Stjórnvöld óhæf að reka Landhelgisgæsluna - hvað er þá til ráða?

Úrdráttur: Höfundur leggur til að hlutverk Landhelgisgæslunnar verði endurskilgreint. Hún fái hlutverk sjóhers í samblöndu við landhelgisgæslu. Fyrirmynd: Bandaríska landhelgisgæslan. Fjármögnuð af NATÓ og fjárlögum.

Íslendingar hafa stigið misgáfuleg skref í tryggingu eigin varna. Stundum hafa þeir verið neyddir til ákvörðunartöku, samanber í Napóleon stríðunum og í fyrri og seinni heimsstyrjöld en stundum hafa þeir tekið af skarið. Það gerðu þeir þegar landið gékk í Atlantshafsbandalagið 1949 og gerði tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin 1951 sem hefur verið endurnýjaður reglulega.

Íslendingar gengu svo langt að leyfa erlenda hersetu (í merkingunni  boðs Íslendinga) frá 1951-2006 þegar Bandaríkjaher ákvaða að pakka saman einhliða og fara úr landi. Margir misstu spón úr aski og íslenskir ráðamenn lögðust á hné og grátbáðu Bandaríkjamenn, sem vinstri elítan hafði skammað í áratugi (og gerir enn) um að fara ekki úr landi.

Eftir á að hyggja, er það gott mál að Bandaríkjaher fór og í staðinn fáum við flugsveitir samherja í NATÓ reglulega til landsins sem hjálpast að við verja loftrými Íslands. En það vill gleymast að Íslendingar sjá sjálfir um loftrýmisgæslu og við höfum fjórar ratsjárstöðvar af bestu gerð sem halda uppi daglegu eftirliti. Kostað af NATÓ og okkur að hluta til. 

Á vef Landhelgisgæslunnar segir:

„Íslenska loftvarnakerfið er hluti af samþættu loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins (NATO). NATO hefur kostað uppbyggingu loftvarnakerfisins. Flest mannvirkin eru á eignaskrá Atlantshafsbandalagsins.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar annast rekstur loftvarnakerfisins og mannvirkja Atlantshafsbandalagsins, þ.m.t. ratsjár- og fjarskiptastöðvar hérlendis.   Sá rekstur er eitt veigamesta framlag Íslands til sameiginlegra varna ríkja NATO.“

En loftrýmisgæsla er eins og orðið gefur til kynna loftrýmisgæsla.  Ísland er eyríki, umkring Atlantshafi og er staðsetning landsins hernaðarlega mikilvægt og hefur altaf verið það, sama hvað menn segja. Landið spilaði stóra rullu í orrustunni um Atlantshafið í seinni heimstyrjöldinni og í dag er það hliðið í GIUK varnarkeðjunni en það er hafsvæði milli Íslands og Grænland og Íslands og Skotlands. Sá sem stjórnar þessari varnarlínu stjórnar Norður-Atlantshafinu og í raun einnig Mið-Atlantshafinu. GIUK á að vera varnarkerfi gegn kafbátaárás, væntanlega þá Rússlands, en í tryggir í raun aðflutningsleiðir aðfanga milli Norður-Ameríku og Evrópu, rétt eins og í seinni heimsstyrjöld. Slíkt er ekki hægt að meta til fjár.

Eins og ég hef margoft komið inn á, er Landhelgisgæsla Íslands í fjársvelti og lág punkturinn var þegar við þurftum að senda byssubát okkar og flugvél til Miðjarðarhafssins við landmæraeftirlit Evrópusambandsins vegna þess að íslenska ríkið skar niður fjárframlög til stofnunnar eftir efnahagshrunið 2008. En eftir að Varnarmálastofnun Íslands var lögð niður af vinstri mönnum, hefur Landhelgisgæslan annast varnartengd verkefni, síðan 2011 ef ég man rétt.

En hver eru helstu verkefnin? Kíkjum á vef Landhelgisgæslunnar (LHG):

Helstu verkefni varnamálasviðsins eru: 

  1. Rekstur íslenska loftvarnakerfisins, þ.m.t. fjarskiptastöðva og ratsjárstöðva Atlantshafsbandalagsins hérlendis.
  2. Þátttaka í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins samkvæmt varnarmálalögum og á grundvelli þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að.
  3. Rekstur, umsjón og hagnýting öryggissvæða og mannvirkja þar í eigu íslenska ríkisins og Atlantshafsbandalagsins í samræmi við notendaríkis- og gistiríkishlutverk Íslands.
  4. Undirbúningur og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis. 
  5. Úrvinnsla upplýsinga úr upplýsingakerfum Atlantshafsbandalagsins og undirstofnana þess. 
  6. Þátttaka í starfi nefnda og undirstofnana Atlantshafsbandalagsins er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin samkvæmt samningi þessum.
  7. Verkefni sem varða framkvæmd varnarsamningsins. 
  8. Samstarf við önnur stjórnvöld, stofnanir eða opinber hlutafélög sem hafa með höndum verkefni sem tengjast varnarmálum. 
  9. Samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta á sviði varnarmála er varðar þau verkefni sem Landhelgisgæslu Íslands eru falin. 

Gistiríkjastuðningur

Landhelgisgæslan annast daglega framkvæmd gistiríkjastuðnings fyrir liðsafla Atlantshafsbandalagsins og Atlantshafsbandalagsþjóðanna hér á landi. Í verkefninu felst m.a. að taka á móti erlendum liðsafla sem til Íslands kemur, til æfinga, loftrýmisgæslu og annarra tengdra verkefna, tryggja hópunum gistiaðstöðu, aðgang að fæði, hreinlæti, afþreyingu og ferðum innan öryggissvæðisins.   

Öryggissvæðin

Öryggissvæðin eru lokuð, afgirt og þau vöktuð. Öryggissvæðin eru á þessum stöðum: 

  1. Ratsjár- og fjarskiptastöðvarnar á Miðnesheiði, Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli.
  2. Olíubirgðastöðin í Helguvík
  3. Öryggissvæðið við Keflavíkurflugvöll.

Tilvísun endar. Heimild: https://www.lhg.is/varnarmal/loftrymisleit-og-islenska-loftvarnarkerfid

Þannig sé er LHG tæknilega hernaðarstofnun þótt stjórnmálamennirnir þverneita slíku og tala fjálglega um friðsama Ísland (sem er þó meðlimur í hernaðarbandalagi!).

Ísland myndi aldrei hafa neina burði, jafnvel þótt það kæmi sér upp standard her, til að taka þátt í hernaðaraðgerðum NATÓ á meginlandi Evrópu en landið getur þó sjálft passað upp á hliðið GIUK og sjálft sig um leið sem er veikasti hlekkurinn í vörnum bandalagsins í vestri.

Við ætlum því að bjóðast til að sjá um sjóvarnir eða réttara sagt eftirlit á hafsvæðinu í kringum Ísland. LHG, eftir að hlutverk þess hefur verið endurskilgreint í lögum enda er stofnunin í dag fyrst og fremst löggæslustofnun, gæti séð um þetta eftirlit og NATÓ borgar kostnaðinn. Helsti kosturinn yrði að tækjabúnaður LHG myndi stórbatna og hún fengi tól og tæki til þessara verka. Hér má nefna ratsjárflugvél og tundurspillir sem LHG fengi til umráða.

Ef menn lesa örlítið í sögubækur, þá sjá menn út að það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær ófriður ber næst að ströndum landsins. Allt frá tímum Napóleon styrjaldanna, hefur sjóhernaður í Atlantshafi haft bein áhrif á landið. Í næstu stórstyrjöld verður Ísland þátttakandi, viljugt eða óviljugt.

Loftvarnir Íslands

Það vill gleymast að Ísland getur státað af nokkuð góðu loftvarnarkerfi með ratsjárstöðvar í öllum landshlutum og loftrýmisgæsla er gætt af bandalagsþjóðum í NATÓ. Landhelgisgæslan tekur einnig þátt í varnartengdum verkefnum (heræfingum á landi með samstarfsþjóðunum í NATÓ). 

Í raun eru landvörnum landsins vel sinnt. En hvað með sjóvarnir? Landhelgisgæslan ver ekki bara landhelgina, heldur gegnir hún varnarhlutverki samkvæmt varnarlögum eins og sjá má af upptalningunni hér að ofan.

Til að sinna varnarhlutverkinu, þá borga Íslendingar í sjóði NATÓ og fá í staðinn fullkomið loftvarnarkerfi sem þjónar einnig borgaralegu hlutverki.

Ísland gegnir lykilhlutverki í kafbátavörnum Atlantshafsbandalagsins í svokölluðu GIUK hliðinu, eins og minnst hefur verið hér á, sem er svæðið á milli Grænlands og Íslands og Íslands og Skotlands. Kafbátaleitaflugvélar eru stöðugt að vakta svæðið.

Endurskilgreing Landhelgisgæslunnar - gerð að samblöndu af sjóher og landhelgisgæslu að bandarískri fyrirmynd

Fyrirmyndina má leita til Bandarísku landhelgisgæslunnar.Ég skrifaði grein um hana hér á blogginu, grípum niður í hana.

Bandaríska landhelgisgæslan (The United States Coast Guard (USCG)) er undirstofnun sem tilheyrir bandaríska heraflanum. Hann aftur á móti samanstendur af fimm herstofnunum og telst hún vera ein af þeim. Landhelgisgæslan er siglinga- og herstofnun sem hefur fjölþætt verkefni að glíma við. Hún er einstök að því leytinu til að hún stundar siglingaverndarverkefni með lögsögu bæði á innlendum og alþjóðlegum hafsvæðum.

Á friðartímum starfar hún undir stjórn Heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna (e. U.S. Department of Homeland Security) en getur verið sett undir stjórn og vald flotamálaráðuneyti Bandaríkjanna (e. U.S. Department of the Navy) með tilskipun forseta Bandaríkjanna eða bandaríska þingsins hvenær sem þurfa þykir á stríðstímum. Þetta hefur gerst tvisvar sinnum í sögunni, árið 1917 þegar Bandaríkin hófu þátttöku í fyrri heimsstyrjöldin og árið 1941 þegar þau drógust inn í átök seinni heimsstyrjaldarinnar.

Undanfari landhelgisgæslunnar, Revenue Marine, var stofnuð af löggjafaþing Bandaríkjanna þann 4. ágúst árið 1790 að beiðni Alexanders Hamiltons, en hann var þá fjármálaráðherra. Hann varð þar með yfirmaður stofnunar sem var n.k. tollheimta og kallaðist Revenue Marine. Þetta er elsta starfandi sjávarmálastofnun Bandaríkjanna og upphaflegt hlutverk hennar að safna tollgjöldum í höfnum landsins. Þessi stofnun skipti um nafn á sjöunda áratug 19. aldar og kallaðist þá U.S. Revenue Cutter Service eða í lauslegri þýðingu "tekjuskattsinnheimtustofnun Bandaríkjanna“.

Landhelgisgæsla nútímans var til með samruna Revenue Cutter Service og Sjóbjörgunarþjónustu Bandaríkjanna (e. U.S. Life Saving Service) þann 15. janúar 1915 undir valdsviði Fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna. Þar sem hún tilheyrir hinum fimm vopnuðu herstofnunum landsins, hefur Bandaríska landhelgisgæslan tekið þátt í öllum stríðsátökum frá 1790 til stríðsins í Afganistan í dag.

Árið 2014 voru í landhelgisgæslunni 36 þúsund manns starfandi, 7 þúsund varaliðar og tuttugu og níu þúsund í aðstoðar- eða hjálparsveitir. Um sjö þúsund störfuðu sem borgaralegir starfsmenn og að stærð er hún þar með 12. stærsta flotaeining í heiminum.

Lagaheimild Landhelgisgæslunnar er ólík hinna fjögurra herstofnana ríkisins að því leitinu til að hún starfar samtímis undir margvíslegum laga- og reglugerðum ýmissa stofnana.

Vegna lagaheimildar sinnar getur gæslan stundað hernaðaraðgerðir undir stjórn Varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna eða beinum tilskipunum Bandaríkjaforseta.

Varanlegt hlutverk landhelgisgæslunnar er að annast málefni er varðar almenna siglingavernd, sjóöryggismál og sjóhernað. Til þess að sinna þessum hlutverkum þarf hún að hlýta 11 lögbundin verkefni eins og er skilgreint í lagabálknum 6 U.S.C. § 468 sem felur m.a. að framfylgja bandarískum lögum í stærstu efnahagslögsögu heimsins sem er 3,4 milljónir fersjómílur (8.800.000 km2) að stærð. Einkunnarorð Bandarísku landhelgisgæslunnar er á latínu og útleggst sem Semper Paratus (íslenska: Alltaf reiðubúin).

Er þetta eitthvað sem við Íslendingar getum lært af Bandaríkjamönnum? Nýtt Landhelgisgæsluna íslensku til löggæslustarfa á friðartímum en henni breytt í sjóher á stríðstímum? Verður hún hvort sem er ekki skotmark óvinahers? Það er næsta víst að Keflavíkurflugvöllurinn verður skotmark en varnarmannvirkin þar eru í umsjá Landhelgisgæslunnar.

Lokaorð

Hér gæti Ísland tekið að sér þetta varnarhlutverk og Landhelgisgæslunni falið það á hendi. Til þess þyrfti hún skipakost, sem væri þá freigátur og kafbátaleitaflugvélar.

Tvennt þyrfti til að þetta gæti orðið að veruleika. Fá tækjakostinn sem til þarf og þar gæti Atlantshafsbandalagið komið til sögunnar og borgað brúsann. Þessu er hvort sem sinnt, en bara ekki af okkur Íslendingum.

Hins vegar þyrfti að endurskilgreina hlutverk Landhelgisgæslunnar og hún skilgreind bæði sem landhelgisgæsla og herfloti í lögum. Einfalt í framkvæmd, á friðartímum gegnir hún meginhlutverki að vera landhelgisgæsla en á ófriðartímum breytist hún í herflota. Þetta er gert í Bandaríkjunum, þar er US Coast Guard í hlutverki landhelgisgæslu á friðartímum en er tekin og sett undir stjórn bandaríska flotans á ófriðarskeiði.

Eigum við ekki að hætta þessum feluleik og girða í bók og gera það sem þarf að gera? Ísland segist vera herlaust land en er fullvarið af bandalagsþjóðum og það er í hernaðarbandalagi og með tvíhliða varnarsamning við stórveldið Bandaríkin. Þetta er svo augljós staðreynd að  Vinstri grænir nenna ekki einu sinni eða þora ekki að hrófla við stöðu landsins innan NATÓ. Ef þriðja heimstyrjöldin skellur á, þá er Ísland ekki í sömu stöðu og þegar heimsstyrjöldin síðar hófst, hlutlaust land. Það verður ráðist jafnt á Ísland sem og aðrar NATÓ-þjóðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband