Landvarnarskylda landsmanna í stjórnarskránni 1874 og 1920

Skammsýni Íslendinga er með ólíkindum. Þeir gera ekki ráð fyrir að ófrið beri að garði og það þurfi að kveða menn til varnar. Það þarf að vera skýr lagaákvæði í stjórnarskránni til þess að ríkisvaldið - Alþingi með lögum eða ríkisstjórn með reglugerð geti kveðið menn til vopna. Í raun er þetta æðsta skylda borgarans við ríkið, þar sem hann getur látið lífið. Ákvæði um vopnaburð borgarans til varnar ríkisins í stjórnarskránni 1874 og 1920 voru því til staðar. Lítum á ákvæðin í báðum stjórnarskrám.

Í 57. grein stjórnarskránna 1874 er þetta ákvæði: "57. gr. Sjerhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins eptir því, sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt þar um með lagaboði." Þá var Herfylkingin nýliðin undir lok í Vestmannaeyjum 1869 en liðsmenn hennar höfðu þá skrifað bréf og beðið um að herskylda yrði komin á í Vestmannaeyjum og allur kostnaður greiddur af almannafé. Dönsk stjórnvöld vildu aðeins veita takmarkaðan stuðning og því dó Herfylkingin drottni sínum. En þetta hermennsku framtak Vestmannaeyinga kann að hafa leitt til þess að ofangreint ákvæði var tekið inn í stjórnarskránna þótt það sé ekki hér sannað.

Gott og vel, Danir vita vel að hættur kunna að steðja Íslandi og það þurfi að huga að vörnum.  En lítum á stjórnarskránna 1920: "71. gr. Sjerhver vopnfær maður er skyldur að taka þátt í vörn landsins, eftir því, sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum." Nú ber svo við að Ísland er orðið að sjálfstæðu konungsríki en enn er þetta ákvæði inni. Landið lýsti yfir hlutleysi og taldi það vera bestu vörnina sem reyndist vera tálsýn.

En lítum á stjórnarskrá lýðveldisins 1944. Ekkert ákvæði (sem bloggari sér) um landvarnarhlutverk borgarans. Hvers vegna? Voru Íslendingar ekki í miðri heimsstyrjöld og hefði ekki verið þægilegur öryggisventill að hafa þetta ákvæði inni í stjórnarskránni?

Er einhver sem les þetta sérfróður um hvað menn voru að hugsa er þeir voru að semja þessa stjórnarskrá? Vildu menn ekki setja þetta inn vegna þess að landið var þá hersetið?  Einhver skýring hlýtur að vera á hvers vegna þetta ákvæði var tekið út en var í tveimur fyrstu stjórnarskránum.

En hvað um það, af hverju ekki að setja þetta ákvæði inn við næstu breytingu á stjórnarskránni? Nú, af hverju?...kann einhver að spyrja.

Jú, þetta verður að vera í grunnlögum landsins svo að hægt sé að kveða menn til varnar landsins ef til stríðs kemur (það kemur fyrr eða síðar). Ef ófriður brýst út, þá hafa stjórnvöld engin tæki til að bregðast við. Ekki hægt að stofna her né heimavarnarlið.....Þá kunna flestir sem lesa þetta að segja, mér er nákvæmlega sama, höfum þetta eins og þetta hefur alltaf verið (reyndar ekki lengra aftur í tímann en 1944). Það er skammsýni og of mikil bjartsýni á að þriðja heimsstyrjöldin brjótist ekki út. Ef eitthvað er öruggt við hegðun mannsins, er það vilji hans til að hefja næsta stríð. 

En við Íslendingar eru ekki hluti af mannkyninu kann einhver að segja og við elskum friðinn, alveg sama hvað! Við erum það ekki eins og sjá má af afskiptum okkar af stríðinu í Úkraínu og við verðum ekki stikkfrí í næsta stríði NATÓ. Hlutleysið fór 1949....  

 

 


Að vera eða ekki vera - Sýndarforseti eða valdaforseti

Það var gengið svo illa frá stjórnarskrá Íslands 1944 að allar götur síðan, hefur fólk velgst í vafa hvert raunverulegt valdsvið forsetans er.

Er litið er á forsetaákvæðin í stjórnarskránni 1944, sem eru afrituð af stjórnarskránni 1920 og er með konung sem æðsta valdhafa, er litlu breytt, ef einhverju. Vald forsetans er mikið samkvæmt henni en í framkvæmd og veruleika lítið. Það þarf að brúa þetta bil.

Ákvörðun verður að taka, á forsetinn að vera tákngervingur, nokkuð konar "fjallakona" Íslands eða æðsti sendiherra, valdalaus fígura á Bessastöðum eða valdaforseti sem hefur raunveruleg völd?

Ef hið fyrrnefnda er valið, er þá ekki eins gott að leggja embættið af? Það er mjög kostnaðarsamt að hafa hirð á Bessastöðum með forseta sem brosir bara, tekur í höndina á erlendum höfðingjum, fer í bíltúr um landið og kíkir á almúgann einstaka sinnum.

Hins vegar ef við viljum útfæra stjórnarskránna og gera forsetann að valdafígúru, þá er forsetaræðið málið.  Þar eru tvær leiðir. Full völd forsetans og hann skipar ríkisstjórn og er í forsvari fyrir hana eða seinni leiðin sem er nokkuð spennandi en það er forsetaþingræði.

Kíkjum á skilgreiningu Wikipedíu: "Forsetaþingræði er fyrirkomulag stjórnarfars í lýðveldum þar sem forseti er kosinn með beinni kosningu og hefur umtalsverð völd, en er ekki jafnframt stjórnarleiðtogi eins og þar sem forsetaræði er við lýði. Í löndum sem búa við forsetaþingræði eru þannig bæði forseti og forsætisráðherra, en ólíkt lýðveldum þar sem ríkir þingræði, fer forsetinn með raunveruleg völd en ekki táknrænt hlutverk. Hugmyndin á bak við þetta kerfi er að forsetinn myndi mótvægi við vald stjórnmálaflokka sem ríkja á þinginu og sitja í ríkisstjórn.

Völd forseta í forsetaþingræðisríkjum geta verið af tvennum toga: forsetinn getur ráðið og rekið forsætisráðherra og ríkisstjórn að vild, að því gefnu að hann njóti stuðnings þingsins, annars vegar; og hins vegar að forsetinn getur leyst upp þing, en þingið eitt getur ráðið og rekið forsætisráðherra og ríkisstjórn."

Ef við erum að hugsa um yfirbyggingu og kostnað, væri best að forsetinn væri eins og Bandaríkjaforseti og spara kostnaðinn við forsætisráðherra embættið. Tryggja má málskotsákvæðið með því að setja það í stjórnarskránna og í vald þjóðarinnar. M.ö.o. að ef ákveðinn fjöldi kosningabærra manna biður um þjóðaratkvæði, líkt og er í Sviss, þá verður efnt til þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Það er óhætt að fullyrða að enginn forsetaframbjóðenda sem nú eru í framboði, eru vissir um raunverulegt valda umboð sitt og hvers langt eða stutt þeir geta farið.


Bloggfærslur 27. apríl 2024

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband