Var í raun andstaða Íslendinga við herskyldu og heimavarnarlið á 19. og 20. öld? Fyrri grein

Í þessari grein ætla ég að rekja hugmyndir Íslendinga um stofnun íslensk hers eða heimavarnarliðs.  Eins og þeir vita sem hafa fylgst með mér, er ég gallharður sjálfstæðissinni í varnarmálum og tel að mistök hafi verið gerð er stofnað var hér herlaust lýðveldi 1944. Fyrir því voru skiljanlegar ástæður sem ég fer í seinni grein minni. Varnarmál eru nefnilega ekki upp á punt né fyrir þá sem eru með hernaðarblæti, heldur dauðans alvara. Frá því að borgríki voru mynduð í Súmer og til dagsins í dag, hefur það verið megið og aðalhlutverk ríkisins að vernda borgara gegn utanaðkomandi hættur sem og innanlandshættur. Íslendingar hafa reynt að fóta sig í síbreytilegum heimi síðastliðnar tvær aldir. Þeir af mikilli skynsemi afsöluðu hlutleysisstefnuna og leituðu í skjól mesta herveldi heims, Bandaríkin og hernaðarbandalagið NATÓ - Atlantshafsbandalagið um miðbik 20. aldar. Gagnrýni mín á íslensk stjórnvöld vegna Landhelgisgæsluna, ber að sama brunni og umfjallanir mínar um varnarmál, vanræksla gagnvart öryggi ríkisins og ábyrgðarleysi. En förum tvær aldir aftur í tímann.

Ráðagerðir um stofnun landhers á Íslandi 1785

Alvarlegustu hugmyndir um stofnun íslensks landhers fyrir allt landið hingað til voru settar fram á alþingi 1785.  Hvatamenn þessarar ráðagerða voru helstu ráðamenn þjóðarinnar, Hans von Levetzov stiftamtmaður, Stefán amtmaður Þórarinsson og Björn Markússon lögmaður en ráðstefna um málið var að frumkvæði danskra stjórnvalda. Ráðstefnan átti að kanna hvort æskilegt og tiltækilegt væri að stofna slíkan her og með hvaða hætti því yrði komið í kring. 

Í kjölfar ráðstefnunnar var gerð ítarleg áætlun hvernig þjálfun slíks her færi fram, tillögur að vopnabúnaði og herbúningi lagðar fram og lagt til að þrjú hundruð manna her yrði stofnaður með sex til þrjátíu og tveggja manna sveit í hverri sýslu. Hermennirnir skyldu launaðir með hærri sköttum á bændur og dátum heitið hreppstjóratign að lokinni herþjónustu.  Ekki var látið staðið við orðin tóm, því gerð var könnun í suðuramtinu 1788 á því hverjir vildu gefa sig fram í landvarnarlið og hvaða vopn þeir hefðu tiltæk og um leið fór herútboð fram.  Í ljós kom að rúmlega 600 manns voru tiltækir í varnarliðið og voru þeir vopnaðir frá trélurkum til tinnubyssa.

Þessar hugmyndir eru hvað merkilegar fyrir það að þær voru settar fram þegar íslenskt samfélag var hvað verst sett í sinni sögu og sýnir að mönnum var full alvara með þessa hugmynd.   En þessar hugmyndir voru í raun andvana fæddar þar sem þær voru settar fram á röngum tímapunkti.  Gamla íslenska sveitasamfélagið og stjórnkerfið var í rúst vegna móðuharðinda og nýir tímar fóru nú í hönd.  Óhjákvæmilegt var að þær myndu falla um sig sjálfa.

Áætlanir Jörunds Hundadagakonungs um varnir hins nýja ríkis

Næsta útleik átti Jörundur hundadagakonungur árið 1809, sjálfskipaður verndari landsins og byltingamaður. Án nokkurra blóðsúthellinga eða almennra viðbragða landsmanna tók hann völdin í landinu í sínar hendur. 

Birti hinn nýi stjórnarherra auglýsingar eða tilskipanir þar sem stjórnarstefnunni var lýst.   Því var lýst m.a. yfir að hin nýju yfirvöld áskilji sér ,,…rétt til styrjalda og friðasamninga við erlend ríki;- að herliðið hefur útnefnt oss til hæstráðanda til sjós og lands og til yfirstjórnar í öllum styrjaldasökum;…”.

Lét Jörundur ekki við orð standa heldur lét hefja smíði skans á Arnarhólskletti í Reykjavík, nefndur Phelpsskans og áætlanir voru um stofnun íslensks hers.  Hér skal kyrrt látið liggja alvörunni á bak við allar þessar fyrirætlanir Jörunds og lögmæti stjórnar hans en hann var greinilega umhugað um að varnir hins ,,nýja ríkis” skyldu verða trúverðugar.

Hins vegar sýndu styrjaldirnar í upphafi 19. aldar að Dönum var um megn að veita Íslandi vernd eða öryggi en um leið að ef Bretar undu óbreyttu ástandi, það er að Danir hafi húsbóndavald á Norður-Atlantshafi, myndu mál lítið breytast.  Þetta ástand olli flestum Íslendingum litlum áhyggjum en þeir höfðu meiri áhuga á að öðlast einhvers konar sjálfstjórn en að stofna her.

Danskir vilja íslenska menn í danska herinn - viðbrögð Íslendinga

Kristín Svava Tómasdóttir skrifaði ágæta B.A. ritgerð í sagnfræði um hugmyndir um varalögreglu á Íslandi en fór jafnframt í hugmyndir um stofnun heimavarnarliðs á 19. öld en eins ætla má, er ekki langur vegur frá varaliði lögreglu til heimavarnarliðs. Sjá slóð hér að neðan. Grípum niður í ritgerð hennar:

"Um miðja 19. öld stakk fjárlaganefnd danska þingsins síðan upp á því að Íslendingar legðu til menn í danska sjóherinn. Sú hugmynd varð ekki að veruleika vegna andstöðu Íslendinga, en það var þeim mjög á móti skapi að íslenskir piltar gengju í danska herinn. Hér má sjá merki um þá þróun sem rakin er í fyrri kafla; danska þjóðríkið varð æ samræmdara en Íslendingar spyrntu við fótum á þeim forsendum að þeir hefðu ævinlega átt í persónulegum tengslum við konunginn og gengist undir skuldbindingar við hann en ekki við dönsku þjóðina. Þessum rökum beittu þeir jafnvel þótt þeir kvörtuðu á sama tíma undan dugleysi Dana við að verja landið.

Þeir voru aftur á móti ekki jafn mótfallnir stofnun íslensks heimavarnarliðs. Slíkt lið var raunar stofnað í Vestmannaeyjum um miðja 19. öld og starfaði í 20 ár. Hlutverk þess var að verja eyjarnar fyrir ágangi útlendinga, efla þrek manna með líkamsæfingum og styrkja framkvæmdavaldið. Þær raddir heyrðust sem vildu koma á fót svipuðu liði í Reykjavík, og í Stykkishólmi gerðu nokkrir betri borgarar árangurslausa tilraun til þess.

Skotfélög voru stofnuð víða um land um svipað leyti, að danskri fyrirmynd. Samkvæmt Þresti Sverrissyni voru dönsku félögin eins konar sambland ungmennafélaga og heimavarnarliða en íslensku félögin sennilega friðsamlegri í anda.118 Þó er athyglisvert að stór hluti þeirra borgara sem voru lögreglunni til halds og trausts í hvíta stríðinu voru einmitt félagar í Skotfélagi Reykjavíkur, enda brigslaði Alþýðublaðið félaginu um að hafa beinlínis verið stofnað í hvítliðatilgangi og þar á bæ hafi menn tekið það upp hjá sjálfum sér að safna liði lögreglunni til aðstoðar."

Þess má geta að afsökun Íslendinga var dæmigerð svar þeirra við kröfur Dana að þeir mættu ekki missa af mannskap. Þegar slík krafa kom 1857 en dönsk stjórnvöld kröfðust af endurreistu Alþingi í fjárlögum 1857 að Ísland útvegaði menn til að gegna herskyldu í flota ríkisins. Íslendingar höfnuðu þessum kröfum vegna "vinnuaflsskort yfir hábjargræðistímann á Íslandi".

Með öðrum orðum tengdu Íslendingar hugmyndir um heimavarnarlið við sjálfstæðisbaráttu Íslendinga sem og ég geri sjálfur.

Jón Sigurðsson vildi beita pennanum en líka sverðinu

Varnarmál voru Jóni hugleikinn af ýmsum ástæðum en aðallega vegna þess að hann skildi að sjálfstæði þjóðarinnar hélst í hendur við varnir landsins. Ekki hægt að aðskilja þessa hluti. Þetta skildu menn líka um 1900 og Valtýr Guðmundsson var einnig fylgjandi að hér yrðu komnar varnir með auknu sjálfstæði Íslendinga. En það farið er í það í síðari grein minni.

Nútíma Íslendingar hafa lyft Jón Sigurðsson svo hátt á stall að hann er nánast orðinn að Gandhi norðursins. Jón var hins vegar raunsær maður og vissi sem var og er að sjálfstætt ríki yrði að tryggja varnir sínar með ný til komnu frelsi.

Nú þykist ég skynja, samkvæmt skoðanakönnunum að meirihluti Íslendinga vill ekki stofna íslenskan her. Það viðhorf er skiljanlegt enda erum við girt með belti og axlarbönd með veru okkar í NATÓ og varnarsamningnum við Bandaríkin.


Fallvalleiki einkennir heiminn og hernaðarveldið Bandaríkin alveg örugglega ekki til staðar fyrir Ísland um alla eilíf. Hvað gerum við þá?

En rifjum upp hvað Jón Sigurðsson sagði um varnarmál.

Fyrir hið fyrsta er að hann áleit að sérhvert ríki þyrfti á góðum vörnum að halda og sjálfstjórnað land þýddi varið land.

Í öðru lagi kynntist hann hermennsku af eigin raun og vissi út á hvað slík þjónusta gengur enda var það skylda hvers stúdents að ganga í stúdentahersveitir konungs. Þessum hersveitum var komið á fót árið 1807 til að verja Kaupmannhöfn fyrir Bretum.

Í þriðja lagi voru Napóleon styrjaldirnar Íslendingum ferskar í huga enda hafi fámennur hópur undir forystu Jörund hundadagakonung sýnt veikleika danskra varna á Íslandi og getuleysi Dana gagnvart flotaveldi Breta.

Jón Sigurðsson skrifaði einmitt um meint getuleysi Dana í fyrsta tölublaði Nýrra félagsrita árið 1841 og ályktaði að landsmönnum væri hætta búin af þessu getuleysi Danakonungs.

Íslendingum væri nauðsynlegt að fá fulltrúaþing meðal annars í þeim tilgangi að tryggja sér vettvang sem gripið gæti til viðunandi varna eða annarra úrræða til dæmis ef eitthvert ónefnt ríki hernæmi Danmörku sem einmitt gerðist 1940 og Ísland hernumið af Bretum í kjölfarið.

Jón var fylgjandi innlendu fulltrúaþingi sem gæti virkjað samtakamátt þjóðarinnar og gert landið síður fýsilegt en ella fyrir ríki sem legði Danmörku undir sig. Þá virðist Jón hér greinilega hafa séð fyrir sér að þingið stofnaði hér til einhvers konar landvarna.

Árið 1843 skrifaði Jón aftur grein í Nýrra félagsrita um varnarmál. Tók hann dæmi af vígbúnaði Íslendinga fyrr á öldum þegar þeir hefðu ekki verið eftirbátar nokkurrar þjóðar í hernaði og benti á að þessu skeiði hefði lokið með ólögmætri eyðileggingu konungsmanna á vopnabúrum Íslendinga, vopnabroti Jóni Magnússyni sýslumanns.

Jón var svo óánægður með ræktar- og skilningsleysi Íslendinga hvað varðar hermennsku á seinni öldum að hann gat ekki annað en skrifað að Íslendingar hefðu sýnt ræktarleysi, tvídrægni og hvorki meira en minna ragnmennsku margra ættliða...þegar vernda skyldi gagn landsins og verja réttindi þess og frelsi. Tilvitnun: Jón Sigurðsson, "verzlun á Íslandi", Ný félagsrit, III, 1843, bls. 1-127.

Jón ítrekaði að fulltrúaþing Íslendinga væri nauðsynlegt til að tryggja varnir landsins og Íslendingar þyrftu nauðsynlega að taka upp vopnaburð á ný.

Grípum niður í greina og sjáum hvernig Jón teldi landvörnum Íslendinga best hagað í framtíðinni:

"Þess er einkum að gæta að mér virðist um varnir á Íslandi, að þar er ekki að óttast aðsóknir af miklum her í einu, og þar þarf að eins fastar varnir á einstöku stöðum, þar sem mestar eignir og flest fólk er saman komið. Það bera sumir fyrir, að ekki stoði mikið varnir á stöku stöðum, þegar óvinir geti farið á land hvar sem stendur annarstaðar, en þess er að gæta, að útlendir leita fyrst og fremst á hafnir, eða þá staði sem landsmönnum eru tilfinnanligastir, einsog menn sáu á ófriðarárunum seinustu að þeir leituðu á Reykjavík og Hafnarfjörð, og þarnæst, að væri nokkur regla á vörninni yrði hægt að draga saman nokkurn flokk á skömmum tíma hvar sem stæði, þar sem líklegt væri nokkurr legði að landi, og að síðustu, að þó óvinir kæmist á land, þá yrði hægt að gjöra þeim þann farartálma, ef landsmenn brysti ekki hug og samtök, að þeir kæmist skammt á götu, þar er þeir yrði að flytja með sér allt sem við þirfti, og skjóta mætti á þá nær því undan hverjum steini. "Eptir því sem nú er ástatt mætti það virðast haganligast, að menn lærði einúngis skotfimni og þvílíka hernaðar aðferð sem skotlið hefir, eður veiðimenn, og ríður einkum á að sem allflestir væri sem bestar skyttur, og hefði góð vopn í höndum. Smáflokkar af þvílíkum mönnum um allt land, sem vildi verja föðurland sitt og sýna hverra synir þeir væri, mundi ekki verða síður hættuligir útlendum mönnum á Íslandi enn þeir hafa orðið annarstaðar..."

Jón var sem sagt fylgjandi skæruhernaði enda fámennt land og ekki margir hermenn sem stæðu til boða. en svo virðist sem Jón hafi einmitt talið slíkar hernaðaraðferðir henta Íslendingum vel til landvarna.

Jón Sigurðsson gerði sér grein fyrir því að það kostaði töluverða fyrirhöfn að koma upp slíkum liðsafla á Íslandi. Hann hafði ráð undir rifi hverju, því hann lagði til að ungir menn kepptust um að eiga sem bestar byssur og að vera sem markvissastir í skotfimi. Þá myndi mönnum vart þykja tilkostnaðurinn of mikill. Það væri gaman að grafa upp afstöðu Jóns gagnvart Herfylkinguna í Vestmannaeyjum sem komið var á fót í hans tíð. Hef a.m.k. ekki lesið neina grein sem fjallar um það.

Stofnun herfylkingar í Vestmannaeyjum 1857

Einhverjar viðleitni gætti þó hjá Vestmannaeyingum í þessa átt, ef til vill vegna hvatningaorða manna eins og Jóns Sigurðusson en líklegra vegna aðstæðna í Vestmannaeyjum en árið 1853 var skipaður nýr sýslumaður Vestmannaeyja, Andreas August von Kohl, danskur að ætt og kallaður kapteinn.

Sá kapteininn að hér væri grundvöllur fyrir því að stofna varnarsveit eða her heimamanna, þar sem hér eimdi ennþá eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki. Fékk hugmynd Kohl um stofnun svonefndrar herfylkingar hinar bestu undirtektir í eyjum. Nokkur ár tók þó að skipuleggja þennan vísir að her og var hann að fullu komið á fót 1857 og var starfræktur til vors 1869. 

Hér skal ekki greint nákvæmlega frá skipan herfylkingunnar  en hún var skipulögð með sama hætti og tíðkaðist með venjulega heri í Evrópu á þessum tíma; með tignarheitum, vopnum, gunnfána og einkennismerkjum.

Markmið herfylkingarinnar var í fyrsta lagi að vera varnarsveit gegn árásum útlendinga.  Í öðru lagi að vera lögreglusveit til að halda uppi aga og reglu á eyjunni. Í þriðja lagi að vera bindindishreyfing og í fjórða lagi að vera eins konar íþróttahreyfing. Líklegt má telja að stöðugur fjárskortur hafi riðið hana til falls að lokum sem og forystuleysi.  Þessi viðleitni til stofnun hers, náði aðeins til Vestmannaeyja. Íslenskir ráðamenn voru þó ekki búnir að gleyma málinu.

Árið 1867 var lagt er fram frumvarp um stjórnskipunarlög fyrir þingið. Í því sagði m.a: ,,Sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn föðurlandsins eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrirmælt þar um með lagaboði.“

Svo kom að því að sérstök stjórnarskrá fyrir Ísland var lögfest 1874. Í henni var kveðið á um landvarnarskyldu allra landsmanna. Nú fór í hönd landstjóratímabilið og menn héldu áfram að ræða sjálfstæðismál og varnarmál.

En það voru deilur um landhelgismál landsins milli Dana og Breta um aldarmótin 1900 og gangur heimstyrjaldarinnar fyrri sem átti sinn þátt í að svipta hulunni frá augum Íslendinga að hér voru það Bretar sem réðu ferðinni og varnarleysi landsins væri mikið. En hér ætla ég að láta staða numið og hefja mál mitt á ný í síðari grein um þetta málefni.

Hér er ritgerð Kristínar Svövu:

Tengsl lögreglu og ríkisvalds á Íslandi 1921-1935 og stofnun íslenskrar ríkislögreglu

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ikarus
  • Iceland-Def-Force-logo
  • ratsjár- og loftvarnakerfi Íslands
  • stríð
  • World war

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband