Hvernig þróast stríðsátökin í Miðausturlöndum?

Það er að komast skýrari mynd á átökin og hvert þau stefna. Svona stefna þau líklega. Ísraelar loka og taka yfir landamæri Gaza við Egyptaland og koma þannig í veg fyrir frekari smygl á vopnum til svæðisins.

Ef mið er tekið af Líbanon stríðinu 1982, linna þeir ekki látum fyrr en Hezbollah er svipt völdum. Þannig var það með PLO, hersveitir þeirra voru reknar úr landi og fullur sigur í höfn.

Varðandi Íran, þá sjá Ísraelar (búnir að bíða lengi eftir tækifæri) til að ráðast á kjarnorku framleiðslu stöðvar þeirra. Valið er á milli þess að taka út kjarnorkugetu Írans eða olíu framleiðslu þeirra en 50% af útflutningi þeirra er olía og gas.

Þessi leið mun leiða til olíuskorts og átök við nágrannaríki og því ekki líkleg. En þeir verða að taka út kjarnorkuvopna framleiðslu Írana, annars hangir sú hætta stöðugt yfir. Svo munu þeir halda áfram að drepa háttsetta leiðtoga innan Írans og hjálpa andspyrnuhreyfingar ásamt CIA að velta ríkisstjórninni úr sessi.


Bráðaþjónusta Landsspítalans er til skammar

Fyrsta skref sjúklings inn í heilbrigðisþjónustuna er í gegnum heilsugæsluna eða bráðamóttökuna.  Ástandið er ekki gott á heilsugæslunni, þótt það sé ekki eins slæmt og hjá bráðamóttöku Landspítalans.  Það er skortur á heimilislæknum en sagt er að ástandið eigi eftir að batna vegna þess hversu margir eru í námi. Svo er annað mál hvort þeir skili sér í starfið.

Mörg mál er varðar slæma aðkomu sjúklinga að bráðamóttökunni hafa ratað í blöðin/fjölmiðla. Þau eru bara toppurinn á ísjakanum. Þegar bloggritari hefur komið þangað inn, er undantekningalaust bið upp á margar klukkustundir eftir þjónustu. Á meðan þarf fólk að hírast á hörðum stólum, sumt mjög kvalið. Sumir lognast út af. 

Svo þegar komið er inn af biðstofunni sem nóta bene er á annarri hæð og á fyrstu hæð, tekur við bráðastofur, yfirfullar og fólk á ganginum. Sem betur fer tekur ferlið aðeins skemmri tíma þegar hér er komið. Það er sem sagt plássleysi en það vantar líka mannskap sem er verra.

En varðandi plássið þá er hægt að redda því á skömmum tíma, ef vilji er fyrir hendi. Það er að koma upp bráðabirgðasjúkrahúsi (færanlegu) fyrir utan bráðamóttökuna í Fossvogi. Nóg er plássið þarna fyrir utan.  Við Íslendingar keyptum og gáfum Úkraínumönnum slíkt sjúkrahús, sem er hið besta mál og hefðum mátt hafa þau þrjú (í staðinn fyrir vopnasendingar þangað).  Kíkjum aðeins á fréttina um þetta sjúkrahús.

Íslendingar senda færanlegt neyðarsjúkrahús til Úkraínu

"Fram kemur að húsnæðið samanstandi af tíu gámaeiningum sem myndi fullbúið sjúkrahús sem hægt sé að reka sjálfstætt og án stuðnings svo dögum skiptir. 

„Hægt er að haga uppröðun eininganna eftir þörfum á hverjum tíma og tengja við önnur sjúkrahús sömu gerðar. Þar er m.a. að finna fullbúnar skurðstofur, gjörgæslurými, móttöku- og greiningarrými, stoðeiningar með rafstöð, súrefnispressu, sótthreinsiaðstöðu salernis- og bað- og þvottaaðstöðu auk sérhæfðra geymslurýma,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að afkastageta sjúkrahússins sé veruleg, legupláss fyrir fjörutíu sjúklinga hverju sinni og hægt að sinna 240 sjúklingum á sólarhring sem og allt að 24 alvarlega slösuðum."

Sem sagt, þetta bráðabirgðarsjúkrahús er með betri þjónustu en bráðamóttakan. Og hvað kostar svona bráðabirgðasjúkrahús? 1,1 milljarð króna.  Það væri hægt að hafa þetta sjúkrahús á meðan beðið er eftir nýja Landspítalanum. Eins og ástandið er í dag, er þetta til skammar fyrir velferðarþjóðfélag sem við segjumst tilheyra.

Tek það skýrt fram að starfsfólkið er skórkostlegt. Ábyrgðin er stjórnvalda.


Dómkirkjan í Skálholti brennur 1308 e.Kr.

Dómkirkjan í Skálholti var miðstöð kirkjulegs valds og menningar á Íslandi í margar aldir og á sér merkilega sögu. Hún var fyrsta biskupssetrið á Íslandi, stofnuð árið 1056, og Skálholt varð þar með miðstöð íslenskrar kristni allt til ársins 1796 þegar biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur.

Brennan 1308 er ein af áföllunum sem dómkirkjan og staðurinn urðu fyrir. Árið 1308 brann dómkirkjan til grunna, sem var mikið högg fyrir staðinn, bæði andlega og efnahagslega. Eldsvoðar voru almennt tíðir í þessum byggingum vegna þess að kirkjurnar voru úr viði. Dómkirkjan var endurreist í kjölfar brunans með stuðningi frá erlendum aðilum og íslenskum bændum. Þetta var ítrekað gert í gegnum næstu aldir.

Saga dómkirkjunnar er ítrekað brennimerkt stórum skakkaföllum og endurreisnum. Þessi eldsvoði árið 1308 var ekki eini bruninn sem Skálholtsdómkirkjan varð fyrir. Kirkjan brann einnig árin 1527 og 1650.

Í kjölfarið voru alltaf gerðar viðamiklar endurreisnir, og oft var kirkjan reist í stærri og glæsilegri stíl. Í gegnum aldirnar voru tíðar átök og efnahagslegar þrengingar, sem gerðu erfitt fyrir að viðhalda og endurreisa kirkjuna í Skálholti. Sérstaklega má nefna áhrif siðaskiptanna á 16. öld, þegar kaþólsk trúarbrögð voru lögð af og eignir kirkjunnar voru teknar af henni.

Á meðan kaþólska kirkjan var ríkjandi á Íslandi, voru biskupar í Skálholti mikilvægir valdamenn. Á 16. öld, í tengslum við siðaskiptin, var Jón Arason, síðasti kaþólski biskupinn, hálshöggvinn, og það markaði endalok kaþólskrar kirkjuvaldsins í Skálholti.

En það var ekki nóg með að kirkjan brann, heldur drappaðist hún reglulega niður, enda byggð úr timbri. Sagt er að Hóla dómkirkja og Skálholts dómkirkja hafi verið stærstu timburbyggingar í Evrópu á sínum tíma. En það fór saman í hönd þegar kaþólski siður drappaðist niður, þá drappaðist dómkirkjubyggingin einnig.

Dómkirkjan í Skálholti tók verulega að drabbast niður í valdatíð Ögmundar Pálssonar sem var biskup í Skálholti árin 1521–1540. Hann var síðasti kaþólski biskupinn fyrir siðaskiptin, og hans valdatíð var mikil breytingatími fyrir kirkjuna í Skálholti.

Eitt af helstu vandamálunum sem hann stóð frammi fyrir var að dómkirkjan í Skálholti var orðin mjög illa farin og jafnvel fúin. Byggingin hafði fengið lítinn viðhald um lengri tíma og þörf var á viðamiklum endurbótum. Ögmundur Pálsson tók málið í sínar hendur og stóð fyrir því að endurreisa kirkjuna. Þetta var mikilvægur þáttur í biskupstíð hans, og hann lagði mikla áherslu á að endurnýja kirkjuna til þess að viðhalda glæsileika hennar sem miðstöð kirkjunnar valds á Íslandi.

Þrátt fyrir að dómkirkjan hafi verið endurreist á tímum Ögmundar, lifði hann siðaskiptin ekki af sem biskup. Hann var neyddur til að afsala sér embætti árið 1540 þegar Danakonungur og lúthersk áhrif tóku yfir stjórn kirkjunnar á Íslandi. Eftir þetta varð mikil breyting á valdi kirkjunnar í Skálholti.

Siðaskiptin og lúterskir biskupar (16. öld)

Siðaskiptin hófust á Íslandi árið 1541 þegar Ögmundur Pálsson var neyddur til að afsala sér embætti. Fyrsti lúterski biskupinn í Skálholti var Gissur Einarsson, sem tók við eftir að kaþólska kirkjan missti yfirráð yfir biskupsdæminu. Eftir siðaskiptin urðu verulegar breytingar á trúarlegu og kirkjulegu lífi í Skálholti, þar sem kirkjan var nú lútersk og tengd nýjum siðum.

Þrátt fyrir þessi trúarlegu umskipti varð áfram nauðsynlegt að viðhalda dómkirkjunni í Skálholti. Það voru síendurteknar viðgerðir og endurbyggingar á kirkjunni á þessum tíma, enda þurfti staðurinn áfram að þjóna sem miðstöð kirkjuvaldsins á Íslandi.

Brennur og endurreisnir (17. öld)

Árið 1650 brann dómkirkjan aftur til grunna. Brynjólfur Sveinsson, sem þá var biskup í Skálholti, hafði mikið vald og áhrif. Hann var vel menntaður og virtur á alþjóðavettvangi. Eftir brunann lét hann endurreisa kirkjuna í stærri og glæsilegri mynd. Hann var einnig ötull safnari forna handrita og stuðlaði að menningarlegu framlagi Skálholts.

Brynjólfur Sveinsson lét smíða nýja kirkju, og sú bygging stóð í um 50 ár. Kirkjan, sem hann lét byggja, var reist úr timbri og var ein af stærstu kirkjum á Íslandi á þeim tíma.

Endurbygging Jóns Vidalíns (18. öld)

Á fyrri hluta 18. aldar varð dómkirkjan aftur mjög illa farin. Jón Vidalín, sem var biskup á árunum 1698–1720, tók að sér að endurreisa hana á ný, en sú bygging entist þó ekki lengi. Kirkjan var endurbætt á meðan Jón biskup var í embætti og var þá gerð úr timbri eins og fyrri kirkjur.

Skálholt fékk einnig á sig miklar skemmdir í jarðskjálftum sem urðu í Bárðarbungu eldstöðinni árið 1784, sem skemmdi bygginguna verulega.

Lok dómkirkjunnar sem biskupsstóll (1796)

Árið 1784 varð einnig mikil náttúruhamför þegar Skaftáreldar brunnu og sendu efnahagslegt högg á landið. Skálholt varð fyrir miklum efnahagslegum þrengingum, og viðhald kirkjunnar fór versnandi. Þetta ásamt stöðugum náttúruhamförum og efnahagsþrengingum gerði það að verkum að staðurinn hafði ekki lengur burði til að halda áfram sem biskupssetur.

Árið 1796 var biskupsstóllinn fluttur til Reykjavíkur, og þar með lauk hlutverki Skálholts sem kirkjulegrar miðstöðvar. Skálholtsdómkirkja hætti þar með að vera formleg dómkirkja, þó að hún hafi haldið mikilvægu hlutverki í kirkjulegu lífi landsins.

Niðurbrot dómkirkjunnar (19. öld)

Eftir að biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur, tók Skálholtsstaðurinn að hrörna. Gamla dómkirkjan í Skálholti endaði á vera illa farin ogs sumar þeirra var jafnvel leyft að rotna niður án þess að þær væru endurbyggðar. Í lok 19. aldar var kirkjan í Skálholti að mestu horfin, og lítið var eftir af hinni fyrri dýrð.

Hér kemur listi yfir kirkjubyggingarnar í Skálholti (heimild: Kirkjurnar í Skálholti )

Gissurarkirkja hvíta 1000 – 1082

,,Gizur hvíti lét gjöra hina fyrstu kirkju í Skálholti" segir í Hungurvöku. Sú kirkja varð dómkirkja Íslendinga um leið og Ísleifur sonur Gissurar varð biskup 1056.  Þessi fyrsta kirkja í Skálholti hefur sennilega risið skömmu eftir kristnitökuna árið 1000 og verið lítil, jarðgrafin timburkirkja. Kirkjan hefur líklega orðið 80 ára gömul. 

Gissurarkirkja biskups 1082 - 1153

Gissur Ísleifsson var afabarn Gissurar hvíta. Hann tók við sem biskup af föður sínum Ísleifi Gissurarsyni. Í Hungurvöku segir: „Gizur biskup sonur Ísleifs reisti nýja kirkju ,,þrítuga (60 m) að lengd og vígði Pétri postula. Gizur lagði dómkirkjunni Skálholts land til ævarandi biskupsseturs og kvað svo á, að þar skyldi ávallt biskupsstóll vera meðan Island er byggt og kristni má haldast.“  Kirkja Gissurar stóð í um hálfa öld en Magnús Einarsson biskup á að hafa endurbætt hana og stækkað töluvert. Kirkjan stóð til ársins 1153. 

Klængskirkja 1153 -1309

Klængskirkja var stærst kirkna í Skálholti en 

Klængur biskup Þorsteinsson (1152-76)  lét reisa hana af grunni. Í Hungurvöku segir; ,,A tveim skipum komu út stórviðir þeir, er Klængur lét höggva í Noregi til kirkju þeirrar, er hann lét gjöra í Skálholti, er að öllu var vönduð fram yfir hvert hús annað, þeirra, er á Íslandi voru gjör, bæði að viðum og smíði."  Kirkjan var helguð Pétri postula eins og fyrri kirkja og var hún vígð 15. júní 1153. 

Þessari kirkju þjónaði Þorlákur helgi Þorláksson á árunum 1178-93, en Þorlákur færði kirkjunni glerglugga sem settur var upp í kirkjunni. Klængskirkja brann 1309 þegar eldingu laust í stöpulinn. 

Árnakirkja 1310-1527 

Árni Helgason biskup (1309-20) lét byggja nýja kirkju, vígð 1311. Fé hafði verið safnað um allt land til byggingar hennar. Þessi kirkja brann í tíð Ögmundar Pálssonar, síðast kaþólska biskupsins í Skálholti, var það árið 1526. Ögmundur hófst þegar handa um aðdrætti til nýrrar kirkju. Gáfu margir menn, lærðir og leikir, mikið fé til kirkjunnar. Þótti hin nýja dómkirkja vegleg og tilkomumikil, þegar hún var komin upp. Síðan hefur kirkja ekki brunnið í Skálholti. Árnakirkja brann sumarið 1526/27 að talið er eftir að klerkur hafði farið óvarlega með glóðarkerti.

Ögmundarkirkja 1527 - 1567 

Árnakirkja brann  á biskupstíma Ögmundar Pálssonar en fyrsta verk hans eftir brunann var að láta reisa bráðabirgðaskýli yfir messuhald. Var það nefnt Búðin eða Kapellan en var síðar nefnt Þorláksbúð. 

Talið er að sumarið eftir brunann hafi skip verið send til Noregs, nánar tiltekið til Björgvinjar, þar sem staðurinn átti skóga. Þar var sótt meira efni og var það sent í birgðageymslu Skálholts á Eyrarbakka. Þaðan var viðurinn fluttur af leiguliðum í Flóa, Grímsnesi, Skeiðum og Flóa heim í Skálholt. Stórtrén var dregin af nautum líkt og var í tíð Brynjólfs Sveinssonar.  Ögmundarkirkja er talin hafa verið svipuð um stærð og gerð og Gíslakirkja.

Smíði kirkjunnar var síðasta stórvirki miðalda í byggingarlist, og ber dugnaði Ögmundar biskups Pálssonar gott vitni. Flest bendir til að miðaldakirkjurnar hafi verið stærstu kirkjurnar sem nokkru sinni hafi verið byggðar.  Talið er að kirkjan hafi verið stærst af tréhúsum á Norðurlöndum 

Talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 2784 kýrverð og var Ögmundur biskup skuldum vafinn er hann féll frá. 

Gíslakirkja 1567 - 1650 

Af Gíslakirkju eru engar úttektir til, engar myndir eða byggingarleifar, aðeins nokkur orð á stangli um tilurð hennar og byggingartíma. Grunnur sá sem grafinn var upp í Skálholti 1954 var ekki undan Ögmundarkirkju heldur Gíslakirkju. 

Brynjólfskirkja 1650 - 1802

Þegar Brynjólfur Sveinsson Biskup tók við Skálholtsstað og stóli árið 1639, var staður og kirkja í hrörlegu ástandi en hann uppbyggði hvort tveggja stórmannlega og sterklega með miklum kostnaði. 

Jón Halldórsson prófastur lýsti byggingu kirkjunnar svo: 


"Fékk og tilflutti ekki einasta þá bestu rekaviðu, sem hann kunni að fá, heldur og einnig bestillti hann utanlands frá mikla viðu, svo annó 1646 kom hið síðara Eyrarbakkaskip nærri fullt með grenivið frá Gullandi sem kostaði yfir 300 ríxdali og hann ætlaði til kirkjubyggingarinnar. Hann fékk til kirkjusmíðsins hina bestu og röskustu smiði til að saga, höggva og telgja viðuna. Voru þeir stundum 30 eða fleiri, suma til að smíða úr 60 vættum járns, sem hann lagði til hákirkjunnar í gadda, reksaum og hespur. Ekki hefur nú á síðari tímum rambyggilegra hús og af betri kostum verið gert af tré hér á landi en sú Skálholtskirkja"

​Þessi vandaða og veglega kirkja stóð af sér landskjálftana 1784, sem lagði öll önnur hús staðarins í rústir. Að stofni til stóð Brynjólfskirkja allt til ársins 1850, þá orðin 200 ára. þrátt fyrir slægtlegt viðhald á stundum. 

Valgerðarkirkja 1802 - 1851

Árið 1775 var Skálholtsstóll og - skóli lagður niður með konungsbréfi. Skálholtskirkja varð nú útkirkja, fyrst frá Torfastöðum í Biskupstungum og síðar frá Ólafsvöllum á Skeiðum og enn síðar frá Torfastöðum aftur.


Í fyrrnefndu konungsbréfi var fyrirskipað að selja stólseignirnar hæstbjóðanda, og keypti Hannes biskup Finnsson Skálholt með öllum gögnum þess og gæðum og þar með talin dómkirkjan gamla. Eftir lát Hannesar 1796, bjó ekkja hans frú Valgerður Jónsdóttir áfram í Skálholti. Á árunum 1802 - 04 lét hún gera kirkjuna upp, "bæði af gömlum viðum úr hinni fornu dómkirkju og nýjum" eins og komist er að orði prófast vísitasíu frá 1805. Hinir nýju viðir voru 150 borð sem þakið var bætt með. Viðgerðir virðist að öðru leyfi hafa verið fólgin í því að rjúfa útbrot og turn. Við það breytti kirkjan um útlit en virðist þó hafa haldið reisn sinni, ef dæma skal af þeirri einu mynd, sem til er af henni frá þessum tíma og er er sýnd. En örlög hinnar öldu kirkju urðu ekki umflúin. Í vísitasíu biskups frá árinu 1848 er kirkjan talin svo "stórgölluð að valla er messufær í misjöfnu veðri, Eru bæði bitar og borð fúin og rifin, svo út sér, en kirkjan sjálf svo niðursokkin að stafirnir liggja undir skemmdum. Mætti þó mikið nota af stórviðum kirkjunnar, þá hún er byggð aftur."

Kirkju Brynjólfs biskups hefur vissulega ekki verið fisjað saman, og gæti vafalaust staðið enn í dag ef rækt hefið verið við hana lögð. Það er fyrst 1850 að hún verður að víkja fyrir nýrri kirkju, miklu minni, sem byggð var aðeins á hluta hins forna dómkirkjugrunns.

Sóknarkirkjan  1851 - 1963

Lítil timburkirkja var byggð á hluta hins forna kirkjugrunns Skálholts á árunum 1851-52. Árið 1862 er kirkjan komin í einkaeigu. „Hún á ekkert í jörðu og engin kúgildi. Rekaítök þau öll og ítök, er hún áður hefur átt, eru nú öll frá henni seld.“ Árið 1910 var henni lýst sem svo: „Kirkjan er fornleg orðin, krosslaus, altaristöflulaus, óvegleg að flestu og yfirleitt ekki samboðin kirkju, síst á þessum stað“. Um svipað leyti lagði sóknarnefnd Skálholtskirkju til að þess að Skálholti var bjargað sem kirkjustað og „að Skálholtskirkja sé endurreist og henni sýndur allur mögulegur sómi í byggingu og prestþjónustu“. 40 árum síðar vék gamla sóknarkirkjan fyrir nýrri og veglegri kirkju. 

Endurreisn á 20. öld (1956)

Þrátt fyrir hnignun staðarins, vaknaði áhugi á að endurreisa Skálholtsdómkirkju á ný á 20. öld. Byggð var ný kirkja á staðnum til minningar um 900 ára afmæli kristni á Íslandi árið 1956. Þessi nýja kirkja var reist í staðinn fyrir þær kirkjubyggingar sem höfðu staðið þar áður og var byggð úr steini, með mun varanlegri efnum en fyrri kirkjur.

Núverandi dómkirkja er tákn um endurvakningu Skálholts sem sögulegs miðstöðvar kristninnar á Íslandi. Hún er ekki lengur biskupssetur, en gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku menningarlífi, ekki síst sem vettvangur fyrir sögulega atburði og menningarviðburði.


VG innsiglar örlög sín

Gleðitíðindi fyrir íslenska pólitík - Svandís Svavars­dótt­ir er nýr formaður Vinstri Grænna. Hún var ein í fram­boði til for­manns. Lands­fund­ur flokks­ins hófst í gær og lýk­ur á morg­un. Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, frá­far­andi formaður, var kjör­inn vara­formaður flokks­ins með 145 greidd­um at­kvæðum.

Báðir stjórnmálamennirnir hafa reynst arfa slakir stjórnmálamenn og Svandís beinlínis andstæð íslenskum hagsmunum og íslensku atvinnulífi. Þetta er eins og vera valinn sem nýr skipstjóri á Titanic, skiptir engu máli, skipið fer samt niður.

Annar hreplekur dallur tekur við skipbrotsfólkinu, en leyfarnar af VG fólki fer þá yfir til Sósíalistaflokk Íslands, þar sem fyrrum kapitalistinn Gunnar Smári er við stjórnvölinn. Það er nefnilega þannig á Íslandi að öfga vinstri fólkið er ákveðin stærð, milli 5-10% af kjósendum og ef enginn flokkur er til fyrir það, þá býr það bara til nýjan flokk. Svona flokkur verður aldrei stór.

Svandís nýr formaður og Guðmundur varaformaður

RIP VG.


Asninn og tígrisdýrið...og Vinstri grænir

Dæmisaga: EKKI ÞRÆTA VIÐ "ASNA"

Asninn sagði við tígrisdýrið:

- "Grasið er blátt".

Tígrisdýrið svaraði:

- "Nei, grasið er grænt."

Umræðan hitnaði og þeir ákváðu að leggja málið fyrir gerðardóm og fóru fyrir ljóninu, konungi frumskógarins.

Þegar komið var að skógarrjóðrinu, þar sem ljónið sat í hásæti sínu, byrjaði asninn að hrópa:

- "Hátign, er það satt að grasið sé blátt?"

Ljónið svaraði:

- "Satt, grasið er blátt."

Asninn flýtti sér og hélt áfram:

- "Tígrisdýrið er mér ósammála og stangast á og ónáðar mig, vinsamlegast refsið honum."

Konungur sagði þá:

- "Tígrisdýrinu verður refsað með 5 ára þögn."

Asninn hoppaði glaðlega og hélt leiðar sinnar, sáttur og endurtók:

- "Grasið er blátt"...

Tígrisdýrið sætti sig við refsingu sína, en síðan spurði hann ljónið:

- "Yðar hátign, hvers vegna hefur þú refsað mér?, enda veist þú sjálfur að grasið er grænt."

Ljónið svaraði:

- "Raunar er grasið grænt."

Tígrisdýrið spurði:


- "Svo hvers vegna ertu að refsa mér?".

Ljónið svaraði:

- „Það hefur ekkert með spurninguna að gera hvort grasið sé blátt eða grænt.

Refsingin er vegna þess að það er ekki mögulegt fyrir hugrakka og gáfulega veru eins og þig að eyða tíma í að rífast við asna og koma þar ofan á og trufla mig með þessari spurningu."

Versta tímasóunin er að rífast við heimskingjann og ofstækismanninn sem er sama um sannleikann eða raunveruleikann, heldur aðeins sigur trúar hans og sjónhverfinga. Aldrei eyða tíma í rök sem eru ekki skynsamleg...

Það er til fólk sem, sama hversu mikið af sönnunargögnum og sönnunargögnum við leggjum fyrir það, hefur ekki getu til að skilja.


Þegar fáfræðin öskrar þegir greindin. Kyrrð þín og ró er meira virði."

Glórulausir vinstri menn, vilja tug milljarða flugvöll ofan í mitt eldgosasvæði í Hvassahrauni; þeir vilja strætóbrú yfir Fossvoginn fyrir strætisvagn sem gengur á 15 mínútna fresti fyrir 8 milljarða; þeir vildu og fengu bragga sem kostar innan við 10 milljónir fyrir hálfan milljarð; þeir vilja borgarlínu sem kostar 140 milljarða (eða miklu meira) og þeir vilja skrautbrú yfir Ölfusá sem á að kosta 14 milljarða. Ekki hægt að spara og fara ódýrari leið?

Er hægt að rökræða við asna? Skynsamt og greint fólk verður bara að kjósa kjánana í burtu. Það er eina leiðin.


Lélegasti utanríkisráðherra í sögu íslenska lýðveldisins

Það er ekki hægt annað en að taka undir orð Frosta Sigurjónsonar um Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sem virðist vera að búa til einka utanríkisstefnu, þvert í hefðir og venjur sem hafa myndast í íslenskri utanríkisstefnu síðan utanríkisþjónustan var formlega stofnuð 1940.

Rauði þráðurinn síðan þá, hefur verið að skipta okkur ekki með beinum hætti af valdabrölti stórveldana og allra síst ef þau fara í stríð.  Við höfum skipað okkur í raðir vestrænna ríkja og sótt herskjól til þeirra en þagað eða miðlað ef vopnin eru dregin fram.

Það er eins og utanríkisráðherra geti ekki sagt nei, eða beðið um undanþágur varðandi álögur á eldsneyti flugvéla sem hér lenda, né sagt nei við flutningagjalda (mengunarskatta) sem lagt er á innflutning vara með skipum. Hún þorir ekki að segja nei við bókun 35, þótt hún beinlínis fari í bága við stjórnarskránna. Og hún eltir galna Biden stjórnina í stríðsbrölti hennar sem nær ekki nokkri átt. Engum dettur í hug að nota diplómatanna, hvorki Bandaríkjamenn né Íslendingar eða aðrir vestrænir leiðtogar.

Syndalistinn er langur en kannski er mesta afhroðið bein þátttaka í Úkraínu stríðinu með vopnasendingum og slit stjórnmálasambands við Rússland.  Nokkuð sem engum utanríkisráðherra datt í hug á dögum kalda stríðsins sem á köflum var ansi heitt. Engin sjálfstæð utanríkisstefna er í gangi, það er íslensk utanríkisstefna. Hópurinn er bara eltur.

James Bond Sjálfstæðisflokksins með svísu hópinn í kringum sig er að draga aldargamlan hægri flokk niður í svaðið, hægt og rólega. Skyldi flokkurinn ná að verða hundrað ára 2029? Eða skellir formaðurinn í lás í Valhöll eftir næstu kosningar? Geri ráð fyrir að hann láti sig hverfa áður en að skuldadögum kemur....

Fer hörðum orðum um Þórdísi – „Einn versti utanríkisráðherra sem við höfum haft“


Vinstri grænir áfram um að setja flugvöll í Hvassahrauni

Sumir eru svo fastir í hugmyndafræði og eigin ákvörðunartöku að það er alveg sama hveru margar staðreyndir eru kynntar fyrir þeim, þá ætla viðkomandi ekki að taka "sönsum" og vera raunsærir.

Svo á við um hugmyndafræði sósíalista, sem marg búið er að sanna er ranghugmyndafræði.  Ekki sniðugt að hafa öll eggin í sömu öskjunni

Hver sem ber ábyrgð á smíði nýrrar Ölfusárbrú er greinilega líka út á túni en Jón Gunnarsson Alþingismaður hefur bent á að með því að skipta brúarhafinu í tvennt og byggja veg á milli á eyjunni í miðri á, væri hægt að byggja brú sem kostar kannski á milli 2-3 milljarða í stað 10-15 milljarða skrautbrú sem er hengibrú.  Nóta bene, hún skagar svo hátt að hún er beinlínis lýti á flatt landslag þarna undir Ingólfsfjalli.

Er hægt að kjósa svona fólk til valda? Og bera ábyrgð á öllu þjóðfélaginu? Myndum við velja slíkt fólk í stjórnunarstörf hjá fyrirtækjum?


Vín innflutningur Norðmanna, Englendinga og Hansakaupmanna til Íslands

Hansakaupmenn fluttu ýmsar vörur til Íslands á 15. öld, en vín virðist hafa verið tiltölulega sjaldgæf vara í viðskiptum þeirra við Íslendinga. Hansakaupmenn, sem voru hluti af áhrifamiklu viðskiptabandalagi þýskra borga við Norðursjó og Eystrasalt, stunduðu mikið viðskipti með fisk, einkum harðfisk, ull, skinn og önnur hráefni. Hins vegar voru lúxusvörur eins og vín sjaldgæfari í þessum viðskiptum.

Þó að vín hafi verið vinsæl vara á meginlandi Evrópu, þá var Ísland fátækara og einangraðra en önnur lönd, með takmarkaða kaupmennsku fyrir lúxusvörur. Vín hefur hugsanlega verið flutt til landsins í litlum mæli, kannski fyrir kirkjuna eða fyrir yfirstéttina. Flutningur hansakaupmanna til Íslands var aðallega tengdur sjávarafurðum, en það er mögulegt að lítilsháttar magn af víni hafi fylgt með í verslunum, þó að það hafi ekki verið algengt.

Ein óbein sönnun fyrir vín innflutning er að fundist hefur gler vínglass, ægifagur sem er greinilega undir vín, hjá Snorra Sturluson. Hvort það hafi komið óbeint frá Björgvin og í gegnum viðskiptanet Hansakaupmanna er annað mál að sanna. En Norðmenn fluttu inn vín til Íslands.

Norðmenn fluttu vín til Íslands á tímabilinu 1262 til 1500, þó að magn þess hafi líklega verið lítið og takmarkað. Vín var fyrst og fremst lúxusvara og því að mestu flutt inn fyrir sérstaka hópa, þar á meðal kirkjuna. Eins og annars staðar í Evrópu var vín nauðsynlegt fyrir trúarathafnir, sérstaklega altarissakramentið. Kirkjan á Íslandi hafði því þörf fyrir innflutning á víni til að halda uppi kristnum siðum og messum. Kirkjunnar menn voru því helstu neytendur víns á þessum tíma.

Íslenskir höfðingjar og yfirstéttin höfðu einnig aðgang að víni, en það var sjaldgæf vara og oft notuð við sérstök tækifæri, veislur og hátíðarhöld. Vín var tákn um vald og auð og var því neytt í minni mæli af valdastéttinni.

Þó að Norðmenn hafi flutt inn vínið, var eftirspurnin á Íslandi takmörkuð af jarðfræðilegum og efnahagslegum skilyrðum. Ísland var að mestu einangrað og fátækt samfélag, þannig að mikil eftirspurn eftir lúxusvörum eins og víni var takmörkuð við litla hópa.

Englendingar hafa líka flutt inn vín er þeir hófu siglingar til Íslands 1412. En hvað var flutt inn, og hverjir fengu vín?

Enskir kaupmenn fluttu meðal annars vín til Íslands, líkt og Norðmenn og Hansakaupmenn. Vín var áfram sjaldgæf og dýr vara, fyrst og fremst ætluð yfirstéttinni og kirkjunni, líkt og áður. Enskir kaupmenn þjónuðu þannig þörfum valdastéttarinnar, sem taldi kirkjunnar menn og höfðingja, sem enn voru aðal notendur vínsins.

Aðalatriðið í viðskiptum Englendinga við Ísland var þó ekki vín heldur fiskur, einkum harðfiskur (stockfish). Englendingar höfðu mikinn áhuga á íslenskum fiskafurðum sem voru mikilvæg hrávara í evrópskum viðskiptum á þessum tíma.

Heimildir: Helstu heimildir fyrir vínsögu á þessum tíma koma frá rannsóknum á verslunarsögu Norðurlanda og kirkju Íslands á miðöldum. Til dæmis hefur sagnfræðingurinn Guðmundur J. Guðmundsson fjallað um viðskipti kirkjunnar á þessum tíma. Enn einnig aðrir íslenskir sagnfræðingar sem hafa fjallað um íslenska miðaldasögu.


Kosninga baráttan er hafin

Sjá má hjá öllum flokkum að allir eru að undirbúa sig undir kosningar. Ekki síst má sjá þetta hjá stjórnarflokkunum. Sigurður Ingi er t.d. byrjaður að tala um gamalt mál, hvalveiðibann málið og segir að hann hafi alla tíð verið á móti ákvörðun Svandísar. Hann er kominn í kosningagír.

"Ekki er hægt að takast á við viðfangsefni sem blasa við í íslensku samfélagi innan núverandi ríkisstjórnar, segir Halla Gunnarsdóttir félagi í VG. Augljóst sé að ríkisstjórnarsamstarfið sé búið og nú þurfi að grípa til aðgerða," segir í frétt RÚV.

Það er því mjög líklegt að það verði VG sem sprengi upp ríkisstjórnarsamstarfið, og það fyrr en seinna. Þeir telja sig hafa allt að tapa, sem er rétt, en  mikið að vinna, sem er rangt.  Flokkurinn er rúin trausti og fylgið er farið yfir til Samfylkingarinnar. 3,5% fylgi í kosningum er rausnarleg niðurstaða og þótt VG sprengi upp stjórnina, fer flokkurinn á ruslahauga stjórnmálanna.

Sjálfstæðisflokkurinn siglir andvaralaus áfram með handónýtan skipstjóra og engir stýrismanna líklegir til að auka fylgið. Áttleysan er algjör og í stað þess að stefna til hægri (sem engir trúir að þeir fylgi þeirri stefnu að loknum kosningum) er bara siglt stefnulaust.

Nýr flokkur er í fæðingu og spurning hvort að hægri fylgið aukis eða það dreifist. 

 

 

 


Hver er ósvífinn? Stjórnmálamaðurinn eða spyrillinn?

Erlendis eru til þættir þar sem mál eru kryfin og viðmælendur látnir svara hreinskilningslega hvað þeir eru að gera. Má þar nefna "Hard talk" hjá BBC o.s.frv. Yfirleitt eru þetta stjórnmálamenn en í þessum þáttum eru þeir látnir svara án útúrsnúninga um álitamál. 

Við Íslendingar erum komnir með slíkan þátt, sem heitir Spursmál, og er frábær þáttur.  Spursmál er hárbeittur umræðuþáttur í stjórn Stefáns Einars Stefánssonar. Þar er rætt við stjórnmálamenn og fólk í íslensku atvinnulífi.

Fólk kýs stjórnmálamenn til ábyrgðastarfa og eiga þeir að heita fulltrúar fólksins og þar með að standa fyrir máli sínu. En nú bregðst svo við að Sig­urður Ingi var ekki fylli­lega sátt­ur við það hvernig þátt­ar­stjórn­andi stillti mál­um upp í tengsl­um við for­gangs­röðun rík­is­fjár­mála. Hann sakar þáttastjórnanda um ósvífni. Spurningin var þessi:

"Talandi um rík­is­fjár­mál­in og kostnaðinn og aðhaldið. Þið hafið verið í rík­is­stjórn­inni, sér­stak­lega á vorþing­inu allskyns verk­efni sem þið hafið viljað keyra í gegn sem eru kostnaðar­auki fyr­ir ríkið. Mér hef­ur orðið tíðrætt um tvö­föld­un lista­manna­launa, þið viljið keyra í gegn þjóðaróperu sem á að kosta hundruð millj­óna, þið ætlið að fara í þjóðar­höll og allskyns verk­efni af þessu tagi. Á sama tíma horf­um við upp á það að lög­regl­an get­ur ekki varið fyr­ir­tæk­in í land­inu fyr­ir inn­brot­um, menn hafa enga stjórn á þess­um glæpa­hóp­um sem eru hér í land­inu. Hvers kon­ar for­gangs­röðun er þetta hjá stjórn­völd­um, er ykk­ur til dæm­is sama um þessa fyr­ir­tækja­eig­end­ur, versl­un­ar­eig­end­ur, í Síðumúla og Ármúla sem standa ráðþrota og lög­regl­an mæt­ir ekki einu sinni á staðinn þó að brot­ist sé inn og verðmæt­um stolið fyr­ir millj­ón­ir á millj­ón­ir ofan."

Þetta algjörlega eðlileg spurning og sem ráðherra ber honum að upplýsa almenning um hvert peningar þeirra, skattfé, fer í. Svarið er hrokafullt og neikvætt af hálfu ráðherra sem móðgast. Og spurning er algjörlega réttmæt, af hverju í ósköpunum er skattfé okkar að fara í alls kyns gæluverkefni þegar frumskyldu verkefni ríkisins eru ekki sinnt? Það er nefnilega þannig í lífinu að allir, hvort sem það eru fyrirtæki, heimili, sveitarfélög eða ríkið, þurfa að forgangsraða verkefni sín. Held að formaður Framsóknar þurfi að fá sér nýtt starf og flokkurinn kærkomið frí frá stjórnarstörfum, ef það er svona erfitt að svara einföldum spurningum.

Spursmál


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband