Upphafið að heimsveldi Bretlands - Útrás Evrópu

Inngangur

Setja verður landvinninga í sögulegt samhengi og útrás Evrópuþjóða út í hinn stóra heim og stöðu Evrópu í samtímanum.

Hvati eða þörf Evrópumanna til að finna hafleiðina til Asíu leiddi til þess að Afríka og Ameríka komust á heimskortið en í Asíu áttu að leynast mikil auðæfi fyrir þá sem þau kynnu að nýta.  Margir tilraunir voru gerðar til að finna hagkvæma verslunarleið og greiðfæra, m.a. landleiðina og er ferð Marco Polo eftir silkileiðinni einhver sú þekktasta.  Ferð hans gerði Evrópumönnum kunnugt landleiðin til Asíu.

En enn átti eftir að finna hafleið sem væri ekki lokuð af óvinveittum íslömskum þjóðum. Portúgalar riðu á vaðið og sigldu niður með strönd Afríku.  Bartholomeu Dias sigldi fyrir Góðravonarhöfða fyrstur manna (a.m.k. Evrópumanna) 1487 og Vasco da Gama innsiglaði siglingaafrekið með því að fara fyrir höfðann og alla leið til Indlands 1497.  Þar með hafði opnast bein siglingaleið Evrópumanna til Asíu í austurátt.

Í Asíu þessa tíma voru voldugt landveldi, með miklum mannfjölda og framleiðslugetu, meir en Evrópumenn höfðu á að skipa.  Hins vegar voru sjóleiðir almennt opnar og auðvelt yfirtaka þær með hervaldi.   Portúgalar voru fyrstir sem það gerðu og voru þeir annað hvort í þjónustu konungs eða síns eigin en skömmu síðar fylgdu Hollendingar eftir, með hollenska Austurindíafélaginu (Dutch East India Company) og gerðust keppinautar þeirra.

Fljótlega bættist í hópinn Englendingar með enska Austurindíafélagið (The East India Company) með verslunarleyfi frá ensku krúnunni.

Í meira eða minna í þrjár aldir, létu Evrópumennirnir sig nægja að ná undir sig verslunarstöðvar (faktóra eða factories) um alla Asíu en réðust ekki á landveldin.  Það gerðist svo seint sem á seinni helmingi 18. aldar, er Englendingar byrjuðu að leggja undir sig Indland (Múgalaveldið) og skattleggja íbúanna.

Herflotaveldi Evrópumanna lagði grunninn að sjóveldi þeirra í Asíu sem og gott verslunarskipulag.  Hins vegar var veldi þeirra, yfirráð yfir framleiðslu og verslun, ekki eins afgerandi og í Ameríku og Afríku.  Þeir urðu að stóla á bandalög og sambönd við innlenda valdhafa.  Þeir voru í mikilli innbyrgðissamkeppni, kepptust um hafnir og markaði en um leið við keppinauta frá öðrum menningarheimi, hinum íslamska.

Mér finnst vert að hafa í huga hvað þetta varðar, er að þarna opnuðu Evrópumenn leið fyrir síðari tíma heimsverslun, en það hafði aldrei gerst áður í heimsögunni að allur heimurinn hafi orðið að einu verslunarsvæði, með Ameríku, Asíu, Afríku, Evrópu og síðar Ástralíu sem eitt verslunarsvæði. Þetta eru afrek Evrópumanna, en það er aukaatriði hvort þeir hafi ráðið einhverjar ákveðnar verslunarleiðir eða ekki. Það er eins og nú sé í tísku hjá fræðimönnum (kannski að reyna að leiðrétta halla á söguskýringum fyrri tíma) að gera sem minnst úr afrekum Evrópumanna, með tilvísanir í dæmi hér og þar um gagnstæð afrek annarra þjóða.  Það er hins vegar gott og blessað, svo lengi sem það villir mönnum ekki sýn.

Englendingar á Indlandi 

Í fyrstu áttu Englendingar í basli við Hollendinga líkt og Portúgalar en tókst að breyta stöðunni. Enska Austurindíafélagið var ekki eins miðstýrt og hið hollenska og það var ekki eitt um hituna.   Sjálfstæðir kaupmenn fengu að reka verslun samhliða verslun enska Austurindíafélagsins en þeir ensku höfðu muni minna fjármagn og lausfé til umráða en Hollendingar.  Tilraunir Englendinga til að komast inn á markað Hollendinga mistókust að mestu leyti. Þeir snéru sér því frá Indónesíu til Indlands.  Þangað komu þeir ekki í hlutverki trúboða líkt og Portúgalar né til að ná pólitískum yfirráðum líkt og Hollendingar.  Hvorki pólitískar né trúarlegar ástæður lágu þarna að baki, einungis viðskiptalegar.

Englendingar treystu á pólitísk sambönd og "leyfðu" viðkomandi valdhöfum að halda völdum.  Það var fyrst árið 1665 sem Englendingar stofnuðu litla nýlendu á Indlandi en þeir treystu á náð og vilja múgalskra yfirvalda til 18. aldar en þá fór veldi múgalska veldisins hnignandi og upplausnarástand hófst.

Verslun Englendinga vestur á bóginn og við Surat minnkaði en jókst við Kína, Philippseyja og Indónesíu.  Madras varð aðalbækistöð Englendinga á Indlandi en missti stöðu sína til Kalkútta í lok 17. aldar.

Múgalska veldið

Múgalska veldið á Indlandi var stofnað af Timurid og Tyrkjum frá Túrkenistan í byrjun 16. aldar með hernaði.  Stjórnkerfi þeirra var byggt á hernaðarveldi, æðstu stjórnendur voru herforingjar og hernaðarelítan (mansabdars) réði öllu ásamt háembættismönnum.  Þessir menn tóku þátt í viðskiptum og þátttaka þeirra varð síðar að vísi að kaupmannastétt.

Valdastigveldi múgalska ríkisins byggði á samskiptum við millistjórnendur og gat það bæði verið kostur og ókostur.  Ókostur þegar vald þess var í lágmarki en þá gátu millistjórnendur farið sínu fram, en kostur þegar hægt var að fara framhjá millistjórnendunum og stýra beint. 

Annar vandi ríkisins var trúarlegs eðlis en hindúar voru mjög á móti stjórn múslima sem og ýmsir svæðisbundnir menningaheimar í landinu.  Trúarlegt umburðarlyndi stjórnvalda breyttist með tímanum í ofsóknir.  Valdasundrung í ríkinu á seinni hluta 17. aldar opnaði leið fyrir afskipti Englendinga af innri málefnum ríkisins.

Þróun enskrar stjórnar á Indlandi

Þessi þróun hófst í Kalkútta (1690) og héraðinu Bengal, þar sem Englendingar deildu og drottnuðu.  Með samsærum og stuðningi við hernað, tókst enska Austurindíafélaginu að komast yfir mikið fjármagn og meiri valda.  Árið 1765 náðu það tökum á hinni borgaralegu stjórnsýslu í Bengal og hóf gegndarlausa skattheimtu.  Með áframhaldandi hernaði, tókst það að auka veldi sitt smám saman (með beinni og óbeinni stjórn eftir aðstæðum).  Þar með var félagið orðið að hernaðar- og stjórnsýslulegum armi breskra stjórnvalda.   Allt ferlið var háð tilviljunum og ekki farið eftir fyrirfram ákveðinni áætlun um innlimun.

Múgalska ríkið gliðnaði niður í mörg ríki og borgarastyrjaldarástand ríkti.  Það reyndist auðveld fyrir Englendinga að leggja undir sig eitt ríki af öðru, þar sem þau voru sundruð innbyrgðis.  Indverjar voru látnir borga stríðskostnaðinn er Englendingar höfðu náð fullum yfirráðum.

Nýtt mynstur í landafgjöldum og skattheimtu

Millistjórnendurnir, Jagirdarar og Zamindarar, áttu ekki landið sem þeir hirtu afgjaldið af en nutu arfgengina réttinda til þessara starfa.  Þetta var gjörólíkt kerfinu sem Englendingar komu á, sem m.a. stofnuðu nýja stétt landeigenda, bæði innlendra og samlanda sinna.

Nýr her og stjórnsýsla

Nýr her var stofnaður undir stjórn Englendinga, með enskum yfirmönnum og indverskum  undirmönnum (sepoys).   Lágsettir yfirmenn, kallaðir ,,bhadralok” í hernum mynduðu nýja valdastétt eða kasta sem var mjög vilhöll Englendingum en í óþökk þeirra valdahópa sem urðu undir í valdabaráttunni.

Uppreisnin 1857

Á 19. öld var vart vaxandi misrétti í viðskiptum Englands og Indlands.  Englendingar fengu að flytja inn skattfrjálsan iðnaðarvarning meðan indverskur varningur var háður hömlum og bönnum.  Efnahagsleg áhrif breytingana voru gífurleg og höfðu slæm áhrif sumstaðar en jákvæð annars staðar.  Óánægðan með breytingarnar breyttist í uppreisn gegn valdstjórn Englendinga 1857.   Hún var barin niður með miklu mannfalli heimamanna. 

Þetta setti hins vegar strik í reikninginn hvað varðar frekari umbætur og reyndu Englendingar í staðinn að beina athyglinni að gamla kastakerfinu sem stjórnarformi. Önnur afleiðing var sú að Englendingar einangruðu sig frá Indverjum og urðu að hálfgerðri aðalstétt.

Frá Indlandi til Kína

Pólitísk og efnahagsleg valdaaukning Englendinga fór saman við aukna verslun við Kína.   Kínversk stjórnvöld voru eftir sem áður mjög ófús að hleypa útlendingum inn í kínverska verslun.

Kínverskir smáfurstar voru í fararbroti í viðskiptunum við Englendinga en kínverskum stjórnvöldum tókst að loka fyrir þessa verslun með því hreinsa strandlengjuna af mannfólki og yfirtaka strandhéruðin.   Þegar það hafði tekist, var komið á viðskiptum við erlenda kaupamenn í mörgum höfnum.   Þessi verslun var lokuð um 1760 af keisaravaldinu og var erlendri verslun beint um borgina Kanton sem var eina höfnin sem var opin fyrir útlendinga.  Englendingar sóttust eftir postulíni, silki og lyf en Kínverjar vildu ekkert annað en silfur.

Ópíum fyrir te

Englendingar voru þó fyrst og fremst að eltast við te og te neyðsla jókst gífurlega í Englandi og fyrir það þurftu þeir að borga í silfri sem var þeim mjög óhagstætt, því að silfrið frá Ameríku fór ekki til baka vestur. 

Þetta var gamall vandi frá tímum Rómverja, að góðmálmur flaut frá vestri til austurs og sat þar fastur.  Ameríska byltingin skar á flæði mexíkóska silfursins til Kína og baðmullarframleiðslan í Kína, varð meiri en sú sem kom frá Indlandi. Afleiðingin var sú að Englendingar lentu í vanda með greiðsluform fyrir keyptar vörur.  Svarið við þessu var framleiðsla ópíum í Indlandi fyrir Kínamarkaðinn.  Gífurlegur hagnaður var af þessari verslun og nú höfðu Evrópumenn eitthvað að selja Kínverjum.  Silfrið tók að streyma frá Kína þrátt fyrir kvóta og hömlur ýmis konar og hafði margvísleg félagsleg vandamál í sveitum landsins í för með sér.

Verslun á Kyrrahafi

Evrópumenn keyptu og versluðu með sandalvið (sandalwood) frá hinum ýmsu eyjum í Kyrrahafi og seldu áfram til Kína.  Mikill hagnaður var af þessari verslun.  Alls konar varningur fór til heimamanna í staðinn fyrir viðinn, þó helst vopn.  Verslun milli eyja jókst með verslunarneti Evrópubúa og öflug ríki urðu til með evrópskum vopnum.

Lokaorð

Nútímamenn, þar með talið Evrópumenn, gera sér ekki grein fyrir af hverju heimsálfan er svona rík og voldug í heimskipan nútímans, þótt hún sé ekki annað en botnlangi úr Asíu og agnarsmá. En sagan og þróunin er skýr ef hún er á annað borð lesin.

Hér hefur verið rakin þróun veldis Evrópu og sérstaklega Breta á nýöld en leita má aftur til krossferða til að skilja útþrá Evrópumanna. Evrópa hefur lagt undir sig allan heiminn á síðastliðnum þrjú hundruð árum, með verslun og viðskiptum, landvinningum og hernaði.

Ekki er séð fyrir endir á veldi vestrænnar menningar, þótt Evrópumenn samtímans séu í óða önn að eyðileggja hana innan frá með fráhvarfi frá hefðbundnum gildum og innleiðingu menningu og trú ættuð frá Asíu. Aldrei hefur innstreymi fólks annars staðar frá inn í álfuna verið eins og í dag og það mun hafa gífurleg áhrif á vestræna menningu innan Evrópu. Annað hvort breytist evrópsk menning og aðlagast eða til kemur fjölþjóða borgarastyrjalda. Ljóst er að Austur-Evrópuríki eru ekki eins tilbúin að gefa eftir gildi og menningu sína eins og Vestur-Evrópuríki og verða örlög þeirra önnur. En þetta er önnur saga en hér er sögð. Vestræn menning mun þó lifa utan álfunnar þegar hún er löngu horfin úr Evrópu og í sögubókum. Það er huggun harms.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband