Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Að skila auðu í kosningum

Ég fór að velta fyrir mér kosningamál í kjölfar fjörugra umræðna hér á blogginu um hversu "vitlausir" kjósendur væru að kjósa Donald Trump. Ég kom kjósendunum til varnar og sagði að þeir hefðu rétt á að kjósa eins og þeim sýndist, þeirra er atkvæðisrétturinn.

Það er ekkert sem kallast að kjósa "vitlaust", þótt maður furðar sig stundum á hvernig kjósendur kjósi yfir sig kvalarann aftur og aftur. En, eins og áður sagði, þeirra er rétturinn til að gera slíkt.

En svo er það þegar menn kjósa en skila auðu. Það hef ég gert, þegar mér hefur ekki litist á blikuna og ekkert litist á neinn flokk. Ég kýs nefnilega eftir sannfæringu minni og þeim flokki sem kemst næst henni. Verra er ef menn velja að sitja heim, koma ekki á kosningastað, og taka þar með ekki þátt í lýðræðislegri kosningu. En þeirra er líka rétturinn, til að sitja heima!

En verst þykir mér, eftir að ég hef lagt á mig að fara á kosningastað, taka þátt í lýðræðislegri kosningu, að atkvæði mitt sem er e.t.v. autt, sem eru ákveðin skilaboð um að mér lítist ekki á pólitíska úrvalið í boði, skuli flokkað með ógildum atkvæðum.  Er það annars ekki hætt? Ógildir og auðir atkvæðisseðlar eru nú aðskildir?

Það er reyndar komið inn á þetta á Vísindavefnum (slóð: Hvað þýðir það að skila auðu í kosningum? ) en svarið þar er gamalt eða frá 2009.

Þar segir: "Boðskapur kosningalaga um auð atkvæði er einfaldari en hér hefur verið lýst. Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis merkir það einfaldlega að atkvæðið er ógilt. Í 100. grein laga nr. 2000/24 segir þannig: "Atkvæði skal meta ógilt: a. ef kjörseðill er auður". Vegna framkominna óska hafa kjörstjórnir í alþingiskosningunum 25. apríl 2009 þó fallist á að auð atkvæði verða talin sérstaklega, aðgreind frá ógildum."

Í forsetakosningunum 2020 voru auð og ógild atkvæði talin saman!!!

Í ofangreindri grein á Vísindavefnum segir einnig: "Skoðum fyrst af hverju maður sem ætlar að skila auðu skuli hafa fyrir því að fara á kjörstað. Ein eða fleiri af eftirtöldum ástæðum kunna að liggja til þess:

1. Hann telur það kannski borgaralega skyldu sína að mæta á kjörstað og greiða atkvæði.

2. Hann kann af einhverjum ástæðum að vilja láta líta svo út sem hann hafi greitt fullgilt atkvæði í kosningunum. Þetta mátti sérstaklega sjá fyrir sér fyrr á árum þegar tilteknir stjórnmálaflokkar fylgdust grannt með því hverjir greiddu atkvæði í kosningum.

3. Hann leggur þetta ef til vill á sig til að sýna andúð sína á flokkakerfi og stjórnmálamönnum. Þetta hefur fyrst og fremst tilætluð áhrif ef andrúmsloft og umhverfi er þannig að margir aðrir gera slíkt hið sama."

Í öllum þremur tilvikum, er kjósandi að nýta sér kjörseðil sinn og senda skilaboð. Hann hefur ekki gert kjörseðil sinn ónýtan, t.d. með kroti.

Tökum eitt dæmi áður en ég enda þetta. Segjum að í sveitarfélagi séu greidd 10 þúsund atkvæði í kosningum. Þrjú þúsund kjósendur ákveða að skila auðu af einhverri ástæðu, t.d. vegna spillingar. Á að flokka þessi atkvæði sem ógild? 

Þarf ekki að virða þá sem taka þátt og sinna borgaralegri skyldu sinni og skila auðu? Og aðskilja þá frá þeim sem sitja heim eða ógilda atkvæði sín? 

 


Tvær borgir á höfuðborgarsvæðinu í stað sjö sveitarfélaga

Þessi hugmynd hefur komið upp en ekki mikið rædd. 

Með því til dæmis að sameina Seltjarnarnes, Reykjavík, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp í eina borg (sem er eins og skeifa í laginu og liggja saman landfræðilega), og svo Hafnarfjörð, Kópavog, Garðabæ (með Álftanesi) í aðra borg, væri stærðarhagræðingin gríðarleg. Tvær sveitarstjórnir (borgarstjórnir) í stað sjö minnkar yfirbyggingu mikið, þjónustan ætti að vera ódýrari. Það er reyndar mikil samvinna á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en betur má ef duga skal.   

Helsti gallinn við þessa hugmynd er að ef afleiddir stjórnmálaflokkar komast til valda og halda þeim til langs tíma, líkt og í Reykjavík, geta þeir skemmt fyrir fleira fólk en ef sveitarfélögin væru smærri.

Í apríl 2022 bjuggu á höfuðborgarsvæðinu öllu 241 þúsund manns, sem er eins og meðalborg í Evrópu.

Í Reykjavík bjuggu 136,100 þúsund manns; Á Seltjarnarnesi 4,600 manns; Mosfellsbæ 13,100 og í Kjósahreppi 250 manns.  Samtals 153,950 manns í einni borg.

Í Hafnarfirði bjuggu 29,000; Garðabæ 18,500 og í Kópavogi 39,000 manns. Samtals: 86,500 manns.

Kalla mætti Reykjavíkurborg áfram sama nafni, en finna yrði nýtt heiti fyrir hina borgina. Það eru ýmsir kostir að færa stöðu sveitarfélags upp í stöðu borgar. Svo sem:

Að kynnast nýju fólki, fjölbreytt flóra mannfólks. ...
Starfsemi, svo sem listastarfsemi o.s.frv.. ...
Almenningssamgöngur hagkvæmari. ...
Stórir viðburðir. ...
Sameiginleg upplifun. ...
Hærri laun. ...
Fleiri atvinnutækifæri.

En síðan en ekki síst, sparnaður í rekstri sveitarfélagsins vegna stærðarhagkvæmni.

 


Að kjósa kvalara sinn til valda

Reykvíkingar hljóta að vera sér þjóðflokkur.  Þeir búa í borg sem er svo illa rekin, að leitun er að öðru eins en samt kjósa þeir stjórnmálamenn til valda sem sannarlega hafa sýnt að þeir geta ekki rekið kaffihús (sbr. braggann sem kostaði hálfan milljarð).

Heildarskuldir Reykjavíkurborgar eru komnar yfir vel yfir 400 milljarða og hún er með yfirdráttarreikning hjá banka. Búið er að taka út 9 milljarðar af þessu reikningi og það er ekki ódýrt að vera með svona yfirdráttarheimild. Yfir 15% vextir. 

Búið er að hækka skuldaþak sveitarfélaga úr 150% í 200% (var það til að bjarga Reykjavíkurborg?). Það sem gerist ef sveitarfélag fer yfir viðmiðunarmörk er að eftirlitsnefnd fjármálum sveitarfélaga tekur yfir reksturinn. Hún getur hækkað útsvar (held 25%) og fasteignaskatt (held 25%) einhliða til að bjarga rekstrinum. Yfirtakan er algjör, allir reikingar verða að fara í gegnum þessa nefnd.

Mér er sagt að Reykjavíkurborg lafi rétt undir 200% mörkin. 

Berum saman rekstur Hafnarfjarðar (Sjálfstæðisflokkurinn er þar við stjórn) við Reykjavík.

Á vef Hafnarfjarðarbæjar segir:

"Fjárhagsleg staða Hafnarfjarðar er góð og er áætlað að skuldaviðmið sveitarfélagsins verði komið niður í um 93% í árslok 2023. Þrátt fyrir neikvæð áhrif heimsfaraldurs í tvö ár tókst að verja hagsmuni íbúa og sækja fram án þess að skuldsetja bæjarfélagið....

Lögð er áhersla á að halda álögum á íbúa áfram hóflegum. Útsvarsprósenta verður óbreytt og dregið verður úr heildarálagningu fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði með lækkun á vatns- og fráveitugjöldum. Skattprósenta á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði er sem fyrr ein sú lægsta á höfuðborgarsvæðinu. Nokkur óvissa er við áætlunargerð næsta árs vegna væntanlegra kjarasamninga, verðbólgu og áhrifa alþjóðlegrar efnahagsþróunar. Á árinu 2023 er stefnt að því að fjárfesta fyrir rúmlega sjö milljarða króna. Forgangsröðun er í þágu grunnþjónustu, svo sem umhverfismála, samgangna, íþróttaaðstöðu og húsnæðis- og fráveitumála." 

Kannski eru Reykvíkingar ekki svo vitlausir eins og ætla mætti og þeir reyndu að breyta til og losna við vinstri flokkanna úr stjórn Reykjavíkurborgar með því að kjósa Framsóknarflokkinn í meira mæli en áður voru þeir örflokkur. En þeir sáu ekki fyrir að Einar Þorsteinsson myndi hengja sig við fyrrum meirihlutann í Reykjavík og því urðu engar breytingar. Framsóknarflokkurinn mun þurrkast út í næstu kosningum vegna kosningaloforða svik sín. 

Lítið er reynt að draga úr skuldasöfnunni. Það eru 11,700 starfsmenn Reykjavíkurborgar en íbúafjöldi er rétt um 140 þúsund. Eru allir þessir starfsmenn nauðsynlegir?  Ef við berum saman Árborg, þá er skuldastaða hennar vond, eins og í Reykjavík, en hún er fyrst og fremst vegna vaxtaverkja, vegna ofurfjölgun íbúa.  Í Reykjavík er þetta dæmigerð fjármálasukk vinstri meirihlutans. Á meðan er gatnakerfi borgarinnar í molum, engin meiriháttar framkvæmdir, svo sem mislæg gatnamót, bara þrengt að góðum akvegum. Svo ætla Dagur B. og co. að starta Borgarlínu og taka á móti 1500 flóttamönnum í yfirfullri borg. Vonandi smíðar hún ekki bragga fyrir flóttamennina, hver braggi færi þá í hálfan milljarð. 

 

 


Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband