Skúli Magnússon landfótgeti

Skuli_Magnusson

Skúli Magnússon landfógeti

Ævisaga Skúla Magnússonar landfótgeta ætti að vera skyldulesning. Saga hans sýnir að einstaklingur getur breytt heilu samfélagi og mér finnst baráttan hans ekki nógu vel sómi sýndur.

Afrek Skúla: dreif Íslendinga úr eymd og volæði 1750 yfir í trú á að Íslendingar gætu séð um sín innri mál (í fyrsta sinn síðan 1550).

Hann stofnaði fyrsta íslenska stórfyrirtæki (ekki bara fyrirtæki) Íslands sem keppti við danska einokunarverslunina.

Þess má geta að Innréttingarnar gengu undir ýmsum nöfnum þegar í upphafi. Það var stofnað af íslensku hlutafélagi sem á íslensku hét ,Hið íslenska hlutafélag” og var fyrsta sinnar tegundar sem stofnað var á landinu.

Fengist var m.a. við jarðræktartilraunir, brennisteinsvinnslu, ullarvefsmiðja stofnsett, litunar-, kaðlagerðar, skinnaverkunar, skipasmíða og útgerðar (þilskip í stað árabáta og smáskúta) svo það helsta sé nefnt.

Skúli stuðlaði að því að Reykjavík varð fyrsta raunverulega sjávarþorp Ísland (sveitarþorp höfðu verið til áður og sjóbúðir víða um land og sérstaklega á Snæfellsnesinu) og höfuðstaður Íslands.

Skúli varð fyrsti Íslendingurinn til að gegna embætti landfótgeta og í öllum sínum gerðum varði hann lítilsmagnann gegn embættismönnum (félögum sínum) sem var geysilegt erfitt verk. Hann þurfti þess ekki. Það var auðveldara að gera ekki neitt eins og sumir gera og hreykja sér af. Hann fór í stríð við kerfið í raun og vann!

Skúli er eitt af mikilmennum Íslands og ætti að gera bíómynd um hann...hún væri bæði spennandi og sorgleg í senn. Maðurinn var þó breyskur á margan hátt.

Hið íslenska hlutafélagið sem Skúli Magnússon og aðrir íslenskir valdsmenn stofnuðu til 1751, var fyrsta íslenska hlutafélagið. Það var jafnframt fyrsta stórfyrirtæki Íslands.Með því komu margar nýjungar og hugmyndir í anda upplýsingarstefnu. Með því varð til ný stétt á Íslandi, verkalýðurinn. Vinnufólk hefur frá fyrstu tíð Íslandsbyggðar verið til á Íslandi en hvað með iðnarverkamenn?

Hvenær varð verkalýðalýðurinn til á Íslandi? Einstaka iðnaðarmenn hafa alla tíð verið til, svo sem smiði, söðlasmiði, járnsmiði og svo framvegis. En engin stétt eða hópur fólks sem vann í sérstökum byggingum sérstaklega ætlað fyrir iðnað.

Hingað til hefur verið hefð fyrir að miða við 19. öldina og þá í sambandi við útgerð þilskipa, myndun sjávarþorpa og fiskvinnsla í þeim; einnig verksmiðjurekstur Norðmanna er þeir hófu hvalveiðar og settu upp verksmiðjur fyrst á Vestfjörðum en síðar á Austfjörðum. Ég vil gerast svo djarfur að miða upphafið við innréttingar Skúla Magnússonar og félaga. Stórfyrirtæki þeirra, með öllum þeim verksmiðjuhúsum sem fylgdu (44 mannvirkjum í heildina), hafði innanborð fjölda manna og já kvenna sem störfuðu fyrir fyrirtækið og fengu laun fyrir. Launavinnan varð til.

Þetta var iðnaðarfólk sem starfaði í verksmiðjuhúsnæði. Dæmi um starfsmannafjölda á einu tímabili er þegar Ari Guðmundsson varð kaupmaður í Hólmnum (Grandi í dag) og átti sæti í stjórn stofnanna fyrir hönd Hið Almenna verslunarfélag, ákvað að reka sem flest starfsfólk úr starfi. Honum var í raun falið það hlutverk af hendi dönsku félagsstjórnanna að eyðileggja fyrirtækið innan frá og er önnur og löng saga að segja frá. Hann rak úr starfi 53 manneskjur og voru þá eftir 26 starfsmenn sem áttu að halda út rekstrinum og þilskipum Innréttingana var jafnframt lagt. Í dag myndi þetta teljast hafa verið stórfyrirtæki sem hafi orðið fyrir fjandsamlega yfirtöku!

Á árunum 1752-1764 höfðu alls 728 manns notið atvinnu við innréttingarnar (stundum kallaðar stofnanirnar) til skemmri eða lengri tíma og varð þetta Reykjavík mikil lyftistöng og jafnframt þessu fór verkkunnátta í landinu fram og ný tækni við vinnslu ullar kom fram (rokkar og vefstólar í stað vefstæðis frá miðöldum).

Danskir kaupmenn sáu Innréttingunum allt til foráttu. Dönsk stjórnvöld máttu eiga það, að í fyrsta sinn síðan þeir komust almennilega til valda á Íslandi (raunveruleg yfirráð hófust 1550) reyndu þeir að gera eitthvað fyrir landið annað en að hirða skatta og græða á verslun. Hér má nefna að póstþjónusta hófst á þessum tíma, embættisbústaðir voru byggðir og fangelsi reist. Konungur hóf þilskipaútgerð með Íslendingum, reynt var að þróa landbúnaðinn áfram (hreindýr flutt inn og erlend sauðfé sem meðal annars átti þátt í falli innréttingana vegna sauðfjársjúkdóma sem fylgdu í kjölfarið).

Hins vegar var lokahöggið og rothöggið fyrir íslenska bændasamfélagið (innréttingana þar á meðal) voru móðuharðindin miklu 1783-84.

Í grófum dráttum má segja að andstæðingar Skúla voru fyrst og fremst dönsk verslunarfélög. Þegar konungur rak verslunina við Ísland, gekk hún ágætlega fyrir sig og jafnvel rekin með hagnaði. Þegar innréttingarnar voru stofnaðar 1751 var danska verslunarfélagið (Hörmangarafélagið) með Íslandsverslunina á höndum og hafði haft síðan 1742. Hún var geysilega óvinsæl hjá Íslendingum og Skúli barðist hart við kaupmenn Hörmangara (lamdi meiri segja einn kaupmann fyrir kjafthátt hins síðarnefnda).

Loks árið 1759 voru konungurinn og íslenskir embættismenn búnir að gefast upp á Hörmangurunum og neyddust þeir til að láta verslunina af hendi og við tók svonefnd Konungsverslunin fyrri þegar verslunin var rekin fyrir reikning konungs. Niels Ryberg varð þá forstjóri verslunarinnar og tókst að reka hana með hagnaði 1760-1764.

Árið 1764 tók Almenna verslunarfélagið við. Félagið var stærsta verslunarfélag í Kaupmannahöfn á 18. öld en þrátt fyrir hagnað af versluninni í norðri, stóð það sig illa í suðurhöfum og tapaði þar og örlög þess því að konungur keypti öll hlutabréf þess árið 1774. Almenna verslunarfélagið var síst skárra en Hörmangararnir, þeir reyndu að selja Íslendingum ónýtan mat, aðallega mjöl og hrávörur voru flestar lélegar og óbrúklegar. Verst var að þeir sameinuðust Innréttingunum, keyptu sig inn í þetta annars íslenska hlutafélag. Þeir voru því hálfvegis í samkeppni við sjálfa sig, með rekstri Íslandsversluninnar (hagkvæmara að selja íslenska ull í Kaupmannahöfn en að vinna hana hjá Innréttingunum) og svo þátttöku í starfsemi Innréttinga. Í ljós kom strax að þeir hugðu þær feigar frá fyrstu stundu og létu allt drappast niður og ráku verkalýðinn úr vinnu í stórum stíl.

Lokst gáfust ráðamenn á þessu og 1774 hefst Konungsverslunin síðari og varð hún meðal annars vettvangur umbótatilrauna Danakonungs á Íslandi. Verslunin gekk mjög vel til að byrja með, en með Móðuharðindunum árið 1783 versnaði hagur verslunarinnar hratt og varð algert hrun síðustu ár einokunarinnar.

Íslenska bændasamfélagið hrundi og stjórnkerfið í landinu (biskupsstólarnir þar á meðal) og vísir að breyttum tímum hófst. Konungur afnam einokunarverslunina 18. ágúst 1786 en formlega lauk einokunarverslun 31. desember 1787 og svokölluð fríhöndlun tók við 1. janúar 1788.

Eitt ákvæðið í fríhöndlunartilskipuninni var samt sem áður bann við verslun Íslendinga við aðra en þegna Danakonungs. Í sjálfu sér ekki slæmt til að byrja með en þegar verslunin var gefin frjáls 1855 og Íslendingar hófu sölu sauðfé til Bretlands í stórum stíl, varð ljóst að höftin höfðu hægt á efnahagslegri framþróun á Íslandi.

Það var einmitt draumur Skúla frá fyrstu tíð, að hér yrði stofnuð íslensk verslunarstétt sem sæi um Íslandsverslunina. Það gekk hins vegar seint eftir og var kaupmannastéttin að mestu dönsk framan af en hún settist hér að og reisti sér hýbýli og af henni er komin stór ættarbogi Íslendinga. Svo komu íslenskir brautryðjendur í verslun og útgerð og má þar nefna Bjarna Sívertsen (eða Bjarni riddari) (1763-1833) sem var kaupmaður í Hafnarfirði og brautryðjandi í verslun og útgerð á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband