Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2023

Borgarmyndun á Íslandi - Borgir sem upphaf þjóðríkjamyndunar

Nokkrir þættir verða til þess að þéttbýli myndast og koma þeir oft í mismunandi röð.

T.d. hof/kirkja/moskva eða tilbeiðslustaður sem dregur að sér samsafn af fólk til trúariðkana, sem dregur aftur á móti til sín kaupmenn og þetta allt dregur að sér þjóðarleiðtoga eða fursta, hirðina (herinn) og skattheimtumenn eða með öðrum orðum valdastéttina.

Dæmi: Sverrir konungur gerði Björgvin að aðsetur sitt, en þar var erkibiskupinn/dómkirkjan og millihöfn eða verslunarhöfn en Magnús konungur hafði Osló á móti.

Herbækistöðvar urðu oft að borgum, samanber limis eða landamærastöðvar Rómverja, en hermennirnir drógu að sér kaupmenn sem vildu versla við en þeir settust oft að við virkin, eignuðust konur og börn og mynduðu smá saman borgir. Dæmi Köln.

Hvað með Skálholtsstað? Örlög Íslandssögunnar eru sérstök. Það að Skálholt hafi orðið höfuðstaður Íslands sem og Hólar í Hjartardal var slæmt fyrir eyjuna Ísland. Báðir staðir voru staðsettir djúpt inn í landbúnaðarhéruð, langt til næstu hafnar en þeir voru stofnaðir þegar fískútflutningur var ekki hafinn frá Íslandi að marki. Þessir staðir, oft á stærð við þorp, gátu aldrei vaxið og dafnað, til þess voru aðdrættir of langir og erfiðir. Talað er um tvær leiðir við borgarmyndun:

 

  1. Stjórnsýslu- og viðskiptaborgir. Lifa á sveitum í kring. Feneyjar og Amsterdam byggðust fyrst og fremst á verslun og er þetta þeim sameiginlegt. Skálholt og Hólar höfðu ekki nægja aðdrætti til að stækka og lifa á sveitum í kring. Þetta viðurkenndu menn fyrst þegar landbúnaðurinn lagðist af á Íslandi í kjölfarið á Móðuharðindunum og sameinuðu biskupssetrin í eitt í Reykjavík.

 

  1. Framleiðsluborgir sem verða til vegna iðnaðar og lifa ekki á sveitum í kring. Þessar borgir urðu einkum til á 18. öld og síðar. Þó voru til framleiðsluborgir áður, sbr. hollensku borgirnar. Framleiðsluborgir hefðu getað myndast á Íslandi við sjávarsíðuna ef verslunin hefði verið frjáls og fiskveiðar frjálsar. En svo var ekki. Þetta tafði þéttbýlismyndun á Íslandi allt til seinni helmingi 19. aldar. Reykjavík kom fyrst með alla þætti borgar, sem er stjórnsýslueining bæði veraldlegs valds sem og geistlegs, höfn, iðnaður og framleiðsla í lok 18. aldar.

 

Engin tilviljun að Reykjavík er eina borg Íslands, þótt segja megi að Kópavogur og Hafnarfjörður nálgist það kalla megi borgir. Áður fyrr var miðað við íbúafjöldann 25 þúsund manns eða 50 þúsund. En borg þarf að hafa meira en ákveðinn íbúafjölda. Hún þarf að hafa höfn/flugvöll, iðnað, framleiðslu, vera stjórnsýslueining og hafa þjónustu á öllum sviðum. Í því samhengi er Hafnarfjörður meiri borg en Kópavogur þótt íbúafjöldinn er minni.


Nýr forseti Argentínu boðar breytingar í efnahagsmálum

Argentína með allar sínar auðlindir hefur verið á hvínandi kúpunni í marga áratugi. Ástæðan er sósíalísk stefna sem hefur verið viðvarandi allan þennan tíma og spilling.

Javier Milei er nýr forseti Argentínu og frjálslindur samkvæmt gömlu skilgreiningunni. Hann er enginn kjáni í efnahagsmálum enda er hann menntaður hagfræðingur. Hann er enginn íhaldsmaður, þótt hann sé hægri sinnaður í efnahagsmálum, þ.e.a.s. styður kapitalisma og frjálst markaðshagkerfi og lítil afskipti ríkisins.

Hann er skilgreindur sem frjálslindur vegna stuðningur hans við valfrelsi um efni eins og eiturlyf, byssur, vændi, hjónabönd samkynhneigðra, kynhneigð og kynvitund hefur verið í andstöðu við almenna andstöðu hans við fóstureyðingar, líknardráp og innflutning glæpamanna, þar er hann íhaldssamari. Í utanríkismálum talar hann fyrir nánari samskiptum við Bandaríkin og er harður gagnrýnandi kínverska kommúnistaflokksins.

Honum hefur verið lýst pólitískt sem hægrisinnuðum frjálshyggjumanni, popúlista (nýtur stuðnings almennings) og stuðningsmanni laissez-faire kapítalisma, sem er sérstaklega í takt við minarkista (þar sem talsmenn þess eru þekktir sem mínarkistar, en hér er verið að tala um gerð af ríki sem er takmarkað og lágmarkað, þar sem hlutverk þess er háð frjálshyggjukenningum.) og anarkó-kapítalískar meginreglur. Skoðanir hans einkenna hann í argentínsku pólitísku landslagi og hafa vakið mikla athygli almennings og skautuð viðbrögð. Hann hefur lagt til víðtæka endurskoðun á ríkisfjármálum og skipulagsstefnu landsins.

En hvað ætlar hann að gera nú þegar hann er orðinn forseti?

Það er ansi róttækt.  Sama reiði er gagnvart Seðlabanka landsins og er gagnvart Seðlabanka Íslands. Milei vill ganga lengra en bara að reka Seðlabankastjóra eins og lagt er til hér á Íslandi.

Hann vill afnema seðlabanka landsins. Fyrirhuguð afnám Seðlabanka Argentínu og dollaravæðing hafa mætt gagnrýni; argentínski pesóinn féll og vextir voru hækkaðir í kjölfar sigurs í prófkjöri hans. Argentínskir almennir hagfræðingar gagnrýndu einnig efnahagsvinnu Mileis og framsetningu hans, lýstu hugtökum hans sem ruglingslegum og héldu því fram að formúlurnar sem hann notar séu ekki réttar; sérstaklega gagnrýndu þeir tillögur hans um afnám Seðlabanka Argentínu og dollaravæðingu. Milei vísaði gagnrýnendum dollaravæðingarinnar á bug og sagði að þeir skildu ekki „skilyrðið um þverskiptingu“.

Verðbólga mælist 140% og þriggja ára þurrkar hafa leitt til mikillar samdráttar í landbúnaðarframleiðslu. Tveir af hverjum fimm búa við fátækt og hefur gjaldmiðillinn tapað 90% af verðgildi sínu á fjórum árum. Þetta er leiðin sem hann sér út úr þessu. Þetta myndi þýða að peningastefna Argentínu yrði sett í Washington frekar en Buenos Aires. Sömu hugmyndir hafa menn líka haft hér á Íslandi, að tengja okkur við Bandaríkjadollara eða evruna. Tveir gallar á þessari stefnu:

Helsti gallinn á þessari leið,  er að Argentína og Bandaríkin eru mjög ólík hagkerfi og því gæti það sem gæti verið rétt peningastefna fyrir hið síðarnefnda verið röng fyrir hið fyrrnefnda. Lönd verða að gæta þess að gefa eftir frelsi til að ákveða eigin vexti og fella gjaldmiðla sína. En er þetta eitthvað verra en 140% verðbólga? Er ekki betra að fólk geti notað gjaldmiðil sem allir treysta og vilja nota. Það er engin tilviljun að neðanjarðar hagkerfi heims, nota menn dollara í stað t.d. rúblu eða aðra gjaldmiðla sem enginn vill nota í alþjóðaviðskiptum. Íslenska krónan er í þeim flokki.

Annað vandamálið er hagnýtara: hvaðan fengi Argentína dollara sína? Sem stendur hefur seðlabankinn nánast engan gjaldeyrisforða til að tala um og skortir aðgang að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum til að ná þeim hlutabréfum sem þyrfti til að halda hagkerfinu gangandi. Fræðilega séð gæti Milei leitað til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lán, en líkurnar á því að það takist yrðu ekki miklar. Argentína er nú þegar stærsti lántakandinn frá AGS og skuldar honum 44 milljarða dala (35 milljarða punda).

Það er því spurning hvort hann geti farið þessa leið. En hann getur hins vegar dregið úr umsvifum ríkisins, afnumið óteljandi ráðuneyti sem gera ekki neitt, haldið sköttum lágum, íviljað fyrirtæki, þannig að þau stækki og stækki þannig skattkökuna. Hann verður líka að hreinsa til innan stjórnkerfisins og uppræta spillingu.

Hér á Íslandi vilja menn auka skatta til að mæta auknum útgjöldum. Skattar, skattar og skattar eru svör íslenskra stjórnmálamanna og ef efnhagskerfið hitnar um, stýrisvaxtahækkanir ofan á stýrisvaxta hækkanir. Stýrisvextir (háir), verðbólga (há) og skattar (háir) eru óvinir heilbrigðs efnahagskerfi. 

Svarið við öll vandamál ríkis í vexti, er að stækka þjóðarkökuna í sífellu, búa til meiri pening og þar með eykst skattheimtan sjálfkrafa með sömu skattprósentu og áður.  Einfalt en samt skilja stjórnmálamenn ekki svona einfalda leið. Skattaálögur er leið letingjans.  Mig vantar pening, best að fara ofan í vasa skattgreiðenda (borgara og fyrirtæki). Ó, við erum búin að eyða sjóði nátttúruhamfarasjóðs í alls kyns vitleysu, setjum skatta á húseigendur, skattlegggjum banka (sem fara svo í vasa viðskiptavini sína enda engin samkeppni á bankamarkaðinum) eða skattleggjum útgerðina. 


Meindýra tal Donalds Trumps

Andstæðingar Donalds Trumps, þar á meðal hér á Íslandi, nota hvert tækifæri til að gera lítið úr manninum, og nú síðast er hann talaði um að "root out vermit". En þar átti að hann við um fulltrúa djúpríkisins sem sannarlega hafa grafið undir réttarríkinu í Bandaríkjunum. 

Pólitískir andstæðingar hoppu hæð sína í fullum herklæðum af gleði, þarna gafst tækifæri til að koma höggi á karlinn. En hvert er samhengið sem þetta er sagt í?

„Við lofum ykkur því að við munum uppræta kommúnista, marxista, fasista og róttæka vinstri þrjóta sem lifa eins og meindýr innan marka lands okkar sem ljúga og stela og svindla á kosningum,“ sagði Trump í ræðu á degi uppgjafahermanna og sagði að "ógnin frá utanaðkomandi öflum er mun minna ógnvekjandi, hættulegri og alvarlegri en ógnin innan frá. Ógnin okkar er innan frá." Og auðvitað var honum líkt við Hitler og ummæli hans eftir þetta. Um leið og menn fara að líkja andstæðinga sína við Hitler, er óhætt að slökkva á skjánum, enda menn þar með ómarktækir og rökþrota.

En ekkert í gjörðum Donalds Trumps sem forseti benti til misbeitingu valds, ef eitthvað er, hefði hann átt að hreinsa betur til innan valdakerfisins, eins og alltaf er gert þegar nýr forseti er skipaður.

Nýr Bandaríkjaforseti skiptir út nokkur þúsund embættismenn við valdaskipti, til að tryggja það að þeir, sem skipaðir voru af fyrirrennara hans, grafi ekki undir stefnu hans. Það er hefðin. Forsetar skipa pólitískar ráðningar. Komandi forseti getur skipað allt að 4.000 stöður þegar hann tekur við embætti, þar af 1200 sem verða að vera staðfest af öldungadeild Bandaríkjanna. Sendiherrar, meðlimir ríkisstjórnarinnar og ýmsir embættismenn eru meðal þeirra staða sem skipuð eru með forsetaskipun með staðfestingu öldungadeildarinnar.

Þetta gerði Trump ekki nægilega vel er hann gerðist forseti, enda nýgræðingur í stjórnmálum. Það voru því tugir, ef ekki hundruð andstæðinga hans innan stjórnkerfisins sem unnu markvisst gegn stefnu hans. Má þar helst og fremst nefna yfirstjórn FBI og CIA. Trump lítur á þessa menn sem skemmdarverkamenn og "meindýr" sem eyðileggja innan frá. Um þessar mundir rignir yfir hann ákærur fyrir allt á milli himins og hafs, fyrir ótrúlegustu sakir, sumar fáranglegar.

Óhætt er að fullyrða að markvisst hefur dómskerfið og valdakerfið í heild verið misbeitt í þágu hagsmuna demókrataflokksins. Sá flokkurinn hefur verið samstilltari, ákveðnari og hömlulaust misnotað valdið. Svo mjög að kosningar munu teljast vera vafasamar héðan í frá. Þegar menn eru svo hræddir við pólitískan andstæðing að þeir eru tilbúnir að eyðileggja kerfið innan frá og ekki huga að framtíðinni, er voðinn vís.

Donald Trump hefur alla ástæðu til að vera í hefndarhug en hann mun fara eftir leikreglum þegar hann byrjar að hreinsa til innan djúpríkisins. Andstæðingar hans eru of öflugir að hann geti farið út fyrir valdsvið sitt.  Donald Trump var kosinn sem maður fólksins, ekki repúblikanaflokksins og á þeim forsendum að hann ætlaði að ræsa út mýrina (drain the swamp) sem þýðir á manna máli að uppræta spillinguna. Líkurnar á að hann verði næsti forseti BNA aukast með hverjum degi.

Washington er eitt spillingabæli. Undirrót þess er lobbíismi. Lobbíismi eða hagsmunagæsla er iðja sem lobbíistar eða hagsmunaverðir stunda. Finna má orðið lobbíisti í íslenskri orðabók: (niðrandi) maður sem starfar við að greiða hag fyrirtækis, samtaka o.s.frv. við stjórnvöld og stjórnmálamenn. Það er gott og vel að hagmundaaðilar gæta hagsmuna umbjóðenda sína en oft snýst þetta upp í sjálfhverfu sína og breytist í spillingu eða jafnvel lögbrot. Stjórnmálamenn eru í vasanum á hagsmunaaðila sem beitir honum eins og strengjabrúðu. Þetta vill Trump beita sér gegn og mætir harðri andstöðu núverandi fyrirkomulags spillingar í formi lobbíisma. Þess vegna er öllum tiltækum ráðum, siðlausum líka, til að hnésetja hann. Trump er enginn kórdrengur en hann kann að stjórna fyrirtækjasamsteypum sem og ríki, sem dæmið sannar.

Að lokum. Bandaríkin í fyrsta sæti segir Trump reglulega og andstæðingar hans telja það vera merki um einangrunarstefnu og lobbíastir hrein styggðaryrði. Það er hins vegar skylda Bandaríkjaforseta að gæta hagsmuna bandarískra borgara. Hann er ekki forseti heimsins, eins og margir halda, heldur bara Bandaríkjanna.  Fyrirrennarar hans hafa oft gleymt þessu og láta innviði Bandaríkjanna grotna á meðan þeir ausa fé í endalaus stríð. Nú er svo komið að Bandaríkin eru tæknilega séð gjaldþrota.

 

 

 

 

 


Píratar með aðför að öryggi ríkisins

Sá undarlegi flokkur,  Pírataflokkurinn, með engan formann í brúnni, hefur sýnt af sér óábyrga hegðun og í raun fjandsamlega gagnvart íslenskum hagsmunum. Nú síðast gagnvart öryggi lögreglumanna.

Vegna þess að flokkurinn er anarkistaflokkur, flokkur stjórnleysingja, er engin ein heildarstefna í gangi hverju sinni. Þó má sjá þema í aðgerðum þingmanna Pírata. Þeim er umhugað að grafa undir öryggi ríkisins með óheftu innstreymi erlends fólks til landsins og í raun opnum landamærum Íslands. Ef þeir fengju að ráða, myndu koma hingað stórhættulegir glæpamenn eða hryðjuverkamenn því lögreglan má ekki vera með forvirkar rannsóknir eða heimild til þess að athuga bakgrunn þess fólks sem sest hér að.

Nýjasta blæti Pírata eru byssukaup lögreglunnar. Þar fer Arndís Anna Kristínardóttir hamförum vegna byssukaup lögreglunnar vegna leiðtogafundar í Hörpu. Grípum niður í frétt Vísis:

"Mat dómsmálaráðuneytisins er að birting nákvæmra upplýsinga yfir byssur í eigu lögreglu falli undir lykilupplýsingar um viðbragðsgetu lögreglu. Hún geti þar með haft afdrifaríkar afleiðingar, stofnað öryggi ríkisins í hættu og haft áhrif á öryggi lögreglumanna. Skotvopn voru keypt fyrir 165 milljónir króna fyrr á árinu vegna leiðtogafundar í Hörpu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um kaup á vopnum og varnarbúnaði í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins." Keyptu byssur fyrir 165 milljónir en gefa ekki upp fjöldann

Frægt var þegar Landhelgisgæslan keypti hríðskotabyssur. Landhelgisgæslan keypti í lok síðasta árs 250 MP5 hríðskotabyssur af norska hernum segir í frétt RÚV árið 2014 LHG keypti byssurnar af norska hernum og enn risu vinstri menn upp á afturlappirnar fullir vandlætingu. Þó eru hér eðlileg byssukaup löggæslustofnunnar sem Landhelgisgæslan er en LHG varð að bakka með kaupin eða átti hún að fá byssurnar gefins?

Hér tekst Pírötum að gera storm í vatnsglasi enda er tilgangurinn að grafa undir lög og reglu (munum að anarkíst samfélag á að vera á sjálfstýringunni) í þjóðfélaginu. Hafa þingmenn ekkert betra að gera?

Það er eðlilegt að löggæslustofnanir, sem eiga að gæta okkur hin, borgaranna, geti varið sig. Í frétt frá 2020 segir að hér séu skráð 70 þúsund skotvopn, guð veit hversu mörg óskráð eru í landinu og í eigu glæpamanna.

Síðastliðin ár hafa komið upp mörg mál þar sem skotvopnum er beitt eða öðrum vopnum.  Þar er því ansi undarlegt að lögreglan þurfi sífellt að verja vopnakaup sín en fjölmiðlar hafa verið duglegir að ýta undir árásir anarkistanna á vopnaeign lögreglunnar.

Í raun er málið hlæilegt, því hvað eiga nokkrar "baunabyssur" lögreglunnar að geta gert, ef samstilltur hryðjuverkahópur eða sérsveitir erlends ríkis gera hingað áhlaup? Þessi vopnakaup duga til að vopna lögregluna fyrir minniháttar atvik og algjör lágmarksviðbúnaður. Svo er það annað mál að landið er óvarið, a.m.k. í einhvern tíma ef til stríðs kemur og ef það kemur ekki, þá er nokkuð ljóst að innanlands friðurinn er úti á Íslandi.


Að vera Evrópusinni en gegn Evrópusambandinu

Ronald Reagan og Margaret Thatcher voru með hugsjónir sínar á hreinu. Bæði ríktu í tæpan áratug á níunda áratugnum en áhrif þeirra gætir enn. Svo afgerandi var stefna þeirra. Eftirfarandi er viðtal við Margaret Thatcher sem Sunday Times tók við hana 1990 um afstöðu hennar gagnvart Evrópusambandinu.  Þetta viðtal er athyglisvert í ljósi Brexit nokkrum áratugum síðar og stöðu Rússlands í dag. Lítum á viðtalið í lauslegri þýðingu minni:

"Ég er evró-hugsjónamaður í þeim skilningi að við tölum um siðmenningu og það sem ansi stór hluti heimsins samþykkir sem siðmenningu eru hugsjónirnar sem komu frá nokkrum löndum Evrópu eða sem voru ræktaðar í hinum ýmsu löndum Evrópu. Taktu eftir, ekki í Evrópu í heild heldur í hinum ólíku löndum, því einkenni Evrópu er að hún hefur aldrei verið algjörlega undir stjórn einu valds. Það var alltaf annað land sem fólk gæti flutt til, í raun og veru til að nýta og auka frelsi sitt. Nú skulum við aðeins fara í gegnum þetta.

Í fyrsta lagi höfum við hugsjónina um lýðræði og umræðu. Að leysa vandamálin með umræðuhefð frá Grikklandi til forna. Við höfum hugmynd okkar um réttarríkið sem er byggt á rómverskum rétti, það kom frá öðru Rómaveldi.

Við höfum hugsjón okkar um mannréttindi sem byggist í raun ekki á stjórnmálum heldur í gyðingdómi og einnig í kristni, stóru trúarbrögðunum tveimur sem segja alveg skýrt að bæði þjóðir og einstaklingar beri ábyrgð á notkun valds síns. Og svo er það í Gamla testamentinu, Móse, þú elskar náunga þinn eins og sjálfan þig sem og í Nýja testamentinu. Þetta held ég að sé uppruni þeirrar miklu áherslu sem við höfum alltaf lagt á mannréttindi. Það er trúarleg uppruni, það er grundvallarviðhorf. Þessir hlutir geta ekki komið frá ríkisstjórnum, þeir koma frá einhverju miklu dýpra. Svo frá Grikklandi til forna, svo lögin frá Róm og svo kristnin sem kom og fór að blómstra í Evrópu, þaðan komu mannréttindin.

Við áttum glæsilegu endurreisnartíma og upplýsinguna, bókmenntir og listir, aftur í Evrópu, á Ítalíu, í Hollandi. Við áttum þessa stórkostlegu umræðu um vísindi, en meira en umræðan um vísindi hefurðu eitthvað sem byrjaði í Evrópu sem byrjaði ekki annars staðar. Við urðum að snúa vísindum að notkun fólksins í gegnum iðnbyltinguna okkar.

Nú, í þeim skilningi lít ég á það og hugsa, og þingiskerfi okkar, þingmóðirin, óx hér á landi, að almenn lög víkkuðu. Þannig að allt sem er talið siðmenntað byggt á mannréttindum, byggt á umræðu, byggt á réttarríki sem við getum einfaldlega ekki haft frelsi án réttarríkis. Byggt á aukinni hagsæld fólksins með því að beita vísindum í gegnum einkafyrirtæki, Adam Smith hagkerfi, markaðshagkerfi, sem stækkaði, sem tókst aðeins með því að þóknast fjöldanum sem fór í gegnum lýðræðið, kom frá mismunandi löndum Evrópu. með sína eigin gífurlegu hefð.

Nú í þessum skilningi, já, ég er evró-hugsjónamaður en þú færð ekki þessa stórkostlegu frábæru gjöf til heimsins af því að hafa verið undir einum yfirráðum. Hún kom ekki frá Ottómanaveldinu, hún kom ekki frá kínverska heimsveldinu, kom ekki frá mógúlaveldinu, allir undir einni stórri stjórn óttaslegnir valdhafa við frelsi fólksins. Það kom frá löndum Evrópu þar sem alltaf var hægt að flytja annað til frelsis og sjá hvað það framleiddi.

Já, ég er evru-hugsjónamaður og ég vil stærri Evrópu. Evrópa er eldri en Evrópubandalagið. Ég vildi stærri og víðtækari Evrópu þar sem Moskvu var líka evrópskt stórveldi."

Viðtal Margaret Thatcher við  Sunday Times, 15. nóvember 1990

Af þessum orðum Thatchers má draga þá ályktun að hún var ekki hrifin af yfirþjóðlegu valdi Evrópusambandsins og vildi veg þjóðríkisins sem mestan. Hún vildi viðurkenna Rússland sem evrópskt stórveldi sem er athyglisvert, því að þá voru Sovétríkin uppi og virðist ætla að vera eilíf. Ekkert er eilíft, sérstaklega ekki ríki. Eitt elsta ríki heims, Kína, virðist vera eilíft en það hefur splungrast í ótal smá einingar, sameinast og splungrast aftur.

Ef þeir sem vilja að Evrópusambandið verði n.k. Rómaveldi, en ekki sambandsríki fullvalda þjóðríkja, verða þá að hugsa dæmið upp á nýtt. Rómverjar héldu ríki sínu saman með einni menningu, rómversk-grískri, einu tungumáli - latínu(auk grísku hjá yfirstéttinni og austurhluta ríkisins), einum her, ákveðin landamæri, einu gjaldmiðli, sömu siði og lög og miðstýringu frá einni höfuðborg, Róm og einum leiðtoga.  Ekkert af þessu er fyrir hendi í Evrópusambandinu í dag.   

Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins, sem enginn almennur borgari sambandsins veit hverjir sitja í, enda ekki kosin í almennum kosningum, getur komið með reglugerðir og þvingunaraðgerðir á hendur þjóðríkjanna, en eins og andstaðan sýnir í dag (sbr. Ungverjaland) er kominn brestur í sambandið. Aldrei var ætlunin að sambandið þróaðist eins og það gerði. Það mun splundrast upp í ótal einingar þegar á reynir. Samanber Brexit. Það getur verið styttra í það en menn ætla.

 


Tik Tok kynslóðin hyllir hryðjuverkamenn

Árþúsundakynslóðin fædd um 2000 er ekki talin bera margt til brunns.  Hún er sögð vera löt, frek og sjálfhverf. Aldrei dýft hendi í kalt vatn, þ.e.a.s. þurft að hafa fyrir hlutunum. Hún kvartar og kveinar ef einhver hallmælir henni, segir ljótt orð sem er ekki pólitískt rétt en nú tekur steininn úr þegar hún hyllir hryðjuverkamenn.

Nýjast nýtt í heimi Tik Tok er svokallaða stefnuyfirlýsing Bin Laden, "Letter to America". Tik Tok stjörnur vestan hafs keppast við að hylla hryðjuverkamanninn, manninn sem myndi glaður drepa þær ef hann væri enn lífs.

Enn undarlegra er þegar þetta fólk fer á mótmælafundi til að mótmæla sem það kallar morðæði Ísraelshers. Sjálfsagt er það að ganga til stuðnings óbreyttra palestínskra borgara en óbeint til stuðnings Hamas. Ekkert er minnst á 1400 borgara Ísraels, kornabörn, konur, menn og gamalmenni sem voru myrt á eins hrottalegan hátt og hægt er. Eða 240 gísla hryðjuverkamannanna. Engar mótmælagöngur eru gengnar til stuðnings Ísraels. Ömurleg eru líka örlög óbreyttra borgara á Gasa og í raun ættu mótmælendur að ganga fyrir hönd óbreytta borgara bæði í Ísrael og Gaza sem er bara saklaust fólk. Óskiljanlegt er að Íslendingar ganga ekki fyrir hönd saklausa borgara í Úkraníu, í því hrottalega stríðið.

Ég hef enga sérstaka skoðun á átökunum í Ísrael eða milli Úkraníu eða Rússlands, þ.e.a.s. með eða móti hvorum aðila, vona bara að hvorug átökin breiði úr sér og það komi til heimsstyrjaldar og þar með inn fyrir dyr Íslands. Að sjálfsögðu er ég á móti bæði stríðin en get lítið gert.

En ég skil ekki af hverju hryðjuverkamenn eru hylltir eða a.m.k. ekki fordæmdir af fólki sem gengur mótmælagöngur þeim til stuðnings en hryðjuverkamennirnir fyrirlíta þetta fólk og myndu ekki hika við að drepa það. Ég hugsa að flest allt þetta fólk sé til vinstri á litrófi stjórnmálanna og það kann að vera skýringin á framgöngu þess. En svona er heimurinn öfugsnúinn.


Að byggja á sprungusvæði og hrauni er að byggja á sandi

Það eru ekki mörg svið sem Íslendingar skara fram úr. Eitt þeirra er eldfjallafræði sem er undirgrein jarðfræðinnar sem fæst við rannsóknir á eldstöðvum. Þessi undirgrein jarðfræðinnar sem er stunduð á Íslandi er svo virt, að hingað leita erlendir eldfjallafræðingar til náms og starfa. Ástæðan er  að Ísland er eitt virkasta eldgosasvæði heims og þótt eldgos séu alls staðar um heiminn, er Ísland með allar tegundir eldgosa og jarðskjálfta.

En þrátt fyrir alla þessa sérfræðiþekkingu byggja Íslendingar á sandi. Það er afar undarlegt að íslenskir ráðamenn hafa ákveðið að byggja íbúðarhverfi og heilu bæjarfélögin á sprungusvæði og nýlega runnin hraun eins og gert er í Hafnarfirði.

Það er hefur lengi verið vitað að Ísland er að gliðna í sundur og skerst landið þvert í gegnum landið. Frá Reykjanesskaga, þvert yfir hálendið og Norðurland. Líkt og hnífur sem skorið hafi landið í tvennt. Af hverju landið er að gliðna í sundur (eins og sjá má greinilega á Þingvöllum) má rekja til landflekanna sem ýmis þrýstast saman (Himalajafjöllin sem þrýstast upp) eða gliðna í sundur eins og á Íslandi.

Menn sem sagt vita nákvæmlega hvar landið er að gliðna í sundur og hvar hraun hafa runnið á sögulegum tíma.

Byrjum á þeirri gáfulegri ákvörðun ráðamanna að byggja á sprungusvæði.  Það er gert í Grindavík og liggur stór hluti bæjarins á sprungusvæði. Hvers vegna í ósköpunum var byggt þarna en ekki einhverja km til vinstri eða hægri, er óskiljanleg ákvörðun. Nú getur bókstaflega gosið í miðjum bæ eða útjarðri eins og í Vestmannaeyjabæ 1973.

Annað dæmi um skammsýni ráðamanna sem nú hlustuðu ekki á vísindamenn en það er að byggja heilt íbúðahúsahverfi á Norðlingaholti þrátt fyrir að menn vissu af sprungusvæði þar undir. Þetta er sem sagt upplýst ákvörðun sem ekki er byggð á rökum vísindanna.

Menn hafa lengi vitað að tími er komin á eldsumbrot á Reykjanesskaga og vitað er að það líða um 800-1000 ár á milli hryðja og nú væri kominn tími á nýtt tímabil sem kannski skakar um 100 ár til eða frá en það þýðir að öll mannvirki sem byggð er á 20. eða 21. öld eru undir hættu að fara undir hraun eða jarðskálftar eyðileggi þau.

Að byggja orkuverið Svartsengi á kviku er gífurleg áhætta sem og Bláa lónið og menn vissu af því en gerðu samt. Nú telja menn að líklegast hefji líklegt gos við Hagafell og svo verður, mun hraunið renna niður til Svartsengi og Bláa lónsins en bæði mannvirki liggja eins og á botni matarskálar. Þess vegna eru menn að búa til varnargarða þarna en ekki í Grindavíkurbæ. En það er nokkuð ljóst að þessir varnargarðar muni ekki halda ef hraunið rennur þangað og mannvirkin fara undir. Af hverju var byggt á lægsta punkti er óskiljanlegt.

Endum þennan pistil á byggð á hrauni. Hafnarfjarðabær er bókstaflega byggður á hrauni. Sjá þessa slóð: Hvaðan kemur hraunið sem liggur yfir Hafnarfirði og að hluta til Garðabæ, og kom það allt úr sama gosi?

Þar segir: "Fyrir um 8000 árum varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell fyrir sunnan Hafnarfjörð...Í heild sinni nefnast þau Búrfellshraun, en eins og sést á kortinu bera ýmsir hlutar þess sérstök nöfn, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun." 

Sem betur fer er Búrfellshraun gamalt, um 8000 þúsund ára gamalt og kannski ekki miklar líkur á að það fari af staði næstu aldir. Kannski mesta hættan stafi af sprungu og misgengi sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni og að Kaldá.

Lærdómurinn af þessu öllu er að menn verði að hugsa í öldum, ekki áratugum þegar þeir byggja. Láta ekki stjórnmálamenn með dollaramerki í augum selja fólk og fyrirtæki lóðir byggðar á sandi. Jafnvel börnin vita að ekki eigi að byggja á sandi.

 

 

 

 


Unwoke: Hvernig á að vinna bug á menningarmarxisma í Bandaríkjunum og Evrópu?

Stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum endurspeglar ástandið annars staðar í heiminum, sérstaklega í Evrópu. Það er eins og ákveðnar stefnur verði fyrst til í Bandaríkjunum en breiðist svo út heiminn og ná jafnvel alla leið til Íslands sem er á útnára Evrópu.

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður á Bandaríkjaþingi, og situr fyrir hönd repúblikanaflokksins, skrifaði nýverið bók um menningarmarxismann sem nú virðist tröllríða vestræna menningu.

En merkilegt nokk, þá er menningarmarxisminn ekki nýr af nálinni, heldur varð hann til í háskólum vestan hafs fyrir rúmum 50 árum og ræturnar liggja í upplausn hefðbundina gilda þegar hippamenningin hófst. Víetnam stríðið magnaði þessa hugmyndafræði og þá, líkt og nú, gerðu vinstri sinnaðir stúdentar uppreisn gegn hefðbundnum gildum, svo sem um kjarnafjölskylduna, og nú áttu allir að stunda frjálsar ástir, fjölskyldan væri óþarfi og allir í kommúnunni að sjá um uppeldi barna sem ætti að vera frjálslind.

En þessi útópíska hugmynd gekk ekki upp.  Hippamenningin, sem er birtingamynd menningarmarxismann, dó út hægt og róleg í eiturlyfjavímu þeirra sem aðhylltust henni. Þeir sem dóu ekki úr eiturlyfjaneyslu, þurftu að fullorðnast og fara að vinna og stofna fjölskyldu. Nú er þetta fólk við stjórnvölinn í dag.

En varanlegu áhrif eru að varanleg rýrð er varpað á hefðbundin gildi.  Þjóðernisstefna er vond, fjölskyldan er ekki lengur karl og kona og börn, allt snýst um þarfir einstaklingsins en þarfir samfélagsins varpað á dyr. Tryggð og hollusta við ríkið horfið og fólk trúir á það sem það vill.  Ekkii má móðga einn eða neinn, það gæti "meitt tilfinningar" viðkomandi eða minnihlutahóp sem hann tilheyrir. Svo langt er gengið að ráðist er á málfrelsið, ef það leiðir í ljós hefðbundin gildi og skoðanir.

En það er athyglisvert að nýmarxisminn skuli birtast nú. Vinstri stefnan hefur aldrei dáið út, en hefðbundinn kommúnismi leið undir lok við fall Sovétríkjanna 1991. Sem stjórnmálastefna varð öllum hugsandi mönnum ljóst að hún gengi ekki upp í raunveruleikanum. Hóphyggjan sem birtist í að ríkið var alls ráðandi og kommúnísk efnahagsstefna, samvinnubúskapur, gengi ekki upp.  Kommúnisma stefna leiddi til gjaldþrot ríkja, efnahagslega og andlega.

En marxisminn lifði áfram í háskólum vestræna ríkja. Nú sátu marxískir prófessorar sveitir við að skipta um hugtök og hópa. Í stað öreiga voru komnir örminnihluta hópar eins og transfólk, en áfram var talað um kúgara og hina kúguðu, bara skipt um hópa.

Þessi stefna nær alltaf að endurreisa sig, bara með að skipta um orðfæri og það aldrei kom til uppgjör við alræðisstjórnir kommúnista eins og gert var við nasistanna. Menn skauta því framhjá voðaverkum kommúnista á 20. öld sem leiddi til dauða yfir 100 milljónir manna, fleiri en nastistar náðu að koma fyrir kattarnef.

Stefna sem ræðst á einstaklinginn og hamlar tjáningu hans og vill alsherjar afskipti ríkisvaldsins af daglegu lífi hans, mun ganga sér til húðar. Nú eru merki að stefnan er komin í vörn. Menn eru meðvitaðir hvað hún leiðir til og menn upplifað á eigið skinn í valdatíð Joe Bidens sem er líklega fyrsta nýmarxíska ríkisstjórn Bandaríkjanna. Biden/Demókratar sögðust vera boðberar n.k. miðjustefnu í síðustu forsetakosningum en raunin var að nýmarxísk stefna hefur leitt til andlegt og efnahagslegs gjaldþrot Bandríkjanna.

Ted Cruz skrifaði eins og áður sagði bók um fyrirbrigðið. Í kynningu á bókinni segir:  Demókrataflokkurinn er nú stjórnað af menningarmarxista. Svo eru háskólarnir okkar og opinberir skólar, fjölmiðlar, Big Tech og stórfyrirtækin. Fyrirtæki þrýsta kynskiptingum niður í kok viðskiptavina sinna. Bankar refsa byssubúðum. Hollywood móðgar trúarskoðanir okkar og tælir börnin okkar. Stóru fjárfestingarfyrirtækin nota eftirlaunasparnaðinn okkar til að efla málstað vinstri manna. Og Biden-stjórnin hefur breytt hernum okkar í innrætingarbúðir fyrir vinstri skoðanir, vanrækt öryggi í samgöngum til að einbeita sér að loftslagsbreytingum og ofsótt friðsamt baráttufólk fyrir líf barna í móðurkviði á sama tíma og hún skilur eftir brennuvargana sem brenna borgir landsins." Unwoke: How to Defeat Cultural Marxism in America Hann kemur með þrjú ráð, þar á meðal að stofna podcast og deila skoðunum sínum á samfélagsmiðlum. Einnig að aftengja háskólanna og hugmyndafræðina innan þeirra og það er gert með að hætta að styrkja þá fjárlagslega.

En New York Post fer skipulegra í þetta og nefnir 10 leiðir til að eiga við wokisma - 10 ways to fight back against woke culture

1. Minntu sjálfan þig á eftirfarandi sannleika: Þú ert frjáls.

Það er satt að við lifum á hverfandi hveli þar sem að ýta á „like“ hnappinn á röngum stað og tíma sem getur haft ómældar afleiðingar. En að gefa eftir fyrir þeim sem leitast við að takmarka þig skaðar þig aðeins til lengri tíma litið. Tap þitt fyrir sjálfum þér er það mikilvægasta sem hægt er að taka frá þér. Ekki gefast upp fyrir einn eða neinn.

2. Vertu heiðarleg(ur)

Ekki segja neitt um sjálfan þig eða aðra sem þú veist að er rangt. Neita algerlega að láta huga þinn vera nýlendu annarra. Það fyrsta sem einhver biður þig brjálæðislega um að trúa eða játa, neitaðu staðfastlega. Ef þú getur, gerðu það upphátt. Það eru góðar líkur á því að það hvetji aðra til að tjá sig líka.

3.  Haltu þig við meginreglur þínar

Ef þú ert heiðarlegur maður, þá veistu að mafíuréttlæti er aldrei réttlátt. Svo aldrei ganga til liðs við múg. Aldrei. Jafnvel þó þú sért sammála múgnum. Ef þú ert almennileg manneskja, veistu að það er rangt að svíkja vini. Þannig að ef vinur eða samstarfsmaður gerir eitthvað sem þú ert ósammála skaltu skrifa þeim einkaskilaboð. Ekki vera töffari. Sérhver múgur sem kemur eftir þeim mun koma eftir þig.

4. Settu fordæmi fyrir börnin þín og samfélagið þitt

Það þýðir að vera hugrökk/hugrakkur. Það er skiljanlega erfitt. Virkilega erfitt. En á öðrum tímum og stöðum, þar á meðal hjá okkar eigin þjóð, hefur fólk fært miklu meiri fórnir. (Hugsaðu um þá „heiðruðu dánu“ sem „gáfu síðasta fulla mælinn af hollustu.“ í baráttu fyrir land og þjóð í stríðum) Ef nógu margir taka stökkið munum við ná einhverju eins og hjarðónæmi. Stökktu.

5. Ef þér líkar það ekki, slepptu því

Námskeið í háskóla, í vinnu, hvað sem er. Farðu út og gerðu þitt eigið. Ég skil alveg hvatann að vilja breyta hlutum innan frá. Og fyrir alla muni: Reyndu eins mikið og þú getur. En ef hlébarðinn er núna að borða andlit manneskjunnar í klefanum við hliðina á þínu, þá lofa ég að hann mun ekki forðast að borða þitt ef þú birtir svarta ferninginn á Instagram.

6. Vertu meira sjálfs þíns eigið

Ef þú getur lært að nota rafmagnsbor, gerðu það. Ef þig hefur alltaf langað í heitan pott utandyra skaltu búa til einn. Lærðu að spæla egg eða skjóta úr byssu. Mikilvægast: Komdu því í kollinn að samfélagsmiðlar eru ekki hlutlausir. Ef þú trúir mér ekki, horfðu á Parler og líttu á Robinhood. Að því marki sem þú getur byggt líf þitt upp til að vera sjálfbjarga og ekki treysta 100 prósent á veraldarvefinn, þá er það gott. Það mun láta þig líða hæfari og kraftmeiri. Sem þú ert.

7. Tilbiðja Guð meira en Yale

Með öðrum orðum, ekki missa sjónar á því sem er nauðsynlegt. Faglegt álit er ekki nauðsynlegt. Það er ekki nauðsynlegt að vera vinsæll. Það er ekki nauðsynlegt að fá barnið þitt í úrvalsleikskóla. Það er nauðsynlegt að gera rétt. Það er nauðsynlegt að segja sannleikann. Það er mikilvægt að vernda börnin þín.

8. Eignstu vini með sama hugarfari

Stattu þá upp fyrir þeim. Tvö góð próf: Eru þeir tilbúnir til að segja sannleikann, jafnvel þótt það bitni á þeirra eigin hlið? Og halda þeir að húmor eigi aldrei að vera háður stað og stund, sama hversu svartar aðstæðurnar eru? Þetta fólk er æ sjaldgæfara. Þegar þú finnur það skaltu halda fast utan um það.

9. Treystu eigin augum og eyrum

Treystu á upplýsingar frá fyrstu hendi frá fólki sem þú treystir frekar en á útúrsnúningi fjölmiðla. Þegar þú heyrir einhvern alhæfa um hóp fólks skaltu ímynda þér að hann sé að tala um þig og bregðast við í samræmi við það. Ef fólk er í því að endurspegla fyrirsagnir og umræðuefni, láttu þá það sanna málið, með eigin orðum.

10. Notaðu fjármagnið þitt til að smíða frumlega, áhugaverða og skapandi hluti. Núna!

Daglega heyri ég í þeim sem eiga í erfiðleikum með börn í einkaskólum sem eru í heilaþvotti; fólk sem rekur fyrirtæki þar sem það er hrætt við eigið starfsfólk; fólk sem gefur til alma mater þó það svíki meginreglur þeirra. Nóg komið. Þú hefur getu til að byggja nýja hluti. Ef þú hefur ekki fjármagnið, þá hefurðu félagslegt eða pólitískt fjármagn. Eða hæfileikann til að svitna. Verk lífs okkar er hin mikla bygging. Förum af stað.

---

Auðvelt að er að yfirfæra þetta á íslenskar aðstæður og þær eru ekkert ósvipaðar og í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu.

 

 

 


Borgar sig að leggja jarðgöng á Íslandi?

Íslendingar hafa ekki verið duglegir að bora jarðgöng miðað við að Ísland er fjallaland og stórt. Á vegakerfinu í dag eru 14 jarðgöng sem alls eru yfir 70 km að lengd. 

Það sem einkennir íslensk jarðgöng er að þau eru öll, utan Hvalfjarðargöngin, fjallagöng, þ.e.a.s. boruð í gegnum fjöll. Hvalfjarðargöngin ein eru neðansjávargöng.

Ef við berum okkur saman við Færeyjar, þá eru fjórðu neðansjávargöngin, Sandeyjargöngin, að opna þann 21. desember næst komandi. Í Færeyjum eru 23 jarðgöng, ýmis í gegnum fjöll eða neðansjávar eins og áður hefur komið fram.

Færeyingar eru ekki hættir en fern ný göng eru í pípunum, þar af ein neðansjávargöng til Suðureyjar. Þau yrðu ekki smá smíði, yfir 26 km að lengd. Suðurey er afskekktasta eyja Færeyja í suðri, þangað er tveggja stunda ferjusigling.

Af hverju er hér verið að bera okkur saman við Færeyjar? Jú, málið snýst um hvort það borgi sig að fara í jarðgangnagerð.  Færeyingar  telja svo vera.

Jafnvel Sandeyjargöngin, sem eru um 11 km löng, borga sig þótt aðeins 300-400 bílar fari um göngin daglega. Ástæðan er einföld, það er rándýrt að vera með ferjusiglingar milli eyja Færeyja. Göng í Færeyjum sem leysa af ferjur, eru því að meðaltali 15 ár að borga sig upp. Utan það að tengja allar eyjarnar í eina heild er þjóðhagslega hagkvæmt.

Því ættu neðansjávargöng til Vestmannaeyjar að vera þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið. En slík göng eru sambærileg við neðansjávargöng til Suðureyja. Vegalengd beggja gangnanna er svipuð og kostnaðurinn svipaður. Svipaður íbúafjöldi er í báðum eyjum og ferjusiglingar myndu leggjast af.

Svarið við spurningunni í titli greinarinnar er því já. Neðansjávargöng sem leysa ferju af, borga sig á x löngum tíma og síðan er bara hagnaður.  Annað mál er með jarðgöng í gegnum fjöll, oft eru þau samgöngubætur, gera byggðalög vegtengd að veðralagi sem eru kröfur nútímans. Þau eru lengur að borga sig upp en gera það að lokum.

Í samgöngu áætlun ætti a.m.k. ein göng að vera í smíðum hverju sinni en menn hika. Jafnvel jarðgöng við Vík í Mýrdal er frestað út í það óendalega, þótt auðljóst að þau borgi sig.

Að lokum, svo er það eilífðar verkefnið að leggja Sundabrautina. Sem menn annað hvort sjá fyrir sér sem jarðgöng eða brýr eða hvorutveggja. Menn vita af tug milljarða hagnaði af að leggja veginn en samt er hikað. En nú er þetta líka spurning um öryggi íbúa höfuðborgasvæðisins, þ.e.a.s. ný flóttaleið úr borginni ef til nátttúruhamfara kæmi. Mun eldgos í nágrenni höfuðborgarsvæðisins koma mönnum af stað?

Íslendingar lifa nú við breyttan veruleika. Þeir verða að passa sig hvar þeir leggja nýjan flugvöll í stað Reykjavíkurflugvöllinn, og auðljóst er að Hvassahraunsflugvöllurinn er úr myndinni, þótt þrjóskir borgarstjórnarmenn í Reykjavík vilja ekki viðurkenna raunveruleikann.


Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts - Hér er svarið!

Svarið er einfalt og hægt að svara með einu orði: Engin.

Skattar eru lagðir á með pólitískum ákvörðunum. Því er allur gangur á því hvort hægt sé að finna sérstaka réttlætingu fyrir álagningu þeirra segir Gylfi Magnússon prófessor í hagfræði á Vísindavefnum: Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts?

En Gylfi reynir samt að bjarga sér fyrir horn og talar um umframbyrði skatta. Hann útskýrir það í öðru svari á Vísindavefnum og segir: "Nær allir skattar reka fleyg á milli ábata einstaklings af ákvörðun sem hann tekur og ábata þjóðfélagsins sem heildar af ákvörðuninni. Útkoman getur hæglega orðið sú að einstaklingar taka ákvarðanir sem koma þeim vel en öðrum illa. Kostnaður þjóðfélagsins vegna slíkra ákvarðana er nefndur umframbyrði skatta á máli hagfræðinnar." Hvað er átt við með umframbyrði skatta?

Með öðrum orðum með því að einstaklingur minnkar tekju- og virðisaukaskattgreiðslur sínar (t.d. með því að mála heima hjá sér og sleppa því að mæta í vinnu) en fyrir vikið verður annaðhvort að draga úr þjónustu ríkisins eða leggja hærri skatta á einhverja aðra til að vega upp á móti þessu. Hvernig þessi rök megi heimfærast upp á látið fólk, er mér hulin ráðgáta. Er verið að refsa hinn látna fyrir að deyja og ríkið verði af tekjum? Er einstaklingurinn ekki búinn að greiða tekjuskatta og aðra skatta, þar á meðal eignaskatta, til ríkisins allt sitt líf?

Gylfi viðurkennir að "Ekki liggur fyrir haldgóð greining á áhrifum erfðafjárskatts á Íslandi, hvorki hvað varðar umframbyrði skattsins né áhrif hans á tekju- eða eignaskiptingu."

Svo segir Gylfi og kemur með hina raunverulegu skýringu á erfðaskattinum: "Í mörgum löndum Vestur-Evrópu má rekja álagningu erfðafjárskatts til lénskerfis miðalda. Þá var gjarnan litið svo á að flestar eignir og sérstaklega landareignir tilheyrðu viðkomandi þjóðhöfðingja og leyfi hans þyrfti til að færa þær til erfingja við andlát." Auðvitað vildi hann kúga út fé fyrir náðsamlegt leyfi sitt.

Þetta er svipað og þegar lénsherrann fékk að sofa hjá nýgifri konu, af því að hann var eigandinn yfir líf og limum allra lénsþegna hans.  Í stað lénsherrann er komið hið almáttuga ríki sem gýn yfir öllu, sem vill stjórna lífi fólks frá vöggu til grafar. Það eru því engin efnisleg rök fyrir erfðaskatta, bara skatta græðgi ríkisvaldsins. 

Hvernig var þetta þegar ekkert ríkisvald var til á þjóðveldisöld? Engir skattar á Íslandi þar til kirkjan var stofnun 1056. Þá var komið á svonefnd tíund.

Tíund var 10% tekjuskattur - bændur greiddu 10% af uppskerunni, handverksmenn 10% af framleiðslunni í Evrópu - en hér var tíundin greidd af eign og var því eignaskattur eða öllu heldur eignaaukaskattur. Gert var ráð fyrir því að eignir manna ykjust um 10% árlega og greiddu 10% af eignaaukanum, eða 1% af heildareign. Þetta er lítil skattlagning en skipti máli ef menn voru leiguliðar. Ekkert er talað um erfðafjárskatt.

Grímur Jónsson, fyrrverandi amtmaður, lagði fyrstu drögin að því að hið forna tíundarkerfi yrði lagt af 1840. 40 ár tók að koma nýju skattkerfi í framkvæmd (1879). Það var ekki fyrr en 1911 sem fyrstu lög um erfðafjárskatt var komið á Íslandi (Þá féllu úr gildi tilskipun frá 12. september 1792 og opið bréf konungs 8. febrúar 1810 um erfðafjárgjald).

Er ekki tilvalið að leggja þessa auka skatta af sen engin raunveruleg réttlæting er fyrir?  Mun ríkið ráðstafa þessum skatta af dauðu fé á betri hátt en erfingjarnir og á ríkið nokkuð að eiga hlut í máli? Nei! Blóð, sviti og tár liggja oft að baki ævisparnaði. Ríkið verðskuldar því ekkert af arfi viðkomandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband