Publicus Cornelius Tacitus

Hér verður gerð stutt grein fyrir afstöðu rómverska sagnaritarans Tasítusar til Germana í ritinu Germanía og þeim lærdómi sem hann telur að landar sínir geti dregið af lifnaðarháttum þeirra. Jafnframt verður farið út í lýsingu ritsins á sagnfræðilegum vandamálum sem upp komu við samningu þess.

Fyrst verður hér farið nokkrum orðum um sjálfan manninn, Tasítus. Óvíst er hvenær hann fæddist eða dó, en talið er að hann hafi fæðst skömmu eftir að Neró varð keisari Rómaveldis og dáið á fyrstu stjórnarárum Hadríans. Hann mun þá hafa verið uppi á árunum 55-120 e.Kr. Tasítus er talinn vera ættaður frá Norður-Ítalíu. Hann var stórrar ættar og komst til hárra mannvirðinga. Hann hóf stjórnmálaferil sinn í stjórnartíð Vespasíusar. Hann hafði hlotið venjulega menntun rómverskra hefðarmanna og þar með lært þau mælskubrögð sem prýða frásögn hans, þá leikni að telja röksemdir með og á móti sem fram kemur í ræðunum í söguritum hans. Tasítus giftist árið 77 e. Kr. dóttur Agricóla ræðismanns. Árið 88 varð Tasítus pretor (dómstjóri). Síðan sat hann í öldungaráðinu. Nerva keisari gerði hann ræðismann árið 97 og Trajanus skipaði hann skattlandsstjóra í Asíu, sennilega árið 112 eða 113.

Tasítus samdi mörg ritverk um ævina en sum af þeim eru nú glötuð. Meðal helstu verka hans er Dialogus de oratoribus (Samtal um ræðumenn). Þetta er hörð ádeila á einræðið og kennir hann því um afnám frelsisins og hnignun mælskufræðinnar. Fáeinir fræðimenn vilja ekki eigna Tasítusi þetta verk. Það deilumál er látið liggja milli hluta hér. Árið 98 e. Kr. kom út De vita Iulii Agricolae (Agricóla), sem segir frá ævi og störfum tengdaföður Tasítusar. Annað þekkt verk er Historiae (Sögur) í 12-14 bókum, er fáar hafa varðveist. Segir þar frá samtímamönnum Tasítusar. Svo má nefna Annales sive Ab excessu divi Augusti(Árbækur eða atburðir eftir dauða Ágústusar keisara). Loks ber að geta þess rits, sem ritgerðinni er ætlað að fjalla um, en það er ritið De origine et situ Germanorum (Germanía). Það er talið hafa verið gefið út árið 98 e. Kr.

Meginstyrkur Tasítusar sagnaritara er fólginn í frásagnarstíl hans. Fáir aðrir höfundar hafa sagt svo mikið í svo fáum orðum. Stundum er efninu svo saman þjappað að frásögnin verður óeðlileg og torskilin. Hann var kjarnyrtur og rökfastur í ritum sínum en jafnframt orðfár. Tasítus virðist vilja segja rétt og satt frá því sem hann lýsir, en er óáreiðanlegur að því leytinu til að hann sleppir því sem hentar ekki málflutningi hans og markmiðum. Um áreiðanleika Tasítusar er haft eftir Will Durant sagnfræðingi: ,,Tacitus lýgur aldrei, en segir aldrei allan sannleikann. Hann nefnir oft heimildir sínar og metur þær stundum og vegur - sögurit, ræður, sendibréf, Acta diurna, Acta senatus og munnmælasagnir fornra ætta.” Hann er því nokkuð áreiðanlegur heimildarmaður, ef miðað er við samtímamenn hans, en það er eins með verk hans og annarra, öllu verður að taka með varúð, því enginn maður er óskeikull.

Ritið Germanía ber vitni handbragði meistarans. Það er orðfátt en segir samt mikla sögu. Í ritinu ber Tasítus saman, að því er hann telur, göfugar dyggðir frjálsrar þjóðar og úrkynjun og hugleysi Rómverja. Aðaltilgangur ritsins virðist vera ádeila á Rómverja og allt það sem miður fór hjá þeim um þær mundir. Þó fjallar ritið eingöngu um Germani og lifnaðarhætti þeirra. Í ritinu lýsir hann hinum ómenntuðu náttúruþjóðum austan Rínar og norðan Dónár, en samhliða því mörgum og margvíslegum einkennum hvers ættbálks um sig. Fyrri hluti ritsins fjallar um Germani almennt og heimkynni þeirra en hinn síðari um einstaka þjóðflokka Germaníu.

GERMANÍA

Tasítus byrjar á því í riti sínu að lýsa legu Germaníu og landamærum. Hann virðist hafa góða þekkingu á staðháttum og mörkum landsins. Til Germaníu töldu Rómverjar það svæði sem nú er Þýskaland, Norðurlönd, það er Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hugsanlega Finnland, ásamt Austurríki, Ungverjalandi, Póllandi og nokkru af Rússlandi. Því næst reynir hann að ráða í hverjir voru frumbyggjar landsins, uppruna þeirra og nafn. Tasítus telur Germana sjálfa frumþjóð í landinu, en athyglisvert er að hann telur þá komna sjóleiðis til landsins. Þessi skoðun hans á ennþá upp á pallborðið hjá mörgum fræðimönnum nú á dögum. Margur sagnfræðingurinn telur að frumheimkynni Germana hafi verið á Norðurlöndum og þeir hafi komið siglandi yfir Eystrasalt til Germaníu. En það eru engar sannanir til fyrir slíku mati. Fræðimenn nú á dögum eru yfirleitt sammála um að fornleifafundir og aðrar heimildir styðji ekki þessa skoðun án þess þó að útiloka hana með öllu.

Tasítus gerir að umtalsefni hvernig nafnið Germani sé til komið og telur hann að það sé að uppruna nafn þjóðflokks er fyrstur fór vestur yfir Rín en hafi að lokum orðið samheiti á flestum þjóðflokkum austan Rínar.

Næst tekur Tasítus fyrir getgátur manna á þessum tíma um það að Odýsseifur hafi komist alla leið til Germaníu á ferðalagi sínu um heiminn og reist þar bæ einn, Askborg. Þar eigi að hafa fundist hörgur einn er Odýsseifur hafi helgað og töldu menn hann vera þar enn. Tasítus komst að merkilegri niðurstöðu um það hvernig ætti að leysa þetta sagnfræðilega og í raun fornleifavandamál um tilvist hörgsins. Hann segir: ,,Hirði ég eigi að færa sönnur á slíka hluti né véfengja þá; má þar hver leggja trúnað á eftir geðþótta sínum.” Með þessari afstöðu bregst Tasítus við eins og nútímasagnfræðingi sæmir. Hann ætlast til að fá sannanir til þess að geta lagt trúnað á þessa sögn. Þar sem hann fékk engar, þá lét hann það liggja milli hluta.

Enn tekur Tasítus fyrir það vandamál hverra manna Germanir séu. Hann telur alla þjóðflokka Germaníu af einum og sama kynstofni komna. Hann byggir þetta mat sitt á útliti og gervi þeirra allra. Þess má geta að talið er að Tasítus hafi dvalist á meðal Germana er hann gengdi herþjónustu á landsvæði því er nú kallast Belgía. Hann hafði því sennilega sjálfur haft mikil kynni af þeim og því getað athugað þá frá sjónarhóli mannfræðinnar.

Það er spurning hvort það megi ekki flokka Tasítus frekar sem mannfræðing eða þjóðháttafræðing en sagnaritara. Að minnsta kosti hagar hann rannsóknum sínum í þessu riti á sama veg og mannfræðingur myndi nú gera, það er að segja með því að dveljast meðal fólksins sem hann rannsakar, athuga lifnaðarhætti þeirra og skrá það sem fyrir augu ber. Það sem Tasítus skrifar næst um styður þessa skoðun. Hann tekur fyrir atriði eins og landkosti Germaníu, verðmætagildi Germana, vopnabúnað, hernaðartækni og herskipan.

Þar á eftir athugar hann stéttaskipan Germannana. Hann lýsir svo hvernig mönnum er skipt niður eftir tign. Æðstir eru konungarnir sem eru ættgöfugastir. Næstir koma hertogarnir og loks prestar. Júlíusi Sesar og Tasítusi ber ekki saman í frásögn um valdsvið hertoganna. Tasítus segir að forysta hertoganna byggðist fremur á eftirdæmi sem þeir sköpuðu heldur en valdboði en Sesar heldur fram hinu gagnstæða. Það er meira takandi mark á Tasítusi varðandi þetta atriði, því hann dvaldist á meðal Germana en Sesar herjaði að mestu í Gallíu og þekkti þar best til. Að vísu fór hann stuttan leiðangur inn í Germaníu en ekki hafði hann mikil kynni af íbúunum þar í landi.

Þá tekur Tasítus á trú Germananna og telur upp guði þeirra. Þar hvikar hann ekki frá þeirri hefð Rómverja að nefna goð annarra þjóða nöfnum sinna goða er höfðu sömu eiginleika og erlendu goðin. Meðal goða sem hann lýsir er gyðjan Ísis, sem nokkrir af germanska þjóðflokkinum Svefa blóta. Ekki vissi Tasítus hvaðan þessi erlenda blótvenja var upprunnin en dregur þá ályktun að hún sé að fengin vegna þess ,,að líkan gyðjunnar er sem léttiskúta í lögun.” Ekki er þetta skot út í bláinn hjá Tasítusi því Ísis var egypsk frjósemis- og móðurgyðja og verndari sjófarenda. Hún var tilbeðin um allt Rómaveldi og líklega hefur þessi átrúnaður borist frá því til Germana, sennilega með viðskiptum þeirra við íbúa Rómaveldis.

Þegar Tasítus hefur gert guðatrúnni skil, gerir hann að umtalsefni þjóðfélagsskipan Germana. Hann segir að mál ráðist af ráðagerðum höfðingjanna í hinum minni málum en í þeim stærri sé boðið til þings allra vopnfærra manna. Á þingi séu kveðnir upp dómar í sakamálum og refsingum fullnægt. Einnig fari þar fram vígsluathöfn unglinga, þegar þeir eru teknir í tölu fullorðinna.

Eftirtektarverð er sú mikla aðdáun sem Tasítus bar fyrir hugrekki, hreysti og hugsunarhætti sem hann eignar Germönum. Hann var reyndar ekki einn um þá skoðun. Júlíus Sesar bar líka mikla virðingu fyrir hugsunargangi þeirra og hrósaði þeim mikið í riti sínu Gallastríð. Ritið Germanía er ,,gegnsýrt” af lýsingum á því hversu góðir hermenn Germanir séu og hugumprúðir. Með því að leggja slíka ofuráherslu á gestrisni, vináttu, hugrekki og hreysti þessara ,,villimanna” vildi Tasítus líklega benda á það sem miður fór í siðferði hjá Rómverjum. Þá átti hann við lesti Rómverja almennt og sérstaklega rómversku kvennanna, en í skrifum hans má lesa á milli lína, mikla gagnrýni á rómversku konurnar er hann lýsir fjálglega hugrekki, kunnáttu og skírlífi germanskra kvenna. Má þar tilnefna gott dæmi um siðaboðskap, þegar hann segir að ,,þar sé ekki hlegið að löstunum og þar kallast það ekki að tolla í tízkunni, ef menn blekkja aðra og láta sjálfir blekkjast.” Menn áttu sem sagt að draga lærdóm af hinum "ósiðuðu villimönnum" norður í löndum. Þarna hættir Tasítus að vera frásagnarmaður en fer þess í stað að lesa samlöndum sínum siðferðisboðskapinn með hörðum orðum. Hitt er svo annað mál hvort germanskar konur hafi verið svo siðprúðar og skírlífar eins og Tasítus lætur að liggja en samt er ekki ólíklegt að svo hafi verið. Germanir lifðu í mjög einföldu samfélagi og engin miskunn var sýnd við frávikum frá samfélagslegum ,,normum” eða því sem eðlilegt taldist vera.

Uppeldismál lætur Tasítus sig varða og enn má greina umkvartanir hans í garð rómverskra kvenna er hann segir frá því að börnin alist upp á brjóstum mæðra sinna og ,,eru ekki falin forsjá þerna né fóstra.” Slíkt uppeldi tíðkaðist hjá Rómverjum til forna.

Ekki er það eintómt lof sem Tasítus bar á Germani. Það má finna eitt gott dæmi um hið gagnstæða. Þá gagnrýnir hann harðlega og þykir undarlegt að Germanir stundi teningaspil alsgáðir og leggi fjör og frelsi við greiðslu á veðskuld úr teningaleik. Það telur hann vera hina mestu hneisu.

Því næst segir hann að okur tíðkist ekki hjá Germönum. Hann greinir frá akuryrkju, þrælahaldi og útfarasiðum þeirra og þar með lýkur lýsingu hans á uppruna og háttu Germana yfirleitt.

Það sem eftir er ritsins gerir hann grein fyrir búsetu, háttum og venjum einstakra þjóðflokka. Tasítus beinir athyglinni að uppruna einstakra þjóðflokka og gerir greinarmun á keltneskum (gallverskum) og germönskum þjóðflokkum. Þá vísar hann í heimildarmann sinn, Júlíus Sesar, um sögu keltnesku þjóðflokkanna og telur Kelta hafa verið voldugri þjóð en Germani og hafi ,,einnig áður á tímum flutzt inn í Germaníu. Fljótið (Rín) hefir ekki heldur verið neinn verulegur þröskuldur fyrir því, að hver sú gallnesk þjóð...breytti um bústaði og legði undir sig lönd þau, er þá voru almennings eign og eigi setin af neinum sérstökum einvalda.” Þarna virðist Tasítus hafa áreiðanlegan heimildarmann, sem Sesar er. Því næst telur hann upp nöfnin á hinum einstöku þjóðflokkum og greinir þá í sundur á grundvelli búsetu, þjóðflutninga, siða, venja og síðast og ekki síst tungumáls. Þetta eru nákvæmlega þau vinnubrögð sem nútíma sagnfræðingar beita, auk þess sem þeir styðjast við ritaðar heimildir og fornleifar.

Þá fer Tasítus með okkur norður á Jótlandsskaga í Danmörku. Hann segir okkur deili á þjóðflokki Kimbra sem byggði þá skagann. Hann virtist hafa haft persónuleg kynni af þeim og komið þangað. Að minnsta kosti lýsir hann aðstæðum eins og sjónarvottur. Hann segir:

"Áðurnefndan skaga byggja Kimbrar og eru næstir útsænum. Er sú þjóð lítil nú á dögum, en stórfrægir eru þeir, og standa leifar hins forna hróðurs enn allvíða.

Eru þar á báðum árbökkunum (Rínar) herbúðarústir og áfangasvæði svo geysistór, að af því má nú marka mannfjölda og meginstyrk þessarar þjóðar; þar er og að finna heimildina fyrir hinni fjölmennu heimanför."

Tasítus vísar þarna til fornleifa sem heimildar og er þetta til marks um hversu langt hann var á undan sinni samtíð í fræðum síðum og áreiðanlegur í frásögn. Þetta voru vinnubrögð Tasítusar. Hann nýtti sér allar hugsanlegar heimildauppsprettur til þess að færa sönnur á mál sitt. Orð hans benda einnig til þess að hann hafi séð herbúðarústirna. Menn sögðu yfirleitt ekki á þessum tíma frá einhverjum ,,þústum og rusli”. Hann hlýtur því að hafa séð leifarnar með eigin augum.

Ritið endar svo á lýsingu á norðurhluta Germaníu, samkvæmt skilgreiningu Rómverja, en það munu vera sjálf Norðurlönd og svo landsvæðið fyrir botni Eystrasalts. Þetta mun vera ein allra fyrstu rituðu heimilda um Norðurlandabúa og heimkynni þeirra.

Í þessari grein hefur verið stiklað á stóru um sagnaritarann Tasítus og verk hans, Germaníu. Ómögulegt hefur verið að gera efninu sæmilegu skil í svona stuttri frásögn en vonandi hefur þó tekist að fara í aðaldrættina og ná fram heildarsýn.

Tasítus er um margt athyglisverður sagnaritari og áreiðanlegur og ber ritið Germanía þess glögg merki. Hins vegar er helsti galli verksins hinn siðferðislegi boðskapur sem Tasítus telur sig þurfa að boða. Hinn heimspekilegi tilgangur spillir hlutlægni rannsóknarinnar. Þó virðist hann segja rétt og satt frá og stundum má ætla að hann hafi sjálfur verið sjónarvottur að hinum ýmsu atriðum tengdum Germönum. Að minnsta kosti lýsir hann af miklum kunnugleika atriðum sem hann gæti ekki lýst ef hann hefði ekki verið viðstaddur. Um önnur atriði sem Tasítus varð ekki vitni að, hefur hann sennilega haft afspurn af þeim Germönum sem hann þekkti en um ýmislegt tekur Tasítus skýrt fram að ekki sé reiður á henda og láti hann það því liggja á milli hluta. Það styður því skoðun höfundi ritgerðarinnar, að á hinu öllu sem hann skýrir frá hefur hann talið sig kunna full skil.

Helstu heimildir:

The Oxford Dictionary

Lexikon der alten Welt, bls. 2970.

Will Durant, Rómaveldi, 2. bindi.

Publius Cornelius Tacitus, Germanía.

B. Tierney og S. Painter, Western Europe in the Middle Ages 300-1475.

G. J. Caesar, Gallastríð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband