Blesugrófin - hverfið mitt

Í samræðum mínum við ágætan kollega og vin, Leif Reynisson, sagnfræðing sem skrifaði nú fyrir skemmstu ágæt rit um frumbýlinga eða fyrstu landnema Kópavogs vöknuðu eftirfarandi spurningar: hver voru fyrstu húsin í Blesugróf og hvenær voru þau byggð? Voru braggar í hverfinu? Þá minnist ég á við Leif að mörk Reykjavíkur og Kópavogs lágu þvert í gegnum hverfið.

Neðri hlutinn tilheyrði Reykjavík og þar bjuggu flestir en fæstir í efri hlutanum. Þeir krakkar gengu í skóla í Kópavogi, Kársnesskóla minnir mig eða Digranesskóla.

Við hin sem ólumst þarna upp gengu fyrst í Austurbæjarskóla og voru keyrð þangað eða tóku strætó en þegar Fossvogsskóli og Breiðholtsskóli komu til sögunnar, skiptist krakkahópurinn í tvo helminga, annar gekk í Fossvogsskóla, sem ég gerði ásamt fleirum, en þeir sem eftir voru í Breiðholtsskóla í Neðra-Breiðholti.

Svo farið sé alveg í upphaf sögu hverfisins, þá má segja að upp úr 1930 risu nokkur býli og sumarbústaðir á erfðafestulöndum í Blesugrófinni en í lok stríðsins hófst þar einskonar landnám og efnalítið fólk byrjaði að reisa sér þar smáhýsi til íbúðar án lóðaréttinda.

Á greiningarsvæðinu er að finna tvö hús frá þessum tíma, Bústaðablett 10 við Stjörnugróf, (Vellir, reist árið 1935) og Stjörnugróf 11, (Lækur, Bústaðablettur 9, reist 1933). Þau eru vitnisburður um horfið búsetulandslag á þessum slóðum.

Uppbygging hverfisins skiptist niður í nokkur byggingartímabil. Það fyrsta var í kringum árin 1950- 1955, annað byggingartímabil var á árunum 1961- 1966 og hið þriðja var á árunum 1980-1983. Þó má finna hús á þessu svæði sem eru eldri og yngri en þau sem byggð voru á þessum tímabilum. Heimild: Skyrsla_164_Hverfisskipulag-Haaleiti_utgafa_mars-2014.

Vestan við byggðina lá vegur sem kallaður var Útvarpsstöðvarvegur eða Breiðholtsvegur (á þeim slóðum þar sem Stjörnugróf er nú) og var byggðin um skeið nefnd Breiðholtshverfi. Þarna var ekki lögð skólp- eða vatnslögn fyrr en 1956 og verslun og þjónusta á svæðinu var lítil sem engin en þrátt fyrir það hélt byggðin áfram að þéttast allt fram til þess að nýtt íbúðahverfi var skipulagt á svæðinu í byrjun sjöunda áratugarins. Allmörg þessara eldri húsa standa enn og hafa verið felld inn í skipulag hverfisins, þ.e. húsin Blesugróf 5 (byggt 1953), Blesugróf 12 (byggt 1958),

Blesugróf Braggar

MYND 1. Við svokallaðan Breiðholtsveg í Blesugróf risu braggar, skálahverfið þar nefndist New Mercure Camp - Úr bók Eggerts Þórs Bernharðssonar Undir bárujárnsboga og einnig í bók sem heitir Virkið í Norðri sem Gunnar M. Magnússon ritaði í þremur bindum og var endurútgefin 1984 en þar er myndin stærri. Ef við snúum okkur aftur að upphafi Blesugrófar samkvæmt minningum hverfisbúa, þá segir minn helsti heimildarmaður, Birgir Ingólfsson, sem hefur alla tíð búið á A-götu 10 eða Blesugróf 10, eftir göturnar fengu nafn í stað stafrófsnafna, að upphaf hverfisins megi til braggahverfis breska hersins á stríðsárunum. Að sögn Birgis Ingólfssonar, voru sautján braggar í hverfinu og þrjú baðhús sem voru hlaðin úr holsteinum. Braggarnir voru með trégólfum en baðhúsin voru með steyptum gólfum. Eitt baðhúsana stóð á lóð foreldra minna, Lofts Jens Magnússonar og Signýju Ágústu Gunnarsdóttur, sem bar fyrst heitið A-gata 4 en síðar Jöldugróf 7. Þetta hefur verið baðhús eitt. Hús 2 stóð við B-götu og hét Gilhagi og hús þrjú stóð rétt fyrir ofan þéttbýlið og þar bjuggu feðgar ég veit ekki hvað faðirinn hét en sonurinn var kallaður Mannsi . Húsin Litli-Melur og Útgarður voru byggð á braggagrunnum. Átta af bröggunum stóðu við gamla Breiðholtsveginn tveir á Skeifutúninu en hinir voru á þeim stað sem hét seinna A-gata.

Að sögn Þórunnar Kristinsdóttur, tilheyrði Skeifa Kópavogi en Melbrekka sem var fyrir neðan túnið tilheyrði Reykjavík annað sem Birgir minnist á en það er Mannsi var fatlaður en bjó örugglega hjá mömmu sinni sem hét Helga og bjó þarna með tveimur sonum sínum. Þetta passar með Mannsa segir Birgir Ingólfsson, ,,…þeir feðgarnir bjuggu þarna eftir að hússmóðirin dó svo þegar faðir hans dó þá flutti Mannsi niður í Brautarholt til systur sinnar….Þórunn það voru tveir braggar á Skeifutúninu á mynd sem var tekin 1946 og Skeifa, Melstaður ,Reynistaður og Björk tilheyrðu Kópavogi. 1970 þá sagði Jói póstur, sem bjó austanmegin Breiðholtsbrautar að herskálahverfið hafi heitið New Mercur Camp. Jói og hans fjölskylda fluttu hingað inn eftir 1941.

Árið 1927 var nokkrum sumarbústaðalóðum úthlutað þarna og nokkrir byggðir fram til 1940 og þá var mikil hússnæðisvöntun og þá tók Reykjavíkurbær bústaðina leigunámi.“

Birgir Ingólfsson greinir frá viðtali í Tímanum 24 nóvember 1957 við Kristján Hjaltason sem bjó í B-götu 4. Birgir segir: ,,Þessi grein er fróðleg og þar kemur m.a. fram að fyrstu blettunum undir sumarbústaði var úthlutað um 1927 og í Vikunni ég er ekki alveg viss um ártalið en held um 1970 þá var viðtal við Pál Líndal þar sem kemur fram að Reykjavíkurbær tók sumarbústaðina sem stóðu á þessu svæði leigunámi vegna hússnæðiseklu í bænum. Bretarnir reistu kamp þarna sem hét New Mercur Camp og þú Sigurþór talar um nokkur hús sem standa enn , þau sem voru byggð um frá 1940 til 1960 eru tuttugu talsins í þéttbýlinu ,þar á meðal húsið sem ég er búinn að eiga heima í í fimmtíu og átta ár það var A-gata 10 nú Blesugróf 2 en í dreifbýlinu eins og við kölluðum efri byggðina þá eru þrjú hús eftir Hraunteigur sem stendur uppi við stífluna og Skálará og Heimahvammur neðarlega.“

Kópavogur, sem kemur nokkuð við sögu Blesugrófar, tilheyrði Seltjarnarneshreppi sem hafði Kópavog innan sinna marka. Þar fór landnámið fram að úthlutað var 1 hektara land á mann gegn því að rækta landið upp en menn máttu ekki setjast þar að. Það bann var fljótt brotið. Held að ríkið hafi átt landið sem var úthlutað og var það Nýbýlavegur sem skipti Kópavogi í tvennt, annars vegar voru nýbýli en hins vegar þessir skikkar.

Held að upphaf Blesugrófar hafi verið svipað en fólkið hafi nýt sér braggana til búsetu í upphafi en á eftirstríðsárunum var mikið hússnæðisekla og margir settust að í hermannabröggum. Fólk hafi byrjað að búa þarna og haft landið til ræktunar.

Í Kópavogi voru einnig braggar, ég taldi á mynd 6 stykki og svo var byssuhreiður á Hamraborg og notað til að skjóta á þýskar flugvélar.

Byggðin í Blesugróf var mjög dreifð og segja má að hverfið hafi skipst í þrjá hluta, þá tvo sem ég minnist á hér fyrr, það er Efrið hluti hverfisins sem tilheyrði Kópavog sá neðri sem tilheyrði Reykjavík. Svo var þriðji hlutinn sem afmarkaðist af því að vera staðsettur austan Breiðholtsbrautar. Þar var töluverð byggð.

Blesugróf Skálará

MYND 2. Hér má sjá húsin Skálará, Bakkakot, Bjarkalundur og Laugafell. Öll staðsett austan Breiðholtsbrautar Heimild: Pétur P. Snæland. Í austurhlutanum voru malargryfjur sem gaman var að spóla í en einnig til skíðaiðkunnar. Krakkarnir renndu sér niður stóra hóllinn sem er þarna ennþá rétt við Breiðholtsbraut.

 

Blesugróf GryfjurnarMYND 3. Þarna er Klöpp í baksýn eru Sjónarhæð, Melbrekka og Austurmörk líka Ásberg. Heimild: Pétur B. Snæland.

Eftir vill er svonefndi kastalinn frægasta húsið austan Breiðholtsbrautar / Reykjanessbrautar. Svo má minnast á að Breiðholtsbrautin lá upphaflega þar sem vegurinn liggur fram hjá gróðursstöðina Mörk en heitið færðist yfir á veginn sem heitir í dag Reykjanesbraut.

Blesugróf KastalinnMYND 4. Þetta er gömul mynd af því sem að við krakkarnir kölluðum kastalann sem að þau bjuggu í Óskar Magnússon og konan hans hún Blómey að mig minnir og þau höfðu geitur þarna líka. þetta var fyrir neðan núverandi Reykjanesbraut og sjást ennþá minjar þar. Heimild: Örn Ingólfsson Sigrún Óla rifjar upp að hún hafi ekki búið í Blesugróf en foreldrar sínir eru frumbyggjar í smáíbúðahverfinu, sem er ekki langt frá og stutt að hjóla á milli. En amma mín bjó á Bústaðablettinum, svo við fórum oft í göngutúra í Blesugrófina, og það var æðislegt og við versluðum alltaf í búðinni , sem ég man ekki hvar var og fannst mér æðislegt að fá að halda á veskinu hennar þangað!! .Gaman væri ef einhver gæti rifjað upp þessa verslun og kannski átt mynd . Mér þykir alltaf svo vænt um Blesugrófina eins og hún var í den:)

Þess má geta að þessi verslun stóð þar sem Blesugróf 9 er í dag og við hlið heimili mitt. Þessi verslun var nokkuð vinsæl, því að Breiðholtsbúar rennu þarna við á leið upp í Breiðholt, þegar það var í byggingu og keyptu sér í soðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband