Lýðræði

Ég verð alltaf argur þegar menn setja út á að menn bjóði sig til opinberra embætta og spyrja hvað viðkomandi eigi upp á dekk?

Það er einstaklega þreytandi og verð ég í raun alltaf hissa að fréttamenn spyrja þessa spurningu (þeir ættu að vita betur) og tala svo um kostnað!

Lýðræðið er sú stjórnskipum sem hinn vestræni heimur hefur komið sér saman um, það kostar og kerfið byggist á að einhver bjóði sig fram. Því ber að fagna.

Forseti eða annar kjörinn fulltrúi á að fá aðhald og helst aldrei vera sjálfkjörinn.Það er hvorki gott fyrir hann né þjóðina.

Ég kenndi sögu Forn-Grikkja í Flensborgarskólanum með sérstaka áherslu á heimspeki og stjórnmálasögu þeirra.

Forn-Grikkir kenndu mér margt um lýðræði og sérstaklega beint lýðræði (allir borgarar taka þátt í kosningum og kosið var einnig beint til allra embætta).

Í Aþenu gátu einungis frjálsir karlar tekið þátt í stjórnmálum. Þar með voru konur, börn, þrælar og aðfluttir útilokaðir.

Í Aþenu var einnig blanda af beinu lýðræði þar sem borgararnir taka ákvarðanir beint og milliliðalaust og fulltrúalýðræði þar sem kjörnir fulltrúar fara með völdin. En auk þess voru líka fulltrúar lýðsins kjörnir með hlutkesti þar sem þeir voru dregnir úr hópi viljugra og skiptust síðan á að fara með völdin (embættisverka).

Aristóteles segir að það sem greini að lýðræði og fámennisstjórn (óligarkíu) sé umfram allt auður og fátækt. Lýðræði er stjórn hinna fátæku, hvort sem þeir eru meirihlutinn eða minnihlutinn (Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við HÍ, Hvað er lýðræði?).

Aristóteles myndi þess vegna ekki kannast við að flest lýðræðisríki nútímans væru eiginleg lýðræðisríki í hans skilning, bæði af því að þar eru völdin oftast í höndum ríkra en ekki fátækra og þar að auki er oftast um fulltrúalýðræði að ræða án beinnar aðkomu fjöldans í ákvarðanatöku.

Þess vegna eru forsetakosningar á Íslandi svo mikilvægar, enda eina beina lýðræðið sem Íslendingum býðst. Fulltrúalýðræði er 18. og 19. aldar fyrirbæri þegar samgöngur voru lélegar og fólk gat ekki tekið beinan þátt (nú er lýðræðið beinlínis tiltækt í farsímum fólks, ef viljinn er fyrir hendi og hægt að kjósa beint).

Tvenns konar lýðræði: Fulltrúalýðræði og beint lýðræði eða samblands þessara gerða

Stjórnskipunarlýðræði gerir ráð fyrir dreifingu valds og aðgreiningu ólíkra valdastofnana, en þar fyrir utan getur það tekið á sig ólíkar myndir.

Á Íslandi einkennist stjórnskipanin af fulltrúalýðræði sem felst í því að á Alþingi, sem fer með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands, sitja kjörnir fulltrúar almennings.

Í stað fulltrúa á Alþingi mætti hugsa sér beint lýðræði þar sem löggjafarvaldið væri hjá fólkinu sjálfu, það er að lög væru sett og ákvarðanir teknar í almennum kosningum.

Slíkt beint lýðræði væri að vísu mjög tímafrekt, dýrt, svifaseint og erfitt í framkvæmd af ýmsum ástæðum, til dæmis þeirri að líklega myndu mjög margir verða þreyttir á eilífum kosningum og ekki nenna að taka þátt.

Það mætti þó vel hugsa sér einhverja millileið eða blöndu af fulltrúalýðræði og beinu lýðræði þar sem settar væru ákveðnar reglur um hvernig mætti vísa málum beint til þjóðarinnar (Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við HÍ, Hvað er lýðræði?).

Ríki með lýðræðislegu fyrirkomulagi inniheldur stjórnarfar þar sem almenningur getur með (leynilegum) kosningum haft úrslitavald í stjórnarfarsefnum; réttur og aðstaða einstaklinga eða hópa til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni.

En í lýðveldi er þingræðislegt stjórnarfar þar sem æðstu menn eða æðsti maður (forseti) ríkisins er þjóðkjörinn eða kosinn af þjóðkjörnum fulltrúum til tiltekins tíma.

Ívar Daði Þorvaldsson fjallar um þetta í greininni: Hver er munurinn á lýðræði og lýðveldi? Hann segir að báðar þessar aðferðir hafa verið notaðar við val á forseta Íslands.

Sveinn Björnsson var kosinn af þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi, sem haldið var á Þingvöllum árið 1944, er lýðveldi var stofnað. Síðan þá hafa forsetar verið þjóðkjörnir. Forsetakosningar á Íslandi eru þar með einu beinu kosningar sem Íslendingum biðst kostur á og flokksræðið kemur hvergi nálægt, og allt tal um kostnað eða gagnrýni á forsetaframbjóðanda er til vansa.

Við eigum sem þjóð að þakka fyrir að geta kosið beint. En margt er ábótavant við íslenska lýðveldið og íslenskt lýðræði.

Í fyrsta lagi er þrískipting valds á Íslandi ekki fullkomin, á meðan framkvæmdarvaldið situr á lögjafarsamkundu landsins og hefur atkvæðarétt.

Eina valdið sem er frjálst, er dómsvaldið og jafnvel þar er ekki staðið rétt á málum, eða þar til landréttur var stofnaður (skipan hans klúraðist með mistökum forseta).

Á löggjafarsamkundu okkar, Alþingi, er flokksræði og enginn almennur þingmaður í raun sjálfstæður og þar með sannir fulltrúar umbjóðenda sinna í kjördæmi.Þeir sem eru þar frjálsir, eru þeir sem hafa sagt skilið við flokka sína en komust til valda í skjóli þeirra.

Flokkarnir raða mönnum upp á lista og sama hvernig farið er að því, prófkjör eða annað, flokkurinn ræður ferðinni.

Ef kjósendur gætu kosið þingmenn sína beint; það væri stórt skref í lýðræðisátt. Ef til vill færu þingmenn, þegar þeir eru í raun ábyrgir og á valdi kjósenda, að hætta að láta flokkanna stjórna ferðinni og vinna að hagsmunum þeirra.

Ég er ekki að segja að það eigi að afnema flokka, heldur að breyta kerfinu.

Áður en þessu er hér látið lokið, þá ert vert að geta setu embættismanna í embætti. Margir þeirra hafa gífurleg völd, því að þeir sitja við ákvörðunartöku ásamt kjörnum fulltrúa. Gott dæmi um þetta er ráðuneytisstjórnar og ráðherrar.

Þeir síðarnefndu koma og fara en hinir koma beinlínis að gerð laga með margvíslegum hætti (ókostnir) og hafa því oft úrslitavald. Reynt hefur verið að koma böndum á þetta með því að menn (konur og karlar) eru ráðnir til fimm ára í senn sem er gott mál.

Í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem ber heitið Samhent stjórnsýsla frá 2010 segir að lögin um ráðuneytisstjóra segi beinlínis að hann sé í hlutverki forstöðumanns en ekkert fjallað um ráðningartíma.

Reyndar voru árið 1996 ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins samþykkt á Alþingi. Í þeim leysti fimm ára ráðningartími æðstu embættismanna af hólmi æviráðningu þeirra og þar með má telja ráðuneytisstjóra. Það er framfaraskref.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband