Enn um landnám Íslands og uppruna íslenskunnar

9FolikarstaerdirÁður en lengra er haldið, þá skal taka það fram að þetta er blogg og ekkert annað, er ekki vísindaleg greining. Mínar hugleiðingar í raun, ekki fræðileg skoðun. Ekkert af því sem ég skrifa hér á blogginu, telst vera fræðilegt í skilningi fræðigreiningu. Eins og ég sagði i upphafi bloggskrifa mína fyrir rúmu einu ári: Ég er að skrifa mig til skilnings, hugleiðingar og af ánægju; ekki endilega í þessari röð!

Til er ágætis grein á vef Árnastofnunar um málsögu landsins. Veturliði Óskarsson skrifar þar greinina Íslensk málsaga og fjallar hún um m.a. hvernig íslenskan þróaðist á landnámsöld.  Það sem kemur á eftir, kemur úr þeirri grein og á Veturliði allan heiðurinn – sjá jafnframt slóðina:

http://ait.arnastofnun.is/grein.php?id=703

Veturliði verður að byrja að tala um uppruna landnámsmanna til að átta sig á hvaða tungumál fólkið talaði.  Hann segir og ég get hvorki rengt eða tekið undir mat hans en látum tölur hans standa:  „Langflestir nafngreindra landnámsmanna komu úr Noregi(um 85%), einkum úr miðhluta Vestur-Noregs, þ.e. úr Sogni, Fjörðum og Hörðalandi (46%), allnokkrir úr víkingabyggðunum á Bretlandseyjum (um 12%) og fáeinir frá Svíþjóð og Danmörku eða annars staðar að (um 3%).“

Athugið að þarna er hann að tala um nafngreina menn, væntanlega menn sem höfðu eitthvað undir sig og gátu brotið land undir sig eða gert kröfur og flestir eða nánast allir norrænir, ættaðir úr Noregi.  Ef 12% komu úr víkingabyggðunum en samkvæmt erfðarannsóknum voru 44% af keltneskum uppruna í upphafi landnáms, má skýra það með að konurnar og þrælarnir voru af keltneskum uppruna og þessi 12% hafi verið með eitthvað af keltnesku blóð í æðum. Þetta getur farið saman enda var kvenpeningurinn að stórum hluta keltneskur. En ekki gleyma því að stór hluti þessa fólk hafði engin tök á að eignast afkvæmi vegna þrælastöðu sína og því fækkaði í hópum (undantekningar á þessu auðvitað en hér erum við að tala um meginþróun) og færri kunnað írsku og gelísku strax í annarri eða þriðju kynslóð.

Og hann segir: „Ekki er vitað hversu margir landsmenn voru í lok landnámstímans en giskað hefur verið á allt frá 10.000 og upp í 60.000 manns. Sennilegust er talan 10.000–20.000 manns (ÍSLENSKUR SÖGUATLAS I:56, SAGA ÍSLANDS I:160) og víst má telja að Landnámabók og Íslendingabók nefni aðeins lítið brot af þeim sem hér settust að.“

En hér kemur að því sem er áhugaverðast, hvaða tungumál talaði fólkið sem kom hingað til lands um 900 e.Kr? Veturliði segir: „Mál norrænna manna á meginlandinu hefur vafalaust verið mjög líkt í lok 9. aldar, hvar sem menn bjuggu. Mállýskumunur hefur þó sjálfsagt verið einhver. Helsti munurinn var á milli norræns máls eins og það var annars vegar talað í Noregi og hins vegar í Danmörku og Svíþjóð.“

Það sem skiptir hér miklu máli er að menn gátu gert sig skiljanleg innan allara þessara landa. Íslendingasögurnar tala einmitt aldrei um tungumálavandamál og íslenskar hetjur gátu flutt ljóð og gert sig breiða við kónga þessara landa.

En við erum að átta okkur á hvaða tungumál var talað á Íslandi í  upphafi landnáms. Veturliði segir: „Þar sem um helmingur landnámsmanna (46%) kom frá Vestur-Noregi hafa vesturnorskar mállýskur verið mest áberandi í upphafi. Í reynd hafa þó verið töluð tvö eða þrjú eiginleg tungumál í landinu í fyrstu, norræn tunga með dálitlum mállýskumun eftir því hvaðan menn komu og svo keltnesku málin írska og gelíska, sem töluð var á Skotlandi. Þessi tvö síðastnefndu mál (eða mállýskur) töluðu þrælar og vinnufólk sem norrænu víkingarnir höfðu með sér til Íslands frá Bretlandseyjum, auk fáeinna frjálsra manna og kvenna. Sáralítil merki eru þó um keltnesk áhrif í íslensku sem sýnir að tungumálið hefur frá upphafi ráðist af norrænni yfirstétt (Stefán Karlsson 1989:5). Þó eru hér á landi nokkur mannanöfn og örnefni af keltneskum toga. Þess ber að geta að norrænir landnámsmenn sem búið höfðu á Bretlandseyjum höfðu sumir kvænst þarlendum konum og þannig gátu keltnesk nöfn komist inn í ætt þeirra.“ 

Þetta er sennileg skýring en það sem mér finnst merkilegt er mállýskumunurinn sem var í upphafi, athugið að landnámsmenn komu einnig úr Norður-Noregi og ennþá dag í dag er mállýskumunur í landinu. Landið er stórt og fólk einangrað í héruðum.

Veturliði kemst að þeirri niðurstöðu að ,,... með landnámsmönnunum hafi flest eða öll afbrigði norsks máls á 9. og 10. öld flust til Íslands (Hreinn Benediktsson 1964:26), og einhver sænsk og hugsanlega dönsk einnig. Hér dreifðust hins vegar landnemarnir um víðan völl eftir því hvar þeir námu land og skildu þeir því mállýskuskilin eftir handan við hafið. Þetta olli því að hvergi voru skilyrði fyrir því að einhver ein mállýska úr gömlu heimkynnunum efldist á kostnað annarra. Eftir stofnun Alþingis 930 kom fólk hvaðanæva af landinu saman á Þingvöllum á hverju sumri og hefur það, ásamt öðru, vafalaust átt sinn þátt í að draga úr mállýskumun. Afleiðingin af þessu varð sú að munur á máli landnámsmanna hvarf tiltölulega fljótt, þannig að seint á 10. öld, þ.e. nokkru eftir að landnámstímanum lýkur, hefur verið orðin til ný málheild, ný vesturnorræn mállýska sem smám saman tók að þróast eftir eigin leiðum og fá sín eigin sérkenni.“

Ráðgátan um hvers vegna keltneskan (írska og gelíska) hvarf svo fljótt, þrátt fyrir að hópur nafngreindra landnámsmanna hafi verið 12% og ættaður úr víkingabyggðum Bretlands og undirstéttin, þrælarnir, hafi verið tiltölulega fjölmenn, a.m.k. í upphafi.

Stefán Karlsson og Veturliði Óskarsson hallast að því að ,,Sáralítil merki eru þó um keltnesk áhrif í íslensku sem sýnir að tungumálið hefur frá upphafi ráðist af norrænni yfirstétt...“  En ég tel að meira þurfi til. Meginþorri landnema þurfa að tala sama tungumál og herrastéttin, til að það verði ríkjandi. Mýmörg dæmi eru um að yfirstéttin tali annað tungumál en undirstéttin. Þegar germanskar þjóðir óðu yfir fallið Rómaveldi í vestri, þá náðu þær ekki að breyta tungumálum þessara landa nema að mjög litlu leyti, hreinlega vegna þess að þær voru of fámennar.

Líta má innrás Normanna í England 1066, sem er nær í tíma og hertöku landsins sem samanburð. Nýja yfirstéttin var alltaf fámenn. Fyrir var önnur yfirstétt – Engilsaxar. Fjöldi Normanna sem settist að í Englandi var nægilega mikill til að halda áfram að nota eigið tungumál. Það var eðlilegt í fyrstu, því innrásarmennirnir kunnu enga ensku.

Í 200 ár eftir landvinninga Normanna var franskan áfram tungumál venjulegra samskipta meðal yfirstétta í Englandi. Innbyrðis hjónabönd og tengsl við valdastéttina var töluverð og fjölmargir af enskum uppruna þótt það kostur að læra nýja tungumálið. Áður en langt um leið var greinarmunurinn á milli þeirra sem töluðu frönsku og þeirra sem töluðu ensku ekki þjóðernislegur heldur félagslegur.

Tungumál fjöldans var hins vegar áfram gamla enskan (engilsaxenska). Mikilvægasti þátturinn í áframhaldandi notkun frönsku en ensku yfirstéttarinnar fram á byrjun 13. aldar var náið samband sem var í gegnum öll þessi ár milli Englands og meginlands Evrópu. Enn í dag er gífurlegur mállýskumunur í Englandi og framburður lágstéttanna samanborið við yfirstéttina, er enn mikill. Ekki tókst að skapa eitt sameiginlegt tungumál fyrir alla landsmenn.

Sum sé, það tók aldir að bræða saman tungumál ensku yfirstéttarinnar við mál undirstéttanna, þannig að þær gátu talað saman af viti en hér tók þetta innan einhverja áratugi, að ælta mætti. Þetta segir okkur mikill meirihluti landsmanna hafi verið af norrænum uppruna og undirstéttin, þrælarnir, það fámenn að hún lifði ekki af fyrstu öld Íslandsbyggðar og þar með tungumál hennar og menning (t.d. kristini).  Til varð eitt heilsteypt tungumál, þar sem dreifingin eftir uppruna landsmanna fór ekki eftir landssvæðum, heldur dreifðist þeir jafnt yfir landið.

Náið samneyti íslensku yfirstéttarinnar við neðri stéttir í gegnum aldir, hefur einnig komið í veg fyrir íslenskan hafi náð að þróast í tvær mállýskur. Til að yfirstétt getur myndað eigin mállýsku, þarf hún bæði að vera tiltölulega fjölmenn en einnig að mynda hirð – stjórnstöð undir forystu konungs/jarls.  Svo var ekki fyrir að fara á Íslandi.

Að lokum, að hér hafi orðið til heimsbókmenntir sem flestir Íslendingar gátu lesið í gegnum aldirnar, hefur einnig hjálpað til að við að halda íslenskunni sem heilsteyptu tungumáli.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband