Bloggfærslur mánaðarins, október 2023

Samfylkingin fagnar falli formanns Sjálfstæðisflokksins en er sjálf með spillta forystu

Samfylkingin hugsar glatt til glóðarinnar þegar fyrirséð er að ríkisstjórnin er í andaslitum. Fylgið mælist hátt í skoðanakönnunum og nýtt andlit er komið á flokkinn með nýjum formanni.  Allt í glimmrandi gengi.

Formaður Samfylkingarinnar bendir með vandlætingarsvip á formann Sjálfstæðisflokksins og talar um spillingu en sá síðarnefndi var "dæmdur" af umboðsmanni Alþingis vanhæfur vegna fjölskyldutengsla við sölu Íslandsbanka.

En er það ekki verra að vera sjálf(ur) viðriðin banka hneyksli? Grípum niður í nýlega frétt frá því í sumar.

"Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, greiddi 25 milljónir til Skattsins í vor eftir tilmæli sem send voru til allra sem höfðu starfað hjá Kviku banka og fjárfest í áskriftarréttindum eða kaupréttum, sem voru í boði fyrir starfsmenn bankans.

Það var mat Skattsins að greiða ætti tekjuskatt, en ekki fjármagnstekjuskatt, af hagnaðinum. Heimildin greinir frá."

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Viðkomandi reyndi að greiða sem minnsta skatta en fjármagnstekjuskattur er helmingi lægri en tekjuskattur.  Allt í lagi með það, fólk finnst nóg um hversu djúpt í vasann ríkisvaldið seilist með skattlagningu og reynir að borga minna.

En pólitískt séð, kemur þessi vandlæting úr hörðustu átt. Formaður Samfylkingarinnar boðar nefnilega skattahækkanir þegar flokkurinn kemst til valda. Það er ekki nóg að fólk sé að sligast vegna verðbólgu, það á að herða skattaskrúfuna á puttanna enn frekar. Sjá hér: Ýmis viðtöl við Kristrúnu á Útvarpi sögu

Það á sem sagt að efla velferðakerfið.  En það verður aldrei gert nema a) tilfærsla skattfés frá einum málaflokki í annan; b) spara í ónauðsynlegum málaflokkum eða c) hækka skatta.

Samfylkingin boðar ekki skattalækknanir.  Kaldhæðislega séð en formaður Sjalla vill bankaskatt. Það er eflaust vinsæl skattlagning hjá almenningi enda er hann orðinn þreyttur á ofurhagnaði bankanna. En bankarnir munu bara hækka gjöld á þjónustu sinni til að missa ekki spón úr aski. Það er nefnilega fákeppni á bankamarkaðinum.

Formaðurinn vill skattleggja arðinn af fiskveiðiauðlindinni. Það er líka vinsælt að gera og uppi á pallborði hjá almenningi. En þetta er enn ein skattlagningin á atvinnulífið.

Og svo koma boð og bönn og afskiptasemi ríkisvaldsins af markaðinum.  Formaðurinn segir að það verði að skylda lífeyrissjóði til að fjárfesta í húsnæðisuppbyggingu. Þetta hljómar saklaust á yfirborðinu en getur haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir lífeyrissjóðina. Það er nefnilega skylda þeirra, fyrir hönd umbjóðenda sinna - launafólkið í landinu, að fjárfesta í atvinnulífinu þar sem það er hagkvæmast og gefur mestan arð.  Tökum ímyndað dæmi. Lífeyrissjóður á 1 milljarð. Hann er neyddur til að fjárfesta í húsnæðis í stað, segjum bara fiskeldi, sem gefur kannski helmingi meiri arð af sér.  Sjóðir lífeyrissjóða eru í einkaeigu sjóðsfélaga og stjórnmálamenn eiga ekkert með að skipta sér af sjóðum, sparifé eða atvinnulífinu yfir höfuð.

Flokkurinn vill setja á leiguþak. Hvað þýðir það? Enn ein afskiptin af atvinnulífinu.  Frjálst framboð og eftirspurn ekki látin ráða. Markaðurinn leiðréttir sig ekki vegna þessara afskipta. Af hverju fyrir verktakann að bjóða fram fleiri leiguíbúðir ef arðurinn er skertur? Hvatningin, græðgin, er tekin úr sambandi. Menn eru ekki í atvinnurektri til að tapa sparifé sínu eða í sjálfboðavinnu. Kapitalískt hagkerfi virkar ekki þannig. Í Kína er offramboðið á íbúðum svo mikið að nefndar eru tölurnar 1,4 milljarðar til 3 milljarða íbúða sem standa tómar, einmitt vegna þess að stjórnvöld hafa skipt sér af hvernig fólk fjárfestir sparifé sitt (fáir möguleikar fyrir venjulegt fólk en að fjárfesta í íbúð).

Svo kemur þessi venjulega rulla: "Almennar launahækkanir koma aldrei í staðinn fyrir öflugt velferðarkerfi og aðgengilegan húsnæðismarkað og ef menn ætla að setja fram hóflegar kröfur í kjaraviðræðum þá sé nauðsynlegt að velferðarkerfið verði gert öflugra á móti sem og félagslega húsnæðiskerfið. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kristrúnar Frostadóttur formannns Samfylkingarinnar í síðdegisútvarpi Sögu." Sem sagt, launafólk á steinhalda kj..., ekki biðja um launahækkanir vegna verðbólgu en taka á sig skattahækkanir því að það á stækka velferðakerfið.

Hvað á að gera í sambandi við verðbólguna? Formaðurinn segir "...að það sé mat Samfylkingarinnar að til þurfi að koma tvíþætt nálgun, annars vegar aðgerðir til þess að halda aftur af verðbólgu (innskot, það er ekki útskýrt hvernig) og hins vegar aðgerðir til þess að vernda ákveðna hópa fyrir verðbólgunni. Hún segir mjög mikilvægt að þungi verðbólgunnar verði lagður frekar á þá sem geta betur tekist á við hana heldur en þá sem minnst hafa."

Hvernig ber að túlka þessi vísu spakmæli og vísidóm? Jú, skattlagning á millistéttina, efri og neðri og þá sem eru efnaðir. Tilfærsla fés fólk sem það hefur unnið sér inn á heiðarlegan hátt, til annarra. Jafnaðarmenn eru og verða alltaf ójafnaðarmenn.

30% kjósenda vilja þetta (búnir að gleyma hruninu) og ætla sér að kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum. Verði þeim að góðu en því miður fyrir okkur hin, við þurfum að líka lepja úr þessari þunnu naglasúpu með þeim.

 

 


EES samningurinn frá 1992 er úreldur

Það er löngu tímabært að dusta rykið af rúmlega þrjátíu ára samningi EFTA þjóða við ESB.  Þetta var upphaflega samningur en hefur breyst í valdboð frá Brussel. Nýjustu dæmin er bókun 35 sem við Íslendingar eigum ekki að samþykkja eða staðfesta. Svo má nefna ruglboð frá ESB í sambandi við mengunskatta á skipa- og flugsamgöngur Íslendinga skaðar hagsmuni okkar ótvírætt.

Íslenskir stjórnmálamenn eiga að fyrst og fremst, endurtek, fyrst og fremst að gæta hagmuni lands og þjóðar. Ef hagsmunir Íslendinga eða lög stangast á við ákvæði EES-samninginn, þá eiga íslensk lög (íslenskir stjórnmálamenn hafa enga heimild til að afsala völdum til yfirþjóðlegs valds) að gilda. Í stjórnarskránni segir hvergi að afsala megi valdi til erlendra ríkja eða ríkjasambanda. En svo er beinlínis sagt í bókun 35:

Í frumvarpi til stuðnings bókunar 35 segir: 

  1. gr. laganna orðast svo:

Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

Er þetta eitthvað óskýrt? Er ráðherra með því að leggja þetta fram að brjóta stjórnarskrá Íslands?

Út á hvað gengur EES-samningurinn eiginlega? Að reglugerðir og ályktanir sem ESB kemur með, verði sjálfkrafa lög?  Hafa EFTA-ríkin sett fram reglugerðir, ályktanir eða lög sem skylda ESB til að gera eitthvað? Hefur það einhvern tímann gerst? Ég spyr í fullri alvöru og gott væri ef einhver gæti sagt mér sannleikann.

Og hafa EFTA-ríkin samþykkt allt, eða réttara sagt Ísland, samþykkt allt sem blýantnagarnir í Brussel dettur í hug? Lítum aðeins á EES-samninginn eins og hann var við innleiðingu hans 1992.

  1. HLUTI

MARKMIÐ OG MEGINREGLUR

  1. gr.
  2. Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES.
         2. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru í 1. mgr. skal samstarfið í samræmi við ákvæði samnings þessa fela í sér:
  1. frjálsa vöruflutninga;
  2. frjálsa fólksflutninga;
  3. frjálsa þjónustustarfsemi;
  4. frjálsa fjármagnsflutninga;
  5. að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum; og einnig
  6. nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála.

Hvar er talað um að ESB eigi að íhlutast um innri málefni ríkisins? Svo sem orkumál okkar. Eða skattleggja okkur? Er ESB ekki komið langt út fyrir valdsvið sitt? Jú, það hefur gert það en af hverju? Jú, eðli ESB hefur breyst gífurlega á þessum þremur áratugum. Í stað þess að vera ríkjasamband, þar sem ríkin eru frekar sjálfstæð um innri málefni, hefur það breyst eða ber merki þess að vera sambandsríki (í eintölu), líkt og ríki Bandaríkjanna eða kantónur Sviss. 

Aðildarþjóðir ESB finna greinilega fyrir valdamissirinn og því eru uppi deilur innan þess um valdsvið og skyldur aðildarþjóða. Þetta yfirþjóðlega vald eða ríki mun eiga sitt tímaskeið, líkt og með öll fjölþjóðaríki en hvað kemur svo er óvíst.

 


Húrra fyrir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra!

Bjarni hefur sýnt stjórnvisku og pólitíska ábyrgð með því að axla ábyrgð á gjörningum sínum. Umboðsmaður Alþingis segir að fjármálaráðherra hafi ekki verið hæfur til að samþykkja tillögu Bankasýslunnar um sölu á hlut í Íslandsbanka í mars á síðasta ári. Bjarni er ekki sammála þessari niðurstöð en hlítur henni.

Það er sjaldgæft að stjórnmálamenn á Íslandi taki ábyrgð á gjörðum sínum, síðast er að minnast hvalamál Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra, þar sem ráðherra fór tæknilega séð út fyrir valdmörk sín með tímabundnu hvalveiðibanni en heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Vei slíkri ákvörðun.

Nú er bara fyrir Bjarna að endurnýja umboð sitt gagnvart kjósendum og samflokksmönnum sínum og hann á endurkomu aftur í pólitíkina.  Ég tek hatt minn að ofan fyrir slíkri ákvörðun. Svo er það annað mál hvort að ríkisstjórnin sé ekki bara fallin og boðað verði til kosninga á næstunni?

"Völdum fylgir ábyrgð", segir Bjarni Benediktsson. Hverju orði sannara.

 

 


Pólitíkin í Miðausturlöndum er einföld en samt flókin

Misvísindi skilaboð eða fréttir berast frá Miðausturlöndum.

Nokkuð ljóst er að það ríkir kalt stríð á landsvæðinu og skiptast andstæðar fylkingar annars vegar í bandalag undir forystu Sádi-Arabíu en hins vegar bandalag undir foryrstu Írans og er þessi skipting að mestu byggð á trúarörmunum, Sjía og súnní. Sjía-menn eru í meirihluta í Íran, Írak, Aserbaídsjan og Barein og fjölmennir í Líbanon, en súnnítar eru í meirihluta meira en fjörutíu ríkja frá Marokkó til Indónesíu. 

Annars staðar er skiptingin í trúar og pólitískar fylkingar óljósari. Eins og til dæmis í Jemen. Jemenar skiptast í tvo helstu íslamska trúarhópa: 65% súnníta og 35% sjía. Aðrir telja fjölda sjíta vera 30%. Svo er staðan flókinn í Sýrlandi en Íran hefur studd bakið við núverandi stjórn í borgarastyrjöldinni. Stærsti trúarhópurinn í Sýrlandi eru súnní-múslimar, sem eru um 74% íbúanna, þar af eru arabískumælandi súnnítar í meirihluta.  Íranir hafa mikil áhrif á bæði löndin pólitískt.

En auðljóst er að Íranir og Sádar eru að keppast innbyrgðis um hvort ríkið er öflugast í Miðausturlöndum.  Ísrael er þarna flækt í þessari valdabaráttu. Engar pólitískar breytingar hafa í raun átt sér stað síðan landið gerði friðarsamninga við Egyptaland og Jórdaníu. Svo kom Donald Trump til sögunnar og frægt friðarsamkomulag var undirritað af hálfu Ísrael við Barein, Morrókkó, Súdan og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Sádar skrifuðu ekki undir en þeir voru baksviðs. Þeir t.d. leyfðu flug Ísraela yfir Sádi-Arabíu sem er beinlínis viðurkenning á tilverurétt Ísraels.  Abraham samkomulagið var og er þyrnir í augum Írana.

Nýverið hafa borist fréttir af að Ísrael og Sádi-Arabía væri hugsanlega að fara að skrifa undir friðarsamning. Í því ljósi er ekki skrýtið að Íran hugsi sér til hreyfings og beiti fyrir sig fylgjara sína í Hamas samtökunum og Hezbollah í Líbanon til árása á Ísrael. Ástæðan er auðljós. Sú fylking sem hefur Ísrael með sér í liði, hefur yfirhöndina enda Ísrael kjarnorku- og herveldi. En svo hittust samninganefndir Sáda og Írana og ræddu saman með milligöngu Kína. Hvað er í gangi? Hvað er að gerast á bakvið tjöldin?

Þótt þessi árás Hamas á Ísrael hafi komið á óvart líkt og gerðist í Yom Kippur stríðinu 1973, sem var talið vera álitshnekkir fyrir Ísrael stjórn, náðu Ísraelsmenn fljótt vopnum sínum og sigruðu með afgerandi hætti.

Lærdómurinn var sá að ákveðið var að koma á fót hóp sérfræðinga sem ætti að sjá fyrir sér alla möguleikar og ómögulegar hættur sem steðji að Ísraelsríki.  Svona árás hefur örugglega verið sett fram sem sviðsmynd. En tímasetningin og raun upplýsingar í tíma hefur kannski vantað hjá Ísraelmönnum, en það á eftir að koma í ljós. Ísraelmenn höfðu t.d. veður af væntanlegu stríði 1973, voru að byrja að kalla saman varalið en of seint.

Nú er spurning hvort Íran takist að reka fleyg í bandalag Arabaþjóða við Ísrael. Hvort sem verður, þá munu Ísraelmenn ekki hætta fyrr en Hamas-samtökin eru úr sögunni og það er bara gert með innrás í Gaza. Afleiðingin verður hernám þessa 400 ferkílómetra svæðis, sett verður á fót ný stjórn á svæðinu sem er Ísraelmönnum þóknanlegri. En svo er það spurning hvort Ísraelmenn fari lengra og geri árás á Íran eða Líbanon. Það er því mjög ófriðvænlegt í þessum heimshluta og ekkert nema stríð framundan. Uppgjör verður á einn veg eða annan.

Að lokum, það er bara ein leið fyrir Hamas-liða að fá eldflaugar, vopn og skotfæri og það er í gegnum Sínaískagann. Talað er um að einstaka hershöfðingjar í Egyptalandi séu hliðhollir Hamas og hjálpað eða leyfi hergagnaflutninga til Gaza. Eldflaugarnar sem rigndi yfir Ísrael voru flestar heimagerðar. En það þarf líka fjármagn til að gera slíkar eldflaugar og vopna, þjálfa og reka herliða Hamas en talið er að minnsta kosti 1000 Hamas-liðar hafi farið yfir landamæri Ísraels.

Fjarvera Bandaríkjanna í pólitík Miðausturlanda er eins og hróp í eyðimörk.  Galin ríkisstjórn Joe Bidens, sem nýtur enga virðingar á alþjóðavettvangi, hefur hleypt Kínverjum inn í geópólitík svæðisins og aðkoma slíkt stórveldis gerir ekkert annað en að flækja stöðuna enn frekar. Reyndar hafa Bandaríkjamenn ekkert gert annað en að skilja eftir sviðna jörð í Miðausturlöndum og oft hafa afskipti þeirra verið til hiðs verra. Í valdatíð Donalds Trumps, þegar Bandaríkjamenn voru óháðir um olíu frá þessum heimshluta, var mjög friðvænlegt umhorfs og samskiptin frábær.

En nú, vegna galina græna stefnu Biden stjórnarinnar, er orkuskortur og hátt eldsneytisverð í Bandaríkjunum.  Bandaríkjamenn munu því hugsanlega fara að skipta sér aftur af pólitík svæðisins.

 

 


Herlausa Ísland í vondum félagsskap?

Staða Íslands á sér ekki hliðstæðu í nútímasögunni.  Ákvarðanir Íslendinga síðan þeir mynduðu lýðveldi hafa verið skynsamar en á sama tíma ekki rökréttar.  Íslendingar völdu að leita skjóls hjá stærsta hernaðarveldi heims, Bandaríkin. Það er að mörg leiti skiljanlegt og jafnvel misgáfaðir íslenskir stjórnmálamenn skildu að heimurinn væri breyttur og friðurinn og hlutleysið væri úti eftir seinni heimsstyrjöldina.  Við yrðum að fara í hernaðarbandalag til að tryggja hagsmuni Íslendinga.

NATÓ hefur reynst okkur traustur bakjarl og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin frábær á tímum kalda stríðsins.  En nú eru aðrir tímar. Aldrei síðan við gengum í NATÓ hafa Íslendingar reynt að treysta á eigin varnir og komið sér upp eigin her.  Við höfum elt Bandaríkjamenn eins og kjölturakkar og þar sem Bandaríkin eru stríðsveldi, eru þeir líkt og Rómverjarnir forðum stöðugt í stríðum eða átökum víðsvegar um heiminn. Óvinir Bandaríkjamanna eru þar með óvinir Íslendinga. Það kom berlega í ljós þegar Úkraníu stríðið hófst.

Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra Íslands yppar gogg við annað mesta hernaðarveldi heims, Rússland, líkt og kjölturakki sem geltir á bakvið eiganda sinn.  Það má alveg sýna Úkraníu mönnum stuðning á margvíslegan hátt en fyrr má nú vera að slíta nánast diplómatísk bönd við Rússland. Það gerðum við ekki þegar Sovétríkin fóru inn í Ungverjaland og Tékkóslóvakíu en gerum það nú eitt NATÓ-ríkja. Hvers vegna, það er óskiljanlegt.  Það er einmitt sú leið sem farin verður til að binda átökin, með diplómatískum samræðum þegar friður verður ræddur.

Svíar og Finnar fannst að sér vegið og brutu blað í sögunni með því að sækja um inngöngu í NATÓ, sem er ef til vill ekki skynsamlegt skref og jafnvel mistök af þeirra hálfu.  Við ættum að reyna að fjarlægast hernaðarbrölt Bandaríkjamanna eins og hægt er, vera áfram í NATÓ en sjá sjálf um landvarnirnar með eigin her. Hvað fáum við út úr því? Jú, Ísland verður ekki fyrsta skotmarkið í næstu heimsstyrjöld eins og það er núna.

Veit ekki hvort við getum lýst yfir hlutleysi með stofnun íslensks hers, en nokkuð ljóst er að við erum í hættulegum félagsskap í dag sem getur dregið okkur í alls kyns ófærur.

Þórdís Kolbrún tók þátt í utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins

 

 

 


Gamli sáttmáli og EES-samningurinn

Vandasamt er að gera samninga við önnur ríki eða ríkjasambönd. Íslendingar gerðu milliríkjasamninga við erlend ríki þegar á þjóðveldisöld en Alþingi Íslendinga samdi við Noregskonung um réttindi Íslendinga í Noregi og öfugt. Vanda verður gerð slíkra samninga enda geta áhrifin varað í hundruð ára ef ekki er vel að gætt. 

Hér er fróðlegt og jafnvel lærdómsríkt að kíkja á Gamla sáttmálann svonefnda sem Íslendingar gerðu við Noregskonung 1262-64 og hvernig hann hafði áhrif á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga upp aldarmótin 1900. Lítum fyrst á skilning Jóns Jónssonar sagnfræðings sem skrifað ritið Nýji sáttmáli. Gamli sáttmáli. Afsal eða ekki? Hann segir:

Hér skal þá í stuttu máli gerð grein fyrir, hver réttur Íslendingum er áskilinn í »Gamla sáttmála«, því þetta skjal ber að réttu lagi að skoða sem forn grundvallarlög um stöðu Íslands í sambandinu við Noreg.

Með »Gamla sáttmála« er íslendingum trygt fult og óskorað sjálfstæði í öllum innanlandsmálum og alþingi Íslendinga fult löggjafarvald í öllum slíkum málum án afskifta eða íhlutunar frá nokkurs manns hendi nema konungs eins. — Íslendingum er trygt hið æðsta dómsvald í öllum málum sínum, nema að því leyti, er alþingi kynni að dæma eitthvert mál á konungsvald. — Íslendingum er trygt fult jafnrjetti við Norðmenn í öllum greinum, og því heitið, að stjórnarvöldin á Íslandi skuli jafnan fengin íslenzkum mönnum í hendur.

Þetta er aðalinntak »Gamla sáttmála« að því er til sérmálanna kemur. Eftir þessu er þá ísland frjálst sambandsland Noregs með fullu sjálfstæði eða fullveldi í öllum innanlands málum.

En hver eru þá eftir »Gamla sáttmála sameiginleg mál Noregs og Íslands? Eftir »Gamla sáttmála« er konungur sameiginlegur með Íslendingum og Norðmönnum, en konungi sjálfum fylgja utanríkismálin. Þessa atriðis verða menn vel að gæta, því á því veltur aðalþrætan um þessar mundir, á því veltur deilan um, hvort hér er um nokkurt afsal að ræða eða eftirgjöf á fornum rétti. Utanríkismál eru að vísu hvergi nefnd berum orðum í »Gamla sáttmála«, en þess ber að gæta, að íslendingar áttu þá eigi önnur utanríkismál en verzlunarmálin, og þau er nefnd berum orðum í grein þeirri, er áskilur Íslendingum 6 skipsfarma árlega, með öðrum orðum: Þeim er skipað á vald konungs. Að þetta hafi svo verið í raun og veru, þótt því hafi eigi verið næg eftirtekt veitt hingað til, — að utanríkismálin (verzlunarmálin) hafi verið falin konungi til meðferðar á þann hátt, er honum sjálfum þóknaðist, og að hann hafi ráðstafað þeim einn eða í samvinnu við hið norska ríkisráð, án nokkurrar íhlutunar af hálfu Íslendinga, er hægt að sanna með óyggjandi rökum. Frá því á síðari hluta 13. aldar, nokkru eftir að landið gekk undir konung, hafa Noregskonungar einir og Danakonungar eftir þá, skipað til um verzlun Íslands, hafa leyft og bannað erlendum þegnum verzlun á Íslandi, gert samninga við aðra þjóðhöfðingja um slík mál, og það að Íslendingum fornspurðum, án nokkurrar íhlutunar eða afskifta af hálfu alþingis Íslendinga. Eg skal tilfæra hés nokkur dæmi þessu til sönnunar.

Árið 1269 leyfir Eiríkur konungur Magnússon Hamborgurum verzlun og vetrarsetu í öllu ríki sínu (Ísl. fornbréfasafn II, 302). Bréfið er á latínu og hefir því eigi verið lagt fyrir alþingi íslendinga. Árið 1302 gefur Hákon háleggur ásamt með ríkisráði sinu út bréf, er bannar útlendingum verzlun í norðurhluta Noregs og á Íslandi (Ísl. fornbrs. II, 332). Þessu bréfi er á engan hátt mótmælt af alþingi Íslendinga, en öllum kröfum öðrum, er Krók-Álfur kom út með um þessar mundir (1301—1305), t. d. um skipun norskra lögmanna á Íslandi, og skatt-tekju, er harðlega mótmælt og taldar ólögmætar eftir »Gamla sáttmála. Árið 1348 bannar Magnús konungur Eiríksson útlendum kaupmönnum verzlun í skattlönd(Ísl. fornbrs. II, 845). Árið 1419 leyfir Arnfinnur hirðstjóri Þorsteinsson í umboði konungs utanríkiskaupmönnum verzlun og útróðra á íslandi (Ísl. fornbrs. V. 269). Árið 1432 gera þeir Eiríkur af Pommern og Hinrik VI. Englakonungur samning sín á milli út úr sundurþykkju og óeyrðum, og ná nokkrar greinar í þeim samningi sérstaklega til Íslands (Ísl. fornbrs, IV, 523). Samningurinn er á latínu og hefir því eigi verið lagður fyrir alþingi íslendinga.

Svo mætti lengi halda áfram, en þetta nægir til að sýna, að afskifti konungs af þessum málum verða eigi skoðuð sem gjörræði, heldur fullheimil. Þetta eru mál, sem algerlega eru á valdi konungs og hann getur skipað til um og hagað eftir vild sinni. Því er hvað eftir annað mótmælt, að konungur hafi nokkurn rétt til að skipa fyrir um innanlandsmál án samþykkis landsmanna, en hinu aldrei. Og það er hinsvegar eigi kunnugt, að alþingi Íslendinga hafi á þessum tímum nokkru sinni skipað til um utanríkismál að sínu leyti.

Nánar ákveðið er þá réttarstaða Íslands eftir »Gamla sáttmála« þessi: Ísland er frjálst sambandsland Noregs, og Íslendingum er áskilið fullveldi í öllum sérmálum sínum, en konungi í utanríkismálum.

Þetta er sá réttargrundvöllur, sem Íslendingar hafa jafnan staðið á í stjórnmálabaráttu sinni við Dani frá því á dögum Jóns Sigurðssonar. Að fá þessum kröfum framgengt, að fá afstöðu Íslands til Danmerkur kipt í þetta horf, hefir sífelt vakar fyrir Íslendingum sem hin heitasta þjóðarósk. Um það hafa þeir meun orðið á eitt sáttir, er drengilegasta framgöngu hafa sýnt í hinni löngu stjórnmálabaráttu vorri."

Heimild: Nýji sáttmáli. Gamli sáttmáli. Afsal eða ekki?, eftir Jón Jónsson sagnfræðing, útg. 1908. Sjá slóð: Nýji sáttmáli. — Gamli sáttmáli. Afsal eða ekki?

Hvers vegna skiptir þetta máli í dag? Jú, við höfum afsalað okkur völdum til erlends aðila, í þetta sinn til yfirþjóðlegs valds - ESB í formi EES samningsins - í stað Noregskonungs.  Við erum að leyfa erlendum aðila að koma með inngrip í íslenska löggjöf og stýringu á íslenskum utanríkismálum. Fyrsta skrefið í valdaafsalinu er að gefa erlenda yfirvaldinu heimild til að leyfa að erlend lög (ekki einu sinni lög, geta verið reglugerð eða ályktun EES) gildi umfram íslensk lög samkvæmt bókun 35 ef þau erlendu stangast á við þau íslensku. Þetta virðist vera saklaust á yfirborðinu, við bara breytum íslenskum lögum. En þá komum við að framkvæmdinni og raunveruleikanum. Því þótt EES - samningurinn ætti að samkvæmt hljóðana orða að vera samningur milli tveggja eða fleiri aðila, hafa íslenskir stjórnmálamenn aldrei hafa dug eða "pung"  til standa á sínu og neita einstaka reglugerðum síðan samningurinn tók gildi 1992. ALDREI.

Þessi sakleysislega  breyting eða innlimun inn í íslensk lög, getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Eru það ekki bara ýkjur kunna sumir að segja? Nei, er einhver búinn að gleyma ICESAVE? Eins og með gamla sáttmála, hefur EES-samningurinn áhrif á verslun og samgöngur Íslands við Evrópu. Nú nýjasta nýtt svokallaði mengunarskattur á flug- og skipasamgöngur við Íslands sem gerir Íslendingum erfitt fyrir að ferðast til annarra landa og aukaskattur á vörur sem koma til landsins.

Eigum við ekki aðeins að anda með nefinu og hugsa aðeins lengur? Nú er tilvalið að endurskoða EES-samninginn enda orðinn meira en 30 ára gamall. Er hann enn samkvæmt íslenskum hagsmunum?

 

Friðarverðlaun Nóbels falla ekki alltaf réttum aðila í hönd - Samanburður á Obama og Trump

Það er óhætt að segja að menn uppskeri ekki alltaf það sem þeir sá.  Stundum fær nágranninn eða andstæðingurinn laun erfiðisins með því að gera ekki neitt nema að vera til.

Þetta rifjast upp þegar rýnt er í samtímasöguna og hvernig Nóbelnefndin norska var og er pólitísk í eðli sínu. Það er enn í fersku minni margra þegar Barack Obama, þá nýkjörinn Bandaríkjaforseti, fékk friðarverðlaun Nóbels. Maðurinn hafði í sjálfu sér lítið gert til að verðskulda þennan heiður, enda tiltölulega nýlega tekinn við völdum.

Norska Nóbelnefndin sem úthlutar þessum verðlaunum tilkynnti um þetta í nóvember 2009. Í greinargerð nefndarinnar segir að Obama hljóti verðlaunin fyrir að berjast fyrir því að grynnkað verði á kjarnorkuvopnabúrum kjarnorkuveldanna og fyrir áherslur sínar á frið í heiminum. Obama leggur til dæmis mikla áherslu á að knýja fram frið í Miðausturlöndum.

Það er nokkuð skondið að fá fyrirfram verðlaun fyrir eitthvað sem maður segist ætla að gera, en gerir svo ef til vill aldrei eða ætlaði sér aldrei að gera. Af hverju norska Nóbelnefndin ákvað að verðlauna Obama fyrirfram er hulin ráðgáta. Kannski ætlaði að nefndin að binda hendur hans fyrirfram og gera hann að friðarforseta hvort sem honum líkar betur eður verr.

Obama reyndist aldrei vera friðarhöfðingi. Honum tókst ekki að binda endi á stríðið í Afganistan og í valdatíð hans, sem stóð frá 20. janúar 2009 til 20. janúar 2017, komu fram hryðjuverkasveitir ISIS sem stofnuðu Kalífaríki. Það var eftirmaðurinn hans, Donald Trump, sem þurfti að slökkva þá elda.

Sem sé, Obama stóð í margvíslegum átökum í forsetatíð sinni.

Sumar mikilvægar hernaðaraðgerðir og átök í valdatíð hans voru meðal annars stríðið í Afganistan. Bandaríkin höfðu tekið þátt í stríði í Afganistan síðan 2001 sem hluti af víðtækari stríðinu gegn hryðjuverkum, og þetta hélt áfram meðan Obama forseta var við völd. Reyndar fyrirskipaði hann aukningu fjölda hermanna senda til Afganistan árið 2009 sem hluti af stefnu til að koma á stöðugleika í landinu.

Vegna misvísinda skilaboða sem ríkisstjórn hans sendi til heimsins, varð framhald á Íraksstríðinu. Þó að stórum bardagaaðgerðum í Írak hafi formlega lokið áður en Obama forseti tók við völdum, var enn umtalsverð viðvera Bandaríkjahers í Írak á meðan hann var forseti. Bandaríkjamenn drógu hermenn sína til baka frá Írak í lok árs 2011, en sumir hermenn voru eftir í þjálfunar- og ráðgjafarskyni og var svo alla hans valdatíð.

Svo má nefna Operation Inherent Resolve. Þessi aðgerð fólst m.a. í þátttöku bandarískum hersveitum sem hluti af bandalagi sem barðist gegn Íslamska ríkinu (ISIS) í Írak og Sýrlandi. Það hófst árið 2014 og hélt áfram í forsetatíð Obama.

Hernaðaraðgerðir í Líbíu. Árið 2011 gerðu Bandaríkin og bandamenn þeirra í NATO loftárásir í Líbíu sem hluti af alþjóðlegu átaki til að vernda óbreytta borgara og framfylgja flugbannssvæði í borgarastyrjöldinni í Líbíu. Þessu misheppnuðu aðgerðir gerðu ekkert annað en hvetja til borgarastyrjaldar og óstöðuleika í landinu. Síðan þá hefur landinu verið skipt í tvennt, og tvær ríkisstjórnir sitja í Líbíu.

Drónaárásir Bandaríkjahers hafa alla tíð verið umdeildar en hann hikaði ekki við að styðjast við þessa bardagaaðferð. Obama forseti heimilaði fjölda drónaárása á grunaða hryðjuverkamenn í ýmsum löndum, þar á meðal Pakistan, Jemen og Sómalíu, sem hluti af víðtækari viðleitni gegn hryðjuverkum. Þetta jaðrar við stríðsglæpi, ef ekki árás á sjálfstæði viðkomandi ríkja enda höfðu Bandaríkjamenn ekki lýst yfir stríði á hendur viðkomandi ríki.

Þá komum við að þætti Donalds Trumps.Í forsetatíð Donalds Trumps, sem stóð frá 20. janúar 2017 til 20. janúar 2021, var nokkur athyglisverð þróun tengd stríði og friði.

Donald Trump tók við þrotabúi fyrirrennara sinn, Obama og varð framhald á þeim átökum sem fyrir voru þegar hann tók við völdum.

Mörg hernaðarátakanna sem voru í gangi áður en Trump forseti tók við embætti héldu áfram á forsetatíð hans. Þar á meðal var stríðið í Afganistan og baráttan gegn ISIS í Írak og Sýrlandi. Þó Trump hafi lýst yfir vilja til að draga bandaríska hermenn til baka úr þessum átökum, varð umtalsverð fækkun hermanna ekki fyrr en seint á forsetatíð hans. Í lok forsetatíð hans var til áætlun um brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan sem Biden klúðraði svo eftirminnilega.

Donald Trump treysti aldrei Írönum til að standa við samkomulag um að koma sér ekki upp kjarnorkuvopnum og afturköllun frá Íran kjarnorkusamningnum varð að raunveruleika. Í maí 2018 tilkynnti Trump forseti afturköllun Bandaríkjanna úr sameiginlegu heildaraðgerðaáætluninni (JCPOA), almennt þekktur sem Írans kjarnorkusamningurinn. Þessi ákvörðun jók spennuna við Íran og leiddi til aukinna refsiaðgerða Bandaríkjanna gagnvart efnahag Írans.

Sá einstaki atburður varð í heimssögunni að friður ríkti og viðræður átti sér stað milli Bandaríkjanna og N-Kóreu í valdatíð Trumps. 

Trump tók þátt í áberandi erindrekstri við leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un. Þetta fólst m.a. í sér sögulega fundi milli leiðtoganna tveggja á árunum 2018 og 2019. Þó að þessir fundir hafi vakið bjartsýni um möguleika á afvopnun kjarnorkuvopna og friðar á Kóreuskaga, voru framfarir takmarkaðar og spennan var viðvarandi en engin átök áttu sér stað. En Trump var fyrstu Bandaríkjaforseta til að ræða beint við einræðisherra N-Kóreu.

Helsta afrek Trumps var að koma á friði í Miðausturlöndum með Abraham samkomulaginu svonefnda. Árið 2020 hafði Trump-stjórnin milligöngu um samninga milli Ísraels og nokkurra arabaríkja, þar á meðal Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Súdan og Marokkó. Þessir samningar, þekktir sem Abrahamssáttmálinn, voru taldir mikilvægur diplómatískir árangur í Miðausturlöndum. 

Það vakti furðu sumra að norska Nóbelsverðlauna nefndin tók Trump ekki til greina sem Nóbelsfriðarverlaunahafa fyrir þetta afrek en margir tilnefndu hans sem verðugan verðlaunahafa. Jared Corey Kushner, tengdasonur Trumps lék þar stórri rullu við að koma friði á.

Borgarastríðið hélt áfram í Sýrlandi í valdatíð Trumps og stendur enn. Bandaríkin héldu áfram að taka þátt í Sýrlandsdeilunni og í forsetatíð Trump, fyrst og fremst með stuðningi sínum við hersveitir undir forystu Kúrda í baráttunni gegn ISIS. Árið 2019 fyrirskipaði Trump forseti brotthvarf bandarískra hermanna frá norðausturhluta Sýrlands, ákvörðun sem sætti gagnrýni fyrir að hafa hugsanlega gert bandamenn Kúrda berskjaldaða.

Það er mikilvægt að hafa í huga að nálgun Trumps forseta að utanríkisstefnu og alþjóðasamskiptum einkenndist af áherslu á tvíhliða samningaviðræður, löngun til hernaðarafnáms á ákveðnum sviðum og vilja til að nota efnahagslega skiptimynt í bland með refsiaðgerðum. Nálgun hans á hnattræn málefni einkenndist oft af ófyrirsjáanleika og breytingum á stefnumótun og hræddi hann margan einræðisherrann til samstarfs með því móti, sbr. einræðisherra N-Kóreu.

Á heildina litið voru bæði diplómatísk afrek og áframhaldandi átök í forsetatíð Donald Trump, sem gerir það að flóknu tímabili hvað varðar stríð og friðarvirkni.

Það mætti bæta við hvernig forsetatíð Joe Bidens er til samanburðar við þá Obama og Trumps.  Hann fer illa út í slíkum samanburði. Má þar helst nefna hörmulegt brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan, í raun algjöran ósigur, pólitískt og hernaðarlega gagnvart illa vopnuðum Talibönum. Brotthvarf Bandaríkjahers úr landinu segja sumir hafa verið verra en úr Víetnam. Algjör álitshnekkir sem enn er ekki sopið úr ausunni enn.

Joe Biden tókst ekki diplómatískt að koma í veg fyrir stríð í Úkraníu og í raun er hann að kynda undir áframhaldandi átökum með vopnasendingum og fjárstuðningi við Úkraníu stjórn. Hætta er á frekari átökum í Evrópu, sbr. liðssafnað Serbíu við Kósóvó.

Kínverjar láta ófriðlega við Taívan enda virðast þeir ekki bera neina virðingu fyrir Joe Biden og kumpánum hans (nú er verið að rannsaka spillingarmál hans og hvort Kínverjar hafi keypt aðgang að honum og hvort hann hafi framið landráð með að þiggja mútur frá Kína og fleiri ríkjum). 

Framtíðin er ekki björt hvað varðar friðarhorfur og í raun er mikil hætta á beinum átökum milli kjarnorkuveldana Bandaríkin og Rússland. Það þýðir bara eitt, ragnarök og þriðja heimsstyrjöldin og kannski gjöreyðing mannkyns.     

 


Íslendingar læra aldrei af reynslunni - Samfylkingin boðar endurkomu með skattahækkunum

Óhætt er að segja að Íslendingar sumir hverjir eru með gullfiska minni. Nú þegar Samfylkingin hefur verið fjarri valdakötlunum um tíma, hafa kjósendur gleymt hörmungarsögu hennar. 

Samfylkingin skipti um andlit, fékk nýjan formann sem virkar sjarmerandi en það eru ekki umbúðirnar sem skipta máli, heldur innihaldið. 

Innihaldið er það sama og þegar Samfylkingin kom okkur í kreppu og viðhélt henni eftir hrunið 2008. Nýjasta afrek Samfylkingarinnar er í Reykjavík, þar sem borgin er með skuldarviðmiðið 199% en við 200% markið tekur nefnd á vegum Samband íslenskra sveitarfélaganna við stjórnartaumanna, enda telst hún þar með tæknilega gjaldþrota og nefndin stjórnar þrotabúinu.

Núverandi oddviti Samfylkingarinnar fer hrósi sigrandi frá Reykjavíkurborg, á síðustu stundu í björgunarbátinn og lætur einfelding frá Framsókn fara niður með skipinu. Nú hefur hann boðað komu sína í landsmálin, guð blessi Ísland þá!

Þegar litið er á stefnuskrá flokksins, er hún full af loforðum, fallegum orðum en lítið um innihald. Tökum dæmi. Við ætlum að viðhalda góðu heilbrigðiskerfi. Auðvitað! Allir flokkar vilja það, en hvernig? Ætlar flokkurinn að leyfa í meira mæli einkarekstur? Og hvernig ætlar flokkurinn að tryggja heimilislækni á hvern íbúa þegar heimilislæknar eru ekki til í raunveruleikanum. Hókus pókus, hér kemur nýr heimilislæknir handa þér, veskú!

Hér er stefnulýsing Samfylkingarinnar, lesendur geta sleppt því að lesa hana, hún segir ekkert af viti eða eitthvað nýtt.

Stefnulýsing Samfylkingarinnar - Manifesto

En fyrir öll kosningaloforðin sem þýðir aukin útgjöld, er ekki minnst á hvernig eigi að fjármagna öll gæðin sem flokkurinn boðar.  Það er ekki gert öðruvísi en með hærri skatta. Sum sé, það á ekki að hagræða og spara, það á ekki að minnka útgjöld ríkisins og þar með er er Samfylkingin í raun skattaflokkur.

Borgum við ekki nógu mikið í skatta? Og hvar stendur flokkurinn í stóru málunum, innflytjendamálunum og stríðinu í Úkraníu? Styður flokkurinn við stefnuna um opin landamæri og áframhaldandi stríð í Úkraníu? Hvernig ætlar flokkurinn að kveða niður verðbólgudrauginn?

Samfylkingin er sósíalistaflokkur og slíkir flokkar eru alltaf fjandsamlegir atvinnulífinu og frjálsu framtaki (segjast styðja frelsi en hefta það með skattaálögum og afskiptum).

Vill Samfylkingin að við förum inn í ESB? Hér er Victor Davis Hanson að tala um að alþjóðavald hafi aldrei gengið upp í mannkynssögunni: No One Can Rule The World

 

 

 

 

 


Kevin McCarthy vikið úr embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings er söguleg tíðindi

Hann hefði mátt segja sjálfum sér að hann væri valtur í sæti en hann trúði ekki að hægt væri að koma honum úr embætti. Það þurfti 30 umferðir til að kjósa hann í upphafi og með þeim formerkjum að einn þingmaður gæti borið upp vantraust yfirlýsingu á hendur hans og borið undir atkvæðagreiðslu. Nú hefur það gerst.

Fjölmiðlar hérlendis keppast við að kalla andstæðinga hans vera yst til hægri og þeir séu n.k. hægri öfga. En það er bara ekki rétt. Þeir sem felldu hann voru búnir að vara McCarthy við að hann yrði að skera niður fjárlög enda stefnir í $2 billjónir halla rekstur á ríkissjóð en heildarskuldir ríkisins eru komnar upp í $33 billjónir (e. trillions). Vaxtagjöldin slaga upp í $1 billjón (milljarður milljarða). Þótt ríkir séu, bera Bandaríkjamenn ekki svo miklar skuldir til langframa.

Kannski var það sem gerði útslagið er að Joe Biden sagðist hafa gert samkomulag við McCarthy um áframhaldandi fjáraustur í Úkraníu stríðið eftir að núverandi bráðabirgða fjárlagatímabil lýkur eftir 45 daga en sá síðarnefndi neitaði.

Hann fór heldur ekki eftir beiðni flokksmanna sinna um að greitt yrði um einstaka útgjaldalið, í stað pakka atkvæðagreiðslu en í slíkum pakka leynist margir útgjaldaliðir sem annars hefðu e.t.v. ekki verið samþykktir. Þannig hlaða útgjaldaliðirnir utan á sig eins og snjóbolti á leið niður brekku af því að allir vilja koma sína að. 

Er loksins komin ábyrgð í bandarískum stjórnmálum? Getum við Íslendingar e.t.v. einnig komið slíku fyrirkomulagi á? Til dæmis fjárlögin 2023-24 yrðu afgreidd úr Alþingi eftir kosningu um helstu kostnaðarliði. Greitt atkvæði um heilbrigðismál, svo menntamál, þ.e.a.s. stóru liðina.

 

 


Upphafið að heimsveldi Bretlands - Útrás Evrópu

Inngangur

Setja verður landvinninga í sögulegt samhengi og útrás Evrópuþjóða út í hinn stóra heim og stöðu Evrópu í samtímanum.

Hvati eða þörf Evrópumanna til að finna hafleiðina til Asíu leiddi til þess að Afríka og Ameríka komust á heimskortið en í Asíu áttu að leynast mikil auðæfi fyrir þá sem þau kynnu að nýta.  Margir tilraunir voru gerðar til að finna hagkvæma verslunarleið og greiðfæra, m.a. landleiðina og er ferð Marco Polo eftir silkileiðinni einhver sú þekktasta.  Ferð hans gerði Evrópumönnum kunnugt landleiðin til Asíu.

En enn átti eftir að finna hafleið sem væri ekki lokuð af óvinveittum íslömskum þjóðum. Portúgalar riðu á vaðið og sigldu niður með strönd Afríku.  Bartholomeu Dias sigldi fyrir Góðravonarhöfða fyrstur manna (a.m.k. Evrópumanna) 1487 og Vasco da Gama innsiglaði siglingaafrekið með því að fara fyrir höfðann og alla leið til Indlands 1497.  Þar með hafði opnast bein siglingaleið Evrópumanna til Asíu í austurátt.

Í Asíu þessa tíma voru voldugt landveldi, með miklum mannfjölda og framleiðslugetu, meir en Evrópumenn höfðu á að skipa.  Hins vegar voru sjóleiðir almennt opnar og auðvelt yfirtaka þær með hervaldi.   Portúgalar voru fyrstir sem það gerðu og voru þeir annað hvort í þjónustu konungs eða síns eigin en skömmu síðar fylgdu Hollendingar eftir, með hollenska Austurindíafélaginu (Dutch East India Company) og gerðust keppinautar þeirra.

Fljótlega bættist í hópinn Englendingar með enska Austurindíafélagið (The East India Company) með verslunarleyfi frá ensku krúnunni.

Í meira eða minna í þrjár aldir, létu Evrópumennirnir sig nægja að ná undir sig verslunarstöðvar (faktóra eða factories) um alla Asíu en réðust ekki á landveldin.  Það gerðist svo seint sem á seinni helmingi 18. aldar, er Englendingar byrjuðu að leggja undir sig Indland (Múgalaveldið) og skattleggja íbúanna.

Herflotaveldi Evrópumanna lagði grunninn að sjóveldi þeirra í Asíu sem og gott verslunarskipulag.  Hins vegar var veldi þeirra, yfirráð yfir framleiðslu og verslun, ekki eins afgerandi og í Ameríku og Afríku.  Þeir urðu að stóla á bandalög og sambönd við innlenda valdhafa.  Þeir voru í mikilli innbyrgðissamkeppni, kepptust um hafnir og markaði en um leið við keppinauta frá öðrum menningarheimi, hinum íslamska.

Mér finnst vert að hafa í huga hvað þetta varðar, er að þarna opnuðu Evrópumenn leið fyrir síðari tíma heimsverslun, en það hafði aldrei gerst áður í heimsögunni að allur heimurinn hafi orðið að einu verslunarsvæði, með Ameríku, Asíu, Afríku, Evrópu og síðar Ástralíu sem eitt verslunarsvæði. Þetta eru afrek Evrópumanna, en það er aukaatriði hvort þeir hafi ráðið einhverjar ákveðnar verslunarleiðir eða ekki. Það er eins og nú sé í tísku hjá fræðimönnum (kannski að reyna að leiðrétta halla á söguskýringum fyrri tíma) að gera sem minnst úr afrekum Evrópumanna, með tilvísanir í dæmi hér og þar um gagnstæð afrek annarra þjóða.  Það er hins vegar gott og blessað, svo lengi sem það villir mönnum ekki sýn.

Englendingar á Indlandi 

Í fyrstu áttu Englendingar í basli við Hollendinga líkt og Portúgalar en tókst að breyta stöðunni. Enska Austurindíafélagið var ekki eins miðstýrt og hið hollenska og það var ekki eitt um hituna.   Sjálfstæðir kaupmenn fengu að reka verslun samhliða verslun enska Austurindíafélagsins en þeir ensku höfðu muni minna fjármagn og lausfé til umráða en Hollendingar.  Tilraunir Englendinga til að komast inn á markað Hollendinga mistókust að mestu leyti. Þeir snéru sér því frá Indónesíu til Indlands.  Þangað komu þeir ekki í hlutverki trúboða líkt og Portúgalar né til að ná pólitískum yfirráðum líkt og Hollendingar.  Hvorki pólitískar né trúarlegar ástæður lágu þarna að baki, einungis viðskiptalegar.

Englendingar treystu á pólitísk sambönd og "leyfðu" viðkomandi valdhöfum að halda völdum.  Það var fyrst árið 1665 sem Englendingar stofnuðu litla nýlendu á Indlandi en þeir treystu á náð og vilja múgalskra yfirvalda til 18. aldar en þá fór veldi múgalska veldisins hnignandi og upplausnarástand hófst.

Verslun Englendinga vestur á bóginn og við Surat minnkaði en jókst við Kína, Philippseyja og Indónesíu.  Madras varð aðalbækistöð Englendinga á Indlandi en missti stöðu sína til Kalkútta í lok 17. aldar.

Múgalska veldið

Múgalska veldið á Indlandi var stofnað af Timurid og Tyrkjum frá Túrkenistan í byrjun 16. aldar með hernaði.  Stjórnkerfi þeirra var byggt á hernaðarveldi, æðstu stjórnendur voru herforingjar og hernaðarelítan (mansabdars) réði öllu ásamt háembættismönnum.  Þessir menn tóku þátt í viðskiptum og þátttaka þeirra varð síðar að vísi að kaupmannastétt.

Valdastigveldi múgalska ríkisins byggði á samskiptum við millistjórnendur og gat það bæði verið kostur og ókostur.  Ókostur þegar vald þess var í lágmarki en þá gátu millistjórnendur farið sínu fram, en kostur þegar hægt var að fara framhjá millistjórnendunum og stýra beint. 

Annar vandi ríkisins var trúarlegs eðlis en hindúar voru mjög á móti stjórn múslima sem og ýmsir svæðisbundnir menningaheimar í landinu.  Trúarlegt umburðarlyndi stjórnvalda breyttist með tímanum í ofsóknir.  Valdasundrung í ríkinu á seinni hluta 17. aldar opnaði leið fyrir afskipti Englendinga af innri málefnum ríkisins.

Þróun enskrar stjórnar á Indlandi

Þessi þróun hófst í Kalkútta (1690) og héraðinu Bengal, þar sem Englendingar deildu og drottnuðu.  Með samsærum og stuðningi við hernað, tókst enska Austurindíafélaginu að komast yfir mikið fjármagn og meiri valda.  Árið 1765 náðu það tökum á hinni borgaralegu stjórnsýslu í Bengal og hóf gegndarlausa skattheimtu.  Með áframhaldandi hernaði, tókst það að auka veldi sitt smám saman (með beinni og óbeinni stjórn eftir aðstæðum).  Þar með var félagið orðið að hernaðar- og stjórnsýslulegum armi breskra stjórnvalda.   Allt ferlið var háð tilviljunum og ekki farið eftir fyrirfram ákveðinni áætlun um innlimun.

Múgalska ríkið gliðnaði niður í mörg ríki og borgarastyrjaldarástand ríkti.  Það reyndist auðveld fyrir Englendinga að leggja undir sig eitt ríki af öðru, þar sem þau voru sundruð innbyrgðis.  Indverjar voru látnir borga stríðskostnaðinn er Englendingar höfðu náð fullum yfirráðum.

Nýtt mynstur í landafgjöldum og skattheimtu

Millistjórnendurnir, Jagirdarar og Zamindarar, áttu ekki landið sem þeir hirtu afgjaldið af en nutu arfgengina réttinda til þessara starfa.  Þetta var gjörólíkt kerfinu sem Englendingar komu á, sem m.a. stofnuðu nýja stétt landeigenda, bæði innlendra og samlanda sinna.

Nýr her og stjórnsýsla

Nýr her var stofnaður undir stjórn Englendinga, með enskum yfirmönnum og indverskum  undirmönnum (sepoys).   Lágsettir yfirmenn, kallaðir ,,bhadralok” í hernum mynduðu nýja valdastétt eða kasta sem var mjög vilhöll Englendingum en í óþökk þeirra valdahópa sem urðu undir í valdabaráttunni.

Uppreisnin 1857

Á 19. öld var vart vaxandi misrétti í viðskiptum Englands og Indlands.  Englendingar fengu að flytja inn skattfrjálsan iðnaðarvarning meðan indverskur varningur var háður hömlum og bönnum.  Efnahagsleg áhrif breytingana voru gífurleg og höfðu slæm áhrif sumstaðar en jákvæð annars staðar.  Óánægðan með breytingarnar breyttist í uppreisn gegn valdstjórn Englendinga 1857.   Hún var barin niður með miklu mannfalli heimamanna. 

Þetta setti hins vegar strik í reikninginn hvað varðar frekari umbætur og reyndu Englendingar í staðinn að beina athyglinni að gamla kastakerfinu sem stjórnarformi. Önnur afleiðing var sú að Englendingar einangruðu sig frá Indverjum og urðu að hálfgerðri aðalstétt.

Frá Indlandi til Kína

Pólitísk og efnahagsleg valdaaukning Englendinga fór saman við aukna verslun við Kína.   Kínversk stjórnvöld voru eftir sem áður mjög ófús að hleypa útlendingum inn í kínverska verslun.

Kínverskir smáfurstar voru í fararbroti í viðskiptunum við Englendinga en kínverskum stjórnvöldum tókst að loka fyrir þessa verslun með því hreinsa strandlengjuna af mannfólki og yfirtaka strandhéruðin.   Þegar það hafði tekist, var komið á viðskiptum við erlenda kaupamenn í mörgum höfnum.   Þessi verslun var lokuð um 1760 af keisaravaldinu og var erlendri verslun beint um borgina Kanton sem var eina höfnin sem var opin fyrir útlendinga.  Englendingar sóttust eftir postulíni, silki og lyf en Kínverjar vildu ekkert annað en silfur.

Ópíum fyrir te

Englendingar voru þó fyrst og fremst að eltast við te og te neyðsla jókst gífurlega í Englandi og fyrir það þurftu þeir að borga í silfri sem var þeim mjög óhagstætt, því að silfrið frá Ameríku fór ekki til baka vestur. 

Þetta var gamall vandi frá tímum Rómverja, að góðmálmur flaut frá vestri til austurs og sat þar fastur.  Ameríska byltingin skar á flæði mexíkóska silfursins til Kína og baðmullarframleiðslan í Kína, varð meiri en sú sem kom frá Indlandi. Afleiðingin var sú að Englendingar lentu í vanda með greiðsluform fyrir keyptar vörur.  Svarið við þessu var framleiðsla ópíum í Indlandi fyrir Kínamarkaðinn.  Gífurlegur hagnaður var af þessari verslun og nú höfðu Evrópumenn eitthvað að selja Kínverjum.  Silfrið tók að streyma frá Kína þrátt fyrir kvóta og hömlur ýmis konar og hafði margvísleg félagsleg vandamál í sveitum landsins í för með sér.

Verslun á Kyrrahafi

Evrópumenn keyptu og versluðu með sandalvið (sandalwood) frá hinum ýmsu eyjum í Kyrrahafi og seldu áfram til Kína.  Mikill hagnaður var af þessari verslun.  Alls konar varningur fór til heimamanna í staðinn fyrir viðinn, þó helst vopn.  Verslun milli eyja jókst með verslunarneti Evrópubúa og öflug ríki urðu til með evrópskum vopnum.

Lokaorð

Nútímamenn, þar með talið Evrópumenn, gera sér ekki grein fyrir af hverju heimsálfan er svona rík og voldug í heimskipan nútímans, þótt hún sé ekki annað en botnlangi úr Asíu og agnarsmá. En sagan og þróunin er skýr ef hún er á annað borð lesin.

Hér hefur verið rakin þróun veldis Evrópu og sérstaklega Breta á nýöld en leita má aftur til krossferða til að skilja útþrá Evrópumanna. Evrópa hefur lagt undir sig allan heiminn á síðastliðnum þrjú hundruð árum, með verslun og viðskiptum, landvinningum og hernaði.

Ekki er séð fyrir endir á veldi vestrænnar menningar, þótt Evrópumenn samtímans séu í óða önn að eyðileggja hana innan frá með fráhvarfi frá hefðbundnum gildum og innleiðingu menningu og trú ættuð frá Asíu. Aldrei hefur innstreymi fólks annars staðar frá inn í álfuna verið eins og í dag og það mun hafa gífurleg áhrif á vestræna menningu innan Evrópu. Annað hvort breytist evrópsk menning og aðlagast eða til kemur fjölþjóða borgarastyrjalda. Ljóst er að Austur-Evrópuríki eru ekki eins tilbúin að gefa eftir gildi og menningu sína eins og Vestur-Evrópuríki og verða örlög þeirra önnur. En þetta er önnur saga en hér er sögð. Vestræn menning mun þó lifa utan álfunnar þegar hún er löngu horfin úr Evrópu og í sögubókum. Það er huggun harms.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband