Sagnfræði prófessor úti á túni

Sagnfræðiprófessorinn Helgi Þorláksson er að gefa út bók nú fyrir jólin sem ber heitið Á Sögustöðum. Hann birtist í viðtali í Silfrinu og kynnti bók sína.  Ætla mætti að hann sé að koma með stórkosleg ný tíðindi, nýtt framlag til Íslandssögunnar með þessari útgáfu.

En þess fer víðs fjarri ef marka má viðtalið við hann og lýsingu á bókinni, sem er eftirfarandi: "Hugmyndir okkar um sögustaði landsins mótuðust yfirleitt af þjóðernisrómantík á 19. og 20. öld. Hér er fjallað um sex fræga og óumdeilda sögustaði í nýju ljósi: Bessastaði, Hóla, Odda, Reykholt, Skálholt og Þingvelli. Sagan er rakin og leitað svara við spurningunni: Hvað er eiginlega svona merkilegt við sögustaði? Stórfróðleg og áhugaverð bók!"

Á vef Bókabúðar forlagsins er bókin kynnt svona:

"Hugmyndir okkar um sögustaðina sex mótuðust af þjóðernisrómantík á 19. og 20. öld, aðdáun á gullöld sem gat orðið að gullaldarglýju. Þjóðernishyggjunni fylgdi svo andúð á erlendu valdi og erlendum áhrifum í ýmsum myndum. Þótt nærri 80 ár séu frá því að lýðveldið var stofnað eimir enn eftir af viðhorfum til manna, staða og málefna sem urðu til í sjálfstæðisbaráttunni, þar sem hið innlenda og þjóðlega þykir æskilegt en flest erlent og alþjóðlegt óæskilegt. Það er sannarlega kominn tími á gagngert endurmat.

Þess er að vænta að afstaða margra muni breytast við lestur bókarinnar þar sem almenn menningarsaga fær að vega þyngra en bjöguð stjórnmálasaga."

Í viðtalinu segir hann að tími sé kominn til uppgjörs við "söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar". Hvers konar vitleysa er þetta? Þetta hljómar eins og söguskrif og sagnfræðin sem fræðigrein sem varð til á 20. öld, hafi ekki þróast á hundrað árum og við séum föst í "söguskoðun sjálfstæðisbaráttunnar".

Það getur vel verið að menn séu enn í fílabeinsturni í Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði og það hefur ef til vill farið fram hjá honum að hrein bylting í ritun sögu og rannsóknum Íslandssögunnar hefur átt sér stað síðastliðna áratugi.

Ýmsar hliðargreinar og rannsóknir hafa þróast innan sagnfræðinnar.  Nú er til dæmis kennd sérstök kvennasaga og reynt er að skoða í nútímakennslubókum aðrar hliðar á frægum sögupersónum. T.d. beint athygli að eiginkonum Ingólfs Arnarssonar og Jóns Sigurðssonar (sjá til dæmis kennslubókina Jón Sigurðusson og hugmyndir 19. aldar. Saga fyrir unglingastig grunnskóla eftir Árna Daníel Júlíusson...saga beggja kynja sögð segir á bakkápunni), svo dæmi séu nefnd.

Barnasaga er kennd og gríðarleg framþróun hefur orðið í rannsóknum á hagsögu, félagssögu, stjórnmálasögu og mörgum öðrum greinum sögunnar (saga einstaklinga - einsaga, félaga, stofnanna o.s.frv.) og ekki síðst eftir að Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands var stofnuð árið 1971 en hún starfar innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands samkvæmt lögum um Háskóla Íslands, reglugerð Hugvísindastofnunar og reglum um stofnunina frá 2016. Þar segir: "Hlutverk Sagnfræðistofnunar er að vera vettvangur rannsókna í sagnfræði og menningarmiðlun, gangast fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum og gefa út fræðirit." Helgi Þorláksson er ef til vill að segja engar breytingar hafi átt sér stað í söguvitund og söguskoðun frá stofnun Sagnfræðistofnuninnar frá 1971?

Hér er Helgi að vísa í frumkvöðlanna í útgáfu kennslubóka í sögu fyrir skóla landsins, þar er jú sú þekking og söguskoðun sem þjóðin byggði mat sitt á fortíðina lengi vel og þá sérstaklega Jónas frá Hriflu sem skrifaði Íslandssaga handa börnum sem kennd var í grunnskólum fram undir 1970.

Kollegi hans, Guðni Th. Jóhannesson, er ekki sammála Helga að Jónas frá Hrifu og söguskoðun hans hafi verið "hræðileg" (sjá ræðuna: "Ávarp forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessonar á hátíðarsamkomu á Bifröst í tilefni af hundrað ára afmæli skólahalds, frá Samvinnuskólanum að Háskólanum á Bifröst, 3. desember 2018").

Þar segir: "Fyrir rúmri öld birtist rit hans, Íslandssaga handa börnum. Hún var víða kennd í skólum fram yfir 1970, einhver langlífasta kennslubók landsins. Jónas vildi, eins og hann sagði sjálfur, „skýra sögulega viðburði og andlegt líf með því að lýsa yfirburðum forystumanna þjóðanna á hverjum stað og tíma“. Hitt bæri að varast að fara eftir erlendum og framandi kenningum þar sem sögunni vindur fram eins og skriðjökli niður fjallagljúfur svo að „mannlífsstraumurinn sígur undan sínum eigin þunga“. Íslandssaga Jónasar var ekki bara lesin, hún var vinsæl." Og svo segir: " „Við lásum Jónas frá Hriflu,“ sagði sagnfræðingur einn líka fyrir nokkrum árum, „kennslubók fyrir börn, sem er nú alveg fáránlega þjóðernissinnuð ef maður les hana í dag. En mér og öðrum krökkum fannst hún bara almennt skemmtileg.“ Og Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur, sem hefur kennt hér við skólann, skrifaði eitt sinn á Fésbók: „Man enn þegar ég fékk í hendurnar Íslandssögu Jónasar, loksins fékk maður að læra eitthvað skemmtilegt!"

Hvað segir sjálfur kennari sagnfræðinganna, sagnfræðiprófessorinn Gunnar Karlsson sem var hver mest mótandi kennari sagnfræðiskorarinnar á sínum tíma og hafði áhrif á kennslubókahöfunda framtíðarinnar, þar á meðal mig.

"Í grein Gunnars Karlssonar leitar hann að markmiðum fyrir sögukennslu og lítur þá fyrst til fyrri tíðar, einkum þeirra markmiða sem birtast í kennslubókum í Íslandssögu og sér í lagi hinnar langlífu sögubókar Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Hann dáist á margan hátt að kennslubók Jónasar, telur hana hafa einkenni góðrar spennusögu þar sem allt er „með felldu á yfirborðinu“ í fyrstu (þjóðveldisöld), síðan fellur á tími átaka „milli góðra Íslendinga og vondra útlendinga“ „en að lokum fer allt vel“ með kraftmiklum einstaklingum (Skúla fógeta, Jóni Sigurðssyni o.fl.) sem leiða þjóðina til sjálfstæðis og sjálfsbjargar (Gunnar Karlsson, 1992, bls. 18). Kennslubækur Jónasar og Jóns Aðils komu út aðeins þrem árum fyrir fullveldið 1918 þegar sjálfstæðisbaráttunni lauk „í raun“ að mati Gunnars og við tóku opnari innanlandsátök í stjórnmálum og félagasamtökum: „Það var sannarlega á síðustu stundu að Íslendingum var gefin sjálfsmynd þar sem þeir voru sýndir sem ein heild í baráttu við erlent vald“ (bls. 21)."

Sjá Heimildina: Þorsteinn Helgason: Verkfæri þjóðminninga Tyrkjaránið í skólabókunum – Fyrri hluti. Ritrýnd grein birt 7. október 2014).

Kennslubækur og sögukenning og -skoðun Íslendinga hefur því breyst, í raun orðið bylting á þekkingu okkar á fortíðinni. Sjálfur hef ég skrifað eina kennslubók í sögu fyrir miðstig grunnskólans. Í henni reyndi ég að skrifa Íslandssöguna (Þjóðveldisaldar) frá eins mörgum sjónarhornum og hægt er í 17 sjálfstæðum köflum. Svo hafa aðrir kennslubókahöfundar í Íslandssögu einnig gert allar götur síðan Sagnfræðistofnunin var stofnuð 1971. Þetta er því síbylja, líkt og rispuð plata, að halda því fram ekkert hafi breyst í hundrað ár og nú sé kominn tími á að breyta sýn Íslendinga á fortíðinni. Ég er hræddur um að bókin, Á sögustöðum, sem Helgi er að reyna að selja, breyti ekki neinu um þekkingu eða skoðun Íslendinga á miðaldarsögu sinni.

Að lokum hjó ég eftir því að Helgi sagði í viðtalinu að Íslendingar (þar á hann við íslenska sagnfræðinga) hafi engan áhuga á né þekkingu á tímabilinu frá 1300-1700. Enn og aftur er þetta vitleysa. Margar frábærar fræðibækur hafa verið skrifaðar og tímamótarannsóknir farið fram. Veit ekki hvar á að byrja, því að svo margir sagnfræðingar hafa skrifað og kynnt Íslendingum þetta tímabil. Tökum fyrir sagnfræðinga sem hann á vissulega að þekkja. Björn Þorsteinsson og brautryðjendarannsóknir hans á sögu 15. aldar (Björn Þorsteinsson: íslensk miðaldasaga, Enska öldin í sögu Íslands og fleiri bækur eftir hann),   Vilborg A. Ísleifsdóttir: Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565, Gísli Gunnarsson, Upp er boðið Ísaland...o.s.frv.). Meira segja gömlu meistarnir eins og Páll Eggert Ólason og Jón Egilsson komu með nýja sýn á þetta tímabil.

Það er nú svo að enginn sagnfræðingur skrifar hlutlausan texta. Það er bara ekki hægt. Jafnvel sögutexti í skeytastíl, felur í sér val og val er ákveðinn skoðun. Ég get ekki betur séð að Helgi sé að reyna að rífa niður mýtu sem er ekki til lengur! "Það er svo sannarlega komið tími á endurmat segir á vef Bókabúðar forlagsins". Hvaða endurmat? Það er löngu búið að gera það.

En þá kemur að ásetningi. Ásetningur Helga er að kveðja niður þjóðernisvitund eins og er vinsælt hjá nútíma íslenskum sagnfræðingum, enda margir hverjir undir áhrifum ný-marxíska hugmyndafræði sem var og er vinsæl innan veggja Háskóla Íslands frá 1970 til dagsins í dag. Þar er viðhorfið: Íslensk þjóðernisvitund er slæm, við erum bara ein þjóð á meðal margra. Ekkert merkilegt við okkur. Mér finnst vera að varpa rýrð á skrif brautryðjendanna í sagnfræði og hugmyndir þeirra. Þeir hjálpuðu til við í sjálfstæðisbaráttunni og án þeirra (byrjum á Jóni Sigurðssyni) hefðu rök stjórnmálamanna fyrir sjálfstæði Íslendinga vegið minna. Hvað hafa nútíma sagnfræðingar lagt til þjóðfélagsins? 

En þessi blessaða þjóðernisvitund og skrif til stuðnings hennar hefur fært okkur Íslendingum frelsi, lýðræði og efnahagslega velmegun. Er það svo slæmt?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Enn einn flottur pistill Birgir.

Magnús Sigurðsson, 11.12.2022 kl. 15:47

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Takk fyrir Magnús. Ég var eiginlega hissa þegar ég heyrði í Helga í Silfrinu. Rómantískar hugmyndir um Þjóðveldisöldina eru fyrir löngu horfnar og raunsæis tekið við í íslenskri sagnfræði. En þótt við sjáum forfeðurna í nýju og kannski lúsugu ljósi, er ekki þar með sagt að saga þeirra sé eitthvað ómerkilegri, heldur þvert á móti. Alveg stórmerkilegt að menn hafi getað lifað af í þessu harðbýla landi og skapað þó þessa menningu og heimsbókmenntir. Hvað er kastali t.d.  í samanburði við Njálu? Ekkert. 

Birgir Loftsson, 11.12.2022 kl. 17:06

3 Smámynd: Torfi Kristján Stefánsson

Jón Egilsson?
Svo þetta um að enginn skrifi "hlutlausan" texta lengur. Er Þór Whitehead helsti lærifaðir þinn?

Torfi Kristján Stefánsson, 11.12.2022 kl. 20:24

4 Smámynd: Birgir Loftsson

Torfi. Ég á engan lærifaðir. Af hverju nefnir þú Þór Whitehead? Hann skrifar samtímasögu, ég sérhæfi mig í miðaldarsögu. Leiðir okkar lágu saman eins og mínar við alla aðra kennara sagnfræðiskorsins. Ég lærði líka við tvo aðra háskóla. Áhrifavaldarnir eru því margir og enginn einn. Victor Davis Hansen er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa daganna.

Ég sagði að enginn skrifi hlutlausan texta, hvorki fyrr eða síðar. Samlíkingin við skeytatexta nær þessu ágætlega, bara að velja efni til birtingu er "rit"skoðun. Hvað er sagt og ekki sagt.

Jón Egilsson er sagnaritari sem skrifaði Biskupaannálanna. Sjá slóðina: https://saga.sogufelag.is/saga-greinar/hin-sarsaukafullu-sidaskipti-menningarlegt-minni-i-biskupaannalum-jons-egilssonar/

Þar segir: "Biskupaannálarnir marka tímamót í íslenskri sagnaritun, því þeir marka upphaf annálaritunar eftir rúmlega 170 ára hlé. Þeir eru áhugaverðir til rannsóknar á menningarlegu minni þar sem Jón Egilsson byggði ekki á ritheimildum heldur á munnlegri geymd, minningum hans sjálfs en þó einkum annarra." Hér er ég að ræða um frumleika og nýja sýn. Þess vegna minntist ég á Jón. Hefði líka geta minnst á Jón J. Aðils en hann kemur fyrir í textanum, ef þú lest greina aftur.

Birgir Loftsson, 11.12.2022 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Ikarus
  • Iceland-Def-Force-logo
  • ratsjár- og loftvarnakerfi Íslands
  • stríð
  • World war

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband