Færsluflokkur: Bækur

Eyjan hans Ingólfs - nokkur umhugsunarefni

Eyjan

Mér til undrunar fékk ég bókina Eyjan hans Ingólfs í jólagjöf. Ég hef nú lesið bókina.

Bókin er um margt ágæt en bókartitillinn kannski ekki alveg í samræmi við heildarumfjöllunarefnið, sem er uppruni landsnámsmanna og tengsl þeirra við grannríki Íslands; Írland, Suðureyjar, Orkneyjar, Færeyjar, Skotlands, Englands og síðan en ekki síst Noreg. Miklu púðri er eytt í að skýra umhverfi landnámsaldar, víkingaöldina sjálfa og hernað norrænna manna í vesturvegi, jafnvel farið alla leið til baka til tíma Rómaveldis.

Bókin er mikið í ættfræðinni, enda nauðsynlegt til að skilja hvernig landnámið átti sér stað og hvernig landið var skipt upp.  Landnámsmennirnir komu nefnilega ekki úr tómarúmi, heldur fluttu þeir með sér hefðir og venjur - þ.e.a.s. menningu sína til nýrra heimkynna. Þetta var norræn menning en með vestrænum ívafa (Vestmenn = Írar). Athyglisvert er að tala um uppruna Austmanna, þ.e.a.s. manna austan fjalls (Noregsfjallgarðs) í Noregi og svo Austmanna í merkingu kynblendinga Íra og norræna manna.

Uppruni Íslendinga

Íslendingar virðast því vera komnir af Norðmönnum (norrænum mönnum) og Austmönnum, samblöndu af Írum og norrænum mönnum en einnig írskum þrælum og írsku kóngafólki og í Suðureyjum samblöndum af Piktum og Skotum við norræna menn þótt þeim hafi verið útrýmt að mestu eða öllu leyti úr eyjunum. Þetta fer saman við erfðafræðina eins og hún er kynnt okkur hjá íslensku erfðagreiningu.

Ásgeir segir að keltar hafi verið meðal fyrstu landnámsmanna og komið í fyrri af tveimur bylgjum fólksflutninga til landsins. Í síðari bylgju hafi fólk frá Vestur-Noregi verið undirstaðan, svo mjög að til landauðnar horfði og Noregskonungs setti á brottfaraskatt. Þetta þarfnast frekari rannsókna. Fólksflutningar úr Noregi hafa ekki hætt við ákveðið ártal og rannsaka þarf hvað gerðist frá árinu 930 til 1000. 

Írland, Skotland, Wales og England lokuðust að miklu leyti fyrir norrænt fólk á 10. öld nema eyjarnar fyrir strönd Skotlands. Engir fólksflutningar keltneskt fólk hafa átt sér þá stað til Íslands. Aðeins fólk úr þessum eyjum og Noregi hafa getað flutt til Íslands. Í greininni: Raðgreindu erfðamengi úr 25 landnámsmönnum á vef RÚV (31.05.2018) segir: "Fleiri Íslendingar voru af keltneskum uppruna við landnám en greina má af erfðaefni Íslendinga nú á dögum. „Við erum að sjá 43 prósent keltneskan uppruna meðal landnámsmanna, versus í dag þá erum við að sjá 30 prósent." Þetta kemur saman við þá kenningu að lokað hafi verið fyrir flutning keltneskt fólks til landsins og síðari hópar norræna manna hafi minnkað hlutfallið niður.

Það hefur vakið athygli mína hversu afgerandi norræn menning er á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Af hverju? Það er skiljanlegt ef meginþorri keltneskt fólks hafi verið þrælar, en líkt og síðar með íslenskt vinnufólk, hefur það ekki mátt eignast afkvæmi nema vera frjálst og átt ákveðnar eignir. Það hefur horfið fljótlega vegna þess en einnig vegna innflutnings norskt bændafólks sem Ásgeir segir að hafi keypt sér far um Íslandshaf, væntanlega í síðari bylgunnni og keypt við það um vinnu. Þrælahald hefur því verið skammvinnt og keltnesk áhrif horfið, svo sem kristni mjög fljótlega.

Þannig að keltneska blóðið sem mælist í Íslendingum í dag hlýtur að megninu til verið af fólk af eyjum utan við Skotland sem blandaðist norrænu fólk þar eða skömmu við komuna til Íslands og verið að megninu til frjálst fólk.

Stærð landnámssvæða - hvað var verið að stofna til?

Það er ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar þar sem einblínt er meira að sjálfu landnáminu. Athygli hefur vakið hversu stór landnámssvæðin voru í upphafi. Ásgeir tengir þetta við stofnun héraðs, að stofna til stjórnsýsluumdæmis frekar en einn landsnámsmaður hafi ætlar sér að nýta allt svæðið. Hann segir: "Fjögur stærstu landnámssvæðin voru samkvæmt Sturlubók Landnámu á vegum Ingólfs, Skallagrims, Ketils hængs og Helga margra. Þau töldu hvert um sig um 400 bæi eða rúmlega það samkvæmt jarðatali  miðra nítjándu aldar (hvers vegna Ásgeir er að miða við 19. aldar jarðatal er skrýtið, því að eftir margra alda búsetu hafði jarðaskil breyst nokkuð þótt margar jarðir hafi haldist óbreyttar í lögun. Hvers vegna ekki að miða við Jarðatal Árna Magnússonar eða aðrar heimildir?)." Jafnvel í dag er deilt um afrétti og hver á hvaða land.

Ásgeir heldur áfram: "...voru því mun stærri en hið 120 íbúa mark fyrir hérað eins og venja gerði ráð fyrir. Því náðu forystumenn þessarra héraða ekki að halda fullri stjórn á þeim þegar fram liðu stundir. Ketill hængur og Helgi magri fór þá leið að skipta þeim niður og leyfa öðrum höfðingjum að nema land að sínu ráði." (Ásgeir Jónsson, 2021, 151-153).

Spyrja má sig hvort þessi höfðingjar hafi hreinlega ekki verið að búa til RÍKI frekar en hérað? Ef þessi landnámssvæði náðu flest til 400 bæja svæði eða svo, þá samsvarar það til fjögra héraða og það gæti verið uppistaða undir smáríki eða upphaf að smákonungsdæmi.

Það að stórhöfðingjarnir hafi leyft öðrum höfðingjum (stórbændum) að setja í landnámi sitt er því ekki óeðlilegt (tryggja liðveislu fylgdarmanna) en þeir sem fengu ekki úthlutað land, að þeir skuli hafa sest að í útjarði kjarnasvæðis stórhöfðingjans. Það kvarnaðist fljótt upp úr Landnámum Skallagríms, Ingólfs og Helga magra og ef ætlunin var að búa til smáríki, eins og urðu til á 13. öld, þá misheppnaðist sú hugmynd fljótlega. Því lengra sem dró frá valdamiðstöð stórhöfðingjans, því meira fóru menn sjálfráða, enda óbyggt land og stórt og erfðaréttur til landsins enginn, annar en helgun landsins undir vald stórhöfðingjans sem mátti sig lítið er fram liðu stundir.

Veiðistöðin Ísland

Lítið fer fyrir umræðuna um veiðistöðina Ísland í bókinni. Jú það er minnst á rostungaveiði þræla Geirmunds heljarskinns og fer það fyrir brjóstið á Bergsveinn Birgissonar sem skrifaði bókina "Leitin að svarta víkingnum". Í vefgrein Vísis - "Stolið og rangfært - Um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónson", herjar Bergsveinn á Ásgeir og segir:

"Ásgeir heldur áfram með þessa tilgátu sem hann kallar «veiðiþræla-viðskiptalíkan», og það tengt áfram við Hrafna-Flóka og síðan Ingólf Arnarson sem skv. titli ætti að vera miðpunktur bókar. Síðan er vísað í Geirmund heljarskinn sem hafi tekið umrætt líkan «alla leið» (bls. 47). Hér má segja að skipt sé um nafn á barninu áður en stolið er, ég hafði kallað þetta veiðimenningar-efnahag eða módel og beint sjónum að þrælahaldi Geirmundar, en það breytir ekki því að seðlabankastjóri kemst að sömu niðurstöðu um bú Geirmundar á Hornströndum: «Öll þessi bú voru mönnuð af þrælum sem sinntu veiðum og vinnslu á rostungum og öðrum sjávarspendýrum» (bls. 48).

Þessara búa Geirmundar á Hornströndum er sjálfsagt getið í Landnámabók, sem Ásgeiri er í mun að tjá hve marglesið hafi, en þar má þó sjá við nánari lestur að Geirmundur er kallaður bóndi með «of búfjár» og að þrælar hans hafi fengist við landbúnað, enda talar landnámuhöfundur um bú en ekki ver. Þessa túlkun á að Geirmundur hafi verið í forsvari fyrir slíka veiðimenningu á Hornströndum er hvergi til nema í áðurnefndri bók, Leitinni að Svarta víkingnum (bls. 265–284)."

Mér sýnist þessi umræða vera á villigötum. Fornleifarannsókn í Stöðvarfirði virtist fyrst bera merki um að í upphafi hefi verið þarna veiðistöð í upphafi 9. aldar en umfang rústana bentir hins vegar til búrekstrar (bíðum frekari niðurstaðna).

Vel getur verið og mjög líklegt að landnámsmennir hafi stundað veiðiskap en mér finnst algjörlega ótrúlegt að rostungaveiði hafi staðið undir rekstur stórveldis eins og Geirmundur heljarskinn rak, jafnvel ekki í upphafi búskapar hans. Mun frekar það þetta hafi verið ábótarsöm hliðargrein landbúnaðar sem stóð í stuttan tíma, hlunnindi eins og sjá má í dag, þegar menn selja laxár dýrum dómum. Allt hefur verið veitt, fuglar og fiskur í sjó, ám og vötnum en menn byrjuðu strax að ryðja land, koma upp búum líkt og voru heima í upprunalandi.

Ef rostungsveiði hafi verið stunduð, þá hefur hún ekki getað staðið lengi, enda takmörkuð auðlind. Annað en með hvalveiði en fáir Íslendingar vita af því að hvalveiðar Norðmanna á 19. öld var upphafið að iðnbyltingu sjávarútvegarins á Íslandi og þorpsmyndunnar. Þær stóðu undir sjálfa sig, heldur betur og var meðal annars með sauðasölu til Bretlands, upphafið að peningaverslun Íslendinga. Ef þeir hefðu sagt hvalveiðar væru undirstaða ríkis Geirmundar, hefði ég frekar trúað þeim en þeir afgreiða það mál með að Íslendingar hafi ekki kunnað að veiða hvali, þótt til væru Þjóðveldislög (Landbrigða-þáttur Grágásar) um hvalskiptingu og skurð og þeir bara kunnað að nýta dauðann hval (þeir tala báðir um nýtingu sjávarspendýra...).Gjöful fiskimið eru við Vesturland og Vestfirði og í Breiðafirði, menn hafa eflaust sótt sjóinn stíft strax við landnámið.

Lokaorð

Hvað um það, hér varð til strax í upphafi bændamenning að norrænum uppruna. Við landnám var mikil áhersla lögð á nautgriparækt og korn var ræktað, sérstaklega í eyjum þar sem voraði fyrr og haust voru lengri, aðallega bygg en einnig hafrar. Niðurstöður fornleifarannsókna sýna að 40-60% húsdýrabeina landnámsbæja eru af nautgripum og kúabúskapur því mikilvægur. Af þeim sökum var lögðu landnámsmenn mikla áherslu á að búa til graslendi þar sem kýr vilja ekki birkilauf heldur gras. Annað var nýtt og flutt inn strax í upphafi, svo sem sauðfé sbr. söguna af Hrafna-Flóka og geitur. Svín voru höfð til nytja en hurfu á 16. öld og sennilega beitt á birkiskóga landsins. Hundar og kettir hafa fylgt manninum og sennilega hrafnar en eins og kemur fram í bók Ásgeirs, voru hrafnar á skildum og gunnfánum víkinga og þeir "dýrkaðir". Hvers kyns sjávarfang var nytjað, bæði sjávar- og ferskvatnsfiskar, fuglar og egg eins og áður sagði sem og sölvi og fjallagrös.

Bók Ásgeirs Jónssonar er ágætis yfirlitsrit fyrir fólk sem þekkir lítið til landnámsaldar. Ættfræðin getur verið ruglingsleg fyrir leikmann og hefði mátt hafa ættartölurnar sem eru í lok bókar í megintextanum. Ég sakna svo ljósmynda sem eru engar í bókinni, t.d. af skipum, fatnaði o.s.frv. og hafa tilgátumyndir af bæjum þessa tíma. Við erum eftir allt saman á 21. öld. Ég þarf svo að lesa bók Bergsveins Birgissonar. Hafi þeir báðir þakkir fyrir að vekja athygli á þessu spennandi tímabili sem er hjúpað dulúð og myrkri.


Um hvað fjalla annálar?

250px-Peterborough.Chronicle.firstpageÉg er að lesa annála þessa dagana. Merkileg lesning um hvað gerist í lífi þjóðar. En annálar eru brot eða glefsur úr þjóðarsögunni og í raun er Íslands saga ansi götótt. Annálar t.d. sleppa að greina frá heilu eldgosunum og í raun frá daglegu lífi. Það virðist vera hending hvað kemst á blað og oft er það háð söguritara, hvað er sett niður og um leið fáum við að skyggjast inn í fordómafullan eða hjátrúafullan heim hans um leið.

Það sem er gegnum gangandi er í þessar lesningu er að sagt er frá veðurfari, slysum, glæpum og farsóttum:

 

Sagt er frá almennu tíðarfari, svo sem að vetur hafi verið harður og sumar grösótt.

Sagt er frá slysum. Menn að detta af hesbaki (fullir stundum) og drepast. Tugir og stundum hundruð manna drukkna á hverju ári (300 manns eitt árið).

Sagt er frá farsóttum. Sjá má að farsóttir ganga yfir og drepa hundruð og þúsundir manna. 

Glæpamál. Þjófar hengdir (taldi 40 manns eitt árið) og konum drekkt í tugatali ár hvert fyrir að bera út börn sín. Sifjaspell og í hungursneyðum öllu stolið steini léttara. En einnig gestrisni við erlenda skipbrotsmenn og hve margir flýja land með útlenskum skipum til að sleppa við refsingu.

Slúður er látið fylgja með. Tek sem eitt dæmi um konu á níræðisaldri sem giftist ungum manni en skilur við hann vegna þess að hann var ,,impotent" eða getulaus! Árið 1706: áttræð kona giftist tvíugum manni 1705. Ári síðar - 1706 - skilaði hún honum til baka með þeim orðum að hann væri impotentiae causa (getulaus)! Sama ár átti karl einn 107 ára afmæli. Eldgos í Grímsvötnum. Maður féll úr bjargi við fuglatekju og dó. Nokkrir drukknuðu í vötnum (sýnist að menn hafi drukknað í öllum þekktum vötnum sem eru hér á landi), sængurkona varð bráðkvödd er hún gekk yfir bæjarþröskuldin - ansi margir bráðkvaddir á þessum árum, sennilega með undirliggjandi hjartasjúkdóma. Bóndi dó í fjárhúsi ásamt 50 rollum í fjúkviðri (sennilega fennt inni og kafnað). 

Skarðsárannáll

 

 


Sagnfræði og sagnfræðingar (Patrick Joyce)

PatrickPatrick Joyce veltur fyrir sér mikilvægi og áhrif póstmóderískri hugsun á félagssögu og koma þar nokkur hugtök við sögu, svo sem samsömun (e. identity), nýtískuleiki (e. modernity) og formgerð (e. structure) sem leiða til frekari skilning á þessum áhrifum.

Hvað varðar samsömun, hafa póststrútúrleg hugtök (e. post-structuralist) haft hvað mest áhrif, sérstaklega útgáfa feminista á þeim. Kenningar þeirra hafa komið með ný viðfangsefni til greininga og ný samsömunarhugtök okkur til skilnings, í formi kyns eða kynjafræði (e. gender).

Frekar en að bjóða upp á nýjan undirflokk, til að andmæla eða styrkja eldri greiningar, svo sem stéttir, hefur ,,kvennakenningin” (e. feminist theory) úrlausnagreina spurninguna hvað hugtakið samsömun stendur fyrir. Kynjakennsl eru séð sem söguleg og menningarleg afurð.

Samsvörun eða sjálfsmynd er í þessum fræðum séð sem afurð menningarlegra afla, og skoðað sem tengsl, samansett af kerfum breytileika.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Lawrence Stone (1979))

Stone

Lawrence Stone segir að sagnfræðingar hafi frá dögum Thucydides og Taciusar sagt sögur.

Einu sinni var sagan hluti af mælskufræði en síðastliðin 50 ár hefur frásögnin fallið í gildi hjá þeim sem stunda svo kallað ,,nýja sögu”.

Lawrence Stone telur sig þó sjá undirstrauma sem hafi neytt ,,hinu nýju sagnfræðinga” til að snúa sér að einhvers konar formi frásagnar.

En hvað er frásögn eða frásaga (e. narrative)? Hún er aðferð við að skipuleggja efni í tímatalslega og samfellda röð og niðurröðun efnis í eina samhangandi sögu, stundum þó með ,,undirplot” eða ,,undirsögu (e. sub-plots).

Það er tvennt sem aðgreinir frásagnarsagnfræði frá byggingasagnfræði (e. structural history) en það er að hún er lýsandi frekar en greinandi og að hún einbeitir sér að manninum frekar um kringumstæðum. Hún á því við það sérstaka og einstaka heldur en samsöfnun og tölfræðilega. Frásagan er ein gerð sögulegrar skrifar, en þessi gerð hefur áhrif á og verður fyrir áhrifum af efninu og aðferðinni sem hún beitir. Hún hefur ákveðið viðfangsefni (e. theme) og rök.

Viðfangsefni Gibbons var hnignun og fall Rómarveldis og Þúsidíesar (e. Thucydidies) var áhrif Pelopíustríðanna á grískt samfélag og stjórnmál. Hins vegar forðast, segir Lawrence Stone, enginn frásagnarsagnfræðingur greiningu í sjálfu sér en þeir byggja ekki frásögnina í kringum hana. Þeir eru hins vegar mjög bundnir framsetningu efnisins, stílbrögðum o.frv.

 

Skiptingin í hinu mismunandi aðferðafræði við sagnfræðiskrif er djúpstæð og er byggð á, segir Lawrence Stone, á tálsýn efnahagslegra nauðhyggjumanna og hefur skipt sagnfræðina í tvennt, félagssögu (e. social history) annars vegar og hugarfarssaga (e. intellectual history).

Söguleg gögn hafa sýnt okkur flókinn samverknað milli staðreynda eins og fólksfjölda, matvælaöflun, veðurfars, verðs og fleira hins vegar og gildi, hugmyndir og venjur annars vegar.

Meðframt félagslegum samskiptum stöðu (e. status) eða stéttar, myndar þetta einn skilningsvef. Ekki dugar að taka einungis einn eða tvo þætti út.

Margir sagnfræðingar eru nú á því að menning hópsins og jafnvel vilji einstaklingsins séu jafnlíklegar orsakir breytinga og ópersónuleg öfl eins og efnhagsleg afkoma eða lýðfræðileg orsakir. Það er engin kenning sem sanni það að hið síðarnefnda stjórni hið fyrrnefnda segir Lawrence Stone. Dæmi: vinnusiðferði púritana kom mörgum öldum á undan vinnusiðferði sprottin úr iðnbyltingunni. Samband menningar og samfélags er mjög flókið fyrirbrigði. Lawrence Stone tekur hér nokkur söguleg dæmi.

Lawrence Stone segir menningarþjóðir hafi risið og fallið sem eigi sér orsakir í flöktleika í stjórnmálum og umskipti í stríðsgæfu og að það sé ótrúlegt það þessi mál séu vanrækt af þeim sem telja sig vera í fararbroddi sagnfræðingastéttarinnar.

Sá dráttur sem hefur verið á viðurkenningu á mikilvægi valds, á persónulegar stjórnmálalegar ákvarðanir einstaklinga, á gengi stríðsgæfunnar, hefur neytt sagnfræðinga til baka, til frásögunnar, hvort sem þeir líkar það betur eða verr.

Þriðja þróunin sem hefur leitt til verulegs áfalls fyrir strúktúral og greiningasögu eru hin blönduðu gögn sem hefur verið notað og einkennst af mest karakterlega aðferðafræði – magnmæling (e. quantification). Hún er orðin mikilvæg aðferðafræði á mörgum sviðum sagnfræðirannsókna, sérstaklega í lýðfræðisagnfræði, sögu félagslegra gerða og félagslegan hreyfanleika, efnahagssögu og sögu kostningamynsturs og kostningahegðun í stjórnmálalegum kerfum sem eru lýðræðisleg.

Þetta hefur orðið til mikilla bóta vegna þess að nú sé krafist nákvæmar tölur en ekki talað óljóst með orðum eins og ,,mikið” eða ,,lítið”. Gagnrýnendur krefjast nú tölfræðilegar sannanir sem sanni að hin sögulegu dæmi séu dæmigerð en ekki undantekning á reglunni.

Þetta er góð þróun segir Lawrence Stone en það er mikill munur á starfi einstakan rannsóknarmanns sem reiknar út tölur á vasareiknir og kemur með einfaldar töflur og prósentureikning og svo á verki klíómetríkanann.

Sá síðarnefndi sérhæfir sig í að safna mikið safn af gögnum og hefur í þjónustu sinni hóp aðstoðarmanna; notar afkastamiklar tölvur við útreikninga og stæðfræðilega ferla við niðurstöður en Lawrence Stone segir að efasemdir hafa komið upp gagnvart slíkum aðferðum og niðurstöðum.

Dæmi: Vafi hefur komið upp hvort að sagnfræðileg gögn geti staðið undir slíkum rannsóknum; hvort aðstoðarliðið sé samhæft í aðgerðum sínum; hvort mikilvæg smáatriði hafi týnst í þessu vinnsluferli o.s.frv. Hann týnir til nokkur dæmi um mistök. 

Rannsóknir á kirkjuskrám er sígillt dæmi um þessa aðferðafræði. Gífurlegt átak er í gangi á rannsóknum á þeim en Lawrence Stone telur að árangurinn verði takmarkaður og aðeins örfáar rannsóknir leiði til niðurstöðu. Hann tekur til dæmis að við vitum ekki hvers vegna að fólksfjöldinn hætti að vaxa í flestum svæðum Evrópu milli 1640 og 1740 og hvers vegna hann hóf að vaxa á nýju eftir 1740 eða jafnvel hvort að orsökin hafi verið meiri frjósemi eða minnkandi barnadauði.

Magnmælingar hafa sagt okkur mikið um spurningar er varða sögulegar lýðfræði en tiltölulega lítið hingað til hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru. Það er t.d. hægt að mæla áhrif mataræðis og heilsu svertingja á tímum þrælahaldsins í Bandaríkjunum en ekki áhrifin á hugarfar þrælaeigenda eða þrælanna sjálfra.

Grundvallarbreyting á afstöðu hinu svo kölluðu nýju sagnfræðinga og fráhvarf frá greiningu til hið lýðsandi má rekja til breytinga á viðhorfi hvað sé miðlægt viðfangsefni sagnfræðinnar; á hinum frjálsa vilja í samspili við náttúruöflin.

Lawrence Stone segir að sagnfræðingar skiptist nú í fjóra hópa: 

1. Gamaldags frásagnarsagnfræðingar, sem skiptast í stjórnmálasagnfræðinga og ævisagnasagnfræðinga.

2. Klíómetranna sem halda áfram að haga sér eins og tölfræðilegir dópistar.

3. Félagsögusagnfræðinga sem eru enn uppteknir við að greina ópersónulegar byggingagerðir.

4. Mentalité sagnfræðinga (viðhorfasagnfræðingar?), sem nú eltast við hugmyndir, gildi, hugargerð (e. mind-sets) og mynstur náina persónulegs hegðunar.

Notkun viðhorfasagnfræðingar á lýsingarfrásögn eða einstaklingsbundna ævisögu hefur sína galla. Þeir hafa verið sakaðir um að nota mælskufræðilegar aðferðir í stað vísindalegra sannanna.

Lawrence Stone vísar í Carlo Ginzburg sem segir sagnfræðingar séu í rökleysisgildru, þar sem þeir verða annað hvort að taka upp veikan vísindalegan staðal til að geta fengið mikilvægar niðurstöður eða taka upp strangvísindalegan staðal til þess að fá niðurstöður sem skipta engu máli. Vonbrigði með hið síðarnefnda hefur hrakið sagnfræðinga til hið fyrrnefnda. Annar galli á notkun smáatriðadæma sem eiga að lýsa ,,mentalité” er að gera greinamun á hið venjulega og hinu sértæka.

Sem dæmi, þá verður tiltekið miðaldarþorp sem tekið er til rannsóknar að vera dæmigerð en ekki t.d. verið sérstækt að því leytinu til að villitrú viðgengst þar en ekki annars staðar.

Þriðja vandamálið tengist túlkun, sem er jafnvel erfiðra að leysa. Sagnfræðingurinn þarf að geta beitt áhugamannasálfræði til þess að komast inn í huga mannsins í fortíðinni en þetta er vandasamt verk og sumir hafa haldið því fram að það sé vonlaust verk. Önnur hætta er á, með frásagnaraðferðinni, er að þetta leiði til hreina fornfræðihyggju – til sögufrásagnar hennar vegna eða til skrifa um hversdagslegan leiðinleika meirihlutans.

Hvernig á að þjálfa sagnfræðinema framtíðarinnar? Í hinni fornu fræðigrein mælskufræði? Í gagnrýninni textafræði? Í ,,semiotics”? Í táknrænni mannfræði? Í sálfræði? Í tækni við beitinu á greiningu á félags- og efnahagsgerð sem við höfum stundað í heila kynslóð?

Lawrence Stone segir að hugtak eins og ,,frásaga” sé ófullnægjandi tæki til að lýsa cluster (klasa) breytingar á eðli sögulegri umræðu.

Það eru merki um breytingar sem varða miðlægra mála sagnfræðinnar, það er frá kringumstæðum sem umliggja manninn, til mannsins í kringumstæðum; í vandamálarannsóknum, frá hinu efnahagslega og lýðfræðilega til hið menningarlega og hið tilfinningalega; í uppsprettu áhrifa, frá félagsfræði, hagfræði og lýðfræði til mannfræði og sálfræði; í viðfangsefni, frá hópnum til einstaklingsins; í útskýringamódeli á sögulegum breytingum, frá ,,stratified” og einna ástæðna skýringu til millitenginga og margorsaka.; í aðferðafræði, frá hópmagnmælingum til einstaklingsdæmi; í skipulagningu, frá greiningalega til lýsingu; og í ,,conceptualization” á hlutverki sagnfræðingsins, frá hinu vísindalega til hið bókmenntalega. Þessi marghliða breyting á viðfangsefni, ,,objective”, aðferð og stíl sagnfræðilegra skrifa, sem er að gerast samtímis, passar eins og sverð við hendi.

Ekkert hugtak nær utan um allt þetta í dag.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Fernand Braudel (1980))

Fogel

Fernand Braudel talar um tíma í sögunni. Hann segir að sagnfræðingar hafi elst við rannsóknir fræðimanna í öðrum greinum, s.s. mannfræðinga, félagsfræðinga, tölfræðinga, hagfræðinga o.s.frv., því að þeir hafa haldið að þannig sé hægt að sjá söguna í nýju ljósi. Hann spyr sig hvort að sagnfræðingar hafi ekki eitthvað annað að bjóða á móti.

Fernand Braudel segir að undanförnu, hafi þróast meðvitað eða ómeðvitað, skýr hugmynd um fjölbreytileika tímans, og einstakt gildi langtímabila rannsókna. Það er hin síðarnefnda hugmynd, sem jafnvel meira en sagan sjálf – saga hundruði hliða - sem eigi erindi til félagsvísinda.

Öll söguleg verk eru upptekin við að brjóta niður tíma fortíðarinnar og nota til þess tímaviðmiðunarveruleika.

Hefðbundin sagnfræði, leggur áherslu á stutt tímaskeið, er varða einstaklinga og atburði. Hin nýja hag- og félagssaga setur hringrásarhreyfingu í forgrunn sinna rannsókna og festir sig við slík tímaskeið (hringrás upprisu og falls verðlags) sem eru oftast stutt. Hins vegar er hægt að mæla söguna eftir öldum, atburðir sem spanna mjög löng tímabil.

Félagsvísindin virðast vera lítið upptekin af löngum tímabilum eða fjarlægum tímum, þó svo að sagan sé ekki alltaf langt undan.

Hagfræðingar hafa t.d. verið of bundnir samtímanum í rannsóknum sínum, segir Fernand Braudel, og hafa varla farið aftur fyrir 1945 í leit að eldri efnahagskerfum eða spáð fram í tímann lengra en nokkra mánuði, í mesta lagi nokkur ár, og hafa þannig misst af kjörnu rannsóknartækifæri, án þess þó að neita gildi þess. Þeir eru fallið í þann vana að setja sig einungis inn í samtímaviðburði og segja að rannsóknir á efnahagsskeiðum mannkynssögunnar eigi sagnfræðingar að eiga við.

Staða þjóðfræðinga og upprunafræðinga (e. ethnologists) er ekki svona jafn skýr. Sumir þeirra hafa lagt það á sig að benda á að sé vonlaust eða gagnlaust að styðjast við sagnfræði innan fræðigreinar sinnar, nokkuð sem Fernand Braudel finnst vera fáranlegt, því t.d. hvers vegna í ósköpunum ætti mannfræði ekki að hafa áhuga á sögu? Það er ekkert samfélag, hversu frumstætt það er, sem ber ekki einhver ,,ör” sögu eða sokkið svo algjörlega að ekki nokkur spora sjást lengur. Hann er hins vegar fúlli út í félagsfræðina.

Félagsfræðilegar rannsóknir virðast fara út um hvippinn og hvappinn, segir hann, frá félagfræði til sálfræði og til hagfræði og eru bundnar í tími núinu. Hvers vegna ættu þeir að snúa sér aftur til sögulegs tíma, þar sem fátæktin, einfaldleikinn – ónýtt vegna þagnar- og endurgera fortíðina? Er endurgerð svo raunverulega dauð eins og þeir vilja láta okkur halda, spyr Fernand Braudel? Endurgerð (e. reconstruction) er svo mikilvægt að hans mati.

Philippe Ariés hefur lagt mikla áherslu á mikilvægi hið óþekkta í sögulegri útskýringu – hinu óvænta - og tekur sem dæmi mann sem er að rannsaka 16. öldina og rekst á eitthvað furðulegt frá sjónarhóli 20. aldar manns. Hvers vegna þessi munur?

Hann spyr hversu gagnleg sú félagsfræðileg rannsókn sé, sem setji sig ekki í sögulegt samhengi, til dæmis rannsókn á bæjum. Er ekki sagan á sinn hátt útskýring á samfélagi í öllum sínum veruleika? Verðum við ekki að hugsa lengra en í stuttum tímabilum til að skilja það? Í raun og veru getur sagnfræðingurinn ekki sloppið frá spurningunni um tíma í sögunni, því að fyrir sagnfræðinn byrjar allt og endar með tímanum og tímaskilningur félagsfræðinga getur ekki verið sami tímaskilningur og sagnfræðinga, því að tími sagnfræðinga er mælanlegur líkt og tímaskilningurinn hjá hagfræðingum.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Richard Hofstadter (1956))

Richard_Hofstadter

Richard Hofstadter segir að atvinnusagnfræðingar í dag eigi við þann stöðuga vanda að glíma, að vita fyrir hverju þeir standa. Tvær hefðir eru nú ríkjandi og móta þjálfun sagnfræðingsins og verkefni.

Hin fyrri er hin kunna sögulega frásagnargerð, sem er eins konar form bókmennta og alltaf virðist vera þörf fyrir að gera; frásagnarbækur um sögulegt efni.

Hin síðar nefnda er hið sögulega viðfangsefni sem fjallar um vel afmarkað efni (e. monograph) og hugmyndafræðilega er ætlað að snerta á vísindalega spurningum, sem sagnfræðingurinn er þjálfaður til að skrifa um í fræðiritum ætluðum fræðimönnum.

Frásagnarhöfundur hikar sjaldan við að endursegja sögu sem þegar er nokkuð vegin þekkt, hann bætir kannski við nokkrum nýjum upplýsingum en sjaldan kerfisbundið eða með skýrum og greinandi tilgangi. Höfundur fræðirits (e. monograph) tekur hins vegar upp á því að bæta við nýjum upplýsingum við þann þekkingasjóð sem fyrir er hendi, eða greina á nýjan hátt þýðingu samhengi sögulega viðburða.

Margir sagnfræðingar, sérstaklega þeir bestu, hafa bundið saman báðar þessar gerðir í einu verki. En greinin sjálf, sem heild, hefur átt í erfiðleikum með að ákveða hlutverk sagnfræðingsins sem virðist gegna tvöföldu hlutverki, og þessi óvissa hefur verið mikilvægasta ástæðan fyrir um óvissunni um gildi flestra sagnfræðirita.

Mörgum sagnfræðingum finnst það vera ófullnægjandi verk að aðeins endurtaka, með smávæginlegum breytingum, það sem við þegar þekkjum um fortíðina; en mónógrafían, sem þó er ætlað að komast yfir þessari takmörkun, skilur lesandann, jafnvel höfundinn sjálfan, í óvissu um hvaða hlutur hinnar nýju þekkingar sé raunverulega mikilvægur.

Þessari tvíhyggju er viðhaldið með þeim kröfum sem gerðar er á hendur sagnfræðingsins. Samfélagið biður hann um að útvega því minningar. Þessi gerð af minningum sem of oft er krafist, er ekki mjög ólík þeim sem við útvegum handa okkur sjálfum – það er, minningar sem ætlað það hlutverk að gleyma, endurraða, aflaga og fella úr eins mikið og þörf er fyrir, til þess að gera okkar eigin sögulega sjálfsímyndun ásættanlega.

Samfélagið hefur einnig annað hlutverk handa sagnfræðingnum; að greina reynslu þess á þann hátt, að hægt sé koma hana í nothæfa gerð fyrir eitthvað ákveðið verkefni. T.d. gæti her beðið sagnfræðing um að safna saman upplýsingum um fyrri stríð í von um slíkar upplýsingar gætu orðið nothæfar í stríðum framtíðar (ath. Patton hershöfðingi leitaði í smiðju Sesars og æðsti hershöfðingi Japana sem vann Rússa 1905, stældi aðferðir Nelson flotaforingja).

Þessi tvíhyggja hefur sína kosti og galla. Hún gerir sagnfræðingnum erfitt fyrir um að ákveða hlutverk sitt (er hann rithöfundur eða tæknimaður? Eða er hann vísindamaður eða spámaður?). Hins vegar getur hún hjálpað honum. Hún gefur honum tækifæri til þess að eiga samskipti við hina ýmsu fræðimenn og fræðigreinar, við stjórnmálamenn og opinbera stjórnsýslu, við blaðamenn og fjölmiðla, við bókmenntir og gagnrýnisstefnu (e. criticism), við vísindi, heimspeki, listir og við félagsvísindi.

Sagnfræðin sker sig frá öðrum fræðigreinum, líka félagsvísindum, hvað varðar hinu sérstöku vandamálum sem hún fæst við, aðferðafræði, takmörkunum og tækifærum. Hins vegar er samband sagnfræðingsins við félagsvísindin mun mikilvægari hjá núverandi kynslóð af sagnfræðingum en nokkrum sinni fyrr í fortíðinni, sem er líklega að þakka þeim miklu framförum sem félagsvísindin hafa tekið síðastliðna áratugi.

Fræðigreinar sem krosstengjast (e. inter-disciplinary work)

Richard Hofstadter segist ómögulega geta kerfisbundið eða formúlera það sem hann gerir sem sagnfræðingur, og tengja við félagsvísindi sem hann finnst vera ruglingsleg, þó að hann telji að þau hafi hjálpað til við að benda á nýja ályktun en ekki nýja niðurstöðu, vegna þess að slík vandamál eru aldrei leyst.

Mónógrafían hefur stundum valdið vonbrigðum, jafnvel í því greinandi verki sem henni er ætlað að sinna og sama má segja um frásagnaraðferðina, hún hefur oft ekki leitt til skilnings á viðfangsefninu. Hann bendir á félagsvísindin sem leið út úr þessum vanda. Hún getur gengið í lið með þessum tveimur fyrst greindum hefðum. Félagsvísindin, með sína aðferðafræðilega sjálfsvitund gæti haft eitthvað að gefa til greinandi þátt rannsókna sagnfræðingsins. Hægt er að hræra saman frásögn, mónógrafíu (sem tapar ekki greiningarþátt sinn og hættir að líkja eftir vísindi) við aðferðir félagsvísinda og fá út úr því eitthvað nýtt.

En hvernig getur félagsvísindin farið saman við frásagnaraðferðina sem fæst við karaktera? Jú, sagnfræðingurinn fær hugmyndir og aðferðir frá félagsvísindunum og geta þjónað ,,catalytic function” fyrir hann. Þau geta hjálpað sagnfræðingnum að aðlaga að sér í eigin tilgang sérstaka nútímasýn í mannlega hegðun og karakter sem hann hefði annars ekki getað gert.

Næsta kynslóð mun þá e.t.v. upplifa samblöndu af sagnfræði og félagsfræði, samblanda af hefðbundinni sagnfræði og félagsvísindum. Hún verði öðru vísi að því leitinu til að hún verður ekki eins og frásagnarsagan í því að helsta hlutverk hennar verður greining. Hún verður ólík mónógrafíunni í því að hún verður meðvituð hönnuð sem bókmenntaform og mun fókusa á vandamál sem mónógrafía hefur hingað til ekki getað átt við. Hún mun taka upp sýn félagsvísinda og að einhverju leyti aðferðir þeirra – hún gæti orðið að bókmenntalegri mannfræði (e. literary anthropology) og tekið upp aðferðafræði úr öðrum fræðigreinum til að fást við gömul vandamál sem sagnfræðin hefur átt við að glíma lengi.

Richard segir að sagnfræðin greini sig á margan hátt frá náttúruvísindum sem og flestum greinum félagsvísinda með sínum tölfræðilegu alhæfingum og þar sem jafnvel er hægt að koma með tölfræðilega forspá. Nútímasagnfræðingurinn hefur ekki áhyggju af þessu. Og ef sagnfræðin féllur ekki undir hinna hefðbundnu greiningaaðferðir vísinda, þá gæti það hjálpað að flokka hana undir hugtakið Wissenschaft en ekkert enskt orð nær utan um þetta hugtak- sem er lærð fræðigrein með ákveðna hugfræðilega þætti, byggja á sannreynalegum þáttum og gjöfullri þekkingu.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Howard Zinn (1970)) - Hvað er róttæk (e. radical) saga?

Zinn

Sagnfræðilegt efni hefur ávallt haft áhrif á okkur. Það getur gert okkur hlutlaust eða hvatt okkur til dáða.

Alla veganna, segir Howard Zinn, getur sagnfræðingurinn ekki kosið að vera hlutlaus. Hann hvetur til gildishlaðna (e. value-laden) sagnaritun. Sumir myndu mótmæla þessu en þá myndi ég segja að hún ákveður ekki svörin, heldur aðeins spurningarnar og að verk sagnfræðinga eru gildishlaðin hvort þeim líkar það betur eða verr og bendir á rannsóknir svartra (e. black studies) sem hófust um 1969. Þær beinast fyrst og fremst að því að hafa áhrif á meðvitund svarta og hvítra í Bandaríkjunum í þá átt að minnka eða láta hverfa, þá skoðun beggja hópa að svartir væru óæðri á einhvern hátt.

Það er hægt að stunda sagnfræðirannsóknir sem hreyfir fólk til mannlegra átta (e. humanistic directions) og hann bendir á fimm leiðir þar sem sagan getur verið gagnleg.

Við gætum styrkt, útvíkkað og skerpt skynjun okkar á því hversu slæmir hlutirnir eru; fyrir fórnarlömb heimsins. Sagan getur yfirstigið aðskilnað sem eru innan samfélaga og milli samfélaga.

Við getum endurheimt þessi fáu augnablik fortíðarinnar sem sýna möguleikann á betra lífi en það sem hefur ríkt á jörðinni hingað til. Til þess að fá menn til aðgerða, er ekki nóg að auka skilning fólks á því hvað er slæmt, hversu ótraustir valdamenn hafa reynst, til að sýna hversu hugsanir okkar er takmarkaðar, ruglingslegar og spilltar. Það verður einnig að sýna fram á að annar möguleiki sé fyrir hendi, að breytingar geti átt sér stað, annars hverfur fólk til örvæntingu, kaldhæðni, inn í eigin skel eða jafnvel hefja samvinnu við hinn máttuga.

Sagan er ekki endilega gagnleg. Hún getur bundið okkur eða frelsað. Hún getur eytt samúð með öðru fólki með endalausar sýningar af hörmungum og þannig framkallað kaldhæðnisleg viðbrögð.

En sagan getur einnig sameinað huga okkar og líkama til að taka þátt í lífinu, frekar en að líta á það sem gerist fyrir utan okkar reynsluheim. Hún getur gert það með því að víkka sýn okkar með því að taka með þöglu raddir fortíðarinnar, svo að við getum litið bakvið eða yfir þögn samtímans.

Sagan getur bent á fávisku þess að treysta á einhverja aðra aðila til að leysa vandamálin, hvort sem það er ríkið, kirkjan eða aðra aðila. Hún getur gefur okkur hvatt okkur áfram með því að endurkalla þessu fáu augnablik fortíðarinnar þegar menn höguðu sér eins og menn, til að sanna að það sé hægt.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Michael Howard (1989))

Michael

Michael Howard segist vera fullkunnugt um þá fullyrðingu að sagnfræðingar hafi félagslegu hlutverki að gegna – réttara sagt félagslegar skyldur – sé síður velkomin hugmynd en hún var þegar hún birtist fyrir 200 árum (skrifað 1989).

Hann segir ennfremur að ,,félagleg nothæf” saga eða saga sem skrifuð er sem vopn í félagslegum tilgangi eða áróðri, til þess að mæta félagslegum eða stjórnmálalegum þörfum, eigi ekkert erindi í háskóla eða annars staðar yfirhöfuð. Hins vegar verður slík saga kennd ef menn passa sig ekki og hafi varann stöðugt á, því að öll samfélög hafa einhverja sýn á fortíðina; sýn sem skerpir og er skerpt af sameiginlegri vitund (e. collective consciousness) um fortíðina, sem bæði endurspeglar og viðheldur gildiskerfin sem stýra gerðir og dómgreind (e. judgements) samfélaganna og sagnfræðingar útvega ekki þessa sýn, munu aðrir sem e.t.v. eru ekki eins sannsýnir eða hlutlausir eða hafa getu til, gera það. 

Auðvitað sleppur sagnfræðingurinn ekki frá samtíðinni en hann getur tryggt að sýn okkar á fortíðinni sé ekki brengluð af fordómum, svikum eða einfaldum mistökum. Hlutverk sagnfræðings er að halda ,,lindir þekkingunnar” sem streyma til almennings hreinum. Fyrsta skylda hans er að alhæfa ekki á grundvelli falskra forsenda sem byggðar eru á ófullnægjandi sönnunum. Önnur skylda hans er að skilja að fortíðin sem er eins og erlent land; það er voða lítið sem við getum sagt um það, fyrr en við höfum lært tungumálið sem talað er þar og skilið ætlun eða fyrirætlun þess (tilgang og gerð), og varast ber að koma með ályktanir um þann feril sem á sér stað innan þess og heimafæra til dagsins í dag fyrr en nægjanleg þekking sé fyrir hendi.

Skilningur á fortíðinni, sérstaklega sá sem varðar trú og ætlun sem halda samfélögum saman er mest gefandi og erfiðasta verkefni sem sagnfræðingur getur fengist við. Og við þetta verk þarf hann að styðjast við ímyndunaraflið en það verður að vera notað á réttan hátt; endursköpun gerð átrúnaðar sem ákvað aðgerðir og sem ef til vill gerði gerði sumar aðgerðir meiri líklegri en aðrar. Það væri til dæmis heillandi og ekki alveg út í hött að vita það hvað hefði gerst ef Hitler hefði einbeitt sér að sjóhernaði í stað landhernað.

Þörf er á sögulegu ímyndunarafli þegar fengist er bæði við fjarlæga sem nærtæka fortíð. Hann tekur dæmi um Þýskaland nasismans og segir ef við ætlum að draga einhverjar ályktanir um þriðja ríkið, hvers konar þjóðfélag var það og hvers vegna komst það á þetta stig sem það komst á og hvers vegna það hélt saman alveg fram á síðasta dag og þessa miklu skuldbindingu fólksins við það - verðum við að skoða gildakerfi og ,,world-outlook” sem hélt ríkinu saman. Þá fyrst getum við spurt okkur hvort við hefðu getað stöðvað Hitler fyrr eða hvað hefði gert ef við hefðu ekki krafist algjörar uppgjafar.

Ef það er erfitt fyrir sagnfræðing, sem hefur heildarsöguna borðlagða fyrir sig (hefur gerst í fullri lengd) og allan tímann í heiminum til að velta málið fyrir sér aftur og aftur, ættum við ekki að fordæma bresku stjórnmálamennina sem gerðu mistök á sínum tíma og vanmáttu Hitler. Þeir voru einnig bundnir af menningarlegum aðstæðum, t.d. var Neville Chamberlain forsætisráðherra og samstarfsmenn hans aldnir upp á tíma Viktoríu drottningu og voru miðaldra er fyrri heimsstyrjöldin braust út, hann ásamt öðrum breskum stjórnmálamönnum voru börn breska heimsveldisins og skildu betur vandamál tengd nýlendum en stjórnmálaleg vandamál í Mið-Evrópu. Sagan sem þeir lærðu, var gömul saga í anda frjálslyndisstefnunnar, þar sem litið var á sameiningu Þýskalands sem hámark frelsinsbaráttu og sjálftjáningar þjóðar, eitthvað sem væri jákvæða þróun.

Jafnvel þeir sem óttuðust þessa þróun, litu á hana á hefðbundinn hátt, sem endursköpun prússneska ríkisins sem þeir þekktu úr æsku sinni en ekki eitthvað nýtt fyrirbæri. Og byltingakenndri efasemdastefnu (e. Nihilism) sem afneitaði algerelga öllu hefðbundnu gildismati, trú, lögum o.s.frv. og gerði nasistum kleift að finna viljuga samverkamenn í hverju einasta ríki sem þeir tóku og gerði nasismans að vinsælli hreyfingu. --- Breskir skólar hafa ávallt vanrækt að rækta þekkingu og skoða og meta sem skildi mikilvægi meginlands Evrópu, eins og t.d. er farið þegar Bretar skilja ekki ESB og mikilvægi þess, talandi ekki um Bandaríkin, en virðast alltaf hafa meiri áhuga á fjarlægum löndum eins og Indland eða Kanada. Gildi sögunnar er takmarkað ef eingöngu er litið á hana sem endursköpun eigin sögu og ekki á mikilvægi annarra samfélaga sem kunna að hafa lagt meira til við sköpun heimsins sem við lifum í dag.

Ef þetta er eitt meginhlutverk sagnfræðingsins, að útskýra nútíðina með því að dýpka skilninginn á fortíðinni, þá eru rannsóknir á eigin samfélagi ófullnægjandi og fara ekki langt með okkur. Fáfræði, sérstaklega menntamanna, getur verið meira afl og haft víðtækari afleiðingar heldur en þekking. Hins vegar verður að gera greinamun á hvernig sagan er rannsökuð af sagnfræðingum og hvaða sagan er kennd handa leikmönnum. Allar gerðir af sagnfræðingum verður að vera til og hlutverk háskóla er að sjá til þess að svo sé. Í augum fræðimannsins eru allar aldir jafngildar. Það er jafn mikilvægt að rannsaka austurrómverska ríkið og Sovétríkin, því að ef við skiljum ekki hið fyrrnefnda, hvernig skiljum við hið síðarnefnda? Fortíðin er ein löng keðja og alllir hlekkirnir verða að vera í góðu lagi.

Vegna þess að takmarkaður tími gefst til að kenna almenningi sögu, verður að fara fram val á námsefni, t.d ef um nútímasögu er að ræða, þá verður hún að vera samtímasaga og útskýra þróunarferilinn sem leitt hefur til þess að hún er eins og hún er í dag. Og það verður að taka með fall Rómaveldis eins og fall þriðja ríkisins til þess að útskýra samtímasögu. Akademískt snobb á að lítilsvirða núliðna tíð, einmitt vegna þess að hún er núliðin á ekki rétt á sér frekar en að forsmá fjarlæga fortíð.

Á 18. öld var skylda sagnfræðingsins að koma til skila hvernig hans eigið samfélag reis til áhrifa og hvernig það mun halda áfram að gera það. Nú á dögum verður sagnfræðingurinn að fara út fyrir sitt eigið samfélag og taka með önnur samfélög sem geta og hafa gífurleg áhrif á hans eigið. Þetta er eins og með tungumál, því fleiri því betra en það er nauðsynlegt til að skilja aðra en um leið að vera skilin.

Þriðja skylda sagnfræðingsins er að kenna mikilvægi samhangandi menningarlega sundurleitni og vopna sig til að mæta þessari kröfu.

Michael Howard varar við lögfræðinga og hagfræðinga eða fólk þjálfað í félagsvísindum sem stýra stefnu ríkisstjórna, fólk sem hefur enga sögu bakgrunnsþekkingu, enga þekkingu á þeim þjóðum sem átt er við o.s.frv. og þessi vanþekking hafi leitt til hörmunga.

Hann talar um ríki sem hafa sagnfræðinga á sínum snærum sem eiga að útmá fortíðina, búa þess í stað til mýtu um fortíðina og vernda hana. En slíkt hlutverk sagnfræðingsins er ekkert nýtt fyrirbrigði, því að þetta hefur gerst í flestum samfélögum og á flestum svæðum. Hin borgaralegu og frjálslindu samfélög, þar sem sagnfræðingum er heimilt að birta hvað sem er og það sem raunverulega gerðist, hversu vandræðalegt það kann að vera fyrir stjórnvöld, eru aðeins tveggja alda fyrirbrigði. Slíkt borgaralegt hlutleysi þrífst ekki í alræðisríkjum né er það mjög hjálplegt fyrir yfirstéttir landa þriðja heimsins sem eru að byggja upp ríki. Sagnfræðingurinn verður að hafa í huga að frelsi hans sem fræðimanns er ekki gefinn hlutur.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Peter Laslett (1965))

Lasly

Peter Laslett segir að við getum aðeins skilið okkur sjálf almennilega og heiminn okkar hér og nú. Ef einhver getur komið með nýja vídd á þessu einföldu sýn, þá sé það sagnfræðingurinn. Það sé rétt að fólk, menningarsamfélög og þjóðir séu ólík og því sé ólíkt farið hvernig menn hafa kosið að skilja sjálfa sig í tímanum en halda því fram að til hafi verið kynslóð sem hafi ekki haft sögulegt skyn eða skynjun er alveg út í hött. Séð út frá þessu sjónarhorni er öll sagnfræðileg þekking, þekking sem hefur þá sýn að sýna okkur eins og við erum hér og nú.

Hins vegar verður að taka annan þátt með í dæmið en það er að söguleg þekking er áhugaverð í sjálfu sér, hlutdræg í sjálfu sér eða ,,vísindaleg”. Þessi þekking er t.d. mun áhugaverðri en að vita fjarlægðina til Júpiters, því að þetta er þekking sem fjallar um fólk sem við getum samsamað okkur við.

Hvorki söguleg þekkingaröflun né starfsemi sagnfræðingar þarf því að afsaka. Án slíkrar þekkingar gætum við ekki skilið okkur í samburði við forfeður okkar, og ef við öðlumst hana (þekkinguna) fullnægjum við ósjálfráðum áhuga á heiminum í kringum okkur og á fólkinu sem hefur verið í honum. --- Hins vegar útvegar sagnfræðin okkur gagnlega upplýsingar, meira en við höldum við fyrstu sýn, þekkingu sem við hefðum annars ekki getað fengið. T.d. að þekkja sögu heilbrigðismála í Bretland, hvers vegna heilbrigðismál eru nú háttað samanborið við fortíðan, til þess að geta borið hana saman við þeirrar í Þýskalandi eða Nýja Sjálandi (t.d. það að almannatryggingar voru komnar á 19. öld í tveimur síðarnefndu löndunum og þess vegna hafi fólk ekki þurft að borga fyrir læknisþjónust sem það þurfti að annars að gera í Bretlandi þar til 1911), m.ö.o. að sjá þróunina og hvers vegna hlutunum er nú háttað.

Peter Laslett segir að það sé ekki hægt að búa til nýja sagnfræði eins og sumir halda fram frekar en að Einstein geti búið til nýja eðlisfræði. Hins vegar hefur áhugasvið sagnfræðinnar breytst svo gífurlega, að kannski sé hægt að tala um nýja grein af sagnfræði.

Peter Laslett segist nota hugtakið Félagssaga (e. sociological history) mikið en kannski sé betra að nota hugtakið félagsgerðarsaga (e. social structural history) þess í stað. M.a. vegna þess að þessi nýja gerð af sögu aðgreinir sig frá fyrri að því leytinu til að hún hefur ekki áður látið sig varða hluti eins og fæðingar, giftingar og dauða sem slíkt, né hefur hin fyrri dvalist nær eingöngu við lögun og þróun félagsgerða.

Sagnfræðingar verði að líta á heildarmynda til að öðlast heildarsýn. Enskum sagnfræðingi nægir ekki lengur eingöngu að rannsaka eigið samfélag, hann verður að bera það saman við önnur samfélög um allan heim til að öðlast fullnægjandi skilning, m.ö.o. að hann verður að sjá andstæðurnar til að skilja. T.d. að enskt samfélag sé iðnvætt samfélag og að til eru samfélög sem eru það ekki.

Peter Laslett tekur annað dæmi og nefnir þar félagsleg vandamál til sögunnar, að gamalt fólk sé nú sett á elliheimili og það sé einmanna. Vandamál þeirra sem fást við þetta mál er þeir vita ekki hvers konar ástand þeir vilja koma á þess í stað, ,,eins og það var”. T.d. hefur komið í ljós að eyðilögð heimili og glæpahneigð unga fólksins kann að hafa verið verri í gamla daga heldur en það er í dag. En er það ,,eðlilegra” að fjölskyldur fortíðarinnar skuli hafa sinnt fleiri skyldum en gert er í dag? Var ,,heimurinn sem við glötuðum” betri heimur til að dvelja í? Og hann endar á að segja að við verðum að viðurkenna að söguleg þekking er þekking varðar okkur sjálf, núna.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Marc Bloch (1954)) - Skilin milli fortíðar og nútíðar

Marc b

Verðum við að trúa því, að vegna þess að fortíðin hefur ekki bein áhrif á nútíðina, að það sé gagnlaust að rannsaka hana?

Á tímum flugvéla og annarra tækniframfara og þjóðfélagsbreytinga hefur skapast sálfræðileg gjá milli nútímamannsins og forfeðra hans. Nútímamaðurinn, segir Marc Bloch, er farinn að halda það að forfeðurnir séu hættir að hafa áhrif á hann, skipti hann engu máli. Sagnfræðingurinn er ekki undanskilinn þessum nýja hugsunarhætti.

Það eru til menn, segir Marc Bloch, sem halda því fram að nútímasamfélag sé fullkomlega móttækilegt fyrir vísindalega rannsókn. En þeir viðurkenna þessa fullyrðingu aðeins fyrir rannsóknagreinar sem hafa ekki fortíðina sem viðfangsefni. Þeir greina, og þeir halda því fram, að hægt sé að skilja efnahagskerfi nútímans á grundvelli þekkingar sem spannar aðeins nokkra áratugi (eins og félagsvísindi gera nú). Það er að þeir líta á tímabilið sem við lifum nú á, sé algjörlega aðskilið frá fyrri tímum.

Nú sé komið að saga fjarlægra fortíðar vekur hjá mörgum fróðleikfúsum mönnum aðeins forvitni sem er í ætt við vitsmunalega munað og þeir sjá enga tengingu milli fortíðar og nútíðar. Annars vegar er hópur fornfræðinga sem hafa ómælda ánægju af því að rannsaka horfin goð; hins vegar eru hópar félagsfræðinga, hagfræðinga og annarra fræðinga sem vilja aðeins rannsaka hið lifandi.

Að skilja nútíð á forsendum fortíðar

Sumir halda því fram á undanförnum áratugum hafi samfélög manna gengið í gegnum svo mikilar breytingar, að þær séu algjörlegar og engir þættir mannlífs hafi komist hjá bytingu rannsókna. Þeir yfirsjá því eðlisþátt aðgerðarleysi sem er svo sérkennandi fyrir mörg samfélög.

Marc Bloch tekur dæmi um fyrirbrigði í nútíðinni sem menn hafa misskilið vegna þess að þeir litu ekki nógu langt aftur í tímann. Landbúnaðarfræðingar hafa velt fyrir sér rákir í evrópskum ökrum og ekki skilið tilkomu þeirra. Óþolinmóðir menn hafa útskýrt þær út frá almenningslögum (e. civil code) sem sett voru fyrir 2. öldum (af Napóleon). Ef þeir hefðu hins vegar þekkt söguna betur, þá hefðu þeir vitað að þær voru skapaðar á forsögulegum tíma. Hann segir að félagsgerð evrópskt samfélags, sérstaklega í evrópskum þorpum, hafi verið þannig háttuð að foreldrar hafa þurft að vinna mikið og því hefur uppeldið færst í hendur öfum og ömmum (eldri einstaklinga) og afleiðingin hafi verið sú að hver ný kynslóð staðnar, því að kynslóðin á milli, foreldrarnir sem standa fyrir breytingum í samfélaginu, verða út undan. Þetta er staðreynd sem hefur einkennt svo mörg bændasamfélög í gegnum tíðina.

Marc Bloch segir að við verðum að líta á söguna út frá mun lengri tímabilum en við höfum gert. Hann tekur sem dæmi að hvorki í útgeimi né í tíma, geti styrkur afls með einfaldri lengd af fjarlægð. Og hann spyr hvaða þættir mannlífs eru það sem hafa misst gildi sitt? Er það trúin, félagsþróun sem hafi misheppnast eða tækni sem hefur horfið? Eru það einhverjir sem halda því fram að jafnvel þekking á þessum þáttum sé ónauðsynleg?

Hann lýkur mál sitt á því að segja að það sé eitt sem hafi ekki breytst í aldanna rás en það er hið mannlega eðli. Þekking mannsins hefur aukist gífurlega en það það hljóta að viðvarandi þættir í mannlegu eðli og samfélagi sem breytast ekki og ef svo sé ekki, þá hafi hugtökin maður eða samfélag ekkert gildi. Hvernig eigum við að skilja mennina ef við horfum aðeins á þá út frá líðandi stund?


Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband