Færsluflokkur: Stríð

Svíar og Finnar (og aðrar þjóðir) búa sig undir stríð - en hvað með Íslendinga?

Síðasta meistaraverk Joe Biden, sem telst vera "lame duck" forseti síðustu mánuðina er að stigmagna átökin við Rússland. Hann hefur ekkert umboð til að koma stríðinu yfir á viðsjárverða hættustig. Ákvörðun hans er óskiljanleg, nema að fólkið í kringum hann (Biden er ekki andlega með okkur) vilji skilja eftir sviðna jörð handa Trump sem hefur heitið því að ljúka stríðinu sem fyrst. Svo er það spurning hvort að Pútín bíti á agnið eða bíði eftir Trump.

En Evrópuþjóðirnar eru áhyggjufullar, allar nema Ísland. Stjórnvöld eru að undirbúa borgaranna undir hugsanlegt stríð. Í ljós kom í pallborðsumræðu Varðbergs - samtaka um vestræna samvinnu sem ber heitið "Utanríkisstefna á umbrotatímum. Öryggi, varnir og alþjóðasamskipti í viðsjárverðum heimi" að lítill áhugi er á varnarmálum. Enginn þátttakenda hafði raunverulega þekkingu, ekki  einu sinni sem leikmenn á viðfangsefninu, nema kannski Sjálfstæðismaðurinn Kolbrún eins og kemur fram í blogg greininni: "Spekingar” spjalla: Pallborðsumræða Varðbergs um öryggis- og varnarmál Íslands

Í frétt Morgunblaðsins í vikunni segir: "Sænsk yf­ir­völd hófu að senda fimm millj­ón bæk­linga til lands­manna þar sem þeir voru hvatt­ir til að búa sig und­ir mögu­leg stríðsátök. Þá hafa Finn­ar opnað sér­staka vefsíðu þar sem farið er yfir mik­il­væg atriði komi til átaka."

Bæk­ling­ur­inn er 32 blaðsíður og þar má finna ein­fald­ar teikn­ing­ar sem sýna þær ógn­ir sem steðja að Svíþjóð, m.a. hernaðarátök, nátt­úru­ham­far­ir, hryðju­verk og tölvu­árás­ir. Þar er að finna ráðlegg­ing­ar varðandi all­an viðbúnað, m.a. að eiga mat­ar­birgðir, eins og dósamat, og vatn. Að sögn MSB er meiri áhersla á und­ir­bún­ing fyr­ir stríð í hinni upp­færðu út­gáfu. Næstu tvær vik­urn­ar mun bæk­ling­ur­inn rata inn á 5,2 millj­ón sænsk heim­ili.

Svíar og Finnar búa sig undir stríð

En hvað eru íslensk stjórnvöld að gera? Ekkert. Allt í lagi, Íslendingar vilja ekki taka þátt í eigin vörnum og helst að stinga höfuðið í sandinn. Gott og vel. En það er lágmark að búa almenning undir hugsanleg átök, annað er ábyrgðaleysi. Það þarf ekki einu sinni stríðsátök, til að skerða matvæla aðdrætti eins og kom í ljós í efnahagskreppunni 2008. Þar voru Íslendingar hársbreidd frá því að greiðslukerfi landsins yrði lamað og þar með peningaviðskipti = ekki hægt að kaupa matvörur.

Hið sama gert í Finnlandi, Noregi og Danmörku

Í Finnlandi voru sambærilegar leiðbeiningar settar fram á heimasíðu stjórnvalda. Finnsk stjórnvöld taka fram í sínum leiðbeiningum að landið sé vel undirbúið ef til átaka komi.

Í Noregi og Danmörku hafa íbúar fengið bæklinga senda heim með upplýsingum um hvernig best sé að búa sig undir viku af óveðri, stríði eða öðrum ógnum. Sjá slóð: Stjórnvöld á Norðurlöndum kenna íbúum að búa sig undir stríðsátök

Úr því að íslensk stjórnvöld vilja ekki gera neitt, koma hér leiðbeiningar til handa Íslendingum en sænski bæklingurinn heitir:  Om krisen eller kriget kommer

Hér er hann í PDF formi á ensku: In case of crisis or war

Sú var tíðin að á höfuðborgarsvæðinu voru loftvarnarflautur (sem þeyttar voru í æfingaskyni reglulega) og leiðbeiningar í símaskrá um hvað beri að gera vá ber að höndum. Ekki lengur. Engar leiðbeiningar. En sem betur fer erum við með almannavarnir - sjá slóð: Almannavarnir en hver veit af tilvist þessara stofnunar?


Er Ísrael að fara að auglýsa skotmörk fyrirfram?

Samkvæmt fréttum hafa Ísraelmenn lofað stjórn Joe Biden að ráðast ekki á olíu skotmörk eða kjarnorku skotmörk.  Er einhver sem trúir þessu?  Hvernig Ísraelher hefur starfað síðan þetta stríð hófst, hefur vakið undrun og ótta andstæðingana. Bloggritari er nokkuð fróður um hernaðarsögu en hann man ekki eftir að nánast öll yfirstjórn óvina hafi verið tekin út, áður en herafli þeirra er útrýmt.

Ísraelmenn græða ekkert á því að eyða herstöðvar í Íran, það espir bara Írana upp. Ef hlustað er grannt á ísraelska fjölmiðla segja þeir að þetta sé sögulegt tækifæri til að taka út kjarnorku vopna framleiðslu Írana. Þeir síðarnefndu er líklega komnir með kjarnorkusprengjur en þeir þurfa að festa þær á eldflaugar sem þeir eiga reyndar nóg af. Óstaðfestar heimildir eru um kjarnorkuvopna sprengu tilraun fyrir nokkrum misserum. Það er nú eða aldrei fyrir Ísraelmenn en hvað það þýðir fyrir okkur hin og heimsfriðinn, það er annað mál að pæla í.


Hvernig þróast stríðsátökin í Miðausturlöndum?

Það er að komast skýrari mynd á átökin og hvert þau stefna. Svona stefna þau líklega. Ísraelar loka og taka yfir landamæri Gaza við Egyptaland og koma þannig í veg fyrir frekari smygl á vopnum til svæðisins.

Ef mið er tekið af Líbanon stríðinu 1982, linna þeir ekki látum fyrr en Hezbollah er svipt völdum. Þannig var það með PLO, hersveitir þeirra voru reknar úr landi og fullur sigur í höfn.

Varðandi Íran, þá sjá Ísraelar (búnir að bíða lengi eftir tækifæri) til að ráðast á kjarnorku framleiðslu stöðvar þeirra. Valið er á milli þess að taka út kjarnorkugetu Írans eða olíu framleiðslu þeirra en 50% af útflutningi þeirra er olía og gas.

Þessi leið mun leiða til olíuskorts og átök við nágrannaríki og því ekki líkleg. En þeir verða að taka út kjarnorkuvopna framleiðslu Írana, annars hangir sú hætta stöðugt yfir. Svo munu þeir halda áfram að drepa háttsetta leiðtoga innan Írans og hjálpa andspyrnuhreyfingar ásamt CIA að velta ríkisstjórninni úr sessi.


Móðuharðindin og stofnun íslensks hers í miðjum harðindum

Hugmyndin um að stofna íslenskan her á tímum Móðuharðindanna er tengd dönskum ráðamönnum, en einnig nokkrum íslenskum embættismönnum. Áætlanirnar áttu sér stað undir lok 18. aldar þegar Danir voru að styrkja stjórn sína á Íslandi. Þó að þetta væri áætlun frá dönskum stjórnvöldum, voru einnig íslenskir embættismenn sem tóku þátt í umræðunni. Enginn her varð þó til í raun og veru vegna erfiðleikanna sem fylgdu hamförunum og vekur athygli vegna veruleikafirringar sem þessi hugmynd er í miðjum náttúruhamförum. En kannski voru menn að hugsa fram í tímann?

Helstu aðilar tengdir herstofnunaráformum

Ove Høegh-Guldberg (1731–1808). Guldberg var áhrifamikill danskur embættismaður sem hafði umsjón með utanríkis- og nýlendustjórn Dana á þessum tíma. Hann var forsprakki fyrir þeirri hugmynd að her væri nauðsynlegur til að halda uppi stjórn Dana yfir Íslandi og vernda danska hagsmuni á svæðinu.

Jón Eiríksson (1728–1787). Jón Eiríksson var íslenskur embættismaður og þjóðfræðingur sem starfaði í Kaupmannahöfn og hafði mikil áhrif á íslensk málefni innan danska stjórnkerfisins. Hann var mikilvægur tengiliður Dana við Ísland á þessum tíma og var einn af þeim sem ræddu um herstofnunina, þó að hann hafi líklega haft efasemdir um hagkvæmni slíkrar stofnunar í miðju hörmungunum.

Magnús Stephensen (1762–1833). Magnús Stephensen, sem síðar varð dómari og landfógeti, var líka þátttakandi í stjórnmálaumræðum Íslands og Dana á þessum tíma. Þó hann væri yngri á þessum tíma, varð hann áberandi í íslenskum stjórnmálum og hefði eflaust tekið þátt í framkvæmdum ef herstofnun hefði átt sér stað.

Hannibal Knudsen (1752–1795). Hannibal var danskur embættismaður sem hafði verið sendur til Íslands til að rannsaka ástandið á árunum eftir Móðuharðindin. Hann skrifaði skýrslu þar sem hann benti á mikilvægi þess að styrkja stjórn Dana yfir Íslandi, þar á meðal með herstyrk.

Georg Christian Oeder (1728–1791). Oeder var danskur náttúrufræðingur og embættismaður sem hafði áhuga á nýlendum og landsstjórnun. Hann var einnig talsmaður þess að halda Ísland í föstum skorðum með skipulagðri stjórn, og hugmyndin um her gæti hafa komið upp í slíkum umræðum.

Stefán Þórarinsson (1734–1798) var íslenskur amtmaður og embættismaður sem gegndi lykilhlutverki í stjórnsýslu Íslands undir dönskum yfirvöldum. Hann var amtmaður í Suður- og Vesturamtinu, og tók virkan þátt í stjórnmálaumræðu á tímum Móðuharðindanna. Stefán var einnig hvatamaður hugmynda um stofnun íslensks landhers á Alþingi 1785. Hann, ásamt öðrum íslenskum og dönskum embættismönnum eins og Hans von Levetzow stiftamtmanni, tók þátt í umræðum um hvernig her gæti styrkt stjórn Dana og tryggt öryggi á landinu eftir hörmungarnar.

Stefán var þátttakandi í því að skipuleggja ráðstefnuna sem var haldin í tengslum við Alþingi þetta ár, þar sem íhugað var hvort herstofnun væri æskileg eða raunhæf lausn á vandamálum Íslands. Hugmyndin var að stofna herstyrk sem gæti haft eftirlit með löndum landsins og tryggt að uppreisnir eða óánægja yrðu ekki vandamál. Þrátt fyrir að umræður hafi átt sér stað, varð ekkert úr þeim áætlunum, meðal annars vegna alvarlegs ástands samfélagsins eftir náttúruhamfarirnar.

Stefán Þórarinsson lék því mikilvægt hlutverk í þessum ráðagerðum en af hverju þær urðu aldrei að veruleika má rekja til þess að Ísland var illa undirbúið efnahagslega og félagslega til að stofna her.

Og svo er það aðalmaðurinn Hans von Levetzow (1739–1806) sem komið verður hér inn á hér að neðan.

Af hverju herstofnun?

Ástæðurnar fyrir áformum um íslenskan her voru tengdar stjórnmála- og stjórnunarlegum áhyggjum Dana:

  • Möguleg uppreisn: Íslenskir embættismenn óttuðust ólgu meðal almennings vegna hungursneyðar og misskiptingar.
  • Trygging á stjórn Dana: Með stofnun hers hefðu Danir tryggt stjórn sína yfir Íslandi og hindrað að erlendar þjóðir reyndu að ná yfirráðum.

Látið til skara skríða 1785

Á Alþingi sumarið 1785 var staðan eftir Móðuharðindin mikið rædd. Alþingismenn fjölluðu um þær hörmungar sem gengið höfðu yfir landið, sérstaklega Skaftárelda og afleiðingar þeirra. Rætt var um hvernig Danir gætu aðstoðað, meðal annars með efnahagsaðgerðum og aðgerðum til að endurreisa landið. Umræðan um stofnun íslensks landhers kom einnig fram, þar sem helstu ráðamenn, þar á meðal Hans von Levetzow og Stefán Þórarinsson, lögðu fram tillögur um slíkt, þó að hugmyndin hafi ekki náð fram að ganga.

Alvarlegar hugmyndir um stofnun íslensks landhers voru settar fram eins og áður sagði, að frumkvæði danskra stjórnvalda. Hans von Levetzow stiftamtmaður, Stefán amtmaður Þórarinsson og Björn Markússon lögmaður voru hvatamenn þessara áforma. Lagt var til að stofna 300 manna her, launaður með hærri sköttum. Þrátt fyrir könnun árið 1788 þar sem 600 manns gáfu sig fram, voru þessar áætlanir óframkvæmanlegar vegna ástandsins eftir Móðuharðindin. Hugmyndin varð aldrei að veruleika.

Hans von Levetzow (1739–1806) var þýskur ættaður danskur embættismaður sem gegndi lykilhlutverki í stjórn Dana á Íslandi. Hann var stiftamtmaður Íslands frá 1770 til 1793, á þeim tíma sem landið gekk í gegnum miklar hörmungar, þar á meðal Móðuharðindin (1783–1785). Levetzow beitti sér fyrir breytingum í stjórnsýslu og stjórnaði meðal annars ráðstefnu árið 1785 þar sem hugmyndir um stofnun íslensks landhers voru ræddar. Hann gegndi einnig ýmsum embættum innan danska ríkisins og hafði mikil áhrif á stjórnarskipan Íslands á þessum tíma.

Af hverju varð ekkert úr áformunum?

Áformin voru í raun mjög óraunhæf, þar sem ástandið á Íslandi var hræðilegt vegna Móðuharðindanna. Hungursneyðin hafði dregið stóran hluta þjóðarinnar til dauða, og efnahagslífið var í rúst. Þó að hugmyndin hafi verið rædd í Kaupmannahöfn, var hún aldrei framkvæmd vegna þess að stjórnvöld sáu að það var óframkvæmanlegt að stofna her í miðri neyð.

Herstofnunin er því dæmi um hugmynd sem varð aldrei að veruleika, en hún sýnir samt þann óróleika sem ríkti bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn á þessum tíma.

 


Nútíminn um konur sem víkingar eða stríðsmenn

Á Netflix er verið að sýna þáttaröð sem á að kallast saga víkinga - The Vikings. Þar er goðsemdarkennda persóna Ragnar loðbrók höfð sem aðalpersóna.  Þetta er ágæt skemmtiefni en er langt frá raunveruleikanum.

Þar er t.d. haldið fram að konur hafi verið víkingar, þ.e.a.s verið stríðskappar. Þetta er eins fjarri veruleikanum og hægt er að hugsa sér. Jú, konur fóru með körlum í víking, enda oft ætlunin að setjast að í herteknu landi, en þær börðust ekki við hlið karlanna. Hlutverkaskipan á þessum tíma var fastmótuð og allir höfðu sitt hlutverk. Menn voru fastir í sinni samfélagsstöðu. Það þarf ekki annað að en að lyfta sverði, taka upp skjöld og fara í hringabrynju til að finna hversu erfitt var að berjast á þessum tíma. Í raun aðeins á færi stælta karlmanna á bestum aldri.

Það eru engar traustar skriflegar vísbendingar úr samtímanum – hvorki úr Íslendingasögum, sögulegum frásögnum eða samtímasögum, svo sem konunga sögum eða Sturlungu – um að konur hafi tekið þátt í bardaga eða herjað á svipaðan hátt og karlar.

Minnst hefur verið á stríðskonur í goðsögum. Textar eins og Saga Völsunga og Gesta Danorum eru dýrmætir til að skilja menningu og goðafræði víkingatímans, en þeir eru ekki fyllilega áreiðanlegir sem söguleg sönnunargögn. Þessar heimildir gefa innsýn í hugsjónir og skoðanir víkinga um hlutverk kynjanna og stríðsrekstur en ætti að túlka þær með varúð og jafna þær á við áþreifanlegri heimildir eins og fornleifafræði og samtímasögur.

Goðafræði skjaldmeyja og goðsagnakenndra kvenkyns stríðsmanna endurspeglar ekki endilega sögulegan veruleika heldur hugmyndir eða óvenjulegar persónur. Í augnablikinu er hugmyndin um víkingakonur sem stríðsmenn að mestu leyti vangaveltur, á rætur í goðafræði og einstökum fornleifamálum (einu umdeildu fornleifa máli) sem veita ekki óyggjandi sönnun um kvenkyns stríðsmenn í víkingasamfélaginu. Hvað er þetta umdeilda fornleifa mál eða réttara sagt gröf sem á að sýna kvennkyns víking?

Birka gröfin Bj 581 á að heita undantekningartilvik og getur ekki sett reglu eða verið óyggjandi sönnun þess að konur börðust reglulega sem stríðsmenn í víkingasamfélagi. Reyndar bendir eitt dæmi ekki til þess að kvenkyns stríðsmenn hafi verið útbreidd eða viðurkennd norm á víkingaöld og er verið að tala um gröf BJ 581.

Þessi gröf er eitt af tveimur fornleifafræðilegum dæmum (mjög umdeilt) þar sem kona hefur verið grafin með fullt sett af vopnum, venjulega tengt stríðsmönnum. Þessi gröf sker sig einmitt úr vegna þess að hún er einstök í samanburði við langflestar grafir á víkingaöld, sem benda ekki til þess að konur hafi verið útbúnar eða grafnar eins og stríðsmenn. Vopnin hafa t.d. sett í gröfina sem heiðurs staða.

Þessi sérkenni gerir það að verkum að erfitt er að alhæfa um víkingakonur sem hermannastétt. Meirihluti kvenkyns grafa frá víkingaöld inniheldur heimilismuni, skartgripi eða verkfæri sem tengjast heimilislífi frekar en vopn.

Menningarviðmið víkingatímans segja mikla sögu líka. Þó að konur í víkingasamfélagi hefðu umtalsverð félagsleg, efnahagsleg og lagaleg réttindi samanborið við konur í öðrum samtímamenningum, tóku þær yfirleitt ekki þátt í hernaði. Höfðu völd innanstokks en karlarnir riðu á þing og réðu. Flestar sögulegar heimildir og greftrunargögn leggja áherslu á hlutverk kvenna á heimilinu, stjórnun bús og stundum mikilvægar félagslegar stöður, en ekki sem bardagamenn.

Goðsögulegar persónur Valkyrja og skjaldmeyja tákna líklega hugsjóna eða goðsagnakenndar hlutverk frekar en sögulegan veruleika.

Rökræður í kringum Bj 581. Sumir fræðimenn halda því fram að vopnin í Bj 581 gefi ekki endilega til kynna að konan sem þar var grafin hafi verið stríðsmaður sjálf. Hlutirnir gætu hafa haft táknrænan eða trúarlegan tilgang, táknað vald, stöðu eða fjölskyldutengsl frekar en persónulega notkun í bardaga.

Skortur á bardagaáverkum á beinagrindinni vekur spurningar um hvort þessi einstaklingur hafi tekið virkan þátt í bardaga.

Víðtækara fornleifafræðilegt samhengi:

Flestar grafir frá víkingaöld endurspegla skýra skiptingu í hlutverkum og stöðu karla og kvenna, sérstaklega hvað varðar vopn. Karlagrafir innihalda oft vopn, á meðan kvennagrafir eru venjulega búnar hlutum sem tengjast heimilislífi, svo sem lyklum (tákn um heimilisvald) eða textílverkfæri.

Ein einangruð gröf eins og Bj 581, án víðtækari sönnunargagna frá öðrum kvenkyns stríðsgröfum samtímans, er ekki nóg til að gefa til kynna að víkingakonur hafi reglulega tekið að sér bardagahlutverk.

Lítum á þetta út frá sögulegt og bókmenntalegt samhengi. Það er ekki minnst á konur sem stríðmenn í samtímaheimildum eins og Sturlungasögu og aðrar Íslendingasögur. Þess í stað leggja þær áherslu á félagsleg, pólitísk og heimilisleg hlutverk sem konur gegndu, sem voru öflug en ólík hernaði.

Sögulegir textar utan víkingasamfélagsins, eins og frá arabískum og engilsaxneskum áhorfendum, skjalfesta heldur ekki konur sem bardagamenn, sem styrkir þá hugmynd að kvenkyns stríðsmenn hafi verið sjaldgæfir, ef þeir væru til.

Niðurstaðan er einföld

Þó að Bj 581 gröfin sé heillandi og mikilvægur uppgötvun, þá staðfestir hún ekki að kvenkyns stríðsmenn hafi verið regla í víkingasamfélagi. Það er enn undantekningartilvik og víkingasamfélag fylgdi almennt patriarkískum viðmiðum þar sem karlar voru aðal bardagamenn og hlutverk kvenna var að miða við heimilishald og heimilisvald.

Konur voru í nokkrum undantekningum í leiðtoga- eða trúarhlutverkum.

Goðafræði skjaldmeyja og rómantískar hugmyndir um stríðskonur endurspegla líklega hugsjónir víkinga, frásagnir og undantekningartilvik, frekar en sögulegan veruleika. Án frekari sannana styður tilvist eins dæmis eins og Bj 581 ekki þá hugmynd að víkingakonur hafi reglulega tekið þátt í hernaði eða að þær hafi gegnt aðalhlutverki í hernaðaraðgerðum víkinga.

Í blálokin. Það er bara þannig að nútímamenn, á öllum tímum, vilja yfirfæra sinn veruleika yfir á aðra tíma. Í raun getum við aldrei farið fyllilega í spor annarra, hvað þá á öðru tímabili. Kvennfrelsið er tiltölulega ný komið sem og frelsi fyrir alla karlmenn. Stéttskipting hefur verið ráðandi þáttur í samfélögum fortíðarinnar, allt frá því að siðmenning hófst fyrir ca. tíu þúsund árum. Menn hafa því kúgað konur og aðra menn allan þennan tíma. Svona er bara lífið. 


Norðurlöndin einhuga um aukið samstarf í öryggis- og varnarmálum - utangarðsríki

Grænland, Færeyjar og Álandeyjar hafi oft upplifað sig utangarðs í norrænu samstarfi. Líka í öryggis- og varnarmálum. En í raun er Ísland líka utangarðsríki í öryggis- og varnarmálum.

Skandinavísku ríkin fjögur, Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland héldu sérstakan fund nýverið með umræðum um öryggis- og varnarmál. Þessi ríki sáu enga ástæðu til að bjóða Íslandi. Og til hvers að bjóða Íslandi þegar ríkið sýnir í verki að það hafi engan eða lítinn áhuga á eigin vörnum? 

Hér er enginn her og löggæslan innan landhelginnar er í skötulíki.  Það er ekki einu sinni virkt eftirlit í fjörðum landsins eins og kom fram í máli forstjóra Landhelgisgæslunnar.  Það ætti því að vera nóg að senda afrit af ályktun slíkra funda til utanríkisráðuneytisins, kannski að eitthvað möppudýrið þar nenni að lesa hana.

Norðurlöndin einhuga um aukið samstarf í öryggis- og varnarmálum


Sigurður Jórsalafari Magnússon fer til landsins helga (Ísrael)

Sigurður Jórsalfari konungur var kallaður Jórsalafari ("Sá sem ferðaðist til Jerúsalem", eða "Krossfarinn"). Var annar sonur Magnúsar berfætts konungs af Noregi. Hann fór í víking 10 ára gamall, var jarl af Orkneyjum og "konungur Eyjanna" 12 ára.

Eftir að faðir hans var drepinn í launsátri á Írlandi 1104 fór Siguð aftur til Noregs og varð konungur með hálfbróðir sínum  Eysteini.  Þegar hann var 18 ára dró hann saman einn stærsta flota miðalda í því sem þá var stærsta borg Noregs, Björvin (Bergen). 60+ skip, 5 000 - 8000 menn. Háfæddir aðalssmenn, atvinnustríðsmenn, bændur og þræla. Um það bil 10 - 12% af heildarfullorðnum karlmönnum í Noregi á þeim tíma.

Hvert fór Sigurður? Hann fór í krossferð. Eftir að hafa haft vetursetu á Englandi, eða hugsanlega í Frakklandi, frelsuðu hann og menn hans Lissabon, Baleareyjar og aðrar eyjar í Miðjarðarhagi frá múslimskum höfðingjum áður en þeir fóru inn í hið helga land. Þar sem þeir unnu nokkurn veginn alla bardaga sem þeir tóku þátt í. Hann var fyrsti evrópski konungurinn sem fór í raun í krossferð og var hugsanlega sá eini sem persónulega stóð í bardagalínunum.

Eftir að hafa hjálpað til við að tryggja Jerúsalem fyrir kristna  fór Sigurður Jórsalfari til Konstantínópel (Miklagarð) og dvaldist þar um hríð. Hann lét býsanska keisarann eftir talsvert ránsfengs síns í skiptum fyrir nokkra hesta og fylgdarlið, skildi marga menn sína eftir í borginni og sneri aftur til Skandinavíu yfir land. Margir af Jórrsala stríðsmönnunum voru teknir inn í Væringja lífvörðinn. Á leið sinni heim heimsótti Sigurður marga evs staði og dóma og tókst að koma krossfaraáróðri til þeirra. Og þetta er mögulega mikilvægasta arfleifð Sigurð Jórsalfara. Að heimsókn hans hafi sannfært fjöldann allan af evrópskum konungum um að þeir ættu að fara í krossferð. 

Sigurður Jórsalfari kom heim til Noregs árið 1111 og það sem eftir lifði hann tiltölulega friðsælt. Sigurður leiddi herferð inn í það sem nú er Svíþjóð, og hugsanlega krossferð í Eystrasaltslöndunum, en það er óvíst. Hann ríkti með Eysteini bróður sínum til 1123 og var einvaldur í Noregi til dauðadags 1130, 40 ára að aldri. Nokkuð undarlegt fyrir mann sinnar tegundar, féll Sigurður Jórsalfari ekki í orrustu. Hann einfaldlega dó. Og við vitum ekki nákvæmlega hvers vegna. Eftir dauða hans féll Noregur inn í borgarastyrjöld sem stóð yfir í meira en 100 ár og hún fór á fullt í n.k. Game of Thrones söguþráð um tíma.

Hvernig leit Sigurur Jórsalfari eiginlega út? Það er ómögulegt að segja. En samkvæmt sögunum var Sigurður stærri en flestir venjulegir menn. Hann var greinilega alvarlegur einstaklingur og hann var ekki myndarlegur. Sigurður var brúnhærður og var víst ekki með heilskegg sem tíðkaðist á þeim tíma. Af hverju veit í raun enginn. Samkvæmt heimildum var hann mjög þögull og talaði aðeins þegar hann hafði eitthvað mikilvægt að segja.

Hvers vegna að minnast hans? Jú, það voru Íslendingar með honum í för og sumir gerðust Væringjar. Það er verið að skrifa doktorsritgerð um sögu Væringja og væri það fróðleg saga að lesa. Svo er þetta athyglisvert í ljósi átaka samtímans, í Ísrael.

það voru sum sé Íslendingar sem gengu til liðs við Sigurð I Noregskonung,  Nokkrar Íslendingasögur, einkum Heimskringla eftir Snorra Sturluson, nefna Íslendinga sem tóku þátt í þessum leiðangri. Í sögunum er sagt frá því hvernig floti Sigurðar ferðaðist um ýmsa hluta Evrópu, náði að lokum til Jerúsalem og tók þátt í orrustum á leiðinni.

Þó nákvæmur fjöldi íslenskra þátttakenda sé óviss, benda sögurnar til þess að Íslendingar, sem hluti af breiðari norska konungsríkinu, hafi sannarlega átt hlut að máli. Margir Íslendingar á þeim tíma tengdust Noregi, ýmist í viðskiptum, ættartengslum eða pólitískum trúnaði, sem gerði það sennilegt að þeir hefðu farið í svo merkan leiðangur.

Sigurður Jórsalfari, var hinn síðasti alvöru víkingurinn!


Eru menn orðnir galnir?

Var að horfa á viðtal við Jack Keane hershöfðingja sem er kominn á eftirlaun. Hann er álitsgjafi Foxnews.  Greiningar hans hingað til hafa verið góðar en álit blokkritara á honum fór í vaskinn eftir þetta viðtal. 

Rætt var við hann um eldflauga sendingu Írans til Rússlands sem er smá í sniði. Nú hafa Bretar ákveðið að aflétta hömlur á slíkar sendingar frá Bretlandi en Þjóðverjar ætla ekki að gera hið sama.  Þegar Keane var spurður hvort þetta muni ekki leiða til stærra stríðs, vísaði hann því á bug og sagði að Pútín hafi bara verið stóryrtur og ekki gert neitt - hingað til.

Það er nefnilega málið, skynsamir menn reyna að hóta andstæðingnum þannig að hann geri ekki mistök. Svo kemur að því að allt fer úr böndunum og þróunin verður stjórnlaus. Stríðið í Donbass var einmitt staðgengilsstríð þar til vitley... Joe Biden tók við völdin. Hann magnaði upp stríðið með vopnasendingum og Pútín ákvað í kjölfarið að gera innrás. Nokkuð sem hefði aldrei gerst á vakt Trumps.

Í stað þess að tala saman og koma friðarviðræðum af stað, þá ætlar Biden að bæta í það sem eftir er af valdtíð hans og ekki verður ástandið betra ef Harris tekur við. Guð hjálpi okkur.

Keane benti á eitt atriði sem heimskir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum ættu að hafa í huga en það er að ef Kína ákveður að taka Taívan með vopnavaldi, munu Rússar fara af stað með annað stríð en svo munu Íranir líka gera. Allsherjar stríð verður þá í Asíu, Evrópu og Miðausturlöndum. Það vita allir að Bandaríkin geta ekki háð tvö stórstríð samtímis. Þetta er ekki Afganistan og Írak - vanmáttugir andstæðingar. Þriðja heimsstyrjöldin þar með hafin og Íslendingar þátttakendur með NATÓ herstöð í túnfæti höfuðborgarsvæðisins. Utanríkisráðherra vor hefur séð til þess að Rússar hafi ekki gleymt Íslendingum og hugsa þeim þeigandi þörfina er stríð brýst út. Við höfum þegar rofið diplómatísk tengsl við Rússlands og gerst beinir þátttakendur í Úkraínu stríðinu með vopnasendingar og þjálfum úkraínskra hermanna (Landhelgisgæslan sá um það).

Það er enginn að fara að vinna stríð gegn mesta kjarnorkuveldi heims, Rússland. Kínverjar hafa líka kjarnorkuvopn og líklega Íranir. Það er í varnarstrategíu Rússlands, að ef innrásarher eða stórfelld árás verður gerð á ríkið, grípi það til kjarnorkuvopna sem fyrstu viðbrögð. Þetta vita Kínverjar og hafa því aldrei þorað að taka part af Rússlandi í stríði, en landið er afar strjábýlt en Kína þéttbýlt og þeir hafa alltaf litið hýru auga á Síberíu og Austur-Rússland. Herafli Rússlands skiptist í sex hluta. Einn er geimher, annar er eldflaugaher, flugher, floti, landher og herafli með sérsveitir. Eldflauga herinn verður ræstur út strax.

 


Framfarir og saga - lærdómurinn af heimsstyrjöldinni síðari enginn?

Það verða engar framfarir hjá mannkyninu nema menn læri af reynslunni. Það á bara ekki við um sögulega atburði, heldur almennt í lífinu. Ef maður setur dísel olíu á bensín vél og bíllinn gengur ekki, væntanlega lærir hann af reynslunni og gerir þetta ekki aftur. 

Það er hins vegar verra með lærdóminn af sögunni. Jú, menn læra á neikvæðan hátt afleiðingar þess að fara í stríð.  Stríðsátökin sitja í viðkomandi kynslóð og menn segja, aldrei aftur þetta helvíti. Svo líður tíminn, stríðskynslóðin fer undir græna torfu, og núverandi kynslóð, feit af velmegð og frið, leitar að ágreiningi. Við eigum landið hinum megin við ánna, forfeður okkar áttu það fyrir hundruð ára og við viljum það til baka. Og næsta stríð hefst og sagan endurtekur sig.

Sem betur fer situr stórátökin lengi í fólki, sigurinn svo afgerandi að valdajafnvægi kemst á. Þetta á við Napóleon styrjaldirnar sem sköpuðu nánast hundrað ára friðartímabil og svo á við um heimsstyrjaldirnar tvær sem flestir sagnfræðingar segja að sé sama stríðin með hléi.  Núna er komið rúmlegar 80 ára friðar tímabil eftir seinni heimsstyrjöld og því ætti eftir formúlinni að styttast í næsta stór styrjöld. Hugsanlega álfu stríð frekar en heimsstyrjöld.

En hvað segir Victor Davis Hanson um lærdóminn af seinni heimsstyrjöldinni. Sjá má skoðun hans í verkinu "The Second World Wars" og býður hann upp á nokkra mikilvægar lexíur.

Einn lykillærdómur er að stríðið var ekki óumflýjanlegt heldur stafaði af fælingarmætti. Hann leggur áherslu á hlutverk friðþægingar Breta og Frakka, einangrunarhyggju Bandaríkjanna og samvinnu Sovétríkjanna við að leyfa Hitler að rísa upp og stækka óheft. Hanson heldur því fram að hernaðarvald eitt og sér sé ekki nóg; skilvirkur fælingarmáttur og vera reiðubúinn til að takast á við árásaraðila eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir átök. Friður í gegnum styrk kallast þessi stefna.

Annar mikilvægur þáttur frá Hanson er fordæmalaus eðli stríðsins. Þetta varð alþjóðleg átök á þann hátt sem fyrri heimsstyrjöldin hafði ekki gert, sem hafði áhrif á næstum allar helstu þjóðir heims.

Hann leggur áherslu á að hryllilegur tollur stríðsins hafi að hluta til stafað af samsetningu nýrrar tækni, fjöldavirkjunar og allsherjarhernaðaráætlana, sem hafi gert þá seinni mun mannskæðari en fyrri átök. Hanson kannar einnig hvernig, þrátt fyrir fyrstu velgengni nasista, studdu efnislegir og hernaðarlegir yfirburðir að lokum sigurs bandamanna, sem undirstrikar mikilvægi iðnaðarstyrks og alþjóðlegrar samhæfingar í nútíma hernaði (Hoover Institution).

Bloggritari er á því að líkt og með aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar, hafi valdajafnvægið tekið að raskast og það á köflum hangið á bláþræði. Svo var ætt í stríð 1914 sem átti að klárast fyrir jólin. Lítið sætt stríð.  Aðdragandinn var langur og náði fyrir aldarmótin 1900.

Sama á við ástandið í dag. Valdajafnvægið fór við lok kalda stríðsins og menn hafa reynt að fóta sig í breyttum heimi. Í stað tvípóla heims, kom einpóla. Nú eins og alltaf kemur fram rísandi stórveldi, hér Kína. Í mótun virðist vera aftur tvípóla eða fleirpóla heimur. Vonandi í þessum ferli, slá menn ekki feil keilur og asnist út í stríð.  Bloggritari hefur það á tilfinningunni að heimska stjórnmálamanna taki enn og aftur yfir og það stefni a.m.k. í álfustríð eða þriðju heimsstyrjöld.

 

 


Ísraelskan dróna fyrir Landhelgisgæsluna?

Vandræðagangur Landhelgisgæslunnar vegna einu eftirlitsflugvélar sínar hefur vakið athygli almennings. Sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnarsson hefur einhvern hluta vegna viljað spara við rekstur gæslunnar með því ráðast á rekstur eftirlitsvélarinnar. Þetta er skrýtinn málflutningur, því ef eitthvað er, ætti að bæta í og auka öryggið og eftirlitið innan efnahagslögsögu Íslands. Almenningur og sjómenn þar fremstir í flokki hafa lýst yfir algjöra andstöðu við minni viðbúnað gæslunnar en nú er og er lágmarks starfsemi. Sjálfur forstjórinn segir að ef vel ætti að vera, ætti önnur vél að vera tiltæk.

En er þetta ekki afturför ef mið er tekið af sögu eftirlitsflugs á Íslandi? Á vef gæslunnar segir að "Landhelgisgæslan hefur um áratuga skeið notast við flugvélar og þyrlur við löggæslu, eftirlit, leit og björgun auk annarra verkefna. Á árunum eftir síðari heimstyrjöld leigði Landhelgisgæslan stundum flugvélar til að fylgjast með skipaumferð og veiðum í landhelginni, fyrst árið 1948 þegar Grumman Goose-flugbátur var tekinn á leigu. Þetta flug var þó ekki með reglubundnum hætti." Sagan - flugdeildin 

Og höldum áfram með söguna: "10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél og er almennt miðað við þá dagsetningu sem upphaf flugrekstrar stofnunarinnar. Þetta var flugbátur af gerðinni PBY-6A Catalina með einkennisstafina TF-RAN."  Það er því komin 70 ára reynsla og saga á notkun eftirlitsflugvéla við gæslu landhelgarinnar. Við skulum því ýta þessari hugmynd Jóns af borðinu, það er ekki nokkur áhugi neins á Íslandi, nema hans, að leggja niður eftirlitsflug. En hvað er þá til ráða?

Landhelgisgæslan hefur prófað aðra leið, hún fékk til reynslu mannlausan dróna um árið eða 2019. Grípum niður í frétt LHG af málinu:

"Landhelgisgæslan hefur fengið mannlaust loftfar til notkunar sem gert er út frá Egilsstaðaflugvelli. Um er að ræða samstarfsverkefni EMSA, Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, og Landhelgisgæslunnar en loftfarið verður hér á landi í þrjá mánuði. Á tímabilinu verður dróninn prófaður við löggæslu, leit- og björgun og mengunareftirlit á hafinu umhverfis Ísland. EMSA er þjónustuaðili drónans og þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin útvegar dróna af þessari stærð til notkunar. Loftfarið er af gerðinni Hermes 900 og er rúmt tonn að þyngd. Það hefur 800 kílómetra drægi og getur því auðveldlega flogið að lögsögumörkum Íslands fyrir austan landið og til baka. Dróninn kemst á um 120 kílómetra hraða, hefur afísingarbúnað, er stjórnað í gegnum gervitungl, þarf flugbraut til að taka á loft og er með fimmtán metra vænghaf. Þá er hann búinn myndavélum, ratsjá og í honum er einnig sérstakur búnaður sem greinir neyðarboð og sendir þau áfram í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Fjölmenn áhöfn fylgir loftfarinu sem er stýrt af flugmönnum. Meginhluti verkefnisins er fjármagnaður af EMSA." LHG lýsti því yfir að góð reynsla var rekstri drónans á meðan hann var  hér. Mannlaus dróni tekinn í notkun á Íslandi

En það eru færri sem vita að þessi dróni, Hermes 900 er ísraelskur að gerð. Hergagnaframleiðsla Ísraela er með ólíkindum og á mörgum sviðum hafa þeir farið framúr Bandaríkjamönnum. Sem dæmi hafa þeir tekið við herþotum og skriðdrekum Bandaríkjahers og endurbætt þau. Nýjasta dæmið eru endurbætur IDF á F-35 sem talin ein fullkomnasta herþota í heimi.  Ísraelar eru frumkvöðlar í loftvörnum og er frægasta dæmið "Iron dome" loftvarnarkerfi þeirra sem Bandaríkjamenn sjálfir eru að íhuga setja upp fyrir heimalandið, Bandaríkin.

En hefur blönk Landhelgisgæsla efni á eftirlitsdróna? Svarið kemur á óvart, en það er já. Verð á Hermes 900, samkvæmt erlendum skýrslum, getur numið 6,85 milljónum dollara hvern á meðan Hermes 450 kostar 2 milljónir dollara. Þannig að verðlistinn getur varað eftir hvaða gerð af drónum viðkomandi er að eltast við.

Ef litið er á lýsingu á Hermes 450, þá er hann framleiddur af Elbit Systems; er meðalstór dróni hannaður fyrir könnunar- og eftirlitsverkefni og getur flogið í meira en 20 klukkustundir samfleytt.  Dróninn er kallaður Zik af ísraelska hernum og getur náð tæplega 5,5 km hæð.

Þar sem dróninn er mannlaus, stjórnað af jörðu, er hægt að hafa hann á lofti megnið af deginum og hjálpað til við eftirlitsflugvélina að sjá um öryggiseftirlits landhelginnar. Í einu myndbandi má sjá drónann varpa niður björgunarhylki til nauðstaddra sjómanna og því getur hann einnig nýtts við björgunarstörf.

Í þessu myndbandi má sjá drónan í rekstri.

Og fyrir Alþingismenn sem væla og segja að engir peningar séu til, þá ættur þeir að lesa þessa frétt, en Íslendingar eru í stríðsrekstri í Úkraínu og eru að veita 3 milljarða í það peningahít. Svo er ekki til peningur til að reka þyrlusveit eða eftirlitsflugvél LHG! Hvernig væri að forgangsraða skattféi mínu og þínu betur! Þrír milljarðar í stríðs rekur í Úkraínu


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband