Ég ætla hér að fjalla aðeins um hörkutólið Ögmund Pálsson, síðasta kaþólska biskupinn í Skálholtsstifti en hann hefur jafnan fallið í skuggan af Jóni Arasyni Hólabiskupi. Hér væri gaman að vera með ef-sögu en þess þarf ekki. Það þarf ekki annað en að skoða ævisögu hans, ætla mætti að hann hafi staðið í danskinum í siðaskiptabaráttunni ef hann hefði verið heilll heilsu og ekki á áttræðisaldri, nógu hræddir voru íslenskir siðbreytingarmenn og danska konungsvaldið við gamlan mann sem endaði ævi sína á að vera dreginn úr rúmi sínu í skjóli nætur á Hjalla í Ölfusi, þeyst með hann til Reykjavíkur, hálfklæddan og um borð í herskip.
Þar var hann haldinn í gíslingu, logið upp á hann sakir og loks fluttur í böndum til Danmerkur og líklega látist í hafi eða við komuna til Danmerkur. Gott ef honum hefur ekki verið hent fyrir borð, ef maður er kaldhæðinn í ályktunum. Þannig endaði þessi stórbrotni maður ævi sína.
Þessi samantekt er samtíningur, ýmis frá mér eða öðrum og hirði ég ekki um að geta heimilda, enda ekki verið að segja eitthvað nýtt eða sanna eitthvað tiltekið sagnfræðilegt viðfangsefni.
Ögmundur Pálsson fæddur 1475 (d. 13. júlí (?) 1541) var biskup í Skálholti frá 1521 til 1541 og var síðasti kaþólski biskupinn þar, en áður prestur, skipstjóri og síðan ábóti í Viðeyjarklaustri.
Ögmundur var sonur Páls Guðmundssonar og Margrétar Ögmundsdóttur, sem bjuggu fyrir vestan, eins og segir í heimildum. Móðir hans var dóttir Ögmundar, sonar Eyjólfs mókoll Halldórssonar í Haukadal í Dýrafirði. Hálfbróðir Ögmundar var Eyjólfur mókollur Magnússon, faðír Magnúsar Eyjólfssonar Skálholtsbiskups og Ingibjargar, móður Eyjólfs mókolls Gíslasonar í Haga á Barðaströnd.
Ögmundur stundaði nám í Englandi og á Niðurlöndum. Hann varð prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð. Hann varð kirkjuprestur í Skálholti um Hann var prestur í Skálholti 1499-1503 og á Breiðabólsstað í Fljótshlíð 1503-1515., jafnframt var hann skipherra á skútu Skálholtsstaðar, Þorlákssúðinni og var það enn 1508. Páll var prófastur í Rangárþingi 1504 og hélt þeim embættum til 1515 er hann varð ábóti í Viðey. Þegar Árni Snæbjarnarson ábóti í Viðey dó 1515 varð Ögmundur ábóti þar. Þau fjögur ár sem hann gegndi ábótastarfinu auðgaði hann klaustrið að jörðum; hann keypti jarðir, fékk klaustrinu dæmdar jarðeignir og gerði einnig próventusamninga sem færðu því jarðir og aðrar eignir.
Til er saga af hvernig Ögmundur tók á konungsmenn eða a.m.k. menn hans. Svo virðist vera að konungsmenn hafi ekki getað riðið óhultir um héruð landsins. Átta árum síðar þurftu konungsmenn enn að draga sverð úr slíðrum og verja hendur sínar.
Málið var þannig vaxið að Ólafur Diðriksson Bessastaðafógeti var ásamt sjö manna fylgdarliði á yfirreið austur í sveitum. Er Ólafur var kominn nokkuð ofan við bæinn á Breiðabólstað í Fljótshlíð, en þann stað sat Ögmundur Pálsson, prestur og síðar biskup, urðu á vegi þeirra heimamenn á Breiðabólstað. Einhver frýjunarorð virðast hafa farið á milli og í kjölfarið urðu staðarmenn fyrir höggum og hrakningum. Flúðu þeir þá til bæjar, en Bessastaðamenn eltu þá allt að karldyrum á Breiðabólstað. Þutu heimamenn að vopnum sínum og verjum, hlupu síðan út um aðrar dyr út á hlað og réðust gegn mönnum fógetans. Var háður harður og snarpur bardagi á bæjarhlaðinu og féllu þar tveir komumenn og einn særðist nálega til ólífis, norskur maður að nafni Ólafur Baggi.
Árið 1518 bar það til í Viðey að Erlendur Þorvarðarson frá Strönd í Selvogi, sveinn og systursonur Stefáns Jónssonar biskups, vó mág sinn, Orm Einarsson í Saurbæ á Kjalarnesi, en þeir höfðu átt í deilum um heimanmund Ragnheiðar konu Orms, systur Erlendar. Talið er að þessi atburður hafi átt þátt í að Ögmundur varð biskup; Erlendur var systursonur Stefáns biskups í Skálholti. Hefur því Stefán viljað friðmælast við Ögmund ábóta fyrir hönd Erlends og kosið hann sér til eftirmanns,og var ekki langt að bíða fyrir Ögmund. Stefán andaðist öndverðan vetur sama ár, og stóð Ögmundur yfir moldum hans og var kjörinn biskupsefni og var kominn í Skálholt. Enginn efi er á því, að Ögmundur hefur valið eftirmann sinn í Viðeyjarklaustri og kjörið til Helga Jónsson, prest auðugan í Hvammi í Norðurárdal. Hann veitti klaustrinu forstöðu 1521- 28, var vígður ábóti á Lúkasmessu árið 1522, og hefur því þurft mikinn undirbúning fyrir starfið. Helgi gaf þá stór gjafir Ögmundi biskupi og Skálholtskirkju, Hvamm, Galtarhöfða og Sanddalstungu. Var biskupi í sjálfsvald sett, hvort hann vildi vera láta beneficium eður Skálholtseign. Kaus Ögmundur, að væri beneficium.
Ögmundur fór utan 1520 til að fá biskupvígslu en var ekki vígður fyrr en 1521 í Niðarósi. Kom hann svo aftur heim 1522 en lenti í ævintýrum á heimleið.
Í Grænlandsannál segir frá ferðum Íslendinga til Grænlands á 16. öld. Ögmund Pálsson, biskup í Skálholti, rak þangað 1522 og segir í Grænlandsannál að skipverjar hafi séð þar fólk við stekki og lambfé en samtímaskjöl staðfesta það ekki. Þetta eru með síðustu frásögnum af norrænum Grænlendingum á miðöldum.
Hann var hirðstjóri yfir Skálholtsbiskupsdæmi og rak bú að Krossi um skeið. Ögmundur eldaði löngum grátt silfur við Jón Arason prest og síðar Hólabiskup. Jón varð einn helsti trúnaðarmaður og erindreki Gottskálks Nikulásarsonar Hólabiskups (sem síðar var auknefndur hinn grimmi) og náði hröðum frama. Hann var skipaður ráðsmaður Hólakirkju um 1515 og er Gottskálk lést árið 1520 var Jón kosinn biskup. Ögmundur Pálsson Skálholtsbiskup reið með her manns á Hólastað til að koma í veg fyrir vígsluferðina en Jón komst með naumindum í skip stólsins, sem lá í Kolbeinsárósi með þýskri áhöfn. Sögðust þeir þýsku hvorki myndu spara lóð né krúð eða púður þegar menn Ögmundar hótuðu að sækja Jón út í skipið. Hurfu Skálhyltingar því frá en Jón sigldi út og vígðist.
Í tíð Ögmundar brann kirkja í Skálholti í annað skiptið en það var Árnakirkja (1310-1527) svonefnda og hafði þá staðið í 217 ár. Eldurinn kom upp á miðjum aftni og brann til kaldra kola á fáum klukkustundum. Enginn vissi upptök brunans. Ögmundur stóð fyrir byggingu nýrrar kirkju og nefnist hún Ögmundarkirkja (1527-1567).
Í Danmörku hófst svonefnt greifastríðið (1534-1536) sem voru átök um ríkiserfðir í Danmörku. Því lauk með sigri Kristjáns III sem var boðberi lútherstrúar. Hann lét lögleiða lúterska kirkjuskipan í Danmörku 1536 og boðaði 1538 að sama skipan skyldi vera á Íslandi. Íslensku biskuparnir Jón Arason á Hólum og Ögmundur Pálsson í Skálholti börðust gegn hinni nýju skipan. Orðið siðaskipti er notað um þann atburð þegar Íslendingar lögðu niður kaþólska trú og tóku upp mótmælendatrú sem stundum er kennd við Martein Lúther og kölluð lútherstrú.
Í kirkjuskipan Kristjáns III Danakonungs var landsmönnum sagt frá hinni nýju skipan trúmála sem tekin hafði verið upp í ríki konungs. Þegar kirkjuskipanin barst íslensku biskupunum í Skálholti og á Hólum árið 1538 hafa eflaust margir þegar verið farnir að kynnast mótmælendatrúnni, t.d. þeir sem verið höfðu í Þýskalandi eða þeir sem höfðu samskipti við þýska sjómenn. Í Þýskalandi hafði Marteinn Lúther, upphafsmaður þessarar nýju skipanar, starfað og þaðan hafði hún breiðst út. Ögmundur Pálsson reyndi að hindra framgang mótmælendatrúarinnar á Íslandi fram í dauðann og það var ekki fyrr en eftir dauða hans að Skálholtsbiskupsdæmi, meirihluti landsins, samþykkti hana.
Svo gerðist það í stöðunni að nýr hirðstjóri var sendur til Íslands að nafni Kláus van der Marwitzen til að reyna að koma siðaskiptum á. Hann hafði fengið hirðstjóraembættið að gjöf frá konungi ásamt Viðeyjarklaustri því Bessastaðir þótti lélegur bústaður fyrir hirðstjóra konungs og hins nýja siðar.
Helsti umboðsmaður hirðstjórans hérlendis var Diðrik af Minden og hann var skilin eftir þegar Klaus yfirgaf landið. Íslendingar voru tregir til að lúta valdi hins nýja hirðstjóra því að síðustu 70 árin höfðu völdin mestmegnis verið í höndum alþingis og biskupa.
Klaustrið í Viðey starfaði með blóma til 1539 en á hvítasunnudag það ár kom Diðrik frá Minden umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, og hertók klaustrið með mönnum sínum, sem rændu og rupluðu, misþyrmdu munkunum og ráku þá burt. Fyrir vel unnið verk skipaði Kláus Diðrik hirðstjóra yfir Íslandi.
Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti svaraði árásinni með bannfæringu. Þegar hér var komið við sögu var Ögmundur orðinn sjóndapur og ellihrumur, hann sagði því af sér biskupsdómi það sumar var Gissur Einarsson kosinn í hans stað. Gissur sigldi utan strax það sumar til að öðlast biskupsvígslu.
Sennilega hafði Diðrik frétt fljótlega af bannfæringu biskups og brugðist reiður við vegna þess að strax í ágústbyrjun tók hann sig upp frá Bessastöðum við tíunda mann og ætlaði að taka klaustrin austur í Skaftafellssýslu, Kirkjubæ og Þykkvabæ. Gerði hann lykkju á leið sína austur og hélt til Skálholts við áttunda mann, vafalaust til þess að storka biskupi. Að minnsta kosti verður ekki séð að hann hafi átt annað erindi þangað. Hina mennina tvo lét hann fara austur að Odda og skyldu þeir bíða hans þar.
Ekki er annað að sjá en að það hafi verið mikil fífldirfska af Diðriki að fara svo fáliðaður í slíkan leiðangur, sérstaklega í ljósi þess að hirðstjórinn var farinn af landinu.
Í Skálholti var tekið á móti Diðriki og félögum með hefðbundinni íslenskri gestrisni. Daginn eftir hittust Diðrik og Ögmundur biskup og bað biskup hann að ríða burt vegna þess að hann gæti ekki ábyrgst menn sína, enda orðinn sjónlaus. Sennilega hefur Diðrik svarað með skætingi og var hann enn þann dag með félögum sínum í tjaldi í porti Skálholtsstaðar.
Mun ráðsmanninum og officialnum í Skálholti, séra Jóni Héðinssyni í Hruna, ekki hafa líkað við dvöl þeirra¬ Diðriks á staðnum og mannalætin í þeim. Var sagt að hann hefði þá sent boð eftir liðmönnum á næstu bæjum. Brugðust þeir skjótt við og komu til Skálholts. Á séra Jón að hafa farið og haft tal af Ögmundi, áður en til atlögu var lagt, og talað við hann í einrúmi. En þegar séra Jón gekk í burtu hafi menn heyrt biskup segja: Ráða muntú gerðum þínum, síra Jón.
Skömmu eftir tal prests og biskups var búist til bardaga og gengið inn í biskupssetrið. Í göngunum mættu árásarmennirnir íslenskum manni sem var í fylgd Diðriks og bað hann sér griða en var drepinn á staðnum. Áfram hélt árásarliðið för sinni en sennilega hafa þeir Diðrik heyrt atganginn í göngunum og læst að sér í stofu einni, þar sem þeir sátu að öldrykkju.
Stofan var brotin upp með grjóti og unnið á mönnum Diðriks. Þeir höfðu með sér byssur en geymdu þær í tjaldinu og náðu þeim ekki. Í höndum árásarmanna voru ekki nefnd önnur vopn en atgeirar og lensur. Diðrik sjálfan drap Jón nokkur refur, ömmubróðir Jóns Egilssonar og sagði honum frá því sjálfur. Loks var enginn eftir nema sveinn tólf vetra og var honum gefið líf. Menn Diðriks voru sagðir þýskir eins og hann sjálfur.
Eftir vígin var sendur vinnumaður austur að Odda og ginnti hann menn Diðriks þar til að fara til Hruna, en þar gengu þeir í gildru og voru báðir drepnir. Þegar tíðindi þessi bárust til Viðeyjar tóku heimamenn sig til og drápu þar þá menn alla sem hirðstjórinn hafði skilið eftir til gæslu.
Diðrik von Minden var landstjóri konungs á Íslandi þegar hann var veginn. Víg hans varð því ekki skilið nema sem uppreisn gegn konungi og kom því öllum Íslendingum í vanda. Þeir brugðust því skjótt við og hinn 23. ágúst var kveðinn upp sá dómur í Laxárholti að þeir Diðrik og félagar hans væru allir dæmdir réttdræpir óbótamenn fyrir ýmis rán og gripdeildir, auk aðfararinnar að Skálholti og meiðyrða við biskup. Hálfar eignir þeirra voru dæmdar konungi en hálfar kirkju, en banamenn þeirra allir sýknir saka. Einnig voru þeir menn sem voru vegnir í Viðey dæmdir seinna óbótamenn og banamenn þeirra sýknaðir.
Á þessum tíma var það talið mjög alvarlegt mál að drepa hirðstjóra konungs. Í vígsluför sinni reyndi Gissur því að sefa reiði Danakonungs vegna vígs Diðriks því Gissur vildi alls ekki lenda í átökum við Danakonung. Konungur féllst á biskupskjör hans en hann fékk ekki vígslu og snéri við það heim.
Þegar Gissur kemur til Íslands árið 1540 var kirkjuskipan Kristjáns Danakonungs algerlega hafnað af alþingi. Þar að auki voru menn sýknaðir vegna vígs Diðriks fógeta af Minden.
Kristján III var búinn að fá nóg af þvermóðsku Íslendinga og sendi hingað tvö herskip undri stjórn Kristófers Huitfeldt lénsmanns í Þrándheimi. Er Kristófer kom til landsins var eitt af hans fyrstu verkum að taka höndum Ögmund Pálsson þann 2. júní 1541 að Hjalla í Ölfusi.
Ögmundur hafði eins og áður sagði látið af biskupsembætti 1540 nema að nafninu til, þá líklega kominn á áttræðisaldu, eftir að hafa sjálfur valið Gissur Einarsson sem eftirmann sinn. Hann fluttist þá að Haukadal í Biskupstungum og átti þar heima síðan. Páll lenti í deilum við eftirmann sinn, Gizur Einarsson sem hann hafði þó komið í biskupsembættið en Gizuri fannst hann ekki getað komið áformum sínum um siðbreytingu áfram með Pál yfir sér og stóð að samsæri með Christoffer Huitfeldt, sendimanni Danakonungs um að handtaka Ögmund.
En formáli handtökunar var að sumarið 1541 var Christoffer Huitfeldt, flotaforingi í danska flotanum, sendur til Íslands af Kristjáni III. til að taka höndum Ögmund, sem konungur áleit ábyrgan fyrir morðinu á fógetanum Diðriki frá Minden tveimur árum áður. Hinn 2. júní komu Danir að Hjalla í Ölfusi, þar sem Ögmundur var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni, handtóku hann og fluttu í skipið. Í júníbyrjun hneppti Kristófers Hvítfelds Ögmund Pálsson biskup í Skálholti í varðhald á skipi sínu. Honum var heitið frelsi gegn fégjaldi. Til er bréf sem er beiðni Ögmundar til Ásdísar systur sinnar um að láta fjármuni sína í hendur Kristófers. Hann sveik Ögmund þó og flutti hann með sér til Danmerkur. Samkvæmt viðurkenndri sagnfræði lést Ögmundur í hafi og var jarðaður í Sórey á Sjálandi. Skipið lét úr höfn 5. júní en Ögmundur andaðist á leiðinni, líklega 13. júlí.
Þá var Jón Arason Hólabiskup eini kaþólski biskupinn á Íslandi og reyndar Norðurlöndunum öllum. Hann varðist mótmælendatrúnni af alefli og með öllum ráðum en var hálshöggvinn ásamt tveimur sonum sínum árið 1550.
Ögmundur var lýst á þann veg að hann var glæsimenni í sjón, raunar talinn hirðulaus í klæðabúnaði og mjög drottnunargjarn. Annars staðar var sagt að hann væri mikill vexti, hár og þrekinn, gulur á hár, kringluleitur í andliti, fagureygur og smáeygur. Fyrirmannlegur og höfðinglegur og bauð af sér góðan þokka, skörungur mikill og framkvæmdasamur, ráðríkur og ágjarn, afarmenni að burðum og harðfengur, stórorður, reiðigjarn og siðvandur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | 20.7.2021 | 22:24 (breytt kl. 22:24) | Facebook
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.