Styrjaldir í upphafi árs 2025

Ekkert lát er á tveimur styrjöldum sem heimsbyggðin er með augun á. Það er stríðið í Gaza, sem er orðið að svæðisstríði, því Ísraelar berjast í Sýrlandi, Íran, Jemen, Líbanon, Gaza og Vesturbakkanum. Hitt stríðið er stríðið í Úkraínu sem er umfangsmeira og meira í átt að stríði milli tveggja ríkja - í fullum skala. 21. aldar stríð.

En það eru átök annars staðar, svo sem átök milli Afganistan og Pakistan. Frá árinu 2024 hafa verið viðvarandi átök milli afganskra hersveita talibana og pakistanska hersins meðfram landamærasvæðum. Þessi átök hafa falið í sér árásir yfir landamæri og svæðisdeilur, sem stuðlað að óstöðugleika á svæðinu.

Houtínar (e. Houthi) í Jemen hafa bætt Ísrael á verkefnalista sinn en menn gleyma að borgarastyrjöldin í Jemen er viðvarandi, milli uppreisnarmanna Hountínar og alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn, ásamt bandamönnum þeirra, halda áfram að taka þátt í hernaði. Mannúðarkreppan á svæðinu er enn alvarleg.

Svo er mikil spenna á Kóreuskaga. Þrátt fyrir að ekki sé um allsherjar stríð að ræða, þá er aukin spenna og hernaðarleg staða milli Norður- og Suður-Kóreu, ásamt alþjóðlegum áhyggjum vegna kjarnorkustarfsemi Norður-Kóreu, áframhaldandi veruleg hætta fyrir svæðisbundinn stöðugleika.

Óstöðugleiki á Sahel svæðinu heldur áfram. Lönd á Sahel-svæðinu í Afríku, þar á meðal Malí, Níger og Búrkína Fasó, búa við yfirstandandi átök þar sem herskáir hópar, stjórnarher og staðbundnir vígamenn taka þátt. Þessi átök hafa leitt til mannúðarkreppu og landflótta. Í raun hefur ríkt ófriður á svæðinu síðan ríkin fengu frelsi frá nýlendustjórn.

Pólitísk ólga er í Moldóvu. Hún stendur frammi fyrir innri pólitískri ólgu, með spennu sem gæti mögulega magnast yfir í víðtækari átök, undir áhrifum frá ytri þrýstingi og innri sundrungu.

En eftir sem áður eru augu heimsbyggðarinnar á fyrst greindu stríðin tvö.  Eins og staðan er í dag, virðist fjara undan stríðinu í Úkraínu, þótt átökin í dag séu mikil og hafi magnast. Ætla má að menn séu að styrkja samningstöðu sína áður en Trump tekur við. Þegar hann er kominn til valda, eru í raun allir þrír aðilar stríðsins tilbúnir í friðarviðræður. Pútín hefur lýst yfir vilja til friðargerðar, Zelenskí líka (líklega nauðugur því hann veit að Trump ætlar að skrúfa fyrir peningakrananum). Eindreginn friðarvilji hans getur skemmt aðeins fyrir friðarviðræðum, því að Pútín kann að ganga á lagið. Trump verður því að nota ásana á hann.  Það er því líklegt að stríðið haldi eitthvað áfram fram á vor, en þá hefjast leysingar og þá ómögulegt að berjast á vígvellinum.

Annað með stríð Ísraela við nágranna sína, fjær og nær. Það er nær því að starta þriðju heimsstyrjöldina en stríðið í Úkraínu. Skil ekki hvaða stefnu utanríkisráðherra hefur gagnvart stríðunum tveimur. Ef litið er á mannfall, er Úkraínu stríðið tífalt umfangsmeira og nær okkur enda háð í Evrópu. Það ætti því að vera forgangsatriði hans (hennar) að stöðva það stríð.

Sjálfsagt að mótmæla dráp borgara, í báðum stríðum en það er ekki stefna. En hvernig getur sú stefna verið? Jú, nota diplómatískar leiðir eða senda beint skilaboð frá Utanríkisráðuneytinu um að Ísland hvetji að stríðandi aðilar slíðri sverðin strax í dag. Auðvitað verður slíkum skilaboðum hent beint í ruslið, en ekki áður en viðkomandi aðili verður að lesa skilaboðin! Vatnið holar steininn. Þegar ríki telur sig vera að verja tilveru sína, er ekki hlustað á kvak einhvers staðar norður í ballarhafi. Ískaldur raunveruleiki vígvallarins fær menn til að taka "réttu ákvarðanir".

Að lokum, Ísraelar munu nota þetta einstaka tækifæri sem þeir hafa nú, þegar loftvarnir Írans eru í lamasessi eftir loftárásir þeirra, að ráðast annað hvort á kjarnorku stöðvar þeirra og/eða olíumannvirki.  Ef ráðist er einungis á kjarnorku stöðvar, er það til að tryggja öryggi Ísraels en ef ráðist er á olíumannvirki er það til að gera ríkið gjaldþrota og efna til innanlandsátaka. Íran er illa statt efnahagslega og klerkastjórnin óvinsæl. Það að Ísraelar séu ekki farnir af stað núna, bendir til að þeir séu að bíða eftir Trump. Þótt þeir hafi fengið $8 milljarða í hernaðaraðstoð frá Biden, hefur hann samt verið á brensunni. 

Megi friður ríkja sem mest á árinu 2025.


Hvað má kalla kosningasvik?

Það má kalla allt kosningasvik sem stjórnmálaflokkur gerir andstætt þeirri stefnu sem hann kynnir í kosningabaráttu.  Skilin eru ekki skýr. T.d. það að VG skuli hafa starfað með NATÓ, leiðtogi þeirra var virkur í starfi þess og ekki var sett sem skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfi að Ísland gengi úr NATÓ.  Nema þeir hafi ekkert meint með þessari stefnu en það eru svik við kjósendur flokksins sem bjuggust við öðru. Hvar er flokkurinn í dag? Kosningasvikin voru bara of mörg og augljós fyrir kjósendurna að kyngja.

En hvernig á að taka á 360 gráðu stefnu Viðreisnar og Samfylkingunnar í ESB málinu? Var ekki á dagskrá  en núna á dagskrá. Að koma með skoðanakönnun (þjóðaratkvæði er þetta kallað) um hvort Íslendingar eigi að sækja um. Það er jú á stefnuskrá flokkanna að fara inn í ESB. Eru þetta svik?

Það er erfitt að finna rétta hugtakið til að skilgreina þetta, kannski "hálf svik"? Man ekki betur en að leiðtogarnir hafi sagt að það sé ekki á stefnuskránni að sækja um en nú er það undirbúið. Heimsýn kallar þetta ESB suð sem mun aldrei stoppa.

Athyglisvert að í skoðanakönnun er meirihluti Íslendinga á móti inngöngu. Og margir vilja þjóðaratkvæði bara til að losna við málið og suðið, enda ESB - liðið eins og lítið barn sem suðar í foreldri þar til það fær það sem það vill fá.


Sparnaður í ríkisfjármálum

Nú ætla ráðherrarnir að vera sniðugir og koma með sparnaðartillögur í anda DOGE. Forsætisráðherra segir að nú eigi að spara. Það væri frábært ef það á að draga saman í ríkisbálkninu. En hver verður sparnaðurinn þegar upp er staðið? Það á nefnilega spýta inn í velferðakerfið. Er ekki að segja að það sé slæmt en kostar sitt. Kannski að nú fari skattfé í réttar hendur. Krist­rún aug­lýsir eftir sparnaðarráðum

Hvar má spara? Alls staðar og það má leggja niður stofnanir sem ætlunin er að setja á fót eða eru komnar á fót. Má þar nefna Mannréttindastofnun Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Stjórnarráði Íslands eru ríkisstofnanir á Íslandi yfir 160 talsins. Þessi tala inniheldur ekki opinber hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða lögaðila sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins. Ef tekið er mið af öllum þeim stofnunum sem teljast á einn eða annan hátt til ríkisins, gæti talan verið enn hærri. Starfsmenn eru um 23 þúsund talsins sem er ansi mikið. Stofnanir

Og hvar á að spara í þessum stofnunum? Allar vilja þær verja sig og starfsfólks sitt og helst ekki draga saman, heldur að auka í. Það er hægt að spara innandyra eða leggja niður.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti segir að "það er stefna stjórnvalda að fækka stofnunum, m.a. með sameiningum. Helstu rök fyrir sameiningum eru þau að stærri einingar séu betur til þess fallnar að sinna kjarnaþjónustu og veita góða þjónustu. Slíkar einingar séu einnig betri rekstrareiningar. Mikill munur er á stærð ríkisstofnana allt frá þeirri stærstu, Landspítalanum með um 5.000 stöðugildi í þá minnstu með 2 starfsmenn. Rúmur helmingur stofnana er með færri en 50 stöðugildi." Skipulag og stjórnun ríkisstofnana Og staða stofnanakerfisins eftir hugsanlegar breytingar væru  118 stofnanir og jafnvel niður í 90 stofnanir.

Forsætisráðherra þarf því ekki að auglýsa opininberlega eftir sparnaðartillögum, heldur að fara eftir aðgerðatillögum ráðuneytisins. Fækka stofnanir með sameiningu og þannig minnka yfirstjórnar kostnað. Stofnanir eru flokkaðar í A-,B- og C-hluta.

Áfram segir:

"Til B-hluta teljast önnur fyrirtæki og lánastofnanir sem eru undir beinni stjórn ríkisins og rekin eru á ábyrgð ríkissjóðs og ekki teljast til A-hluta. Þessir aðilar starfa á markaði og standa að stærstum hluta undir kostnaði við starfsemi sína með tekjum af sölu á vöru eða þjónustu til almennings og fyrirtækja.

C-hluti

Til C-hluta teljast sameignar- eða hlutafélög í meirihlutaeigu ríkisins sem starfa á markaði. Til C-hlutans telst einnig Seðlabanki Íslands."

Kannski væri best að einbeita sér að stofnunum sem eru á samkeppnismarkaðinum og selja þær? Hér er átt við B- og C-hluta.

Það er eitt ríkisapparat sem tekur freklega í buddu skattborgarans og það er RÚV.  Útvarpsgjaldið hækkaði nú um áramótin upp í rúm 21 þúsund krónur og er dregið af alla Íslendinga eldri en 18 ára og öll fyrirtæki landsins á skrá. Starfsmenn 2022 voru 262 og tekjurnar skiptast í tvennt.

Framlög úr ríkissjóði: Þetta eru tekjur fyrir almannaþjónustu. Árið 2022 fékk RÚV um 5,1 milljarð króna úr ríkissjóði, sem var 430 milljónum krónum meira en árið 2021. Áætlað var að þessi framlög myndu aukast í 5,7 milljarða króna árið 2023 (Heimildin).

Tekjur af samkeppnisrekstri: Þetta eru tekjur af auglýsingasölu og kostun. Árið 2022 voru þessar tekjur rúmlega 2,8 milljarðar króna, sem var aukning um 454 milljónir króna frá fyrra ári. Tekjur af auglýsingum og kostun voru 2,4 milljarðar króna árið 2022 og höfðu aukist um 774 milljónir króna á tveimur árum, eða um 48% (sama heimild: Heimildin).

Með öðrum orðum hefur RÚV yfir 8 milljörðum að ráða 2022-23 (veit ekki um 2024) og samt illa rekið. Ekki er dagskráin mikið betri en hjá einkastöðvunum. Ef þessi stofnun er aflögð og nefskatturinn aflagður, sparar 4 manna fjölskylda 80 þúsund krónur á ári. Það munar um minna.

Og svo má spyrja í lokin: Af hverju í ósköpunum eru starfsmenn Seðlabanka Íslands um 311 talsins??? Seðalbankinn - vinnustaðurinn Hvað er allt þetta fólk að gera allan daginn? Það gerir um 1 Seðlabanka starfsmann á hvert þúsund Íslendinga. 

Þrátt fyrir að þessar sparnaðartillögur ríkisstjórnarinnar nái fram að ganga, þá mun sækja aftur í fyrr horf. Af hverju? Nú, hér er um annarra manna fé að ræða og þeir sem koma höndum yfir slíkt fé til eyðslu hika ekki við að bruðla þeim. Það kemur aldrei niður á þá hvort sem er.

Svo má setja mörk á álögur sem önnur ríki setja á Ísland. Til dæmis loftlagsskatta sem lagðir eru á flugfélög og skipafélög og kosta almenning og atvinnulífið stórfé árlega. Og það í hreinasta landi Evrópu og þótt víða væri leitað.


Af hverju eru Evrópumenn svona helteknir af varnarmálum sínum?

Bloggritari horfði á tvær kvikmyndir um jólin sem fengu hann til að hugsa.

Annars vegar kvikmyndin Margarete den förste, og hins vegar Numer 24. Fyrri myndin fjallar um fyrsta kvennleiðtoga Norðurlanda, Margréti fyrstu og sameiningu Norðurlanda í eitt ríkjasamband, Kalmarsambandið (1397-1523). 

Það var mjög óvenjulegt að svona stórt svæði skuli hafa sameinaðst undir eina stjórn en nauðsynin var mikil. Ægivald Þjóðverja í formi Hansasambandsins var mikið og stöðugt, innrásar hætta var fyrir hendi ef Norðurlandabúar sameinuðust ekki í eina heild. Meiri segja var leitað til Englands með giftingu til að styrkja stöðuna enn frekar. Svo hvarf máttur Hansasambandsins og Kalmarsambandið enda einstaka ríki, eins og Svíþjóð orðin öflug herríki.

Síðari myndin, á einnig að vera sannsöguleg, fjallar um norskan andspyrnumann í seinni heimsstyrjöldinni sem var svo ákveðinn að verja frelsi Noregs og Norðmanna, að hann hikaði ekki við að láta taka vin sinn af lífi fyrir uppljóstrun. Það var margt sem aðalsöguhetjan sagði sem er umhugsunarvert. Hann neitaði sér um alkóhól, konur, skemmtanir og sagði það væri enginn tími fyrir slíkt fyrr en eftir stríð og frelsið komið í höfn. Á meðan væri hann ófrjáls maður með innrásarlið yfir sér og landið hersetið. Enn voru það Þjóðverjar sem ógnuðu frelsi og öryggi Norðmanna.

Það er nefnilega ekki lengra en svo að til er margt fólk sem upplifði seinni heimsstyrjöldina og ragnarökin sem áttu sér stað þar. Norðmenn, Danir og í raun öll smáríkin í Evrópu lærðu þá lexíu sem situr enn í Evrópumönnum.  Þeir vita að friðurinn er brothættur og alltaf er hætta á að stórveldið komi með innrásarherinn og fari yfir landamærin og hertaki.

Rússagrýlan sem okkur Íslendingum finnst stundum vera orðum aukin er raunveruleg í huga fólks, þótt líkurnar séu ekki miklar á allsherjarstríði. Rússar sem sjálfir eru helteknir af ótta um innrás í gegnum Pólland eða Úkraínu, hafa farið mörgum sinnum sjálfir inn í Vestur-Evrópu og hertekið eitt og annað. Það er nefnilega engin einstefna í gegnum hliðin tvö. Svo má sjá þetta í viðbrögðum Pólverja í dag sem eru ansi ýkt en skiljanleg í ljósi sögunnar. Eftir kalda stríðið gleymdu Evrópumenn sér í fögnuði og vanræktu varnir sínar en eru núna komnir niður á jörðina aftur. Voru einfaldlega þvingaðir til þess.

Þetta skilja Íslendingar ekki, enda aldrei hersetið af erlendri og fjandsamlegri þjóð. Ef nasistarnir hefðu hertekið Ísland, hefði margur Íslendingurinn verið sendur í fangabúðir, á vígstöðvarnar, píntaður eða drepinn. Þjóðarminnið getur varið í hundruð ára og landafræðin breytist ekki, þótt landamæri færist til eða frá.  Íslendingar hafa hingað til aðeins fengið smjörþefinn af valdabröltinu í Evrópu. En næst verðum við með, hvort sem okkur líkar betur eða verr.


Kvennaveldið Ísland til góð eða ills?

Nú er verið að klyfja á því að allt verði frábært framundan og nú séu konur við völdin. Kona er lögreglustjóri í Reykjavík, kona er ríkissaksókari, konur eru formenn stjórnarflokka landsins, kona er forseti Íslands, kona er biskup Íslands og kona var Landlæknir Íslands og eflaust má lengi telja.

Ætla mætti að fullt jafnrétti sé komið á en það er ekki að heyra á forseta vorrum. Þar er gamla mandran um baráttuna fyrir kvennfrelsi og fjölmiðlum finnst það merkilegt að tvær konur haldi áramótaávörp og það séu einhver tímamót.

Sumir segja það að sé landinu til góðs að konur taki við, karlarnir kunni ekki að stjórna eða misbeiti valdinu. Besta dæmið um slíkt viðhorf er þegar fyrsti kvennbiskup Íslands var kosinn eftir kynferðishneyslismál forverara hennar. Var það til góðs að kona tæki við? Nei, ekki er að sjá að þjóðkirkjan sé á góðri vegferð. Upp hafa komið hneykslismál, eftir sem áður, deilur og áfram heldur að fækka í þjóðkirkjunni.

Ekki þarf að minnast á ríkissaksóknarann og deilur hans (hennar) við vararíkissaksóknara og í raun barnalegar deilur þeirra opinberlega. Traustið er farið á þetta embætti.

Ekki var ferill kvennforsætisráðherra glæsilegur í endanum, hún reyndi við forsetaembættið án árangur og flokkur hennar þurrkaðist út í kjölfarið. Óþarfi að fara í fleiri dæmi.

Við eru í raun ennþá föst í "Identity politic" eða sjálfsmyndarpólitík nýmarxistanna, þar sem skiptir öllu máli að vera af réttu kyni, kynþætti, aldri o.s.frv. Verðleiki einstaklings skiptir engu máli, bara hvort viðkomandi sé af réttu kyni og kynþætti. Þessa pólitík hafa Bandaríkjamenn reynt og hafnað afgerandi árið 2024. Forsetaframbjóðandinn Kamala Harris tikkaði í öll réttu hólfin, hún var svört (meira indversk og hvít, komin af hvítum þrælahaldara) og kona. Demókratar héldu að það eitt myndi duga til að hún yrði forseti Bandaríkjanna.  En bandarískir kjósendur sáu hana eins og hún er í raun; ekki svört, forréttinda kona og gjörsamlega hæfileikalaus og óhæfur forsetaframbjóðandi. Of mikið í húfi að kjósa hana til æðsta embættis bara vegna þess að hún er kona.

Martin Luther King sagði eitt sinn: I have a dream that my four little children will one day live in a nation where they will not be judged by the color of their skin but by the content of their character.”

Þetta hafa jafnréttissinnar gleymt og halda að árið sé ennþá 1968. Það á að dæma fólk eftir hæfileikum og persónuleika, ekki útliti. Mannkynssagan er full af dæmum um þegar fólk velst til valda eftir því hvort það hafi flokksskírteini eða ekki, hvort að það sé karl eða kona eða af réttum ættbálki eða ætt (konungar/drottningar) og hörmulegum afleiðingar þess. Fólk þetta hefur iðulega stjórnað illa.  Og þjóð sem velur að hunsa og kúga annað kynið, tapar gríðarlegan mannauð eins og sjá má í Miðausturlöndum. Konur eru eins og karlmenn mannlegar, gera mistök og vinna sigra, rétt eins og karlarnir.

Sagan er ein hörmungarsaga kúgunnar, jafnt karla og kvenna. Því er ekki neitað og það verður að verja frelsið og þau mannréttindi sem barist hefur verið fyrir og unnið, þar á meðal málfrelsið. En það má koma upp úr skotgröfunum einstaka sinnum og fagna frelsinu sem við njótum hér á Íslandi.


Áramóta hugleiðingar Samfélags og sögu í árslok 2024

Ekki mun bloggritari halda því fram að hann sé með fordómsgáfu og geta séð framtíðina. Í seinustu áramótaspá hans Framtíðarsýn völva og framtíðar könnuða - Völvuspá Samfélags og sögu  var spáð í spilin með almenna skynisemi sem leiðarljós. Kíkt var á síðust spánna í morgun og ótrúlegt en satt, margt af því sem þar var spáð rætti.  Sagt var (áður en Guðni tilkynnti afsögn sína) að hann væri að fara frá völdum og hann mundi una sér í nýja einbýlishúsinu sínu.

Svo var sagt frá að ríkisstjórnin myndi falla og Katrín og Bjarni myndu fara frá völdum. Við tæki Samfylkingin sem stærsti flokkurinn. Margt annað var spáð og geta menn lesið það ef þeir vilja á slóðinni hér fyrir ofan. En ekki gat bloggritari séð fyrir með sínum common sense hugleiðingum að Píratar og VG myndu falla af þingi. Bloggritari reyndi ekkert í þessari spá að velta um erlend málefni.

Ekki ætlar bloggritari að spá fyrir árið 2025, það er eiginlega tímaeyðsla.

Við að flétta til baka, kemur í ljós að bloggritari er að skrifa sína 1220 blogggrein. Og byrjað var í nóvember 2020 með greininni Málfrelsið - aðeins ætlað fáum? sem var eiginlega stefnuyfirlýsing um að ekki ætlar bloggritari að þeigja sem borgari landsins.

Og á árinu 2024 skrifaði hann 381 blogggreinar! Fleiri en eina grein á dag.  Skrifuð er að lágmarki A-4 blaðsíða í grein en stundum geta greinarnar verið smáritgerðir að stærð. Bloggritari hefur aldrei verið haldin ritstíflu og er að skrifa margt annað um leið, þar á meðal bók sem hann var að klára um jólin. Spurning hvort að handritið fari í skúffuna ásamt fleiri handritum því að bloggritara er eiginlega sama hvort efnið komi út eða ekki. Ekki er verið að skrifa fyrir lesendur, þannig séð, þótt þeir séu stundum ávarpaðir, heldur er verið að skrifa til skilnings og þau hugarefni sem bloggritari er að velta fyrir sér á hverri stundum. Stundum eru skrifaðar greinar sem bloggritari veit að fáir nenna að lesa en eru samt skrifaðar.

Skrifin varpa dýpri skilning á þessi hugarefni og oft kemur niðurstaðan sjálfan bloggritara á óvart. Til dæmis ætlaði bloggritari í dag að skrifa um upphaf kartöfluræktar í Danmörku 1755 og tengja saman við upphaf hennar á Íslandi síðar á öldinni. Þetta viðfangsefni kom upp í hendurnar eftir að hafa horft á dönsku stórmyndina Bastarten eða á ensku "The Promised Land" með Mad Mikkalsen í aðalhlutverki og fjallar um tilraun dansks kafteins til að rækta kartöflur á jósku heiðunum og erfiðleikanna við það. Þessi grein verður ekki skrifuð í dag en kannski síðar. En niðurstaðan kann að koma á óvart, líka fyrir bloggritara.

Skrifað hefur verið um allt á milli himins og jarðar. Ekkert er undanskilið. Það hefur þó verið ákveðið þema í gangi og í forgangi. En það eru varnarmál Íslands sem bloggritari finnst Íslendingar almennt sinnulausir um. Ástæðan fyrir sinnuleysinu, kemur á óvart, en má rekja til þriðja áratugar 20. aldar og er saga að segja frá en verður ekki rakið hér.

Af hverju varnarmál? Þetta viðfangsefni datt óvænt í hendur bloggritara í námi hans, þá hafði hann og hefur enn mikinn áhuga á verslunarsögu og hagsögu. Eftir þetta (B.A.-ritgerð) var ekki snúið. En eftir áratuga löng skrif um málefnið er niðurstaðan að varnarmál eru sjálfstæðismál

Umræðan um varnarmál var gegnumgangandi í sjálfstæðisbaráttunni og leiðtogar Íslands, eins og Jón Sigurðsson og Valtýr Guðmundsson og fleiri síðar, svo sem Bjarni Benediktsson, urðu ljóst að sjálfstætt ríki Íslendinga yrði ekki öruggt nema að varnarmálin væru komin í örugga höfn. Seinni heimsstyrjöldin sannaði það eftirminnilega að það mat var rétt.

Næst síðasta skrefið í sjálfstæðisbaráttunni voru yfirráðin yfir landhelgi Íslands. Þau voru tryggð 1976. En síðasta skrefið er að íslenska ríkið tryggi öryggi Íslands út á við sjálft. Hlutverk fyrstu ríki heims, fyrir 8- 10 þúsund árum, var fyrst og fremst vernd borgaranna. Fyrstu herir og lögregla (oft samtvinnuð) voru því stofnaðir. Þetta er frumskylda ríkisins og ef það getur ekki sinnt því, á ríkið sér engan tilveru grundvöll, annað hvort reka borgararnir valdhafanna frá völdum eða erlent ríki tekur það yfir.

Frá stofnun íslenska lýðveldisins, hefur íslenska ríkið ekki staðið sig sem skyldi í þessum efnum. Íslenska lögreglan og Landhelgisgæsla Íslands hafa allar götur síðan verið undirmannaðar stofnanir. Til allra lukku, hefur íslenskt þjóðfélag verið einsleit og þar af leiðandi friðsamt en nú er öldin önnur. Þá komust Íslendingar upp með þetta. En í dag er Ísland orðið svokallað fjölmenningarríki og hætturnar orðnar meiri og fjölbreyttari. Friðurinn er úti innanlands með sama áframhaldi.

En hann var úti þegar um 1939 fyrir Ísland út á við. Lausnin var innganga í NATÓ og útvistun hervarna til erlends stórveldis. Ísland, eins og aðrar smáþjóðir, verða að treysta á hernaðarbandalag sér til verndar. Það er vel. En Íslendingar geta borið meiri ábyrgð á eigin vörnum og reynt að halda landið frá erlendri hersetu á friðartímum. Tökum sem dæmi kafbátaeftirlitið sem Bandaríkjaher sinnir um þessar mundir og hefur 2-3 hundruð manns í að sinna. Íslendingar gætu alveg sinnt þessu fyrir hönd NATÓ.

Nú er bloggritari kominn of djúpt í varnarmálin í þessum hugleiðingum en áréttar að sjálfstætt ríki verður a.m.k. sýna á táknrænan hátt að það vilji vera sjálfstætt og vilji verja frelsi sitt og sjálfstæði með vopnavaldi ef þess þarf með.

Stórveldi koma og fara, sama á við um Bandaríkin. En vonandi ekki Ísland. Umræðan um kaup á Grænlandi lýsir því svart á hvítu að smáþjóðir eins og Grænlendingar og Íslendingar eru peð í valdaskák stórþjóðanna og varnir þeirra snúast um varnir stórveldanna, ekki þeirra eigin! Ekki vera peð í stórveldapólitíkinni í Evrópu eða heimsins. Íslendingar sluppu við hana allar miðaldir, árnýöld og fram á 20. öld. Allan þennan tíma börðust Evrópuþjóðir á banaspjótum, voru með valdasamsæri, innrásir, borgarastyrjaldir og gera enn í Úkraínu og annars staðar í Evrópu og munu gera áfram um ófyrirséða framtíð.

Vandi Íslendinga er að við erum nú hluti af þessu valdamakki, nýgræðingar, og við höfum enga reynslu né getu til að vera með. Verum sem mest hlutlaus, segjum bara já ef það hentar íslenskum hagsmunum og höldum okkur sem fjærst stórvelda pólitíkinni. Eftir allt, við erum örríki. Og síðan en ekki síst, stöndum á eigin fótum! Áfram Ísland!


Vinstri stjórn í hægra landi?

Pólitískt landslag hefur sannarlega breyst á síðastliðnum áratugum. Hinn pólitíski ás, vinstri-hægri er varla lengur marktækur. Hvers vegna? Jú, flokkarnir eru með sparðatíning í sínum stefnuskrám, pínkulítið af vinstri, miðju og hægri stefnumálum. Erfitt er því að flokka flokkanna eftir hægri-vinstri línum. 

Tökum dæmi. Flokkur fólksins. Hann er með dæmigerðar sósíaldemókratískar áherslur í velferðamálum en virðist vera harðlínuflokkur í hælisleitendamálum.

Sama gildir um Viðreisn. Stefnuskráin eru ekki nógu skýr. Bloggritari fylgist náið með íslenskri pólitík en á enn í fullt í fangi með að átta sig á stefnu flokksins. Jú, innganga í ESB er á stefnuskránni, en hvað annað? Það vantar að kynna stefnuna skýrara. En svo eru það flokkar sem eru afar skýrir í sínum stefnumálum, Samfylkingin, Miðflokkurinn og VG eru allt flokkar þar sem fólk gekk að vísu hvert stefndu.  Mjög auðvelt að kjósa þessa flokka eftir vinstri-hægri ás.

Þessi óvissa endurspeglast í niðurstöðum kosninganna 2024. Fylgið dreifist mjög jafnt yfir þessa sex flokka sem urðu eftir á þingi. Bara ein skýr niðurstaða kom fram frá kjósendum; þeir höfnuðu harðlínu vinstri stefnu VG, Pírata og Sósíalistaflokk Íslands.

Hvort vildu kjósendur stefna til vinstri eða hægri ef litið er á fylgi Samfylkingarinnar (20,8%) og Sjálfstæðisflokksins(19,4%)? Munar aðeins rúmu einni prósentu á milli í fylgi. En ef við flokkum Flokk fólksins (13,8%) og Viðreisn (15,8%) sem demókratíska flokka, þá er niðurstaðan að við erum að fá vinstri stjórn í vinstri landi. Ef litið er á Sjálfstæðisflokkinn og Miðflokkinn (12,1%) sem einu hreinu hægri flokkarnir, eru hægri menn með 32% sem er ansi slappt frá sjónarhorni hægri afla í landinu. Kannski má túlka niðurstöðuna að fólk hafi ekki verið að kjósa til vinstri eða hægri, bara að fá miðju moð (Framsókn fékk á baukinn og er í skammarkróknum fyrir aðgerðaleysi og stefnuleysi á öllum sviðum) og leiðtoga sem það líkar við.

En svo er það aukaafurð þessara kosninga. Við erum farin að eltast við ESB og bókun 35 verður að líkindum lögum. ESB málið á dagskrá, þjóðinni að forspurðri. Ekki var þetta kosningamál og ESB flokkarnir lofuðu að málið (aðildarumsókn) færi ekki á dagskrá. Korteri eftir kosningar er sagt að málið fari í þjóðarkvæði. 

Að lokum. Kjósendur í Bandaríkjunum og Evrópu eru að óska eftir skýra stefnu í öllum málum. Í efnahagsmálum, utanríkismálum og menningarmálum. Valkosturinn er skýr þar. Wokeismi eða íhaldsemi. Bandaríkjamenn kusu hefðbundin gildi og íhaldssemi. Kjósendur í Evrópu eru á sömu skoðun og eru að ýta sósíaldemókratískum flokkur frá völdum eftir áratuga einokun valda. Þeir leita til hægri, en ekki á Íslandi. Hvers vegna?


ESB sinnar sjá ekkert athugavert við bókun 35

Aðildarsinnar benda á EES samningurinn frá 1994 hafi sagt að skýr regla hafi verið sett í samninginn um framkvæmd EES-reglna.

Einn bloggari deildi með bloggritara eftirfarandi hluta úr samningnum og þar segir:

"Stök grein

Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda
EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum."

Gott og vel, en af hverju hefur þetta ekki bara verið innleitt allan þennan tíma? Alþingi afgreiðir hvort sem er aragrúa EES reglugerðir á hverju ári.  

Jú, vísir menn benda á að slík innleiðing sé stjórnarskrábrot. Breytingin er stutt og laggóð. Hún er eftirfarandi:

 

"Frumvarp til laga 

um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35).

Frá utanríkisráðherra.

1. gr. 

    4. gr. laganna orðast svo:
    Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.

                                                                    2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi."

Svo kemur greinagerð með þessu frumvarpi sem verður ekki farið í hér. Til þess að bókun 35 verði lögleg, verður að breyta stjórnarskránni. Það eru engin önnur lög sem toppa íslensk lög á Íslandi og Alþingi eitt (ásamt forseta) hefur rétt á að innleiða lög á Íslandi. Þess vegna þarf það að stimpla allar reglugerðir sem koma frá EES. Einhverjar reglugerðir sem búríkratar í Brussel setja saman, geta því ekki orðið rétthærri en íslensk lög, þangað til að Alþingismenn breyta íslensku lögunum í samræmi við reglugerðina sem á að innleiða.

Nú, ef við erum "skyldug" til að innleiða bókun 35, þá er eins gott að við göngum úr EES samstarfinu.  Ekki eru Svisslendingar í EES en þeir eru með okkur í EFTA. Það er alveg nóg fyrir okkur Íslendinga að vera í EFTA sem hefur verið frábært í að gera tugir fríverslunarsamninga við allan heiminn!  Eitthvað sem við höfum ekki ef við erum í ESB.

Og svo má spyrja á móti, hversu margar reglugerðir hefur ESB innleitt frá Íslandi? Engar? Er þetta bara einstefna? Valdboð að ofan?


Bókun 35 aftur á dagskrá en nú með öfluguri málsvara

Í ljós kom að það varð aðeins hlé á aðförinni að stjórnarskrá Íslands er Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum. Það vakti og vekur enn undrun bloggritara að Sjálfstæðisflokkurninn skuli hafa stutt þetta mál, að því virðist gegn grunngildum flokksins. Sjálfstæðismál ekki lengur á dagskrá hjá flokknum?

En sjálfstæðismál virðast horfin úr huga núverandi og fyrrverandi Sjálfstæðismanna sem nú eru í Viðreisn. Hvað hélt fólk eiginlega að það fengi úr pökkunum er skoðanakannanir sýndu að tveir flokkar með mesta fylgið, Samfylkingin og Viðreisn vildu ljóst sækja um aðild að ESB? Að það sé í lagi að kjósa þessa flokka? Auðvitað fáum við ESB aðildarkosningu (í lok kjörtímabilsins svo að málið eyðileggi ekki ríkisstjórnarsamstarfið) og bókun 35 verði samþykkt á þessu þingi!

Það er næsta ljóst að bókun 35 verður samþykkt, með samsetninguna á Alþingi eins og hún er. Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins (margir hverjir) munu styðja málið og leiða í lög. Flokkur fólksins ætlar bara að segja já! „Skoðun mín hef­ur ekk­ert breyst,“ seg­ir Eyj­ólf­ur Ármanns­son, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og þingmaður Flokks fólks­ins, spurður hvort skoðun hans á bók­un 35, um að frum­varpið feli í sér stjórn­ar­skrár­brot, hafi breyst. Sjá slóð: Bókun 35 enn stjórnarskrárbrot

Þingmaðurinn segir að bókunin sé stjórnarskrábrot en ætlar samt ekki að standa í vegi fyrir að málið fari í gegnum þingið!  "Þetta er ekkert stórmál, þannig séð" segir þingmaðurinn. Þetta kallar maður að standa fast á prinsippum, þannig séð! Og hann ætlar ekki að "slíta ríkisstjórn", þannig séð! Fyrir hvaða prinsippum standa þeir þingmenn sem segjast vera mótfallnir ákveðnum málum, sem þeir segja að standi ekki stjórnarskrá, en ætlar samt ekki að gera neitt í málinu? Af hverju eru þeir á þingi yfir höfuð. 

Nýjir þingmenn stjórnarflokkanna vinna nú stjórnarskráeið er þeir setjast á Alþingi, vitandi vísir að þeir ætla að brjóta þann eið í þingstörfum. Í gegnum aldir hafa eiðar Íslendinga haft gildi og verið jafngildir undirskriftum. Eiður var óbrjótanlegur og menn misstu æruna ef þeir brutu hann sem var mesti álitshnekkir sem hægt var að bíða. Á miðöldum voru menn drepnir ef þeir gengu á bak orða sinna.

En hvað gerist þegar bókunin verður samþykkt? Ekkert að því virðist. Nýr dagur rennur upp á ný og lífið gengur sinn vanagang að því virðist. Ekkert hefur breyst...eða hvað? Jú, tifandi tímasprengja hefur verið sett af stað. Þegar örlagaríkir tímar renna upp, þeir gera það alltaf, þá getur reynt á hvort íslensk lög eða evrópsk séu rétthærri. Og það skiptir máli. Hefur einhver gleymt ICESAVE málinu? Hvernig hefði það farið ef bókun 35 hafi þá verið samþykkt?  Það liggur í eðli málsins, að íslenskir hagsmunir fara ekki alltaf saman við heildarhagsmuni ESB.  Þeir hagsmunir eru sniðnir að stærstu aðildarríkjum ESB.

Þegar Ísland var undir stjórn Dani, var landið ekki nýlend, heldur hjálenda. Virðist ekki vera mikill munur á og er ekki. Sérstaklega ekki ef landsmenn eru komnir undir vilja og duttlunga erlendra stórvelda. 

Stórskáldið sagt eitt sinn: „En þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima." (Eldur í Kaupinhafn. 13. kafli. Arnas Arnæus.). Menn geta túlkað þessi orð eins og þeir vilja í þessu samhengi.

P.S. Hvað ætlar forseti vor að gera? Skrifa undir?

 


Fjölmiðlar hingað til sofandi en vaknaðir af værum blundi er varðar varnarmál

Það er skiljanlegt að íslenskir fjölmiðlar fjalli líðið um varnarmál dags daglega.  Stríð í Evrópu telst vera fjarlægt vandamál sem kemur Íslendingum lítið við.

Friður og hugarró Íslendingsins er þó við og við raskaður, með fréttum af varnarumsvifum á varnarsvæði NATÓ á Keflavíkurflugvelli og Helguvík. Ha, eru útlendingarnir að sinna vörnum Íslands? Nú, sei sei.

En svo verður veruleikinn raunveruleiki fyrir hann. Fréttir berast af að það er verið að skera á sæstrengi í Eystrasalti, í túngarði Norðurlandanna og allt í einu vaknar Íslendingurinn og segir: "Hvað með sæstrengina til Íslands"? Þarf ekki að gæta öryggi þeirra? Og netöryggi? Og flugöryggi? Og fjölþátta ógnanir?Þetta er orðið óþægilega nálægt Íslandi.

Mestu óvinir öryggis Íslands, VG og Píratar eru farnir af Alþingi Íslendinga. Þar með óheilbrigð andstaða við að landið sé varið. Það á eftir að koma í ljós hvernig varnarmálastefna nýju ríkisstjórnarinnar verður, en það veit á gott að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar tók við utanríkisráðuneytinu. Ef einhver ráðherra hefur vit á varnarmálum, þá er það hún og hún hefur áhuga. 

Búast má við að umsvif NATÓ stöðvarinnar á Miðnesheiði aukist jafnt og þétt og hafa þau aukist leynt og ljóst síðastliðinn áratug. Það eru ekki smáræðis peningar sem settir eru í að efla aðstöðuna. Árið 2019 voru t.a.m. settir 14 milljarðar í framkvæmdir við varnarmannvirkin. Annars vegar var uppfærsla á ratsjárkerfum NATO umhverfis landið og hins vegar viðhald og uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli, bæði af hálfu NATO og bandaríska hersins. 

Nýjasta nýtt eru fréttir af "flugvelli í boxi". Í frétt RÚV segir að "þrettán þúnd fermetra lager í sjö skemmum mun rísa á Miðneskheiði á næstum vikum. Þar verða geymd tæki og tól til að byggja nýjan flugvöll, reynist þörf á. Kostnaðurinn nemur um 13,5 milljörðum króna og er alfarið greiddur af bandaríska hernum."

Þar hafa þegar verið reist ný fjölbýlishús fyrir hermenn, en um 300 til 400 hermenn dvelja nú innan varnarsvæðisins á hverjum tíma. Flughlöð hafa verið stækkuð umtalsvert og 390 metra langur viðlegukantur í Helguvík er í bígerð, svo að stærstu herskip NATÓ geti lagt þar að. Þá verða eldsneytistankar stækkaðir og birgðageymslur fyrir flugvallarbúnað og stjórnstöðvar fyrir kafbátaeftirlit byggðar. Framkvæmdirnar eru fjölmargar og hlaupa á tugum milljarða króna. NATÓ borgar brúsann að mestu, en íslenska ríkið tekur þátt að hluta til segir í fréttinni "Ólíklegt að bandaríski herinn sé kominn til að vera" hjá RÚV og er haft eftir prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hvaðan hann hefur þá vitneskju væri fróðlegt að vita. Kannski að hann hafi símanúmer Pentagons í hraðvali.

Það er athyglisvert að umsvifin á Keflavíkurflugvelli hafa haldist í hendur við umsvif stríðsins í Úkraínu. Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins segir umsvifin á Keflavíkurflugvelli hafi byrjað 2014, eftir innrás Rússa á Krímskaga. Haft er eftir honum að hátt í 100 Íslendingar starfi við varnarmál dags daglega. Landhelgisgæslan er með varnarmálin á sinni könnu en samkvæmt upplýsingum frá henni starfa um 200 manns hjá stofnuninni. Þar af eru rúmlega 50 starfsmenn staðsettir á Keflavíkurflugvelli. 

Stjórnsýslulega er Íslendingar ágætlega virkir í vörnum Íslands en það vantar eftir sem áður Varnarmálaráðuneyti eða Varnarmálastofnun til að halda utan um alla anga varnarmála. Eins og staðan er í dag, er þetta ófaglega gert að dreifa ábyrgð og framkvæmd á þrjá aðila.  Varnarmál eiga eftir að vera í sviðsljósinu á árinu 2025 á Íslandi, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband