Færsluflokkur: Saga
Inngangur
Setja verður landvinninga í sögulegt samhengi og útrás Evrópuþjóða út í hinn stóra heim og stöðu Evrópu í samtímanum.
Hvati eða þörf Evrópumanna til að finna hafleiðina til Asíu leiddi til þess að Afríka og Ameríka komust á heimskortið en í Asíu áttu að leynast mikil auðæfi fyrir þá sem þau kynnu að nýta. Margir tilraunir voru gerðar til að finna hagkvæma verslunarleið og greiðfæra, m.a. landleiðina og er ferð Marco Polo eftir silkileiðinni einhver sú þekktasta. Ferð hans gerði Evrópumönnum kunnugt landleiðin til Asíu.
En enn átti eftir að finna hafleið sem væri ekki lokuð af óvinveittum íslömskum þjóðum. Portúgalar riðu á vaðið og sigldu niður með strönd Afríku. Bartholomeu Dias sigldi fyrir Góðravonarhöfða fyrstur manna (a.m.k. Evrópumanna) 1487 og Vasco da Gama innsiglaði siglingaafrekið með því að fara fyrir höfðann og alla leið til Indlands 1497. Þar með hafði opnast bein siglingaleið Evrópumanna til Asíu í austurátt.
Í Asíu þessa tíma voru voldugt landveldi, með miklum mannfjölda og framleiðslugetu, meir en Evrópumenn höfðu á að skipa. Hins vegar voru sjóleiðir almennt opnar og auðvelt yfirtaka þær með hervaldi. Portúgalar voru fyrstir sem það gerðu og voru þeir annað hvort í þjónustu konungs eða síns eigin en skömmu síðar fylgdu Hollendingar eftir, með hollenska Austurindíafélaginu (Dutch East India Company) og gerðust keppinautar þeirra.
Fljótlega bættist í hópinn Englendingar með enska Austurindíafélagið (The East India Company) með verslunarleyfi frá ensku krúnunni.
Í meira eða minna í þrjár aldir, létu Evrópumennirnir sig nægja að ná undir sig verslunarstöðvar (faktóra eða factories) um alla Asíu en réðust ekki á landveldin. Það gerðist svo seint sem á seinni helmingi 18. aldar, er Englendingar byrjuðu að leggja undir sig Indland (Múgalaveldið) og skattleggja íbúanna.
Herflotaveldi Evrópumanna lagði grunninn að sjóveldi þeirra í Asíu sem og gott verslunarskipulag. Hins vegar var veldi þeirra, yfirráð yfir framleiðslu og verslun, ekki eins afgerandi og í Ameríku og Afríku. Þeir urðu að stóla á bandalög og sambönd við innlenda valdhafa. Þeir voru í mikilli innbyrgðissamkeppni, kepptust um hafnir og markaði en um leið við keppinauta frá öðrum menningarheimi, hinum íslamska.
Mér finnst vert að hafa í huga hvað þetta varðar, er að þarna opnuðu Evrópumenn leið fyrir síðari tíma heimsverslun, en það hafði aldrei gerst áður í heimsögunni að allur heimurinn hafi orðið að einu verslunarsvæði, með Ameríku, Asíu, Afríku, Evrópu og síðar Ástralíu sem eitt verslunarsvæði. Þetta eru afrek Evrópumanna, en það er aukaatriði hvort þeir hafi ráðið einhverjar ákveðnar verslunarleiðir eða ekki. Það er eins og nú sé í tísku hjá fræðimönnum (kannski að reyna að leiðrétta halla á söguskýringum fyrri tíma) að gera sem minnst úr afrekum Evrópumanna, með tilvísanir í dæmi hér og þar um gagnstæð afrek annarra þjóða. Það er hins vegar gott og blessað, svo lengi sem það villir mönnum ekki sýn.
Englendingar á Indlandi
Í fyrstu áttu Englendingar í basli við Hollendinga líkt og Portúgalar en tókst að breyta stöðunni. Enska Austurindíafélagið var ekki eins miðstýrt og hið hollenska og það var ekki eitt um hituna. Sjálfstæðir kaupmenn fengu að reka verslun samhliða verslun enska Austurindíafélagsins en þeir ensku höfðu muni minna fjármagn og lausfé til umráða en Hollendingar. Tilraunir Englendinga til að komast inn á markað Hollendinga mistókust að mestu leyti. Þeir snéru sér því frá Indónesíu til Indlands. Þangað komu þeir ekki í hlutverki trúboða líkt og Portúgalar né til að ná pólitískum yfirráðum líkt og Hollendingar. Hvorki pólitískar né trúarlegar ástæður lágu þarna að baki, einungis viðskiptalegar.
Englendingar treystu á pólitísk sambönd og "leyfðu" viðkomandi valdhöfum að halda völdum. Það var fyrst árið 1665 sem Englendingar stofnuðu litla nýlendu á Indlandi en þeir treystu á náð og vilja múgalskra yfirvalda til 18. aldar en þá fór veldi múgalska veldisins hnignandi og upplausnarástand hófst.
Verslun Englendinga vestur á bóginn og við Surat minnkaði en jókst við Kína, Philippseyja og Indónesíu. Madras varð aðalbækistöð Englendinga á Indlandi en missti stöðu sína til Kalkútta í lok 17. aldar.
Múgalska veldið
Múgalska veldið á Indlandi var stofnað af Timurid og Tyrkjum frá Túrkenistan í byrjun 16. aldar með hernaði. Stjórnkerfi þeirra var byggt á hernaðarveldi, æðstu stjórnendur voru herforingjar og hernaðarelítan (mansabdars) réði öllu ásamt háembættismönnum. Þessir menn tóku þátt í viðskiptum og þátttaka þeirra varð síðar að vísi að kaupmannastétt.
Valdastigveldi múgalska ríkisins byggði á samskiptum við millistjórnendur og gat það bæði verið kostur og ókostur. Ókostur þegar vald þess var í lágmarki en þá gátu millistjórnendur farið sínu fram, en kostur þegar hægt var að fara framhjá millistjórnendunum og stýra beint.
Annar vandi ríkisins var trúarlegs eðlis en hindúar voru mjög á móti stjórn múslima sem og ýmsir svæðisbundnir menningaheimar í landinu. Trúarlegt umburðarlyndi stjórnvalda breyttist með tímanum í ofsóknir. Valdasundrung í ríkinu á seinni hluta 17. aldar opnaði leið fyrir afskipti Englendinga af innri málefnum ríkisins.
Þróun enskrar stjórnar á Indlandi
Þessi þróun hófst í Kalkútta (1690) og héraðinu Bengal, þar sem Englendingar deildu og drottnuðu. Með samsærum og stuðningi við hernað, tókst enska Austurindíafélaginu að komast yfir mikið fjármagn og meiri valda. Árið 1765 náðu það tökum á hinni borgaralegu stjórnsýslu í Bengal og hóf gegndarlausa skattheimtu. Með áframhaldandi hernaði, tókst það að auka veldi sitt smám saman (með beinni og óbeinni stjórn eftir aðstæðum). Þar með var félagið orðið að hernaðar- og stjórnsýslulegum armi breskra stjórnvalda. Allt ferlið var háð tilviljunum og ekki farið eftir fyrirfram ákveðinni áætlun um innlimun.
Múgalska ríkið gliðnaði niður í mörg ríki og borgarastyrjaldarástand ríkti. Það reyndist auðveld fyrir Englendinga að leggja undir sig eitt ríki af öðru, þar sem þau voru sundruð innbyrgðis. Indverjar voru látnir borga stríðskostnaðinn er Englendingar höfðu náð fullum yfirráðum.
Nýtt mynstur í landafgjöldum og skattheimtu
Millistjórnendurnir, Jagirdarar og Zamindarar, áttu ekki landið sem þeir hirtu afgjaldið af en nutu arfgengina réttinda til þessara starfa. Þetta var gjörólíkt kerfinu sem Englendingar komu á, sem m.a. stofnuðu nýja stétt landeigenda, bæði innlendra og samlanda sinna.
Nýr her og stjórnsýsla
Nýr her var stofnaður undir stjórn Englendinga, með enskum yfirmönnum og indverskum undirmönnum (sepoys). Lágsettir yfirmenn, kallaðir ,,bhadralok í hernum mynduðu nýja valdastétt eða kasta sem var mjög vilhöll Englendingum en í óþökk þeirra valdahópa sem urðu undir í valdabaráttunni.
Uppreisnin 1857
Á 19. öld var vart vaxandi misrétti í viðskiptum Englands og Indlands. Englendingar fengu að flytja inn skattfrjálsan iðnaðarvarning meðan indverskur varningur var háður hömlum og bönnum. Efnahagsleg áhrif breytingana voru gífurleg og höfðu slæm áhrif sumstaðar en jákvæð annars staðar. Óánægðan með breytingarnar breyttist í uppreisn gegn valdstjórn Englendinga 1857. Hún var barin niður með miklu mannfalli heimamanna.
Þetta setti hins vegar strik í reikninginn hvað varðar frekari umbætur og reyndu Englendingar í staðinn að beina athyglinni að gamla kastakerfinu sem stjórnarformi. Önnur afleiðing var sú að Englendingar einangruðu sig frá Indverjum og urðu að hálfgerðri aðalstétt.
Frá Indlandi til Kína
Pólitísk og efnahagsleg valdaaukning Englendinga fór saman við aukna verslun við Kína. Kínversk stjórnvöld voru eftir sem áður mjög ófús að hleypa útlendingum inn í kínverska verslun.
Kínverskir smáfurstar voru í fararbroti í viðskiptunum við Englendinga en kínverskum stjórnvöldum tókst að loka fyrir þessa verslun með því hreinsa strandlengjuna af mannfólki og yfirtaka strandhéruðin. Þegar það hafði tekist, var komið á viðskiptum við erlenda kaupamenn í mörgum höfnum. Þessi verslun var lokuð um 1760 af keisaravaldinu og var erlendri verslun beint um borgina Kanton sem var eina höfnin sem var opin fyrir útlendinga. Englendingar sóttust eftir postulíni, silki og lyf en Kínverjar vildu ekkert annað en silfur.
Ópíum fyrir te
Englendingar voru þó fyrst og fremst að eltast við te og te neyðsla jókst gífurlega í Englandi og fyrir það þurftu þeir að borga í silfri sem var þeim mjög óhagstætt, því að silfrið frá Ameríku fór ekki til baka vestur.
Þetta var gamall vandi frá tímum Rómverja, að góðmálmur flaut frá vestri til austurs og sat þar fastur. Ameríska byltingin skar á flæði mexíkóska silfursins til Kína og baðmullarframleiðslan í Kína, varð meiri en sú sem kom frá Indlandi. Afleiðingin var sú að Englendingar lentu í vanda með greiðsluform fyrir keyptar vörur. Svarið við þessu var framleiðsla ópíum í Indlandi fyrir Kínamarkaðinn. Gífurlegur hagnaður var af þessari verslun og nú höfðu Evrópumenn eitthvað að selja Kínverjum. Silfrið tók að streyma frá Kína þrátt fyrir kvóta og hömlur ýmis konar og hafði margvísleg félagsleg vandamál í sveitum landsins í för með sér.
Verslun á Kyrrahafi
Evrópumenn keyptu og versluðu með sandalvið (sandalwood) frá hinum ýmsu eyjum í Kyrrahafi og seldu áfram til Kína. Mikill hagnaður var af þessari verslun. Alls konar varningur fór til heimamanna í staðinn fyrir viðinn, þó helst vopn. Verslun milli eyja jókst með verslunarneti Evrópubúa og öflug ríki urðu til með evrópskum vopnum.
Lokaorð
Nútímamenn, þar með talið Evrópumenn, gera sér ekki grein fyrir af hverju heimsálfan er svona rík og voldug í heimskipan nútímans, þótt hún sé ekki annað en botnlangi úr Asíu og agnarsmá. En sagan og þróunin er skýr ef hún er á annað borð lesin.
Hér hefur verið rakin þróun veldis Evrópu og sérstaklega Breta á nýöld en leita má aftur til krossferða til að skilja útþrá Evrópumanna. Evrópa hefur lagt undir sig allan heiminn á síðastliðnum þrjú hundruð árum, með verslun og viðskiptum, landvinningum og hernaði.
Ekki er séð fyrir endir á veldi vestrænnar menningar, þótt Evrópumenn samtímans séu í óða önn að eyðileggja hana innan frá með fráhvarfi frá hefðbundnum gildum og innleiðingu menningu og trú ættuð frá Asíu. Aldrei hefur innstreymi fólks annars staðar frá inn í álfuna verið eins og í dag og það mun hafa gífurleg áhrif á vestræna menningu innan Evrópu. Annað hvort breytist evrópsk menning og aðlagast eða til kemur fjölþjóða borgarastyrjalda. Ljóst er að Austur-Evrópuríki eru ekki eins tilbúin að gefa eftir gildi og menningu sína eins og Vestur-Evrópuríki og verða örlög þeirra önnur. En þetta er önnur saga en hér er sögð. Vestræn menning mun þó lifa utan álfunnar þegar hún er löngu horfin úr Evrópu og í sögubókum. Það er huggun harms.
Saga | 2.10.2023 | 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svæðið sem taldist til villta vestursins:
Óbyggða landsvæðið vestur af Mississippi áar það er löglausu svæðin sem voru á landamærum Bandaríkjanna á þessum tíma. Hér má nefna Dakóta, Nevada, Oregon, Utah, Idaho, Montana, Arizona, Kalifornía, Nýja Mexíkó og Colorado.
Einkenni tímabilsins:
Lögleysa og ofbeldi einkenndi tímabilið. Gamla vestrið var þekkt fyrir kúreka, indíána, löggæslumenn, byssukappa, gullgrafara eða málmleitarmenn, fjárhættuspilara, frumkvöðla eða landakönnunarmenn, skáta, útilaga, glæpagengin og pistólumanna. Frægustu menn villta vestursins, voru meðal annarra, löggæslumaðurinn Wyatt Earp, útlaginn Wild Bill Hickok (Billy the Kid), bankaræninginn Butch Cassidy (the Sundance Kid), útlagarnir Frank og Jesse James og Clanton gengið. Frægasti byssubardaginn var háður við hestagerðið O.K. Coral.
Tímabilið:
Mjög er deilt um upphaf tímabil svokallaða villta vestursins. Þetta er mjög athyglisverð saga sem eiginlega hefst í bandarísku borgarastyrjöldinni en sumir vilja láta tímabilið hefjast á 17. eða 18. öld, sjá síðar í textanum.
Þegar sagan er skoðuð, kemur í ljós að það reyndust vera að mestu leyti sigraðir Suðurríkjamenn sem hélt áfram að herja á fólk eftir stríðið en margir þeirra leituðu vestur á bóginn, í ónumin lönd vestursins.
Uppgjafahermenn Suðurríkjanna hötuðu Norðurríkjamenn og fannst það vera allt í lagi að ræna banka og lestir Bandaríkjanna eða herja á íbúanna. Margir þeirra flúðu eftir stríðið vestur á bóginn, til villta vestursins og þá hófst einnig rótsturtíð þar. Um 1900 er talið að vestrið hafi endanlega verið tamið.
Blómatímabilið stóð frá 1865 (loka borgarastyrjaldarinnar) til 1889 þegar Oklahoma - indíánalandið, var leyft til búsetu hvítra. Þegar Oklahoma varð 46 ríki Bandaríkjanna, þá má segja að vestrið hafi verið fulltamið. Aðrir vilja láta tímabilið enda um 1895.
Sumir vilja tengja gullæðið í Alaska við tíð villta vestursins en það hófst um 1890 og stóð til 1912 en þetta er umdeildara.
Sagnfræðingar deila hins vegar um upphaf tímabilsins og vilja sumir hefja það um 1775 með Daniel Boone sem stofnaði fyrstu nýlendu hvítra í Kentucky.
Boone lagði óbyggðaveg sinn í gegnum Cumberland skarð í Appalachian fjallagarðinum frá Norður-Karólínu og Tennessee og til Kentucky. Þar stofnaði hann þorpið Boonesborough.
Kentucky, sem var ein af fyrstu bandarísku byggðum vestur af Appalachians. Fyrir lok 18. aldar, höfðu meira en 200.000 Bandaríkjamenn flust til Kentucky vestur af Virginíu. En í raun var það villt og frjálst fyrir þann tíma, með búsettu sléttuindíána og fjallaindíána og einstakra hvítra veiðimanna.
En eins og áður sagði, byggðist vestrið að mestu á tímanum eftir borgarastyrjöldina og bæjir og borgir risu af grunni á örskot tíma.
Saga | 5.9.2023 | 08:09 (breytt kl. 08:17) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Spurning er hvort tíminn sé afstæður og hvað sé langur tími. Maður hefur upplifað tímana tvenna, þótt maður teljist ekki gamall. Vegna þess að læknavísundunum fleygði fram á 20. öld, náði fólk fætt fyrr á öldinni að lifa lengur og verða aldrað.
Maður hitti því fólk sem einmitt var fædd í upphafi 20. aldar, eða um 1900-10. Það var athyglisvert að ræða við það enda allt önnur heimsmynd sem það bjó yfir. En því miður var ég of ungur til að kunna að spyrja réttu spurningarnar. Það gerði ég síðar er ég kenndi sögu í framhaldsskóla og lét nemendur taka viðtöl við afa og ömmu um fyrsta dag hernám Breta og hvernig stríðsárin voru frá þeirra sjónarhorni. Margar athyglisverðar frásagnir komu fram og engin þeirra enn birt.
En ég hitti líka fólk sem var fætt á síðasta áratug 19. aldar. Þá mjög aldrað en ernt. Ég held samt að það hafi ekki verið mikil munur á því og því fólki sem fædd var í upphafi 20. aldar og ég ræddi meira við. Þjóðfélagið breyttist ekki svo mikið á þessum tveimur áratugum. Og þó, vélöldin hófst í upphafi tuttugustu aldar og fólk eignaðist bíla og kann ég frásagnir af fyrstu bílkaupum fólks. Einn aldraður maður sagði mér t.d. hvernig það var að róa út frá Þorlákshöfn á árabáti. Ég var í sveit á unglingsárum sem vinnumaður og kynntist fólk sem var þá aldrað. Meira segja torfbærinn var enn uppistandi þegar ég var í sveitinni en fólkið var nýflutt í steypubyggt hús. Ég kom síðar í heimsókn, kominn yfir tvítugt og þá var torfbærinn horfinn.
Fólkið sem fæddist í lok 19. aldar þekkti annað fólk sem fæddist e.t.v. á fyrri helmingi aldarinnar. Svo ræði ég við börn mín og þannig teygist tíminn fyrir vitnisburð. Þannig getur munleg geymd eða heimild spannað tvær aldir auðveldlega.
Svo mun hafa verið um Ara fróða Þorgilsson og heimildamenn hans. Hann talaði við aldrað fólk og hafði því vitni. Heimildarmenn eru valdir af kostgæfni og nefndir, elsti heimildarmaður Ara var fæddur árið 995 (72 árum eldri en Ari var sjálfur). Íslendingabók sem er stutt yfirlitsrit um sögu Íslands frá landnámi og að ritunartíma, var rituð af Ara á árunum 1122-1133. Heimildamaður Ara hefur einmitt rætt við fólk sem var fædd fyrr á 10. öldinni. Þarna er verið að tala um beinan vitnisburð mann af manni. Þjóðsögur verða einmitt til úr munnlegri geymd. Oft er sannleikskorn í þeim, sambanda af skáldskap en hann kemur til sögu þegar þekkingin þrýtur. Gott dæmi um það eru Íslendingasögurnar. Þegar engar bækur voru til að geyma þekkinguna, þá varð fólk að treysta á munnlegar heimildir. Þannig var farið með embætti lögsögumannsins, hann sagði upp lögin, en las ekki upp. Þetta er ákveðin þjálfun sem lærist.
Saga | 31.8.2023 | 08:51 (breytt kl. 09:41) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nú á að selja gömlu varðskipin Ægir og Tý til Grikklands. Það eru góðar fréttir að ekki eigi að rífa skipin niður. En það er spurning hvort að örlög þeirra séu fyrir það eitthvað betri. Ef ég man rétt, þá var gamli Þór seldur til Miðjarðarhafs, þar sem átti að breyta skipinu í diskóskip. Ekki virðuleg örlög og betra hefði verið að nota það sem skotskífu fyrir fallbyssur nýju varðskipanna.
Nú er ég ekki að segja að það eigi eða þurfi að varðveita öll gömul skip. En Ægir og Týr eru systurskip og því mætti hugsa sér að varðveita annað. Vél Ægis er ekki í góðu standi og því hentar Týr betur til varðveislu. Það mætti jafnvel nota Ægir sem varahlutageymsla fyrir Týr.
Ekki fékkst hátt verð fyrir bæði skipin, aðeins kr. 51 milljónir eða sem svarar tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu.
Gefa mætti skipin til sjóminjasafns, þess vegna erlendis, með þeim fyrirvara að þau yrðu varðveitt.
Talandi um varðveislu gamalla skipa, þá er rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson, smíðað 1970,komið á aldur. Kjölur var lagður að nýju hafrannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar í skipasmíðastöðinni Astileros Armon í Viga á Spáni í byrjun febrúar og kemur nýr Bjarni Sæmundsson til landsins 2024.
Hvað ætla menn þá að gera við gamla skipið? Vonandi fer það á sjóminjasafn enda veit ég ekki til að neitt rannsóknarskip sé varðveitt á Íslandi í dag.
Saga | 24.7.2023 | 14:02 (breytt kl. 14:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umræðan um hvort líta beri á einstaka starfsmenn íslensku friðargæsluna sem hermenn eða hvaða hlutverki hún eigi að gegna almenn hefur verið hörð undanfarnar vikur og mánuði og sitt sýnist hverjum. En er þetta eitthvað nýtt í íslenskri samfélagsumræðu og hafa Íslendingar verið eins sinnulausir í gegnum aldir um varnir landsins eins og verið hefur látið í veðri vaka?
Í þessari grein verður stiklað á stóru og litið á hvort menn hafi sinnt þessum málaflokki eftir siðbreytingu en láta hlut milli steina liggja um varnarbúnað landsins fyrir hana en geta þess þó að vopnaburður og hermennska var hluti daglegs lífs Íslendinga á miðöldum.
En tímanir breytast og Íslendingar nú á tímum hafa vanist því að þeir menn sem eiga að gæta öryggis þeirra, lögreglumenn, séu vopnlausir og ekki sé hér á landi íslenskur her.
Vopnabrot og vopnadómur á 16. öld
Ætla má að Íslendinga hafi verið afvopnaðir seint á 16. öld með vopnabroti svonefndu og sjá má af vopnadómi Magnúsar prúða Jónssonar 1581. Eftir það fór lítið fyrir hernaði þeirra eða vopnaburði. Voru Íslendingar komnir í hlutverk þolenda í stað gerenda er til vopnaviðskipta kom við útlendinga.
Hins vegar hefur Ísland aldrei verið óvarið land eða herlaust, þótt ýmsir nú á tímum hafi haldið því fram. Við siðbreytingu tók Danakonungur að sér varnir landsins, í stað innlendrar valdastéttar. Hann sendi hingað árlega herskip til verndar verslun og landhelgi Íslands en lítið var hugað að vörnum landsins sjálfs, t.d. var ekki haft danskt setulið á mikilvægum stöðum (s.s. í Vestmannaeyjum). Herlið var sent hingað til að þröngva fram vilja konungs þegar hann vildi koma fram sínum málum og ætla mætti að hann myndi mæta mótstöðu. Sat slíkt herlið jafnt stutt við og taldist ekki varnarlið landsins. Hins vegar var landið lögformlega undir hervernd konungs allt til ársins 1940 þegar Íslendingar tóku utanríkismálin í sínar hendur. Síðan hefur landið ætíð verið undir hervernd erlends ríkis, fyrst Breta og síðar Bandaríkjamanna á 20. öld og erlent herlið hefur meira eða minna setið á landinu frá 1941.
Spurningin hér er hins vegar hvort innlendir menn hafi haft einhverjar áætlanir um að verja landið ef til þess þyrfti að koma eða ekki og hvort menn hafi velt þessum málum fyrir sér á hverjum tíma?
Forsendur umrædds dóms Magnúsar prúða má líklega rekja til ránsins á Bæ á Rauðasandi árið 1579 þegar bær Eggerts lögmanns Hannessonar var rændur og hann sjálf¬ur tekinn höndum. Þarna kom berlega í ljós að ekki einu sinni lögmaður landsins gat varið sig fyrir ræningjaflokki og var það líklega sakir vopnleysis. Lögmaður hefur því líklega kvartað sáran undan þessari ósvinnu og afleiðingin verið næsta ár sú eða 1580, að Friðrik II sendi vopnasendingu hingað til lands og áttu að fara í hverja sýslu, átta spjót og sex byssur. Ekki hafa Danakonungi algjörlega horfið úr huga varnarmál Íslands því að árið 1586 lét sami konungur reisa virki í Vestmannaeyjahöfn til að verja konungsverslunina í Eyjum fyrir ágangi breskra kaup- og sjómanna. Hér gætti því dálítillar viðleitni konungsvaldsins til varna en að vísu til að gæta sinna eigin hagsmuna en ekki landsins sjálfs. Þessi vopnasending styður því líka ummælin í vopnadómi Magnúsar prúða að hér hafi farið fram vopnabrot. Það hefði verið óþarfi að senda hingað vopn, ef þau hefðu verið fyrir í einhverjum mæli í landinu. Hins vegar er það ótrúlegt að stjórnvöld hafi getað náð öllum vopnum landsmanna samkvæmt orðum Magnúsar og hefur hann líklega ýkt töluvert til að ná athygli ráðamanna. Telja má það ólíklegt að vopnaburður hefur lagst hér algjörlega niður eftir siðbreytingu. Heimildir greina frá vopnaeign einstaklinga á stangli.
Annað mál er það hvort einhverjar áætlanir hafi verið um að vopna sérstaka hópa manna til varnar landinu og er komið inn á það hér á eftir. Líklega hafa engar heildaráætlanir verið gerðar af alvöru um slíkt varnarlið af hálfu Alþingis eða danskra stjórnvalda á 16. og 17. öld og hafa báðir aðilar litið svo á að það væri í verkahring hinna síðarnefndu að sjá um varnir landsins. Ekki voru allir íslenskir ráðamenn sammála þessu og telja má fullvíst að Vestfirðingar hafi verið sæmilega vopnum búnir fram á 17. öld eða að minnsta kosti fylgdarmenn þeirra Magnúsar prúða og Ara sonar hans, sem stóð fyrir Spánverja-vígunum 1615. Að sögn Björns á Skarðsá, sem þótti roluháttur landa sinna slá öll met og vildi betri varnarviðbúnað landans, riðu Vestfirðingar seinastir til alþingis með vopnað fylgdarlið en þá hafi höfðingjar almennt riðið á þing með vopnlaust fylgdarlið. Þetta mun hafa tíðkast eftir vopnabrotið og styðja þessi ummæli um að vopnabrot hafi átt sér stað. Þá greinir Jón Ólafsson Indíafari í reisubók sinni frá vopnaburði og liðsafnaði bænda í byrjun 17. aldar (1604) og sagði að "... þá gengu allir skattbændur með þrískúfaða atgeira sem hingað á umliðnu ári fyrir þetta fluttust til kaups eftir kónglegrar Majestets skikkan og befalningu." Þarna stóð konungsvaldið fyrir vopnasendingu til landsins og ætlaðist til að Íslendingar vopnuðu sig sjálfir og verji. Einhver sinnaskipti hafa því átt sér stað í "herbúðum" konungsmanna gagnvart vopnaeign Íslendinga eftir vopnabrotið á sjöunda áratug 16. aldar, því að þetta var önnur vopnasending konungs til Íslands sem vitað er um en engar áætlanir um stofnsetningu varnarliðs enn sem komið er.
Tyrkjaránið og afleiðingar þess
Svo gerðist einn atburður sem átti eftir að kollvarpa Íslandssögunni og varpa ljósi á hversu sinnuleysið hafði verið mikið um varnarmál landsins af hálfu stjórnvalda þangað til en það er að sjálfsögðu Tyrkjaránið 1627. Það verður ekki farið út í þá sögu hér en afleiðingin varð sú að Tyrkjahræðsla varð landlæg á Íslandi og jafnframt þótti sá atburður sýna að lítil vörn var í danska flotanum og sýndist Íslendingum landvarnir Dana beinast fremur gegn verslunaratferli landans en lögbrotum útlendinga.
Mest hafði þessi atburður áhrif á íbúa Vestmannaeyja en þær urðu verst úti í hernaði hinna suðrænu sjóræningja. Vestmannaeyingar hugðu því öðrum fremur að varnarmálum og þóttu mikla nauðsyn á. Þeir kröfðust stjórnvöld um aðgerðir og viðbrögðin voru að þau hröðuðu viðgerðum á á gamla varnavirkinu, Skansinum, sem var upprunalega byggt árið 1586 eins og áður sagði. Danskur herforingi var fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum. Starf hans fól í sér að skipuleggja vökur á Helgafelli og að hafa gát á skipum. Hann átti einnig að stofna og þjálfa upp herlið heimamanna. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku og voru allir byssufærir menn skyldaðir til þátttöku. Árið 1639 tók Jón Ólafsson Indíafari við stöðu byssuskyttu við Skansinn og eftirmaður hans og síðasta byssuskytta Skansins var Gunnar Ólafsson. Vestmannaeyingar héldu að sögn vökur á Helgafelli fram yfir árið 1700 en áhrifa Tyrkjaránsins gætti næstu tvær aldir eða langt fram á 19. öld og verður komið inn á það síðar í greininni.
Ráðagerðir um stofnun landhers á Íslandi 1785
Alvarlegustu hugmyndir um stofnun íslensks landhers fyrir allt landið hingað til voru settar fram á alþingi 1785. Hvatamenn þessarar ráðagerða voru helstu ráðamenn þjóðarinnar, Hans von Levetzov stiftamtmaður, Stefán amtmaður Þórarinsson og Björn Markússon lögmaður en ráðstefna um málið var að frumkvæði danskra stjórnvalda. Ráðstefnan átti að kanna hvort æskilegt og tiltækilegt væri að stofna slíkan her og með hvaða hætti því yrði komið í kring. Í kjölfar ráðstefnunnar var gerð ítarleg áætlun hvernig þjálfun slíks her færi fram, tillögur að vopnabúnaði og herbúningi lagðar fram og lagt til að þrjú hundruð manna her yrði stofnaður með sex til þrjátíu og tveggja manna sveit í hverri sýslu. Hermennirnir skyldu launaðir með hærri sköttum á bændur og dátum heitið hreppstjóratign að lokinni herþjónustu. Ekki var látið staðið við orðin tóm, því að gerð var könnun í suðuramtinu 1788 á því hverjir vildu gefa sig fram í landvarnarlið og hvaða vopn þeir hefðu tiltæk og um leið fór herútboð fram. Í ljós kom að rúmlega 600 manns voru tiltækir í varnarliðið og voru þeir vopnaðir frá trélurkum til tinnubyssa.
Þessar hugmyndir eru hvað merkilegar fyrir það að þær voru settar fram þegar íslenskt samfélag var hvað verst sett í sinni sögu og sýnir að mönnum var full alvara með þessa hugmynd. En þessar hugmyndir voru í raun andvana fæddar þar sem þær voru settar fram á röngum tímapunkti.
Gamla íslenska sveitasamfélagið og stjórnkerfið var í rúst vegna móðuharðinda og nýir tímar fóru nú í hönd. Óhjákvæmilegt var að þær myndu falla um sig sjálfa.
Áætlanir Jörunds Hundadagakonungs um varnir hins nýja ríkis
Næsta útleik átti Jörundur hundadagakonungur 1809, sjálfskipaður verndari landsins og byltingamaður. Án nokkurra blóðsúthellinga eða almennra viðbragða landsmanna tók hann völdin í landinu í sínar hendur. Birti hinn nýi stjórnarherra auglýsingar eða tilskipanir þar sem stjórnarstefnunni var lýst. Því var lýst m.a. yfir að hin nýju yfirvöld áskilji sér "...rétt til styrjalda og friðasamninga við erlend ríki;- að herliðið hefur útnefnt oss til hæstráðanda til sjós og lands og til yfirstjórnar í öllum styrjaldasökum".
Lét Jörundur ekki við orð standa heldur lét hefja gera skans á Arnarhólskletti í Reykjavík, nefndur Phelpsskans og áætlanir voru um stofnun íslensks hers. Hér skal kyrrt látið liggja alvörunni á bak við allar þessar fyrirætlanir Jörunds og lögmæti stjórnar hans en hann var greinilega umhugað um að varnir hins "nýja ríkis" skyldu verða trúverðugar.
Hins vegar sýndu styrjaldirnar í upphafi 19. aldar að Dönum var um megn að veita Íslandi vernd eða öryggi en um leið að ef Bretar undu óbreyttu ástandi, það er að Danir hafi húsbóndavald á Norður-Atlantshafi, myndu mál lítið breytast. Þetta ástand olli flestum Íslendingum litlum áhyggjum en þeir höfðu meiri áhuga á að öðlast einhvers konar sjálfstjórn en að stofna her.
Stofnun herfylkingar í Vestmannaeyjum 1857
Einhverjar viðleitni gætti þó hjá Vestmannaeyingum í þessa átt, en árið 1853 var skipaður nýr sýslumaður Vestmannaeyja, Andreas August von Kohl, danskur að ætt og kallaður kapteinn. Sá kapteininn að hér væri grundvöllur fyrir því að stofna varnarsveit eða her heimamanna, þar sem hér eimdi ennþá eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki. Fékk hugmynd Kohl um stofnun svonefndrar herfylkingar hinar bestu undirtektir í eyjum.
Nokkur ár tók þó að skipuleggja þennan vísir að her og var hann að fullu komið á fót 1857 og var starfræktur til vors 1869. Hér skal ekki greint nákvæmlega frá skipan herfylkingunnar en hún var skipulögð með sama hætti og tíðkaðist með venjulega heri í Evrópu á þessum tíma; með tignarheitum, vopnum, gunnfána og einkennismerkjum.
Markmið herfylkingarinnar var í fyrsta lagi að vera varnarsveit gegn árásum útlendinga. Í öðru lagi að vera lögreglusveit til að halda uppi aga og reglu á eyjunni. Í þriðja lagi að vera bindindishreyfing og í fjórða lagi að vera eins konar íþróttahreyfing.
Líklegt má telja að stöðugur fjárskortur hafi riðið hana til falls að lokum sem og forystuleysi er kapteininn lést.
Þessi viðleitni til stofnun hers, náði aðeins til Vestmannaeyja en aðrir landsmenn virðast hafa verið skeytingarleysi um þessi mál.
Það voru deilur um landhelgismál landsins milli Dana og Breta um aldarmótin 1900 og gangur heimstyrjaldarinnar fyrri sem átti sinn þátt í að svipta hulunni frá augum Íslendinga að hér voru það Bretar sem réðu ferðinni og varnarleysi landsins væri mikið.
Heimastjórn og varnir
Í raun voru menn þá farnir að huga af alvöru að vörnum landsins samfara því að landið fengi fullt sjálfstæði. Þorvaldur Gylfason segir í Fréttablaðinu þann 19. júní 2003 að rök þeirra, sem töldu Ísland ekki hafa efni á því að slíta til fulls sambandinu við Dani fyrir 100 árum, lutu meðal annars að landvörnum og vitnar hann í Valtý Guðmundsson sem sagði árið 1906 að fullveldi landsins stæði í beinu sambandi við getuna til varnar og sagði m.a. að þó að þjóðin "...gæti það í fornöld [staðið sjálfstæð], þá var allt öðru máli að gegna. Þá var ástandið hjá nágrannaþjóðunum allt annað, og meira að segja hefði engin þeirra þá getað tekið Ísland herskildi, þó þær hefðu viljað. Það var ekki eins auðgert að stefna her yfir höfin þá eins og nú."
Þorvaldur telur að þarna hafi Valtýr reynst forspár að því leyti, að Íslendingar hafa aldrei þurft eða treyst sér til að standa straum af vörnum landsins. Lýðveldi var ekki stofnað á Íslandi fyrr en útséð var um, hversu vörnum landsins yrði fyrir komið, enda þótt nokkur ár liðu frá lýðveldisstofnuninni 1944 þar til varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin 1951.
Íslendingar lýstu þó yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda 1918 en treystu í reynd á vernd Dana og Breta. Hernám Breta 1940 breytti lítið skoðunum flestra í þessum efnum, að falla þyrfti frá hlutleysisstefnunni en í lok heimstyrjaldarinnar áttu Íslendingar í mestum erfiðleikum með að losa sig við hersetuliðin bæði en það tókst loks 1947 en óljóst var hvað átti að taka við.
Stofnun herlaus lýðveldis á Íslandi
Gangur heimsmála fór hér eftir að hafa bein áhrif á innan- og utanríkisstefnu landsins. Haf og fjarlægð voru ekki lengur skjöldur og verja landsins. Því leið ekki á löngu þar til að Íslendingar hófu að leita hófanna að ásættanlegri lausn á varnarmálum landsins.
Um sama leyti og hugmyndir um stofnun Atlantshafsbandalagsins voru að fæðast, kom upp hugmynd um sérstakt varnarbandalag Norðurlanda en fljótlega kom í ljós að hún var andvana fædd.
Samfara undirbúningi að inngöngu Íslands í NATO fór fram umræða hvort stofna ætti íslenskan her og sitt sýndist hverjum.
Um miðjan mars 1949 héldu þrír ráðherrar til Washington og ræddu við Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lögðu þeir áherslu á sérstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar, sem vildi ekki koma sér upp eigin her, segja nokkru ríki stríð á hendur eða hafa erlendan her eða herstöðvar í landinu á friðartímum.
Í skýrslu ráðherranna segir m.a.: Í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:
1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það myndi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.
2. Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.
3. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.
4. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.
Eins og kunnugt er stóð mikill styrr um þetta mál en þrátt fyrir átök og mótmæli var Atlantshafs-sáttmálinn undirritaður í Washington 4. apríl 1949.
Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi.
Frá sjónarhóli Atlantshafsbandalagsríkjanna horfði málið öðruvísi við. Þrátt fyrir fyrirvara Íslendinga við sáttmálann vildu yfirmenn Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli. Þeir óttuðust aðallega skemmdarverk sósíalista eða valdarán þeirra en ekki áform Sovétmanna um að leggja Ísland undir sig.
Hjá íslenskum ráðamönnum var hvorki samstaða um að fá erlent herlið né koma á íslensku varnarliði og var aðallega borið við bágt efnahagsástand og fámenni landsins.
Kalda stríðið og Kóreustyrjöldin 1950 breytti afstöðu íslenskra ráðamanna á sama hátt gagnvart aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarsamstarfi og valdarán kommúnista í Prag 1948. Það voru því íslensk stjórnvöld sem höfðu frumkvæði að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins.
Niðurstaðan varð sú að þríflokkarnir svonefndu féllu frá stefnu sinni um herleysi á friðartímum og gerðu varnarsamning við Bandaríkjamenn um vorið 1951. Hingað kom bandarískt herlið sem hefur verið m.a. staðsett á Keflavíkurflugvelli síðan til 2006 en hálfa viðveru síðan. Á ýmsu hefur gengið á í sambúð hers og þjóðar en í heildina séð hefur það gengið með ágætum. Svo gerðist það að Bandaríkjaher tók að týgja sig til brottferðar. Þessi hótun eða réttara sagt tilkynning um brottför hluta hersins á Keflavíkurflugvelli kom í byrjun tíunda áratugarins.
Í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál árið 1993 varð grundvallarbreyting á samskiptum ríkjanna er varðar varnarmál. Í raun lögðu Bandaríkjamenn til að horfið væri aftur til ársins 1947 þegar þeir fengu aðgang að Keflavíkurflugvelli, þar staðsettur lágmark mannskapur til að standsetja stöðina ef með þyrfti en engar trúverðugar varnir hafðar uppi.
Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 hefur reynst bæði árangursríkt og sveigjanlegt verkfæri, sem hefur staðist tímans tönn. Hinu sérstöku aðstæður sem ríktu á tímum kalda stríðsins gerðu aðilum samningsins kleift í meira en fjörutíu ár að komast hjá því að leggja mat á þær lágmarks skuldbindingar sem kveðið er á um í samningnum.
Við lok kalda stríðsins var vart við öðru að búast en að á það reyndi hvort aðilar litu mikilvægustu ákvæði samningsins sömu augum. Tillögur Bandaríkjamann 1993 benda eindregið til þess að stjórnvöld á Íslandi og í Bandaríkjunum leggi og hafi e.t.v. ætíð lagt ólíkan skilning á varnarsamningnum í veigamiklum atriðum.
Munurinn felst einkum í því að Bandaríkjamenn virðast telja að varnarviðbúnaður á Íslandi eigi einkum að ráðast af breytilegu mati þeirra sjálfra á hernaðarógninni á Norður-Atlantshafi, en Íslendingar líta á hinn bóginn svo á að varnarsamningurinn eigi að tryggja lágmarksöryggi landsins án tillits til hernaðarógnarinnar hverju sinni.
Í stuttu máli sagt, lögðu Bandaríkjamenn til að hafið yrði brotthvarf flughersins frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og loftvarnir Íslands yrði sinnt frá austurströnd Bandaríkjanna. Þeir sögðust hins vegar vilja starfrækja áfram herbækistöðina á flugvellinum, loftvarnareftirlit, og áframhald yrði á Norður-Víking æfingunum en viðbúnaðurinn háður breytilegum aðstæðum á alþjóðavettvangi.
Ekki var við öðru að búast en að Íslendingar yrðu algjörlega ósammála þessum tillögum Bandaríkjanna og hafa reynt allar götur sínan að koma í veg fyrir að umtalsverðar breytingar verði á varnarbúnaði herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Allt bentir til þess nú að andmæli Íslendinga verði að engu höfð og hafa þeir því neyðst til þess, nauðugir sumir hverjir, að endurmeta veru herliðs á Íslandi og hvað beri að gera ef Bandaríkjamenn fari.
Björn Bjarnason og umræðan um stofnun íslensks hers
Óhægt er að segja að umræðan um varnarmál á síðastliðnum áratugum hafi ekki verið fjörug. Aðeins hefur verið deilt um keisarans skegg; um dvöl og sambúðarvanda hers og þjóðar en lítið talað um raunverulegar þarfir Íslendinga sjálfra eða alvarleg herfræðileg úttekt á vegum stjórnvalda gerð á varnarþörfum landsins eða hvað Íslendingar geti gert sjálfir til að treysta varnirnar. Svo gerðist það að stjórnmálamaðurinn Björn Bjarnason reið á vaðið og varpaði stórbombu inn í íslenskt samfélag þegar hann kom með hugmyndir um stofnun íslensks hers á tíunda áratug tuttugustu aldar sem hann reyfaði líklega fyrst 1995 en ítrekaði í Morgunblaðinu í maí 2001. Björn sagði að "...það væri frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að sýna fram á, að hún hefði gert áætlanir til að verja borgara sína og land. Ekki væri til frambúðar unnt að setja allt sitt traust í þessu efni á Bandaríkjamenn." Hann sagði jafnframt að á liðnum árum því verið borið við þau rök að ekki kæmi til álita, vegna fámennis þjóðarinnar og fátæktar, að stofna íslenskan her. Þetta ætti ekki lengur við sem röksemd þar sem við væru bæði fjölmennari og um leið ein ríkasta þjóð jarðar.
Björn lagði til að Íslendingar annað hvort taki að sér að hluta til varnir landsins eða að fullu ef Bandaríkjamenn fari. Hann sagði að með því að nota þumalfingursreglu "væri unnt að kalla 8 til 10% þjóðarinnar til að sinna vörnum landsins á hættustundu eða milli 20.000 og 28.000 manns, án þess að efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist. Við slíkan fjölda væri miðað í Lúxemborg, þar sem um 1000 manns sinntu störfum í her landsins á friðartímum. Unnt yrði að þjálfa fámennan hóp Íslendinga, 500 til 1000 manns, til að starfa að vörnum landsins, án þess að setja vinnumarkaðinn úr skorðum."
Björn sá önnur not fyrir slíkt herlið en eingöngu til hernaðarþarfa. Hann taldi að hægt sé að nota liðið til að bæta almannavarnir og í því skyni að bregðast við náttúruhamförum og hann sá ennfremur möguleika sem skapast hafa með stofnun íslensku Friðargæslunnar og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Hún hafi aukist ár frá ári og sé orðin liður í gæslu öryggishagsmuna Íslendinga.
Inn í slíkt öryggiskerfi sér Björn einnig not fyrir sérsveit á vegum ríkislögreglustjóra, í heræfingum hér á landi annað hvert ár. Hann virðist því sjá fyrir sér þríarma "öryggisstofnun", sem saman stendur af eins konar smáher eða öryggissveitum, íslenskri friðargæslustofnun með hernaðarlegum ívafa og sérsveitum ríkislögreglustjóra. Hann virðist einnig sjá fyrir sér að hægt sé að færa mannafla milli þessara arma. Þar stendur hnífurinn í kúnni, því að mestu deilurnar hafa skapast um störf Friðargæslunnar. Sumir virðast aðeins sjá fyrir sér að hún sé og verði borgaraleg stofnun með engin tengsl við hernaðarmaskínu nokkurs konar, erlenda eða innlenda en aðrir telja, þar með talin íslensk stjórnvöld, að í lagi sé að tengja hana við störf t.d. NATO í Afganistan.
Andstaðan við hugmyndir Björn um stofnun íslensks hers virðast aðallega vera á vinstri væng stjórnmálanna, þó að einstaka menn á þeim vængi hafa ljáð máls á að kannski sé tími til kominn að huga alvarlega að þessum málum. En flestir hafa tekið frumkvæði Björns heldur fálega og kosið að persónugera þessa umræðu og telja best að hæða og spotta sem mest og vonast þannig til að umræðan falli um sjálfa sig.
En eins og rakið hefur verið í greininni snýst málið ekki um einstaka persónur, heldur hina sígilda spurningu, hvernig tryggjum við innra og ytra öryggi samfélags okkar? Hafa mál staðið þannig hingað til, að þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafa verið á veru Varnarliðinu svonefnda, þá hefur enginn (fyrir utan kannski Björn) komið með lausn á hvernig eigi að haga vörnum landsins ef og til þess kemur að það ákveður einn góðan veðurdag að yfirgefa landið. Menn eru flestir sammála um það, burt séð frá hvaða flokka þeir styðja, að einhverjar trúverðugar varnir verði að vera og þá með einhvers konar innlendu herliði, sérsveitum, öryggissveitum, heimavarnarliði eða hvað menn vilja kalla það, verði að vera til staðar ef til þess kemur.
Stofnun Varnarmálastofnun Íslands og lok hennar
Bloggritari var meðal fyrstur Íslendinga sem viðraði þá hugmynd árið 2005 að tímabært væri að stofna bæri stofnun fyrir varnarmál landsins. Málefni varnamála Íslandi voru í óreiðu og ábyrgðin dreifð á of margar hendur og mismunandi. Varnarmálastofnun var svo stofnuð árið 2009 en var svo lögð niður ári síðar og verkefni hennar komin í hendur fyrri aðila, sem er varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar. Það er einsdæmi í stofnanasögu Íslands að stofnun sé lögð niður og það eftir skamman starfstíma.
Sumir sá Varnarmálastofnun allt til foráttu og töldu þetta vera tilgangslausa stofnun. En svo er ekki, því að stjórnsýslan verður hvort sem er að halda utan um varnarmál Íslands, sjá um tvíhliða varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 og samskiptin við NATÓ. Stofnunin var einnig nauðsynleg til þess að hér skapast innlend þekking á varnarmálum en ekki sé reitt á þekkingu bandarískra hershöfðingja í Pentagon.
Til að gera langa sögu stutta, hefur umsýsla varnarmála síðan Varnarmálastofnun var aflögð, verið í ólestri og verksvið á reiki. Einn ljós punktur hefur verið síðan en það er stofnun Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála sem er líklega komin á koppinn. En slíkt setur að mati bloggritara ætti heima í varnarmálastofnun sem yrði endurreist sem fyrst.
Hér eru greinar sem bloggritari hefur skrifað um varnarmálastofnunina en þær eru fleiri, auka fjölda greina í dagblöðum.
Herlausa lýðveldið Ísland - Varnarmál og Varnarmálastofnun Íslands
Tilaga til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála liggur fyrir hjá Alþingi
Lokaorð
Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvort einhverjar líkur eru á að hér verði stofnaður her í náinni framtíð. Ef litið er á stöðuna eins og hún er í dag, þá virðist það vera frekar ólíklegt. Íslensk stjórnvöld virðast ekki einu sinni geta rekið Landhelgisgæsluna með sómasamlegum hætti eins og allir vita og því verða þau virkilega að endurskoða afstöðu sína til þessara mála. Einhverjar bakdyraleiðir verða þess í stað farnar, svo sem með fjölgun í víkingasveitinni og að sveigja Friðargæsluna meira í átt til hermennsku sem telja má vera afar ólíklegt.
Saga | 20.11.2020 | 13:23 (breytt 23.8.2024 kl. 11:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020