Varnarbandalag Norðurlanda

Inngangur

Öll Norðurlöndin fylgdu hlutleysisstefnunni við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari en Svíþjóð einni tókst að halda hlutleysinu á stríðsárunum.

Danmerkur biðu þau örlög að vera hernumin að mestu án mótspyrnu. Þjóðverjum gekk hins vegar verr með næsta andstæðing sinn, Noreg, en Norðmenn vörðust hetjulega en biðu samt ósigur og landið var hernumið. Ísland og Færeyjar hlutu sömu örlög og hinar tvær fyrrnefndu þjóðir og voru hernumdar af Bretum. Finnar fóru hvað verst út úr stríðinu en þeir háðu tvær erfiðar styrjaldir gegn Sovétríkjunum og töpuðu báðum.

SAS_emblem_Wikipedia_ineligible_for_copyrightÖrlög norrænu landanna voru því ólík og þetta hafði úrslitaáhrif á utanríkisstefnu þeirra eftir stríðslok.

Í greininni er varpað ljósi á hvaða möguleika Norðurlöndin höfðu, hvert fyrir sig, til að tryggja öryggi sitt í ljósi breyttra valdahlutfalla í Evrópu í stríðslok. Í því sambandi eru nokkrum mikilvægum spurningum svarað. Þær eru; hvers vegna var ekki stofnað varnarbandalag Norðurlandaþjóðanna þriggja, Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur? Hvers vegna gaf Ísland upp hlutleysisstefnu sína? Og að lokum er spurt; hvernig tókst Finnum að halda sjálfstæði sínu?

Efnistök eru á þá leið að fyrst er landfræðileg staða Norðurlanda skoðuð út frá hernaðarlegu sjónarhorni.

Því næst er kannað hvort Norðurlöndin þrjú, Svíþjóð, Noregur og Danmörk hefðu haft raunverulegan möguleika til að stofna með sér varnarbandalag.

Að lokum er utanríkisstefna Íslands í öryggismálum, sem og Finnlands, skoðuð sérstaklega. Það er gert vegna þess að þessi ríki voru jaðarríki og í raun hornreka í umræðum um varnarmál á Norðurlöndum. Þau tóku því ekki beinan þátt í viðræðunum um norrænt varnarbandalag.

Varnarstaða Norðurlanda

Í gegnum tíðina hefur öryggi Norðurlanda einkum stafað hætta af tveimur voldugum nágrönnum, Þýskalandi og Rússlandi (Sovétríkjunum).

Á meðan þessi tvö ríki eru veik og sundruð er öryggi Norðurlanda nokkuð vel tryggt. Slíkt átti sér einmitt stað við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri árið 1918. Ósigur Þýskalands og rússneska keisaradæmisins leiddi til hernaðarlegs tómarúms í Mið- og Norður-Evrópu.

Staðan var hins vegar önnur í stríðslok 1945 en þá stóð risinn í austri, Sovétríkin, uppi sem sigurvegari og var á góðri leið með að verða risaveldi með miklum herstyrk og pólitískum áhrifum um mestalla Evrópu.

Hinn hættulegi nágranni Norðurlanda, Þýskaland, var hins vegar í rúst hernaðarlega og efnahagslega og í raun sundrað. Ljóst þótti að það myndi ekki vera sterkt hernaðarlega næstu áratugi, ósigur þess var algjör.

Veik staða Þýskalands var Dönum í hag, en þeir höfðu þurft að heyja erfiðar styrjaldir við þýsk ríki á nítjándu öld og tapað þeim og staðið í landamæradeilum á þeirri tuttugustu. Fyrst við sameinað Þýskaland í stríðslok 1918 en síðan við Vestur-Þýskaland eftir 1945. Nú tóku Sovétríkin við hlutverki hins ofangreinda. Danir töldu árið 1949 líklegustu árásahættuna koma úr austri. Það er að segja ef Sovétríkin myndu gera árás, þá kæmi hún sjóleiðis yfir Eystrasalt á Suður-Sjáland og Lolland-Falster. Varnabúnaðar þeirri beindist því að þessari ógnun.

Norðurlandaþjóðirnar þrjár á Skandinavíuskaganum, Noregur, Svíþjóð og Finnland töldu einnig að mesta hættan stafaði frá Sovétríkjunum. Þetta átti sérstaklega við Finnland, en það hafði misst lönd til Sovétríkjanna og stóð berskjaldað gagnvart þeim á öllum austurlandamærunum, allt frá Finnska flóanum í Eystrasalti norður til Norður-Íshafs.

Öllum ofangreindum þjóðum stafaði hætta af vaxandi hernaðarumsvifum Sovétríkjanna á Kólaskaganum, en þaðan er auðvelt að gera árás á Finnmörk í Norður-Noregi og Norður-Svíþjóð og einnig á Lappland í Norður-Finnlandi.

Flotauppbygging Sovétríkjanna beindist að því að öðlast vald yfir hinu hernaðarlega mikilvæga Norður-Íshafi. Einnig Íslandi stafaði ógn af þessum auknu umsvifum en eins og kunnugt er liggur landið að Norður-Íshafi og er í vegi fyrir útgönguleið Íshafsflota rauða hersins út á Atlantshafið. Ljóst var að stálin stinn milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna myndu mætast fyrir norðan Ísland í hernaðarátökum og það óttuðust Íslendingar mikið.

Herstyrkur Sovétríkjanna og aukin pólitísk áhrif þeirra var því sá raunveruleiki sem Norðurlönd urðu nú að laga sig að.

Atlantshafsbandalag eða varnarbandalag Norðurlanda?

Fljótlega eftir lok heimsstyrjaldarinnar síðari tók að bera á ágreiningi á milli annars vegar Sovétríkjanna, og hins vegar Bretlands og Bandaríkjanna. Þessi ágreiningur hafði í för með sér að Evrópa skiptist í tvo hluta, austur og vestur.

Norðurhluti Evrópu, það er að segja Norðurlöndin, tók í fyrstu ekki þátt í þessum ágreiningi. Fyrstu árin eftir 1945 var stefna Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar í utanríkismálum að standa utan stjórnmálalegra og hernaðarlegra bandalaga. Norðmenn og Danir nefndu stefnu sína miðlunarstefnu en Svíar sína hlutleysisstefnu.

Fram til áramótanna 1947 - 1948 höfðu þessi þrjú lönd í raun svipaða utanríkisstefnu, sem fól í sér að viðurkenna ekki skiptinguna milli austurs og vesturs sem flestum var nú orðin ljós.

Að sögn Þóris Ibsens Guðmundssonar urðu þáttaskil í stefnu þeirra eftir tímamótaræðu utanríkismálaráðherra Bretlands, Ernest Bevins í ársbyrjun 1948. Í ræðu hans kom það sjónarmið fram að nauðsynlegt væri fyrir hin frjálsu lönd Vestur-Evrópu að þjappa sér saman. Þessi ræða var í sjálfu sér hvati að umræðunni um bæði Norður-Atlantshafsbandalag og um skandinavískt varnarbandalag.

Einnig hafði byltingin í Tékkóslóvakíu það sama ár og ósk Sovétríkjanna um gagnkvæman öryggissamning við Finnland ýtt undir hin Norðurlöndin að marka ákveðna stefnu í öryggismálum sínum. Viðræður áttu sér stað á milli þeirra en ekkert raunhæft gerðist fyrr en Svíþjóð lagði fram tilboð sitt um skandinavískt varnarbandalag í maí 1948.

Dagana 5. - 6. janúar 1949 komu æðstu ráðamenn Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar til sænska bæjarins Karlstaðs til að fjalla um fyrirhugaða myndun skandinavísks varnarbandalags. Fljótlega kom í ljós á þessum fundi að hugmyndin um varnarbandalag Norðurlanda var andvana fædd.

Ástæðan fyrir því var að Norðmenn og Svíar gátu ekki komið sér saman um eðli slíks bandalags. Norðmenn höfnuðu þegar sjálfstæðu og hlutlausu bandalagi, og Svíar höfnuðu öllum hugmyndum um bandalag sem ekki væri sjálfstætt og samræmdist ekki hlutleysisstefnu þeirra.

Það var afstaða Norðmanna og Svía sem réði því, hvort úr slíku bandalagi yrði. Afstaða Dana var oft á tíðum ruglingsleg í viðræðunum. Hans Hedtoft forsætisráðherra Danmerkur hafði lýst því yfir árið áður, að Danir myndu fylgja Norðmönnum og falla frá skandinavísku varnarbandalagi ef Svíar héldu fast við hlutleysisstefnuna. Þeir voru þó ekki fastari í rásinni en það að í febrúar 1949 hugleiddu Danir að stofna danskt-sænskt varnarbandalag en Svíar höfðu ekki áhuga. Því er ljóst að Danir hefðu sætt sig við hvaða niðurstöðu sem var, þó að þeir hefðu helst kosið norrænt varnarbandalag.

Það voru Norðmenn sem skáru á hnútinn í febrúar 1949 og féllu frá hugmyndinni um skandinavískt varnarbandalag. Þeir höfðu uppi kröfu um að hverju aðildarríki slíks bandalags, sem sækti vopnabúnað sinn aðallega til Bandaríkjanna, væri frjálst að ganga í vestrænt varnarsamstarf, það er í Atlantshafsbandalagið, sem væri nauðsynlegur bakhjarl Norðurlanda. Og eins og áður sagði kusu Svíar hlutleysi, en þeir treystu á sjálfkrafa liðsinni Atlantshafsbandalagsins, ef rauði herinn réðist á ríkin þrjú.

Það sem olli endanlegum sinnaskiptum Norðmanna var sú ákvörðun Bandaríkjastjórnar að láta bandamenn sína í Evrópu ganga fyrir um vopn.

Danmörk og Noreg vanhagaði um hernaðaraðstoð, enda urðu löndin að byggja upp herafla sinn frá grunni vegna tjóns af völdum stríðsins. Meðal annars vegna þess áttu þessi lönd ekki um annan kost að velja en að ganga í Atlantshafsbandalagið.

Ákvörðun Norðmanna réði úrslitum fyrir Dani. Eins og áður sagði, vildu Svíar ekki sérstakt bandalag við þá né heldur Norðmenn. Þeir urðu því að fylgja Norðmönnum hvort sem þeim líkaði betur eða verr.

Niðurstaðan var þó ekki alslæm fyrir þessar þjóðir, því að þær gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu með lágmarksskilyrðum. Hvorki herstöðvar né dvöl hersveita frá öðrum aðildarríkjum um lengri tíma var heimilt á friðartímum. Því má segja að ennþá lifði vottur af hlutleysisstefnunni hjá þessum þjóðum.

Staða Svíþjóðar var önnur þar sem hún var talsvert herveldi á þessum árum. Svíar gátu því staðið einir eftir utan hvers konar hernaðarbandalaga. Reynslan úr heimsstyrjöldinni síðari hafði einnig sýnt að þeir gætu það.

Ísland lætur af hlutleysisstefnu sinni

Segja má að fyrsta skrefið sem Íslendingar stigu í átt frá hlutleysi hafi verið við gerð Keflavíkursamningsins 1946. Í honum fólst að Bandaríkjamenn fengu afnot af Keflavíkurflugvelli til að auðvelda aðflutninga til hernámssvæðis þeirra í Þýskalandi en þó höfðnuðu Íslendingar í þessari lotu beiðni Bandaríkjamanna um herstöðvar í landinu. Einnig hafði þeim áður verið gert að afturkalla hersveitir sem voru fyrir í landinu á stríðsárunum sem og þeir gerðu. Í þeim skilningi má segja að Ísland hafi ekki enn um sinn horfið frá hlutleysisstefnunni.

Valur Ingimundarson sagnfræðingur fullyrðir að með þessum gjörningi hafi meirihluti Alþingis í raun skipað sér í flokk með vestrænum ríkjum. Og að í honum hafi falist ákveðin viðurkenning á því að Ísland væri á hagsmunasvæði Bandaríkjanna.

Annar sagnfræðingur, Þór Whitehead, telur að sú stefna sem mörkuð var með þessum samningi hafi legið ,,...milli hlutleysis og fullrar samstöðu með Vesturveldunum.´´

Hægt er að taka undir orð þessara sagnfræðinga, að visst skref hafi verið stigið í átt til herbúða Vesturvelda. Kalla má þessa stefnu hikstefnu eða tækifærisstefnu. Íslendingar voru þó nógu ákveðnir í því að sýna út á við að þeir héldu hlutleysisstöðu sinni, því að þeir höfnuðu, eins og áður sagði, beiðni Bandaríkjamanna um herstöðvar í landinu.

Valdarán kommúnista í Tekkórslóvakíu í febrúar 1948 ýtti undir íslensk stjórnvöld, líkt og önnur norræn stjórnvöld á sama tíma, að kanna varnir landsins og athuga hvort unnt yrði að styðjast við Keflavíkursamninginn í varnarskyni. Íslenskum ráðamönnum varð ljóst að Bandaríkjastjórn bar engin skylda til að verja Ísland í ófriði. Þeir höfðu heldur enga haldbæra vitneskju um það hvort eða hvernig Bandaríkjamenn hygðust nota landið ef stríð brytist út.

Í þessu ljósi verður að skoða inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 1949. Mikil óvissa um öryggi landsins, sem skapaðist meðal annars vegna ótta við það sem var að gerast í Evrópu, það er að segja sókn kommúnista í Austur- og Mið-Evrópu, sem og óvissan um afstöðu Bandaríkjanna til Íslands í ófriði, leiddi til þessara aðgerða Íslendinga. Hins vegar tóku íslensk stjórnvöld ekki endanlega ákvörðun um inngöngu fyrr en ljóst varð að Norðmenn og Danir yrðu þátttakendur í bandalaginu.

Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu, töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi. Engan her þyrfti á landinu á friðartímum. Herforingjar Atlantshafsbandalagsins voru á annarri skoðun en þeir vildu að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli.

Breyting varð loks á stefnu íslenskra stjórnvalda í varnarmálum á árunum 1950-1951. Þegar Kóreustyrjöldin hófst um sumarið 1950 breyttist afstaða íslenskra ráðamanna á sama hátt og eftir valdarán kommúnista í Tekkóslóvakíu 1948. Íslensk stjórnvöld höfðu frumkvæðið að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins. Felld var niður stefnan um herleysi á friðartímum og gerður var varnarsamningur við Bandaríkjamenn um vorið 1951. Bandrísku setuliði var skipað á land í annað sinn.

Með þessu var varnarstefna Íslands endanlega mörkuð næstu áratugi. Íslendingum var orðið ljóst að landfræðileg staðsetning Íslands var ekki lengur vörn og þar af leiðandi ekki lengur hægt að halda uppi sannfærandi hlutleysisstefnu.

Varnarsáttmáli Finnlands við Sovétríkin 1948

Segja má að staða Finnlands og þar með sjálfstæði hafi í raun verið ákveðin á Teheran-ráðstefnunni árið 1943 á milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna.

Þar kom í ljós að Bandamenn litu í raun ekki á Finnland sem hluta af Öxulveldunum. Á ráðstefnunni lofaði Stalín að sjálfstæði Finnlands yrði tryggt þegar reikningarnir hefðu verið gerðir upp við Öxulveldin. Vesturveldin sættu sig við þessi loforð. Þessi trygging opnaði leið fyrir vopnahlé á milli Finnlands og Sovétríkjanna en þessi ríki höfðu átt í styrjöld síðan 1941.

Þessi gagnkvæmi skilningur á stöðu Finnlands leiddi til þess að Finnland lenti fyrir utan deiluna um svæðisskiptingu í Evrópu á milli stórveldanna á Yalta-ráðstefnunni í febrúar 1945. Árið 1944 var samið um vopnahlé á milli Finnlands og Sovétríkjanna meðal annars vegna þessa skilnings en einnig vegna þess að rauði herinn þurfti á öllu sínu liði að halda í framsókninni til Berlínar.

Aðrar ástæður fyrir þessu vopnahléi geta verið, eins og Roy Allison bendir á, viss virðing fyrir Finnum sem bardagamönnum sem og að ef Sovétríkin hefðu hernumið Finnland hefði það gert þeim erfitt fyrir um stríðsskaðabótakröfu á hendur Finnum.

Í þessum vopnahlésamningum töpuðu Finnar endanlega Karelíuhéraði. Einnig töpuðu þeir Petsamósvæðinu sem liggur að Norður-Íshafi, en við þessa landaaukningu fengu Sovétríkin landamæri að Noregi. Sovétmenn fengu einnig hinn hernaðarlega mikilvæga Porkkalaskaga, sem liggur skammt sunnan Helsinki og var hann gerður að flotastöð.

Mikilvægast af þessu öllu var að Sovétmenn litu svo á að með því að taka og halda Petsamó-svæðinu og fá þannig landamæri að Noregi, myndi það koma í veg fyrir að Finnland yrði í framtíðinni notað sam stökkpallur til innrása í Sovétríkin.

Árið 1948 var samið endanlega um frið á milli þessara ríkja. Sovétmenn höfðu frumkvæðið um gerð vináttu- og aðstoðarsamnings sem beint var gegn Þýskalandi eða bandamönnum þess. Samkvæmt fyrstu grein hans voru Finnar skyldugir til að koma í veg fyrir árás á Sovétríkin yfir finnskt land og einnig skyldugir til að þiggja aðstoð Sovétmanna til þess.

Hins vegar bættu Finnar því ákvæði við, sem Sovétmenn voru óánægðir með, að ef öðrum hvorum aðila yrði ógnað, yrðu að eiga sér stað viðræður á milli samningsaðila við mat á þessari ógnun. Þetta þýddi í raun að Sovétmenn gátu ekki ákveðið einhliða um hernaðaraðgerðir til varnar Finnlands og þetta tryggði einnig Finnlandi sjálfræði um varnir landsins að mestu leyti.

Einnig var tekið fram í samningnum að Finnar vildu ekki blanda sér í deilur stórveldanna. Forseti Finnlands, J.K. Paasikivi hafði krafist þess að fá þetta atriði tekið upp í samningnum. Með þessu ákvæði voru Finnar í raun að lýsa yfir hlutleysi sínu.

En hvers vegna sættu Sovétmenn sig við þennan samning? Roy Allison telur að þeir hafi sætt sig við sjálfstæði Finnlands eftir að Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen komust undir ægivald þeirra í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, sem og vegna áframhaldandi hlutleysis Svíþjóðar.

Þessi samningur studdi einnig höfuðmarkmið Sovétríkjanna, en það var að koma í veg fyrir að Norðurlönd gætu bundist í varnarbandalag, sem væri hallt undir Vesturlönd.

Niðurstaðan er því sú að með samningnum frá árinu 1948, hersetu rauða hersins í Eystrasaltslöndunum þremur í botni Eystrasalts og hlutleysi Svíþjóðar, hafi grunnurinn að sjálfstæði og vissu hlutleysi Finnlands verið lagður og tryggður næstu áratugi.

Niðurlag

Í lok heimsstyrjaldarinnar síðari breyttust öll valdahlutföll í Evrópu. Öll Norðurlöndin töldu að þeim stafaði hætta af þessu nýja ástandi og sérstaklega af hendi Sovétríkjanna en þau stóðu uppi sem einn af sigurvegurunum í stríðslok. Ástæðan fyrir því er að þau áttu öll landamæri að þeim, en vaxandi hernaðarumsvif Sovétmanna á Kólaskaganum skellti þeim ótta í bringu.

Hugmyndin um skandinavískt varnarbandalag var andvana fædd. Ástæðan fyrir því var að Norðmenn og Svíar gátu ekki komið sér saman um eðli slíks bandalags, það er hvort það ætti að vera sjálfstætt eða tengt vestrænu hernaðarbandalagi. Svo virðist sem Danir hefðu sætt sig við hvaða niðurstöðu sem væri.

Ísland lét af hlutleysisstefnu sinni af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi vegna valdaráns kommúnista í Tékkóslóvakíu en það olli töluverðum ótta hér á landi sem annars staðar í Norður- og Vestur-Evrópu. Og í öðru lagi vegna óvissunnar um hvernig eða hvort Bandaríkjamenn hygðust verja landið í ófriði. Íslendingar gengu því í Atlantshafsbandalagið 1949. Óvissa í alþjóðastjórnmálum olli aftur sinnaskiptum hjá íslenskum stjórnvöldum 1951, en þá var gerður varnarsamningur við Bandaríkjamenn og bandarískur her skipaður á land í kjölfarið.

Finnum tókst að viðhalda sjálfstæði sínu og vissu hlutleysi vegna þeirra aðstæðna sem sköpuðust í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Í fyrsta lagi tókst þeim að gera samning við Sovétmenn 1948 sem tryggði þeim sjálfstæði í innanríkismálum og hlutleysi í stórveldispólitíkinni. Í öðru og þriðja lagi töldu Sovétmenn öryggi sitt nægjanlega tryggt með hersetu í Eystrasaltsríkjunum þremur í botni Eystrasalts og með hlutleysi Svíþjóðar, en það tryggði að varnarbandalag Norðurlanda varð ekki komið á fót. Þessi þrjú meginatriði tryggðu öryggi Finnlands næstu áratugi.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Ef við lítum á líðandi stundu og ástandið í Úkraníu, mættum við eftir vill læra af samskipti Finna og Sovétmanna/Rússa. Friðarsamningurinn milli þessara ríkja hélt á meðan Sovétríkin voru við lýði.  

Sovétmenn höfðu alltaf áhyggjur af stöðu St.Pétursborgar og réðust m.a. af þeim ástæðum á Finnland á sínum tíma.

Rússar hafa sætt sig við að Pólland og Eystrasaltsríkin hafi lent á yfirráðasvæði NATÓ en þeir virðast greinilega draga mörkin við Hvíta Rússland og Úkraníu, slavnesku ríkin tvö. Pútín hefur engar áhyggjur af Hvíta Rússlandi í dag, með leppstjórnina þar en Úkranía hefur verið pentúll sem hefur sveiflast til vinstri og hægri eftir því hver er við völd. Þess vegna vill Pútín tryggja ,,Finnlandsstöðu" landsins til frambúðar.

Birgir Loftsson, 29.1.2022 kl. 20:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband