Þéttbýlismyndun, bæir og borgir á Íslandi og Evrópu - næstu borgir á Íslandi

Þéttbýlismyndun varð mjög seint hér á Íslandi, þótt landið væri hluti af evrópsku menningarsamfélagi en þar voru þorp og bæir algengasta þéttbýliseiningarnar á miðöldum þegar Ísland byggðist fyrst. Kíkjum aðeins á þróun þéttbýliseininga í Evrópu frá miðöldum.

Borgarlíf miðalda átti rætur í fornöld en hvarf ekki eins og sumir hafa haldið fram. Hins vegar minnkuðu borgirnar eða hurfu fyrir Norðan Alpana (lítil framleiðsla var í þessum borgum, voru fremur neyslueiningar), sumar urðu að bæjum.

Borgin var mjög tengd baklandinu en hún var efnahagsleg miðstöð héraðsins, en verslun og handiðja voru lítt stundaðar (gósseigendur úr sveitum í kring, sátu í borgarráðum en ekki kaupmenn).

Borgir héldust við sérstaklega í suðurhluta Gallíu og víðast hvar við Miðjarðarhafssvæðinu en borgir við landamæri gamla Rómaveldis eyddust.

Sjálfstjórn borgana var úr sögunni og lutu þær nú embættismanni. Kirkjulegar stofnanir björguðu oft borgunum, svo sem biskupsstólarnir, klaustur eða pílagrímakirkjur. Oft myndaðist þéttbýliskjarni í kringum þessa kirkjustofnanir. Svo má sjá í Skálholti og Hólum í Hjartadal, að þar var þéttbýli á þessum stöðum (miðað við stærð samfélagsins) en allt að nokkur hundruð manna bjuggu á þessum stöðum. Borgirnar voru almennt margar en litlar í Evrópu.

Aðrir þéttbýlir staðir voru ef til vill höfuðból voru að fornu stærstu bújarðirnar á Íslandi og aðsetur höfðingja landsins. Jörð sem metin var 60 hundruð eða meira að dýrleika kallaðist höfuðból en meðaljarðir voru gjarna 20-30 hundruð og hjáleigur og kot 10 hundruð eða minni. Á höfuðbólum voru rekin stórbú og oft fylgdu þeim mikil hlunnindi. Nokkrir tugir manna gátu búið á höfuðbólunum, jafnvel meira.

Höfuðból voru kjölfesta ættarveldis og valdagrundvöllur höfðingja. Höfuðbólinu fylgdu oft litlar jarðir og leigulönd sem kölluðust hjáleigur og voru í raun hluti af því en útjarðir voru þær jarðir í nágrenni höfuðbólsins sem tilheyrðu sama eiganda en tengdust því ekki að öðru leyti. Aðrir þéttbýlir staðir voru ekki til, nema verin en þar var búið tímabundið. Á Snæfellsnesi gátu mörg hundruð manns verið saman komnir á litlu landsvæði.

Hvað er það sem einkennir miðaldarborgina eða bæinn (skv. Erosion of History) samkvæmt skilgreiningu fornleifafræðinga?

Varnir.
Skiplagt götukerfi.
Markaður(-ir) innan bæjarins.
Mynt og myntsláttur.
Lagalegt sjálfræði.
Gegni hlutverki sem miðstöð.
Tiltölulega mikla og þétta íbúabyggð.
Fjölbreyttan efnahagsgrundvöll.
Hús og lóðir sem einkennir borgir.
Félagslega lagskiptingu.
Flókið trúarlegt skipulag, miðstöðvar fyrir helgistarfsemi.
Dómskerfi (judicial centre).

Önnur skilgreining: Að bær eða borg sé þéttbýli af tiltekinni stærð og íbúafjölda og sé stærri en samfélög sem lifa við sjálfþurft eingöngu; að meirihluti íbúana séu ekki eingöngu bundnir við landbúnaðarstörf.

Skilgreining Childe:

Fólksfjöldi.
Miðstjórn (bæjarráð).
mikilfengleg mannvirki.
Þróaða stéttaskipan.
Ritað mál.
Iðkun vísinda.
Þróaða iðnaðarmannastétt.
Fasta búsetu borgabúa.
Naturalistic art.

Skilgreining á borg samkvæmt Renfrew, hún þarf að hafa minnst tvö einkenni af þessum þremur:

Minnst 5000 íbúar.
Notkun skrifmál (í borginni).
Miðstöðvar (í borginni) fyrir helgihald.

Þrjár tegundir byggðalaga:

Verslunarhöfn eða hlutlaust svæði til verslunar.

Milliliðahöfn; hún hefur meira vægi en verslunarhöfnin, því að þar fer fram margvísleg verslunarstarfsemi.

Markaðstorgið.

Verslunarhafnir og milliliðahafnir gátu verið markaðstorg, en svo sé ekki alltaf, fer eftir því hvort að það sé í útjaðri samfélagsins (markaðurinn í Champain í Frakklandi á miðöldum) eða hvort það sé kjarni þess.

Mælikvarðinn á hvað telst vera borg hefur breyst í gegnum tíðina og mörkin færast alltaf ofar eftir því hvað mannkyninu fjölgar og borgum þar með. Lengi vel var smáborg miðuð við 25 þúsund íbúa, svo 50 þúsund og 100 þúsund markið sem Reykjavík er löngu komin yfir.

Þorp og bæir almennt mynduðust ekki fyrr en á seinni helmingi 19. aldar á Íslandi með tilkomu sjávarútgerðar. Flest þessi þorp og bæir eru enn til og eru við sjávarsíðuna, með undantekningum þó, t.d. Egilsstaði og Selfoss sem reyndar uxu ekki fyrr en upp úr miðja 20. öld.

Segja má að meginreglan á Norðurlöndum sé að þéttbýli sé svæði með yfir 200 íbúa og að ekki séu meira en 200 metrar á milli húsa. Í Kanada er gjarnan miðað við 1000 íbúa, í Vestur-Evrópu er algengt að mörkin séu 2000 íbúar, sums staðar í Afríku er þéttbýli talið þar sem íbúar eru 10.000 eða fleiri á ákveðnu svæði og í Japan er miðað við 50.000.

Reykjavík varð ekki formlega borg fyrr en um 1907 þegar embætti borgarstjóra var stofnað með lögum árið 1907 en ári síðar tók fyrsti borgarstjórinn til starfa.

Í dag er Kópavogur, Akureyri og Reykjanesbær með fleiri íbúa en Reykjavík upp úr aldarmótunum 1900 en teljast samt vera bæir.

Á Vísindavefnum segir: ,,Niðurstaðan úr athugun á merkingu hugtakanna borg og bær er sú að þó að borg (city) kunni að vera sérstaklega skilgreind eining í stjórnsýslu tiltekinna landa, þá er í daglegu tali ekki ein ákveðin skilgreining á því hvað telst borg og hvað bær. Frekar er um huglægt mat að ræða og málvenju sem skapast hefur."

Það er því ekkert til fyrirstöðu að hér megi kalla fleiri þéttbýlisstaði borgir (margir kostir fylgja því) en bara Reykjavík. Sveitarfélög eins og Hafnarfjörður (íbúar 29.971 þann 1. janúar 2020) og Kópavogur (37.959 þann 1. janúar 2020) ættu í alvöru að stefna að því að verða kölluð borgir þegar íbúafjöldinn er kominn yfir 50 þúsund markið.

Svo er það hulin ráðgáta hvers vegna það eru svo mörg sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þegar sveitarfélög á landsbyggðinni sameinast í nánast landsfjórðunga, líkt og á Austurlandi. Hugmyndir hafa komið upp að mynda á höfuðborgarsvæðinu aðra borg, á móti Reykjavíkurborg, og þær myndu keppa innbyrðis. Ekki svo vitlaus hugmynd, þegar haft er í huga að Reykjavík, eina borg Íslands, er í harðri samkeppni við erlendrar borgir um mannauðinn hérlendis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband