Eyjan hans Ingólfs - nokkur umhugsunarefni

Eyjan

Mér til undrunar fékk ég bókina Eyjan hans Ingólfs í jólagjöf. Ég hef nú lesið bókina.

Bókin er um margt ágæt en bókartitillinn kannski ekki alveg í samræmi við heildarumfjöllunarefnið, sem er uppruni landsnámsmanna og tengsl þeirra við grannríki Íslands; Írland, Suðureyjar, Orkneyjar, Færeyjar, Skotlands, Englands og síðan en ekki síst Noreg. Miklu púðri er eytt í að skýra umhverfi landnámsaldar, víkingaöldina sjálfa og hernað norrænna manna í vesturvegi, jafnvel farið alla leið til baka til tíma Rómaveldis.

Bókin er mikið í ættfræðinni, enda nauðsynlegt til að skilja hvernig landnámið átti sér stað og hvernig landið var skipt upp.  Landnámsmennirnir komu nefnilega ekki úr tómarúmi, heldur fluttu þeir með sér hefðir og venjur - þ.e.a.s. menningu sína til nýrra heimkynna. Þetta var norræn menning en með vestrænum ívafa (Vestmenn = Írar). Athyglisvert er að tala um uppruna Austmanna, þ.e.a.s. manna austan fjalls (Noregsfjallgarðs) í Noregi og svo Austmanna í merkingu kynblendinga Íra og norræna manna.

Uppruni Íslendinga

Íslendingar virðast því vera komnir af Norðmönnum (norrænum mönnum) og Austmönnum, samblöndu af Írum og norrænum mönnum en einnig írskum þrælum og írsku kóngafólki og í Suðureyjum samblöndum af Piktum og Skotum við norræna menn þótt þeim hafi verið útrýmt að mestu eða öllu leyti úr eyjunum. Þetta fer saman við erfðafræðina eins og hún er kynnt okkur hjá íslensku erfðagreiningu.

Ásgeir segir að keltar hafi verið meðal fyrstu landnámsmanna og komið í fyrri af tveimur bylgjum fólksflutninga til landsins. Í síðari bylgju hafi fólk frá Vestur-Noregi verið undirstaðan, svo mjög að til landauðnar horfði og Noregskonungs setti á brottfaraskatt. Þetta þarfnast frekari rannsókna. Fólksflutningar úr Noregi hafa ekki hætt við ákveðið ártal og rannsaka þarf hvað gerðist frá árinu 930 til 1000. 

Írland, Skotland, Wales og England lokuðust að miklu leyti fyrir norrænt fólk á 10. öld nema eyjarnar fyrir strönd Skotlands. Engir fólksflutningar keltneskt fólk hafa átt sér þá stað til Íslands. Aðeins fólk úr þessum eyjum og Noregi hafa getað flutt til Íslands. Í greininni: Raðgreindu erfðamengi úr 25 landnámsmönnum á vef RÚV (31.05.2018) segir: "Fleiri Íslendingar voru af keltneskum uppruna við landnám en greina má af erfðaefni Íslendinga nú á dögum. „Við erum að sjá 43 prósent keltneskan uppruna meðal landnámsmanna, versus í dag þá erum við að sjá 30 prósent." Þetta kemur saman við þá kenningu að lokað hafi verið fyrir flutning keltneskt fólks til landsins og síðari hópar norræna manna hafi minnkað hlutfallið niður.

Það hefur vakið athygli mína hversu afgerandi norræn menning er á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Af hverju? Það er skiljanlegt ef meginþorri keltneskt fólks hafi verið þrælar, en líkt og síðar með íslenskt vinnufólk, hefur það ekki mátt eignast afkvæmi nema vera frjálst og átt ákveðnar eignir. Það hefur horfið fljótlega vegna þess en einnig vegna innflutnings norskt bændafólks sem Ásgeir segir að hafi keypt sér far um Íslandshaf, væntanlega í síðari bylgunnni og keypt við það um vinnu. Þrælahald hefur því verið skammvinnt og keltnesk áhrif horfið, svo sem kristni mjög fljótlega.

Þannig að keltneska blóðið sem mælist í Íslendingum í dag hlýtur að megninu til verið af fólk af eyjum utan við Skotland sem blandaðist norrænu fólk þar eða skömmu við komuna til Íslands og verið að megninu til frjálst fólk.

Stærð landnámssvæða - hvað var verið að stofna til?

Það er ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar þar sem einblínt er meira að sjálfu landnáminu. Athygli hefur vakið hversu stór landnámssvæðin voru í upphafi. Ásgeir tengir þetta við stofnun héraðs, að stofna til stjórnsýsluumdæmis frekar en einn landsnámsmaður hafi ætlar sér að nýta allt svæðið. Hann segir: "Fjögur stærstu landnámssvæðin voru samkvæmt Sturlubók Landnámu á vegum Ingólfs, Skallagrims, Ketils hængs og Helga margra. Þau töldu hvert um sig um 400 bæi eða rúmlega það samkvæmt jarðatali  miðra nítjándu aldar (hvers vegna Ásgeir er að miða við 19. aldar jarðatal er skrýtið, því að eftir margra alda búsetu hafði jarðaskil breyst nokkuð þótt margar jarðir hafi haldist óbreyttar í lögun. Hvers vegna ekki að miða við Jarðatal Árna Magnússonar eða aðrar heimildir?)." Jafnvel í dag er deilt um afrétti og hver á hvaða land.

Ásgeir heldur áfram: "...voru því mun stærri en hið 120 íbúa mark fyrir hérað eins og venja gerði ráð fyrir. Því náðu forystumenn þessarra héraða ekki að halda fullri stjórn á þeim þegar fram liðu stundir. Ketill hængur og Helgi magri fór þá leið að skipta þeim niður og leyfa öðrum höfðingjum að nema land að sínu ráði." (Ásgeir Jónsson, 2021, 151-153).

Spyrja má sig hvort þessi höfðingjar hafi hreinlega ekki verið að búa til RÍKI frekar en hérað? Ef þessi landnámssvæði náðu flest til 400 bæja svæði eða svo, þá samsvarar það til fjögra héraða og það gæti verið uppistaða undir smáríki eða upphaf að smákonungsdæmi.

Það að stórhöfðingjarnir hafi leyft öðrum höfðingjum (stórbændum) að setja í landnámi sitt er því ekki óeðlilegt (tryggja liðveislu fylgdarmanna) en þeir sem fengu ekki úthlutað land, að þeir skuli hafa sest að í útjarði kjarnasvæðis stórhöfðingjans. Það kvarnaðist fljótt upp úr Landnámum Skallagríms, Ingólfs og Helga magra og ef ætlunin var að búa til smáríki, eins og urðu til á 13. öld, þá misheppnaðist sú hugmynd fljótlega. Því lengra sem dró frá valdamiðstöð stórhöfðingjans, því meira fóru menn sjálfráða, enda óbyggt land og stórt og erfðaréttur til landsins enginn, annar en helgun landsins undir vald stórhöfðingjans sem mátti sig lítið er fram liðu stundir.

Veiðistöðin Ísland

Lítið fer fyrir umræðuna um veiðistöðina Ísland í bókinni. Jú það er minnst á rostungaveiði þræla Geirmunds heljarskinns og fer það fyrir brjóstið á Bergsveinn Birgissonar sem skrifaði bókina "Leitin að svarta víkingnum". Í vefgrein Vísis - "Stolið og rangfært - Um Eyjuna hans Ingólfs eftir Ásgeir Jónson", herjar Bergsveinn á Ásgeir og segir:

"Ásgeir heldur áfram með þessa tilgátu sem hann kallar «veiðiþræla-viðskiptalíkan», og það tengt áfram við Hrafna-Flóka og síðan Ingólf Arnarson sem skv. titli ætti að vera miðpunktur bókar. Síðan er vísað í Geirmund heljarskinn sem hafi tekið umrætt líkan «alla leið» (bls. 47). Hér má segja að skipt sé um nafn á barninu áður en stolið er, ég hafði kallað þetta veiðimenningar-efnahag eða módel og beint sjónum að þrælahaldi Geirmundar, en það breytir ekki því að seðlabankastjóri kemst að sömu niðurstöðu um bú Geirmundar á Hornströndum: «Öll þessi bú voru mönnuð af þrælum sem sinntu veiðum og vinnslu á rostungum og öðrum sjávarspendýrum» (bls. 48).

Þessara búa Geirmundar á Hornströndum er sjálfsagt getið í Landnámabók, sem Ásgeiri er í mun að tjá hve marglesið hafi, en þar má þó sjá við nánari lestur að Geirmundur er kallaður bóndi með «of búfjár» og að þrælar hans hafi fengist við landbúnað, enda talar landnámuhöfundur um bú en ekki ver. Þessa túlkun á að Geirmundur hafi verið í forsvari fyrir slíka veiðimenningu á Hornströndum er hvergi til nema í áðurnefndri bók, Leitinni að Svarta víkingnum (bls. 265–284)."

Mér sýnist þessi umræða vera á villigötum. Fornleifarannsókn í Stöðvarfirði virtist fyrst bera merki um að í upphafi hefi verið þarna veiðistöð í upphafi 9. aldar en umfang rústana bentir hins vegar til búrekstrar (bíðum frekari niðurstaðna).

Vel getur verið og mjög líklegt að landnámsmennir hafi stundað veiðiskap en mér finnst algjörlega ótrúlegt að rostungaveiði hafi staðið undir rekstur stórveldis eins og Geirmundur heljarskinn rak, jafnvel ekki í upphafi búskapar hans. Mun frekar það þetta hafi verið ábótarsöm hliðargrein landbúnaðar sem stóð í stuttan tíma, hlunnindi eins og sjá má í dag, þegar menn selja laxár dýrum dómum. Allt hefur verið veitt, fuglar og fiskur í sjó, ám og vötnum en menn byrjuðu strax að ryðja land, koma upp búum líkt og voru heima í upprunalandi.

Ef rostungsveiði hafi verið stunduð, þá hefur hún ekki getað staðið lengi, enda takmörkuð auðlind. Annað en með hvalveiði en fáir Íslendingar vita af því að hvalveiðar Norðmanna á 19. öld var upphafið að iðnbyltingu sjávarútvegarins á Íslandi og þorpsmyndunnar. Þær stóðu undir sjálfa sig, heldur betur og var meðal annars með sauðasölu til Bretlands, upphafið að peningaverslun Íslendinga. Ef þeir hefðu sagt hvalveiðar væru undirstaða ríkis Geirmundar, hefði ég frekar trúað þeim en þeir afgreiða það mál með að Íslendingar hafi ekki kunnað að veiða hvali, þótt til væru Þjóðveldislög (Landbrigða-þáttur Grágásar) um hvalskiptingu og skurð og þeir bara kunnað að nýta dauðann hval (þeir tala báðir um nýtingu sjávarspendýra...).Gjöful fiskimið eru við Vesturland og Vestfirði og í Breiðafirði, menn hafa eflaust sótt sjóinn stíft strax við landnámið.

Lokaorð

Hvað um það, hér varð til strax í upphafi bændamenning að norrænum uppruna. Við landnám var mikil áhersla lögð á nautgriparækt og korn var ræktað, sérstaklega í eyjum þar sem voraði fyrr og haust voru lengri, aðallega bygg en einnig hafrar. Niðurstöður fornleifarannsókna sýna að 40-60% húsdýrabeina landnámsbæja eru af nautgripum og kúabúskapur því mikilvægur. Af þeim sökum var lögðu landnámsmenn mikla áherslu á að búa til graslendi þar sem kýr vilja ekki birkilauf heldur gras. Annað var nýtt og flutt inn strax í upphafi, svo sem sauðfé sbr. söguna af Hrafna-Flóka og geitur. Svín voru höfð til nytja en hurfu á 16. öld og sennilega beitt á birkiskóga landsins. Hundar og kettir hafa fylgt manninum og sennilega hrafnar en eins og kemur fram í bók Ásgeirs, voru hrafnar á skildum og gunnfánum víkinga og þeir "dýrkaðir". Hvers kyns sjávarfang var nytjað, bæði sjávar- og ferskvatnsfiskar, fuglar og egg eins og áður sagði sem og sölvi og fjallagrös.

Bók Ásgeirs Jónssonar er ágætis yfirlitsrit fyrir fólk sem þekkir lítið til landnámsaldar. Ættfræðin getur verið ruglingsleg fyrir leikmann og hefði mátt hafa ættartölurnar sem eru í lok bókar í megintextanum. Ég sakna svo ljósmynda sem eru engar í bókinni, t.d. af skipum, fatnaði o.s.frv. og hafa tilgátumyndir af bæjum þessa tíma. Við erum eftir allt saman á 21. öld. Ég þarf svo að lesa bók Bergsveins Birgissonar. Hafi þeir báðir þakkir fyrir að vekja athygli á þessu spennandi tímabili sem er hjúpað dulúð og myrkri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Loftsson

Þess má geta hér að gamni að ég er skyldur Ingólfi Arnarsyni (Björnólfssyni)í 29 lið í gegnum móðurætt mína ef við getum treyst ættfræðivefinnn Íslendingabók!Og Ketil "flatnef" Bjarnason niðja Bjarna bunu í 30 ættlið og Auði djúpúðga Ketilsdóttur í 31. ættlið, einnig í gegnum móðurætt. Þórólfur "mostrarskegg" Örnólfsson (842-818) er ég einnig skyldur í gegnum móðurætt í 30. ættlið.

Það er kannski engin tilviljun að maður sé að kominn af höfðingjum, þeir höfðu meiri möguleika á að koma afkvæmi sín á legg en almúginn.

 

 

 

Birgir Loftsson, 25.12.2021 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband