Færsluflokkur: Útvarp

Elur RÚV á sundrungu?

Það er alveg einstakt að fylgjast með nátttröllinum sem kallar sig RÚV, útvarp allra landsmanna. Ríkilsmiðillinn var stofnaður 1966 þegar fátt var um fína drætti í fjölmiðlamálum. Það má eiginlega segja að sjónvarp RÚV hafi verið stofnað til höfuðs Kanasjónvarpsins sem naut mikilla vinsælda meðal þeirra sem náðu útsendingum þess og höfðu sjónvarp yfirhöfuð. RÚV átti að verja íslenska menningu sem það gerði með miklum sóma framan af.

Saga og menning Íslands síðastliðina 58 ára lifir nú í formi myndefnis, þökk sé RÚV.  En sjónvarpstækni er nú þannig að jafnvel einstaklingar og einkafyrirtæki geta einnig sinnt sjónvarpsútsendingum.  Upp úr 1980 fóru frelsisvindar að streyma til Íslands og náðu landinu 1986 er Stöð 2 og Bylgjan sama ár voru með mikilli andstöðu íhaldssamra afla (vinstri og hægri manna).

Gott og vel, einkaframtakið og ríkisvaldið, starfa á sama vettvangi og hafa gert allar götur síðan. En smám saman hefur hallað á einkaframtakið og nú er RÚV risi á litlum fjölmiðlamarkaði í gjörbreyttu fjölmiðlaumhverfi. Dagblöð eru nánast horfin, fjölmiðlar komnir á netið og einstaklingar geta rekið einka fjölmiðla í formi hlaðvarps. Frelsið orðið algjört, ekki satt?

Nei, einkaframtakið er að sundrast niður í sífellt smærri einingar, og frábærir fjölmiðlar eins og N1, Sýn og hvað þeir hétu, já hétu, því að þeir þoldu ekki ójafna samkeppni við ríkisfjölmiðil sem fær milljarða ofan á milljarða í forgjöf og gáfu upp laupana.  Það er engin ástæða fyrir Íslendinga að hafa ríkissjónvarp á 21. öld. Engin.

Verra er að RÚV er orðið rammpólitískt (hefur alltaf verið með einkenni en reynt að fela tilhneiginguna með andliti hlutleysis). Það segist vera að þjóna öllum á landinu.  Það ryðst meira segja inn á ný svið, TikTok, til að einoka nýjan vettvang. RÚV, útvarp Íslendinga, er svo ríkt að það getur verið með fréttir á pólsku og ensku. Látum vera að einhverjar fréttir eru á ensku, jú, enskan er alþjóðatungumál og útlendingar sem búa hér, nýkomnir eða túristar, þurfa að geta leitað sér frétta, til dæmis um eldgos.

En af hverju á pólsku? Pólverjar, frábært fólk og vinnusamt, eru stærsti minnihlutahópurinn á Íslandi. Sumir ætla að setjast að en aðrir að staldra stutt við. En þeir sem ætla að setjast hér að, til frambúðar, samlagast seint eða aldrei, ef þeir þurfa ekki að lesa eða tala íslensku. Þetta elur á sundrungu og enga samlögun.

Hvað er aftur tískuorðið í dag, innleiðing útlendinga að íslensku samfélagi? Enginn skilur hugtakið og virðist það vera orðskrípi. Í raun er það svo að við Íslendingar hafa þurft að aðlagast útlendum hópum sem setjast hér að, ekki öfugt. Íslendingum er að takast að búa til hliðarsamfélög í örríkinu Íslandi. Þarna á RÚV stóran þátt og því á fullyrðingin, að RÚV ali á sundrungu, rétt á sér, þótt hér sé hart dæmt.

En bloggritari má gagnrýna RÚV, jú, hann borgar nauðugur árlega af tekjum sínum í þennan fjölmiðil sem og fjölskyldan hans. Held að engar breytingar sé að vænta í rekstri og umhverfi RÚV á meðan núverandi stjórnmálastétt er við völd.  Núverandi mennta og ferðamálaráðherra, hefur ekki gert neitt til að breyta einokunarstöðu RÚV.  Ekkert. Það er ekkert frelsi til að velja á fjölmiðlamarkaðinum fyrir einstaklinginn, ef hann er nauðugur til að borga fyrir ríkisfjölmiðil. Svona eru fjármunum skattborgarans sólundað í alls óþarfa, og í fólk sem ríkið þarf að ala (lesist: Listamenn í ævilangri áskrift að skattfé ríkisins) eins og segir í laginu Austurstræti eftir Ladda.

 

 


RÚV hefur tekist að mynda harðan kjarna andstæðinga

Útvarp allra landsmanna er það ekki lengur. Lengi vel var ríkisútvarpið eini ljósvakamiðillinn í landinu. RÚV varð að fara vel með einokunarstöðu sína og gerði það lengi vel. En svo kom fjölmiðlafrelsið.  Til varð ný stétt fréttafólks sem flakkaði á milli fjölmiðla.  Þetta fólk er allt með svipaðan bakgrunn, kemur úr ný-marxískum stofnunum Háskóla Íslands og sér heiminn eftir því.

Þetta fólk, fámennur hópur, stýrir nú þjóðfélagsumræðunni. Þeirra sýn er matreidd á hverjum degi fyrir almenning. Borgarar landsins eru mun fjölbreyttari hópur og fjölmennari og hafa þar af leiðandi fjölbreyttari skoðun. Það sér sumt hvert ekki umheiminn með ný-marxískum gleraugum eins og fjölmiðlamenn.

Smá saman hefur andstaðan við RÚV aukist og því meir sem fréttastofa RÚVs verður pólítískari. Og það er enginn vafi á að fréttastofan er pólitísk og RÚV í heild.

En hvernig er hægt að sjá hvaða vind RÚVARAR taka í seglið?

Í fyrsta lagi með vali á fréttum. Það gerist nefnilega margt á hverjum degi á Íslandi og í umheiminum. Það sem fréttamennirnir telja vera fréttnæmt er þeirra persónulega val. Takið sérstaklega eftir hvaða frétt þeir velja sem fyrstu frétt í fréttatímum. Að þeirra mati er það aðalfréttin.

Í öðru lagi með vali á álitsgjöfum.  Sjá má að þeir eru flest allir vinstri sinnar. Aðra er erfiðara dæma um. En þeir virðast meinlausir fyrir hugmyndafræði RÚV og því í lagi að leita til þeirra.  En það er nokkuð ljóst að seint verður leitað til Hannes Hólmsteins Gissurarsonar sem álitsgjafa fyrir RÚV!

Í þriðja lagi með því að taka þátt í daglegri pólitík. Nýjasta útspilið er Pontíusar Pílatusar ákvörðun stjórnar RÚVs varðandi söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Á vef RÚV segir:

"Ákveðið hefur verið að rjúfa tengsl á milli Söngvakeppninnar og þátttöku Íslands í Eurovision. Söngvakeppnin verður haldin sem fyrr, en ekki ákveðið endanlega með þátttöku Íslands í Eurovision fyrr en að henni lokinni og í samráði við sigurvegara. Ástæðan er sú gagnrýni sem hefur verið uppi um þátttöku Ísraels í keppninni, þrátt fyrir stríðið á Gaza." Ef þetta er ekki pólitík, hvað þá?

Í fjórða lagi með vali á sjónvarpsefni. Valið er á köflum nokkuð sérstakt og oft eru sjónvarpsþættirnir sem valdir eru til sýningar, með nokkuð vel falinn boðskap.

Allt þetta ofangreinda, hefur myndað andstöðuhóp fólks sem getur ekki lengur horft á RÚV og vill fjölmiðillinn í burtu sem fyrst. Bloggritari er þar á meðal. Og það má bæta við ástæðum af hverju RÚV á ekki að vera til lengur.

RÚV er ekki lengur öryggistæki, hægt er að senda skilaboð í gegnum farsíma um hættur. Aðrir fjölmiðlar eru fullfærir um að flytja fréttir af nátttúruhamförum á Íslandi.

Sem verndari íslenskrar menningar hefur RÚV ekki staðið sig sem skyldi. Þættir sem þeir gera eru dýrir og fáir. Aðrir ljósvakamiðlar, svo sem Stöð 2, Sjónvarp símans og aðrir sem hafa orðið undir í samkeppninni við RÚV, svo sem N4, hafa gert og gera betra innlent sjónvarpsefni.

Ríkisstyrktur fjölmiðill, sem fær 6-8 milljarða í forgjöf (með auglýsingatekjum) skekkir alla samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Samt tekst RÚV að reka sig með bullandi tapi og hefur t.d. þurft að selja frá sér lóð sína!

Svo má bæta við nauðungarskattinn sem bæði einstaklingar og fyrirtæki þurfa að borga til RÚV. Nefskatturinn svonefndi sem lagður er á alla borgara landsins, 18 ára og eldri. Þetta er aukaskattur sem munar um fyrir fátækustu fjölskyldur landsins. Tökum sem dæmi fjögurra manna fjölskyldu og þrír þeirra eru yfir 18 ára aldri. Þeir þurfa að borga um 60 þúsund krónur til RÚV, fyrir dagskrá sem þeir vilja e.t.v. ekki horfa á. Hvar er frelsi borgaranna til að sækja sér vitneskju og skemmtunar í frjálsu samfélagi?

Ríkisfjölmiðill á tímum samfélagsmiðla og internetsins, er algjör tímaskekkja. Borgarar landsins vilja ekki horfa á heiminn með augum ríkisins, heldur sem frjálsir borgarar sem sækja sér upplýsingar á markaðstorgi frjálsra fjölmiðla. RÚV er nefnilega ekki bara í samkeppni við innlenda fjölmiðla, heldur einnig erlenda.


Fréttastofa RÚV

Fréttastofa RÚV er merkilegt ríkisapparat. Lengi vel var þessi eina fréttastofa landsins virt og dáð og vegna þess að það var aðeins einn ljósvakamiðill á Íslandi framan af 20. öld, þurftu starfsmenn hennar að vanda vel til verka, a.m.k. sýnast vera hlutlausir. 

Stórhluti þjóðarinnar hlustaði á útvarpsfréttir í hádeginu og um kvöldið. Einnig fjölmennti þjóðin við viðtækið á kvöldin til að horfa á sjónvarpsfréttir. Sýn þjóðarinnar á umheiminn var í gegnum þessa rörsýn fréttastofu RÚVs.

Svo kom samkeppnin, aðallega við fréttastofu Stöðvar 2. Í raun var þetta engin samkeppni, enda kom fólk sem flutti fréttirnar og valdi þær úr sama hópi menntamanna. Þetta fólk flutti sig um set, á milli fréttastofa, ef það missti vinnuna einhverja hluta vegna. Allt keimlíkt fólk með svipaðar skoðanir.

Það er einn maður sem hefur haft gífurleg áhrif á störf fréttastofunnar en það er Bogi Ágústsson.

Á Wikipedia segir að hann hafi verið "...fréttamaður hjá Fréttastofu Sjónvarpsins frá 1977-1984. Hann flutti til Kaupmannahafnar  árið 1984 og starfaði sem fréttamaður þar og flutti fréttir frá Norðurlöndum fyrir Ríkisútvarpið til ársins 1986. Árið 1987 varð hann aðstoðarframkvæmdarstjóri Ríkisútvarpsins. Um nokkra mánaða skeið árið 1988 var hann blaðafulltrúi Flugleiða, nú Icelandair. Sama ár varð hann fréttastjóri Ríkissjónvarps og gegndi starfinu til ársins 2003. Bogi varð þá forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, en lét af því starfi við skipulagsbreytingar 2007. Síðan hefur hann starfað sem frétta- og dagskrárgerðarmaður."

Hann flytur enn fréttir en væntanlega er hann kominn á eftirlaun og grípur inn í fréttaþula starfið, í afleysingjum.  Bogi er mætur maður, vel máli farinn og hefur leynt vel hvaða þjóðfélagsskoðanir hann hefur, sem er erfitt að gera. Hann á því hrós skilið.  Eftir sem áður, hafa Íslendingar séð umheiminn í gegnum hans "frétta gleraugu". Það er ekki gott.

Það er eins og áherslur fréttastofu RÚV hafi breyst í gegnum árin og hún orðið róttækari, til vinstri. Hún ber sig þannig að hún sé hlutlaus en það skiptir máli hvernig framsetning frétta er, við hverja er talað og síðan en ekki síst, hvaða fréttum er sleppt. Það er nefni gífurlega margt fréttvænt efni en er sleppt vegna tímaramma sem fréttastofurnar starfa eftir.

Í dag erum við með tvo íslenska glugga út í umheiminn, í gegnum hlutdræga fréttastofu Stöðvar tvö og fréttastofu RÚV sem er líka hlutdræg, en fer leynt með það. Það eru margir einstaklingar mjög óánægðir með fréttaflutning þessara fréttastofa og leita í erlendar fréttastofur.

En það væri frábært að ef fleiri íslenskir fréttagluggar opnist út í heim, en til þess þurfa íslensk stjórnvöld að skapa umhverfi fyrir slíkt. Stjórnvöld verða því að sleppa hendinni af RÚV alfarið.  Það er ekki eðlilegt að ríkið sjálft sé að flytja fréttir! Ekki í anda alvöru lýðræðis.  Leyfa borgurum landsins að velja sér fjölmiðil sem þeir vilja styrkja með útvarpsgjaldinu umdeilda. Sköpum samkeppniaðstöðu og vonandi þannig fáum við fleiri fréttastofur.

 

 


Vantrú á fjölmiðla vestan hafs aldrei minni

Bandaríkjamenn hafa aldrei haft eins lítið álit á fjölmiðlum og í dag.  Samkvæmt einni könnun treysta aðeins 17% almennings fjölmiðla. Það er meira traust til íslenska fjölmiðla, sem er óverðskuldað.

Fjölmiðlar hafa gert ýmislegt til að verðskulda þetta vantraust. En hvenær missti almenningur traust á fjölmiðlum? Það er erfitt að segja en ef til vill má rekja þetta til CNN sem var fyrstu fjölmiðla með fréttir allan sólarhringinn. Þetta var mikil nýjung en breytti kannski fréttamennskunni. 

Nú þurftu menn að finna fréttir allan sólarhringinn og þótt sömu fréttirnar væru endurfluttar oft á sólarhring, skapaðist vandamál við að fylla í eyðurnar.  Þá varð til "skoðanafréttir", fréttamenn fóru að segja sitt álit og teygja lopann. Í stað hlutlausrar frásagnar var komin sýn fréttamannsins eða fréttastofunnar. Ástandið hefur bara versnað síðan þá, því nú er netið komið, með podcast, eins manns fjölmiðila, til dæmis, Tucker Carlson, Bill OReilly og fleiri og allir með skoðanir.

Nú er svo komið að almenningur þarf að vera á varðbergi gagnvart fjölmiðlum og framsetningu þeirra og úr því að fátt annað er í boði en skoðanafjölmiðlar, kýs fólk fjölmiðla sem endurspegla a.m.k. að hluta til skoðanir og gildi þeirra. Einhliða fréttaflutningur er því af gangi heimsmála og innanlandsmála og skipting landsmanna í tvær fylkingar varanlegar. Tökum sem dæmi spillingarmál Joe Bidens, mjög fáir demókratar vita nokkuð af viti um þau, enda fréttirnar af mesta spillingamáli Bandaríkjasögu í skötulíki hjá vinstri sinnum fjölmiðlum Bandaríkjanna.

Margir leita því á netið og velja sér eins manns fjölmiðil, t.d. Bill OReilly og reyna þannig að afla sér upplýsinga. Svo kallað kapalsjónvarp er á miklu undanhaldi vestan hafs og eftir að Foxnews rak besta sjónvarpsmann sinn, Tucker Carlson, hefur fjölmiðill verið á hraðri niðurleið, þróun sem er löngu hafin hjá öðrum kapalsjónvarpsstöðvum.  CNN er þar á botninum, enda hvarf allur trúverðleiki miðilsins þegar hann reyndi með öllum tiltækum ráðum að taka niður Donald Trump.  Hann dró fram í dagsljósið sem allir vissu, að fjölmiðlar eru ekki hlutlausir. Hann dró líka fram djúpríkið sem allir vissu líka af en var í bakgrunninum.

Þetta er að mörg leyti góð þróun, því að þótt fjölmiðlar áður fyrr hafi þóttst vera hlutlausir, þá voru þeir það aldrei. CIA var með starfsmenn innandyra hjá helstu fjölmiðlum landsins.

Sömu þróun má sjá hér á landi. Risavaxinn ríkisfjölmiðlinn skekkir reyndar myndina á Íslandi.

Ríkisfjölmiðill RÚV, með 8 milljarða meðgjöf í formi nauðungar áskrift og nokkra milljarða í auglýsingatekjur, gnæfir yfir íslenska fjölmiðlamarkað.  Honum hefur tekist að útrýma marga einkarekna fjölmiðla, má þar nefna N4 sem mikil eftirsjá er að, enda eina landsbyggða sjónvarpið. Við fáum ríkissýn á fréttir dagsins.

En svo er íslensk fréttamennska kapituli út af fyrir sig. Hún er á lágu plani.  Íslenskir auðmenn, líkt og í Bandaríkjunum, hafa keypt sér ákveðna fjölmiðla til að hafa áhrif á skoðanir almennings. Við heyrum og sjáum þá mynd af veröldinni sem þeir vilja að við sjáum. 

Ég er hættur að horfa á kvöldfréttir Stöðvar 2 eða RÚVs, því að þessar fréttastofur eru með hreinan áróður með efnistökum sínum.  Kíkið t.d. á hvað er fyrsta viðfangsefni fréttatímanna.  Það endurspeglar ekki alvarleika eða þýðingu fyrir almanna hagsmuni og verðskuldi að vera fyrst á dagskrá. Það sem fréttamönnunum sjálfum finnst vera merkilegt er ekki endilega það sem á fyrst og fremst erindi við almenning. Svo eru fluttar fréttir af "ekki fréttum" í marga daga, eða þar til andstæðingurinn hefur gefist upp eða fréttastofan fengið "réttu" viðbrögðin. Og almenningur farinn að trúa fréttaflutninginum.

Oft halda fjölmiðlanir fram málstað örhóps og hampa honum. Gott dæmi um þetta eru mótmæli hvalfriðunarsinna sem fengu mikið pláss í íslenskum fjölmiðlum. Svo kemur í ljós í skoðanakönnun að um 70% almennings studdi ekki aðgerðir aðgerðasinna.  

Annar kapituli fyrir sig, eru viðmælendur eða álitsgjafar fjölmiðlanna og hverja þeir spyrja ekki álits.  Mjög vinstri sinnaður álitsgjafi er spurður álits um íslensk stjórnmál og annar einstaklingur um bandarísks stjórnmál, hreinræktaður demókrati sem finnst repúblikanar ekki húsum hæfir eða ferjandi.

Ef til vill er mesta ámælisefnið fréttirnar sem aldrei eru sagðar og hunsaðar.  Útvarp saga, sem er eini fjölmiðillinn sem sannarlega flytur öðruvísi fréttir, t.d. frá Svíþjóð, sem aðrir fjölmiðlar fjalla ekki um. En Útvarp saga er ekki hlutlaus og virðist vera á hægri kantinum en við vitum af því sem hlustum og tökum mið af því.  En allar skoðanir fá að viðra sig, líka afdankaðar skoðanir Pírata, sem er gott mál. 

Íslenskir fjölmiðlamenn mættu vinna störf sín betur. Grafa betur eftir upplýsingum og reyna að halda sem mest í hlutleysið, þótt það sé erfitt. En umfram allt, ekki ljúga að almenning, sem er frumskilyrði blaðamennskunnar.  Ekki copy/paste erlendar fréttir án gagnrýnnar hugsunnar.

Í heimi 1984 sem gildir í dag, þar sem ekki er bara ráðist á tjáningarfrelsi fólk, málfrelsið þar fremst í flokki, heldur er ráðist á hugsanafrelsi fólks og lætur það ritskoða sjálft sig í hugsunum sínum, það er hætttulegasta þróunin í dag og sú lævíska. Reynt er að hafa áhrif á hugsanir fólks, til dæmis með breytingu á tungumálinu. Fundin eru upp ný hugtök fyrir allt á milli himins og jarðar. Sum hugtökin eru til framfara og taka út niðurlægjandi orð og hugtök en önnur beinlínis ætluð til að breyta hugsunum okkar. Vei þeim sem notar rangt hugtak.

Þetta er vandamál, því að fólk þarf sífellt að vera á varðbergi gagnvart sjálfu sér. Spurningin er hvort að hægt er að fá fólk til að trúa að rangt sé rétt og rétt sé rangt? Það er hægt hjá stórum hópum þjóðfélagsins, ótrúlegt en satt, og því hægt að setja þjóðfélagið á annan enda og fella það.

Sjá má þetta í sögunni 1984. Í stað hefðbundinnar löggæslu kemur Hugsunarlögreglan, eða Thinkpol. Þeir þjóna sem dómari, kviðdómur og böðull fyrir hvers kyns glæpi gegn kenningum flokksins, jafnvel neikvæðar hugsanir. Þeir hafa ekkert stigveldi eða skipulag og einstaklingar eru óþekkjanlegir.

En sem betur fer, eru menn sem hugsa sjálfstætt á öllum tímum, jafnvel í harðstjórnarríkjum, og viðhalda skoðanafrelsinu. Því ber að hlúa að skoðanafrelsinu og þeim sem bera fram skoðanir sínar.  Ekki ráðast á atvinnu fólks; fara í manninn eins og sagt er og hafa af honum viðurværið. Þeir sem kalla eftir því, hafa greinilega ekki kynnt sér lífið í kommúnistaríkjunum kaldastríðsáranna. Útskúfun úr samfélaginu, missir vinnu var hlutskipti þeirra sem andmæltu ríkjandi skoðanir kommúnistastjórnanna. Nú kalla menn eftir útskúfun og atvinnumissir þeirra sem eru öndverðu skoðanna en þeir. Og myndavélar fylgja borgunum eftir um leið og stigið er úr húsi og jafnvel innandyra með farsímann sem njósnatæki.

Við erum skemmur frá samfélagi 1984 en ætla má.

 

 

 

 

 


Fréttaskýringin "Tæknifyrirtæki lagði Fox News " RÚVs er ágiskun en ekki frétt

Enginn veit hvers vegna Fox News lagði ekki út í baráttu í réttarhöldum við tæknifyrirtækið Dominion.  Samt heldur RÚV að það viti svarið.  Ein skýringin, ósönnuð, er að Rupert Murdoch, aðaleigandi Fox News, hafi sagt, borgið bara, þegar honum var ljóst að hann yrði koma í eigin persónu í réttarhöldin. Hann vildi það ekki, hvers vegna er ekki vitað en hann er orðinn gamall eða 91 árs gamall sem gæti verið skýringin.

Svo er RÚV að reyna að tengja Tucker Carlson við málið, þegar hann fjallaði mjög lítið sem ekkert um það og aðrir á stöðinni mun meira og gengu lengra í skoðunum sínum á forsetakosningunum 2020. Ef fórna hafa átt peði í sambandi við málaferlin, væri nær að reka Sean Hannity sem fór hamförum eftir kosningarnar eða einhvern annan en aðal peningavél fjölmiðilsins.

Innanbúðarmenn Tucker Carlson sem fréttaskýrendur hafa talað við, telja frekar að tengja megi uppsögn hans við ræðu sem hann hélt fyrir skömmu, sem var með mjög trúarlegum undirtóni og það hafi farið alveg með Murdoch. En Carlson hefur farið í taugarnar á honum síðan konan hans fyrrverandi hélt Carlson í guða tölu.

Þáttastjórendur skilja ekkert í Fox News að semja við Dominon sem hafði ekki sterk mál á bakvið sig enda tjáningarfrelsið í Bandaríkjunum öflugra en á Íslandi. Bæturnar sem borgaðar voru eru mörg hundruð prósent hærri en markaðsvirði Dominion og mögulegs taps þess. En Fox News (þetta vissi RÚV ekki) er með digra sjóði fyrir málaferli og því munaði fjölmiðillinn ekki um að borga margfalt þessa upphæð. En Murdoch gerði stór mistök með að reka Tucker Carlson, skæðustu stjörnu sína. Áhorf hefur fallið um helming síðan, sumir segja um 60%.

Hægri sinnaðir áhorfendur flykkjast inn á Newsmax og aðrar fréttarveitur í stað Fox News.   Þetta gæti verið upphafið að falli fjölmiðilsins. Tucker Carlson hægði á fall kapalsjónvarpsstöðvanna og Fox News var þar fremst í flokki með hjálp Carlsons.  Þáttastjórnendur eru á því flestir að þetta sé sjálfsmorð Fox News. 

Í dag er slegist um Tucker Carson, jafnvel þótt Fox News sé að leka myndbönd af honum sem eiga að sýna hann sem fordómafullan mann (líkt og RÚV) en þau sem hafa birst, hafa bara staðfest skemmtilegar hliðar og fyndna á persónunni Carlson.  Bæði hægri sinnaðir stjórnmálamenn og þáttastjórnendur hafa fylkt sig á bakvið Tucker Carlson og menn telja hann eigi bjarta framtíð. Elon Musk er talið hafa rætt við hann um stofnun nýs fjölmiðils en þetta er vangavelta en ekki staðreynd!

Tæknifyrirtæki lagði Fox News


Fox News að segja skilið við Donald Trump og hægri hreyfinguna?

Það er grein á Foxnews sem fjallar um samskipti Donald Trump í einkaþotu sinni við blaðamann.  Eitthvað sinnaði Trump við blaðamanninn og vildi hann út úr flugvélinni. Þetta er í sjálfu sér engin frétt en gæti verið vísbending um að viðskilnað Foxnews við íhaldsmenn og stefnu þeirra í Bandaríkjunum. 

Einhver hreinsun á sér stað þarna, ekki bara Tucker Carlson sem var rekinn, heldur annar þáttastjórnandi, Dan Bongino, sem er líka vinsæll hægri þáttastjórandi sem fékk ekki endurnýjaðan samning.  

Foxnews virðist vera í sjálfsmorðs leiðangur en þetta er eina kapalsjónvarpstöðin sem hægri menn geta leitað til í Bandaríkjunum til að fá nokkuð hlutlausar upplýsingar. Newsmax er á bullandi siglingu eftir brottrekstur Carlson en áhorf Foxnews á hraðri niðurleið.

Það þýðir ekkert fyrir Foxnews að leita á sömu mið og aðrir vinstri fjölmiðlar í Bandaríkjunum, samkeppnin eru hörð þar, fólk bregðst við með að  slökkva bara á stöðunni og fara annað og á Newsmax.  Og kapalsjónvarpið er hvort sem er dautt. Carlson og fleiri hægðu bara á þróunni. Netið og Podcast og aðrir miðlar eru teknir við.  

 


Saga Útvarps sögu - stöð sem hefur þurft að berjast fyrir tilveru sinni

Ég ætla að byrja á að rekja sögu stöðvarinnar en heimild mín er Wikipedían hinn íslenska:
 

"Útvarp Saga er frjáls og óháð íslensk útvarpsstöð sem byggir dagskrá sínna nánast eingöngu á talmálsdagskrá 24. tíma á sólarhring.

Útvarp Saga var stofnuð árið 1999 af Norðurljósum sem þá var í eigu Jóns Ólafssonar athafnarmanns. Í upphafi var dagskrá stöðvarinnar lögð undir íslenska tónlist. Stefnunni var umbreytt árið 2002 þegar Útvarp Saga varð að talmálstöð. Árið 2003 keypti starfsfólkið Ingvi Hrafn Jónsson, Arnþrúður Karlsdóttir, Sigurður G. Tómasson og Hallgrímur Thorsteinsson stöðina af Norðurljósum.

Árið 2003 stóð Arnþrúður eftir ein sem eigandi stöðvarinnar, eftir að hafa keypt þá félaga út úr félaginu. Arnþrúður hefur verið 100% eigandi í tæpa tvo áratugi og er að hefja 20. starfsárið sitt sem útvarpsstjóri. Arnþrúður Karlsdóttir er ein kvenna á Íslandi sem hefur verið eigandi og rekið ljósvakamiðil.

Deilur hafa gjarnan verið í kringum Útvarp Sögu, bæði hvað varðar dagskrá og rekstur. Þá hefur Útvarp Saga staðið í deilum við Póst- og fjarskiptastofnun um útsendingartíðni. Árið 2019 var Arnþrúður dæmd til að greiða 3,3 milljónir auk dráttarvaxta til aðdáanda stöðvarinnar. Deilt hafði verið um hvort fjármunir sem Arnþrúður fékk hefði verið styrkur eða lán."

Það sem hefur einkennt stöðina, þrátt fyrir augljósan hægri halla, en þeir útvarspsmenn og þulir sem starfa hafa á stöðinni teljast til hægri ef marka má orð þeirra sjálfra. Stöðin sjálf segist vera frjáls og leyfir allar raddir að tjá sig. Sumir hafa ekki þolað þetta frelsi og var útvarpsstöðin eitt sinn kærð fyrir ummæli í innhringingatíma og fór málið fyrir dómstóla. Saga vann málið. Allir stjórnmálamenn sem vilja, sama hvaða flokk þeir tilheyra geta komið í viðtal á stöðunni, til vinstri eða hægri. Hún nýtur því töluverðrar virðingar þess vegna.

Stöðin hefur sinn dyggja aðdáendahóp, sumir hringja inn daglega árum saman. Líklega er meðalaldur þeirra sem hlusta í hærri kantinum en það er kannski ekki að furða er haft er í huga að hér er um að ræða talmálsstöð, lítil tónlist heyrist og mikið fjallað um pólitík.

Þar eð útvarpsstöðin er ekki ríkisstyrkt og þarf að berjast á hálffrjálsum auglýsingamarkaði, þá hefur kreppt stundum að er varðar afkomu.  Ég held að fastir styrkgjafar, einstaklingar út í bæ, hafi bjargað stöðinni oftar en einu sinni. Stöðin hefur verið talsvari aldraðra, fátækra og öryrkja, sem er kannski engin furða, því að innhringjendur eru margir hverjir úr þessum hópi, sem hefur tíma á morgnanna til að hringja.

Stöðin hefur reynt fá einhvern meðbyr í landi ríkisstyrkrar fjölmiðla,  en ekki orðið ágengt. Getur verið að Framsókn sé á móti stöðinni? 

Morgunblaðið greindi frá því nýverið að SagaNet-Útvarp Saga ehf. sem rekur bæði útvarpsstöðina Útvarp Saga og samnefndan vefmiðil var hafnað um rekstrarstuðning frá fjölmiðlanefnd. Félagið var eitt þriggja sem var hafnað um stuðning.

"Auk Útvarps Sögu var það Nordic Times Media ehf. sem gefur út landkynningarblöð, og Snasabrún ehf. sem rekur vefinn Handbolti.is", segir í frétt Morgunblaðsins. Þarna er útvarpstöðin í hópi óþekktrar miðla og er rökstuðningurinn fyrir höfnun styrkjar vafasamur. Á sama tíma fékk RÚV hátt í fjögur hundruð milljónir í aukaframlög en aðrir fjölmiðlar aðeins 380 milljónir. Er RÚV ekki að fá heildina um 7 miljarða?

Það er því ekki skrýtið að Arnþrúður Karlsdóttir stefni á að selja tuttugu prósenta hlut í fjölmiðli sínum, Útvarpi sögu eins og kom fram í fréttum nýverið Hún segir það vera erfitt að sjá um fyrirtækið ein.

Útvarp saga á sér ekki bara óvini innan raða stjórnmálaelítunnar, heldur einnig hjá öðrum fjölmiðlum. Ætli megi ekki segja að Stundin sé helsti andstæðingurinn,  og ætla má sé á hinum væng stjórnmálanna en hún var stofnun í febrúar 2015. Stofnendahópur Stundarinnar samanstóð af fjölmiðlafólki sem hafði hætt störfum á DV eftir fjandsamlega yfirtöku á miðlinum vegna umfjallana. Hún hefur mónitorar gengi útvarpsstöðvarinnar árlega í fjölda ára og tilkynnir samviskusamlega gengi hennar samkvæmt árreikningum.

 

 

 

 


Hvers vegna í ósköpunum er RÚV ennþá til?

Þessi spurning vaknar þegar maður pælir í fjölmiðlaumhverfinu í dag. Hér eru til einkareknir fjölmiðlar sem hafa stórkostlega góða dagskrá, svo sem N4, Stöð 2, og Hringbraut, Bylgjan, Útvarp saga og fleiri. Allt fjölmiðlar með íslenskt efni og sumir bara með íslenskt efni með bestu gæðum. Talandi ekki um netið sem gefur kost á að fylgjast með öllum fjölmiðlum heims.

Og þeir sem eiga að vera verjendur frjálsa markaðins, Sjálfstæðisflokkurinn, er aðeins að íhuga að taka RÚV af auglýsingamarkaði, ekki að leggja fjölmiðlinn niður.Hugleysi er þetta.

RÚV gegnir engu öryggishlutverki í dag, hefur lélega dagskrá (mestmegið enskumælandi efni) og það þrátt fyrir að hafa 7 milljarða í meðgjöf árlega. Fréttastofan bullandi hlutdræg og með aðalþul sem hefur verið í hlutverkinu síðan 1977! Einn maður hefur ráðið sýn Íslendinga til umheimisins í næstum hálfa öld og lengi vel eina sýnin þar til Stöð 2 tók til starfa.

Ég sem frjáls einstaklingur, er neyddur með valdboði að borga árlega til RÚV, hvað er það núna, 18 þúsund krónur? Og allir hinir á heimilinu eldri en 18 ára líka. Þetta er töluverður peningur ef hugsað er út í það.

Það er alveg ótrúlegt að aldrei er skorið niður á RÚV, líka í kreppum, en hægt er að skera niður fjárveitingar til vegaframkvæmda, sjúkrahús og aðra innviði.

Fyrir 7 milljarða er hægt að gera marga hluti. Sem dæmi er hægt að bora ein jarðgöng árlega, eyða biðlista eftir skurðaðgerðum o.s.frv.

Ef ríkisvaldið vill endilega fara ofan í vasa mína og þína, af hverju ekki að hafa þann valkost að við ráðum hvaða fjölmiðill fái peninginn? Líkt og við ráðum til hvaða trúfélags (sem og háskóla) við borgum til.

 

RÚV hverfi af markaði og umfang skorið niður


Ríkisapparatið RÚV

Árið 2022 er fyrirbrigðið ríkisfjölmiðill ennþá til. Ríkisútvarpið var stofnað 1930 og þótti mikil bylting þegar útvarpsstarfsemi hófst hérlendis. Hvers vegna ríkið átti frumkvæðið, veit ég ekki, en giska á að engir innlendir aðilar hefðu getað eða viljað stofna til útvarpsstarfsemi.

Ein meginrökin fyrir stofnun og viðhalds þessa ríkisapparats, er öryggissjónarmiðið. Að ríkið getið komið skilaboðum áleiðis til almennings vegna hættuástands. Til þess er útvarpið hentugri miðill en einkarekin dagblöð sem hér voru til (af hverju varð ekki til ríkisdagblað?). Hægt var að koma skilaboðum til almennings á rauntíma en dagblöðin kannski bara daginn eftir. Sjómenn fengu t.a.m. veðurfréttir og gátu forðað sér í land ef óvænt óveður bar að garði.

Í stríðinu kom bandaríski herinn upp tímabundinni útvarpsstöð til að miðla fréttum, áróðri og skemmtiefni. Þegar Íslendingar sömdu um áframhaldandi varnir Bandaríkjahers árið 1951 var hafist handa við að koma á fót varanlegum ljósvakamiðlum fyrir dátana segir í blaðagrein DV, sjá slóðina: TÍMAVÉLIN: Brutust inn í Kanasjónvarpið og spreyjuðu á veggi

Svo leið tíminn og upp úr 1950 kom sjónvarpið til sögunnar í BNA og í Evrópu. Þetta var og er enn vinsæll miðill en Íslendingar tóku ekki þátt strax. Það var Bandaríkjaher sem reið á vaðið með sjónvarpsútsendingar 1955.

Kanasjónvarpið er það sem Íslendingar kölluðu sjónvarpsstöð bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. ARFTS Keflavik, eða Armed Forces Radio and Television Service Keflavik, hét hún fullu nafni og var starfrækt í rúma hálfa öld.

Sjónvarpsútsending bandaríska herstöðvarinnar á Íslandi (Útvarps- og sjónvarpsþjónusta Keflavíkur; frá 1955 til 1966 eina sjónvarpsútsendingin sem var á Íslandi). En á meðan sumir tóku því fagnandi að fá ókeypis útsendingar á góðu bandarísku efni, töldu aðrir stöðina ógna menningu og þjóðerni Íslendinga. 

Íslendingar ákváðu því, líklega mest vegna menningarlegri ástæðu, peningaleg ástæða gæti líka hafa átt sinn þátt, að starfrækja íslenska sjónvarpsstöð undir stjórn íslenska ríkissins. Ríkissjónvarpið var stofnað 1966 og lokað var á opna dagskrá Kanasjónvarpsins. Held samt að það hafi starfað áfram en líklega sem kapalsjónvarp (einhvers sem veit það?). Kanaútvarpið hélt áfram að senda út óhindrað og gat maður hlustað á það á höfuðborgarsvæðinu (á meðan ég var að alast upp).

Íslendingar voru íhaldssamir og engar breytingar gerðar næstu tuttugu ár. En svo var Stöð 2 stofnuð 1986. 

Á íslensku Wikipedia segir að í "...stóra BSRB verkfallinu haustið 1984 lagðist nánast öll starfsemi RÚV niður og upp spruttu nokkrar ólöglegar útvarpsstöðvar. Í kjölfarið var farið að huga að endurskoðun útvarpslaga í menntamálaráðherratíð Ragnhildar Helgadóttur. Ný lög, sem leyfðu einkareknar útvarps- og sjónvarpsstöðvar, voru samþykkt á Alþingi 13. júní 1985 og tóku gildi í ársbyrjun 1986. Fram að þeim tíma höfðu verið starfandi á Íslandi tvær útvarpsstöðvar og ein sjónvarpsstöð, Rás 1 og Rás 2 og Ríkissjónvarpið."

Ríkisvaldið var nú komið í samkeppni við einkaaðila, bæði hvað varðar útvarpsrekstur en einnig í sjónvarpsreksri. Nú myndi maður halda að RÚV væri orðið óþarfi fyrirbrigði. En stuðningsmenn RÚV héldu þá því fram að það hefði öryggishlutverki að gegna og ætti þvi að starfrækja áfram.

Svo kom næsta bylting í upplýsingamiðlun, sem líkja má við uppfinningu prentverksins. Internetið nær gríðarlegri útbreiðslu í upphafi 21. aldar og hefur síðan verið ráðandi þáttur i miðlun upplýsinga. Farsímar urðu almenningseign og samruni netsins svokallaða og síma í farsímanum hefur gjörbreytt allt. Ef hætta ber að höndum, fær fólk á hættusvæði send skilaboð í farsímann, um að hætta steðji að. Með öðrum orðum, þarf ekki milligöngu ríkisfjölmiðils til að rýma hættusvæði eða vara við aðsteðjandi hættu.

Hvers vegna er þá RÚV ennþá til? Þetta er erfið spurning og verður einhver annar að svara því. Hef ekki séð nein haldbær rök fyrir áframhaldandi rekstri. Ég myndi halda að annað hvort sé að ræða íhaldssemi eða stofnunin er n.k. "ríkisdraugur", stofnun sem er orðin úreld en hefur ekki verið lögð niður; af því bara rök eða gerum ekkert í málinu.

Margar ríkisstofnanir, svo sem Bifreiðaeftirlit ríkissins, urðu úreldar, bæði vegna tæknibreytinga sem og skilyrði til samkeppni sköpuðust. Annar "ríkisdraugur" Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er ennþá starfræktur, þótt það sé löngu orðið ljóst að einkaaðilar geta mæta vel selt áfengi og tóbak á einfaldan og ódýrari hátt.

Ríkisfjölmiðill er gott dæmi um af hverju ríkisvaldið á ekki að starfa á samkeppnismarkaði. Rekstur RÚV er út úr öllu korti, dýr og ekki sjálfbær. Í frétt Mbl.is er ágætis grein sem heitir:Tekjumódel Rúv ótengt öðrum miðlum (sjá slóðina: Tekjumódel Rúv ótengt öðrum miðlum ).

Í greininni segir: "Rekstr­araðilar einka­rek­inna fjöl­miðla voru marg­ir síður en svo sátt­ir þegar fjár­laga­frum­varp til næsta árs var kynnt. Þar kem­ur fram að styrk­ir til fjöl­miðla skuli lækkaðir um 2%, eða um átta millj­ón­ir.

Kraf­an um aðhald náði þó ekki til allra fjöl­miðla en fram­lög úr rík­is­sjóði voru stór­auk­in til Rúv. Nam aukn­ing­in 8% eða um 420 millj­ón­um króna. Tel­ur því heild­ar­fram­lagið til miðils­ins ríf­lega fimm millj­arða króna.

Þess ber að geta að aukn­ing­in til Rík­is­út­varps­ins nem­ur meira fjár­magni en upp­hæðin sem all­ir einka­rekn­ir miðlar fá í sinn hlut sem er um 384 millj­ón­ir króna sam­tals."

Ekki fjallar blaðagreinin um tröllið á auglýsingamarkaðinum sem RÚV er. Oft er stofnunin með 2 milljarða í tekjur af auglýsingum á auglýsingamarkaði sem er lítill og brothættur. Mörg fjölmiðlafyrirtæki hafa einmitt farið á hausinn vegna þess að þau geta ekki keppt við ríkisstuttan fjölmiðil.

Ég ætla að enda þennan pistill á fréttastofu RÚV, sem er ansi athyglisvert fyrirbrigði, en hér er um að ræða "ríkisfréttir"; íslenska ríkið segir okkur fréttir, hvað sé fréttnæmt og hvað sé ekki fréttnæmt (með því að fjalla ekki um ef til vil fréttnæmt efni).

Fréttastofan var lengi vel virt og dáð, oftast með hlutlausar fréttir, en með tilkomu annarra fréttastofa, virðist hlutleysið hafa fokið út í veður og vind. Hún virðist skipar sér í lið með ákveðnum málstað hverju sinni að því sem sumum finnst. Aðrir eru hæstánægðir eða eru sama. Af hverju finnst sumum hún ekki vera hlutlaus lengur? Er það mannaráðningarnar, að ákveðinn hópur ræðst þarna inn sem hefur ákveðnar skoðanir? Eða er hún eftir sem áður hlutlaus í fréttaflutningi, og þetta er bara misskilningur eða öfund þeirra sem er illa við RÚV?

Ljóst er að stjórnvöld þurfa að hafa sérskatt, nefskatt, til að starfrækja þennan fjölmiðil.  Nefskattur er venjulega lagður á einstakling yfir 18. aldri sem og fyrirtæki, óháð því hvort fólk nýtir sér þennan fjölmiðill. Fólk er með öðrum orðum þvingað til að borga þessa skatta. Fyrra fyrirkomulagið, RÚV með innheimtudeild og með fólk sem guðar á glugga, ótækt í framkvæmd. Með nefskatti getur enginn mótmælt né ekki greitt.

Er kominn tími á breytingar? Til eru margir frábærir einkareknir fjölmiðlar, sem reka vandaða íslenska dagskrá og eingöngu með íslenskt efni. Þeim tekst að halda sér á floti með mun minna fjármagn á milli handanna en RÚV.

 


Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband