Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

Andrew Jackson - sjöundi forseti Bandaríkjanna

Andrew_jackson_head

Ég hef verið að pæla í manninum og Bandaríkjaforsetanum Andrew Jackson sem ég tel vera einn af merkustu forsetum Bandaríkjanna. Ég ætla að rekja aðeins sögu hans.

Uppruni, æska og tíminn fyrir forsetatíð

Andrew Jackson fæddist þann 15. mars 1767. Foreldrar hans voru Andrew og Elizabeth Jackson sem voru innflytjendur í Bandaríkjunum af skosk-írskum ættum. Hann var yngstur þriggja bræðra og fæddist hann aðeins nokkrum vikum áður en faðir hans lést. Hann ólst upp í fátækt og ofbeldi og það markaði hann fyrir lífstíð. Hann var lögfræðingur ungur að aldri og starfaði í Tennesse. Um þetta leyti voru Bandaríkjamenn í frelsisbaráttu sinni gegn Bretum og var að hann boðliði aðeins 13 ára gamall. Hann var handsamaður og pyntaður. Hann hataði Breta alla tíð síðan.

Árið 1801 var Jackson skipaður ofursti í herliði Tennessee, sem varð pólitískur stuðningur hans þaðan af auk varnarliðsins hans. Hann hlaut landsvísu frægð í gegnum hlutverk sitt í stríðinu 1812, mest frægt þar sem hann vann afgerandi sigur á helstu breska innrás her í orrustunni við New Orleans, að vísu nokkrar vikur eftir að sáttmálinn Ghent hafði þegar verið undirritaður Til að bregðast við átökum við Seminole í spænsku Flórída, réðist hann á landsvæðið árið 1818. Þetta leiddi beint til fyrstu Seminole stríðana og Adams-Onis-sáttmálans árið 1819, sem formlega leiddi til þess að Flórída fluttist undan forræði Spánar til Bandaríkjanna. Hann var kallaður þjóðhetju vegna þess að hann hafði verið í hernum og unnið glæstan sigur á Bretum.

En hann átti sér dekkri hliðar og má geta þess að hann drap um 1000 Creek indjána í umsátri en þeir voru bandamenn Breta. Aldrei í sögu Bandaríkjanna höfðu fallið eins margir indíánar á einum degi og þann dag sem hann gersigraði þá.

Andrew Jackson var á móti réttindum Indíána og þrátt fyrir að hæstiréttur BNA hefði lýst yfir að ekki mætti hrekja Cherokee Indíánanna frá svæðum sínum ákvað Andrew að gera það samt. Hann hefur verið kallaður indíánahatarinn mikli, því að hann kom á lög, þegar hann var orðinn forseti, svo kölluðu Indian removal, eða m.ö.o. voru indíánar færðir með valdi frá heimkynnum sínum til að rýma fyrir hvítum innflytjendum. Cherokee indíánar reyndu að breyta sig í hvíta menn, komu sér upp þorpum og bæjarstjórum og allt það sem hvíta fólkið hafði, til að falla inn og vera ekki flutt á brott. Allt kom fyrir ekki og voru þeir reknir vestur á bóginn og það hafa þeir aldrei fyrirgefið honum, jafnvel ekki ennþá daginn í dag. Þess má geta Andrew Jackson ól upp ásamt konu sinnu indíánadreng sem hann fann í einu af indíanastríði sínu og ól upp í nokkur ár eða þar til hann lést óvænt. Þeim hjónum var ekki barna auðið.

Andrew Jackson er einnig þekktur fyrir að leggja Flórída undir Bandaríkin, án leyfis Bandaríkjaþings en indíánar, bandamenn Breta, höfðu stundað skæruhernað á Suðurríkin þaðan. Honum var fljótt fyrirgefið fljótfærni en Florída mikilvægt svæði. En hann gerði meira, hann hóf sókn Bandaríkjanna vestur á bóginn og villta vestrið varð til og indíánarnir sífellt á flótta undan hvíta manninum.

Andrew Jackson kynntist giftri konu, þau felldu hug saman og þau stungu af saman á flótta undan eiginmanni hennar. Hann sótti um skilnað og var þetta fyrsti skilnaðurinn sem varð opinber í Tennesse. Þetta átti eftir að vera mikil skuggi á feril hans og konan hans kölluð á bakvið hann hóra og hún útskúfuð úr samfélagi fínu frúnna. Hann drap mann í einvígi árið 1806, mann að nafni Charles Dickinson, sem fellt hafði 26 andstæðinga sína í einvígjum upp á líf og dauða.

Tvennum sögum fer af því hvers vegna Jackson skoraði Dickinson á hólm en líklegasta skýringin er talin sú að sá síðarnefndi hafi móðgað eiginkonu hans, Rachel, gróflega.

Dickinson taldi sig hafa heimildir fyrir því að hún hefði aldrei skilið við fyrri mann sinn. Jackson ofursti hefur drýgt mikla hetjudáð. Hann hefur stolið eiginkonu annars manns,“ á hann að hafa sagt í vitna viðurvist.

Vinir Jacksons töldu augljóst að Dickinson væri að reyna að upphefja sig á kostnað ofurstans og vildi narra hann til að heyja við sig einvígi. Nú var Jackson vandi á höndum enda var honum kunnugt um fyrri afrek Dickinsons eins og öðrum íbúum Tennessee. Hann tók sér fyrir vikið góðan umhugsunarfrest en ákvað á endanum að skora Dickinson á hólm enda ekki stætt á öðru en að verja heiður spúsu sinnar. Einvígi voru stranglega bönnuð í Tennessee á þessum tíma en kapparnir létu það ekki á sig fá, héldu ásamt fríðu föruneyti yfir ríkjamörkin til Kentucky. Eins og fyrr segir átti Charles Dickinson ekki afturkvæmt en Jackson lét nærri líf sjálfur en hann fékk byssukúlu nærri hjartað sem sat í honum alla ævi.

Á þessum árum var hann ekki aðeins lögfræðingur, hann ræktaði veðreiðahesta og efnaðist á því en mest efnaðist hann á þrælahaldi en hann átti um 200 þræla sem yrktu jörð hans með miklum hagnaði á Hermitage Plantation sem var plantekra hans.

Andrew Jackson var því ötull stuðningsmaður þrælahalds, en Repúblikanar sem höfðu verið með forsetaembættið frá tímum Thomas Jefferson voru andsnúnir því og höfðu þrátt fyrir að banna ekki þrælahald, bannað innflutning á þrælum og passað upp á það að þau ríki sem studdu þrælahald yrðu aldrei fleiri en þau sem studdu það.

Andrew Jackson og Demókratar nutu því á fyrstu árum sínum mestan stuðning í suðurríkjunum þar sem þrælahald var viðtekinn venja. (Ólíkt þeim flokki sem við þekkjum í dag, sem nýtur mest stuðnings í norðurríkjunum og berst meira fyrir réttindum minnihlutahópa heldur en Repúblikanar). Svartir Bandaríkjamenn hafa ekki gleymt því og þeir halda ekki mikið upp á minningu hans fram á daginn í dag.

Forsetakosningar 1824

Eftir að hafa átt stórann þátt í stríðum fyrir Bandaríkjanna ákvað Andrew Jackson að láta stjórnmál að sér varða að alvöru. Hann var skipaður öldungadeildarþingmaður fyrir Tenessee árið 1822. Þingið í Tenessee skipaði hann einnig sem frambjóðanda sinn árið 1824. Fékk hann flest atkvæði í kosningunum bæði af almenning og kjörmönnum og flestir telja að hann hafi átt að verða forseti þá. Í kosningunum árið 1824 þá var það hins vegar fulltrúarþingið sem varð að úrskurða hver yrði forsetinn því enginn frambjóðandi náði meirihluta. Fulltrúarþingið valdi að John Quincy Adams yrði næsti forsetinn. Ekki var það síst að þakka stuðningi forseta þingsins, Henry Clay, að John Quincy Adams varð forseti. Þetta var hins vegar ekki nútímaleg kosningabarátta þar sem margir frambjóðendur tóku þátt í kosningunum og í raun engir almennilegir tjórnmálaflokkar sem stóðu að baki kosningunum.

Andrew Jackson var ekki vinsæll meðal þingmanna því hann kallaði sig sem umboðsmann þjóðarinnar og boðaði miklar breytingar.

Forsetakosningar 1828

John Quincy Adams átti erfitt með að stjórna landinu í valdatíð sinni. Hann var ekki vinsæll hjá almenningi þar sem Andrew Jackson og fylgismenn hans gagnrýndu hann og náðu meirihluta bæði í fulltrúarþingi og í öldungarþingi. Þeir voru oft kallaðir Jacksonians eða menn Jackson. Andrew Jackson stofnaði flokk sem var kallaðaður demókratar en uppúr sem enn er við lýði. Megnir andstæðingar hans voru National Republikan seinna nefndir whings sem í raun mynduðust aðeins vegna andstöðu við Jackson.

Andrew Jackson var oft kallaður Andrew 1 konungur og ástæða þess var að hann var eins og hershöfðingi yfir flokknum sínum meðan hann var til staðar. Hann vann kosningarnar 1828 með töluverðum meirihluta og kom upp tími með öflugum og sterkum forseta sem hikaði ekki að nota vald sitt.

Forsetatíðin Andrew Jackson varð sjöundi forseti Bandaríkjanna en rétt áður en hann tók við embættinu lést konan hans af hjartaáfalli en hún hafði orðið fyrir aðsúg hatursmanna hans í forsetabaráttunni. Hann fyrirgaf það aldrei og taldi andstæðinga sína hafa drepið hana. Hann varð því harður í horn að taka strax frá upphafi forsetatíð sinnar. Að lokinni innvígsluathöfninni var haldin veisla sem breyttist fljót í óeirðir og hann heppinn að sleppa lifandi frá æstum aðdáendum. Tjónið var mikið í formi diska og fleira. Hann fékk sér páfagauk og kenndi honum að blóta sem varð á endanum til þess að það þurfti að fjarlægja fuglinn úr jarðaför forsetans vegna þess hversu mikið og gróflega hann blótaði. Hann gegndi embættinu á árunum 1829 til 1837, og hefur líklegast enginn haft eins mikil völd yfir að ráða á forsetatíð sinni líkt og Andrew Jackson gerði. Til marks um völd hans er komið heiti sem kallast Jacksonian democracy sem fjallar um sterkan og öflugan leiðtoga Bandaríkjanna og andsvar við Jeffersonian democracy. Völd hans byggðust m.a. á því að hann naut almennan stuðning hins almenna borgara. Hann hóf fyrstur manna alvöru kosningabaráttu og hvatti almenning til að kjósa. Áður höfðu einungis ríkir efnamenn kosið forseta Bandaríkjanna en nú varð forsetinn, forseti allra landsmanna.

Andrew Jackson var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem notaði neitunarvaldið að einhverju marki. Hann var á móti forréttindum og taldi að allir ættu að standa jafnt. Hann vildi minnka afskipti alríkisins og auka styrk ríkjanna. Hann lagði niður ríkisbankann sem hann taldi ógna valdi ríkisins og háði harða baráttu við hann. Hann skar niður fjármuni til hersins. Hann hafði talið að þessi afskipti fyrri forseta hafi verið allt of mikið. Hann hikaði heldur ekki við það að nota hernum í ríkjunum svo sem dæmið um Norður-Karólínu en ríkið hafði hótað að segja sig úr ríkjasambandinu. Honum tókst að afstýra því og koma í veg fyrir borgarastyrjöld, þótt hún hafi orðið síðar.

Andrew Jackson færði líka meira vald til handa almennings því með honum var það fólkið sem kaus kjörmennina en ekki fylkisþingið sem hafði kosið það sem gerði það að verkum að fólkið í landinu hafði meiri áhrif á kosningar. Hann afnam líka það að eign skildi vera skylda til að geta kosið. Það átti þó ekki við um konur og svertingja. Þetta kom á það að fleiri gátu kosið sem jók fylgi hans. Hann átti þó í miklum vandræðum með þingið vegna þess að það taldi að Jackson hefði ógnað því og vildi gera lítið úr áhrifum þess. Jackson notaði neitunarvaldið mjög gjarnan á þingið. Fyrrverandi forsetar höfðu aðeins notað það níu sinnum en Andrew Jackson hikaði ekki við að nota það vald. Vegna þess neitunarvald taldi þingið að hann væri aðalandstæðingur þeirra úr báðum flokkunum og var hann of illa liðinn af þeim. Hann taldi að forsetinn ætti að nota neitunarvaldið ekki aðeins þá það bryti í bága við stjórnaskrána heldur líka þegar það kæmi sér illa fyrir þjóðina.

Andrew Jackson var endurkjörin 1833 þrátt fyrir andstöðu þingmanna því hann var vinsæll meðal almennings. Hann tók síðan alla peninganna úr bönkunum sem voru lagður niður um tíma og lét peningana dreifast um ríkin sem voru sérstaklega hliðholl sér. Vegna þessa lét þingið hann fá ámæli og margir töluðu um að koma honum frá. Hann hafði það vandamál á valdi sínu að hann var alltaf að breyta ráðherraliði og hafði lítil samráð með þeim en hann á þann vafasama heiður, að fyrsta ríkistjórnin undir hans forystu klofnaði og ráðherra sögðu af sér.

Eftir tíma Andrew Jackson

• Andrew Jackson stofnaði Demókrataflokkinn.

• Flokkarnir voru mun skipulagðari en áður þekktist • Fjölmiðlar fengu að komast að forsetanum í meira mæli.

• Hann rak hlutlausa og duglaus embættismenn og vildu fá fylgismenn og flokksmenn í hans liði sem ennþá tíðkast.

• Hann bjó til nýja stöðu en það var „post master general“ en sá sem gegnir því hefur umsjón með stöðuveitingum forsetans.

• Hann kom á skipulögðum flokksþingi og gerði starf stjórnmálaflokka skipulagt

• Andrew Jackson var fyrsti forsetinn sem var kosinn af almenningi

•Jók á lýðræði fyrir almenning

Heimild: Af vefnum Wikibækur og frá mér sjálfum.


Sagnfræði og sagnfræðingar (A. Adu Boahen (1975))

external-content.duckduckgo.com

A.Adu Boahen talar hér um hvernig eigi að búa til þjóð í Afríku og vísar í kenningu Clio nokkurn sér til hjálpar. Hann segir að þjóðir, t.d. í Evrópu hafi orðið til í stríðum og þá sérstaklega á seinni tímum, einkum á 19. öld. Slíkt sé ekki hægt í dag, því andi okkar tíma er á móti slíku úrræði til að búa til þjóð. Hann spyr einnig hverjir eigi að vera þá Normannar nútímans (sem bjuggu til ensku þjóðina)? Útiloka eigi stríð til að búa til þjóð í Afríku.

Þjóðarmyndun er því aðeins hægt að mynda í núverandi landamærum ríkja, sem eru með margar þjóðir, siði og tungumál innan mæra ríkja sinna. Það eigi að leyfa þessa þætti að halda sína stefnu á sama tíma og reynst sé að berja áfram skilningi á sjálfsmynd og hollustu gagnvart eigið ríki. Þróa á sameiginleg bönd og sameinast um hagsmuni í gegnum stórbrotna áætlun um félagslega endursköpun, í gegnum efnahagslegri þróun sem beint er til að samtvinna aðskilda efnahagssvæði ríkisins í eitt og sameinaða gerð, í gegnum nútímavæðingu og almenna menntun.

A.Adu Boahen segist ekki hér eiga við að upp eigi að koma eitt tungumál og ein menning í sérhverju afrísku ríki, þess gerist ekki þörf, þótt slíkt væri ákjósanlegt.

Dæmi um slíkt sé Sviss sem hefur eina þjóð en mörg tungumál og Þýskaland og Austurríki sem hafa sama tungumálið en búa í sitthvoru ríkinu.

A.Adu Boahen trúir að góð þekking á fortíðinni á mismunandi hópum sem eru innan ríkisins, menningu þeirra og stofnunum, og rætur þeirra muni mynda gagnkvæma virðingu og skilning sem munu brjóta niður veggi óttans, tortryggni og vantraust sem halda hinu mismunandi hópum aðskildum. Góð þekking á fortíðinni, gerir það kleift að aðskilja það sem skiptir máli frá því sem gerir það ekki.

Sérhver kynþáttur á sér sál segir hann, sem endurspeglast í stofnunum hans og ef þetta sé aðskilið, sé sálin drepin. Hægt sé að líta aftur á glæsilega sögu sér til fyrirmyndar en um leið að læra af mistökum forfeðranna.

A.Adu Boahen hefur þann skilningu að læra megi af sögunni.

A.Adu Boahen segir að forðast beri að gera sömu mistök og Evrópumenn og Bandaríkjamenn gerðu, að búa til mítur um fortíð sína. Afríkusera eigi sögu Afríku, það er að styðjast eigi við aðrar en skriflegar heimildir og skoða sögu hennar frá sjónarhóli Afríkumanna en ekki Evrópumanna, túlkun gagna út frá afrískum bakgrunni en ekki evrópskum og þá nú úreltu skoðun að Afríka átti sér enga sögu áður en Evrópumenn komu til álfunnar. Þessi ályktun sé byggð á þremur þáttum.

Í fyrsta lagi að bókmenning hafi verið kynnt Afríku með komu Evrópumanna til Afríku á 15. öld. Þetta er ósatt sbr. Meroitic og Axumite skrif sem séu frá 300 f.kr., og skriftarkunnátta var komið á með tilkomu Araba á 8. öld e.kr. Í öðru lagi sé því haldið fram að aðeins sé hægt að rannsaka athafnasemi Evrópumanna í Afríku á þessum tíma út frá evrópskum heimildum. Þetta sé rangt, því að þeir skráðu ekki aðeins sína eigin athafnasemi og sögu, heldur skýrðu þeir einnig frá högum innfæddra. Í þriðja lagi hefur það verið ályktað að sögu Afríku sé aðeins hægt að endurskapa með skriflegum heimildum, sem sé rangt.

Hægt er að endurskapa afríska sögu út frá forleifafræði, félagslega mannfræði, tónlistafræði, ethnobotany, serology, málvísndafræðum, munnlegum hefðum og öðrum hefðbundnum afrískum heimildum. A.Adu Boahen leggur þó mesta áherslu á munnlegar heimildir og þar sé mest að finna af upplýsingum um fortíðina. Þær eru m.a. frásagnir, eiðar (svardagar), nöfn og hirðljóð. Hann segir að vestrænir menn séu efins um gildi þessara heimilda en segir sjálfur hafa góða reynslu sem og aðrir fræðimenn af þessum heimildaflokki. Þær fylla inn í þar sem skriflegum heimildum sleppir. Annar mikilvægur heimildaflokkur er tónlistin og svo varðveittir hlutir (til dæmis trommur o.s.frv.). Hátíðir ýmis konar segja einnig mikið. Hann talar um afnýlenduvæða (e. decolonization) á afrískri sögu og á þar fyrst og fremst við not af aðrar en skriflegar heimildir. Rannsaka eigi hefðbundna afrískt stjórnkerfi, ,,milliríkjasamskipti” (e, diplomacy), guði og hlutverk þeirra, helgisiði, serimóníur og hátíðir og menningarlega hluti eins og vefgerð og dansiðkun. Slíkt mun gefa sniðmynd og samfellda mynd af afrískri sögu.

Svo má ekki gleyma áhrif Afríku á aðra heimshluta, Ameríku og Evrópu á öllum tímum. Þetta gefur hinu hefðbundnu mynd af afrískri sögu nýja vídd, en hún fjallar eiginlega eingöngu um komu Evrópumanna til álfunnar, könnun hennar, trúboð, þrælaverslun og afnám hennar, nýlendur og stjórnir þeirra – þetta eigi að setja í rétt samhengi. Þegar þetta hefur verið gert, er fyrst hægt að skrifa kennslubækur um sögu álfunnar og byggja upp þjóðir í Afríku sem er vandamál sem lönd í Evrópu, Asíu og Ameríku áttu flest við á miðöldum og nýöld.


Sagnfræði og sagnfræðingar (Daniel Boorstin (1953)) Sjálfsmynd Bandaríkjamanna

Daniel

Þessi fræðimaður er bandarískur og fjallar um þjóðina frá bandarísku sjónarhorni. Hann segir að engin þjóð eins og sú bandaríska hefur trúað því eins ákaft að pólitískt líf hennar sé byggð á fullkominni kenningu. Samt sem áður hefur engin þjóð jafn lítinn áhuga á pólitískri heimspeki. Þetta sé tvídrægni sem erfitt er að skilja. Þetta sé einmitt raunin vegna þess að þeir hafa þessa fullkomnu kenningu um uppruna þjóðarinnar.

Daniel Boorstin talar um ,,givenness”; sem sé sú hugmynd að gildi séu gjafir úr fortíðinni.

Í Bandaríkjunum er því trúað ef hægt sé að skilja hugmyndir þjóðfeðranna (e. Founding Fathers), þá sé ekki einungis um að ræða 17. eða 18. aldar heimspekihugmyndir um ríkisstjórnun að ræða, heldur kenningu á frumstigi sem þeir fara nú eftir í dag (Bandaríkjamenn).

Þessar hugmyndir gera ráð fyrir að gildi og kenning þjóðarinnar hafi verið gefin í eitt skipti fyrir öll í upphafi sögu þjóðarinnar.

Hvaða kringumstæður í bandarískri sögu hafi gefið þessari sýn byr undir báða vængi? Jú, ólíkt vestur-evrópskum þjóðum, þar sem uppruni þjóðanna er hjúpaður mistri, þá hefur bandaríska þjóðin ákveðna byrjun, á ákveðnum sögulegum tíma, ekki alls fyrir löngu.

Sagan virðist vera öll ljóslifandi og engin þörf fyrir mítur eins og evrópsku þjóðirnar hafa þurft til að ákvarða uppruna sinn. Þjóðin virðist því hafa ákveðinn tilgang og kristallast í hugum og gildum þjóðarfeðranna.

Þannig er hugsun Bandaríkjamanna oft andsöguleg þótt þeir hafa þurft að treysta mjög svo á söguna til að sannreyna ímynd sína.

Ísrael er annað ríki sem virðist hafa svo vel skilgreint upphaf og tilgang.

Dæmi um goðsögn úr bandarískri sögu. Lincoln sagði árið 1863 að þjóðarfeðurnir hefði komið með sér til þessarar heimsálfu hugmyndirnar um nýja þjóð, getna í frelsi og þeir hafi tileinkað sér þá afstöðu að allir menn séu jafnir. Þetta er aðeins pólitísk fullyrðing sem átti sér ekki stoð í raunveruleikanum, í sjálfri borgarastyrjöldinni, þar sem barist var um þessi grundvallaratriði, um jafnan rétt allra manna.

Þetta eru fáein slagorð sem hrópuð hafa verið, líkt og þau séu kjarni sögu þeirra. Kennt hefur verið að tímabilið frá 1620-1789 hafi verið eins konar fæðingarhríð bandarískrar þjóðar. Púritanar hafi komið til Bandaríkjanna vegna trúar- og pólitískt frelsi í nýjum heimkynnum. Og bandarísku byltingasinnarnir hafi sýnt pílagrímskan hita og hreinleika í tilgangi með uppreisn sinni.

Vegna þessarar ófrjósemi í pólitískum kenningasmíðum, hefur mynda hreintrúaðra stefna á ríkjandi kenningu.

Málleysiseinkenni á pólitískri kenningu Bandaríkjamanna hefur þannig í raun skapað trúvillingaveiðar og tilhneigingu til að gera þá sem eru ekki á sömu skoðun tortryggilega. Þetta birtist einkum þegar ótti ríkir meðal þjóðarinnar, til dæmis til löggjafarinnar ,,Alien and Sedition Acts” á tímum frönsku byltingarinnar, ,,Palmer raids” á tímum rússnesku byltunginnar, ofsóknirnar gegn bandarískum ríkisborgurum af japönskum uppruna, (,,MaChartismann” á síðari tímum).

Bandarískir innflytjendur hafa oft verið sakaðir um að vera ,,óamerískir” í hugsun, þegar raunin, segir Daniel Boorstin, hafi verið sú að þeir (sem oftast hafa verið útskúfaðir úr sínum þjóðfélögum) hafi tileinkað sér fullkomlega ríkjandi hugmyndir til að öðlast þegnrétt í bandarísku samfélagi.

Þetta er það sem Daniel Boorstin kallar fyrirfram mótuð kenning byggða á bandarísku stjórnarskránni. Allar breytingar á stjórnarstefnu, eru bornar saman við hana og leitað samþykkis í hugmyndir og stundum jafnvel orð þjóðfeðranna.

Í Bretlandi er þessu öðru vísi farið, þar myndi enginn skynsamur Breti halda því fram að saga hans sé skýring á sannleikanum sem ekki er sagt berum orðum frá í Magna Charta eða Bill of Rights. Það sem ég held að hann eigi við, að Bretinn myndi ekki segja að saga hans sé afleiðing á þessum skjölum. Slík skjöl eru aðeins séð sem skref í áframhaldandi þróun á skilgreiningu. Hann segir að þessi hugsun sé líkari þeim sem Bretar höfðu á miðöldum, þegar hugmyndin um lagagjöf var á frumstigi og þegar hver kynslóð trúði að hún gæti aðeins aukið þekkinguna á ríkjandi venjum (á Íslandi kallaðist þetta að rétta lögin og t.d. lönguréttarbótin frá því um 1450 gott dæmi um þetta).

Í Bretlandi hefur æðsti dómstóll landsins, lávarðadeildin, komist að þeirri niðurstöðu að hún verði að stjórnast af fyrri ákvörðunum sínum. Þegar deildin ákveður atriði í stjórnarskránni, er hún einfaldlega að þróa hana og hún verður að fylgja þeirri línu sem hún hefur fetað þangað til, þar til löggjafarvaldið ákveður annað.

Hins vegar telur hæstiréttur Bandaríkjanna sig frjálsan til að hafna sínum fyrri ákvörðunum, til að uppgötva, það er, það að stjórnarskráin sem hann er að túlka, hefur í raun allan tímann haft aðra merkingu en þeirri sem ætluð var. Hér er um að ræða endurtúlkun á ,,fastri staðreynd” en engin þróun.

Bandaríska stjórnarskráin er þar með og ákvæðin í henni einnig óbreytanleg, aðeins er hægt að endurtúlka hana, þessa réttu kenningu sem var getin í upphafi.


Herskylda – þegnskylda á Íslandi

external-content.duckduckgo.com

Þetta er sígild spurning, hvort að Íslendingar axli ábyrgð á eigin vörnum eða láti aðra sjá þær. Íslendingar ákváðu á sinum tíma að gera það ekki og voru meginrökin þá meðal annars smæð þjóðarinnar og fátækt.

Upprunuleg rök, fjarlægð landsins frá vígvöllum Evrópu og heimsins, voru ekki lengur gild, tvær heimsstyrjaldir sáu til þess.

En kíkjum á valkostina, ef Íslendingar ákvæðu að koma sér upp vopnuðum sveitum og herskyldu. Ef Íslendingar geta hugsa sér að taka beina ábyrgð á vörnum landsins án íhlutunar erlendra ríkja, þá eru nokkrar færar leiðir í stöðunni eins og ég sé hana.

Í fyrsta lagi að stofna hér her.

Í öðru lagi að koma á fót sérstökum öryggissveitum.

Í þriðja lagi að koma á heimavarnarliði sem er samansett af áhugamönnum eða gegn ákveðinni þóknun, líkt og með björgunarsveitirnar.

Í fjórða lagi að stofna eins konar hálfatvinnumannaherlið, þjóðvarðlið.

Í fimmta lagi að treysta enn betur innviði Landhelgisgæslunnar, lögreglunnar og almannavarnir líkt og er gert í dag.

Og í síðasta lagi er hægt að treysta á guð og lukku og hafa engar varnir og tengjast engum varnarbandalögum.

Svo svarað sé beint spurningunni um hvort æskilegt sé að koma á herskyldu hérlendis fer það eftir þeim leiðum menn velja sér og hefur verið dreift á hér að ofan.

Herskylda gengur aðeins upp ef ákveðið verður að koma á fót her, heimavarnarlið eða þjóðvarðlið. Mönnun öryggissveita, lögreglu og Landhelgisgæslu verður ávallt að byggjast á sjálfboðaliðum. Fyrir því eru ástæður sem ekki verður farið í hér.

Þegnskyldu er hægt að koma á, sama hvaða leiðir eru farnar og getur verið æskilegur kostur fyrir íslenskt samfélag sem og með herskylduna ef menn fara þá leið. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi hefur þjónusta í þágu samfélagsins mikið uppeldislegt gildi. Ungir menn og konur koma reglu á líf sitt. Það (unga fólkið) lærir sjálfsaga og almennan aga (sem þjóðfélagið á að veita einstaklingum). Þetta gerir samfélagið skilvirkara á allan hátt, því að þetta síast um allt samfélagið þegar fólkið hefur lokið þjónustu sinni.

Tökum gott dæmi. Herskylda hefur verið í Svíþjóð í nokkrar aldir. Ungir menn hafa verið kvattir í herinn og allt samfélagið hefur verið virkjað til að vinna að ákveðnum markmiðum. Svíþjóð var og er kannski enn stórveldi og er sænskt samfélag er gott dæmi um ríki sem hefur náð langt, m.a. vegna þessa atriðis og í raun haft mun meiri áhrif en stærð landsins segir til um.

Í öðru lagi tengir þegnskylda og/eða herskylda þá aðila sem sinna þessari skyldu samfélaginu nánari böndum, það finnur til ábyrgðar sem þýðir nýttari þjóðfélagsþegnar.

Í þriðja og síðasta lagi og þá er ég að tala beint um herskyldu, þá hefur hún mjög hagnýtt gildi fyrir samfélagið. Þarna verða alltaf til taks menn, tilbúnir til að verja landið ef hætta steðjar að. Maður tryggir ekki eftir á eins og sagt er.

Ef farið er út í hvers konar þegnskyldu er hér að ræða, þá getur hún verið margvísleg. Beinast liggur við að benda á björgunarsveitirnar og þegnskylda menn í þær eða að sinna mannúðarmálum ýmis konar, líkt og með þá erlendu menn vilja ekki gegna herþjónustu víða um lönd.

Í raun má ekki gera mikinn greinamun á þegnskyldu og herskyldu, því að hvoru tveggja hvetur menn (karla og konur) til ábyrgðar í þjónustu samfélagsins og gerir þeim grein fyrir að þeir eiga ekki einungis kost á réttindum, heldur fylgja skyldur ávallt með eins og Kennedy sagði forðum daga.

Ef menn eru ekki hrifnir af þessum hugmyndum, má spyrja þá hvort þeir séu ánægðir með þjóðfélagið eins og það er í dag? Viljum við agalaust samfélag?


Sagnfræði og sagnfræðingar (Herbert Butterfield (1944))

butterfield

Butterfield segir að þó að sagnfræðin virðist vera alþjóðleg í eðli sínu – líkt og félagsvísindin - þá er hún umfram allt, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki, þjóðleg og staðbundin. T.d. verður besta enska ævisaga Napóleon aðeins besta enska útgáfan af æviferli hans, því að okkur hættir til að skrifa út frá okkar sjónarhóli (sem er í þessu tilfelli enskt) og stofnanir okkar, m.ö.o. erum við samofin menningu okkar svo mikið að erfitt ef ekki vonlaust er að reyna að skrifa frá öðru sjónarhorni.

Og við getum varla að því gert að þessi gerð af sagnfræði sé notuð til þess að varðveita eða skrifuð til verndar viðkomandi samfélagsgerð. Umhverfi okkar, hvort sem það er íslenskt eða enskt, mótar okkur hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ensk einkenni okkar, segir Butterfield, tungumálið, enskar venjur, breskar stofnanir, eru hluti af enskri sögu; m.ö.o. eru hluti ensku landslagi og enskrar arfleifðar.

Það er sama í hvaða flokk menn skipa sér í Englandi, segir Butterfield, til vinstri eða hægri, þá verður sýnin (á söguna) ávallt ensk og enskur skilningur lagður til grundvallar.

Enskur skilningur (e. “English” interpretation) er líkt og enska stjórnarskráin sjálfur afurð sögunnar. Hann er einhver besta leiðin til að skilja enska fortíð og koma henni til gagns fyrir samtíðina.

Englendingar hafa frá því á 17. öld reynt að sýna að þeir séu ekki niðurrifsmenn á fornum hættum heldur varðveislumenn og þeir hafa verið einstaklega stoltir af samfelldri sögu stofnanna landsins.

Macaulay kallar þetta hjónaband nútíðar og fortíðar. Þetta sé t.d. ólíkt með Frakka, en þeir afneituðu fortíðinni fyrir 1789 og töluðu um nýja byrjun. Erfitt er fyrir þá að vísa í fortíðina þegar eitthvað nýtt vandamál rís upp hjá þeim.

Frakkar fordæmdu miðaldir og franskt frelsi spratt af uppreisn gegn sögu og venjur en því var ólíkt farið með Englendinga sem sömdu frið við söguna með því að ,,misskilja” hana (velja úr henni hentug atriði) og þess vegna er hægt að segja að ,,röng saga” væri einn af kostum þeirra. Þessi samfella fortíðar og nútíðar, hefur verið Englendingum til góðs. Þeir hafa lært að halda í lögin sem haldreipi á erfiðum tímum og á breytingartímum hafa þeir lært að fara ekki of geyst í sakirnar heldur að stíga varlega (sem þeir hafa lært af sögunni).

Butterfield segir að Englendingar séu ekki fangar fortíðarinnar (sem kannski Grikkir og Ítalir eru í nútímanum) og þeir hafa haldið í þá hluta fortíðarinnar sem vert er að halda í, e.k. vel valda fortíð, sem hagkvæmt er að halda í og hentar tilgangi þeirra.

Sagan hjá þeim var m.ö.o. lifandi fyrirbrigði. Hann segir að túlkun Whigsanna hafi komið á hárréttum tíma og hvað svo sem áhrif hún hefur haft á sögutúlkunina, þá hefur hún haft frábær áhrif á ensk stjórnmál. Af þessari ástæðu þurfti England ekki byltingu líkt og Frakkar 1789 til þess að bjarga því frá niðurbroti fortíðarinnar.

Þetta var Túdorunum (konungsætt) að þakka, en þeir tóku það besta úr miðaldarsamfélaginu og aðlöguðu það að samtíðinni. Þetta er það sem tókst svo vel hjá Englendingum, en það er að halda í það góða úr fortíðinni en um leið að endurtúlka hana ef það reynist nauðsynlegt. Sem dæmi héldu þeir í konungsdæmið, og hafa viðhaldið því til dagsins í dag, á meðan þeir breyttu þeir mikilvægi þess og tóku af því valdið til að gera eitthvað slæmt af sér. Þeir lærðu að enn væru vissir þættir í konungsdæminu sem hægt væri að hafa gagn af og ákváðu því að halda því.

Þessi leið hefur reynst Englendingum betur en byltingar, þar sem hefðum og venjum væri hent fyrir borð (sem geta verið góðar eða vondar hefðir eða venjur) og í stað þess að henda öllu, var valið úr sem hentaði og það varðveitt.


Lýsing á hofi í Kjalnesinga sögu

Það er líkt farið með Kjalnesinga sögu og aðrar Íslendinga sögur, hún var skrifuð löngu eftir að meintir atburðir áttu sér stað.  Það sem höfundar Íslendinga sagna áttu sameiginlegt, var að nota munnmælasögur, líklega sannar að grunni til, en skreytt þær með samtölum til að búa til lifandi frásögn, enda voru sögurnar líklega lesnar upphátt, frekar en í hljóði.Kjalnesinga saga var sennilega skrifuð skömmu eftir 1300.

Hvað um það, þá gefur Kjalnesinga saga okkur hugmynd um hvernig söguritarinn hugsaði sér aðstæður á tímabili sögunnnar, sem er á tímabilinu 900-1000 er heiðnin og kristnin tókust á.

Í sögunni segir frá Hofi við Esjurætur og geftur frásögnin a.m.k. ágæta mynd af því hvernig menn hugsuðu sér hvernig heiðið hof liti út.

Grípum niður í söguna:

,,Þorgrímur reisti um vorið bú að Hofi. Þar var ekkert til sparað enda maðurinn auðugur og átti stóran frændgarð og marga vini. Hann gerðist voldugur og lét mjög til sín taka í byggðarlaginu. Hann hafði mannaforráð allt til Nýjahrauns og var það kallað Brundælagoðorð.

Hann var kallaður Þorgrímur goði. Hann var blótmaður mikill og lét reisa mikið hof í túni sínu. Það var hundrað og tuttugu feta langt og sextíu fet á breidd. Þar skyldu allir greiða hoftoll.

Þór var mest tignaður. Innri hluti hofsins var hringlaga með hvolfþaki, allt tjaldað og með gluggum. Þar stóð Þór fyrir miðju og önnur goð til beggja handa. Fyrir framan Þór var stallur sem var mikil listasmíði og klæddur að ofan með járni, eins konar altari. Þar var látinn loga eldur sem aldrei skyldi slokkna; það kölluðu þeir vígðan eld.

Á þessum stalli lá stór hringur gerður úr silfri. Þann hring átti goðinn að hafa á hendi sér þegar hann sótti mannfundi. Við þann hring áttu menn að sverja eiða þegar sakamál voru afgreidd. Á þessum stalli stóð einnig stór bolli úr kopar. Í hann átti að renna blóð úr þeim dýrum eða mönnum er blótað var. Blóðið var kallað hlaut og bollinn hlautbolli. Hlautinu var svo slett á viðstadda þegar blótað var en kjöt af því fé sem var blótað var etið í blótveislunni. En ef þeir blótuðu mönnum, þá var þeim steypt ofan í fen það er var utan við dyrnar. Það kölluðu þeir blótkeldu."

Lýsingin á hofinu er ljóslifandi og ef við segjum að fetið sé 48 cm, þá er það að stærð 57,6 x 28,8 eða 165,8 fermetrar. Athyglisvert er að segja að Þór hafi verið tignaður og verið aðalgoðið, en ekki Óðinn en með honum voru samt önnur goð. Hægt væri að gera replica eða endurgerð þess út frá þessari lýsingu og væri það fróðlegt að sjá. Annars eru lýsingar á umhverfinu ljóslifandi, t.d. skógar á svæðinu, gefa ágæta mynd af því hvernig Ísland leit líklega út á 10. öld.

 


Eru til fleiri en víddir en talið er?

external-content.duckduckgo.com

 

LHC hraðallinn í Sviss á að svara þessum spurningum. Ég held að maður þurfi fyrst að leita að þessum spurningum áður en maður fer lengra í öðrum fræðigreinum eða jafnvel dulfræði.

Í þessum hraðli eru róteindir látnar rekast á blýkjarna á ofurhraða (upp undir ljóshraða) til að fá svör við ofangreindan spurningum. Og fá um leið svör við mörgum spurningum Skammtafræðinnar, s.s. um smæstu efniseindum; , kvarka, rafeindor, og fiseindir.

En af hverju hafa þessar eindir massa? Kenningin segir að til sé eind sem heitir Higgsbóseind (Guðseindin) og hún á að veita öðrum eindum massa. LHC á að finna Higgs eindina. Þessi kenning samræmist ekki almennu afstæðiskenningunni.

En kenningin um Ofurstrengi gæti samræmt Skammtafræðina og afstæðiskenninguna.

Strengirnir geta titrað á ótalandi vegu og myndað allar smæstu einingar og eindir náttúrunnar. Þeir gætu svarað af hverju efni er örlitlu stöðugra en andeindir.

Andefni er eins konar spegilmynd venjulegs efnis. Efnið er samsett úr öreindum og hver þeirra á sér andeind sem hefur sama massa og upphaflega eindin en til að mynda gagnstæða rafhleðslu.

Heimurinn er til vegna þess að örlítið meira af efni varð til en af andefni. Ástæða þess að meira af efni er til en andefni, er að efnið er stöðugra í sér. Þetta hefur verið sannað með tilraunum.

Ef efni og andefni mætast, þá myndast gammageislaprenging og allt jafnað út og eftir verður gasþoka. En þar sem alheimurinn virðist búa til örlítið meira af efni en andefni, hafa myndast stjörnur og stjörnubrautir.

Skv. Ofurstrengjakenningunni, eiga víddirnar að vera tíu, en ekki fjórar! Þ.e.a.s. hæð, lengd, breidd og tíma.

Af hverju getum við ekki séð þessar viðbótarvíddir? Af því að þær eru mun smágerðari en minnstu einingar efnis. Hinar duldu víddir eru sem sagt innvafðar í efniseindunum og um leið ósýnilegar!

Alheimurinn á að vera flöt en þrívíð himna og í henni á að vera að finna allar stjörnuþokur alheimsins.

Umhverfis alheiminn er að finna ósýnilegar víddir sem kjarnakraftarnir þrír ná ekki til. Aðeins þyngdaraflið getur teygt sig yfir í þessa veröld og þá með því að senda frá sér orkuflytjandi eindir sem kallast "þyngdareindir". Og það skilur aðeins 0.05 mm á milli vídda?

En af hverju sjáum við ekki þessar víddir? Það er af því að til að sjá þessar víddir þarf aðgang að þyngdarafli en ekki ljósi sem við getum séð með augum okkar.

LHC gæti sem sagt opnað fyrir okkur heim annarra vídda? Svo má ekki gleyma Þungeindinni, en hún heldur þyngdaraflinu saman.

Þungeind og Higgs-bóseind eru ennþá fræðikenningar, en verða líklega sannaðar fljótlega.

Í þættinum sem ég sá var sú niðurstaða gefin að heimurinn eyddist út.Það er að segja, þegar afleiðingar Miklahvell sprengingu er orðnar svo miklar og stjörnurnar orðnar svo dreifðar og fjarlægðar,þá leggst efnið saman aftur, úr verður gasþokur sem aftur þéttast.

Og svo kemur Miklihvellur aftur og aftur. Endalaust.

Athuga verður að þessar forsendur miðast við þessa "Veröld" þ.e.a.s. veröld þessa Miklahvells. Það er ekki spurning, að þetta er raunin. Og það sem mig grunar er að einnig séu til ,,Samsíða heimar" endalaust. Hver með sínu regluverki og mismunandi forsendum endalaust... Erfitt að útskýra, en í raun er þetta algjör snilld!


Brottrekstur Douglas MacArthur hershöfðingja og kjarnorkusprengjan

220px-MacArthur_Manila

Það er alltaf þannig með söguna að hún er margslungnari en virðist við fyrstu sín. Til dæmis horfir morðið á John F. Kennidy öðru vísi við en við samferðamenn hans.

Atburðir dagsins virðast auðljósir en þegar hlutirnir eru settir í samhengi, þá kemur í ljós orsakasamhengi sem við samtíðarmenn sjáum ekki í daglegu amstri. Annað sem ég hef lært af sögunni er að dæma menn af verkum, ekki orðum. Verkin skipta máli en ekki fagurðmæli.

Saga MacArthurs er stórkostleg, enda lifði hann margbrotna tíma. Hægt er að skrifa margar bækur um kappann en hann var eins og farið er með núverandi forseta Bandaríkjanna, elskaður og hataður, umdeildur en vinsæll. Hann reis til æðstu metorða en hröklaðist frá völdum, opinberlega smáður.

Douglas MacArthur varð heimsfrægur í seinni heimsstyrjöldinni, í glímu hans við Japani en hér er ekki farið í sögu hans en ætla að ræða hvort hugsanleg notkun hans á kjarnorkuvopnum í Kóreustríðinu hafi verið raunveruleg.

Ég taldi alltaf Douglas MacArthur, fimm stjörnu hershöfðingja í Kóreustríðinu hafa verið rekinn að ósekju 1951 og Harry S. Truman Bandaríkjaforseta vera að skipta sér af málum sem hann skildi ekki, þ.e.a.s. hermál.

MacArthur var mannlegur og gerði mikil mistök er hann hrakti flótta Norður-Kóreumanna alla leið til landamærana við Kína. Kínverjar brugðust við, stöðvuðu sóknina og hröktu Bandaríkjamenn á flótta, sem reyndist vera mesti flótti Bandaríkjahers frá upphafi. Þetta er forsagan.

MacArthur vildi eftir að hafa verið hrakinn frá landamærum Kína og Norður-Kóreu af kínverskum her í dulargervi, senda sprengjuflugvélar á fimmtíu kínverskar borgar og sprengja þær í loft um og nota kjarnorkusprengjuna í einhverjum tilfellum. Í ljós hefur komið, eftir að leynilegur vitnisburður háttsettra hershöfðingja fyrir nefnd sem kannaði málið var gerður opinber, að þeir voru sammála um að bandarískur herafli var það vanmáttugur á þessum tíma, að Bandaríkjaher rétt réði við þetta stríð og það hafi verið honum til happs að Kínverjar takmörkuðu aðgerðir sínar við landhernað og juku ekki umfang stríðsins með lofthernaði.

Einnig að Rússar ákváðu ekki að blanda sér með beinum hætti í stríðið. MacArthur fékk rómverska skrúðgöngu sigursæls hershöfðingja þegar hann snéri heim og fékk að ávarpa báðar deildir Bandaríkjaþings. Menn töluðu jafnvel um að hann ætti að bjóða sig til forseta gegn Truman en þeir lykilmenn sem vissu af hinum leynilega vitnisburði hershöfðingjanna, sáu að betra væri að láta kyrrt liggja með það framboð. Harry fékk í staðinn annan virtan hershöfðingja á móti sér í forsetaframboð, Dwight D. Eisenhower, og hafði vit á að reyna sig ekki á móti honum.

Truman varð verulega óvinsæll vegna þessara samskipta við við MacArthur og beið hann þess ekki barr eftir það í raun. Truman er þó hvað þekktastur fyrir að beita kjarnorkusprengjunni í fyrsta sinn og það tvisvar. Arfleið hans er því ef til vill umdeildari vegna þessa, en deilur hans við MacArthur.

 


Sagnfræði og sagnfræðingar (E.H. Carr (1964))

220px-Eh_carr

E.H. Carr vill gera skýran greinarmun á þróun (e. evolution) og framför (e. progress). Hann segir á tíma upplýsingaaldarinnar hafi menn sett saman sem merki milli lögmála sögunnar og náttúrunnar. Með öðrum orðum þeir trúðu á framfarir.En hvers vegna á að líta á náttúruna sem eitthvað fyrirbæri sem fæli í sér framfarir?

Hegel leit svo á að skila beri söguna sem eitthvað sem væri framfarir en náttúruna sem eitthvað sem væri andstætt henni.

Þegar Darwinisminn kom til sögunnar, þótti það sannað að náttúran væri eftir allt saman framfaragerðar eins og sagan. En þetta viðhorf skapar vanda. Menn hafa ruglað saman líffræðilega erfðaeiginleika við áunna félagslega eiginleika sem séu uppspretta framfara í sögunni.

Líkamlega hefur maðurinn ekkert þróast á sögulegum tíma, heili hans er m.ö.o. ekki stærri en hann var fyrir 5000 árum. En geta og virkni hans til þess að hugsa og læra hefur aukist margfalt, einfaldlega með því að læra af reynslu undangengina kynslóða.

Þessi yfirfærsla eða flutningur áunnina eiginleika, sem er hafnað af líffræðingum, er í raun grundvöllur allra félagslegra framfara. Sagan er framfarasinnuð að því leytinu til, að hún yfirfærir hæfileika frá einni kynslóð til annarar. En varast beri að líta svo á að sögulegar framfarir hafi einhverja ákveðna byrjun eða endir. Hvorki sé hægt að staðsetja byrjunina né endinn.

En Carr virðist vera sammála Plumbs í því að sagan sé framsækin að því leytinu til að hún skráir ekki aðeins framfarir, heldur sé hún í eðli sínu framfarasinnuð vísindi, m.ö.o. að hún sé hluti rás atburða og er um leið vitnisburður þeirra – sé framfaragerðar.

Carr leggur hins vegar áherslu á að framfarir séu ekki samfelldar í tíma eða rúmi, þ.e.a.s. þær fara ekki eftir beinni línu. Það sem hann er að segja er að framfarir geti hætt á einum stað á ákveðnum tíma, en hafist á öðum stað í öðru rúmi af öðrum aðilum.

Framfarir þýðir ekki jafnar eða líkar framfarir fyrir alla. Framfarir fara eftir línu, sem er með vissum viðsnúningi, dýfum og eyðum á milli; þ.e. afturför og stöðnun eru þar með eðlilegur hluti framfara.

Carr endar mál sitt á því að segja að hin eiginlega saga geti aðeins verið rituð af þeim sem finna eða skynja þá stefnu sem er í henni sjálfri. M.ö.o. sú skynjun að við komum einhvers staðar frá og við séu að fara eitthvert. Sagan hefur stefnu.


Sagnfræði og sagnfræðingar (J.H. Plumb (1969))

s-l300

Plumbs er/var á þeirri skoðun á líta beri á söguna sem skeið framfara, þótt einstaka sinni gæti þar afturfarar. Hún hafi gildi fyrir samtíðina, vegna þess að hún skráir ekki einungis ósigra, heldur einnig sigra mannsandans og auki þar með bjartsýni á nútíð og framtíð.

Hins vegar hafa framfarir verið skrykkjóttar, afturför og hnignun hefur verið algeng fyrirbrigði, en framfarirnar séu þó auðljósar hverjum sem vilji viðurkenna það. Hann segir að enginn sagnfræðingur geti neitað því að líf hins venjulega manns hefur smám saman verið bætt á allan hátt en þakka megi skynsemishyggjunni (e. rationalism) að mestu þessa þróun. Á öllum sviðum mannlíf hafi hún sannað gildi sitt.

Hann segir jafnfram að hægt sé að nota söguna sem réttlætingu (þá væntanlega á grundvelli skynsemishyggjunnar), ekki á eitthvað tiltekið forræði eða siðferði, heldur á þá eiginleika mannsins anda sem lyft hefur okkur úr hyldýpi villimennskunnar og á getu hans til þess að geta endurbætt líf sitt og á dyggðir mannlegs vits; á getuna til skynsamlegrar hegðunar. Þessi fortíð er eign alls mannkyns, m.ö.o. að hún er mannleg í breiðasta skilningi þess orðs og því beri að nota hana í þágu alls mannkyns. Árangur mannsins hefur byggst á notkun rökhyggju, hvort sem það er á sviði tækni eða samfélags.

Skylda sagnfræðingsins er að kenna þetta til þess m.a. til að gefa manninum nokkuð konar huggun við þau erfiðu verkefni sem hann er að fást við í dag og mun fást við í framtíðina. Sagnfræðingurinn á sem sagt ekki einungis að endurskapa fortíðina, heldur einnig að hjálpa við að móta samtíðina. Það sem Plumbs er hér að halda fram, er að sagan hafi notagildi sem sagnfræðingurinn beri að nýta sér af skynsemi fyrir samtíðina. Sagan geti m.ö.o. kennt okkur visku á sinn dýpsta hátt, okkur öllum til góðs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband