Vegsamgöngur á Íslandi

Ég er mikill áhugamaður um samgöngusögu. Hér kemur því samantekt úr ritgerð sem heitir ,,Reykjavíkurvegir frá upphafi til nútíma“ en ritgerðin er nokkuð góð og gefur góða mynd af samgönguleysi sem hefur hrjáð Íslandi frá upphafi. Svo er samtíningur úr ýmsum áttum, s.s. ,,Heimastjórnartíminn“ af vef Stjórnarráð Íslands og Vísindavefnum. Það er annars ótrúlegt hvað það er erfitt að fá samfelda sögu af samgöngum á landi á Íslandi frá upphafi til dagsins í dag.

Það er vel skiljanlegt hvers vegna, Ísland er fámenn þjóð í stóru landi sem er illfært yfirferðar. Ekki eins og Danmörk með sínu sléttlendi, heldur líkt Noregi sem er jafnvel torfærara land en Ísland.

Byrjum á byrjunni. Ljóst er að troðningar og reiðvegir hafa myndast í áranna rás og Íslendingar kallað það vegi. Eina sem sem var gert og var algjör nauðsyn, var gerð brúa þar sem því var komið við og hafa ferjur við mestu stórfljót. Við stórár var því og fljótlega komið upp ferjum í þjóðbraut. Er Sandhólaferju á Þjórsá getið þegar í Landnámu. Bréf er til um ferjuhald á Ölfusá frá því um 1200 og annað um ferju á Jökulsá í Öxarfirði frá 1402. Í þjóðveldislögum er að finna kafla um brúargerð og ferjur. Þar eru hins vegar engin ákvæði um vegagerð eða viðhald vega. 11. og 12. öld eru þess allmörg dæmi, að menn gáfu fé til þess að halda uppi brúm á vatnsföllum, ferjum á ám og fljótum (svonefndum sæluskipum), og sæluhúsum.

Í réttarbót þeirri frá 1294, sem kennd er við Eirík konung Magnússon, voru bændur á Íslandi skyldaðir til að gera færa vegi um þver og endilöng héruð, þar sem mestur er alfaravegur, og skyldu sýslumenn og lögmenn sjá um að ákvæðum þessum væri hlýtt. Eigi er vitað, hversu fyrirmælum þessum hefur verið framfylgt, en heimildir sýna, að á 16. öld var það venja að minna bændur á skyldur þessar á þingum. Má gera ráð fyrir, að ákvæðum þessum hafi verið beitt að nokkru, a. m.k. þar sem vegir lágu undir skriðuföllum eða brúa þurfti keldur á alfaraleið. Ekki var eiginlega um vegi í nútíma skilningi að ræða, lagðir klæðningu einhvers konar. Um reglulega vegagerð í síðari tíma skilningi hefur naumast verið að ræða.

Brúm þeim, er hér voru gerðar að fornu, var víðast hvar illa við haldið er fram liðu stundir, svo að flestar þeirra munu hafa lagzt af fyrir 1400 og margar löngu fyrr. Hins vegar héldust ferjurnar á stórám landsins, enda varð naumast hægt að komast af án þeirra.

Ég hef alla tíð sagt að upphaf nútímans megi rekja til innréttindinga Skúla Magnússonar og hlutafélagið sem hann kom að á Þingvöllum 1751. Þarna hófst upphaf að fyrsta fyrirtæki Íslands, fyrstu útgerð landsins, landbúnaðarumbótum enda allt í and upplýsingaaldarinnar. Skipaðar voru nefndir til að koma með úrbætur.

Eitt af verkefnum þeim, sem landsnefndin svonefnda, er skipuð var með erindisbréfi 1770, átti að framkvæma, var að athuga og gera tillögur um bættar samgöngur á Íslandi. Skyldi hún athuga möguleika á því, að gerður yrði þjóðvegur, fær vögnum, kerrum, sleðum eða öðrum farartækjum, milli Bessastaða og amtmannsseturs á Norðurlandi, svo og milli biskupsstólanna og amtmannssetranna, og loks milli þessara staða allra og Þingvalla.

Eftir miklar bollaleggingar var loks árið 1776 gefið út konungsbréf um vegi, brýr og ferjur á Íslandi. Náðu ákvæði þessi til vega um byggðir landsins og hinna styttri leiða milli byggða. Hér var mælt fyrir um það, hversu vegi skyldi ryðja. Brautir skyldu gerðar yfir fen og foræði og trébrýr yfir læki og smáár. Ferjum skyldi fjölgað og reglur settar um ferjuhald og ferjukaup. Langa fjallvegi skyldi varða og reisa sæluhús, þar sem Iangt væri milli byggða. Sýslumenn áttu að gæta þess, að ákvæðum konungsbréfsins væri fram fylgt, en bændum gert að skyldu að leggja fram nauðsynlega vinnu. Um framkvæmdir var það að segja að ráðagerðir og fyrirætlanir runnu út í sandinn. Lítið gerðist fram á 19. öld.

„Árið 1861 var gefin út allrækileg tilskipun um vegina á Íslandi“. Þar er vegum skipt í þjóðvegi og aukavegi, og settar mjög nákvæmar reglur um báða. Þjóðvegir skyldu vera hinir fjölförnustu vegir í byggðum og vegir milli héraða. Skyldu vegir þessir vera 5 álnir á breidd og skurðir meðfram og brýr á lækjum. Meðfram fjallvegum áttu að vera vörður. Sjá má margar þessarra varða ennþá dag í dag. Eitthvað varð meira um framkvæmdir en margar þeirra runnu út í sandinn vegna kunáttuleysis.

Eftir að fjárveitingarvaldið fluttist inn í landið með stjórnarskránni 1874, komst brátt aukinn skriður á þessi mál. Á fyrsta löggjafarþinginu, 1875, voru sett ný vegalög. Þar var lögð mest áherzla á fjallvegina, enda veitt til þeirra nokkurt fé úr landssjóði. Byggðavegum var skipt í sýsluvegi og hreppavegi. Nú kom inn þekking í vegagerð í formi dansk verkfræðings.

Skammær hestvagna öld hófst á Íslandi undir lok 19. aldar. Í Evrópu dró mikið úr notkun póstvagna frá miðri 19. öld þegar járnbrautarlestar tóku við póstflutningum en svo var ekki fyrir að fara á Íslandi og því hófst póstvagnaþjónusta um þetta leyti. Í Evrópu hafði póstvagnaþjónusta verið við lýði í aldir. Á Íslandi var fyrsti póstvagninn tekinn í notkun árið 1900.

Vega- og brúargerð stórjókst á heimastjórnarárunum. Má segja að á þeim árum hafi loksins komist á gróft þjóðveganet um landið allt. Átti lagning ritsímans stóran þátt í því. Í lok heimastjórnartímabilsins voru akvegir taldir fimm hundruð kílómetrar að lengd. Var lengsti vegarkaflinn um 100 km frá Reykjavík austur á Hvolsvöll. Hestvagnar urðu algengir á þessum árum, enda vegagerðin fram til um 1920 að mestu við þá miðuð.

Fyrsti bílinn var fluttur til landsins sumarið 1904. Bílaöld rann þó ekki upp fyrr en áratug seinna. Árið 1905 voru teknar í brýr yfir Sogið og Jökulsá í Axarfirði, hvort tveggja miklar samgöngubætur. Brúará var brúuð 1907 þegar lagður var vegur frá Þingvöllum til Geysis í tilefni konungskomunnar það ár.

Hugmyndir voru uppi um að leggja járnbraut frá Reykjavík austur að Þjórsá, ekki síst til að auðvelda flutning landbúnaðarafurða til Reykjavíkursvæðisins, en framkvæmdin reyndist of kostnaðarsöm til að í hana yrði ráðist. Eina járnbrautin, sem Íslendingar fengu að kynnast, gekk á milli Öskjuhlíðar og miðbæjarins þegar Reykjavíkurhöfn var gerð á öðrum áratug aldarinnar. Hafnargerðin var stórkostleg samgöngubót og réð úrslitum um að Reykjavík varð miðstöð atvinnulífs á Íslandi.

Bílaöld hófst hérlendis árið 1913 þegar nokkrir bílar voru fluttir til landsins en þeim fjölgaði mjög hægt næstu árin og urðu ekki almenningseign fyrr en löngu seinna. Lengi vel var áformað að taka upp lestarsamgöngur en vegna kostnaðar var ákveðið að leggja áherslu á vegakerfið enda var ljóst að bíllinn væri framtíðarfarartæki.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni. Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.

Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Saga jarðgangna er býsna gömul ef horft er á gerð jarðgangna í bæjum og höfuðbólum fyrri tíða. Fyrst ber að nefna fornritin en jarðgöng koma fyrir í Íslendingasögum og Sturlunga sögu. Þór Hjaltalín flokkar í verkum sínum hvernig þau koma fyrir í þeim. Þar bendir hann á að í Íslendingasögunum sé oftast talað um jarðhús sem eru þá eiginleg göng sem liggja frá einum stað til annars neðanjarðar. Í Íslendingasögunum liggja þessi jarðhús oftast frá híbýlum að útihúsum

En eiginleg jarðgöng í merkingu samgangna er ekki eldri en frá miðja 20. aldar. Hérlendis var komið fram undir miðja 20.öldina þegar fyrstu jarðgöngin voru tekin í notkun og var þó ekki um neitt stórvirki að ræða þegar sprengt var í gegnum 30 m þykkan berggang á leiðinni milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Síðan hefur verið unnið að jarðgangagerð á 7 stöðum á landinu, oftast með nokkrum hléum. Mjög víða á Íslandi væri unnt að losna við ýmsa snjóþunga fjallvegi og aðra þröskulda á vegakerfinu og stytta vegalengdir töluvert með gerð jarðgangaFyrstu jarðgöngin voru gerð 1948 Arnarnessgöng eða Arnardalshamar og síðan hafa allmörg jarðgöng verið gerð.

Á Íslandi eru tíu jarðgöng í notkun. Lengstu jarðgöngin eru undir Breiðadals- og Botnsheiði en þau eru þriggja arma. Héðinsfjarðargöng eru samtals 11 km löng, í tveimur leggjum sem opnast í Héðinsfirði, Ólafsfjarðarleggurinn er 7,1 km en Siglufjarðarleggurinn 3,9 km.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband