Bloggfærslur mánaðarins, október 2023

Thor Thors sendiherra og stofnun Ísraels

Ísrael er ríki eitt, lítið en umdeilt frá stofnun. Það eru fáir núlifandi Íslendingar sem vita hvernig ríkið varð til og að Íslendingur hafi átt þátt í stofnun ríkisins. Hér er fjallað um Thor Thors sendiherra Íslands í Washington, Bandaríkjunum og fyrsta fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. 

Þór Whitehead fer yfir merkilegan feril Thors í viðtali sem birtist í fréttabréfi UNRIC (24.október 2015). Sjá slóðina: Sendiherrann sem fór sínar eigin leiðir

"Sumir segja að stærsta stund Thors í SÞ hafi verið 29. nóvember 1947. Þá var hann framsögumaður undirnefndar, sem stjórnmálanefndin hafði skipað til að kanna möguleika á samkomulagi á milli Araba og Gyðinga um skiptingu Palestínu og stofnun tveggja ríkja þar. Hafði Thor afgerandi áhrif á niðurstöðuna og þar með á stofnun Ísraelsríkis, eins og sumir hafa ályktað af minningum Abba Ebans, fastafulltrúa Ísraels, síðar utanríkisráðherra? 

Það er alveg ljóst að Gyðingar voru áhyggjufullir yfir því að nefndin mælti með því að haldið yrði áfram að leita samkomulags um málið. Óvíst væri hvort skipting Palestínu nyti  nauðsynlegs stuðnings á allsherjarþinginu, og frekari dráttur málsins eftir áralangt þóf gæti spillt fyrir því að þessi meirihluti næðist.  

Abba Eban segist hafa farið í  heimsókn á hótel til Thors að morgni 29. nóvember til að hvetja hann til láta gera út um málið án tafar. Hann óttaðist að tæki Thor upp á því að tala eindregið fyrir frestun sem framsögumaður undirnefndarinnar gæti það haft áhrif á fundi allsherjarþingsins, sem boðaður hafði verið um málið þennan sama dag. Eban segist hafa beitt öllum sannfæringarkrafti sínum til að lýsa fyrir Thor aldalöngum draumum og vonum ótal kynslóða gyðinga um að stofna Ísraelsríki. Thor hafi hiklaust svarað á þá leið að það væri meiri skilningur á Íslandi á örlögum Gyðinga, eins og þeim væri lýst í Biblíunni, en Eban grunaði. Þessar frásagnir væru hluti íslenskrar menningar og Gyðingar gætu treyst því, að íslenska þjóðin, sem varðveitt hefði tungmál sitt og bókmenntir við erfiðustu náttúruskilyrði um aldur, hlyti að sýna skilning á viðleitni þeirra til að varðveita þjóðareinkenni sín og stofnun eigin ríkis. Hann væri sammála Eban um að nú væri komið að ákvörðun í málinu og frekari dráttur tilgangslaus. 

Geysimikil spenna ríkti þegar allsherjarþingið kom saman síðar um daginn. Allt fylltist af fjölmiðlamönnum frá hinum ýmsu ríkjum með tæki sín og tól og áheyrendapallar voru yfirfullir. Aldrei hafði sést önnur eins mannmergð á þinginu. Fundurinn hófst með magnaðri ræðu Thors, sem taldi að allar leiðir til að ná samkomulagi á milli Gyðinga og Araba hefðu verið þrautkannaðar án árangurs. Eina von um sættir lægi í því að taka af skarið með dómgreind og festu. ,,Thor var stórkostlegur“, skrifaði Abba Eban. 

Síðan hófu þingfulltrúar umræðu, sem mótaðist mjög af ræðu Thors að mati Ebans. Atkvæðagreiðslan fór að vonum Gyðinga, 33 fulltrúar greiddu atkvæði með skiptingu Palestínu í tvö ríki, sem ættu að mynda efnahagssamband. Þrettán fulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni, tíu sátu hjá og einn var fjarverandi. 

Þótt vafalaust hafi ræða Thors greitt fyrir því að allsherjarþingið tók þarna af skarið, held ég að það væri mikið ofmat að ætla að hún hafi ráðið úrslitum um málið. Væntanlega hefði það eitthvað dregist á langinn, ef undirnefndin hefði hvatt til frekari samningaumleitana, en það sem skiptir höfuðmáli er að risaveldin, Bandaríkin og Sovétríki Stalíns, höfðu afráðið að styðja skiptingu Palestínu í tvö ríki. 

Ég hef tekið eftir því að sumir íslenskir Palestínuvinir hafa lýst Thor sem einhvers konar handbendi síonista. Þeir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að Ísland sé með einhverjum hætti ábyrgt fyrir stefnu Ísraels gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum sínum eftir sex daga stríðið 1967 vegna framgöngu Thors í þessu máli. Þetta nær engri átt, samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu er einn grundvöllurinn undir kröfu Palestínumanna um sjálfstætt ríki og Jerúsalem var ætlað að vera undir alþjóðastjórn.

Það voru hins vegar Arabaríkin, sem komu öðrum fremur í veg fyrir að samþykkt SÞ næði fram að ganga, með því að ráðast á Ísrael eftir að Gyðingar lýstu yfir stofnun eigin ríkis 1948. Enginn, sem hefur kynnt sér málflutning Thors Thors um Palestínumálið, nýlendumál, mannréttindi, stríð og frið, gæti velkst í vafa um hvaða afstöðu hann hefði tekið til stefnu hægrimanna í Likud-bandalaginu og heittrúarflokka í Ísrael gagnvart Palestínumönnum á síðustu áratugum, ef honum hefði enst til þess ævin. Reyndar barðist kjarninn í þessari ystu hægri fylkingu í Ísrael hatrammlega gegn samþykkt allsherjarþingsins um skiptingu Palestínu, stefndi að því að leggja allt landsvæðið undir Ísraelsríki og beitti til þess hryðjuverkum.  Flest þeirra 33 ríkja, sem greiddu atkvæði um málið á sama hátt og Íslendingar 1947, hafa hins vegar lengi verið afar gagnrýnin á stefnu hægrimanna í Ísrael gagnvart Palestínumönnum og nágrannaríkjum Ísraels, og sum eins og Sovétríkin og fylgiríki þeirra tóku fljótlega upp fullan fjandskap við Gyðinga."


 


Getur Ísrael barist á mörgum vígstöðvum í einu?

Svo virðist álitsgjafi Útvarps sögu ekki halda. Rætt var við Bjarna Hauksson í þættinum Heimsmálin um stöðuna við botni Miðjarðarhafs.

"Bjarni segir að til þess að geta hertekið norðurpart Palestínu eins og Ísraelsher hefur gefið út að hann ætli sér að gera kosti það að minnsta kosti 100.000 fótgönguliða þarf með öllum þeim stuðningi sem þeim fylgi og varalið upp á að minnsta kosti 200.000 hermenn og er vandi Ísraelsmanna sá að þeir hafa einungis 300 þúsund hermenn virka svo það yrði engin eftir til þess að verja norður landamærin eða austurlandamærin.

Þetta þýði að Ísraelsher geti í raun ekki herfræðilega séð, fest sig á einhverjum einum vígstöðvum."

Sjá slóðina:

Heimsmálin: Ísrael hefði ekki getuna til að ráðast inn í Palestínu án aðstoðar

En hefur Bjarni rétt fyrir sér? Hefur hann rannsakað fyrri stríð Ísraela? Öll þeirra stríð voru í raun háð við fleiri en einn andstæðing í einu. Sjálfstæðisstríðið sem var háð 1947-1949 var háð við marga andstæðinga í einu.

Sínaístríðið 1956. Þótt andstæðingurinn hafi bara verið einn, Egyptaland, þurfti Ísraelher að vera með mikinn viðbúnað við önnur landamæri sín, enda umkringdir óvinaþjóðum.

Sex daga stríðið 1967. Ísrael barðist við Egyptalandi, Sýrlandi og Jórdan eftir er Ísraeli hófst átök við umliggjandi lönd.

Yom Kippur stríðið 1973. Ísrael varð fyrir óvæntri árás nágrannaríkja sinna. Yom Kippur stríðið var aðallega við Egyptaland og Sýrland, og hófst á Yom Kippu hátíðinni. Ísrael vann stríðið á endanum en með mestu erfiðleikum.

Fyrri Líbanónstríðið var háð 1982 og var háð í Suður-Líbanon. Enn var um einn andstæðing að ræða en þeir þurftu að hafa allan varan á gagnvart Sýrlandi.

Öll ofangreind átök unnu Ísraelar, alltaf gegn erfiðum andstæðingum.

Svo eru það Gaza átökin sem Ísrael hefur háð við Hamas samtökin síðan þau komu til sögunnar.

Aðgerðin kastað blý (2008-2009): Þetta var þriggja vikna hernaðaraðgerð sem Ísraelar hófu í lok desember 2008 til að bregðast við eldflaugaárásum frá Gaza. Átökin leiddu til talsverðs mannfalls og skemmda á innviðum á Gaza.

Aðgerðin varnarsúlan (2012): Í nóvember 2012 hófu Ísrael hernaðaraðgerð eftir aukningu á eldflaugaárásum frá Gaza. Átökunum lauk með vopnahléi sem Egyptaland hafði milligöngu um.

Aðgerðin hlífðarbrún (2014): Þetta voru mikil hernaðarátök sem hófust í júlí 2014 og stóðu yfir í 50 daga. Markmið Ísraels var að stöðva eldflaugaárásir frá Gaza og eyðileggja Hamas-göng. Átökin leiddu til verulegs mannfalls, eyðileggingar og til vopnahlés.

Hinn mikli endurkomumars (2018): Þetta var röð mótmæla meðfram landamærum Gaza og Ísraels sem hófust í mars 2018. Mótmælunum var mætt með viðbrögðum ísraelska hersins, sem leiddi til mannfalls.

Átök Ísraels og Hamas brutust út í maí 2021. Í maí 2021 var enn ein mikil aukning ofbeldis milli Ísraels og Hamas. Átökin hófust með spennuástandi í Austur-Jerúsalem sem leiddi til eldflaugaárása frá Gaza og loftárása Ísraela. Þessi 11 daga átök leiddu til vopnahlés, með verulegu mannfalli og skemmdum á báða bóga.

Og nú árið 2023, með áhlaup Hamas inn í Ísrael. Enn hafa Ísraelar ekki gert innrás í Gaza en það virðist vera tímaspurtsmál hvenær svo verður.

Ísraelar verða að sigra í komandi átökum, annars er friðurinn úti gagnvart Arabaheiminum. Stórkostlegur friðarárangur hefur náðs milli Ísrael og  Sunní múslimaþjóðir, Abraham friðargjörðin. Virtist friðarsamningur milli Sáda og Ísraela vera í sjónmáli er þessi átök brutust út og virðast einmitt vera beint gegn friði milli Ísraels við Araba. Ísraelar virðast hafa skipað sér í lið með súnní araba eins og áður sagði.

En spurningin er, getur Ísrael hertekið Gaza og barist á mörgum vígstöðvum í einu? Já, sagan segir okkur það. Hermaskína Ísraels er jafnvel öflugri en áður, t.d. Iron Dome loftvarnarkerfið. Svo er það Iron Bean loftvarnarkerfið sem tekur við og á að geta skotið niður allar eldflaugar með leysigeislum með litlum kostnaði. Íraelar þurftu að draga það fram í núverandi átökum, þótt það sé enn á tilraunastigi.

Álitið er að Ísrael hafa kafbáta vopnaða kjarnorkusprengjum sem geta gert árásir á Íran. Þeir eiga fimm Dolphin-class kafbáta, allir með getu til að bera kjarnorkuvopn og nú í sumar var sjósettur INS Drakon kafbátur í Þýskalandi fyrir Ísraela sem getur borið langdrægar eldflaugar.

Flugmóðuskipa flotarnir tveir sem bandaríski flotinn hefur staðsett við botni Miðjarðarhafs á einmitt að hóta Hezbollah samtökunum loftárásum ef þeir fara af stað með hernaði. Líklega þora þeir ekki í stórátök við Ísrael, minnugir fyrri ósigra en hafa miklu herstyrk Ísrael við landamæri Líbanon eins og þeir vilja.

Líklega þróast málið svona: Ísraelher hertekur Gaza svæðið, en þeir hafa hólfaskipt svæðið í fjögur hólf og þeir taka eitt hólf í einu. Erfið átök sem þeir gefa sér tíma í, sbr. fyrri átök. Engin átök verða við aðra aðila, þótt spennustigið verður hátt. Stjórn Hamas á Gaza verður afnumin og samtökin upprætt.

Svo er að sjá hvort ráðamenn í Miðausturlöndum séu að horfa fram á veginn eða láti þetta tilvik ráða ferðinni. Friðurinn verður áfram óstöðugur, Arabaheimurinn áfram tvískiptur í tvær fylkingar og hættan á kjarnorkustríði eykst með hverju degi með kjarnorkuvopnaþróun klerkastjórnarinnar í Íran. Hvorki Ísraelar né Sádar geta sætt sig við það.   Áfram logar kveikurinn á púðurtunnunni.

Hér er farið yfir stöðuna: What If Israel Has to Fight a War on Five Fronts?

 


Mistækur ferill friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna

Margir velta fyrir sér hvað Sameinuðu þjóðirnar ætla sér að gera fyrir flóttafólk af Gasa.  Egyptar hafa læst landamærastöðinni við Rafa og flóttamenn komast þar af leiðandi ekki yfir til Egyptalands. Einn egypskur embættismaður lagði til að Evrópa tæki við flóttamönnunum. Engin Arabaþjóð vill taka við 2,3 milljónir Gasabúa.

Lagt hefur verið til að Sameinuðu þjóðirnar stígi inn í og komi upp flóttamannabúðir við landamæri Egyptalands og Gasa, Egyptalands megin. En nei, Sameinuðu þjóðirnar vilja það ekki nema öryggið verði tryggt. Hvenær er öryggi flóttamannabúða að fullu tryggt? Á ekki að mæta fólkinu þar sem það er statt í hættu?

Þetta minnir mig á hversu illa S.þ. stóðu sig í Rúanda.  Ég hef horft á tvær bíómyndir um þjóðarmorðið þar og þá síðari bara í seinustu viku og fjallaði sú um kanadískan hershöfðingja sem var þar yfir friðargæslusveitum S.þ. í landinu. 

Sveitir S.þ. voru fámennar, illa vopnum búnar, nánast ekki með nein skotfæri. Það var kanadíski hershöfðinginn í liði S.þ. sem bjargaði því sem bjarga mátti, en hann tók að sér vernd 32 þúsund manna og hunsaði þar með fyrirmæli höfuðstöðva S.þ. um að draga úr landinu allt friðargæsluliðs S.þ.  Menn vissu fullvel að þjóðarmorð var í gangi en ekkert var gert. Í valinu lágu rétt um milljón manns.

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) hafa tekið þátt í friðargæslustörfum um allan heim frá stofnun þeirra árið 1945. Þótt S.Þ. hafi náð nokkrum árangri í friðargæslu, hafa þau einnig staðið frammi fyrir gagnrýni og áskorunum í ýmsum verkefnum. Kíkjum á nokkur dæmi.

Árangurinn er sumstaðar sjáanlegur. SÞ hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að leysa átök og viðhalda friði á mörgum svæðum. Nokkur árangursrík dæmi eru friðargæsluverkefni í Namibíu, Kambódíu, El Salvador, Mósambík og Líberíu. Þessi verkefni hjálpuðu til við að koma á stöðugleika í stöðunni, auðvelda kosningar og styðja við umskipti yfir í friðsamlega stjórnarhætti.

Mistökin eru mörg. Áberandi dæmi eru þjóðarmorð í Rúanda árið 1994 og fjöldamorðin í Srebrenica í Bosníu árið 1995. Þessir hörmulegu atburðir vöktu spurningar um árangur friðargæslu SÞ, þar sem þeir áttu sér stað þrátt fyrir að SÞ-hermenn væru viðstaddir.

En þá má koma S.þ. að nokkru til varnar og liggjar þar nokkrir þættir að baki.

Í fyrsta lagi fjármagnið til friðargæslu takmarkað. Friðargæsluverkefni SÞ starfa oft með takmörkuðum fjármunum og við erfiðar aðstæður. Ófullnægjandi fjármögnun, búnaður og fjöldi hermanna getur hindrað skilvirkni þeirra. Auk þess geta verkefni í flóknu, fjandsamlegu umhverfi verið afar krefjandi.

Í öðru lagi eru verkefnin sem friðargæslusveitarnar stíga inn afar flókin. Mörg átök sem friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna eru sendir til eiga sér djúpar rætur og flóknar, þar sem taka þátt í kannski margir vopnaðir hópar, þjóðernisdeildurnar flóknar og með langri sögu ofbeldis. Að taka á þessum undirliggjandi málum er oft utan verksviðs friðargæsluverkefna.

Í þriðja lagi og hér liggur akkelishæll S.þ. Samþykki stríðsaðila þarf til að friðargæslusveitirnar stígi inn í. Friðargæsluverkefni SÞ byggja á samþykki aðila sem taka þátt í átökum. Þegar allir aðilar standa ekki að fullu samstarfi getur það hindrað getu verkefnisins til að ná markmiðum sínum. Þar með eru sveitirnar bara varðhundar, sem reknir eru í burtu þegar annar aðilinn ákveður að fara í stríð. Það gerðist í stríði Ísraela, þegar Egyptar ráku þær í burtu (svo að þær væru ekki að þvælast fyrir þegar berja átti á Ísrael).

Í fjórða lagi. Friðargæsluverkefnin geta tekið áratugi, líkt og í Kongó og Líbanon og þar með orðið breyting á umboði. Umboð friðargæsluverkefna SÞ geta breyst með tímanum, sem gerir það erfitt að laga sig að breyttum aðstæðum. Skýr og framkvæmanleg umboð skipta sköpum fyrir árangur.

Í fimmta lagi eru pólitískar og diplómatískar takmarkanir á öllum verkefnum. Friðargæsluverkefni eru oft háð pólitískum sjónarmiðum og diplómatískum áskorunum, sem geta haft áhrif á árangur þeirra. Aðildarríki SÞ hafa mismunandi hagsmuni á mismunandi átakasvæðum.

Það er greinilegt að S.þ. ráða ekki við langvarndi og flókin verkefni eins og sjá má í Kongó. Í landinu, sem kallað er lengsta borgarastyrjöld Afríku og hefur staðið í marga áratugi, er árangurinn lítill.

Betra væri ef til vill að svæðisbundin hernaðarbandalög taki að sér friðargæslu.  Svo sem Afríku bandalagið (African Union) sem sæi um friðargæslu í álfunni, með mannskap sem er ef til vill með svipaða menningu og tungu og í stríðsátakalandinu.



    


 


Að vinna allar orrustur en tapa stríðum - Bandaríkin og Ísrael

Bandaríkin hafa ekki riðið feitum hesti af heimsbrölti sínu.  Nánast undantekningalaust hafa þeir tapað stríðum eða gert jafntefli síðan í seinni heimsstyrjöldinni.  Í Kóreu stríðinu gerðu þeir jafntefli en þar háðu þeir stríð við Kínverja og skjólstæðinga þeirra, N-Kóreu (Sovétríkin á bakvið). En þessi stríð hafa öll verið háð í Fjarskanistan og í raun engin hætta við heimalandið eins og Kaninn kallar Bandaríkin.

Í Víetnam tæknilega séð unnuð þeir stríðið og fóru út með reisn en atburðarrásin leiddi til að í raun töpuðu þeir því tveimur árum síðar. Bandaríkjaher var í molum, mórallinn í göturæsinu og upp hófst endurbyggingastarf. Herkvatttir menn kvattir og atvinnumannaher komið á fót. En svo kom kærkomið stríð, gerð varð innrás í smáríkið Grenada í Suður-Ameríku, það unnið og svo Panama.

Svo var staðið í smáátökum það sem eftir var 20. aldar, sérsveitum aðallega beitt eða flughernum, sbr. Serbíu í Kosóvó átökunum.  21. öldin byrjaði ekki vel fyrir Bandaríkin, 9/11 hryðjuverkaárásin startaði öldina með hvelli og í kjölfarið voru gerðar innrásir í Írak og Afganistan.  Í báðum tilfellum hafa Bandaríkjamenn þurft að hörfa með skottið milli lappirnar, árangurinn ekki eftir erfiðið. Svo var Líbía gerð að borgarastríðslandi með loftárásum NATÓ.  Staðgengilsstríðið í Úkraníu gengur ekki vel og munu Úkraníumenn tapa. 

Ekki er hér um glæstan feril að ræða fyrir Bandaríkjamenn, En samt sem áður, hvar væri heimurinn án Bandaríkjanna? Ansi nöturlegur heimur og erfitt til þess að hugsa. Hvar væru Evrópuþjóðir þá staddar eða vestrænt lýðræði? Sovétríkin hefðu tekið yfir Vestur-Evrópu í lok seinni heimsstyrjaldar en eina sem kom í veg fyrir það var þátttaka Bandaríkjamanna með innrásinni í Normandí.  Breska heimsveldið í raun fallið, gjaldþrota andlega og peningalega. Japanir væru álfuveldi sem þeir hefðu stjórnað með járnaga og -hendi. Harðstjórnirnar réðu í raun mestallan heiminn. 

Bandaríkin eru mjúkt heimsveldi.  Þeir hertaka ekki lönd, láta sig nægja að deila og drottna á bakvið tjöldin, líkt og Rómverjar forðum.  Þeir hafa því efni á að vinna allar orrustur en tapa stríðum. En þeir vilja eitthvað fyrir sinn snúð og umstangið og því leita þeir við að tryggja sig aðgang að auðlindum víðsvegar um heiminn.

Svo er ekki að fara fyrir Ísraelmenn. Þeir mega, og hafa gert, tapa orrustum. En þeir mega ekki tapa eitt einasta stríði. Ef þeir gera það, hóta óvinir þeirra því að gereyða ísraelsku þjóðina og það eru ekki orðin tóm.

Frá stofnun hafa Ísraelmenn staðið í stríði. Í dag er það kjarnorkuvopnin sem halda aftur af andstæðingum Ísrael en jafnvel sá fælingarmáttur hefur ekki aftrað Íran að hóta árás á landið og vilja til að taka á sig kjarnorkuvopnaárás Ísrael.  Eina sem þeim vantar er að koma sér upp írönskum kjarnorkusprengjum sem þeir vinna hörðum höndum við að koma sér upp, með dyggri aðstoð ríkisstjórnar Joe Bidens.

Hér er listi stríða sem Ísraelar hafa staðið í frá stofnun ríkisins. Og nú er enn eitt stríðið að bætast við.

Sjálfstæðisstríðið var háð 1947-1949. Ísrael var stofnað sem sjálfstjórnarlands árið 1948 eftir skipulagða hertöku í Palestínu og sjálfstæðisyfirlýsingu. Stríðið markaði stofnun Ísraels og leiddi til átakanna í kjölfar þess.

Sínaístríðið 1956. Ísrael sameinaði styrk sín við Bretland og Frakkland í átökum við Egyptaland árinu 1956. Markmiðið var að binda endir á þjóðnýtingu Suez skurðsins og yfir Suður-Sínaí. Stríðið endaði með alþjóðlegum samkomulagi og friðarsamkomulagi árið 1957.

Sex daga stríðið 1967. Ísrael herjaði á Egyptalandi, Sýrlandi og Jórdan eftir er Ísraeli hófst átök við umliggjandi lönd. Forvarnaraðgerðir kölluðu Ísraelar þetta. Ísrael náði að eignast landssvæði, þar á meðal Vesturbakkann, Sínaískagann og Gazahérðið, sem það hafði ekki áður.

Yom Kippur stríðið 1973. Ísrael varð fyrir óvæntri árás nágrannaríkja sinna. Yom Kippur stríðið var aðallega við Egyptaland og Sýrland, og hófstá Yom Kippu hátíðinni. Ísrael vann stríðið á endanum en með mestu erfiðleikum.

Fyrri Líbanónstríðið var háð 1982. Ísrael sóttu inn í Líbanon árið 1982 í kjölfar áskorunanna frá PLO (Palestínska frelsissamtakanna) og Hizbollah samtakannna. Átökunum lauk með friðarsamningi.

Gazastríðin. Ísrael hefur verið viðhafandi átökum við Hamas, islamskan hryðjuverka samtökunum á Gazasvæðinu,  Ísrael yfirgaf svæðið á sínum tíma en hafa farið inn aftur til að berja á Hamas.  Þetta hefur leitt til margra árása og árása milli báðra hliða. Ísraelar segjast nú standa í raunverulegu stríði við Hamas en við eigum eftir að sjá hvernig þeim átökum líkur.

Friðarsamningar Ísraels við Arabaríkin hafa ekki verðið gerðir á grundvelli veikleika Ísraela. Heldur þvert á móti, á grundvelli hernaðarstyrks ríkisins. Israelar misstu andlitið við árás Hamasliða nú á dögunum. Þeir verða að beita hörku en fá um leið umvöndun umheimisins. Gaza verður hertekið, tímabundið a.m.k. og ný stjórn komið á.  Hvorki Egyptar né Ísraelar vilja vera með hersetuliðið á svæðinu, til þess er þetta of heit púðurtunna.

Írönsku stjórnvöld hefur tekist ætlunarverk sitt að hluta til, eyðileggja friðarferlið sem er í gangi. En kannski tekst þeim það ekki og tvær blokkir andstæðra fylkinga verði áfram. Annars vegar undir forystu Sáda og hins vegar undir forystu Írans. Uppgjört virðist óumflýjanlegt við Íran. Hvorki Sádar né Ísraelar vilja sjá kjarnorkuveldið Íran.

 

 

 

 

 


Fréttastofa RÚV

Fréttastofa RÚV er merkilegt ríkisapparat. Lengi vel var þessi eina fréttastofa landsins virt og dáð og vegna þess að það var aðeins einn ljósvakamiðill á Íslandi framan af 20. öld, þurftu starfsmenn hennar að vanda vel til verka, a.m.k. sýnast vera hlutlausir. 

Stórhluti þjóðarinnar hlustaði á útvarpsfréttir í hádeginu og um kvöldið. Einnig fjölmennti þjóðin við viðtækið á kvöldin til að horfa á sjónvarpsfréttir. Sýn þjóðarinnar á umheiminn var í gegnum þessa rörsýn fréttastofu RÚVs.

Svo kom samkeppnin, aðallega við fréttastofu Stöðvar 2. Í raun var þetta engin samkeppni, enda kom fólk sem flutti fréttirnar og valdi þær úr sama hópi menntamanna. Þetta fólk flutti sig um set, á milli fréttastofa, ef það missti vinnuna einhverja hluta vegna. Allt keimlíkt fólk með svipaðar skoðanir.

Það er einn maður sem hefur haft gífurleg áhrif á störf fréttastofunnar en það er Bogi Ágústsson.

Á Wikipedia segir að hann hafi verið "...fréttamaður hjá Fréttastofu Sjónvarpsins frá 1977-1984. Hann flutti til Kaupmannahafnar  árið 1984 og starfaði sem fréttamaður þar og flutti fréttir frá Norðurlöndum fyrir Ríkisútvarpið til ársins 1986. Árið 1987 varð hann aðstoðarframkvæmdarstjóri Ríkisútvarpsins. Um nokkra mánaða skeið árið 1988 var hann blaðafulltrúi Flugleiða, nú Icelandair. Sama ár varð hann fréttastjóri Ríkissjónvarps og gegndi starfinu til ársins 2003. Bogi varð þá forstöðumaður fréttasviðs Ríkisútvarpsins, en lét af því starfi við skipulagsbreytingar 2007. Síðan hefur hann starfað sem frétta- og dagskrárgerðarmaður."

Hann flytur enn fréttir en væntanlega er hann kominn á eftirlaun og grípur inn í fréttaþula starfið, í afleysingjum.  Bogi er mætur maður, vel máli farinn og hefur leynt vel hvaða þjóðfélagsskoðanir hann hefur, sem er erfitt að gera. Hann á því hrós skilið.  Eftir sem áður, hafa Íslendingar séð umheiminn í gegnum hans "frétta gleraugu". Það er ekki gott.

Það er eins og áherslur fréttastofu RÚV hafi breyst í gegnum árin og hún orðið róttækari, til vinstri. Hún ber sig þannig að hún sé hlutlaus en það skiptir máli hvernig framsetning frétta er, við hverja er talað og síðan en ekki síst, hvaða fréttum er sleppt. Það er nefni gífurlega margt fréttvænt efni en er sleppt vegna tímaramma sem fréttastofurnar starfa eftir.

Í dag erum við með tvo íslenska glugga út í umheiminn, í gegnum hlutdræga fréttastofu Stöðvar tvö og fréttastofu RÚV sem er líka hlutdræg, en fer leynt með það. Það eru margir einstaklingar mjög óánægðir með fréttaflutning þessara fréttastofa og leita í erlendar fréttastofur.

En það væri frábært að ef fleiri íslenskir fréttagluggar opnist út í heim, en til þess þurfa íslensk stjórnvöld að skapa umhverfi fyrir slíkt. Stjórnvöld verða því að sleppa hendinni af RÚV alfarið.  Það er ekki eðlilegt að ríkið sjálft sé að flytja fréttir! Ekki í anda alvöru lýðræðis.  Leyfa borgurum landsins að velja sér fjölmiðil sem þeir vilja styrkja með útvarpsgjaldinu umdeilda. Sköpum samkeppniaðstöðu og vonandi þannig fáum við fleiri fréttastofur.

 

 


Afburðar léleg fréttamennska RÚVs

Þegar maður heldur að fréttastofa RÚV geti ekki sokkið dýpra, gerir hún það. Furðufrétt var flutt í sjónvarpsfréttunum í gær, og aldrei þess vant, horfði ég á þáttinn.

Aðal púðrið var eytt í fréttaflutning af komandi kosningum í Pólandi. Því líkur einhliða  fréttaflutningur sér maður því miður of oft. Fréttamaðurinn talaði bara við andstæðinga núverandi stjórnar og samkvæmt þeim snúast kosningarnar um sjálft lýðræðið. Að núverandi stjórn ætli að kollvarpa því. Því fylgir ekki sögunni hvers vegna þeir hafa ekki þegar gert það, enda með völdin í höndunum.

Svo komu ruglrök um að Póland stefni að vera annað Hvíta Rússland sem er rökleysa. Póland er í ESB og NATÓ og ekkert einræðisríki er í þessum alþjóðasamtökum.  

Af hverju er RÚV með svona einhliða fréttaflutning? Jú, til að hafa áhrif á Pólverjanna á Íslandi sem skipta þúsundum. Þessi frétt er eflaust þýdd yfir á pólsku. Eftir nokkru er að slægast en milljónir Pólverja kjósa utan Pólands og þessir kjósendur kjósa frekar til vinstri. RÚV er að leggja á sínar vogarskálar svo að fólk "kjósi rétt"...til vinstri!

Slagurinn stendur milli flokksins Laga og réttlætis sem er til hægri - sem fer fyrir ríkisstjórninni og hefur gert í tvö kjörtímabil og Borgaravettvangsins sem er stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðunni og er hallast til vinstri og er undir hæl ESB.

Hér er athyglisvert fréttaskot, þótt það tengist ekki þessari frétt, læt ég það fylgja með. En í því er spurt hvers vegna fólk annað hvort þegir þegar það verður vitni að hryðjuverki og drápum á saklausu fólki eða fagnar hryðjuverkasamtökunum sem fremja hryðjuverkin.

Þeir sem horfa þöglir á hryðjuverk


Palestínumenn voru kristnir, gyðingar og múslimar

Vegna þess að menn nenna aldrei að grafa lengra en eina öld aftur í tímann í samfélagsumræðunni, skilja þeir ekki forsöguna að stofnun Ísraels og hverjir bjuggu í landinu helga. Sú mynd að gyðingar hafi streymt til landsins helga á 20. öld og tekið það yfir með stofnun Ísraelsríkis 1948 er röng. Ennþá daginn í dag, er Ísrael og Palestína áður (nær yfir mun stærra svæði en Ísraelsríki nútímans), margskipt land eftir menningu og trúarbrögðum. Sannkallað fjölþjóðaríki. Allir voru Palestínumenn. Prófum að bakka um eina öld í viðbót og fara til 19. aldar.

Á 19. öld var íbúasamsetning svæðisins sem nær yfir nútíma Ísrael og Palestínu fjölbreytt og samanstóð af ýmsum trúarhópum.

Meirihluti íbúa í Palestínu á 19. öld var múslimar (Vesturbakkinn meðtalinn og jafnvel svæði sem nú tilheyrir Jórdaníu og Sýrland). Þar á meðal eru bæði arabískir múslimar og ekki arabískir múslimar sem höfðu búið á svæðinu um aldir. Engin skýr landamörk voru enda eyðimörk á þrenna vegu og allt undir stjórn Ottómana.

Það var verulegur kristinn íbúafjöldi á svæðinu og er enn, þar á meðal ýmis kristnir trúflokkar eins og austrétttrúnaðar menn, kaþólikkar og ýmsir mótmælendahópar. Margir kristnir helgir staðir eru staðsettir á þessu svæði.

Og Gyðingar. Þó að gyðingabúar á 19. öld hafi verið tiltölulega fáir, voru enn gyðingua búsettir í Palestínu, sérstaklega í borgum eins og Jerúsalem (voru í meirihluta), Safed og Hebron.

Samfélag Drúsa hefur verið til í árhundruð. Drúsneska samfélagið hefur verið til staðar á svæðinu um aldir og er aðallega á svæðum eins og í kringum Karmelfjalli og Galíleu.

Aðrir minnihlutahópar: Á svæðinu voru einnig smærri samfélög Samverja og annarra trúarhópa minnihlutahópa.

Nákvæm trúarleg sundurliðun og íbúafjölda er erfitt að ákvarða með nákvæmni vegna takmarkaðra sögulegra heimilda. Íbúasamsetning svæðisins tók miklum breytingum á 19. öld vegna ýmissa þátta, þar á meðal fólksflutninga frá Egyptaland og öðrum múslima svæðum og trúarlegra áhrifa. Auk þess voru mörk og stjórnsýslusvið ekki þau sömu og þau eru í dag.

Ekki má gleyma að Palestínuarabar eru ekki bara múslimar, sumir þeirra eru kristnir. Gyðingar á 19. öld töldust líka vera Palestínumenn!

En kíkjum á stærsta trúarhópinn í Palestínu á 19. öld - múslimanna.

Íbúar múslima í Palestínu á 19. öld voru samsettir úr blöndu af frumbyggjum og fólki sem hafði sest að á svæðinu í margar aldir. Uppruna þessara múslima má rekja til ýmissa leiða, kíkjum á þær.

Frumbyggjarir hafa alltaf verið í landinu. Margir af múslimum í Palestínu voru afkomendur frumbyggja svæðisins, sem innihélt bæði arabísk og ekki arabísk samfélög. Þetta fólk hafði búið á svæðinu í kynslóðir og nærvera þeirra var fyrir 19. öld um aldir.

Arabískir múslimar hafa verið lengi í landinu. Meirihluti múslima í Palestínu voru arabar og nærvera þeirra á svæðinu nær aftur til útþenslu araba á 7. öld. Þessir arabísku múslimar voru oft afkomendur þeirra sem höfðu búið á svæðinu um aldir.

Fólksflutningar og landnám. Í gegnum aldirnar voru ýmsir fólksflutningar og byggðir á svæðinu vegna þátta eins og verslunar, landvinninga og trúarlegra pílagrímaferða. Til dæmis, hin heilaga borg Jerúsalem laðaði að sér múslima víðsvegar um íslamska heiminn sem staður sem hefur trúarlega þýðingu.

Og svo voru þeir sem flökkuðu um svæðið á úlföldum sínum og hafa gert um aldir með ekkert fast aðsetur. Hér er átt við Bedúínasamfélögin. Hirðingjabedúínasamfélögin á svæðinu voru einnig hluti af múslimabúum. Þeir fóru um eyðimerkursvæði Levant, þar á meðal hluta af nútíma Ísrael og Palestínu og á Arabíuskaga sem Sínískaga. Gyðingar í fornöld komu einmitt fyrst til svæðissins þann veginn.

Kannski eru gyðingar og múslimar á svæðinu skyldari en þeir vilja viðurkenna. Ef grannt er skoðað eru frumbyggjarnir ýmis gyðingar eða múslimar og eiga sömu forfeður.  

Íbúar svæðisins hafa verið á mörkunum að semja um frið og eins með Ísraelmenn og nágrannaþjóðir þeirra, sbr. Abraham samkomulaginu, Óslóar samkomulagið og friðarsamninga Egypta, Jórdana við Ísrael. Eigum við ekki að vera bjartsýn og spá friði, frekar en ófriði fyrir framtíðina? Möguleikinn er fyrir hendi.

Lærdómurinn er að þekkja alla söguna og allar hliðar áður en við komum með (for)dóma.

Núverandi staða: Ljóst er að mörg mistök voru gerð og ófyrirséðir atburðir sem leiddi til atburðarrásina eins og hún varð.  Í fyrsta lagi, fengu Ísraelar í Yom Kippur stríðinu njósnir fyrirfram um yfirvofandi hættu en brugðust seint við. Sama um þetta stríð, líkt og ég bjóst við, fengu Ísraelar njósnir þrjá daga fyrir árásina frá Egyptum en vanmátu andstæðinginn.

Hamas gerðu árás á Ísrael með stærra umfangi en áður, það er eini munurinn frá fyrri árásum þeirra. Það hefur sjálfsagt komið þeim á óvart hversu lélegar varnir Ísraela voru og því varð mannfallið svona gífurlegt.  Hverju bjuggust Hamasliðar við af hálfu Ísraela? Að sjálfsögðu hefndaraðgerðir en líklega ekki allsherjar innrás, þar sem ekki verður stoppað fyrr en allir Hamasliðar eru drepnir. Þar vanmátu þeir afleiðingar gerða sinnar. Þeir treystu á að Ísraelar þora ekki í borgarhernað með tilheyrandi mannfalli óbreyttra borgara og allra aðila (og fordæmingar heimsbyggðarinnar). En Ísraelum var stillt upp við vegginn. Þeir verða að klára þetta stríð með sigri, því að þeir "misstu andlitið" - álitið. Annars er hætt á að aðrir fari af stað og geri árás á Ísrael. Sama með Rússa, þeir verða að klára og sigra í Úkraníu stríðið, annars missa þeir "andlitið" sem stórveldi (í þeirra augum heimsveldi).

Sumir segja að ekki sé hægt að afmá slík samtök, aðrir komi þá bara í staðinn og taki upp flaggið. En það er ekki rétt. ISIS samtökin voru gjörsigruð og sagan er full af uppreisnarsamtökum sem voru gjörsigruð og hafa aldrei sést síðan.

Að lokum: Gott er að hafa í huga eftirfarandi þegar við höldum að heimurinn sé að farast nú á síðustu og verstu tímum: Heimurinn skiptist í það sem fellur undir okkar stjórn og það sem er utan við okkar stjórnar. Hamingja felst í að greina þar á milli, láta ekki það sem er utan okkar stjórnar á okkur fá og breyta rétt þegar kemur að því sem er undir okkar stjórn. Epiktets, stóuspekingur.


Hæstaréttardómarinn Antonin Scalia: Stjórnarskráin, ekki réttindaskrá, gerir BNA frjáls

Hinn látni hæstaréttadómari og lögspekingur Antonin Scalia vissi hvað stjórnarskrá Bandaríkjanna þýddi í raun.

Hæstaréttardómarinn Antonin Scalia segir það eins og það er, frelsi Bandaríkjanna kemur ekki frá málfrelsi eða prentfrelsi. Ég ætlað þýða hérna viðtal við hann, sjá slóð hér að neðan til að útskýra málið betur.

Hér hefur Scalia orðið:

"Það er ekki rétturinn til að bera vopn sem heldur okkur frjálsum, né rétturinn til að „vera öruggur … gegn óeðlilegri leit og handtöku“ eða „hröð og opinber réttarhöld með hlutlausum kviðdómi".

Ástæðan fyrir því að grunnfrelsi Bandaríkjanna hefur varað í meira en 200 ár, sagði Scalia í ræðu hjá Federalist Society í Morristown, N.J., eru ekki breytingar á stjórnarskránni heldur stjórnarskráin sjálf.

„Sérhver einræðisherra úr tinihorni í heiminum í dag, sérhver forseti með ævisetu, hefur réttindaskrá,“ sagði Scalia, höfundur bókarinnar "Reading Law: The Interpretation of Legal Texts“ árið 2012. „Það er ekki það sem gerir okkur frjáls; ef það gerðist myndirðu frekar búa í Simbabve. En þú myndir ekki vilja búa í flestum löndum í heiminum sem hafa réttindaskrá. Það sem hefur gert okkur frjáls er stjórnarskráin okkar. Hugsaðu um orðið "stjórnarskrá;" það þýðir uppbygging.

Þess vegna deildu landsfeður Bandaríkjanna ekki um réttindaskrána á stjórnarskrársáttmálanum frá 1787 í Fíladelfíu, sagði hann, heldur frekar uppbyggingu alríkisstjórnarinnar.

"Snilldin við bandaríska stjórnskipunarkerfið er að dreifa valdinu,“ sagði hann. „Þegar vald er miðstýrt gegnum eina manneskju, eða einum hluta [stjórnarinnar], er réttindaskrá bara orð á blaði.

Scalia sagði að djúpstæðasta og mikilvægasta frávikið frá stjórnarskrárgerð bandarísku þjóðarinnar og meginreglunni um sambandshyggju sem verndar ríkin gegn sambandsvaldi hafi komið árið 1913, þegar 17. breytingin var fullgilt, sem gerði ráð fyrir beinum kosningum bandarískra öldungadeildarþingmanna. Áður skipuðu ríkistjórnir bandaríska öldungadeildarþingmenn.

"Þvílíkur munur er það,“ sagði Scalia. "Þegar þú ert með frumvarp sem segir að ríki fái ekki alríkisvegasjóði nema þau hækki drykkjualdurinn í 21 árs myndi það frumvarp ekki standast. Ríkin sem höfðu lægri drykkjualdur myndu segja öldungadeildarþingmönnum sínum: "Þú kýst það og þú ert farinn".

"Þetta hefur allt breyst. Þið hafið nú öldungadeildarþingmenn sem hafa engin tengsl við ríkisstjórnina, aldrei verið í ríkisstjórn og sumir þeirra hafa aldrei starfað innan ríkisins.“

Það tók 86 ár og 187 ályktanir þar til 17. breytingin var samþykkt, samkvæmt The Heritage Foundation Guide to the Constitution. En sum ríki höfðu þegar farið í þá átt með því að halda óbindandi prófkjör til að velja bandarískan öldungadeildarþingmann sinn þar sem þingmenn ríkisins myndu skuldbinda sig til að kjósa sigurvegara þessara ráðgefandi kosninga.

En þrátt fyrir að margir litu á þetta sem jákvæða, lýðræðislega breytingu, hélt Scalia því fram að hún hafi fjarlægt mikilvægan bjálka í stjórnarskrárgerðinni sem þeir settu á laggirnar til að vernda sambandsstefnuna og ríkishagsmuni.

Sumir viðstaddir þingmenn ríkisins samþykktu það.

„Þetta var slæm framsækin hugmynd,“ sagði þingmaðurinn Michael Carroll, repúblikani í Morris Plains, N.J. "Öldungadeild Bandaríkjanna var mun móttækilegri og ábyrgari fyrir breytinguna vegna þess að hún varð að standa ábyrgð gagnvart ríkjunum."

Án 17. breytingarinnar, sagði þingmaðurinn Jay Webber, repúblikani í Parsippany, N.J., gætu embættismenn flokksins haft áhrif á landsvísu.

„Í ríki eins og New Jersey, þar sem fylkisflokkaskipan er svo sterk, gætirðu búist við því að áhrifin færast yfir til héraðsformanna og annarra valdamiðlara,“ sagði hann. „Það sem þeir gera núna á ríkisstigi, gætu þeir hafa verið í aðstöðu til að gera á landsvísu.

Þó að það gæti breytt forgangsröðun bandarískra öldungadeildarþingmanna í New Jersey, myndi afnám 17. breytingarinnar líklega ekki breyta verulega hver þjónaði, að sögn Kim Guadagno, ríkisstjóra ríkisins.

„Demókratar hafa verulegan skráningarkost í ríkinu,“ sagði hún. „Ég er ekki viss um að þú myndir sjá neina meiriháttar breytingu á því hverjir urðu öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum. En það gleður mig að sjá Scalia dómara beina athyglinni að breytingunni og hvað hún þýddi fyrir landið í heild.“

Scalia sagði að tilhneigingin til að nota stjórnarskrár sem löggjafarskjöl hafi aukist á undanförnum árum þar sem sérhagsmunir hafa lært að setja "gæluverkefni" inn í stjórnarskrár.

"Stjórnarskrá snýst um að setja skipulag; þetta snýst ekki um að skrifa óskir sérhagsmunahópa," sagði hann.

Hann sagði reyndar að því minna sem gert væri við stjórnarskrána, því betra. Í fyrirspurnatímanum spurði einhver hvort stjórnlagaþing væri í þágu þjóðarinnar.

"Stjórnlagaþing er hræðileg hugmynd,“ sagði hann. „Þetta er ekki góð öld til að skrifa stjórnarskrá."

En Scalia segist hafa farið til margra Evrópulanda. Og hann var hneykslaður á að hjá sumum Evrópuríkjum var engin aðgreining á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds (líkt og er á Íslands og hann hefði ekki haldið vatni af vandlætingu ef hann hefði komið til Íslands og skoðað starfsemi Alþingis) og hann jók lofi á tvískiptingu löggjafarþingsins, í Fulltrúardeild og Öldungadeild (líkt og var á Alþingi framan af).

Þetta hafi verið ákveðið svona af ástæðu, að víðtæk samstaða yrði um lagasetninguna sem færi í gegnum þingið, báðar deildir. Þetta væri meginvörn minnihlutans. Þessi fyrirstaða - tvískiptin - tryggi góða og vandaða löggjöf.

Eitthvað sem íslenskir Alþingismenn mættu hafa í huga en oft eru íslensk lög hrákasmíð, þ.e.a.s. þessi litla löggjöf sem er sett á Íslandi, lögin koma í dag í bílsförmum frá Evrópusambandinu án þess að nokkur æmtir eða skræmir. Einu sinni var Alþingi tvískipt. Það var afnumið. Íslendingum fannst fyrirstaðan vera of mikið vandamál, of tímafrek, nokkuð sem Scalia fannst vera kostur.

Law News Supreme Court Justice Scalia: Constitution, Not Bill of Rights, Makes Us Free

Hér útskýrir hann þetta í ræðu:


Geta útlenskir auðkýfingar keypt upp Ísland?

Björn Jón Bragason, sagnfræðingur/lögfræðingur, hefur verið með pistla í DV um að útlendingar geti vaðið hér um og keypt jarðir að vild. Hann segir að heilu héruðin geti verið í eigu útlendra auðmanna og hér þurfi að verja miklar náttúruauðlindir sem útlendingarnir ásælis. Sjá slóð hér:

Herða þarf reglur um jarðakaup erlendra auðmanna hér á landi

En hefur Björn Jón rétt fyrir sér? Er hann ekki nokkrar blaðsíður eftir á í bókinni? Hann bendir sérstaklega á breska auðkýfinginn Jim Ratcliffe sem hefur keypt upp fjölda laxveiðaáa á Austurlandi. En það er engin hætta á að Bretar geti keypt upp jarðir á Íslandi lengur eftir BREXIT, þeir eru hvorki í ESB né EES. En hvað með aðra útlendinga? Það er nánast ómögulegt fyrir aðra en íbúa Evrópska efnahagssvæðisins að kaupa land á Íslandi. 

Menn eru fljótir að gleyma að íslensk stjórnvöld bruðugst hart við þegar kínverskur auðmaður (Nupo) keypti eina landmestu jörð á Íslandi árið 2011, Grímsstaði á Fjöllum, með það í huga að byggja þar upp lúxushótel. Allt varð vitlaust á Íslandi og menn fóru að hugsa um hvernig væri hægt að koma í veg fyrir slík kaup. Ögmundur Jónasson frv. Alþingismaður þar fremstur í flokki.

Svo svifaseinir eru Íslendingar að þeir létu sér nægja að kvarta og setja í nefnd sem átti að endaskoða nýtingu auðlinda Íslands. Sjá slóð: Endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu

Jú, það tókst að girða fyrir að fólk utan Evrópu (EES) gæti keypt íslenskar jarðir. En Jim Ratcliffe og á meðan Bretland var í ESB, var hann stórtækur í landakaupum. Þá loks brugðust íslensks stjórnvöld almennilega við. 

Svo seint sem árið 2021 kvörtuðu Íslendingar yfir ágangi útlendinga.

Í Bændablaðinu frá 2021, í greininni Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna, sjá slóð;

Ekkert lát á landhremmingum auðmanna á bújörðum vítt og breitt um jarðkringluna  segir eftirfarandi:

"Sama þróun á Íslandi

Ísland er engin undantekning í þessum efnum og eru miklar efasemdir uppi um að breytingar á íslenskum lögum sem gerðar voru á síðasta ári dugi til að stemma stigu við þessari þróun hér á landi. Ráðherra eru þar veittar víðtækar heimildir til að víkja frá skilyrðum laganna. Þar segir m.a. að ef væntanlegur kaupandi er hvorki íslenskur ríkisborgari né erlendur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi eða á rétt á samningum sem tilgreindir eru, er unnt að sækja um leyfi ráðherra til þess að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi. Ráðherra er þá heimilt að veita leyfi til að víkja frá skilyrðum laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna í tveimur tilvikum er varða atvinnustarfsemi og vegna sterkra tengsla við Ísland, m.a. vegna hjúskapar.

Lögin lítill hemill á jarðakaup útlendinga

Engar strangar takmarkanir eru í raun á hversu mikið land útlend­ingar geta eignast á Íslandi. Þó ákvæði séu um að skylt sé að afla samþykkis ráðherra er ekkert sem bannar honum að veita undanþágur fyrir eignarhaldi útlendinga á meiru en 1.500 hekturum. Þó skal samþykki „að jafnaði ekki veitt ef viðtakandi réttar og tengdir aðilar eiga fyrir fasteign eða fasteignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð, nema umsækjandi sýni fram á að hann hafi sérstaka þörf fyrir meira landrými vegna fyrirhugaðra nota fasteignar“.

Heimildir um kaup útlendinga á jörðum á Íslandi eru því eins opin og hugsast geta. Engin skyldu­ákvæði eru t.d. um að þeir þurfi að hafa verið búsettir á Íslandi um tiltekinn tíma, né að þeim sé skylt að hafa fasta búsetu á jörð sem þeir kaupa. Enda virðast lögin ekki hafa verið til vandræða við kaup Power Minerals Iceland, á Hjörleifshöfða ásamt 11.500 hektara jörð síðla árs 2020 fyrir 489 milljónir króna. Það samsvarar 115 ferkílómetrum. Til samanburðar er allt land Reykjavíkurborgar um 273 km2. Þetta félag er skráð hérlendis, en er í 100 prósent eigu þýska fyrirtækisins STEAG Beteilungsgesellschaft."

Getur verið að Björn Jón hafi verið að lesa þessa grein og skrifað sína út frá þessari?  En margt breytist á tveimur árum, stundum a.m.k. og lítum því á á stöðuna í dag. Það voru nefnilega gerð breytingarlög nr. 79/2022, ári eftir að umrædd grein í Bændablaðið var skrifuð.

Á vefsetri Dómsmálaráðuneytisins er grein um fasteignakaup útlendinga. 

Þar kemur fram að:

  • Öllum íslenskum ríkisborgurum og erlendum ríkisborgurum sem hér eiga lögheimili er heimilt að eiga fasteign á Íslandi.
  • Sérstakar reglur gilda um erlenda ríkisborgara og lögaðila sem njóta réttar skv. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, EFTA-samningnum eða Hoyvíkur-samningnum milli Íslands og Færeyja og þurfa þeir ekki leyfi ráðherra að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
  • Dómsmálaráðherra er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að veita leyfi fyrir eignarrétti eða afnotarétti ef sá sem hyggst kaupa fasteign er erlendur ríkisborgari sem ekki á hér lögheimili eða nýtur ekki réttinda skv. framangreindum samningum. Ekki þarf þó leyfi þegar um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með ekki lengri en árs fyrirvara.
  • Sérstakar reglur gilda um lögaðila.

Fasteignaréttindi útlendinga

Á mannamáli þýðir þetta að aðeins erlendir ríkisborgarar innan EES geta keypt hér fasteignir (jarðir) en sérstakt leyfi ráðherra þarf "Ef væntanlegur kaupandi er hvorki íslenskur ríkisborgari né erlendur ríkisborgari með lögheimili á Íslandi eða á rétt skv. framangreindum samningum er unnt að sækja um leyfi ráðherra til þess að öðlast eignar- eða afnotarétt yfir fasteign hér á landi."

Leyfi ráðherra skal taka til ákveðinnar fasteignar, skal stærð hennar ekki vera meiri en 3,5 hektarar og umsækjandi má ekki eiga aðrar fasteignir hér á landi.

Undanþágu frá skilyrðum um stærð og fjölda fasteigna má veita ef umsækjandi stundar atvinnustarfsemi og sýnir fram á að honum sé þörf á fleiri eða stærri eignum vegna atvinnustarfseminnar. Þó má stærð fasteignar aldrei vera meiri en 25 hektarar. Þetta þýðir að einstaklingur sem sækir um leyfi ráðherra á grundvelli 2. tölul. 2. mgr. ákvæðisins þ.e. ekki til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi, má hvorki eiga aðrar fasteignir á Íslandi né má fasteign sú sem hann óskar eftir að eignast vera stærri en 3,5 hektara. Regla þessi er án undantekninga segir á vefsetrinu.

Ég held að þetta gildi líka um erlend fyrirtæki sem hyggjast kaupa upp jarðir, þau eru sett undir sama hatt og erlendir einstaklingar. En þeir/þau geta og mega eiga í íslenskum fyrirtækjum. Þau eru ekki staðsett í lausu lofti, þau eru byggð ofan í íslenska moldu. Þannig kemur líklega undantekningin fyrir rétt á 3,5 hektara eiginarlandi en það sem svarar þremur stórum lóðum. Venjulegt sumarbústaðaland er ca. hálfur til einn hektari. Meðalstærð jarða á Íslandi er 650 hektarar. Sjá MS-ritgerðina Landmarkaðurinn á Íslandi 1998-2014 Þróun jarða- og lóðarverðs í dreifbýli

Er þetta ekki alveg skýrt eða vita Björn Jón og Ögmundur Jónasson meira en við hin? Kannski eru þeir með betri lesskilning en bloggsíðuhafi.

 

 

 


Að vanmeta andstæðing sinn

Ef eitthvað er sem hernaðarsagan kennir okkur er það að það óvænta, ómögulega, fjarstæðukennda og fáranlega gerist.  Það sem getur farið úrskeiðis, fer úrskeiðis og meira en það.

Stríðssaga er full af slíkum atburðum. Ardenna sókn Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni, gagnárás Egypta í Yom Kippur stríðinu þegar þeir brutust í gegnum varnir Ísraelmanna o.s.frv.

Hér er tekið eitt dæmi úr nýliðinni sögu en það er Indíanastríðin svo kölluðu. Ég hef skrifað blogg grein um þetta tímaskeið í bandarískri sögu og ætla ekki að rekja þá sögu. En ég ætla að taka fyrir einn bardaga eða orrustu, þar sem Bandaríkjamenn, líkt og Ísraelmenn í dag vanmátu andstæðing sinn herfilega. 

Bandaríkjamenn, líkt og Ísraelmenn, voru vanir að fást við vanbúna andstæðinga; þeir við indíána illa vopnum búna sem stunduðu skæruhernað og sama á við um Ísraelmenn, sem hafa átt í höggi við vanbúin skæruliðasamtök Hamas.  Í báðum tilfellum bjóst sterkari aðilinn ekki við miklu af andstæðingi sínum og svaf á verðinu. Hér er ég að tala um bardagann við Little Bighorn sem og árás Hamas liða á landamærasvæði Ísraels við Gasa.

Allir sem eru áhugasamir sögu villta vestursins þekkja þennan bardaga við Little Bighorn. Förum aðeins í söguna.

George Armstrong Custer hershöfðingi er ef til vill þekktastur fyrir hlutverk sitt í orrustunni við Little Bighorn, mikilvægan atburð í indíánastríðunum í Bandaríkjunum. Helstu mistökin sem Custer gerði sem leiddu til ósigurs hans í orrustunni við Little Bighorn var að vanmeta stærð og styrk indíána ættbálka sem hann stóð frammi fyrir en hann bjóst við að þeir myndu flýja en ekki standa saman sem einn stór indíánaher. Sama gildir um Hamasliða, sem nú standa í raunverulegu stríði við Ísraelmenn, ekki með skæruhernað eða hryðjuverk og akta sem raunverulegur her. Það er nefnilega margt sameiginlegt með báðum átökunum.

Hér eru nokkur helstu mistök sem Custer gerði en fyrsta og hættulegasta mistökin var að vanmeta óvininn. Könnun Custer hafði gefið til kynna að hann stæði frammi fyrir mun minni hersveit innfæddra stríðsmanna indíána undir forystu leiðtoga eins og Sitting Bull og Crazy Horse. Byggt á þessum upplýsingum skipti Custer hersveitum sínum í þrjár aðskildar herfylkingar og taldi að hann gæti auðveldlega sigrað herbúðir frumbyggja.

Ákvörðun Custer um að skipta herafla sínum var mikilvæg villa eða mistök. Það þýddi að hermenn hans voru færri í hverri einingu og skorti þann stuðning sem þeir þurftu þegar þeir mættu miklu stærri frumbyggja hersveit. Ef við lítum á viðbúnað Ísraelmanna við landamærin að Gasa, voru varnargirðingar lélegar og auðvelt að yfirbuga varðturna og varðstöðvar. Of fáir hermenn til varnar.

Að hunsa innkomnar upplýsingar voru stór mistök. Custer hunsaði viðvaranir og skýrslur frá Crow og Arikara útsendara sínum, sem veittu nákvæmar upplýsingar um stærð og styrk innfæddra herbúða. Hann vísaði viðvörunum þeirra á bug, sem voru alvarleg mistök. Í tilfelli Ísraelmanna hefur verið sagt að þeir treysti um og á gervigreindar eftirlit í stað greiningamanna, fólks með góða rökhyggju og raunsætt mat á stöðuna hverju sinni.

Hermenn Custer voru ekki nægilega undirbúnir fyrir langvarandi bardaga. Þeir voru létt búnir og höfðu takmarkaðar vistir, sem setti þá í óhag þegar þeir mættu vel skipulagðum og ákveðnum óvini. Sama á við um Ísraelmenn, það tók þrjá daga að hreinsa landamærasvæðið af hryðjuverkamönnum, þeir voru ekki tilbúnir, ekki með mannskap og búnað. Nú síðast, hafa þeir kallað út varasveitir sínar, 300 þúsund manns en þetta tekur gífurlegan tíma að framkvæma.

Custer var þekktur fyrir brjálaðan og árásargjarnan leiðtogastíl og gæti hafa verið of öruggur á eigin getu og sinna manna. Þetta oftraust gæti hafa stuðlað að því að hann ákvað að ráðast á mun stærra lið. Og hann mátti alveg vera ofuröruggur, reynslan hafði kennt Kananum annað en að indíánar væru færir um að koma sér upp her.  Það á eftir að koma í ljós hvort hershöfðingjar og leyniþjónustur Ísraelmanna hafi ofmetið sig, það verður að teljast líklegt úr því að svo fór sem fór.

Sem afleiðing af þessum mistökum varð Custer og öll herdeild hans yfirbugað og hann sigraður af frumbyggjabandalaginu í orrustunni við Little Bighorn júní 1876. Custer og margir menn hans féllu í orrustunni. En hér skilur á milli Ísraelhers og Bandaríkjahers. Ísraelmenn voru ekki yfirbugaðir, þótt þeir hafi verið gripnir í bólinu, líkt og í Yom Kippur stríðinu, þá er næsta víst að þeir beri sigur af hólmi.  Það fer fyrir Hamasliðum og indíánum, þeim verður útrýmt sem andstæðingum.

Hver er lexían af báðum dæmunum? Að búa sig undir það ómögulega, það mun óhjákvæmilega gerast. Sama gildir um Íslendinga og þeirra varnarmál. Það þýðir ekki að líta á síðasta stríð og undirbúa sig eftir því, því að næsta stríð verður nefnilega öðruvísi. Engum er að treysta, hvorki vinum né andstæðingum, jafnvel ekki okkur sjálfum. Eigum við ekki að búa okkur undir það ómögulega?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband