Er nýfrjálshyggjan undirrót alls ills?

Gunnar Smári, fyrrum kapitalisti en nú sósíalisti, segir að nýfrjálshyggjan sé uppruni alls hins illa í samfélaginu og leiði efnahagskerfið í þrot. Þetta eru athyglisverð orð en tvennt vantar í frásögn hans í viðtali við hann á Eyjunni en viðtalið ber heitið: „Gunnar Smári hjólar í nýfrjálshyggjuna – ,,Þetta er arfavitlaus leið til samfélagsuppbyggingar“.

Gunnar Smári hjólar í nýfrjálshyggjuna – ,,Þetta arfavitlaus leið til samfélagsuppbyggingar“

Hvað er rangt við málflutning hans? Í fyrsta lagi skilgreinir hann ekki hvað nýfrjálshyggja er. Allt í lagi, flestir skilja hugtakið en ég ætla þó að fara í skilgreiningar síðar í greininni.

Í öðru lagi sé ég hvergi lausnir og hvað eigi að taka við af nýfrjálshyggju. Jú, hann segir aðEina leiðin til uppbyggingar samfélagsins sé hins vegar endurreisn alþýðustjórnmála. ,,Í því felst endurreisn verkalýðshreyfingar og annarra samtaka sem berjast fyrir hagsmunum almennings og uppbygging stjórnmálaflokka sem byggja á þessum hreyfingum.”  Hvers konar rökleysa er þetta?  Blaðamenn taka orðræðuna sem vinstri menn viðhafa án athugasemda og spyrja aldrei framhaldsspurninguna sem er: Hvernig á verkalýðshreyfingin að afla peninga? Býr hún til tekjur? Þarf ekki fyrirtæki sem ráða starfsfólk til starfa til að skapa skatttekjur?

Gunnar Smári vill jú eins og aðrir vinstri menn meiri eyðslu ríkissjóðs í framkvæmdir, sem er hið besta mál, svo sem vegagerð o.s.frv. ef þær eru arðbærar fyrir samfélagið en líka í alls konar gælu- og vitleysingaverkefni sem sólundar skattfénu okkar og alltaf stækkar bálknið. Úr innan við 10% vinnandi manna í 40% sum staðar í Evrópu sem starfar hjá ríkinu.

En vandinn er sá að ríkisapparatið kann bara að eyða peningum, það skapar aldrei peninga. Það tekur peninga frá öðrum í samneyðslu. Og stjórnendur ríkiskerfisins, ráðamenn (þingmenn, sveitarstjórnarmenn og embættismenn), bera enga ábyrgð eða taka áhættuna af eyðslunni og því fara þeir oft illa með almannafé. Það er innbyggt í kerfinu óráðsía, sífelld meiri eyðsla og aukið umfang kerfisins og það er það sem að sliga efnahag vestrænna kapitalískra þjóða. Annað sem er að sliga efnahagskerfi einstakra ríkja er að fjárfestingarfé og fjárfestar geta hlaupið á milli ríkja með fé sitt (nú eru t.d. tugir þúsundir rússneskra auðkýfinga að flýja Rússland og hvaða afleiðingar hefur það fyrir efnahag landsins? Hörmulegar!).  Gunnar Smári vill ofurskattleggja íslenska auðmenn svo þeir fari örugglega úr landi með auðæfi sín! Er það viturlegt? Nei. Prófum að gera alla milljónamæringa útlæga frá Íslandi og sjáum hvað þá gerist! Væri ekki nær að vera með sanngjarna skattleggingu, þannig að þeir fari hið fyrsta aldrei úr landi?

Nýfrjálshyggjan myndi frekar reyna að laða að fjárfestingar og fjárfesta með lága skatta og einfaldar reglugerðir – reglur – til þess að skapa arð í samfélaginu, öllum til góðs, fátækum og ríkum. Svíar reyndu á seinni helmingi 20. aldar að blóðmjólka milljónamæringa landsins og komu á sósíalísku kerfi, það misheppnaðist hrapalega og velferðakerfið leið fyrir það, minna til skiptana fyrir mennta-, heilbrigðis- og samtryggingakerfið, því að fyrirtækin hættu að skila hagnaði (þar með skatttekjum) og þau sem voru skynsömust fóru úr landi. Gleymum ekki að það er samkeppni um milljarðamæringa milli landa, ekki bara menntafólks.

Í samþættu efnahagskerfi heims, þar sem stórfyrirtæki þarf til að koma af stað stóriðnaði, þarf mikið fjármagn. Auðkýfingar þurfa mikið eigið fé til að geta fjárfest. Það gera þeir ekki peningalausir. En það er ekki eins og nýfrjálshyggjan fari ekki saman við hugsjónir um betra og mennta-, heilbrigðis og samtryggingakerfi, það er allsendis ósatt sem ræðuskrumarar hafa haldið að almenningi.

Hvort vildir þú láta stjórnmálamann eða milljónamæring fá 1 milljón króna til ráðstöfunnar og til heilla fyrir samfélagið? Hvað haldið þið að stjórnmálamaðurinn myndi gera fyrst? Jú, hygla landshlutanum sem hann kæmi úr í gæluverkefni. Peningurinn búinn eftir daginn. Milljónamæringurinn myndi hins vegar fjárfesta í hlutafé (líkt og norski olíusjóðurinn gerir og er hann orðinn einn ríkasti sjóður heims) sem skilar margföldu inn fyrir samfélagið í arð. Tökum annað dæmi: Leggjum veg á milli A og B. Hvers vegna ekki að láta Vegagerð ríkisins um framkvæmdina eins og í gamla daga í stað þess að bjóða út verkið? Jú, skrifinnarnir, sem bera enga persónulega ábyrgð eða fjárhagslega hagsmuni, finna ekki leiðir til að fara hagkvæmustu leiðina til framkvæmdarinnar. Þeir borga bara uppsett verð. En verktakar sem keppa um útboðið, þeir verða að vera hagsýnir í samkeppninni og gera verkið á hagkvæmasta hátt og hljóta umbunun fyrir sem kallast arður.

Förum nú í skilgreiningar. Ég ætla ekki að fara langt, bara beint í Wikipedíu. Hún segir: Nýfrjálshyggja er óljóst hugtak notað um frjálshyggju, stjórnleysisstefnu eða lágríkisstefnu, eða sambland af öllu. Hugtakið er einkum notað af andstæðingum frjálshyggju og hefur þá neikvæðan blæ. Talað er um hinar ýmsu myndir nýfrjálshyggjunnar sem eru: Íhaldsfrjálshyggja og lágríkisfrjálshyggja.

Stundum er orðið „nýfrjálshyggja“ haft um íhaldsfrjálshyggju, sem sameinar félagslega íhaldssemi hefðbundinnar íhaldsstefnu annars vegar og einstaklingshyggju, trú á frjálsan markað og takmörkuð ríkisafskipti hins vegar. Meðal fulltrúa íhaldsfrjálshyggju í stjórnmálum má nefna Ronald Reagan og Margréti Thatcher. Íhaldsfrjálshyggja sótti meðal annars innblástur til Chicago-hagfræðinganna og austurrísku hagfræðinganna og fékk byr undir báða vængi í valdatíð Reagans og Thatcher. Vegna endurnýjaðra áhrifa frjálshyggjunnar í Bandaríkjunum og Bretlandi á þessum tíma var þetta afbrigði frjálshyggju stundum nefnt nýfrjálshyggja.

Lágríkisfrjálshyggja hefur einnig verið nefnd nýfrjálshyggja en aðaláhersla lágríkisfrjálshyggjunnar er á eignarrétt, frjálsan markað og eins lítil ríkisafskipti og mögulegt er. Hún er á hinn bóginn ekki (endilega) innblásin af félagslegri íhaldssemi íhaldsstefnunnar. Meðal þeirra sem haldið hafa fram lágríkisfrjálshyggju má nefna bandaríska heimspekinginn Robert Nozick sem varði slíka kenningu í riti sínu Stjórnleysi, ríki og staðleysa (e. Anarchy, State and Utopia). Áherslur lágríkisfrjálshyggjunnar höfðu ekki verið áberandi í ritum frjálshyggjuhugsuða á 18. og 19. öld, svo sem Adams Smith og Johns Stuarts Mill og því þótti andstæðingum lágríkisfrjálshyggjunnar, sem margir hverjir sóttu einnig innlástur til klassískrar frjálshyggju, við hæfi að nefna hana nýfrjálshyggju.

Og til samanburðar er frjálshyggjan skilgreind sem stjórnmálastefna sem segir að setja beri ríkisvaldi þröng takmörk, en treysta þess í stað aðallega á frjáls viðskipti og sjálfsprottnar venjur. Er einhver munur á frjálshyggju og nýfrjálshyggju? Nei, en má segja að nýfrjálshyggjan er ein útgáfa eða angi frjálshyggjunnar en dregur nafn sitt af endurnýjaða daga þessara stefnu í tíð Thatchers og Regans.

Jafnaðarmenn segja að vald í höndum auðkýfinga sé ekki síður hættulegt en ríkisvaldið, sem frjálshyggjumenn óttist. Frjálshyggjumenn svara því til, að vissulega verði að setja valdi auðkýfinga skorður, en þær felist í réttarríkinu, almennum lögum og reglum, og þurfi ekki meira til. Enn fremur hefur hagfræðingurinn Milton Friedman mótmælt þessum rökum á þann hátt að hættan við vald hinna ríku og stóru stigmagnist með afskiptum ríkisins, en ekki öfugt.

Íhaldsmenn segja, að frjálshyggjumenn séu siðlausir, því að þeir séu hlutlausir um verðmæti og þeir segja jafnframt  einnig að frjálshyggjumenn beri ekki næga virðingu fyrir ýmsum verðmætum, sem eigi að vera óhult fyrir hinum frjálsa markaði (t.d. menningarverðmæti eða náttúrufyrirbrigði). 

Slóð: Wikipedía - Nýfrjálshyggja

Gagnrýni íhaldsmanna og jafnaðarmanna á rétt á sér. Það verður að setja öllu valdi, líka auðmagninu, skorður sem samt á ekki að vera íþyngandi eða til skaða fyrir allt samfélagið.

Ég er hrifinn af  íhaldsfrjálshyggju, sem sameinar félagslega íhaldssemi hefðbundinnar íhaldsstefnu annars vegar og einstaklingshyggju, trú á frjálsan markað og takmörkuð ríkisafskipti hins vegar. En fyrst og fremst er ég hrifinn af einstaklingshyggjunni, þar sem maðurinn er frjáls athafna (í viðskiptum líka) og hefur málfrelsi, fundarfrelsi og ferðafrelsi og ríkið látið hann í friði en rukki hann fyrir samfélagsþjónustu sem hann enda er maðurinn ávallt hluti af samfélagi manna.

Einstaklingurinn var til áður en ríkið varð til. Samfélag manna sem kallast öðru nafni ríki, var stofna til vegna samtakamáttar þess, útdeilingu gæða og til öryggis allra innan ríkisins en ekki til kúgunar einstaklingsins. Hann er arðbærari fyrir samfélagið ef hann fær að vera frjáls en ekki kúgaður.

Munum að ríkisvaldið var ekki til á Íslandi fyrstu þrjár aldirnar, aðeins einstaklingurinn og ætt hans. Samfélagið gékk bara ágætlega en valdaþjöppun og afskipti erlendra aðila raskaði jafnvæginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband