Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2020
Þessi spurning skaust upp í hugann þegar ég sá auglýsingu frá Siðmennt á Facebook. Þeir segjast vera lífsskoðunarfélag en haga sér eins og trúfélag.
Ég lagði nokkrar spurningar fyrir þá og fróðlegt væri að fá svör við. Hér er það:
Þið segið: ,,Við hjá Siðmennt bjóðum ákveðna þjónustu, m.a. nafngjafir, borgarlegar fremingar, giftingar og útfarir, auk þess að vera einhverskonar málsvari húmanískra gilda út á við ásamt fleiru þess konar."
Þetta eru allt hlutverk trúarfélaga og þið starfið eins og trúarstofnun. Eins og Kaninn segir: "If you quack like a duck and look like a duck, then you are a duck!" Það væri nær fyrir ykkur að kalla ykkur Vísindakirkjan! En því miður er það nafn frátekið af sci-fi trúarhópi.
En af hverju að halda í þessi form: a) Nafnagjafir (Hagstofnan gæti gert þetta ódýrara), b) Fermingar (af hverju ekki að sleppa þessu alveg og hafa ekki neitt, enda verða Íslendingar ekki fullorðnir 13 ára gamlir eins og á öldum áður?), C) Borgaralegar giftingar (sýslumaðurinn gæti alveg gert þetta ódýrara), D) Útfarir (nóg til af útfaraþjónustum sem geta séð um alla þætti útfarar, þar á meðal minningarræðu um hinn látna og E) málsvari húmanískra gilda (hver eru þau?. Ég mæli með heimspekideild HÍ í staðinn).
Mér sýnist þetta vera orðið að stofnun sem lifir á tekjum meðlima, n.k. sértrúarsöfnuður í harðri samkeppni við ,,önnur trúfélög" um sóknargjöld.
Svo er það um tilgang félagsins og hvert það beinist gegn. Félagið gerir út á andúð í garð trúfélaga, sama hvaða nöfn þau heita. And-eitthvað er ekki góður grunnur að byggja á siðferðislega. Og af hverju að hafa félagsskap um trúleysi? Geta trúleysingar ekki verið einir og án félagsaðildar? Getur verið að tekjur skipta hér máli? Eins og sjá má af ársreikningi félagsins, er það rekið með hagnaði og sækir fé sitt í sama hatt og trúfélög, sóknargjöld.
Bloggar | 30.11.2020 | 21:05 (breytt kl. 21:07) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Inngangur
Í þessari grein verður vellt upp þeirri spurningu hvers vegna Íslendingar kusu að stofna herlaust lýðveldi árið 1944 ,þrátt fyrir að hafa látið af hlutleysisstefnu sinni og játað sig undir erlenda hervernd og í framhaldinu verður nokkrum öðrum spurningum vellt upp, t.d. hvort að það hafi verið eðlilegt ástand eða einhvers konar millibilsástand á meðan Íslendingar voru að finna leiðir til að tryggja öryggi landsins.
Var landið í raun herverndarlaust á tímabilinu 1946 1951? Bar ástandið á þessu fyrrgreinda tímabili einkenni af því að hér var ákveðið tómarúm sem íslensk stjórnvöld reyndu að fylla upp í, fyrst með inngöngu í NATÓ og síðan varnarsamninginn við Bandaríkin? Einkennist ástandið í dag af sömu vandamálum, að finna einhverja heildarlausn á varnarmálum landsins og fylla upp í tómarúm? Var það ekki léleg afsökun af hálfu íslenska ríkisins fyrir valdaafsali (hersetu erlends ríkis) til Bandaríkjanna að fámenni og fátækt landsins kæmi í veg fyrir stofnun íslensks hers á sínum tíma og Íslendingar væru mótfallnir vopnaburði?
Aðdragandinn sjálfstæðisbaráttan og heimastjórn
Segja má að aðdragandinn hafi verið langur og hangið saman við sjálfstæðisbaráttu landsins. Strax árið 1841, skrifaði Jón Sigurðsson í fyrsta tölublaði Nýrra félagsrita um getuleysi Dana við að verja Ísland og hvetur til að hið nýja ráðgjafaþing Íslendinga stofnaði hér til einhvers konar landvarna.Jón Sigurðsson tók málið upp aftur 1843 og hvatti til að Íslendingar taki upp vopnaburð að nýju í Nýjum Félagsritum.
Í gegnum aldir hafa Danir kraftist við og við framlags Íslands í formi skatta eða mannafla til varnar ríkisins.
Slík krafa kom 1857 en dönsk stjórnvöld kröfðust af endurreistu Alþingi í fjárlögum 1857 að Ísland útvegaði menn til að gegna herskyldu í flota ríkisins. Íslendingar höfnuðu þessum kröfum vegna ,, vinnuaflsskort yfir hábjargræðistímann á Íslandi.
Árið 1867 var lagt er fram frumvarp um stjórnskipunarlög fyrir þingið. Í því sagði m.a: ,,Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn föðurlandsins eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrirmælt þar um með lagaboði.
Svo kom að því að sérstök stjórnarskrá fyrir Ísland var lögfest 1874. Í henni var kveðið á um landvarnarskyldu allra landsmanna.
Á lokaspretti sjálfstæðisbaráttunnar um 1900 fóru íslenskir ráðamenn að huga af alvöru að vörnum landsins samfara því að landið fengi fullt sjálfstæði.
Þorvaldur Gylfason segir í Fréttablaðinu þann 19. júní 2003 að rök þeirra, sem töldu Ísland ekki hafa efni á því að slíta til fulls sambandinu við Dani fyrir 100 árum, lutu meðal annars að landvörnum og vitnar hann í Valtý Guðmundsson sem sagði árið 1906 að fullveldi landsins stæði í beinu sambandi við getuna til varnar og sagði m.a. að þó að þjóðin ,,gæti það í fornöld [staðið sjálfstæð], þá var allt öðru máli að gegna. Þá var ástandið hjá nágrannaþjóðunum allt annað, og meira að segja hefði engin þeirra þá getað tekið Ísland herskildi, þó þær hefðu viljað. Það var ekki eins auðgert að stefna her yfir höfin þá eins og nú.
Þorvaldur telur að þarna hafi Valtýr reynst forspár að því leyti að Íslendingar hafi aldrei þurft eða treyst sér til að standa straum af vörnum landsins. Lýðveldi var ekki stofnað á Íslandi fyrr en útséð var um hvernig vörnum landsins yrði fyrir komið enda þótt nokkur ár liðu frá lýðveldisstofnuninni 1944 þar til varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin 1951.
Uppkast að lögum um ríkisréttarsamband Íslands og Danmerkur var samþykkt 1908. Samkvæmt þriðju grein uppkastsins áttu ,,[h]ervarnir á sjó og landi ásamt gunnfána" að vera sameiginleg málefni þjóðanna tveggja, að undanskildum sjálfsvörnum Íslendinga eftir 57. grein stjórnarskrár Íslands.
Íslendingar lýstu yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda 1918. Sambandslögin 1918 kváðu á um ævarandi hlutleysi Íslands en gamla stjórnarskrárákvæðið frá 1874 um landvarnarskyldu allra Íslendinga stóð eftir sem áður.
Íslendingar treystu í reynd á vernd Dana og Breta eftir sem áður. 1920. Ári eftir samþykkt sambandslaganna 1919 samþykkti Alþingi lög um landhelgisvörn, þar sem landsstjórninni var heimilað ,,...að kaupa eða láta byggja, svo fljótt sem verða má, eitt eða fleiri skip til landhelgisvarna með ströndum Íslands."
Þann 23. júní árið 1926, kom til landsins fyrsta varðskipið, sem smíðað var fyrir Íslendinga. Ýmsar hugmyndir komu fram um stofnun varnarliðs, sérstaklega þegar ljóst að ríkisvaldið var mjög veikt.
Árið 1924 var stungið upp á stofnun 100 manna varaliðs sem gæti komið lögreglunni til hjálpar gegn ofbeldishópum, og í framhaldi þess kröfðust Jafnaðarmenn undir forystu Jóns Baldvinssonar að stofna ætti her til að tryggja innra öryggi landsins.
Hernám Breta 1940 breytti lítið skoðunum flestra í þessum efnum, að falla þyrfti frá hlutleysisstefnunni en í lok heimstyrjaldarinnar áttu Íslendingar í mestum erfiðleikum með að losa sig við hersetulið Bandaríkjamanna og Breta en það tókst loks 1947.Hins vegar var óljóst hvað átti að taka við.
Herverndarsamningur við Bandaríkin 1941
Styrjaldarhorfurnar voru ískyggilegar hjá Bretum á öndverðu ári 1941. Á þessum tíma voru Þjóðverjar umsvifamiklir og sigursælir, og var þá og þegar búist við að þeir réðust á Bretlandseyjar.
Meðal þeirra sem höfðu áhyggjur af þessari þróun mála voru Bandaríkjamenn. Þeir vörðust hins vegar að dragast inn í ófriðinn, en studdu fast við bakið á Bretum.Meðal annars vegna fyrrgreindra ástæðna, að líkur voru á innrás Þjóðverja inn í Bretland, fengu Bretar talið Bandaríkjastjórn á að taka við hernámi Íslands og gæslu Grænlands, sem taldist dönsk nýlenda. Þeir síðarnefndu vildu þó ekki taka við hernámi Breta á Íslandi, að Íslendingum forspurðum.
Í ritinu Foreign Relations of the United States fyrir árið 1940 er birt frásögn af viðtali sem Vilhjálmur Þór átti 12. júlí við A. A. Berle aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna þar sem Vilhjálmur varpaði m.a. fram þeirri spurningu hvort Bandaríkin litu á Ísland sem hluta af vesturhveli jarðar og veiti því vernd samkvæmt Monroekenningunni.
Vilhjálmur sagði að hann væri hér að tala ,,óformlega og óopinberlega en með vitund og samþykki ríkisstjórnar sinnar. Bandaríski ráðherrann kvaðst ekki geta gefið svar við þessari fyrirspurningu að svo komnu.
Gangur styrjaldarinnar átti hins vegar eftir að hafa veruleg áhrif á afstöðu Bandaríkjamanna til hernaðarmála á Norður-Atlantshafsvæðinu. Það voru Bretar sem hófu viðræður við Bandaríkjamenn um yfirtöku hernámsins en fyrirætlanir Breta og Bandaríkjamanna um bandaríska hervernd Ísland voru ekki ræddar við Íslendinga lengi vel.
Á Íslandi vissu menn af viðræðunum en það voru skiptar skoðanir á ágæti slíkrar herverndar, sumir töldu að hlutleysisstefnan væri ekki í hættu þótt slíkir samningar væru gerðir, aðrir voru á því að slík hervernd bryti gegn henni.
Þann 14. júní 1941 var svo komið að endanlega hafði verið gengið frá samkomulagi Breta og Bandaríkjamanna um að semja við Ísland um bandaríska hervernd.
Ísland og Bandaríkin gerðu með sér herverndarsamning, m.a. um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi landsins, að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum og tryggja nauðsynlegar siglingar til landsins og frá því.
Með samningnum er í raun bundinn endi á hlutleysisstefnu Íslands. Jafnframt er gerður samningur um að Bretar kalli herlið sitt heim frá Íslandi.
Breski sendiherranum í Reykjavík, Howard Smith, var falin samningsgerðin við Íslendinga. Niðurstaða viðræðanna við breska sendiherrann varð sú að gert var samkomulag um hervernd Bandaríkjanna er fólst í skiptum á orðsendingum milli forsætisráðherra Íslands og forseta Bandaríkjanna 1. júlí 1941.
Í orðsendingu forsætisráðherrans voru m.a. eftirfarandi skilyrði fyrir hervernd Bandaríkjanna:
1. Bandaríkin skuldbinda sig til að hverfa burtu af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið.
2. Bandaríkin skuldbinda sig ennfremur til að viðurkenna algert frelsi og fullveldi Íslands....
3. Bandaríkin skuldbinda sig til að haga vörnum landsins, þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt....
4. Af hálfu Íslands er það talið sjálfsagt, að ef Bandaríkin takast á hendur varnir landsins, þá hljóti þær að verða eins öflugar og nauðsyn getur frekast krafist....
Íslenska ríkisstjórnin leggur sérstaklega áherslu á, að nægar flugvélar séu til varnar, hvar sem þörf krefur og hægt er að koma þeim við....
Í orðsendingu Roosevelts forseta er lýst yfir samþykki á skilyrðum þeim sem nefnd eru í íslensku orðsendingunni.
Mánudaginn 7. júlí 1941, sigldi inn í höfnina í Reykjavík bandarísk flotadeild með um rúmlega 4000 landgönguliða innanborðs sem áttu að sjá um hervernd landsins af hálfu Bandaríkjamanna. Það var hins vegar ekki fyrr enn þann 27. apríl 1942 sem það var tilkynnt í Washington að Bandaríkjamenn hefðu tekið við yfirherstjórn á Íslandi af Bretum.
Hafa ber í huga að bandarískir landgönguliðar komu til landsins fimm mánuðum áður en Bandaríkin verða aðilar að heimsstyrjöldinni.
Herstjórnin á Íslandi fer undir sameiginlega stjórn Bandaríkjamanna og Breta. Vorið 1942 hófust viðræður um land undir flugvöll á Miðnesheiði við Keflavík. Bandaríkjamenn fengu bestukjararéttindi varðandi þann flugvöll en lofuðu að afhenda hann Íslendingum í stríðslok.
Bandaríski heraflinn á Íslandi verður fjölmennastur um 45.000 manns. Auk Breta voru hér einnig herdeildir frá Noregi og Kanada um tíma.
Hermenn á Íslandi urðu flestir um 50.000, eða álíka margir og allir fullorðnir karlmenn á Íslandi. Á haustdögum 1943 tók að fækka í heraflanum og var hann kominn niður í nálega 10.000 manns haustið 1944.
Stofnun herlauss lýðveldis 1944
Gangur heimsmála frá og með fyrri heimsstyrjöld fór að hafa bein áhrif á innan- og utanríkisstefnu landsins. Haf og fjarlægð voru ekki lengur skjöldur og verja landsins. Þetta vissu íslenskir ráðamenn og höfðu vitað í marga áratugi.
Þetta höfðu þeir hugfast þegar þeir hugðu að stofnun íslensks lýðveldis 1944, og ekki nóg með það, þeir hófu að leita hófanna að ásættanlegri lausn á varnarmálum landsins.
Þeir létu ákvæði stjórnaskránna frá 1874 halda sér hvað varðar landvarnarskyldu landsmanna. Í lagasafninu, sem gefið var út 1990, er ákvæðið enn inni í 75. gr.stjórnarskrárinnar: "Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins, eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum."
Í lagasafninu sem gefið var út 2003 er ákvæðið hins vegar ekki að finna. Breytingar voru gerðar á stjórnarskránni með lögum nr. 97/1995. Ég tel allar líkur á, að ákvæðið hafi verið afnumið með þeim lögum og get ég ómögulega séð ástæðuna til þess.
En það er ekki nóg að hafa lög um landvarnarskyldu landsmanna, það urðu að vera til de facto raunverulegar landvarnir og hervernd.
Keflavíkursamningurinn
Síðari heimsstyrjöld lauk í Evrópu 8. maí 1945. Breskar og bandarískar framlínusveitir voru kvaddar heim um sumarið en eftir urðu fáeinir liðsmenn breska og bandaríska flughersins til að annast rekstur Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar.
Þá stakk Hermann Jónasson, upp á því árið 1945 að Íslendingar myndu með hjálp Bandaríkjamanna stofna 10002000 manna öryggislið, sem ætti að gætaflugvallanna og koma í veg fyrir byltingartilraunir kommúnista. Ekki var tekið undir hugmyndir Hermanns Jónassonar.
Hinn 1. október 1945 óskaði Bandaríkjastjórn eftir viðræðum við ríkistjórn Íslands um leigu á þremur tilteknum stöðum fyrir herstöðvar næstu 99 ár. Það tók 12 manna nefnd allra þingflokka skamman tíma að sameinast um að vísa þeim tilmælum á bug.
Fyrir kostningarnar í júnílok 1946 lýstu allir stjórnmálaflokkarnir yfir því að þeir væru andvígir hernaðarbækistöðvum á Íslandi á friðartímum.
Í júnímánuði 1946 höfnuðu íslensk stjórnvöld beiðni Bandaríkjamanna um afnot af landi undir herstöðvar til langs tíma. Samkvæmt herverndarsamningunum átti hernámsliðið að hverfa frá Íslandi þegar að ófriðnum loknum. Stóð í setuliðinu að fara af landinu.
Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefðu tekið við herstjórn landsins af Bretum og tilkynningu bresku yfirstjórnarinnar í maí 1942 um brottfarir nokkurs hluta bresku hersveitanna, dvaldist áfram á Íslandi til styrjaldarloka nokkurt lið breska flughersins og breska flotans.
Vorið 1946 fór af landi brott mestur hluti bresku hermannanna sem þá var eftir á Íslandi. Hinn 4. júlí 1946 var gerður endanlegur samningur um afhendingu Reykjavíkurflugvallar. Bretar samþykktu að ,,nægilega margir breskir starfsmenn skuli verða eftir til þess að æfa og aðstoða Íslendinga við starfrækslu mannvirkjanna og útbúnaðarins, en þó eigi lengur en átta mánuði frá gildistöku samnings.
Í þessum samningi var einnig tekið fram, að semja skyldi um afhendingu miðunarstöðvarinnar í Sandgerði, lóranstöðvarinnar á Reynisfjalli við Vík og fleiri staði.
Hinn 22. maí 1947 var birt svohljóðandi fréttatilkynning frá íslenska utanríkisráðuneytinu: Með erindi dags, 8 maí hefur breski sendiherrann tilkynnt utanríkisráðherra, að allir breskir hermenn séu nú farnir brott af Íslandi, en eins og kunnugt er hefur lítil sveit úr breska flughernum starfað á Reykjavíkurflugvelli undanfarna mánuði til aðstoðar við rekstur hans samkvæmt ósk flugmálastjórnarinnar....
Það stóð einnig í Bandaríkjamönnum að taka sitt hafurtask og veturinn 1945-46 var ekkert fararsnið á Bandaríkjamönnum.
Í júlílok 1946 hóf forsætisráðherra viðræður um þessi mál við trúnaðarmenn Bandaríkjastjórnar. Á aukaþingi um haustið lagði forsætisráðherrann fram þingályktunartillögu, sem heimilaði ríkisstjórninni að gera samning við ríkisstjórn Bandaríkjanna um brottför hersins.
Í samningsuppkastinu var megináherslan lögð á eftirfarandi atriði: Að herverndarsamningurinn frá 1941 væri úr gildi felldur, að Bandaríkin skuldbindu sig til þess að hafa flutt allan her sinn burtu af Íslandi innan sex mánaða frá því að hinn nýi samningur gengi í gildi og loks að Bandaríkin afhentu Íslendingum tafarlaust Keflavíkurflugvöllinn til fullrar eignar og umráða. Sú kvöð fylgdi þó þessum samningi að Bandaríkjamenn fengju ákveðin afnot af flugvellinum til þess að geta sinnt skyldum sínum vegna hersetu í Þýskalandi.
Þingsályktunartillagan var samþykkt 5. október og samningurinn undirritaður 7. október 1946. Hann er almennt nefndur Keflavíkur-samningurinn.
Um gildistíma samningsins sagði: Samningur þessi skal gilda á meðan á stjórn Bandaríkjanna hvílir sú skuldbinding að halda uppi herstjórn og eftirliti í Þýskalandi; þó má hvor stjórnin um sig hvenær sem er, eftir að fimm ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, fara fram á endurskoðun hans....Skal samningurinn þá falla úr gildi tólf mánuðum eftir dagsetningu slíkrar uppsagnar. Eftir samningnum sem þar af leiddi hurfu síðustu hermennirnir úr landi 8. apríl 1947.
Bandaríkjamenn fólu flugfélögum og verktökum að gæta hagsmuna sinna í flugstöðinni, og voru ýmsar umbætur gerðar þar 1946-50 vegna almenns millilandaflugs, sem þá var að komast á.
Bandarískir starfsmenn á Keflavíkurflugvelli voru að jafnaði um þúsund að tölu, um 2/3 hlutar á vegum flugfélaga en hinir á vegum verktaka.
Andstæðingar samningsins sögðu að ekki þyrfti að semja um brottför hersins. Í herverndarsamningnum frá 1941 stæði skýrum stöfum að herinn ætti að fara að ófriðnum loknum. Stuðningsmenn hann töldu aftur á móti að hann væri eina leiðin til að koma hernum úr landi, þar sem Bandaríkjamenn túlkuðu 1. grein herverndarsamningsins frá 1941 þannig að hugtakið stríðslok sem ,,gerð endanlegra friðarsamninga [sbr. alþjóðalög] eða lyktir á loftflutningum hermanna milli Bandaríkjanna og hernuminnar Evrópu.
Í skjóli þessarar túlkunar gat stjórnin í Washington gert áframhaldandi hernaðarréttindi að skilyrði fyrir niðurfellingu herverndarsamningsins. Ljóst er að Bandaríkjamenn ætluðu sér ekki að hverfa á brott með her sinn fyrr en nýr samningur, sem tryggði þeim lágmarksréttindi á Íslandi, hefði verið undirritaður. Þeir voru hins vegar óánægðir með Keflavíkursamninginn en að mati utanríkisráðuneytisins bandaríska var hann ,,það, besta, sem hægt var að ná fram undir núverandi kringumstæðum í stjórnmálum Íslands.
Um sama leyti og hugmyndir um stofnun Atlantshafsbandalagsins NATO voru að fæðast, kom upp hugmynd um sérstakt varnarbandalag Norðurlanda en fljótlega kom í ljós að hún var andvana fædd.
Það næsta sem gerðist í stöðunni var að Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu 1949. Um miðjan mars 1949 héldu þrír ráðherrar til Washington og ræddu við Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lögðu þeir áherslu á sérstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar, sem vildi ekki koma sér upp eigin her, segja nokkru ríki stríð á hendur eða hafa erlendan her eða herstöðvar í landinu á friðartímum.
Í skýrslu ráðherranna segir m.a.: Í lok viðræðanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:
1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það myndi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.
2. Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.
3. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.
4. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.
Eins og kunnugt er stóð mikill styrr um þetta mál en þrátt fyrir átök og mótmæli var Atlantshafssáttmálinn undirritaður í Washington 4. apríl 1949.
Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi.
Frá sjónarhóli Atlantshafsbandalagsríkjanna horfði málið öðruvísi við. Þrátt fyrir fyrirvara Íslendinga við sáttmálann vildu yfirmenn Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli.
Þeir óttuðust aðallega skemmdarverk sósíalista eða valdarán þeirra en ekki áform Sovétmanna um að leggja Ísland undir sig.
Hjá íslenskum ráðamönnum var hvorki samstaða um að fá erlent herlið né koma á íslensku varnarliði og var aðallega borið við bágt efnahagsástand landsins. Kalda stríðið og Kóreustyrjöldin 1950 breytti afstöðu íslenskra ráðamanna á sama hátt gagnvart aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarsamstarfi og valdarán kommúnista í Prag 1948.
Það voru því íslensk stjórnvöld sem höfðu frumkvæði að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins. Niðurstaðan varð sú að þríflokkarnir féllu frá stefnu sinni um herleysi á friðartímum og gerðu varnarsamning við Bandaríkjamenn um vorið 1951.
Segja má að allt frá stríðslokum og fram á fyrri hluta 6. áratugarins gegndi Ísland lykilhlutverki í stríðáætlunum Bandaríkjamanna. Fyrir utan Bretland og það svæði sem tekur til Norður-Afríku og Austurlanda nær hafði ekkert land meira árásagildi í stríði við Sovétríkin eða öryggi Bandaríkjanna væri stefnt í hættu ef Sovétmenn legðu landið undir sig.
Héðan gætu meðaldrægar sprengjuflugvélar gert árásir á skotmörk í Sovétríkjunum með kjarnorkuvopnum og venjulegum vopnum. Grænland eitt var mikilvægara en Ísland fyrir varnir Bandaríkjanna.
Varnarsamningurinn frá 1951
Í varnarsamningnum frá 1951 er lögð skýr áhersla á varnarhlutverk herstöðvarinnar í Keflavík og Bandaríkjamenn hétu því, samkvæmt 4 lið samningsins, að framkvæma skyldur sínar gagnvart Íslandi í varnarmálum sem frekast má verða sé stuðlað að öryggi íslensku þjóðarinnar.
Samningurinn er í 8 liðum. Þar segir m.a.:
1. Bandaríkin munu fyrir hönd Norður-Atlantshafsbandalagsins og samkvæmt skuldbindingum þeim, sem þau hafa tekist á hendur með Norður-Atlantshafssamningnum, gera ráðstafanir til varnar Íslandi.
2. Ísland lætur í té þá aðstöðu í landinu sem báðir aðilar eru ásáttir um að sé nauðsynlegt.
3. Það er háð mati Íslands hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu....
4. Bandaríkjamenn heita því að framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningnum þannig að sem frekast má verða sé stuðlað að öryggi íslensku þjóðarinnar....
5. Tekið er fram að ekkert ákvæði samningsins skuldi skýrt þannig að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.
6. Samningurinn frá 7. október 1946 milli Íslands og Bandaríkjanna um bráðarbirgðaafnot Keflavíkurflugvallar fellur úr gildi.
7. Ísland tekur í sínar hendur stjórn og ábyrgð á almennri flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli en ríkin tvö skulu koma sér saman um hluteigandi ráðstafanir varðandi skipulag á rekstri flugvallarins til þess að samræma starfsemina þar notkun vallarins í þágu varna Íslands.
8. Varðandi uppsögn varnarsamningsins segir að hvor aðili um sig geti óskað endurskoðunar á honum og leiði hún ekki til samkomulags innan sex mánaða geti hvor ríkisstjórnin hvenær sem er eftir það sagt samningnum upp, og skuli hann þá falla úr gildi tólf mánuðum síðar.
Í varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna er lögð áhersla á varnarhlutverki herstöðvarinnar í Keflavík og tekið fram að íslensk stjórnvöld verði að heimila allar hernaðarframkvæmdir á Íslandi.
Bandaríkjamenn höfðu þó ákveðið svigrúm í hernaðaráætlunum sínum vegna þess að í samningnum var ekki gerð tilraun til að skilgreina notkun Íslands á stríðstímum.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin er enn í fullum gildi þótt bandarískar hersveitir hafi yfirgefið landið með einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar 2006 og þrátt fyrir að Íslendingar færu á hnén og grátbáðu þá um að fara ekki.
Ísland er ennþá fullgildur meðlimur í Atlantshafsbandalaginu og hefur tekið þátt í ýmsum hernaðarævintýrum þess.
Helstu rökin gegn stofnun íslensk hers á árunum milli 1944-1951 voru að íslenskt samfélag væri það fátæk að það hefði ekki efni á að reka slíkan her. Þetta var að vissu leyti rétt. Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld glímdu íslensk stjórnvöld við miklaerfiðleika í efnahagsmálum, enda hafði stríðsgróðanum verið eyttog Marshallaðstoðin dugi skammt til.
Hlutleysishugmyndir Íslendinga trufluðu einnig alla hugsun um stofnun slíkt herliðs. Stofnun íslensks hers var einnig sérstakt pólitískt bitbein milli vinstri og hægri manna. Vinstri menn töldu að slíkar sveitir yrðu notaðar gegn þeim í n.k. borgarastyrjöld og til að styrkja vald hægri manna. Þannig stóðu mál þegar Ísland gekk í NATÓ 1949 en menn héldu að það dyggði eins og áður sagði en Kóreustríðið breytti öllu og menn héldu að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin.
Eftirmáli
Hins vegar eftir stutta dvöl bandarískt hersliðs á Íslandi og við áramótin 1952 birtust áramótagreinar eftir Bjarna Benediktsson utanríkis- og dómsmálaráðherra, og Hermann Jónasson landbúnaðarráðherra þar sem þeir lögðu til stofnun íslensks herliðs eða einskonar þjóð varnarliðs.
Kristinn Ólafur Smárason birti B.A.-ritgerð sem ber heitið ,,Orðræðan um íslenskan her árið 1953" árið 2012 hjá Háskóla Íslands.
Þar segir hann: ,,Ráðherrarnir höfðu líklega einhver samráð með birtingu hugmynda sinna,en lögðu þó mismikla áherslu á hlutverk herliðsins. Hér lá einkum tvennt að baki: Í fyrsta lagi var markmiðið aðaðstoða Bandaríkjaher við varnir landsins og mögulega að taka við vörnunum að einhverju leyti. Í öðru lagi skyldi efla ríkisvaldið og koma í veg fyrir innanlandsófrið. Hugmyndir ráðherrana voru ekki fyllilega sambærilegar. Bjarni lagði meiri áherslu á ytri varnir landsins á meðan Hermanni var umhugaðra um þær innri. Þá færði Bjarni rök fyrir sinni hugmynd með sjálfstæðis- og fullveldishugmyndum en Hermann undirstrikaði eflingu ríkisvaldsins. Áramótagreinar ráðherranna vöktu upp mikla umræðu um hervæðingu landsins, en málið gagnsýrði þjóðfélagsumræðu fyrri hluta árs 1953."
Á síðari tímum hefur umræðan gosið upp við og við en aldrei orðið að raunverulegu kosningamáli. Hér má nefna Þegar óánægjan með bandaríska setuliðið fór aftur að láta á sér bæra á árunum 1966 1967 fóru slíkar hugmyndir á kreik á ný, einnig þegar þorskastríðin stóðu sem hæst á sjöunda áratugnum og upp úr 1995 með hugmyndum Björns Bjarnasonar. þáverandi menntamálaráðherra umstofnun 5001000 manna íslensks heimavarnarliðs á ráðstefnu um öryggis- og umhverfismál á Norður- Atlantshafssvæðinu.
Í ljósi þess að engin stór ógn var lengur til staðar líkt og var á tímum kalda stríðsins, taldi hann að erfiðara væri aðréttlæta hersetu Bandaríkjahers.
Upp úr 2005 fór ég sjálfur að skrifa í blöð og hvatti til að Íslendingar tækju málið í eigin hendur. Í fyrsta lagi með því að hvetja til stofnunar Varnarmálastofunnar Íslands árið 2006 og sú varð raunin tveimur árum síðar en illu heilli niðurlögð í efnahagskreppunni.
Ég lagði einnig til að stofnaðar yrðu innlendar og vopnaðar öryggissveitir til höfuðs hættum eins og til dæmis hryðjuverkaárása. Ekki hefur verið hlustað á mig hingað til.
Ísland í NATÓ í dag
Til er frábær fræðigrein sem ber heitið: ,,Meintur fyrirvari Íslands við 5. gr. Norður- Atlantshafssamningsins eftir Sigurjón Njarðarson, ML-nemi á alþjóðasviði lagadeildar Háskólans í Reykjavík og Bjarna Má Magnússonar, lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Ég ætla að birta orðrétt tvo kaflahluta úr grein þeirra enda get ég lítið lagað eða bætt við. Þeir m.a. aðfyrirvarar Íslendinga við inngönguna í NATÓ 1949 stæðust ekki lagalega né hafi þróunin stutt það ef litið er á íslensku friðargæsluna. Þeir benda á að athugasemdum við frumvarp tillaga um íslensku friðargæsluna nr. 73/2007 var að hluta til viðurkennt að störf íslenskra friðargæsluliða væru ekki eingöngu âžborgaralegs eðlis, þ.e. aðfriðargæsluliðar geti þurft að taka þátt í verkefnum sem eru âžhernaðarlegs eðlis.
Einnig að friðargæsluliðar gætu þurft að klæðast merktum einkennisfatnaði og lúta tignarröð eins og hún gengur fyrir sig í herjum. Jafnframt þyrfti í einhverjum tilvikum að færa íslenska friðargæsluliða undir stjórn erlendra aðila og þar með viðurkenna þeirra aðgerðarreglur (e. rules of engagement).
Hvorki í lögunum né athugasemdum með frumvarpinu er tekið fram með beinum hætti hvort íslenskir friðargæsluliðar teljist hermenn eða óbreyttir borgarar aðþjóðarétti í slíkum tilvikum. Það er grundvallarregla í þjóðarétti að hermennað greini sig frá almenningi.
Birtist reglan m.a. í 3. mgr. 44. gr.viðbótarbókunar I frá 1977 við Genfarasamningana. Ísland er aðili að viðbótarbókuninni. Í 1. mgr. 43. gr. segirað hersveitir séu ,,hvers konar skipulagðar hersveitir, flokkar og deildir undirstjórn foringja sem ber ábyrgð á athæfi undirmanna sinna gagnvart þeim aðila. Auk þess kemur fram að hersveitir skuli ,,háðar innra agakerfi þar sem meðalannars skal framfylgt þeim þjóðréttarreglum sem við eiga um vopnuð átök.
Vandséð er að sjá að einstaklingur í herklæðum sem lýtur tignarraðar innan hers og er skylt að hlúta aðgerðarreglum hans geti talist annað en hermaður í skilningi Genfarsamningana.
Almenningur er skilgreindur með neikvæðum hætti þ.e. þeir sem ekki eru hermenn eru almenningur, sbr. 50. gr. viðbótarbókunar I. Jafnvel þótt einhverjir liðsmenn hersveitar sinni ,,borgaralegum störfum sem ekki eru af hernaðarlegumtoga eru þeir engu að síður hermenn í hersveit í slíkum tilvikum."
Bollaleggingar íslenskra ráðamanna breyta þar engu um. Segja má því að það hafi tekið tæplega sex áratugi fyrir íslensk stjórnvöld að fara frá því að reyna gera fyrirvara við 5. gr. Norður- Atlantshafssamningsins yfir í að opna á möguleikann í landslögum að vera með hermenn í friðargæsluverkefnum erlendis.
Við aðild Íslands að NATO virðast íslenskir ráðamenn talið sig hafa gert fyrirvara við kjarnaákvæði Norður-Atlantshafssamningsins sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll í kvöldverðarræðu í tilefni af undirritun hans. Áratugum síðar virðist enn eima eftir þeim þankagangi að einhverju leyti.
Þær hugrenningar eiga sér þó enga stoð í þjóðarétti. Eins og rakið verður stangast slíkur fyrirvari á við ýmis formskilyrði og efnisreglur sem þjóðaréttur setur um fyrirvara.
Þetta leiðir til þess að Ísland er bundið af Norður-Atlantshafssamningnum með nákvæmlega sama hætti og önnur aðildarríki NATO. Það er fullkomlega ljóst að ,,fyrirvari Íslands við 5. gr.Norður-Atlantshafssamningsins hefur ekkert lagalegt gildi. Hann var ekki skriflegur, ekki skráður og gengur gegn megintilgangi NATO.
,,Fyrirvarinn var í raun og sann ekkert annað en pólitísk yfirlýsing um það sem allir vissu, eða máttu vita að Ísland væri verulegum takmörkum bundið þegar kæmi að stríði og stríðsrekstri. Aukin heldur verður að taka tillit til hins viðkvæma ástands sem uppi var á íslenska stjórnmálasviðinu þegar yrirvarinn er skoðaður. Á árinu 1949 var það enn lykilatriði í huga íslensks almennings að Íslendingar væru friðsöm þjóð í alþjóðasamfélaginu og rökrétt er að álykta að í raun og sann hafi fyrirvaranum ekki síst verið beint til íslensks almennings, honum til friðþægingar.
Eftir situr þá hverjar lagalegar skuldbindingar Íslands vegna5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins eru? Stutta svarið er að greinin hefur fullt lagalegt gildi gagnvart Íslandi eins og öðrum aðildarríkjum. Komi til stríðsreksturs vegna virkjunar 5. gr. Norður-Atlantshafssamningsins er Ísland aðili að því stríði. Ekki er í boði að standa á hliðarlínunni í slíku tilfelli.Þrátt fyrir herleysið er enginn ,,afsláttur gefinn af 5. gr. Herleysiðtakmarkar eftir sem áður þau úrræði sem Íslendingar hafa til að standa við skuldbindingar sínar. Tilvitnun í fræðigreinina lýkur hér með en ég vill árétta að yfirlýsinginum ,,Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum, stóðst ekki nema í 2-3 ár og þá var bandarískur her kominn til Íslands.
Ísland er hluti af hernaðarbandalagi og er ekki hlutlaust ríki né óvarið land. Þetta verða Íslendingar að sætta sig við, að raunveruleikinn er svona og þá kemur að því sem ég hef alla tíð predikað, við eigum að sjá um okkar eigin varnir en ekki treysta á erlendar þjóðir.
Bloggar | 27.11.2020 | 23:56 (breytt 25.8.2024 kl. 13:23) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér kemur eitt umhugsunarefni frá Gunnar Jóhannesson guðfræðingi sem fær ykkur til að hugsa aðeins dýpra í morgunsárið. Hann ræðir um Ágústínus kirkjufaðir sem velti fyrir sér fyrirbrigðið tímann og upphaf alheimsins.
Gunnar segir: ,,Ágústínus kirkjufaðir (354-430) var heillandi heimspekingur og guðfræðingur og tvímælalaust einn mesti og áhrifaríkasti hugsuður sögunnar. Hann stóð á sínum tíma frammi fyrir djúpstæðum heimspekilegum og guðfræðilegum vanda: Hvað var Guð að gera áður en hann skapaði alheiminn? Af hverju skapaði Guð ekki alheiminn fyrr en hann gerði?
Á undan deginum í dag var gærdagurinn. Á undan gærdeginum kom dagurinn þar á undan, og svo framvegis. Hvernig má það vera? Teygir röð daganna sig óendanlega langt aftur í fortíðina? Ef svo er, hvernig gat Guð skapað alheim sem alltaf hefur verið til? Ef svo er ekki, hlýtur að hafa verið upphaf. En hvað átti sér stað á undan upphafinu? Ef Guð skapaði alheiminn hvað hafðist hann við áður en hann skapaði alheiminn?
Í eyrum marga í dag hljómar spurningin vafalaust kjánalega. En hún er það vitanlega ekki.Svar Ágústínusar, sem engum virðist hafa komið til hugar áður, var sannarlega undravert: Guð skapaði tímann með alheiminum! Með öðrum orðum var enginn tími „á undan“ alheiminum. Tilurð alheimsins, sagði Ágústínus, fól jafnframt í sér upphaf sjálfs tímans. Alheimurinn er líkur röð augnablika sem teygir sig tilbaka til upphafs síns. Guð er hins vegar utan og ofan við þá röð. Hann er ekki hluti af sjálfri röðinni. Hann er hin eilífa orsök á bak við röðina."
Í dag segir hin vísindalega þekking að tíminn er eiginleiki alheimsins, og varð til samhliða alheiminum. Sama svar í rauninni og Ágústínus gaf.
Bloggar | 27.11.2020 | 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Varnarmál voru Jóni hugleikinn af ýmsum ástæðum.
Fyrir hið fyrsta er að hann áleit að sérhvert ríki þyrfti á góðum vörnum að halda og sjálfstjórnað land þýddi varið land.
Í öðru lagi kynntist hann hermennsku af eigin raun og vissi út á hvað slík þjónusta gengur enda var það skylda hvers stúdents að ganga í stúdentahersveitir konungs. Þessum hersveitum var komið á fót árið 1807 til að verja Kaupmannhöfn fyrir Bretum.
Í þriðja lagi voru Napóleon styrjaldirnar Íslendingum ferskar í huga enda hafi fámennur hópur undir forystu Jörund hundadagakonung sýnt veikleika danskra varna á Íslandi og getuleysi Dana gagnvart flotaveldi Breta.
Jón Sigurðsson skrifaði einmitt um meinta getuleysi Dana í fyrsta tölublaði Nýrra félagsrita árið 1841 og ályktaði að landsmönnum væri hætta búin af þessu getuleysi Danakonungs.
Íslendingum væri nauðsynlegt að fá fulltrúaþing meðal annars í þeim tilgangi að tryggja sér vettvang sem gripið gæti til viðunandi varna eða annarra úrræða til dæmis ef eitthvert ónefnt ríki hernæmi Danmörku.
Jón var fylgjandi innlendu fulltrúaþingi sem gæti virkjað samtakamátt þjóðarinnar og gert landið síður fýsilegt en ella fyrir ríki sem legði Danmörku undir sig. Þá virðist Jón hér greinilega hafa séð fyrir sér að þingið stofnaði hér til einhvers konar landvarna.
Árið 1843 skrifaði Jón aftur grein í Nýrra félagsrita um varnarmál. Tók hann dæmi af vígbúnaði Íslendinga fyrr á öldum þegar þeir hefðu ekki verið eftirbátar nokkurrar þjóðar í hernaði og benti á að þessu skeiði hefði lokið með ólögmætri eyðileggingu konungsmanna á vopnabúrum Íslendinga, vopnabroti Jóni Magnússyni sýslumanns.
Jón var svo óánægður með ræktar- og skilningsleysi Íslendinga hvað varðar hermennsku á seinni öldum að hann gat ekki annað en skrifað að Íslendingar hefðu sýnt ræktarleysi, tvídrægni og hvorki meira en minna ragnmennsku margra ættliða...þegar vernda skyldi gagn landsins og verja réttindi þess og frelsi.Tilvitnun: Jón Sigurðsson, Um verzlun á Íslandiâ, Ný félagsrit, III, 1843, bls. 1-127
Jón ítrekaði að fulltrúaþing Íslendinga væri nauðsynlegt til að tryggja varnir landsins og Íslendingar þyrftu nauðsynlega að taka upp vopnaburð á ný.
Grípum niður í greina og sjáum hvernig Jón teldi landvörnum Íslendinga best hagað í framtíðinni:
Þess er einkum að gæta að mér virðist um varnir á Íslandi, að þar er ekki að óttast aðsóknir af miklum her í einu, og þar þarf að eins fastar varnir á einstöku stöðum, þar sem mestar eignir og flest fólk er saman komið. Það bera sumir fyrir, að ekki stoði mikið varnir á stöku stöðum, þegar óvinir geti farið á land hvar sem stendur annarstaðar, en þess er að gæta, að útlendir leita fyrst og fremst á hafnir, eða þá staði sem landsmönnum eru tilfinnanligastir, einsog menn sáu á ófriðarárunum seinustu að þeir leituðu á Reykjavík og Hafnarfjörð, og þarnæst, að væri nokkur regla á vörninni yrði hægt að draga saman nokkurn flokk á skömmum tíma hvar sem stæði, þar sem líklegt væri nokkurr legði að landi, og að síðustu, að þó óvinir kæmist á land, þá yrði hægt að gjöra þeim þann farartálma, ef landsmenn brysti ekki hug og samtök, að þeir kæmist skammt á götu, þar er þeir yrði að flytja með sér allt sem við þirfti, og skjóta mætti á þá nær því undan hverjum steini. Eptir því sem nú er ástatt mætti það virðast haganligast, að menn lærði einúngis skotfimni og þvílíka hernaðar aðferð sem skotlið hefir, eður veiðimenn, og ríður einkum á að sem allflestir væri sem bestar skyttur, og hefði góð vopn í höndum. Smáflokkar af þvílíkum mönnum um allt land, sem vildi verja föðurland sitt og sýna hverra synir þeir væri, mundi ekki verða síður hættuligir útlendum mönnum á Íslandi enn þeir hafa orðið annarstaðar...
Jón var sem sagt fylgjandi skæruhernaði enda fámennt land og ekki margir hermenn sem stæðu til boða. en svo virðist sem Jón hafi einmitt talið slíkar hernaðaraðferðir henta Íslendingum vel til landvarna.
Jón Sigurðsson gerði sér grein fyrir því að það kostaði töluverða fyrirhöfn að koma upp slíkum liðsafla á Íslandi. Hann hafði ráð undir rifi hverju, því hann lagði til að ungir menn kepptust um að eiga sem bestar byssur og að vera sem markvissastir í skotfimi. Þá myndi mönnum vart þykja tilkostnaðurinn of mikill. Það væri gaman að grafa upp afstöðu Jóns gagnvart Herfylkinguna í Vestmannaeyjum sem komið var á fót í hans tíð. Hef a.m.k. ekki lesið neina grein sem fjallar um það.
Bloggar | 27.11.2020 | 20:18 (breytt 17.6.2021 kl. 13:55) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til að átta sig á hvað gerðist á þessum tíma verður að líta á frumheimildir (og að nokkru leiti fornleifar). Helstu heimildir eru Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, Historia Norvegiae, Historia de antiquiate regum Norvagiensium, Ólafs sögu Tryggvasonar, Kristni sögu og kristni þátt í Heimskringlu og fleiri og þá fæst heildarmynd, þótt margt vantar í púsluspilið.
Þess má geta að frumkristnin sem var á Íslandi fyrir 1000 barst frá Írlandi og skosku eyjunum (írska kirkjan játaðist undir vald páfa 664 (trúarleg hugtök komu úr írsku). Um1000 komu hingað Friðrekur frá Saxlandi en um 980 hófst skipulagt trúboð á Íslandi (frá þýskalandi). Íslendingurinn Stefnir var sendur hingað og var hann óvinsæll af landsmönnum. Svo kom Þangbrandur (kom með konungi frá Englandi til Noregs), ofbeldismaður mikill segja íslenskar heimildir.
Í Hungursvöku segir að í tíð Ísleifs Gizurarsonar biskup hafi komið aðrir fimm, er biskupar kváðust vera, Örnólfur og Goðiskálkur; líklega þýskir og þrír ermskir, Perrus Abrahám og Stefánus og voru líklega Pálíkanar (merking orðsins ermskir = frá Armeníu eða Póllandi og verið villutrúarmenn").
Segir að Aðalbjartur erkibiskup hafi sent út bréf til Ísland og bannað þjónustu þeirra. Sett var svo í lög að prestar ættu að vera lærðir á latínu, hvort sem þeir eru hermskir eð girskir.
Hins vegar er rétt að í Póllandi var gríska rétttrúnarkirkjan og rómversk-kaþólska starfandi á 11. öld og giska menn á að þessir þrír hafi komið frá Póllandi.
Kirkjan klofnaði 1054 og Pólland varð endanlega kaþólskt. Það er alveg á hreinu að trúboðsbiskuparnir ermsku náðu engan árangur hér á Íslandi og fyrsti formlegi biskupsstóll á Íslandi var stofnaður 1056, sama ár og höfuðkirkjan klofnaði formlega í tvennt. Fyrsti eiginlegi biskup sem sat á biskupsetri var Ísleifur Gizurarson.
Á íslenska Wikipedia segir: ,,Árið 1056, þegar hann var fimmtugur, var hann vígður biskup af Aðalbjarti erkibiskupi í Brimum, raunar bæði yfir Íslandi og Grænlandi, en ekki er vitað til þess að hann hafi nokkurntíman sinnt því síðarnefnda. Hann kom heim ári síðar og bjó áfram í Skálholti, sem var eign hans en ekki eiginlegur biskupsstóll. Þar stofnaði hann skóla."
Bloggar | 26.11.2020 | 17:33 (breytt kl. 17:36) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það sem var sérkennandi fyrir íslenska einokunarverslunina var að vöruverslun = vöruskipti þótt peningar séu notaðir.
Einnig að ,,lögmál hins gagnkvæma hagnaðar gildir.
Hagkvæmni verslunar byggir bæði á ólíkum aðgangi að auðlindum og hagkvæmni verkaskiptingar manna á meðal.
Fast verðlag gat gilt í áratugi eða árhundruð fyrr á tíð bæði á Íslandi og erlendis. Dæmi um það er íslensku Búalögin.
- Leikreglur í viðskiptum voru fastmótaðar, til að koma í veg fyrir ófrið og óöryggi. Ákveðið var hverjir voru löglegir kaupmenn í hverju landi, hvar mátti versla, hvaða verðlag gilti og jafnvel með hvaða vörur mátti versla. Í dag farið eftir lögum (eins og í gamla daga), milliríkjasamninga og hefða. Forsendur markaðsfrelsis byggjast á skýrum leikreglum í viðskiptum. - Noregskonungur réði hverjir máttu versla á Íslandi frá 1262, en áður voru það goðar sem réðu. Verðlag var ákveðið í verðlagsdómum milli kaupmanna og sýslumanna.
Konungur missti tökin á Íslandsversluninni á 15. og 16. öld og inn stigu þýskir og enskir kaupmenn og stunduðu verslun við landsmenn, öllum til góðs. Árið 1619 tók konungur valdið af kaupmönnum og sýslumönnum og setti sína eigin verðlagsskrá og eitt verslunarfélag fyrir landið í stað leigu á einstökum höfnum. Gert til eflingar borga og ríkisvalds.
- Deilur um einokunarverslunina á 17. og 18. öld snérist um framkvæmdaratriði, s.s. hvort kaupmenn flyttu inn nógu mikið af góðri vöru og hvort Íslendingar gætu nógu mikið af góðri vöru og hvort Íslendingar gætu flutt út nóg mikið af góðri vöru en ekki um fyrirkomulag verslunina.
- Danskir kaupmenn (útlenskir kaupmenn) réðu versluninni en Íslendingar réðu framleiðslunni. Var hluti af merkanlítismanum. - Kammeralisminn var efnahagsstefna hið upplýsta einveldis, konungur átti að bæta hag allra þegna sinna með ríkisafskiptum og fulltrúar þessarar stefnu voru þeir Skúli Magnússon og Jón Eiríksson. Nú áttu kaupmenn að taka þátt í framleiðslunni og setjast hér að. Þetta mistókst vegna:
o Andstöðu íslenskra landeigenda og embættismanna.
o Skilningsleysi danskra yfirvalda á íslenskum málefnum.
o Móðuharðindin lögðu íslenskt efnahagslíf í rúst.
- Afnám einokunarverslunar 1787 fól ekki í sér verslunarfrelsi en stofnaðir voru kaupstaðir sem síðar urðu flestir að bæjum.
Kaupmenn búsettir á Íslandi réðu verðlag en máttu ekki sigla beint á erlenda utanríkishafnir og allt verðsamráð Íslendinga bannað. Árið 1816 var leyfð sigling beint til utanríkishafnir.
Nærverslunin íslenska:Nærverslun hafði fast verð, sérstaklega í stöðnuðum samfélögum. Fast verð einkenndi miðaldir.
Verslunarfrelsi fylgir sterku ríkisvaldi sem er sæmilega jafnræðissinnað.
Verslun íslenskra alþýðumanna við útlenda kaupmenn beint, hófst með einokunarversluninni en áður hafði höfðinginn einn rétt á verslun við útlendinga. Hann seldi síðan alþýðunni vöruna á hærra verði.
Danskir kaupmenn fengu einokun á versluninni en Íslendingar á framleiðslunni.
Hlutfallsleg lágt verð á fiski 1600-1800 olli eymd einokunarverslunarinnar, samanborið við tímabilið 1400-1600 og varð til þess að Englendingar sóttu hingað.
Kammeralismi: Allir þegnar ríkisins njóti verðmætana, ekki aðeins yfirstéttin. Skúli Magnússon helsti fulltrúi þessarar stefnu á Íslandi. Skúli vildi innlenda verslun, með íslenskum kaupmönnum sem áttu að setjast um allt Ísland. Að verslunin væri stunduð frá Íslandi.
Danskir kaupmenn gegn landeigendum á einokunartímanum á Íslandi var átök milli yfirstéttahópa en ekki yfirstétt gegn undirstétt. Íslenskir landeigendur vildu ekki fá nýja yfirstétt sér við hlið.
Danir voru hræddir við að þeir gætu tapað landinu eftir afnám einokunarverslunina, þess vegna voru Danir á móti verslunarfrelsi Íslandi og hafa pólitískar ástæður legið að baki.
Jón Sigurðsson sannfærði Íslendinga endanlega um réttmæti frjálsar verslunar í tímaritsgrein.
Íslensk viðskiptakjör hafa farið batnandi síðan um 1800.
Átti vinnuaflið að geta selt sig frjálst? Baráttan um vistarbandið stóð fram undir 3 áratug 20. aldar. Kaupmenn fengu mest frjálsræði í Evrópu.
- Straumhvörf urðu í íslenskri verslunarsögu með grein Jóns Sigurðssonar í Ný félagsrit 1843, þar sem hann mælir með verslunarfrelsi. Árið 1855 fengu Íslendingar sama rétt í verslunarmálum og Danir. Íslendingar urðu svo ekki sjálfum sér nógir fyrr en Eimskip var stofnað í byrjun 20. aldar.
Svo svarað verði spurningunni hér í fyrirsögninni, þá verður einfaldlega að segja að einokunin var barn síns tíma og eftir efnahagshugmyndum þess tíma.
Engin sérstök mannvonska lá þarna á bak við en verslunarhöft, það er ófrjáls verslun. Hún er alltaf til ills en Adam Smith var bara ekki kominn til sögunnar og menn fóru eftir venjum og hefðum.
Ef einhvað er, þá var það forneskja íslenskrar yfirstéttar sem stóð í vegi fyrir framfarir og það að framkvæmdarvaldið lá í öðru landi, hjá útlendingum sem vissu ekkert um Ísland og þarfir þess.
Frjáls verslun og áhersla á fiskveiðar í stað landbúnaðar, hefði leitt til fólksfjölgunar og stofnun sjávarþorpa og-bæja.Þessi þróun hefði getað hafist um 1600 í stað seinni helming 19. aldar. Hvernig væri þá umhorfs þá á Íslandi?
Bloggar | 24.11.2020 | 17:23 (breytt kl. 17:49) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jim ,Mad dog Mattis, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og hershöfðingi, segir að hann vonist itl að Joe Biden hætti við stefnuna ,,Bandaríkin fyrst í þjóðaröryggisstefna landsins.
Þetta er blekking, segir hann ásamt þremur meðhöfundum greinar um utanríkismál landsins. Fullvalda ríki hafa alltaf val: að gera málamiðlun við árásarmenn, grípa til aðgerða sem eru andstæðir bandarískum hagsmunum, afþakka aðstoð þegar Bandaríkin þurfa á henni að halda eða vinna saman hvert við annað um starfsemi sem Bandaríkin eru undanskilin.
Þeir bættu við að ef við gefum okkur annað hefur það í för með sér að efla andstæðinga og hvetja þá til að prófa styrk skuldbindinga Bandaríkjanna. Ekki einu sinni Bandaríkin eru nógu sterk til að vernda sig sjálf, héldu þeir áfram. Að vinna með líkum þjóðum til að viðhalda alþjóðlegri skipan um gagnkvæmt öryggi og velmegun er hagkvæm leið til að tryggja þá hjálp.
Mattis og meðhöfundar hans sögðu að þeir sem hafna þátttöku Bandaríkjanna í Afganistan, Írak og víðar sem endalausum eða að eilífu styrjöldum - eins og bæði Donald Trump forseti og Joe Biden, forsetaefnis, frekar en sem stuðningur við vinaleg stjórnvöld sem glíma við að hafa stjórn á eigin yfirráðasvæði, missa mark í málflutningi sínum.
Það er í þágu Bandaríkjanna að byggja upp getu slíkra stjórnvalda til að takast á við þær ógnir sem varða Bandaríkjamenn; sú vinna er ekki fljótleg eða línuleg, en hún er fjárfesting í bæði auknu öryggi og sterkari samböndum og æskilegra en að Bandaríkjamenn þurfi endalaust að sjá um ógnanir einir og sér, skrifuðu þeir. Ekki er hægt að taka undir þessi orð þeirra fjórmenninga.
Stefna Donalds Trumps hefur leitt til mun friðsamlegs heims en áður. Hver hefði trúað því að Ísraelar væru búnir að semja um frið við fjögur arabaríki? Og þeir væru í leynilegum viðræðum við Sádi-Araba um samvinnu? Og hvers vegna í ósköpunum var farið í stríð við Írak á sínum tíma? Ríkið ógnaði ekkert öryggishagsmuni Bandaríkjanna og var lúbarið eftir ósigur í Persaflóastríðinu.
Í Afganistan hefði nægt að berja niður Talibana stjórnina og útiloka frekari hryðjuverkaógn þaðan. Tveggja áratuga stríð hefur ekki skilað neinu nema friðarsamning sem Trump stendur fyrir og gengur í gildi á næsta ári ef ný ríkisstjórn eyðileggur það ekki. Því verður stundum ekki neitað, að stríð geta verið nauðsyn en sem síðasta úrræði.
Hægt er að treysta vinabönd og hernaðarbandalög án stríða sem eiga alltaf að vera síðasta úrræðið. Af hverju geta önnur stórveldi, eins og Rússland og Kína tryggt sína öryggishagsmuni án styrjalda?
Ekki er ólíklegt að Trump fái friðarverðlaun Nóbels á næsta ári fyrir friðsamlegri heim en áður.
Bloggar | 24.11.2020 | 11:13 (breytt kl. 11:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrælahald hefur tíðkast frá fornu farni. Í fornöld og sennilega lengra aftur í tímann, hafa herleiddir menn og konur verið annað hvort drepið við handtöku eða hreppt í þrældóm. Efnahagsveldi Rómverja hefði varla gengið upp án þrælahalds. Án vélarafls, var erfitt að halda uppi háþróuðum samfélögum fornaldar, sérstaklega heimsvelda eins Rómaveldis, þar sem stór hluti karlmanna gegndu herþjónustu. Hraðspólum fram í tímann og til miðalda.
Portúgalar hófu þrælakaup í Afríku um 1440 en voru í upphafi að leita að kryddi og gulli. Þeir fundu í staðinn pipar, fílabein og þræla. Portúgalar seldu í staðinn textílvörur og aðrar smávörur frá Mið- og Norður-Evrópu og hveiti frá Marokkó. Þeir voru eingöngu milliliðir í byrjun eða þar þeir gátu selt tóbak frá Brasilíu.
Hollendingar komust inn í viðskiptin, síðar einnig Englendingar og Frakkar. Englendingar urðu umfangsmestu þrælasalar á 18. öld og fluttu tvo þriðju alla þræla yfir Atlantshafið. Miðstöð þrælaverslunar var fyrst London, síðar Bristol og loks Liverpool.
Mikill hagnaður af þrælaverslun en fór þó lækkandi með tímanum. Þrælaverslunin fjármagnaði ekki iðnbyltinguna en hún var mikilvæg þáttur Atlantshaf verslunar en hún tífaldaðist á 18. öld. Þessi efling verslunar var ein af forsendum iðnbyltingarinnar.
Milli 1450-1600 voru 275.000 þrælar fluttir frá Afríku til Ameríku en milli 1600-1700 voru 1.350.000 þrælar fluttir yfir hafið. Þessi aukning stafaði af því plantekrurekstur var hafinn í stórum stíl, sem krafðist mikinn mannafla, til viðbótar við tóbaksræktunina.
Milli 1700-1800 voru 6 milljónir þræla fluttir yfir Atlantshafið til að vinna á sykurplantekrum (2/3) og námum. Alls voru fluttir um 8 milljónir þræla þar til loka þrælahalds í Brasilíu 1870.
Mikil hefð fyrir þrælaverslun í Afríku og hún hafin löngu fyrir tíma Evrópumanna.
Hvers vegna svartir þrælar?
1. Þeir settir í framandi umhverfi og því litlar líkur á að þeir myndu flýja.
2. Auðvelt að þekkja þá úr mannfjölda vegna litarháttar.
3. Þeir voru álitnir betri og áreiðanlegri verkamenn.
4. Evrópumenn vildu ekki notast við Indjána vegna þess að þeir þurftu á þeim að halda í innbyrðis stríðum, voru fámennir og þeir einnig notaðir sem þrælaveiðimenn.
Ein af orsökum þrælaverslunar á Atlantshafi: Ottómanar í Istanbúl einokuðu þrælaverslun á Miðjarðarhafi eftir 1500 að mestu leyti.
Mikil fólksfjölgun í Afríku auðveldaði þrælasöluna en hún stóð m.a. vegna þess að nýjar nytjajurtir voru fluttar inn frá Ameríku sem jók uppskeru innfæddra og innflutningur á húsdýrum.
Umfangsmikil byssusala til þjóða í Afríku breytti öllu valdajafnvægi í álfunni. Ríkjasameining varð vegna fjarverslun og hernað. Sum ríkin voru konungsdæmi, önnur aðalsveldi enn önnur samfélög réðu félög/samtök sem sín á milli kusu valdhafa. Stöðug þróun frá ættflokkaskipulagi til höfðingjasamfélags (kvaðakerfis).
Þrælaverslun: 3 leiðir til þess að verða þræll í Afríku áður en Evrópumenn komu til sögu:
1. Skuldaþrælar (seldir í þrældóm).
2. Refsiþrælar (sem refsileið).
3. Stríðsfangar (úr stríði).
Þetta var allt til staðar áður en Evrópumenn komu til sögunnar en þeir nýttu sér þetta kerfi.
Þrælahald á sér langa sögu í Evrópu, Kýpur, Sikiley (múslimskir þrælar).
Toskana á Ítalíu og Barcelona á Spáni. Páfinn hélt þræla á galileum sínum. Þrælar í skoskum námum.
Ameríska vistarbandið til 7 ára var hálfgert þrælahald (hálfánauð) en menn voru ekki langlífir sem skuldamenn. Fæstir hlutu frelsis eða lifðu af og lifðu almennt skemur en þrælar. Þetta fyrirkomulag var ódýrara en þrælahald og er ástæðan fyrir því að þrælahald varð aldrei eins háþróað og t.d. í Brasilíu og Karabíahafinu.
Vélaraflið í formi gufuvélar og tækniframfarir leiddi til þess að minni þörf var á ófrjálsu vinnuafli. Sjá má þetta í Bandaríkjunum þar sem þrælahald var aflagt með borgarastyrjöld 1965 og afnám þrælahalds í Brasilíu 1888. Ef til vill var bandaríska borgarastyrjöldin mistök, því að þróunin var í átt að aukinni vélvæðingu og þrælahald hefði lagst af hvort sem er eins og gerðist í Brasilíu og það án borgarastyrjaldar.
Á Íslandi um 1000 var þrælahald aflagt, sennilega af tveimur ástæðum. Af trúarlegum; kristni tók við og þar var það ekki liðið (samt ekki algilt, því að kristnar þjóðir síðar, leyfðu þrælahald) en líklegri ástæða var að það borgaði sig ekki að halda úti þræla og sennilega varð skortur á þeim, þegar víkingaöldin var að líða undir lok. Ódýrara er gefa þrælum frelsi og láta þá sjá um sig sjálfa. Þeir unnu betur (þeir héldu að þeir væru frjálsir og voru þar af leiðandi fúsari til starfa) og hægt var borga þeim laun sem samsvarar lágmarks framfærslu þeirra.
Þessi leið er farin í dag, en milljónir manna í heiminum vinna undir sömu skilyrði og þrælar forðum en teljast vera frjálsir, þar sem ekkert annað er í boði. Unnið er fyrir lágmarks framfærslu og ekkert umfram.
Spurningin hvort að þetta hálf ,,þrælahald" eða ánauð í dag haldi áfram, þegar fjórða iðnbyltingin gengur í garð og nánast öll störf verða í hættu að vera aflögð eða unnin af róbótum (vélmennum með gervigreind)?
Bloggar | 21.11.2020 | 16:11 (breytt kl. 16:12) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sniðgöngumenning (eða sniðgöngupólitík) er nútíma útskúfun þar sem einhver er rekinn úr félagslegu eða faglegu umhverfi - annað hvort á netinu, til dæmis á samfélagsmiðlum, í raunveruleikanum eða báðum heimum. Dæmi um þetta má einnig finna á Íslandi.
Þeir sem sæta þessari útskúfun eru sagðir vera "teknir út."
Merriam-Webster skilgreinir sniðgönguna sem að hætta að styðja viðkomandi og Dictionary.com skilgreinir það sem ,,afturköllun stuðnings við (niðurfellingu) opinberra aðila og fyrirtækja eftir að þeir hafa gert eða sagt eitthvað sem telst hneykslanlegt eða móðgandi.
Tjáningin sniðgöngmenning hefur aðallega neikvæða merkingu og er almennt notað í rökræðum um málfrelsi og ritskoðun.
Bein þýðing á sniðgöngumenning er ,,hætta við eða ,,útskúfun. Hér er hugtakið sniðgöngumenning notað, því að þetta er orðið að ákveðin menning, þar sem ákveðnir hópar nota þetta kerfisbundið á aðra hópa.
Fyrr á tíð var þessi aðferð aðallega beitt af kirkjunni til refsingar einstaklingum eða hópum ef þeir fóru út af sporinu.
Í nútímanum eru það einkum vinstri róttæklingar og hópar þeirra, svo sem Antifa, sem beita þeirri aðferð að hvetja fólk til að sniðganga tiltekna einstaklinga eða fyrirtæki, ef þeim finnst viðkomandi ekki fara eftir þeirra hugmyndafræði. Antifa hefur farið skrefi lengra og hreinlega beitt ofbeldi.
Sniðgangan getur komið til af litlu tilefni, jafnvel engu, þ.e.a.s. ef viðkomandi aðili ,,fellur í þá gryfju að segja ekki neitt eða gera ekki neitt sem sniðgöngu sérfræðingarinir vilja að sé gert.
Það nægir til fordæmingar og eiga þá viðkomandi annað hvort að biðjast afsökunar opinberlega eða hverfa af sjónarsviðinu. Ekki er til neitt nafn fyrir svona fólk sem beitir svona vinnubrögðum, nema gamla hugtakið kúgun og kúgari og er sá sem beitir sniðgöngu eða útskúfun.
Í skólum eða vinnustöðu er til annað form af þessari hegðun, en þá er það eineltið, sem geta verið beinar árásir á einstakling eða útilokun úr hópi nemenda eða starfsmanna. Stúlkur í skólum beita þessari aðferð frekar, að útskúfa félagslega en drengirnir beita líkamlegu ofbeldi.
Bloggar | 21.11.2020 | 13:15 (breytt 18.5.2022 kl. 13:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Umræðan um hvort líta beri á einstaka starfsmenn íslensku friðargæsluna sem hermenn eða hvaða hlutverki hún eigi að gegna almenn hefur verið hörð undanfarnar vikur og mánuði og sitt sýnist hverjum. En er þetta eitthvað nýtt í íslenskri samfélagsumræðu og hafa Íslendingar verið eins sinnulausir í gegnum aldir um varnir landsins eins og verið hefur látið í veðri vaka?
Í þessari grein verður stiklað á stóru og litið á hvort menn hafi sinnt þessum málaflokki eftir siðbreytingu en láta hlut milli steina liggja um varnarbúnað landsins fyrir hana en geta þess þó að vopnaburður og hermennska var hluti daglegs lífs Íslendinga á miðöldum.
En tímanir breytast og Íslendingar nú á tímum hafa vanist því að þeir menn sem eiga að gæta öryggis þeirra, lögreglumenn, séu vopnlausir og ekki sé hér á landi íslenskur her.
Vopnabrot og vopnadómur á 16. öld
Ætla má að Íslendinga hafi verið afvopnaðir seint á 16. öld með vopnabroti svonefndu og sjá má af vopnadómi Magnúsar prúða Jónssonar 1581. Eftir það fór lítið fyrir hernaði þeirra eða vopnaburði. Voru Íslendingar komnir í hlutverk þolenda í stað gerenda er til vopnaviðskipta kom við útlendinga.
Hins vegar hefur Ísland aldrei verið óvarið land eða herlaust, þótt ýmsir nú á tímum hafi haldið því fram. Við siðbreytingu tók Danakonungur að sér varnir landsins, í stað innlendrar valdastéttar. Hann sendi hingað árlega herskip til verndar verslun og landhelgi Íslands en lítið var hugað að vörnum landsins sjálfs, t.d. var ekki haft danskt setulið á mikilvægum stöðum (s.s. í Vestmannaeyjum). Herlið var sent hingað til að þröngva fram vilja konungs þegar hann vildi koma fram sínum málum og ætla mætti að hann myndi mæta mótstöðu. Sat slíkt herlið jafnt stutt við og taldist ekki varnarlið landsins. Hins vegar var landið lögformlega undir hervernd konungs allt til ársins 1940 þegar Íslendingar tóku utanríkismálin í sínar hendur. Síðan hefur landið ætíð verið undir hervernd erlends ríkis, fyrst Breta og síðar Bandaríkjamanna á 20. öld og erlent herlið hefur meira eða minna setið á landinu frá 1941.
Spurningin hér er hins vegar hvort innlendir menn hafi haft einhverjar áætlanir um að verja landið ef til þess þyrfti að koma eða ekki og hvort menn hafi velt þessum málum fyrir sér á hverjum tíma?
Forsendur umrædds dóms Magnúsar prúða má líklega rekja til ránsins á Bæ á Rauðasandi árið 1579 þegar bær Eggerts lögmanns Hannessonar var rændur og hann sjálf¬ur tekinn höndum. Þarna kom berlega í ljós að ekki einu sinni lögmaður landsins gat varið sig fyrir ræningjaflokki og var það líklega sakir vopnleysis. Lögmaður hefur því líklega kvartað sáran undan þessari ósvinnu og afleiðingin verið næsta ár sú eða 1580, að Friðrik II sendi vopnasendingu hingað til lands og áttu að fara í hverja sýslu, átta spjót og sex byssur. Ekki hafa Danakonungi algjörlega horfið úr huga varnarmál Íslands því að árið 1586 lét sami konungur reisa virki í Vestmannaeyjahöfn til að verja konungsverslunina í Eyjum fyrir ágangi breskra kaup- og sjómanna. Hér gætti því dálítillar viðleitni konungsvaldsins til varna en að vísu til að gæta sinna eigin hagsmuna en ekki landsins sjálfs. Þessi vopnasending styður því líka ummælin í vopnadómi Magnúsar prúða að hér hafi farið fram vopnabrot. Það hefði verið óþarfi að senda hingað vopn, ef þau hefðu verið fyrir í einhverjum mæli í landinu. Hins vegar er það ótrúlegt að stjórnvöld hafi getað náð öllum vopnum landsmanna samkvæmt orðum Magnúsar og hefur hann líklega ýkt töluvert til að ná athygli ráðamanna. Telja má það ólíklegt að vopnaburður hefur lagst hér algjörlega niður eftir siðbreytingu. Heimildir greina frá vopnaeign einstaklinga á stangli.
Annað mál er það hvort einhverjar áætlanir hafi verið um að vopna sérstaka hópa manna til varnar landinu og er komið inn á það hér á eftir. Líklega hafa engar heildaráætlanir verið gerðar af alvöru um slíkt varnarlið af hálfu Alþingis eða danskra stjórnvalda á 16. og 17. öld og hafa báðir aðilar litið svo á að það væri í verkahring hinna síðarnefndu að sjá um varnir landsins. Ekki voru allir íslenskir ráðamenn sammála þessu og telja má fullvíst að Vestfirðingar hafi verið sæmilega vopnum búnir fram á 17. öld eða að minnsta kosti fylgdarmenn þeirra Magnúsar prúða og Ara sonar hans, sem stóð fyrir Spánverja-vígunum 1615. Að sögn Björns á Skarðsá, sem þótti roluháttur landa sinna slá öll met og vildi betri varnarviðbúnað landans, riðu Vestfirðingar seinastir til alþingis með vopnað fylgdarlið en þá hafi höfðingjar almennt riðið á þing með vopnlaust fylgdarlið. Þetta mun hafa tíðkast eftir vopnabrotið og styðja þessi ummæli um að vopnabrot hafi átt sér stað. Þá greinir Jón Ólafsson Indíafari í reisubók sinni frá vopnaburði og liðsafnaði bænda í byrjun 17. aldar (1604) og sagði að "... þá gengu allir skattbændur með þrískúfaða atgeira sem hingað á umliðnu ári fyrir þetta fluttust til kaups eftir kónglegrar Majestets skikkan og befalningu." Þarna stóð konungsvaldið fyrir vopnasendingu til landsins og ætlaðist til að Íslendingar vopnuðu sig sjálfir og verji. Einhver sinnaskipti hafa því átt sér stað í "herbúðum" konungsmanna gagnvart vopnaeign Íslendinga eftir vopnabrotið á sjöunda áratug 16. aldar, því að þetta var önnur vopnasending konungs til Íslands sem vitað er um en engar áætlanir um stofnsetningu varnarliðs enn sem komið er.
Tyrkjaránið og afleiðingar þess
Svo gerðist einn atburður sem átti eftir að kollvarpa Íslandssögunni og varpa ljósi á hversu sinnuleysið hafði verið mikið um varnarmál landsins af hálfu stjórnvalda þangað til en það er að sjálfsögðu Tyrkjaránið 1627. Það verður ekki farið út í þá sögu hér en afleiðingin varð sú að Tyrkjahræðsla varð landlæg á Íslandi og jafnframt þótti sá atburður sýna að lítil vörn var í danska flotanum og sýndist Íslendingum landvarnir Dana beinast fremur gegn verslunaratferli landans en lögbrotum útlendinga.
Mest hafði þessi atburður áhrif á íbúa Vestmannaeyja en þær urðu verst úti í hernaði hinna suðrænu sjóræningja. Vestmannaeyingar hugðu því öðrum fremur að varnarmálum og þóttu mikla nauðsyn á. Þeir kröfðust stjórnvöld um aðgerðir og viðbrögðin voru að þau hröðuðu viðgerðum á á gamla varnavirkinu, Skansinum, sem var upprunalega byggt árið 1586 eins og áður sagði. Danskur herforingi var fenginn til að hafa umsjón með landvörnum frá Skansinum. Starf hans fól í sér að skipuleggja vökur á Helgafelli og að hafa gát á skipum. Hann átti einnig að stofna og þjálfa upp herlið heimamanna. Æfingar voru haldnar einu sinni í viku og voru allir byssufærir menn skyldaðir til þátttöku. Árið 1639 tók Jón Ólafsson Indíafari við stöðu byssuskyttu við Skansinn og eftirmaður hans og síðasta byssuskytta Skansins var Gunnar Ólafsson. Vestmannaeyingar héldu að sögn vökur á Helgafelli fram yfir árið 1700 en áhrifa Tyrkjaránsins gætti næstu tvær aldir eða langt fram á 19. öld og verður komið inn á það síðar í greininni.
Ráðagerðir um stofnun landhers á Íslandi 1785
Alvarlegustu hugmyndir um stofnun íslensks landhers fyrir allt landið hingað til voru settar fram á alþingi 1785. Hvatamenn þessarar ráðagerða voru helstu ráðamenn þjóðarinnar, Hans von Levetzov stiftamtmaður, Stefán amtmaður Þórarinsson og Björn Markússon lögmaður en ráðstefna um málið var að frumkvæði danskra stjórnvalda. Ráðstefnan átti að kanna hvort æskilegt og tiltækilegt væri að stofna slíkan her og með hvaða hætti því yrði komið í kring. Í kjölfar ráðstefnunnar var gerð ítarleg áætlun hvernig þjálfun slíks her færi fram, tillögur að vopnabúnaði og herbúningi lagðar fram og lagt til að þrjú hundruð manna her yrði stofnaður með sex til þrjátíu og tveggja manna sveit í hverri sýslu. Hermennirnir skyldu launaðir með hærri sköttum á bændur og dátum heitið hreppstjóratign að lokinni herþjónustu. Ekki var látið staðið við orðin tóm, því að gerð var könnun í suðuramtinu 1788 á því hverjir vildu gefa sig fram í landvarnarlið og hvaða vopn þeir hefðu tiltæk og um leið fór herútboð fram. Í ljós kom að rúmlega 600 manns voru tiltækir í varnarliðið og voru þeir vopnaðir frá trélurkum til tinnubyssa.
Þessar hugmyndir eru hvað merkilegar fyrir það að þær voru settar fram þegar íslenskt samfélag var hvað verst sett í sinni sögu og sýnir að mönnum var full alvara með þessa hugmynd. En þessar hugmyndir voru í raun andvana fæddar þar sem þær voru settar fram á röngum tímapunkti.
Gamla íslenska sveitasamfélagið og stjórnkerfið var í rúst vegna móðuharðinda og nýir tímar fóru nú í hönd. Óhjákvæmilegt var að þær myndu falla um sig sjálfa.
Áætlanir Jörunds Hundadagakonungs um varnir hins nýja ríkis
Næsta útleik átti Jörundur hundadagakonungur 1809, sjálfskipaður verndari landsins og byltingamaður. Án nokkurra blóðsúthellinga eða almennra viðbragða landsmanna tók hann völdin í landinu í sínar hendur. Birti hinn nýi stjórnarherra auglýsingar eða tilskipanir þar sem stjórnarstefnunni var lýst. Því var lýst m.a. yfir að hin nýju yfirvöld áskilji sér "...rétt til styrjalda og friðasamninga við erlend ríki;- að herliðið hefur útnefnt oss til hæstráðanda til sjós og lands og til yfirstjórnar í öllum styrjaldasökum".
Lét Jörundur ekki við orð standa heldur lét hefja gera skans á Arnarhólskletti í Reykjavík, nefndur Phelpsskans og áætlanir voru um stofnun íslensks hers. Hér skal kyrrt látið liggja alvörunni á bak við allar þessar fyrirætlanir Jörunds og lögmæti stjórnar hans en hann var greinilega umhugað um að varnir hins "nýja ríkis" skyldu verða trúverðugar.
Hins vegar sýndu styrjaldirnar í upphafi 19. aldar að Dönum var um megn að veita Íslandi vernd eða öryggi en um leið að ef Bretar undu óbreyttu ástandi, það er að Danir hafi húsbóndavald á Norður-Atlantshafi, myndu mál lítið breytast. Þetta ástand olli flestum Íslendingum litlum áhyggjum en þeir höfðu meiri áhuga á að öðlast einhvers konar sjálfstjórn en að stofna her.
Stofnun herfylkingar í Vestmannaeyjum 1857
Einhverjar viðleitni gætti þó hjá Vestmannaeyingum í þessa átt, en árið 1853 var skipaður nýr sýslumaður Vestmannaeyja, Andreas August von Kohl, danskur að ætt og kallaður kapteinn. Sá kapteininn að hér væri grundvöllur fyrir því að stofna varnarsveit eða her heimamanna, þar sem hér eimdi ennþá eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki. Fékk hugmynd Kohl um stofnun svonefndrar herfylkingar hinar bestu undirtektir í eyjum.
Nokkur ár tók þó að skipuleggja þennan vísir að her og var hann að fullu komið á fót 1857 og var starfræktur til vors 1869. Hér skal ekki greint nákvæmlega frá skipan herfylkingunnar en hún var skipulögð með sama hætti og tíðkaðist með venjulega heri í Evrópu á þessum tíma; með tignarheitum, vopnum, gunnfána og einkennismerkjum.
Markmið herfylkingarinnar var í fyrsta lagi að vera varnarsveit gegn árásum útlendinga. Í öðru lagi að vera lögreglusveit til að halda uppi aga og reglu á eyjunni. Í þriðja lagi að vera bindindishreyfing og í fjórða lagi að vera eins konar íþróttahreyfing.
Líklegt má telja að stöðugur fjárskortur hafi riðið hana til falls að lokum sem og forystuleysi er kapteininn lést.
Þessi viðleitni til stofnun hers, náði aðeins til Vestmannaeyja en aðrir landsmenn virðast hafa verið skeytingarleysi um þessi mál.
Það voru deilur um landhelgismál landsins milli Dana og Breta um aldarmótin 1900 og gangur heimstyrjaldarinnar fyrri sem átti sinn þátt í að svipta hulunni frá augum Íslendinga að hér voru það Bretar sem réðu ferðinni og varnarleysi landsins væri mikið.
Heimastjórn og varnir
Í raun voru menn þá farnir að huga af alvöru að vörnum landsins samfara því að landið fengi fullt sjálfstæði. Þorvaldur Gylfason segir í Fréttablaðinu þann 19. júní 2003 að rök þeirra, sem töldu Ísland ekki hafa efni á því að slíta til fulls sambandinu við Dani fyrir 100 árum, lutu meðal annars að landvörnum og vitnar hann í Valtý Guðmundsson sem sagði árið 1906 að fullveldi landsins stæði í beinu sambandi við getuna til varnar og sagði m.a. að þó að þjóðin "...gæti það í fornöld [staðið sjálfstæð], þá var allt öðru máli að gegna. Þá var ástandið hjá nágrannaþjóðunum allt annað, og meira að segja hefði engin þeirra þá getað tekið Ísland herskildi, þó þær hefðu viljað. Það var ekki eins auðgert að stefna her yfir höfin þá eins og nú."
Þorvaldur telur að þarna hafi Valtýr reynst forspár að því leyti, að Íslendingar hafa aldrei þurft eða treyst sér til að standa straum af vörnum landsins. Lýðveldi var ekki stofnað á Íslandi fyrr en útséð var um, hversu vörnum landsins yrði fyrir komið, enda þótt nokkur ár liðu frá lýðveldisstofnuninni 1944 þar til varnarsamningurinn var gerður við Bandaríkin 1951.
Íslendingar lýstu þó yfir hlutleysi þegar landið varð fullvalda 1918 en treystu í reynd á vernd Dana og Breta. Hernám Breta 1940 breytti lítið skoðunum flestra í þessum efnum, að falla þyrfti frá hlutleysisstefnunni en í lok heimstyrjaldarinnar áttu Íslendingar í mestum erfiðleikum með að losa sig við hersetuliðin bæði en það tókst loks 1947 en óljóst var hvað átti að taka við.
Stofnun herlaus lýðveldis á Íslandi
Gangur heimsmála fór hér eftir að hafa bein áhrif á innan- og utanríkisstefnu landsins. Haf og fjarlægð voru ekki lengur skjöldur og verja landsins. Því leið ekki á löngu þar til að Íslendingar hófu að leita hófanna að ásættanlegri lausn á varnarmálum landsins.
Um sama leyti og hugmyndir um stofnun Atlantshafsbandalagsins voru að fæðast, kom upp hugmynd um sérstakt varnarbandalag Norðurlanda en fljótlega kom í ljós að hún var andvana fædd.
Samfara undirbúningi að inngöngu Íslands í NATO fór fram umræða hvort stofna ætti íslenskan her og sitt sýndist hverjum.
Um miðjan mars 1949 héldu þrír ráðherrar til Washington og ræddu við Dean Acheson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Lögðu þeir áherslu á sérstöðu Íslendinga sem vopnlausrar þjóðar, sem vildi ekki koma sér upp eigin her, segja nokkru ríki stríð á hendur eða hafa erlendan her eða herstöðvar í landinu á friðartímum.
Í skýrslu ráðherranna segir m.a.: Í lok viðræðnanna var því lýst yfir af hálfu Bandaríkjamanna:
1. Að ef til ófriðar kæmi, mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, og það myndi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs, hvenær sú aðstaða yrði látin í té.
2. Að allir aðrir samningsaðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.
3. Að viðurkennt væri, að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.
4. Að ekki kæmi til mála, að erlendur her eða herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.
Eins og kunnugt er stóð mikill styrr um þetta mál en þrátt fyrir átök og mótmæli var Atlantshafs-sáttmálinn undirritaður í Washington 4. apríl 1949.
Með aðildinni að Atlantshafsbandalaginu töldu íslensk stjórnvöld að öryggisþörf Íslands væri að mestu fullnægt. Vestræn ríki kæmu þjóðinni til aðstoðar, ef til ófriðar drægi.
Frá sjónarhóli Atlantshafsbandalagsríkjanna horfði málið öðruvísi við. Þrátt fyrir fyrirvara Íslendinga við sáttmálann vildu yfirmenn Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins að herlið yrði á Íslandi á friðartímum til varnar Keflavíkurflugvelli. Þeir óttuðust aðallega skemmdarverk sósíalista eða valdarán þeirra en ekki áform Sovétmanna um að leggja Ísland undir sig.
Hjá íslenskum ráðamönnum var hvorki samstaða um að fá erlent herlið né koma á íslensku varnarliði og var aðallega borið við bágt efnahagsástand og fámenni landsins.
Kalda stríðið og Kóreustyrjöldin 1950 breytti afstöðu íslenskra ráðamanna á sama hátt gagnvart aukinni þátttöku Íslendinga í hernaðarsamstarfi og valdarán kommúnista í Prag 1948. Það voru því íslensk stjórnvöld sem höfðu frumkvæði að því að leita til Atlantshafsbandalagsins til að styrkja varnir landsins.
Niðurstaðan varð sú að þríflokkarnir svonefndu féllu frá stefnu sinni um herleysi á friðartímum og gerðu varnarsamning við Bandaríkjamenn um vorið 1951. Hingað kom bandarískt herlið sem hefur verið m.a. staðsett á Keflavíkurflugvelli síðan til 2006 en hálfa viðveru síðan. Á ýmsu hefur gengið á í sambúð hers og þjóðar en í heildina séð hefur það gengið með ágætum. Svo gerðist það að Bandaríkjaher tók að týgja sig til brottferðar. Þessi hótun eða réttara sagt tilkynning um brottför hluta hersins á Keflavíkurflugvelli kom í byrjun tíunda áratugarins.
Í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál árið 1993 varð grundvallarbreyting á samskiptum ríkjanna er varðar varnarmál. Í raun lögðu Bandaríkjamenn til að horfið væri aftur til ársins 1947 þegar þeir fengu aðgang að Keflavíkurflugvelli, þar staðsettur lágmark mannskapur til að standsetja stöðina ef með þyrfti en engar trúverðugar varnir hafðar uppi.
Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 hefur reynst bæði árangursríkt og sveigjanlegt verkfæri, sem hefur staðist tímans tönn. Hinu sérstöku aðstæður sem ríktu á tímum kalda stríðsins gerðu aðilum samningsins kleift í meira en fjörutíu ár að komast hjá því að leggja mat á þær lágmarks skuldbindingar sem kveðið er á um í samningnum.
Við lok kalda stríðsins var vart við öðru að búast en að á það reyndi hvort aðilar litu mikilvægustu ákvæði samningsins sömu augum. Tillögur Bandaríkjamann 1993 benda eindregið til þess að stjórnvöld á Íslandi og í Bandaríkjunum leggi og hafi e.t.v. ætíð lagt ólíkan skilning á varnarsamningnum í veigamiklum atriðum.
Munurinn felst einkum í því að Bandaríkjamenn virðast telja að varnarviðbúnaður á Íslandi eigi einkum að ráðast af breytilegu mati þeirra sjálfra á hernaðarógninni á Norður-Atlantshafi, en Íslendingar líta á hinn bóginn svo á að varnarsamningurinn eigi að tryggja lágmarksöryggi landsins án tillits til hernaðarógnarinnar hverju sinni.
Í stuttu máli sagt, lögðu Bandaríkjamenn til að hafið yrði brotthvarf flughersins frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og loftvarnir Íslands yrði sinnt frá austurströnd Bandaríkjanna. Þeir sögðust hins vegar vilja starfrækja áfram herbækistöðina á flugvellinum, loftvarnareftirlit, og áframhald yrði á Norður-Víking æfingunum en viðbúnaðurinn háður breytilegum aðstæðum á alþjóðavettvangi.
Ekki var við öðru að búast en að Íslendingar yrðu algjörlega ósammála þessum tillögum Bandaríkjanna og hafa reynt allar götur sínan að koma í veg fyrir að umtalsverðar breytingar verði á varnarbúnaði herliðsins á Keflavíkurflugvelli. Allt bentir til þess nú að andmæli Íslendinga verði að engu höfð og hafa þeir því neyðst til þess, nauðugir sumir hverjir, að endurmeta veru herliðs á Íslandi og hvað beri að gera ef Bandaríkjamenn fari.
Björn Bjarnason og umræðan um stofnun íslensks hers
Óhægt er að segja að umræðan um varnarmál á síðastliðnum áratugum hafi ekki verið fjörug. Aðeins hefur verið deilt um keisarans skegg; um dvöl og sambúðarvanda hers og þjóðar en lítið talað um raunverulegar þarfir Íslendinga sjálfra eða alvarleg herfræðileg úttekt á vegum stjórnvalda gerð á varnarþörfum landsins eða hvað Íslendingar geti gert sjálfir til að treysta varnirnar. Svo gerðist það að stjórnmálamaðurinn Björn Bjarnason reið á vaðið og varpaði stórbombu inn í íslenskt samfélag þegar hann kom með hugmyndir um stofnun íslensks hers á tíunda áratug tuttugustu aldar sem hann reyfaði líklega fyrst 1995 en ítrekaði í Morgunblaðinu í maí 2001. Björn sagði að "...það væri frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að sýna fram á, að hún hefði gert áætlanir til að verja borgara sína og land. Ekki væri til frambúðar unnt að setja allt sitt traust í þessu efni á Bandaríkjamenn." Hann sagði jafnframt að á liðnum árum því verið borið við þau rök að ekki kæmi til álita, vegna fámennis þjóðarinnar og fátæktar, að stofna íslenskan her. Þetta ætti ekki lengur við sem röksemd þar sem við væru bæði fjölmennari og um leið ein ríkasta þjóð jarðar.
Björn lagði til að Íslendingar annað hvort taki að sér að hluta til varnir landsins eða að fullu ef Bandaríkjamenn fari. Hann sagði að með því að nota þumalfingursreglu "væri unnt að kalla 8 til 10% þjóðarinnar til að sinna vörnum landsins á hættustundu eða milli 20.000 og 28.000 manns, án þess að efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist. Við slíkan fjölda væri miðað í Lúxemborg, þar sem um 1000 manns sinntu störfum í her landsins á friðartímum. Unnt yrði að þjálfa fámennan hóp Íslendinga, 500 til 1000 manns, til að starfa að vörnum landsins, án þess að setja vinnumarkaðinn úr skorðum."
Björn sá önnur not fyrir slíkt herlið en eingöngu til hernaðarþarfa. Hann taldi að hægt sé að nota liðið til að bæta almannavarnir og í því skyni að bregðast við náttúruhamförum og hann sá ennfremur möguleika sem skapast hafa með stofnun íslensku Friðargæslunnar og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Hún hafi aukist ár frá ári og sé orðin liður í gæslu öryggishagsmuna Íslendinga.
Inn í slíkt öryggiskerfi sér Björn einnig not fyrir sérsveit á vegum ríkislögreglustjóra, í heræfingum hér á landi annað hvert ár. Hann virðist því sjá fyrir sér þríarma "öryggisstofnun", sem saman stendur af eins konar smáher eða öryggissveitum, íslenskri friðargæslustofnun með hernaðarlegum ívafa og sérsveitum ríkislögreglustjóra. Hann virðist einnig sjá fyrir sér að hægt sé að færa mannafla milli þessara arma. Þar stendur hnífurinn í kúnni, því að mestu deilurnar hafa skapast um störf Friðargæslunnar. Sumir virðast aðeins sjá fyrir sér að hún sé og verði borgaraleg stofnun með engin tengsl við hernaðarmaskínu nokkurs konar, erlenda eða innlenda en aðrir telja, þar með talin íslensk stjórnvöld, að í lagi sé að tengja hana við störf t.d. NATO í Afganistan.
Andstaðan við hugmyndir Björn um stofnun íslensks hers virðast aðallega vera á vinstri væng stjórnmálanna, þó að einstaka menn á þeim vængi hafa ljáð máls á að kannski sé tími til kominn að huga alvarlega að þessum málum. En flestir hafa tekið frumkvæði Björns heldur fálega og kosið að persónugera þessa umræðu og telja best að hæða og spotta sem mest og vonast þannig til að umræðan falli um sjálfa sig.
En eins og rakið hefur verið í greininni snýst málið ekki um einstaka persónur, heldur hina sígilda spurningu, hvernig tryggjum við innra og ytra öryggi samfélags okkar? Hafa mál staðið þannig hingað til, að þrátt fyrir að skiptar skoðanir hafa verið á veru Varnarliðinu svonefnda, þá hefur enginn (fyrir utan kannski Björn) komið með lausn á hvernig eigi að haga vörnum landsins ef og til þess kemur að það ákveður einn góðan veðurdag að yfirgefa landið. Menn eru flestir sammála um það, burt séð frá hvaða flokka þeir styðja, að einhverjar trúverðugar varnir verði að vera og þá með einhvers konar innlendu herliði, sérsveitum, öryggissveitum, heimavarnarliði eða hvað menn vilja kalla það, verði að vera til staðar ef til þess kemur.
Stofnun Varnarmálastofnun Íslands og lok hennar
Bloggritari var meðal fyrstur Íslendinga sem viðraði þá hugmynd árið 2005 að tímabært væri að stofna bæri stofnun fyrir varnarmál landsins. Málefni varnamála Íslandi voru í óreiðu og ábyrgðin dreifð á of margar hendur og mismunandi. Varnarmálastofnun var svo stofnuð árið 2009 en var svo lögð niður ári síðar og verkefni hennar komin í hendur fyrri aðila, sem er varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar. Það er einsdæmi í stofnanasögu Íslands að stofnun sé lögð niður og það eftir skamman starfstíma.
Sumir sá Varnarmálastofnun allt til foráttu og töldu þetta vera tilgangslausa stofnun. En svo er ekki, því að stjórnsýslan verður hvort sem er að halda utan um varnarmál Íslands, sjá um tvíhliða varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951 og samskiptin við NATÓ. Stofnunin var einnig nauðsynleg til þess að hér skapast innlend þekking á varnarmálum en ekki sé reitt á þekkingu bandarískra hershöfðingja í Pentagon.
Til að gera langa sögu stutta, hefur umsýsla varnarmála síðan Varnarmálastofnun var aflögð, verið í ólestri og verksvið á reiki. Einn ljós punktur hefur verið síðan en það er stofnun Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála sem er líklega komin á koppinn. En slíkt setur að mati bloggritara ætti heima í varnarmálastofnun sem yrði endurreist sem fyrst.
Hér eru greinar sem bloggritari hefur skrifað um varnarmálastofnunina en þær eru fleiri, auka fjölda greina í dagblöðum.
Herlausa lýðveldið Ísland - Varnarmál og Varnarmálastofnun Íslands
Tilaga til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála liggur fyrir hjá Alþingi
Lokaorð
Að lokum er vert að velta því fyrir sér hvort einhverjar líkur eru á að hér verði stofnaður her í náinni framtíð. Ef litið er á stöðuna eins og hún er í dag, þá virðist það vera frekar ólíklegt. Íslensk stjórnvöld virðast ekki einu sinni geta rekið Landhelgisgæsluna með sómasamlegum hætti eins og allir vita og því verða þau virkilega að endurskoða afstöðu sína til þessara mála. Einhverjar bakdyraleiðir verða þess í stað farnar, svo sem með fjölgun í víkingasveitinni og að sveigja Friðargæsluna meira í átt til hermennsku sem telja má vera afar ólíklegt.
Stjórnmál og samfélag | 20.11.2020 | 13:23 (breytt 23.8.2024 kl. 11:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020