Er EES samningurinn um sjálfkrafa upptöku EFTA - ríkja á reglugerðum ESB?

Kíkjum á fyrstu grein EES samningsins:

"1. gr.

1. Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES.

2. Til að ná þeim markmiðum sem sett eru í 1. mgr. skal samstarfið í samræmi við ákvæði samnings þessa fela í sér:

a) frjálsa vöruflutninga;

b) frjálsa fólksflutninga;

c) frjálsa þjónustustarfsemi;

d) frjálsa fjármagnsflutninga;

e) að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum; og einnig

f) nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála."

Hér segir hvergi að við eigum að vera móttökustöð reglugerða frá ESB, heldur er þetta viðskiptasamningur. Það er nokkuð skondið að EFTA - þjóðirnar þurfi að taka upp reglugerðir "viðskiptaaðila" þeirra, sem eru önnur alþjóðasamtök, þegar þær eru ekki einu sinni í samtökunum.

Ég hef ekki orðið var við að ESB þurfi að taka upp reglugerðir EFTA - ríkja, eða hefur það farið fram hjá mér? Athugið að reglugerð eru reglur um framkvæmd á lögum!

ESB hefur tekið gífurlegum breytingum  síðan 1992 þegar EES - samningurinn var tekinn í gildi, án samþykki íslensku þjóðarinnar en engin endurskoðun hefur átt sér stað síðan þá.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi Íslandi lokaviðvörun 2020 ef ég man rétt, vegna meints samningsbrots, sem stofnunin hefur haft til meðferðar sl. 8 ár. Þar er krafist að lög og tilskipanir frá ESB verði gerðar rétthærri og æðri íslenskum lögum í íslensku réttarfari og hér er ég að tala um bókun 35.

Þetta getur ekki verið annað en brot á stjórnarskrá Íslands því að lagasetningavaldið er í höndum Alþingis Íslendinga. Hvergi stendur í stjórnarskránni að það sé heimilt fyrir Alþingi að framvísa eða afsala þetta vald í hendur yfirþjóðlegs valds.

Sama gildir um EES - samninginn, upptaka reglugerða eða laga erlendra aðila í gegnum viðskiptasamning getur ekki verið löglegt eða samkvæmt stjórnarskránni. Erum við t.a.m. að taka upp reglugerðir sem koma viðskiptum ekkert við?

Tökum dæmi, við gerum viðskiptasamning við viðskiptabandalag Norður-Ameríku (USMCA) en í honum felst að við þurfum að taka upp reglugerðir sem bandalagið setur einhliða. Er það löglegt? Myndi ekki einhver kvarta? Af hverju þá ekki vegna lagasetningavalds ESB?

Svo er það stóra spuringin: geta 63 manneskjur ákveðið fyrir hönd heillar þjóðar skuldbindingu og afsali lagasetningavalds landsins til yfirþjóðlegs valds? Það vantar sárlega ákvæði í stjórnarskánna um þjóðaratkvæðisgreiðslur fyrir meiriháttar mál. Það er of þungt að þurfa að safna undirskriftum og skjóta málinu fyrir forseta Íslands til að knýja fram þjóðaratkvæðisgreiðslu. Það er mjög auðvelt að kjósa í dag með rafrænum skilríkjum eða bara gömlu góðu aðferðina að fara á kjörstað (binda það t.d. við sveitarstjórnar- eða Alþingiskosningar).

Íslendingar voru miklir lögspekingar á tímum þjóðveldisins. Hefur þeim fatast flugið síðan þá og samþykkt lagasetningar sem standast ekki röksemdafærslur rökfræðinnar? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Innleiðingarskyldan kemur fram í 7. gr. EES-samningsins:

7. gr.
Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:
    a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;
    b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

Samkvæmt 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 sem Alþingi setti, hefur EES-samningurinn lagagildi hér á landi. Ofangreint ákvæði er því hluti af íslenskum lögum.

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fer Alþingi með löggjafarvaldið og það getur því varla brotið í bága við hana að Alþingi beiti því löggjafarvaldi.

EES-samningurinn er miklu meira en bara viðskiptasamningur milli ríkja, því hann felur í sér sérstakt réttarkerfi sem einstaklingar geta byggt réttindi sín á. Að tryggja þau réttindi nógu vel getur varla verið af hinu illa.

Svo má alveg hafa skoðun með eða á móti EES-samningnum, en þá er líka betra að byggja þá skoðun á staðreyndum.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2023 kl. 12:09

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Guðmundur, það breytir ekki niðurstöðu minni sem er:

1)  a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila; - Með öðrum orðum: Einhliða upptaka reglugerðar ESB en hvað með reglugerðir EFTA (Noregs, Íslands og Lictensteins)?

2. Samkvæmt 2. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 sem Alþingi setti, hefur EES-samningurinn lagagildi hér á landi. Ofangreint ákvæði er því hluti af íslenskum lögum. - Já, hann hefur lagagildi samkvæmt EES samningum en það gerir hann samt ekki löglegan gagnvart stjórnarskránni. Ég man alveg eftir umræðunni sem átti sér stað 1992-93. Mjög hart deilt um þetta atriði um hvort samningurinn stæðist stjórnarskránna. 

3) Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fer Alþingi með löggjafarvaldið og það getur því varla brotið í bága við hana að Alþingi beiti því löggjafarvaldi. - Hér ert þú að misskilja athugasemd mína en ég sagði skýrum orðum að Alþingi hefði ekkert umboð til að framselja lagaheimild sinni til yfirþjóðlegs valds. Til þess þarf að bæta því ákvæði við í stjórnarskránna. Getur þú bent mér á ákvæði í stjórnarskránni sem heimildar valdaafsal lagasetningar Alþingis?

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 12:29

3 Smámynd: Birgir Loftsson

P.S. ...átti við lagasetningarvalds Alþingis.....

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 12:39

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

EES-samningurinn hefur ekki "lagagildi samkvæmt EES samningum" heldur samkvæmt íslenskum lögum sem Alþingi setti með löggjafarvaldi sínu samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár.

Það er ekki ákvæði í stjórnarskránni sem heimilar afsal lagasetningarvalds Alþingis. Einmitt þess vegna taka EES-reglur ekki sjálfkrafa gildi hér á landi, heldur þarf Alþingi að setja lög til að innleiða þær ef svo á að vera, á grundvelli löggjafarvalds síns samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2023 kl. 13:11

5 Smámynd: Birgir Loftsson

Jú, samkvæmt bókun 35 á ESS - samningurinn að yfirtrompa íslensk lög. 2. gr. stjórnarskránnar segir ekkert um að reglurgerðir ESS (byggðar á erlendum lögum) gildi umfram íslensk lög....sjá hér að neðan. Alþingi verður að leiðrétta eftir á ruglið frá EES.....

 2. gr.
 Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 13:31

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Alþingi hefur enga heimild skv. stj.sk. til lagasetningargerðar byggt á reglum EES. 

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 13:50

7 Smámynd: Birgir Loftsson

Geta Íslendingar sagt nei innleiðing á reglum EES? Hvað gerist þá? Svo virðist sem Alþingi vilji ekki láta reyna á þetta, sbr.

þetta: 

Utanríkisráðherra segir ákvörðun Evrópuþingsins í morgun, um að staðfesta breyttar reglur um losunarheimildir í flugi, ekki hafa áhrif á Ísland. Taka þurfi málið upp í EES-samninginn til þess, og vinna við undanþágur er enn í gangi.

https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-04-18-segir-akvordun-evroputhingsins-ekki-hafa-bein-ahrif-a-island

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 15:23

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"samkvæmt bókun 35 á ESS - samningurinn að yfirtrompa íslensk lög"

Nei alls ekki, þetta er kjarni misskilningsins. Bókun 35 er hluti af EES-samningnum og hann er hluti af íslenskum lögum sem Alþingi setti á grundvelli löggjafarvalds síns.

Frumvarpið sem á að leiðrétta ófullnægjandi innleiðingu bókunarinnar kveður á um að tiltekin íslensk lög yfirtrompi önnur íslensk lög ef þau rekast saman. Eftir sem áður munu EES-tilskipanir og reglugerðir ekki hafa neitt lagagildi og frumvarpið breytir engu um það.

Íslensk lög sett af Alþingi munu áfram gilda en ef innbyrðist árekstur verður milli þeirra verður að vera til einhver regla segir til um hvor íslensku lögin gangi þá framar.

"Alþingi hefur enga heimild skv. stj.sk. til lagasetningargerðar byggt á reglum EES."

Jú Alþingi hefur löggjafarvald samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár en ákvæðið setur engar takmarkanir á það á hvaða forsendum Alþingi megi byggja ákvarðanir sínar á lagasetningu. Þess vegna er ekkert sem bannar Alþingi að taka ákvörðun um að setja lög sem endurspegla EES-reglur. Valdið til þess er Alþingis.

Sem dæmi var Mannréttindasáttmáli Evrópu innleiddur í íslensk lög samkvæmt ákvörðun Alþingis í krafti löggjafarvalds þess, en ekki samkvæmt neinu erlendu valdboði. Það var fullkomlega heimilt enda ekkert sem bannar Alþingi að setja lög sem sækja sér fyrirmynd erlendis frá, hvort sem það er úr löggjöf annarra ríkja eða þjóðréttarlegum samningum.

Svarið við síðustu spurningunni er já, Íslendingar geta sagt nei við EES-reglum. Ef við gerum það eftir að þær hafa verið teknar upp í EES-samninginn er það samningsbrot sem getur haft afleiðingar. Þess vegna er svo mikilvægt að nota andmælaréttinn strax í því ferli áður en reglurnar eru teknar upp í EES-samninginn og kveða þar á um undanþágur, rétt eins og utanríkisráðherrann er að vísa til.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.4.2023 kl. 16:19

9 Smámynd: Birgir Loftsson

Guðmundur, ég held að þú sért að misskilja mig. Til að taka af allan vafa um hvað ég er að tala, kem ég með eftirfarandi rök:

a) Ég hef aldrei efast um að Alþingi hafi ekki löggjafarvald til að setja í lög reglugerðir ESB í gegnum EES-samninginn. En hver er ferillinn? Evrópuþingið setur reglur, þær innleiddar í ESS-samninginn og sendar til aðilaríkja EFTA-ríkja. Þar eru þau þýdd, hér hjá þýðingardeild utanríkisráðuneytisins. Þau áframsend til Alþingis sem "vottar" og innleiðir í íslensk lög hinu erlendu lög. Þetta er kannski ekki ólöglegt en þetta copy/paste aðferð og tekur yfir hlutverk Alþingis að setja íslensk lög fyrir íslenskar aðstæður. Þar með er Alþingi að fara í kringum 2. gr. stj.skr. um að um semja lögin sjálft!!! Líkt og við myndum innleiða reglur sem efnahagsbandalag Norður-Ameríku inn í íslenska löggjöf og löggilda það með stimplum Alþingis.

b) Ef við getum sagt nei við reglur ESB, af hverju þurfum við "undanþágu" frá reglugerðinni um losunarheimildir í flugi? Getum við ekki sagt nei? Sett íslensk lög um málið og málið dautt?

c) Eftir stendur óhaggað fullyrðing mín um að ekkert ákvæði er um framsal löggjafarvalds Alþingis til yfirþjóðlegrar stofnunnar (þótt íslensk stjórnvöld fari í kringum þetta með EES - samninginn og þykjast ráða ferðinni með því að beita stimpla Alþingis til að gera ólöglega hluti löglega).  Þetta er eins og að undirrita dauðadóm yfir sjálfum sér og hreykja sig af því að hafa ákveðið með undirskrift að viðkomandi ráði yfir eigi lífi!

Þeir sem skrifuðu stjórnarskránna sáu ekki fyrir að Alþingi yrði eins og það var um aldir framkvæmdaraðili Danakonungs (lesis í dag, framkvæmdaraðili ESB), sem innleiddi erlend lög án andsvars. Löggjöf  gamla Alþingis (Alþingis samþykktir kölluðust þetta) var í mýmynd og breytingar voru í formi bængerðir sem sendar voru til Danakonungs með von að hann sjái aumur á fátæku Íslendingunum. Nú eru við að senda bænir til ESB um flugmáli!

d) Bókin 35 getur tæknilega séð verið lögleg, ef Alþingi samþykkir hana, en er ekki samkvæmt stjórnarskránni. Alþingi er þar með að gerast lögbrjótur en 2. gr. stj.skr. segir að Alþingi eitt setji lögin en ekki að erlend lög yfirbjóði íslensk lög sjálfkrafa en Alþingi verði svo að leita réttar síns eftir á.

Ef Þú heldur að Alþingi sé æðsti dómur (eins og það er samansett í dag af einstaklingum) og að það geti yfirtrompað stjórnarskránna, þá er það megin misskilingur! Dómsvaldið gæti til dæmis ákveðið að Alþingi sé að brjóta lög gagnvart stjórnaskránna og þurfi að leiðrétta sig. Forsetinn gæti líka tekið upp á því að neita að undirrita lög og skjóta málinu til þjóðarinnar.

 

Birgir Loftsson, 18.4.2023 kl. 18:22

10 Smámynd: Birgir Loftsson

Svona hljómar frumvarpið:  ,,Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“ 

Það er ekki nóg að ESS-samningurinn gangi fram fyrir íslensk lög, heldur einnig reglugerðir sem ráðherra setur! Þetta hlýtur að vera stjórnarskrá brot.  Að hugsa sér að reglugerðir komnar frá Evrópuþingi eru breyttar í íslensk lög og eru rétthærri þar til Alþingi "leiðréttir" málið.

Birgir Loftsson, 19.4.2023 kl. 11:45

11 Smámynd: Birgir Loftsson

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrum hæstaréttardómar: 

Hér virðist vera gert ráð fyrir að skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum, sem ekki hafa verið leiddar í lög hér á landi, heldur aðeins með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar yngri almennum lagafyrirmælum ef ekki er efnislegt samræmi. Í þessu felst í reynd að lagasetningarvaldið er í þessum tilvikum tekið úr höndum íslenska löggjafans (Alþingis) og fengið í hendur erlendum aðila sem ákveður efni skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum.

 

 

 

Að mínum dómi er ljóst að efni fyrrgreinds frumvarps stenst ekki fullveldisrétt þjóðarinnar sem allir virðast vera sammála um að felist í stjórnarskránni. Það er því ástæða til að benda ríkisstjórn Íslands á að ekki er unnt að samþykkja nefnt frumvarp sem lög í landinu nema fyrst hafi stjórnarskránni verið breytt í þá veru að heimila svona lagasetningu.

Birgir Loftsson, 19.4.2023 kl. 15:39

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Hér virðist vera gert ráð fyrir að skuldbindingar samkvæmt EES- samningnum, sem ekki hafa verið leiddar í lög hér á landi, heldur aðeins með stjórnvaldsfyrirmælum, skuli ganga framar yngri almennum lagafyrirmælum ef ekki er efnislegt samræmi."

Þessi ályktun er röng. Stjórnvaldsfyrirmæli geta ekki gengið framar settum lögum heldur verða að eiga stoð í þeim. Þetta hlýtur fræðimaðurinn og fv. dómari JSG að vita.

Sbr. svohljóðandi skýringu í frumvarpinu:

"Á grundvelli greinarinnar er rétthæð réttarheimilda ekki raskað."

Utanríkisráðherra áréttaði þetta líka í framsöguræðu sinni:

"Reglan raskar ekki rétthæð réttarheimildanna og kveður þannig ekki á um að stjórnvaldsfyrirmæli sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum gangi framar lagaákvæðum."

Mér er óskiljanlegt hvers vegna svo margir, jafnvel virtir lögspekingar, kjósa að byggja tjáningu sína um þetta tiltekna mál á rangfærslum, eða eftir atvikum misskilningi.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.4.2023 kl. 16:02

13 Smámynd: Birgir Loftsson

Nú er ég forvitinn, ert þú lögfræði menntaður? 

Og nóta bene, öll lög byggðar á lögskýringum og hefur verið frá stofnun Alþingis 930. Túlka þarf textann og "anda textans".

Ef menn kjósa að "álykta vitlaust" eða réttara sagt að lögskýra "rangt" bókun 35 gagnvart íslenskum lögum og ákvæði stjórnarskránna er leiðin opin til deilna og dómstólaleiðina fyrir erlenda dómstóla.

Er ekki betur að vanda betur til verks, hafa lagatextann á skiljanlegri íslensku, eða a.m.k. þannig að ekki er hægt að misskila?

Birgir Loftsson, 22.4.2023 kl. 19:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband