Jón Ólafsson Indíafari og Tyrkjaránið

Tyrkjaránið

Tyrkjaránið 1627 er einn af þekktustu atburðum Íslandssögunnar og er það ekki að ástæðulaus.

Það vill oft gleymast að þetta voru tvær árásir, gerðust í sitthvorum mánuðinum og höfðu þær mismiklar afleiðingar.

Um var að ræða tvö skip en er ekki ljóst hvort skipin höfðu eitthvert samflot í upphafi eða samráð um Íslandsferðina.

Fyrra skipið var hér dagana 20.-24. júní - rændi Grindavík og réðst á Bessastaði en seinna skipið kom hingað 4. júlí og var farið 19. júlí.

Það reifaði Austfirði og síðar Vestmannaeyjar áður en sjónræningjarnir yfirgáfu landið. Hér er ætlunin að skoða aðeins fyrri árásaleiðangurinn, enda kemur Jón Ólafsson bara við sögu þar.

RÁN í GRINDAVÍK

Fyrir þessum ræningjaleiðangri var hollenskur sjóræningi (titlaður aðmíráll), Jan Janszoon van Haarlem sem varð fyrsti landstjóri og stóraðmíráll borgríkisins Salé á strönd Marokkó.

Árið 1627 skipaði Janszoon dönskum þræl úr áhöfn sinni sem hafði komið til Íslands, að stýra skipi sínu þangað sem engum hafði áður dottið í hug að fremja sjórán.

Sjóræningjarnir komu til Grindarvíkur 20. júní en voru farnir af landinu fjórum dögum síðar, 24. júní 1627. Þeir rændu fólki og dönskum kaupskipum í Grindavík en stefndu síðan til Vestfjarða. Þeir virðast hafa verið á leið til Hafnarfjarðar eða ætlað að ráðast að konungsmönnum á Bessastöðum en þar hafði höfuðsmaðurinn Holgeir Rosenkranz uppi vörnum á skansinum þar og mannað fallbyssur.

Eftir að eitt skipanna steytti á skeri utan við Bessastaði og síðar skipst á fallbyssuskotum við Dani og Íslendinga, gáfust ræningjarnir upp á fyrirætlunum sínum um frekari ránsferðir á Íslandi og sigldu 24. júní frá landinu og héldu heim á leið með fólkið, sem var svo selt var í ánauð í Salé.

Þetta var sjónræningjunum til mikillar lukku að þeir snéru til baka, því að fyrir vestan voru tvö ensk stríðsskip, eins og herskip voru kölluð þá, sem höfðu tekið franskt hvalveiðiskip.

Jón Ólafsson Indíafari sem hafði snúið til Íslands 1626 eftir 11 ára utanlandsför og dvalist í Englandi, og verið í konungsþjónustu sem byssuskytta í Danmörku og Indland, var þá staddur á Vestfjörðum.

SKOTBARDAGI VIÐ BESSASTAÐI OG ÞÁTTUR JÓN ÓLAFSSONAR

Tvö ensk herskip tóku franskt hvalveiðiskip herskildi en nokkrir skipsverjar sluppu á léttabáti. Jón var að vitja tvær jarðir í Álftafirði í júní mánuði sem hann hafði fengið fyrir herþjónustu sína en var kallaður til af sýslumanni, Ara Magnússyni í Ögri, til að vera þýðandi enda talaði hann reiðbrennandi ensku og dönsku.

Þá höfðu sumir frönsku sjómannanna af franska hvalveiðiskipinu tekist að sleppa á árabáti frá ensku stríðskipunum eins og áður sagði og í land og leitað á náðir íslenskra yfirvalda í Ögri.

Enskir komu á eftir og málið var lagt í dóm sýslumanns. Hann treysti sér ekki til að úrskurða í málinu, en þeir frönsku sögðust vera með leyfisbréf frá Danakonungi til að fanga hval.

Ari ákvað að senda Jón Ólafsson ásamt frönskum mönnum til Bessastaða og láta málið í hendur höfuðsmannsins Holgeirs.

Jón dvaldist eina nótt á Bessastöðum og ætlaði aftur að snúa vestur er fréttir bárust af för sjónræningjanna með fram Reykjanesskaga.

Þegar það fréttist, var Holgeir vel á veg kominn við að undirbúa varnir Bessastaða og bannaði hann öllum að yfirgefa staðinn, fyrr en hættuástand var yfirstaðið. Hann stefndi til sín alla Íslendinga sem hann gat kallað til; stefndi í Seiluna kaupskip úr Keflavík, úr Hafnarfirði og þriðja úr Hólminum (Reykjavík). Þessi þrjú skip lágu til varnar við skansinn sem var búinn fallbyssum.

Segir svo í Reisubók Jóns Arasonar Indíafara: ,,En höfuðsmaður skikkaði öllum vel vara á taka á sinni bestillingu til varnar. Svo og var Jóni Ólafssyni og þeim frönsku bífalað í skansinn að fara og á stykkjunum vara að taka og affýra nær þyrfti. En höfuðsmaður með sínum þénurum og mörgum íslenskum í stórum látúnssöðlum á landi riðu til umsjónar og aðgætni með löngum stöngum, svo sem hertygjað fólk væri að sjá, þá sólin á söðulbryggjurnar skein.

Ræningjaskip voru tvö og stefndu að höfninni í Seilunni. Þeir á landi voru við öllu búnir og þegar þeir á skansinum og skipunum þremur það sáu, skutu þeir af nokkurum fallbyssum á ræningjanna sem skutu á móti. Við þetta hlýtur að hafa komið fát á sjóræningjanna því að annað reyfaraskipið rak upp á grynningar, svo það stóð.

Á því skipi var hertekna fólkið og mest allt góssið. Skipverjar úr hinu ræningjaskipinu hófu þá handa við og skipuðu út báta til að ná í hertekna fólkið og ránsfenginn og létta niðurtekna skipið. Þeir köstuðu út mjöl, öl og öðrum varningi til að létta skipið.

Segir svo í Reisubókinni: ,,Og sem þeir nú í þessu sjósvamli og flutningi skipanna á milli voru, létu þeir dönsku af að skjóta á þá, bæði af skipunum þeim dönsku og skansinum, því miður miður....” segir í bókinni...,,en þeir íslensku vildu að þeim sem mest skotið væri meðan þeir voru í þessu svamli, hvers þeir ei ráðið fengu og því komst þetta ránsmannaskip af grynningunum með aðfallinu. Og sneru svo þessi ránskip bæði frá Seilunni og sigldu aftur suður fyrir landið.”

EFTIRMÁLI

Þegar þetta var allt afstaðið, var Jón Ólafsson sendur með hraði til sýslumanns og ensku skipherranna í leit að hjálp.Hann var fjóra daga á leiðinni til Ögurs.

Kapteinarnir voru enn þar og tóku þeir vel í að fara að sjóræningjum. Þeir sigldu suður en fundu enga sjóræningja og sneru þá aftur vestur fyrir landið.

Fréttir bárust fljót til Danmerkur um ránin og sendi konungur dönsk varnarskip hingað til að leita þessara ránskipa en fundu ekki frekar en þeir ensku og var þetta að tilhlutan Holgeirs Rosenkranz, sem hefur fengið þau leiðu eftirmæli í sögunni að vera heigull en erfitt er að meta stöðuna eins og hann mat hana á sínum tíma.

Ef til vill vildi hann ekki lenda í landbardaga við sjóræningja ef hann hefði sökkt skipunum. Hann má eiga það að hann reyndi a.m.k. að hafa uppi varnir og flúði ekki upp í fjöll.

Árið eftir, 1628, kom Holgeir hingað til lands í Seiluna á dönsku stríðskipi. Tvö önnur dönsk stríðsskip voru send til landsins að hindra frekari rán á landinu.

Einnig sendi Jakob Englandskonungur til Íslands tvö stríðsskip sömu erinda og gæta öryggi enskra fiskidugga.

Þeir ensku sögðu Íslendingum að við England hafi enski sjóherinn tekið í hafi 13 tyrknesk skip og í sjó skotið, sem hefðu verið á leiðinni til Íslands.

En hvorug áranna, 1628 og 1629 hafi varnarskipin neinna ránsmanna orðið vör, hvorki á sjó eða undir landinu en hér voru a.m.k. 5 varnarskip til varnar.

Svo var Jón skipaður konstabel eða byssuskytta í Vestmannaeyjum á skansinum þegar fyrirrennari hans í starfinu lést. ,,Hvar hann var og oftast skansinum og stríðstilbúnaðnum umsjón og vöktun að veita eftir sinni tiltrúaðri embættisskyldu en á næturnar var hann heima á sínum bústað hjá sinni kvinnu og öðru fólki.”

Konan hans þoldi ekki Vestmannaeyjar og hafa þau líklega yfirgefið eyjarnar í júlí 1640. Líkur þar með þáttur Jóns Ólafssonar í Tyrkjaráninu og afleiðingum þess.

Heimildir úr ýmsum áttum. Ef einhver þekkir textabrot eftir sig, þá þakka ég fyrir afnotin!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband