öðrum orðum, eftir því hvort kennslan færi fram í föstum skólum eða farskólum.. Á fyrstu þremur áratugum aldarinnar festi þetta fræðsluskipulag sig í sessi á sama tíma og þéttbýli óx hröðum skrefum í landinu. Þýðingarmikill liður í stofnfestingu barnaskólakennslu í landinu var stofnun Kennaraskóla Íslands 1908 (heimild: Loftur Guttormsson).

Í ritinu Íslenska skólakerfið (2002) segir að lög um skólaskyldu voru fyrst sett hér á landi árið 1907. Frá þeim tíma hefur skólastarf tekið miklum breytingum og skólaskylda barna og ungmenna lengst úr 4 árum í 10. Alþingi ber lagalega og pólitíska ábyrgð á skólakerfinu og ákveður grundvallarmarkmið þess og skipan en menntun á leik-, grunn-, framhalds- og háskólastigi heyrir undir menntamálaráðuneytið. Í menntamálum á Íslandi hefur gilt sú meginregla að allir hafi jafnan rétt til náms án tillits til kyns, fjárhags, búsetu, trúar, fötlunar og menningarlegs eða félagslegs uppruna. Langflestir skólar heyra undir hið opinbera og innan skólakerfisins eru fáar einkastofnanir. Nær allir einkaskólar njóta opinbers stuðnings.

Á árunum 1994-1997 voru sett ný lög um öll fjögur skólastigin. Nýjar aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla voru gefnar út árið 1999 og þannig lagður grunnur að skólastarfi í þekkingar- og tæknisamfélagi 21. aldarinnar. Í aðalnámskrám eru markmið laga um þessi skólastig útfærð nánar, sett viðmið og veittar leiðbeiningar um framkvæmdina.

Þetta er grunnurinn að íslenska menntakerfinu.  En nú ber svo við að lestrarkunnátta hefur ekki farið mikið fram á 250 árum, og  ef eitthvað er, fer hún versnandi. Hvað segir Menntamálaráðuneytið um niðurstöður Pisa könnunnar 2022?

"Nemendum á Íslandi líður almennt vel í skólanum og upplifa að þeir tilheyri þar. Ólíkt nemendum flestra landa koma þeir betur út úr þessari mælingu 2022 en 2018. Þeir hafa jákvæða upplifun af kennurum sínum og upplifa sjaldan einelti. Í þessum atriðum standa þeir betur en jafnaldrar sínir í OECD-ríkjum og á Norðurlöndunum. Nemendur af 1. kynslóð innflytjenda á Íslandi standa hins vegar verr en aðrir nemendur á Íslandi í öllum mælingum á líðan." Og þetta: "Nemendur sem eiga foreldra í lakari félags- og efnahagslegri stöðu koma verr út í könnuninni þvert á þátttökulönd. Merki eru um aukningu í ójöfnuði í námsárangri í PISA á Íslandi yfir tíma, einkum í lesskilningi, og er svipaður hér og á hinum Norðurlöndunum.

Lægra hlutfall drengja nær grunnhæfni í læsi á náttúruvísindi (61%) en stúlkna (68%) en kynjamunur er mestur í grunnhæfni í lesskilningi (53% hjá drengjum á móti 68% hjá stúlkum)."

Hérna er verið að lýsa ástandi, ekki orsök.  Hver er orsökin? Einn skólaspekingurinn segir að aðalnámskráin (tekin upp held ég um 2014) sé umbúðir án innihalds. Kennurum, þ.e.a.s. skólum, er leyfð of mikil túlkun og markmiðin eru ekki skýr.

Það eitt sér getur ekki verið skýring. Hana má líka leita inn á heimilin. Svo getur verið að börnin fá ekki uppeldi (þetta er alhæfing), heldur er látin afskiptalaus heima, skrákarnir í tölvuleikum, þar sem aðal tungumálið er enska? Þeir tala því n.k. blending af íslensku og ensku og eru ekki færir í hvorugu tungumálinu. Bæði stúlkur og drengir eru almennt hætt að lesa bókmenntir eða a.m.k. lesa minna bækur.

Drengjum gengur verr í skólum en stúlkum. Af hverju? Getur verið að skólastarfið sé ekki sniðið að athafnaþörfum drengja? Þeir þurfa mikla hreyfingu og námsefni við hæfi. Barnabækur og skólabækur í dag eru ekki lengur ævintýrabækur, heldur bækur með samfélagslegum áróðri um rétta hegðun. Hver nennir að lesa áróðursrit alla daga? Drengir vilja lesa, ekki kannski ekki það sem skólarnir eru að bjóða upp á. 

Bækur eru undirstaða dýpri lesskilnings, aukins orðaforða og skilnings á málfræði íslenskunnar. Skólinn getur ekki komið á móts við þessa aðferð við að læra lestur, enda með takmarkaðan tíma og áherslan í skólastarfinu liggur á mörgum sviðum. Eins og komið hefur verið inn á, sinna skólarnir alls konar kennslu, íþróttir, smíði, handyrðar, heimilsfræði o.s.frv. Það fer því frekar lítill tími í sjálfa kennslu í íslensku, minni en menn ætla.  Getur verið að þarna liggur megin orsökin? Of lítill tími sem fer í íslensku kennslu? Og skólarnir höfða ekki til áhugasviðs drengja?

Getur verið að drengjum (og stúlkum) skorti karlkyns fyrirmyndir í skólanum? Í dag eru karlar einn tíundi kennara í grunnskólum landsins og flestir eru þeir sérgreinakennarar, kenna t.d. smíði eða íþróttir en almennt eru þeir ekki í kennslu á yngsta stiginu eða miðstigi. Börnin kynnast ekki jafnt kvennkyns og karlkyns kennurum fyrir á unglingastigi. Mörg börn fráskildra foreldra umgangast ekki karlmenn nema aðra hverja helgi, þegar þau hitta pabba sinn. Það er ekki mikið. Kannski að skólarnir ættu að fara í átak að fjölga karlkyns kennurum?

Kannski einkaskólar breyti stöðunni? Þeim myndu keppast við að bjóða upp á bestu þjónustuna. Samkeppni.

Umskiptin úr að vera fátækasta þjóð Evrópu um 1900, sem bjó í moldarkofum, í að vera ein menntaðasta þjóð veraldar sem býr í hátæknisamfélagi, byggist á almennri lestrarkunnáttu. Grunnurinn var lagður á 18. öld. Ef Íslendingar ætla að haldast meðal forystuþjóða í tækni og vísindakunnáttu, þarf skólastarfið heldur betur að taka breytingum. Ábyrgðin liggur líka hjá heimilunum. Íslenskukennslan hefst þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband