Kennarastéttin ætti að vera hærri launuð en þingmenn

Stéttir kennara eru fjölmennar. Um 2.500 manns störfuðu í framhaldsskólum í nóvember 2020. Rúmlega 80% kennara í framhaldsskólum höfðu kennsluréttindi það sama ár sem er athyglisvert, því maður myndi ætla að það sé auðveldara að manna stöður í framhaldsskólanum samanborið við grunnskólakennara.

Félag grunnskólakennara er fjölmennasta aðildarfélag Kennarasambands Íslands með um 5.300 félagsmenn. Svona fjölmennar stéttir fá aldrei há laun, fjöldinn er bara of mikill og reikningurinn of hár.

Best væri fyrir kennarar að hafa stéttarfélag fyrir hvert skólastig, frá leikskóla upp í háskóla. Reikningurinn fyrir viðsemjendur þeirra verður þá ekki of hár.

Árið 2030 verður kennararstéttin ein af fáum stéttum sem gervigreindin hefur ekki lagt niður eða fækkað í. Talið er að 41% fyrirtækja í heiminum hafa þá fækkað starfsfólk og margar starfgreinar lagst af. Fáir muna vinna í framtíðinni en það munu kennarar gera. Þeir ættu því að heimta hámarkslaun, bara fyrir það að vinna yfir höfuð!

Það er ótrúlegt í allri sjálfvirkninni, fjöldaframleiðslu og tölvuvæðingu að fólk sé að vinna 40 klst. vinnuviku. Sel það ekki dýrara en keypti, en sagt er að evrópski miðaldarmaðurinn hafi haft styttri vinnutíma en Bandaríkjamaðurinn í dag.

Kennarar skapa framtíðina, en hvað gera þingmenn sem verðskuldar það að þeir eru með þreföld hærri laun en kennarinn? Þeir vinna þriðjung úr ári (rúmlega hundrað daga á ári sem þeir þurfa að mæta í Alþingishúsið) og hafa alls kyns forréttindi sem Jón og Gunna hafa ekki. Oft valda þingmenn meiri skaða en ávinning með verkum sínum, en þetta er kannski alhæfing enda gott fólk í öllum stéttum.

Að lokum. Kennarastarfið er erfiðisvinna. Mannleg samskipti geta verið erfið og krefjandi. Um það geta grunnskólakennarar borið vitni um. Ein mesta kulnun í starfi er að finna meðal hjúkrunarfræðinga og kennara. Fólk brennur yfir í starfi og gefst upp margt hvert. Hvers vegna skildi það vera?

 


Vilja Íslendingar fá Bandaríkjamenn sem nágranna?

Þetta ætti að vera umhugsunarvert atriði fyrir Íslendinga og ekki eins fráleitt miðað við atburðarrás síðastliðna vikna. Viðbrögð heimsins hafa verið blendin, á að taka hugmyndir eða kröfur Trumps varðandi Grænland alvarlega eða sem samningsatriði í öðrum málum, eins og fleiri herstöðvar og námuréttindi í landinu?

Trump virðist halda þessu fram af fullri alvöru og nú eru Repúblikanar að smíða frumvarp sem heimilar Bandaríkjaforseta að fara í viðræður.

Heimastjórn Grænlands og ríkisstjórn Dana hafa tekið illa í málið en skiptar skoðanir virðast vera meðal Grænlendinga sjálfra. Þeir eru ekki ýkja hrifnir af nýlendustjórn Dana sem hefur á köflum verið hranaleg. Danir voru afskipta litlir af Íslendingum, hirtu afraksturinn af landinu, báru virðingu fyrir menningu Íslendinga en lengra náði það ekki. Ísland var hjálenda en ekki nýlenda og það getur verið mikill munur þar á.

Danir fóru oft illa með Grænlendinga á nýlendu tímabilinu, eins og margar aðrar nýlenduþjóðir gerðu gagnvart frumbyggjum á yfirráðasvæðum sínum. Samband Danmerkur og Grænlands einkennist af nýlendustjórn sem var að mestu leyti einhliða, og margar af ákvörðunum sem teknar voru höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir menningu, samfélag og sjálfstæði Grænlendinga.

En eru Grænlendingar (og Íslendingar) betur settir með að gera Grænland að nýju ríki í Bandaríkjunum eða sjálfstjórnarsvæði?

Bandaríkjamenn hafa farið með inúíta í Norður-Ameríku á svipaðan hátt og aðrar frumbyggjaþjóðir, þó með ákveðnum sérkennum sem tengjast jarðfræðilegum og menningarlegum aðstæðum í norðlægum heimskautasvæðum. Samskiptin milli yfirvalda Bandaríkjanna og inúíta hafa oft einkennst af valdatöku, menningarlegri kúgun og vanrækslu, en einnig af tilraunum til að bæta aðstæður þeirra. 

Hætt er við að Grænlendingar fari úr öskuna í eldinn með að fá nýja húsbændur. Bloggritari hélt að þeir vildu fá full sjálfstæði. Ef Danir eru slæmir, þá eru þeir  þó ekki eins máttugir og Bandaríkjamenn. Stjórn þeirra á Grænlandi er þegar veik og því auðveldara að berjast við Kaupmannahöfn en Washington DC.

Og það getur verið óþægilegt fyrir örríki eins og Ísland að hafa svona heimsveldi við túnfótinn. Hvað næst? Ísland næst á dagskrá?

 


Það er ekki til neitt sem kallast "normal" hitastig fyrir jörðina

Hér í þessu myndbandi er talað um öldugang ísalda og það að sólin, ekki maðurinn ræður miklu um hitastig jarðar. Losun koltvísýrings er auka breyta, ekki aðalástæða fyrir hlýnun eða kólnun jarðar. Þeir þættir sem skipta máli eru:

1) Fjarlægð sólar frá jörðu (getur verið breytileg eftir árþúsund).

2) Sólarvindar (geislarnir eru mis öflugir).

3) Halli jarðar sem er nú 23,5 gráður. Staðsetning snúningsás jarðar færðist um 30 fet (10 metra) á milli 1900 og 2023. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að um 90% af reglubundnum sveiflum í pólhreyfingum gæti skýrst af bráðnun ísbreiða og jökla, minnkandi grunnvatns og hækkun sjávarborðs. Þetta er eins og pendúll sem sveiflast til og frá á tugþúsunda ára fresti.

4) Braut jarðar umhverfis sólu er ekki alltaf sporöskjulaga, heldur sveflast hún til og getur orðið meira hringlaga. Þetta gerist á hundrað þúsund ára fresti.  Þetta þýðir breytilegt hitastig.

Það má því líkja jörðinni við fótbolta sem snýst í loftinu og fer í boga í átt að "marki". Ekkert normal hitastig er því til, stundum eru ísaldir eða hlýjinda skeið, allt eftir stöðu jarðar í himingeiminum og afstöðu hennar gagnvart sólu. Maðurinn, sem er ansi öflugur er bara máttvana áhorfandi að þessu öllu.

Spurning er því þessi: Vita menn yfir höfuð um hvað er verið að tala um þegar talað er um hlýnun jarðar vegna "gróðurhúsaáhrifa"? Er ekki bara stutt í næstu ísöld? Eru ísaldir og kuldaskeið ekki verra vandamál fyrir mannkynið en hlýnun upp á 1,5 gráðu frá upphafi iðnbyltingarinnar? Er búið að upplýsa Gretu Thunberg af þessu?

 


Þegar landkönnuðurinn Peter Frauchen tryggði Dönum yfirráðin yfir Austur-Grænland

Menn vilja alltaf gleyma því að austurströnd Grænlands hefur alltaf verið strjábýl, jafnvel ennþá daginn í dag búa fáir Grænlendingar þar. Ástæðan er einföld, miklu meiri ís er þarna og illgreiðfært þangað nema yfir Grænlandsjökul á sleðum sem danski hermenn gera enn í dag eða með þyrlum eða flugvélum.

Þegar Inúítar lögð loks undir sig Grænland allt undir lok síðmiðalda, fór fámennur hópur þeirra til Austur-Grænlands og einangruðust þar málfarslega og kynþáttalega. Svo er enn í dag.

Norrænir menn og Eiríkur rauði sérstaklega uppgötvuðu það fljótt að ekki var hægt að búa á Grænlandi nema á tveimur stöðum, Vestri byggð og Eystri byggð. Svo er enn í dag að fleir búa á tveimum litlum svæðum á vesturströnd Grænland sem er með mildara veðurfar og minni ís.

Það er því hlægilegt þegar Norðmenn ætluðu að leggja undir sig með góðu eða illu Austur-Grænland og kölluðu landið Land Eríks rauða (hann bjó aldrei á austurströndinni). Árið 1931 færðist Græn­lands­málið frek­ar í brenni­dep­il umræðunn­ar, en í júní það ár námu fimm norsk­ir menn landsvæði á aust­ur­strönd Græn­lands í nafni Nor­egs­kon­ungs og nefndu það Eirik Rau­des Land – Land Ei­ríks rauða.

Nokkr­um dög­um síðar ákvað norska rík­is­stjórn­in að inn­lima svæðið í Nor­eg. Var sjó­hern­um enn frem­ur gert að verja þessa ný­lendu sam­kvæmt fyr­ir­skip­un norska varn­ar­málaráðherr­ans, Vidk­un Quisl­ing. Svo fór að Norðmenn yf­ir­gáfu Græn­land 5. apríl 1933, en þá hafði Alþjóðadóm­stóll­inn í Haag dæmt land­nám þeirra ólög­legt.

Íslendingar voru líka sumir hverjir æstir á öðrum áratug 20. aldar að eignast gömlu "nýlendu" sína með Einar Benediksson fremstan í flokki. En Íslendingar voru þá nýbúnir að fá frelsi og stjórnarráðið og Alþingi ekki öflugt. Það varð því hljótt um kröfur Íslendinga þótt einstaka mann ljáði máls á málinum.

En merkilegt er að kröfur Dana sjálfra til Austur-Grænlands eru nefnilega ekki gamlar. Fáir vita af því að það var einn Dani, Peter Freuchen, í byrjun 20. aldar sem tryggði rétt Dana (og gerði landnám Norðmanna þar með ólöglegt) til landshlutans.  Ég las bók hans margsinnis, sem heitir Æskuárin mín á Grænland og er stórskemmtileg aflestrar. Þvílíkur ævintýraheimur sem hann dró mynd af og gamla inúítasamfélaginu sem þá var ósnert á austurströndinni. Kíkjum á æviágrip hans.

Freuchen fæddist í Nykøbing Falster í Danmörku (20 febrúar 1886 – 2. september 1957), sonur Anne Petrine Frederikke  og Lorentz Benzon Freuchen, kaupsýslumanns. Freuchen var skírður í kirkjunni á staðnum. Hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann stundaði nám í læknisfræði um tíma.

Árið 1906 fór hann í sinn fyrsta leiðangur til Grænlands sem meðlimur Danmerkur leiðangursins svonefnda. Á árunum 1910 til 1924 fór hann í nokkra leiðangra, oft með hinum þekkta heimskautafara Knud Rasmussen. Hann vann með Rasmussen við að fara yfir Grænlandsjökulinn. Hann var í mörg ár í Thule á Grænlandi og bjó með Pólar Inúítum. Árið 1935 heimsótti Freuchen Suður-Afríku og í lok áratugarins hafði hann ferðast til Síberíu.

Árið 1910 stofnuðu Knud Rasmussen og Peter Freuchen Thule-verslunarstöðina í Cape York (Uummannaq), Grænlandi, sem verslunarstöð. Nafnið Thule var valið vegna þess að það var nyrsta verslunarstaður í heimi, bókstaflega "Ultima Thule". Thule verslunar útpósturinn eða verslunarstöðin varð heimastöð fyrir röð sjö leiðangra, þekktir sem Thule Expeditions, á milli 1912 og 1933.

Fyrsti Thule leiðangurinn (1912 fóru þeir Rasmussen, Freuchen, Inukitsork og Uvdloriark) hafði það að markmiði að prófa fullyrðingu Roberts Peary um að sund skildi Peary Land frá Grænlandi. Þeir sönnuðu að þetta var ekki raunin í 1.000 km (620 mílur) ferð yfir innlandsísinn sem varð þeim næstum að bana.

Clements Markham, forseti Royal Geographical Society, sagði ferðina "þá fínustu sem hundar hafa framkvæmt". Freuchen skrifaði persónulegar frásagnir af þessari ferð (og öðrum) í Vagrant Viking (1953) og og með Rasmussen (1958). Hann segir í Vagrant Viking að aðeins ein önnur hundasleðaferð yfir Grænland hafi nokkurn tíma tekist vel. Þegar hann festist undir snjóflóði segist hann hafa notað eigin saur til að búa til rýting sem hann losaði sig með. Meðan þeir voru í Danmörku héldu Freuchen og Rasmussen röð fyrirlestra um leiðangra sína og menningu inúíta.

Fyrsta eiginkona Freuchens, Mekupaluk, sem tók sér nafnið Navarana, fylgdi honum í nokkra leiðangra. Þegar hún lést vildi hann að hún yrði grafin í gamla kirkjugarðinum í Upernavík. Kirkjan neitaði að framkvæma greftrunina, vegna þess að Navarana var ekki skírð, svo Freuchen jarðaði hana sjálfur. Knud Rasmussen notaði síðar nafnið Navarana fyrir aðalhlutverkið í kvikmyndinni Palos Brudefærd sem var tekin upp á Austur-Grænlandi árið 1933. Freuchen gagnrýndi harðlega kristna kirkju sem sendi trúboða meðal inúíta án þess að skilja menningu þeirra og hefðir.

Þegar Freuchen sneri aftur til Danmerkur á 2. áratugnum gekk hann til liðs við jafnaðarmenn og lagði sitt af mörkum með greinum í dagblaðinu Politiken. Frá 1926 til 1932 starfaði hann sem aðalritstjóri tímarits, Ude og Hjemme, í eigu fjölskyldu seinni konu sinnar.

Enda þess grein á að benda á að Thule verslunarmiðstöðin sem Frauchen stofnaði tryggði landakröfur Dana, því þar með gátu þeir sannað búsetu á austurströndinni (skítt með innbyggjarar höfðu búið þarna í 500 ár áður).


Örríkin ganga kaupum og sölum

Danir voru aldrei áhugasamir um hjálendu sína í norðri, Ísland. Ekki er beinlínis hægt að segja að þeir hafi farið illa með Íslendinga, til þess var mörlandinn of langt í burtu og stjórnsýsla þeirra á Íslandi of lítil. Dæma má stjórn þeirra á eyjunni sem vítaverða vanrækslu framan af. Þeir höfðu ekki meiri áhuga en það, þegar tekjur þeirra af fiskveiðum fóru minnandi á 19. öld að vilja að nota landið sem skiptimynt.

Árið 1809, þegar Napoleon háði stríð Evrópu og Danmörk hafði tapað Svíþjóð í stríðinu, höfðu Danir miklar áhyggjur af öryggi landsins og óttuðust að Bretar gætu tekið Ísland sem og gerðist er Jörundur hundadagakonungur tók hér "völd". Á þessum tíma voru Bretar mjög áhugasamir um að tryggja hafnaraðstöðu í Norður-Atlantshafi. Það var því nokkur hugmynd um að Bretar myndu kaupa Ísland frá Danmörku, en þetta fór aldrei lengra.

Árið 1814, þegar Danmörk og Svíþjóð undirrituðu Kiel samninginn eftir Napóleonsstríðin, fór Noregur formlega frá Danmörku en Ísland varð eftir (svo við vitum ekki enn til að það hafi verið mögulegt að "selja" Ísland, heldur væri mögulega að ræða skiptingu eignar).

Í kringum 1860 var Ísland mjög fátækt og einangrað, og Danir höfðu miklar fjárhagslegar áhyggjur vegna þessa. Þá hafði meðal annars komið upp hugmynd um að selja Ísland Bandaríkjamönnum sem hluta af viðræðum við þá um að mynda nýja þjóðríki eða viðskiptaþjóðarsamband.

Árið 1868 var jafnvel formlegt tilboð frá Danmörku til Bandaríkjanna um að Ísland yrði selt. Bandaríkin höfðu ekki sérstakan áhuga á þessu tilboði, að minnsta kosti ekki á þeim tíma. Það er talið að þeir hafi ekki séð Ísland sem hagkvæmt eignarhald og voru einnig óvissir um það hvort það væri raunverulega hagkvæmt fyrir Bandaríkin að bæta Ísland við sitt land.

Ísland á 19. öld var því í sömu stöðu og Grænland á 20. öld, vera skiptimynt í samskiptum stórvelda. Bandaríkin vilja nú Grænland en vildu landið á 19. öld frá Dönum en ekkert varð af þessum áformum. Litið var á það sem risa ísbreiðu með fáum eða engum auðlindum. En nú vita allir af málm námum landsins, hernaðarlegs mikilvægi o.s.frv.

Virðingin fyrir örríkjum er ekki meiri en þetta.


Höfði kemur ekki til greina í fyrirhuguðum friðarviðræðum stórveldanna um Úkraínu

Friðar ríkið svokallaða Ísland, hefur gert þau reginmistök sem örríki á aldrei að gera; það er að skipta sér með beinum hætti af stríðsátökum stórvelda.

Það gerði fyrrverandi ríkisstjórn er hún ein vestrænna ríkisstjórna ákvað að slíta de facto stjórnmálasamskipti við Rússland. Og það þrátt fyrir að þau hafa aldrei verið slitin í kalda stríðinu og var komið á, í lok heimsstyrjaldar og það við harðstjórann og fjöldamorðingjann Stalín.  Þetta hafa Rússar tekið eftir og ekki gleymt.

Nú hafa leiðtogar stríðandi aðila ákveðið að tala saman og fara í friðarviðræður. Hið einstæða tækifæri fyrir Ísland að komast í sögubækurnar á ný, með því að bjóða Ísland og þar með Höfða á ný, sem fundarstað, er ómögulegt að bjóða. Ástæðan er einföld, það eru engin stjórnmálasamskipti milli Rússlands og Íslands þessi misseri. Ekkert sendiráð starfrækt í Reykjavík eða Moskvu og engir diplómatar sem geta gengið á milli. Slík var "stjórnviskan" á ríkisstjórnarheimili fyrrum ríkisstjórnar.

Í stað þess að mótmæla innrás Rússlands og láta þar við sitja, ekki slíta "talþræðinum" í gegnum diplómatískum leiðum, ákvað Ísland að taka beinan þátt í stríðinu í Úkraínu með vopnasendingum þangað. Þannig að það var ekki nóg að slíta samskiptunum, það varð líka að vopna annan stríðsaðilann.  Nú er hér ekki verið að bera blak af innrásastríði Rússa gegn Úkraínu, þetta er skítastríð sem hefði mátt koma í veg fyrir ef diplómatarnir hefðu sinn vinnu sinni sem og stjórnmálamennirnir.

Það verður fróðlegt að sjá hvar þjóðarleiðtogarnir mætast, það verður örugglega ekki á Íslandi!

 


Stjórnmálaleiðtogar ydda blýanta fyrir komandi friðarviðræður

Allir leiðtogar, sem skipta máli hvað varðar friðarferli í Úkraínu stríðinu eru farnir að undirbúa sig undir friðarviðræður. Evrópuleiðtogarnir skipta engu máli, enda engir alvöru stjórnmálaskörungar til í Vestur-Evrópu. 

Zelenskí er tilhneyddur enda blankur, Pútín vegna þess að hann er líka blankur en líka vegna þess að hann kemst varla mikið lengra með stríðsbrölti sínu og er úrvinda og Trump vegna þess að hann ætlar að láta minna sig sem maðurinn sem stillti til friðar í stærsta stríði Evrópu síðan seinni heimsstyrjöldin var og hét. Friðarviðræður eru í þessum töluðum orðum í undirbúningi.

Annað hvort ná menn saman við samningsborðið fljótt og örugglega eða engin niðurstaða færst en þá mun nátttúran taka við og koma á friði með vorleysingjum sínum. Efast um að menn nenni að taka upp þráðinn eftir það og láti þá víglínurnar vera eins og þær voru fyrir vorkomuna.

Að lokum varðandi hitt stríðið sem heimsbyggðin er að horfa á, stríð Ísraela við nágranna sína, þá er athyglisvert að Ísraelar eru ekki farnir af stað með árásir á Íran. Eru þeir að bíða eftir Trump?

 


Á Ísland landakröfur til Norður-Ameríku?

Úr því að Kaninn er kominn með fáránlega landakröfur til Grænlands og Kanada, ættum við Íslendingar kannski að gera kröfu til Norður-Ameríku eins og hún leggur sig, þar á meðal til Grænlands (sem var óbyggt er íslenskir landnemar frá Vesturlandi lögðu það undir sig). Við eigum í raun sögulegar kröfur sem Bandaríkjamenn hafa ekki.

Kíkjum á grein sem bloggritaði ritaði fyrir ekki löngu, "Gleymda landnámið í Vesturheimi". Þar segir:

"Árið 1003 hélt Þorfinnur karlsefni með áhöfn sinni í vesturátt á fjórum skipum með um hundrað og sextíu manns, karla og konur. Hlutirnir hafa gerst hratt, því að Leifur snéri frá Noregi um árið 1000 e.Kr. og þremur árum síðar, eftir misheppnaðan leiðangur Þorsteins, tókst Þorfinni að finna Vínland.

Atburðarrásin var í raun mjög hröð þegar könnun vesturheims er skoðuð. Grænland náttúrulega tilheyrir Ameríku en landnám landsins hófst 982 e.Kr. þegar Eiríkur rauði fór í útlegð til Grænlands og valdi að setjast að í Brattahlíð og nefndi hann landið Grænland. Árið 985 eða 986 sigldu 25 skip frá Íslandi með 500 - 700 manns um borð, en einungis 14 af þeim náðu landi í Eystribyggð. Ef við deilum 700 manns á 25 skip, hafa að meðaltalið verið 28 manns um borð.  11 skip fórust í hafi og því líklega 308 manns látist.

Landnámshópur Grænlands hefur því líklega verið um 400 manns. Auðvitað hafa fleiri komið síðar og aðrir yfirgefið landið. En þetta var ekki stór hópur. Menn segja að Grænlendingar hafi aldrei farið yfir 3000 manns í mannfjölda í 400 ára sögu norræna manna á Grænlandi.

Það að 160 manna hópur hafi farið úr svona lítilli landnámsbyggð er stóratburður og sýnir að menn hafi trú á nýja landinu.

En því miður stóð landnámið stutt yfir, líklega aðeins þrjú ár, frá 1003 til 1006 e.Kr." Gleymda landnámið í Vesturheimi

Ástæðan fyrir að landnámið misheppnaðist, er einmitt vegna þess að fyrir voru innbyggjarar, réttara sagt frumbyggjar sem bjuggu þarna fyrir. Ef þannig er litið á málið, eiga Íslendingar enga kröfu á Bandaríkin eða Kanada (voru líklega einhvers staðar við Nýfundnaland og Boston, jafnvel við New York). En Íslendingar eiga miklar kröfur til Grænlands. Þarna bjuggu afkomendur Íslendinga (Ísland var orðið ríki árið 930 e.Kr. með eigin lög). Á Grænlandi bjó þetta fólk í hartnær 400 - 450 ár.

En nú ætla Bandaríkjamenn að fara í indíána stríð við innbyggara Grænlands. Inúítar bjuggu ekki ekki í Eystri né Vestribyggð á miðöldum og því ekki frumbyggjar. Það er önnur saga að segja frá og ekki farið út í hér.

En annað liggur þarna á bakvið en hótun um innrás eða innkaup á landi. Eðalmálmar og eðalsteinar er það sem Kaninn vill komast yfir og eldflaugavarnir gegn Rússum auk siglingaleiðir. Þarna eru Bandaríkin að keppa við Rússa og Kínverja um áhrifasvæði.

Þarna hefur Trump tekist að skelka Grænlendinga og því er orðið nokkuð ljóst að þeir reyna ekki frekari sjálfstæðis tilraunir á næstunni frá Danmörku (og í raun frá Evrópu). Þeir gætu jafnvel samþykkt að ganga í ESB með Dönum.

Brambolt Trumps er afar athyglisvert í ljósi þess að hann er ekki einu sinni orðinn forseti. Samkvæmt "Logan act" má forsetaefni ekki skipta sér af stjórn landsins á meðan biðtími er í gangi. En vegna þess að Biden er ekki andlega með okkur hin (einu mestu skógareldar í sögu Kaliforníu eru í gangi og blaðamannafundi svaraði hann um neyð íbúanna á þá leið að hann hefði eignast nýverið barnabarn!) þá hefur Trump stigið inn í stjórn landsins. Bill O´Reilly fréttahaukurinn sagðist hafa komið inn á miðjan ríksstjórnarfund verðandi Trump stjórnar í Mar-o-Lago í seinustu viku. Þangað streyma þjóðarleiðtogar, ekki til Washington DC.

En af hverju fer Trump af stað með svona látum?  Jú, maðurinn er með 4ra ára reynslu af því að vera forseti. Hann kann núna á stjórnkerfið í Washington og leikendur. Árið 2017 kom hann til Wasington sem utangarðsmaður og mætti mikilli andstöðu, líka frá samherjum.  En nú er Repúblikana flokkurinn orðinn að Trump flokki. Demókratar eru leiðtogalausir og sundraðir. Trump þarf ekki að keppa um endurkjör og því getur hann leyft sér að koma með villtustu drauma, sem er Norður-Ameríka öll undir valdi Bandaríkjanna. Nú með að slengja þessum kröfum fram, er hann að kanna viðbrögð.  Þau verða að vera hörð frá Evrópu og Danmörku, þannig að hann snúi sér að öðru raunhæfara markmiði. 

Þetta sýnir að Ísland þarf að hugsa áratugi fram í tímann, líkt og Kínverjar (markmiðið er að taka Taívan fyrir 2049). Getum við verið örugg um að harðstjórnaröfl innan Bandaríkjanna komist aldrei til valda? Getur Bandaríkjaher alltaf varið Ísland? Líka í miðri þriðju heimsstyrjöld? Viljum við aftur bandaríska hersetu? Virkilega? Þurfum við ekki að taka málin í okkar eigin hendur, þ.e.a.s. varnir Íslands?  Ekki vera eins og strúturinn með höfuðið í sandinum, sé ekkert og heyri ekkert og heldur að málin leysast af sjálfu sér.

Áþreifanlegar hættur eru öllum stundum fyrir Ísland sem setulið erlends ríki getur ekki tekið á. Þær eru:

1) Hryðjuverkaárásir (og netárásir).

2) Glæpagengi taki yfir íslenskt þjóðfélag. Ólíklegt? Lítum á Svíþjóð og Mexíkó sem dæmi.

3) Skemmdaverkastarfsemi sérsveita erlends ríkis. Hér eru sæsstrengir í hættu og mannvirki eins og stíflur.

Hvenær ætla Íslendingar að læra af sögunni? Lítum á lögmál Murphys sem er orðtak eða epigram sem er venjulega sett fram svona: "Allt sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis."

Íslenskar varnir eru sjálfstæðismál!

 


Afsakanir Sjálfstæðismanna...og Flokks fólksins manna

Nú eftir kosningar eru fulltrúar Sjálfstæðisflokksins byrjaðir að afsaka slæmt gengi. Það hefur hins vegar verið að reitast af því síðan Bjarni Benediktsson tók við flokknum en ekki er minnst á það.

Það er grein hérna á blogginu sem heitir "Helreið Bjarna Benediktssonar" eftir Friðrik H. Guðmundsson sem lýsir ágætlega forystuleysi og hugmyndaleysi flokksformannsins. Helsta "afrek" Bjarna var að geta ekki komið í veg fyrir klofning flokksins og myndun Viðreisnar. Bloggritari hefur alltaf fundist BB vera búríkrati, væri frábær ráðuneytisstjóri eða sendiherra (sem hann endar líklega sem nú á vormánðuðum). Formaður þarf líka að vera leiðtogi. Það geta allir orðið formenn (þó ekki nema í húsfélagi) en fáir hafa leiðtoga hæfileika og geta leitt stjórnmálaflokk.

Af hverju þetta stöðuga fylgistap? Jú á Útvarpi sögu sagði Sjálfstæðismaður að flokkurinn hafi ekki verið í nógu góðu talsambandi við kjósendur! Og flokkurinn hafi unnið sigra í slæmu ástandi.  Hann sagði að flokkurinn væri í eðli sínu "frjálslindur íhaldsflokkur"! Hvað er eiginlega það? Trúi á frelsi einstaklingsins en undir leiðarljósi kristilegra gilda. Og hann sagði flokkurinn hafi tapað fylgi til þriggja flokka, Miðflokkinn, Flokk fólksins og Viðreisnar.

Til Miðflokksins hafi flokkurinn tapað fólki sem er lengra til hægri og íhaldsamara í menningarmálum. Til Flokks fólksins hafi hann tapað öryrkja og aldraða og til Viðreisnar hægri sinnað viðskiptafólk og Evrópusinna.

Þetta segir manni að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki staðið í fæturnar í neinum málaflokki sem skiptir máli! Þetta er nefnilega vandamál flokksins, hann hefur svikið öll kosningaloforð í verki.

Það er ekki nóg að tala, það verður að sýna stefnuna í verki. Það gerði Miðflokkurinn svo sannarlega síðan hann var stofnaður og ein ástæðan þess að ekki einu sinni var reynt að fá hann í stjórnarmyndunar viðræður. Viðreisn og Samfylkingin vissu sem er, að ekki væri vikið af sterkri stefnu í útlendingamálum, svo eitthvað sé tekið.

Þessir flokkar vissu líka að formaður FF vildi fara í ríkisstjórnarsamstarf og það væri nauðsyn. Þarna talaði formaðurinn af sér, því að samkvæmt stjórnarsáttmálanum er gefið ansi mikið eftir af hálfu flokksins og formaðurinn sagði að kosningaloforð væru markmið, en ekki eitthvað væri staðið við þegar komið er í ríkisstjórn, því að margflokka ríkistjórnar kerfi er við lýði á Íslandi. En þá hefði flokkurinn getað sagt nei, við förum ekki í ríkisstjórn nema við náum 450K kr. markinu.

Þetta snýst ekki um að komast í ríkisstjórn, heldur að standa vörð um þau gildi sem flokkurinn heldur fram og kjósendur hans halda að hann standi fyrir. Flokkur fólksins voru andstæðingar bókunar 35 fyrir kosningar en nú á að gleyma stóru orðin fyrir kosningar. En netið gleymir ekki.

Hvernig verður flokkurinn í útlendingamálunum? Hælisleitenda málaflokkurinn er svo umfangsmikill vegna opinna landamæra, að kostnaðurinn hleypur á tugi milljarða á ári og kemur úr tómum ríkiskassa. FF hefur verið nokkuð harður í orði (eins og Sjálfstæðisflokkurinn) gagnvart opnum landamærum, vegna þess að hann veit að velferðakerfið veikist þegar þúsundir manna koma inn í landið árlega sem þarf að þjónusta. Sú þjónusta verður tekin af skjólstæðingum FF ef það er ekki bætt í kerfið. Það hefur hins vegar ekki lagast, ef eitt hvað er, versnað, því engir peningar eru til. Reynið bara að fá tíma hjá heimilislæknir eða fara inn á bráðamóttöku Landsspítalans eða fara á 2 ára biðlista eftir aðgerð. Eða fá inn á hjúkrunarheimili eða fá mannsæmandi framfærslueyri frá hinu opinbera.  Allt í skötulíki á Íslandi og það í einu dýrasta ríki Evrópu með háa verðbólgu, hátt matvælaverð, húsnæðisverð og hátt verðlag yfir höfuð. Svisslendingar eru meiri segja ódýrari en þar er kaupmátturinn meiri.

Sjálfstæðismenn og menningarmál er annar kapituli fyrir sig. Hægri menn, Sjálfstæðisflokkurinn einn áður en Miðflokkurinn kom til sögunnar, hefur ekki tekið slaginn við vinstri menn. Ekki frekar en hægri menn í Bretlandi og í Bandaríkjunum, áður en Trump kom til sögunnar. Hægri menn eru hins vegar vakandi í Evrópu og eru byrjaðir að taka þátt í menningarstríðinu. Þarna verður Sjálfstæðisflokkurinn fara inn í slaginn af hörku, eins og Miðflokkurinn gerir sannarlega, ef hann ætlar að auka við fylgið.

Ekkert er ómögulegt og ef flokkurinn ætlar að lifna við áður en hann verður hundrað ára 2027, verður hann að hætta að vera "frjálslindur íhaldsflokkur" og fara lengra til hægri við miðjuna og fara upp við hlið Miðflokkins. Þá mun fylgið tínast til baka og Viðreisn hefur þá sýnt í verki (væntanlega) að þangað er ekkert að leita. Að sá flokkur er í eðli sínu vinstri flokkur enda flokksmenn fleiri en fyrrum Sjálfstæðismenn.


Trump og co að seilast um og of?

Bloggritari líður eins og Cato gamla í öldungaráði Rómar, sem endaði allar sínar ræður á "Ceterum (autem) censeo Carthaginem esse delendam" eða í lauslegri þýðingu: "Ennfremur tel ég að Karþagó þurfi að eyða". Það þurfti í sífellu að vara við hættum. 

Á þessu bloggi hefur bloggritari sífellt haft þau viðvörunnarorð að Íslendingar eigi að gæta sín í stórvelda pólitíkinni. Ekki að vera peðið sem þvælist á milli drottninga og verður fórnað þegar leikmanni hentar.

Eins og staðan er í dag, eru við undir verndarvæng vinsamlegt heimsveldi. Bandaríkin hafa hingað til látið sig nægja að drottna í krafti herstyrks, herstöðvum hjá vinveittum ríkjum og flota sínum sem er sá öflugusti í heimi. Engin ástæða hefur verið til að leggja undir annað ríki, til verja hagsmuni sína, nema kannski tímabundið.  Innrásarher Bandaríkjanna hefur alltaf farið til baka.

En bloggritari sagði einnig að það er eðli stórveldis að vilja að stækka og það er hægt á tvennan hátt, friðsamlega eða með landvinningum. Landvinningar Bandaríkjanna hófust með útþennslu í vesturátt, til stranda Kyrrahafs. Þegar þangað var komið, fóru þau út á Kyrrahaf og hafa tekið ótal smáeyjar og eyjar þar og er Guam og Havaí mikilvægustu eyjarnar.  En meira vill meira.

Það er athyglisvert að Bandaríkjamenn vilja ekki gera Púrtó Rica að ríki innan Bandaríkjanna. Bara vandamál og ekkert að sækja þangað hernaðar- né efnahagslega. En þeir voru tilbúnir að kaupa Alaska sem voru góð kaup. Nú vill Kaninn kaupa Grænland og virðist vera alvara og taka yfir Panama. Trump virðist halda að hann sé Andrew Jackson Bandaríkjaforseti endurborinn sem tók undir sig Flórída og hóf vestursóknina sem endaði á Vesturströnd Bandaríkjanna.

Þetta er útþennsla stórveldis, friðsamleg á yfirborðinu en í raun fjandsamleg þegar haft er í huga að íbúar Panama og Grænlands hafa engan áhuga á að verða að ríkjum innan Bandaríkjanna. Grænlendingar gætu þá kvatt menningu sína endanlega ef þeir komast undir yfirráð Bandaríkjanna.

Hvar standa Íslendingar í þessu öllu? Staða okkar er enn brothætt.  Getum ekki einu sinni varið landið fyrir hryðjuverkahóp eða glæpahóp sem kynnu að ákveða að herja á landið.  Öll eggin eru í körfu Bandaríkjanna. Þau hafa sýnt það í verki að þau láta sína eigin hagsmuni ganga fyrir, t.d. þegar þeir fóru einhliða frá Íslandi 2006. Þeir hreinlega gátu ekki rekið herstöðina á fullum dampi.

Þetta er ein af ástæðum þess að bloggritari hefur kvatt til sjálfstæðis Íslendinga í varnarmálum. Ekki láta erlent ríki (vinsamlegt í dag, en kannski fjandsamlegt á morgun) sjá um varnir landsins.

Danir eru áhyggjufullir vegna Grænlands. Ættu ekki að vera það ef allt væri með felldu. Grænlendingar eru hins vegar með draumóra um sjálfstæði. Ekki möguleiki. Eyjan er of stór til að fela sig fyrir umheiminum. Það þarf að vera undir verndarvæng stórveldis. Íbúar aðeins 57 þúsund og helmingur fjárlaga er fjárstyrkur frá Danmörku.  Færeyingar gætu hins vegar látið sig hverfa og orðið sjálfstæðir.

Sagt er að ríki eigi sér enga vini, bara hagsmuni. Hér á það sannarlega við.

Sjálfstæði Íslands er í húfi ef Íslendingar tryggja ekki eigin varnir!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband