Þurfum við á nútíma Rasmus Christian Rask á að halda?

Úr því að ég er farinn að ræða íslenskuna á annað borð og stöðu hennar, ætla ég aðeins að halda áfram með málið.

Þeir sem hafa lesið sögu kannast við danska málfræðinginn Rasmus Christian Rask. Grípum aðeins niður í grein um hann á Vísindavefnum til að glöggva okkur á honum.

"Danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask fæddist 22. nóvember 1787 í bænum Brændekilde á Fjóni en lést 14. nóvember 1832 í Kaupmannahöfn....Tengsl Rasks við Ísland voru sérstök. Hann lærði íslensku af bókinni Heimskringlu á meðan hann var í latínuskólanum. Til þess notaði hann útgáfu með latneskri og danskri þýðingu sem hann fékk sem viðurkenningu fyrir ástundun. Hann hafði hvorki íslenska orðabók né bækur um málfræði en bjó hvorttveggja til jafnóðum með því að bera frumtextann saman við þýðingarnar. Þegar hann kom svo til Kaupmannahafnar kynntist hann íslenskum stúdentum og lærði samtímamál af þeim, ekki síst framburðinn.

Rask dvaldist á Íslandi 1813–1815 til þess að læra málið betur. Hann ferðaðist víða og náði mjög góðum tökum á íslensku. Á þessum grundvelli endurskoðaði hann svo kennslubókina og gaf hana út á sænsku 1818 (Anvisning til Isländskan eller Nordiska Fornspråket). Hann tók þátt í stofnun Hins íslenska bókmenntafélags 30. mars 1816 og var formaður þess þar til í október sama ár þegar hann lagði af stað í langa ferð til Austurlanda. Hann átti mikinn þátt í að móta íslenska málhreinsunarstefnu sem Fjölnismenn fylgdu svo fram af mestum krafti." Heimild: Hver var Rasmus Christian Rask?

Það þurfti sem sagt útlendan fræðimann til að koma Íslendingum aftur á sporið en eins og allir vita sem hafa lesið íslenskan texta frá 1500-1800, þá er hann nánast óskiljanlegur nútíma Íslendingum, svo dönskublandinn var hann. Hið opinbera tungumál var danskan fyrst og fremst, svo íslenska embættismálið sem var hrærigrautur dönsku og íslensku. Sauðsvartur almúgurinn talað sína gömlu íslensku.

En það var ekki bara Rask sem bjargaði íslenskunni. Það var einnig íslenska menntastefnan og alþýðufræðslan á 18. öld.

Heittrúarstefnan sem kom hingað til Íslands á 18. öld, sem íslenskir fræðimenn gleyma oft að minnast á, í samhenginu við björgun íslenskunnar, bjargaði íslenskunni hjá alþýðunni. Og þar sem almenningurinn talaði ennþá íslensku, var hreintungustefnan sem Rask og félagar stóðu fyrir, með undirstöðu.

Hver er þessi heittrúarstefna (píetismi)?

Heittrúarstefnan varð til sem grasrótarhreyfing innan lútersku kirkjunnar í Þýskalandi á seinni hluta 17. aldar, en þýskir fræðimenn lögðu grunninn að hugmyndafræði hennar.  Hún barst um 1700 til Danmerkur með dönskum nemendum sem stundað höfðu nám í þýskum háskólum. Hugmyndir heittrúarstefnunnar höfðu áhrif á skólamál í Danmörku á tímabilinu 1732-1798.

Heittrúarstefnan hafði mikil áhrif á uppeldis- og menntamál á Íslandi á 18. öld.  Hins vegar varð heittrúarstefnan hér á landi aldrei grasrótarhreyfing, eins og í Danmörku og Þýskalandi.  Stefnan barst því hingað til lands sem valdboð að ofan, en í Danmörku höfðu stjórnvöld gert hana að sinni. Almennt tóku Íslendingar þó vel í hinu nýju stefnu í mennta- og uppeldismálum.

Sendu stjórnvöld út fjölda tilskipanna í anda heittrúarstefnunnar á fimmta áratug 18. aldar, í kjölfar rannsóknarleiðangurs kirkjuyfirvalda hingað til lands. Niðurstaða rannsóknamanna var sú að best væri að hagnýta sér það fræðslukerfi sem var fyrir hendi. Það kerfi byggðist á heimakennslu.  Hún átti að fara fram undir eftirliti ríkis- og kirkjuvalds, líkt og áður.  Um framkvæmdina sá húsbóndavaldið. En fræðslukerfið var gert kerfisbundið og lögbundið og var það nýjung og þýddi í raun að fræðslukerfið varð mun markvissara.

Gamla fyrirkomulagið á fræðslukerfinu sem tók gildi 1635, bar lítinn árangur samkvæmt ummælum íslensku biskupanna í byrjun 18. aldar.  Niðurstöður fræðimanna benda til að almennri menntun alþýðu hafi farið fram eftir rannsóknarleiðangur Harboes 1741-45.  Latínuskólunum fór einnig fram, en hlutverk þeirra var að útskrifa menntastétt landsins.  Bætt menntun menntamanna hafði áhrif á alla almenna fræðslu í landinu.

Í fáeinum orðum sagt, voru helstu áhrif heittrúarstefnunnar þau að hér var komið á almennri fræðsluskyldu og menntunarstig þjóðarinnar tók framförum.

Angi af þessari kennsluaðferð var farskólinn í sveitum landsins á fyrri hluta 20. aldar. Móðir mín ólst upp í Landeyjum og gekk í slíkan skóla. Uppbyggingin var sú að kennari kenni á bæ einum, börnin gengu þangað og kennt var í 2 mánuði. Svo var haldið á næsta bæ og sama sagan endurtók sig. Kennt var frá 10 ára aldri til 14 ára aldurs. Ég get borið vitni um að þessi kennsla var góð, því að móðir mín var vel skrifandi og ágæt í stærðfræði. Annar Landeyingur sem ég þekkti, sem gekk líka í farskóla á sama tíma í Landeyjum, varð á endanum doktor og sendiherra. Þetta er útúrdúr en samt ekki.

Það sem ég er að segja er að hægt er að bjarga íslenskunni. Það er með markvissri menntastefnu og ofuráherslu á íslenskukennslu. Öll tól og tæki eru leyfileg, tölvan eða bókin. En það verður að byggja upp orðaforðann og hugtakaskilning. Það skortir á hjá börnum og unglingum í dag. Þess vegna grípa þau oft til ensku.

Sama á við um útlendinganna búseta á Íslandi. Þeir verða að fara á íslensku námskeið, t.d. ef þeir dvelja lengur en 3 mánuði á landinu. Útlendingur sem vinnu á kassa í búð, þarf ekki mikinn orðaforða til að ræða við viðskiptavininn. 200-300 orð og samskipti hans við kúnnanna verður allt önnur og betri. Svo er það líka vanvirðing við viðskiptavininn að sá sem afgreiðir neitar eða getur ekki leiðbeint og þjónusta hann á íslensku.        

Að lokum. Á legstein Rask er letrað á íslensku: Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur en týn þó eigi að heldur þinni tungu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég held að það sem bjargar Íslenskunni sé fólk sem lærir að elska hana. Sjálfur kann ég ekki Íslensku, en þakka lestri á Halldóri og Þórbergi að ég hef þokkalega máltilfinningu. Að ég elska gott mál, er held ég öllum ljóst.

Hefði einhver spurt mig árið 1999, hefði ég sagt, skítt með tunguna, hún skiptir engu máli, tökum frekar upp ensku og lærum þess utan spænsku og mandarínsku. ... og það væri praktískt.

En ef þú elskar hver þú ert - veist hvaðan þú kemur og berð virðingu fyrir því - þá leggurðu rækt við þá málvitund sem varðaði þann veg.

Einföldun; fólk er að tapa málinu því það er að tapa sjálfu sér, og það er engin sál lengur, því fólk kann ekki lengur að virða sjálft sig né menningu sína.

Þetta mun lagast, en ekki fyrr en með þriðju kynslóð frá frá okkar talið.

Guðjón E. Hreinberg, 22.7.2023 kl. 11:00

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

En fyrst þarf að leggja niður Ánrnastofnun.

Guðjón E. Hreinberg, 22.7.2023 kl. 11:01

3 Smámynd: Birgir Loftsson

Mikið rétt Guðjón. Ég man eftir að virtur fræðimaður á Árnastofnun, er hann var spurður út í stöðu íslenskunnar, sagði hann að nóg væri að 20% Íslendinga kynni íslensku og skil á íslenskri sögu til að hún lifir af!

Og þegar meistarar íslenskrar tungu hjá alþýðunni, t.d. Bubbi, hafa áhyggjur af gamla fólkinu með heilabilun á elliheimilum sem þarf að tala ensku á sínu eigin heimili án kunnáttu, þá koma málsvarar íslenskufræðinga og gera lítið úr málinu. Ótrúlegt!

Maður myndi halda að það væri hlutverk íslenskufræðinga að vernda tungumálið. Án tungumálsins skiljum við ekki umheiminn. Svo einfalt er það.

Birgir Loftsson, 22.7.2023 kl. 11:13

4 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Já þetta er hjákátlegt - veit ekki hvort þú kannast við, en ég geri reglulega grín að þessu ástandi með mínu eigin hrognamáli og klaufaþýðingum.

Guðjón E. Hreinberg, 22.7.2023 kl. 17:13

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Blessaður Birgir, -þú ert að taka flotta vinkla á íslenskuna þessa dagana.

Þetta með hugtökin og málvitundina er einmitt svo mikilvægt, því að tapa málinu er fyrir þjóð að tapa sjálfri sér.

Það er að gerast vegna þess að það er engin sál viðurkennd  lengur, eins og Guðjón bendir á.

Ég hef alltaf gert mér grein fyrir hvað íslenskan er mikið mál, hún á orð yfir hugtök, sem öðrum þjóðtungum er hulið, auk þess sem hún er einfalt og gegnsætt mál í nútímanum.

Þakka þér fyrri þennan fróðleik um Rasmus Rask, -sem einn af sauðsvörtum almúganum, -þá hafði ég ekki hugmynd um hans þátt í að viðhalda íslenskri tungu.

Magnús Sigurðsson, 23.7.2023 kl. 07:27

6 Smámynd: Birgir Loftsson

Takk Magnús.  Íslenskan er margslungið mál. Hún hefur gengið í gegnum ýmislegt og átt slæmar stundir.

En fólkið í landinu hefur notað hana, afbakaða eða hreina hátt í 1200 ár. Hún er einstök vegna þess að norrænt fólk, sem kom hingað frá Noregi, Bretlandseyjum, Írland, Færeyjum, Danmörku og Svíþjóð og hefur eflaust talað með sínum mállýskum, bjó til nýja norrænu eða norrænt mál sem kallast íslenska.

Þetta mál er ennþá til, uppbygging og orðaforði. Framburðurinn hefur breyst en annað lítið.

Sjá hér slóðina:

https://www.youtube.com/watch?v=hZAwi6Asykshttps://www.youtube.com/watch?v=hZAwi6Asyks

Gamla norska (norræna), gotneska og gamla enska (engilsaxneska).

https://www.youtube.com/watch?v=9xn-KhlEUM4

Er ekki auðvelt að skilja þetta? https://www.youtube.com/watch?v=vczDjPXM6xc

Birgir Loftsson, 24.7.2023 kl. 14:15

7 Smámynd: Birgir Loftsson

Meira segja útlendingarnir hafa áhyggjur af íslenskunni og telja að hún deyi út á þessari öld: https://youtube.com/shorts/p9Z16eHwBOU?feature=share

Birgir Loftsson, 24.7.2023 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband