Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2024

Samgöngusáttmálinn

Það má finna ýmislegt gott í samgöngusáttmálanum sem nýverið var undirritaður.  Hann skiptist annars vegar í framkvæmdir er varða stofnvegi og hins vegar í borgarlínu.

Fyrri hlutinn er nauðsynlegur og löngu kominn tími á, svo sem mislæg gatnamót o.s.frv. Það má deila um útfærslur en í heildina er þetta nauðsynlegt.

Annað mál er með borgarlínuna, sem fær mikið rými í áætlunni þótt einungis 5% vegfarenda noti strætisvagnasamgöngur. Um 90% nota bílinn og rest fer á hljóli eða gangandi. Til efs er að fólk noti strætó, þótt einungis 400 metrar séu í næstu biðstöð og strætisvagnarnir ganga á nokkra mínútu fresti. Ástæðan er einföld. Veðráttan skiptir hér máli en einnig víðátta höfuðborgarsvæðisins. Það er rúmlega 1000 ferkílómetrar og vegalengdir á milli staða geta verið langar. Það getur tekið hátt í tvo tíma að fara enda á milli innan svæðisins ef strætisvagninn er tekinn. Þetta er bara aðra leiðina. Hver hefur tíma í þetta?

Í sjálfu sér er bloggritari ekkert á móti borgarlínu, svo fremur sem hún þrengir ekki að almennri umferð.  En hún virðist gera það á köflum og borgaryfirvöld í Reykjavík, eru þegar byrjuð og að ástæðulausu, þrengja að bílaumferð. Það er gert með að gera tveggja akreina braut að eins akgreina, setja hjólreiða umferð í staðinn eða bara gras. Það er lokað á beygjuljós eða afreinar teknar af. Svo er sérkapituli fyrir sig allar hraða hindranir sem eru alls staðar og á furðulegustu stöðum. Er ekki galið að setja hraðahindrun á gatnamót með umferðaljósum?

Af hverju í ósköpunum er ríkið að taka þátt í rekstri almennings samgöngum á höfuðborgarsvæðinu?  Af hverju á fólk á landsbyggðinni að taka þátt í illa reknum rekstri strætisvagna? Þetta er í samgöngu sáttmálanum.

Verðmiðinn er 313 milljarðar á þessar framkvæmdir sem dreifast á langt tímabil. Sparnaður á að vera yfir þúsund milljarðar. Gott og vel. En hér er aðeins hálf sagan sögð. Allt vegakerfið á landsbyggðinni er komið á tíma. Ríkið borgar 87% af framkvæmdunum á höfuðborgarsvæðinu og það þýðir að það hefur ekki jafnmikla peninga í framkvæmdir á landsbyggðinni. Að sjálfsögðu á að redda því með að setja aukaskatta á vegfarenda, kallaðir vegskattar. Vegfarendur er margrukkaðir fyrir að fara um vegi (og standa kyrrstæðir í bílastæðum) og á sama tíma notar ríkið tvo þriðju skattanna í annað en samgöngubætur.

 


Árangur Seðlabanka Íslands

Segja má að árangur Seðlabankans með háum stýrisvöxtum sé lítill. Seðlabankastjóri viðurkennir að verðbólguvæntingar séu háar og lítil trú sé hjá flestum aðilum efnahagslífsins að bönd verði komin á verðbólguna. Dvínandi áhugi erlendra sjóða á íslenskum ríkisbréfum er þrátt fyrir háa vexti og verðbólgan hefur hækkað frekar en lækkað og er nú í 6,3%. Ef húsnæðisliðurinn væri tekinn út, væri hún um 4%.

Fíllinn í postulínsbúðinni er húsnæðismarkaðurinn. Það er hann sem knýr áfram verðbólguna vegna hátt íbúðaverðs (og skuldasöfnun ríkis og sveitarfélaga). Af hverju er hátt íbúðaverð? Jú það er skortur á íbúðum.  Það er sveitarfélögum að kenna að útvega ekki nóg af lóðum en hitt er svo að fólk hefur ekki efni á að kaupa sér húsnæðis vegna hátt verðs og vaxtastigs sem er sök Seðlabankans. Skortur = hærra verð = verðbólga. Fyrstu kaupendur þurfa yfir milljón í tekjur til að ráða við afborganir af meðalíbúð.

Seðlabankastjóri segir að vanskil hafi ekki aukist en Brynja Baldursdóttir, forstjóri Motus, segir að þrátt fyrir lítið beri á greiðsluvanda vegna fasteignalána bendi gögn félagsins til þess að alvarleg vanskil séu að aukast töluvert. Hvers vegna ekki meiri vanskil en eru? Bloggritari telur að verðtryggðu lánin taki mesta skellinn af verðbólgunni og það sé verðbólga í hækkun höfuðstóls, þ.e.a.s. verðtryggð lán hækki og hækki, skuldirnar aukist þótt afborganir hækki ekki í sama hlutfalli. Vei þeim sem kusu óverðtryggð lán.

Svo er það hagvöxturinn sem er sáralítill og áætlaður 0,5% fyrir 2024. Ekki bendir það til að blómaskeið sé framundan. Vaxandi atvinnuleysi og há verðbólga, hátt vaxtastig, lágur hagvöxtur og verðbólguvæntingar háar bendir til að hér sé komið skeið stöðnunarverðbólgu. 

Seðlabankastjóri segir að það sé aumingjalegt að lækka stýrisvexti um 0,25% og best að sleppa því en gera það svo myndarlega. En er það rétt hjá honum? Hefði ekki verið pólitískt snjallt að senda skilaboð út í samfélagið að hávaxta tímabilið sé á enda? 0,25% lækkun skiptir engu máli hvort sem er, ekki satt?


Áhrifsvaldar verðbólgu á Íslandi

Taka skal fram að bloggritari er enginn hagfræðingur né hefur mikla þekkingu á þessu sviði. En hér er skrifað til skilnings.

Í seinasta pistli var rætt um tvær meginástæður fyrir verðbólgu en þær eru þó fleiri.

Innri þættir verðbólgu

Of mikið peningamagns í umferð spilar hér stóra rullu og taldi bloggritari að umsvif ríkis og sveitarfélaga hafi mikil áhrif, enda með 45% - 50% af hagkerfinu undir sig.

Skýring efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar í blaðagrein um daginn hafi verið ódýr, þegar hann segir að ríkisvaldið hafi ekki prentað peninga né aukið peningamagn í umferð vegna þess að það hefur staðið í lántökum (millifærsla fjármagns en ekki aukningu). Bloggritari telur að ef ríkisvaldið eyðir pening, burtséð hvernig féð er fengið, auki það verðbólgu! Rétt eins og þegar túristar komi með fé erlendis frá (engin íslensk peninga prentun þar), þá auki það peningamagn í umferð á landinu. Ekki satt?

En það er ekki bara ríkið sem eykur peningamagn í umferð, heldur bankakerfið sjálft. Og það hefur verið duglegt að búa til fjármagn undanfarin misseri. Þegar talað er um peningasköpun í íslenska bankakerfinu, þá er átt við ferlið þar sem viðskiptabankar búa til nýja peninga þegar þeir lána út. Þegar einstaklingur eða fyrirtæki tekur lán hjá banka, er sú upphæð lögð inn á reikning lántakans, og þannig verða til nýir peningar í kerfinu.

Í daglegu lífi eru það viðskiptabankarnir sem skapa meiri peninga vegna þess að þeir búa til nýtt fjármagn þegar þeir lána út. Hins vegar stjórnar Seðlabankinn þessum ferlum með því að setja reglur og stýra peningamagni í heild sinni. Seðlabankinn getur beint og óbeint haft mikil áhrif á peningasköpun bankanna með ákvörðunum sínum.

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar og á ábyrgð Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar.

Ytri þættir verðbólgu

En hins vegar er verðbólga drifin áfram af framboðsskerðingum, eins og þegar hráefnisverð hækkar skyndilega, þá geta stýrisvextir ekki haft bein áhrif á að draga úr þeirri verðbólgu. Orsökin er erlendis frá. Jú, það má sjá framboðsskerðingu eftir covid og margir telja að flutningskeðja heims hafi rofnað vegna faraldursins, skapað skorts og þar með verðbólgu. Þetta hefur sem sé líka áhrif.

En bloggritari finnst þessar tvær skýringar, þær eru fleiri til, vera meginskýringar á verðbólgunni í dag á Íslandi. Verðbólga og vöruverð erlendis hefur farið lækkandi. Því ætti verðbólgu þrýstingur erlendis frá að minnka.

Sumarið 2024 var verðbólga í Evrópu almennt á niðurleið. Í júní 2024 hafði verðbólga á evrusvæðinu minnkað í 2,5%, lækkað frá fyrri mánuðum. Þessi lækkun var í samræmi í nokkrum helstu hagkerfum, þar á meðal Þýskalandi og Frakklandi, sem bæði mældu verðbólgu um 2,5%. En enn helst verðbólga há á Íslandi. Í Bandaríkjunum fór verðbólgan hæst í 8-9% en er komin niður í 3-4% en hér er hún um 6,3%.

Atvinnuleysi er um 4% í ágúst mánuði 2024. Sum sé, há verðbólga og þokkalegt atvinnuleysi á Íslandi en þó ekki afgerandi. Getur verið að ástandið á Íslandi sé að þróast yfir í stöðnunarverðbólgu? En hún á sér stað þegar hagkerfið býr við stöðnun hagvaxtar, mikið atvinnuleysi og háa verðbólgu. Kannski ekki alveg en hagvöxtur er áætlaður í ár verði einungis 0,5%. Í maí spáði Seðlabankinn að hagvöxtur ársins yrði 1,1%. Helsta skýringin á þessu fráviki eru lakari horfur í ferðaþjónustu.

Fyrir leikmann eins og bloggritara, myndi það þýða að það ætti að lækka stýrisvexti í dag. En það verður örugglega ekki gert. Þeir látnir haldast óbreyttir fram á næsta ár. 

Niðurstaða: Seðlabanki Íslands og ríkisvaldið eru megin sökudólgar í myndun verðbólgu. Stýritæki þeirra er ekki að virka.

Oft má orsakana leita erlendis frá en meira segja þá er hægt að hafa áhrif á, ef efnahagskerfið er vel stýrt. Það er það sjaldnast....

P.S. En hvað veit bloggritari sem er einungis leikmaður?


Stýrisvextir og verðbólga - stefna Seðlabankans gagnlaus?

Það eru ýmsar kenningar og sjónarmið um að stýrisvextir hafi ekki bein áhrif á verðbólgu, þrátt fyrir að þeir séu oft notaðir sem tæki seðlabanka til að hafa áhrif á verðbólgu.

Tökum fyrst fyrir lausafjárvandamál. Ein kenningin er sú að stýrisvextir hafi lítil áhrif á verðbólgu þegar lausafé (peningamagn) í hagkerfinu er mikið. Í slíkum tilfellum gæti markaðurinn verið svo mettaður af lausafé að hækkun stýrivaxta leiði ekki til hækkunar á vöxtum til neytenda eða fyrirtækja, og þar með ekki til minnkunar á útlánum eða neyslu. Getur það verið tilfellið á Íslandi? Allt sé hér fljótandi í peningum?

Væntingar um verðbólgu geta hér spilað inn í en líkt og með gengi hlutabréfa, er ákveðin spámennska í gangi. Samkvæmt væntingakenningum getur áhrifastyrkur stýrivaxta verið takmarkaður ef almenningur og fyrirtæki hafa sterkar væntingar um að verðbólga haldist óbreytt. Ef markaðsaðilar telja að verðbólga verði áfram mikil, jafnvel þótt stýrivextir séu hækkaðir, þá getur það dregið úr áhrifum vaxtabreytinga á raunhagkerfið. Bloggritari telur að þetta eigi ekki við um Ísland, hér hafa menn enga trú á verðbólga minnki eða aukist í samræmi við stýrisvaxta ákvörðun.

Svo eru hugmyndir um að seinvirkni spili hér inn í. Áhrif stýrivaxta á raunhagkerfið geta verið seinvirk og birtast ekki strax í verðbólgutölum. Sumir hagfræðingar telja að stýrivextir séu of hægvirkt tæki til að bregðast við skammtíma sveiflum í verðbólgu, sérstaklega ef verðbólgan er knúin áfram af utanaðkomandi þáttum eins og olíuverði eða alþjóðlegum viðskiptum.  Þetta á ekki við um Ísland, þar sem komin er reynsla á að 9,25% stýrisvextir í eitt ár hafa ekki haft nein áhrif.

Sumir hagfræðingar benda á að stýrisvextir hafi ekki bein áhrif á ákveðninn verðbólguþrýsting. Til dæmis, ef verðbólga er drifin áfram af framboðsskerðingum (supply shocks), eins og þegar hráefnisverð hækkar skyndilega, þá geta stýrisvextir ekki haft bein áhrif á að draga úr þeirri verðbólgu. Hér er framboðsskerðing á húsnæði og það hefur hækkað mikið um margra ára skeið. Húsnæðisvísitalan hefur ótvírætt haft áhrif á hækkun verðbólgu en hversu mikið, er óvíst.

Í sumum tilfellum geta fjármálamarkaðir ekki skilað breytingum á stýrivöxtum áfram til almennings. Til dæmis, ef bankar og fjármálastofnanir ákveða að halda sínum útlánavöxtum stöðugum þrátt fyrir að seðlabankinn hækki stýrivexti, þá skila áhrif vaxtahækkana sér ekki út í hagkerfið. Sýnist bankarnir vera fljótir að stökkva á vagninn þegar seðlabankinn segir nú...hækka.

Hugtakið "náttúrulegir vextir" (e. natural rate of interest) vísar til þeirrar vaxtastigs sem samræmist jafnvægi í hagkerfinu án þess að ýta undir verðbólgu eða samdrátt. Ef stýrivextir eru ekki í takt við þessa náttúrulegu vexti, getur það haft lítil áhrif á verðbólgu. Flestir hagfræðingar telja að eðlileg verðbólga sé um 2%.

Hvað er það sem á hér við um Ísland? Hér er hallast að því að hér sé allt fljótandi í peningum og fyrsta skýringin sé því líklegust í bland við framboðsskerðingu (húsnæðis og á vörum erlendis frá en það hefur verið verðbólga alls staðar í heiminum eftir covid). Milton Friedman taldi þessa orsök veigamestu í myndun verðbólgu almennt. Ekki er allt hér fljótandi í peningum vegna velgengni íslenska ríkisins, nei, heldur vegna seðlaprentun ríkisins (sem þeir neita), lántökur og ofeyðslu ríkissjóðs og sveitafélaga (sem samanlagt eru með 45-50% af efnahagsköku þjóðarinnar).  Á meðan svo er, gera aðgerðir Seðlabanka Íslands ekkert! Neyðsla almennings hefur líka sín áhrif sem og launahækkanir en eftir höfuðinu dansa limirnir. 

Hér á Íslandi er vinsælt að kenna neyðslu almennings um verðbólguna!

Aukin neysla eykur verð­bólgu og dregur úr líkum á vaxtalækkun

Efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar segir að staðreyndum sé snúið á haus til þess að gera ríkisstjórnina eina ábyrga fyrir verðbólgu.

Stað­reyndum snúið á hvolf til að eigna ríkis­stjórninni verð­bólguna

Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar kennir fjármálakerfinu um (Seðlabankann) og launahækkanir.  Hér er Konráð leiðréttur í grein á Vísir eftir Ásgeir Daníelson: Ráð­villtur ráð­gjafi ríkis­stjórnar

Þrátt fyrir að peningamagn í umferð hafi vaxið um 68 prósent frá því að heimsfaraldurinn skall á árið 2020 segir Konráð að ríkissjóður hafi ekki prentað eina krónu af þeim 1.203 milljörðum króna sem hafi bæst við.

"Ríkissjóður hefur vissulega verið rekinn með halla en sá halli hefur verið fjármagnaður með lántöku sem býr ekki til nýja peninga heldur færir þá einfaldlega frá þeim sem spara og til ríkissjóðs."

Ókei, en hver stjórnar efnahagskerfi landsins? Ríkisvaldið og ekki segja að skuldasöfnun hafi ekki áhrif bara vegna þess að þeir  sem spara láni ríkinu og það sé ekki að prenta pening! En hann nefnir ekki að eyðsla ríkisins eykur peningamagnið í umferð og þar með verðbólgu burtséð hvernig fjármunir eru tilkomnir. En hann neitar þessu líka. Eða hefur bloggritari rangt fyrir sér?

Hér útskýrir Milton Friedman verðbólgu:

 


Nóta bene, verðbólga er ekki alltaf vegna of mikið af peningum í umferð, heldur eins og komið var inn á hér að ofan, vegna skorts á hráefni eða vöru (húsnæði t.d.) sem leiðir til meiri samkeppni um vöruna og hærra verð.

 


Píratar og VG gefa hagsmuni almennings langt nef?

Þegar stjórnmálaflokkar halda flokksfundi eða forvígismenn þeirra tala opinberlega, þá má sjá áherslur þeirra, hvað það er sem skiptir þá mestu máli hverju sinni.

Og hvað er það sem skiptir Pírata mestu máli? Þeir hafa nú um þessar mundir miklar áhyggjur af byssukaupum lögreglunnar sem hún stóð í er leiðtogafundur var hér um árið.  Enn er verið fárviðrast um baunabyssu kaup hennar. Já, þetta eru baunabyssur, ekki alvöru vopnakaup og örugglega ekki merki um vígvæðingu á neinn hátt. Það er frumskylda lögreglunnar að geta verndað borgaranna og sig sjálfa gegn hættulegum glæpamönnum eða jafnvel hugsanlega hryðjuverkamenn með skotvopnum. Skotvopn hafa verið til á Íslandi síðan á 15. öld og eru ekkert að fara að hverfa.

Almenningur hefur yfir að ráða töluverðu magni af skotvopnum. Á Íslandi eru skráð skotvopn nokkuð algeng, þó að nákvæm tala geti verið breytileg eftir því sem ný gögn eru uppfærð. Samkvæmt upplýsingum frá skráningarkerfi skotvopna á Íslandi, sem lögreglan heldur utan um, voru í kringum 80.000 til 90.000 skráð skotvopn á Íslandi árið 2023. Flest þessara vopna eru veiðirifflar, haglabyssur og skotbyssur sem eru notaðar í íþróttaskotfimi og veiði. Svo eru það hin vopnin sem eru óskráð og í fórum glæpamanna.

Hvað annað sem Píratar hafa áhyggjur af, er erfitt að segja, fer eftir hvaða þingmaður þeirra talar hverju sinni.

Og hvað er það sem VG hafa mestar áhyggjur af í dag? Í frétt Mbl. segir: "Álykt­un VG vakti at­hygli fyrr í dag en í henni er einnig for­dæmd ákvörðun Bjarna Bene­dikts­son­ar, for­sæt­is­ráðherra og fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, um að frysta tíma­bundið greiðslur til Palestínuflótta­mannaaðstoðar Sam­einuðu þjóðanna (UN­RWA)."

Vilja gera getnaðarvarnir fríar fyrir ungt fólk

VG hafa sem sagt meiri áhyggjur af greiðslum til samtaka sem sannast hafa haft hryðjuverkamenn innanborðs en íslenskra umbjóðenda sinna. A.m.k. 15 starfsmenn hennar tóku þátt í árásinni á Ísrael 7. október og þess vegna var greiðslum til stofnuninnar frestað. Stofnunin hefur heldur ekki staðið sig í að dreifa matvælum til hungraðra Gaza búa. 

Hverjar eru aðrar áherslur VG? Jú, það á að úthluta "ókeypis" getnaðarvörnum til ungs fólks (fæðingar kvenna innan tvítugs eru orðnar mjög sjaldgæfar) og máltíðir framhaldsskólanema verði "ókeypis". Það er bara ekkert ókeypis til í dag. Meira segja loftið gengur sölum og kaupum. Peningarnir koma úr vösum skattgreiðenda. Og VG vilja ekki lagfæra útlendingalögin og breytingar á þeim, er varða brottvísun erlendra glæpamanna af landinu! Vilja VG fá slíka menn inn á sitt heimili? Eigum við að sitja uppi með stórhættulega glæpamenn vegna brotalama í útlendingalögum? Bara hugsað um að kaupa atkvæði á kostnað skattgreiðenda.

Þarna eru þessir tveir vinstri flokkar að festa sig í smáatriðum sem skipta ekki máli hvað varðar heildarmyndina og hagsmuni almennings. Hvar eru áhyggjurnar þeirra af háum stýrivöxtum sem eru að sliga heimilin og fyrirtæki? Þeir hafa staðið í 9,25% í eitt ár og hafa ekki haft nein áhrif á verðbólguna sem lifir sínu eigið lífi. Í næstu grein verður fjallað um hugsanlegt gagnleysi stýrisvextina á gengi verðbólgunnar. Talandi ekki um hátt matvælaverð og íbúðaskorts.

Helsti efnahagsvandi þjóðarinnar, sem Píratar og VG ættu að hafa mestu áhyggjur af, er skuldasöfnun ríkis og sveitafélaga. Samin eru ríkisfjárlög árlega en eyðsla framkvæmdarvaldsins er svo mikil að aukafjárlög þarf iðulega til að stoppa í gatið. Þetta er prímus mótor verðbólgu á Íslandi.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum, eru opinber útgjöld á Íslandi, sem innihalda bæði útgjöld ríkisins og sveitarfélaga, um 45-50% af VLF. Þetta er í samræmi við flest önnur norræn ríki þar sem hið opinbera hefur einnig mikil umsvif.  Það skiptir því gífurlega miklu máli að hið opinbera eyði ekki um efnum fram.  Annað sem hefur líka mikil áhrif á verðbólgu er fákeppnin á innanlandsmarkaðinum.

Fákeppnin er hreinlega alls staðar. Í skipaflutningum, tryggingum, á matvörumarkaðinum, bankakerfinu, eldsneytismarkaðinum, í heildsölu o.s.frv.  Sjá má nýlegt dæmi um svigrúmið til lækkunnar er lágvöruverslunin Prís opnaði. Þrátt fyrir að fá engan afslátt eins og aðrar "lágvöru"verslanir, geta þeir boðið upp á lægra verð. Hvers vegna? Jú, Bónus, Krónan eða Costco eru engar lágvöru verslanir, heldur miða sitt verð við verð keppinautanna, ekki mesta mögulega lægsta verðið!

Svona er Ísland illa stjórnað í dag. Það er bara eytt fé í gæluverkefni, skattar hækkaðir og álagning lögð á, bara vegna þess að hið opinbera og stórfyrirtækin geta farið óáreitt í vasa skattgreiðenda...endalaust.


Málfrelsi Helga Magnús Gunn­ars­sonar vara­rík­is­sak­sókn­ara er málfrelsi mitt og þitt

Farin er af stað undirskriftalisti á island.is til stuðnings Helga varasaksóknara. Málið er hið furðulegasta. Í síðasta mánuði lagði rík­is­sak­sókn­ar­inn Sig­ríður J. Friðjóns­dótt­ir til við dóms­málaráðherra að Helgi Magnús yrði leyst­ur frá störf­um tíma­bundið vegna ákæru einhverja samtaka út í bæ, sem samanstanda af tveimur manneskjum.

Það þarf að vera rík ástæða til að svipta mann atvinnufrelsi sínu og viðværi. Embættismenn eru sérstaklega varðir í stjórnarskránni gegn ofríki ríkisvaldsins, í þessu tilfelli yfirmanns Helga, Sigríði J. Friðjónsdóttur, sbr. 20 gr. stjórnarskrá Íslands.

Bloggritari er dálítið hissa að Helgi skuli ekki ákæra Sigríði fyrir aðförina að honum sem embættismanni. Enn furðulegri eru viðbrögð dómsmálaráðherra sem þarf að leggjast undir feld, rétt eins og örlög Íslands liggi undir ákvörðun hennar. Hún þarf að leita ráðgjafar í fleiri vikur þegar málið er auðljóst út frá sjónarhorni grunnlaga Íslands - Stjórnarskrá Íslands.

Tjáningarrétturinn er bundinn í stjórnarskránni. Hann hverfur ekki við að fara úr einu starfi í annað. Allir borgarar, frá forseta Íslands niður í korna barn hafa rétt til að tjá sig.  Minni hér á stjórnskipunarlög frá 1995. Þar segir:

11. gr.

73. gr. verður svohljóðandi:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þingskjal 142, 119. löggjafarþing 1. mál: stjórnarskipunarlög (mannréttindaákvæði).  Lög nr. 97 28. júní 1995.

Síðan Alþingi var stofnað 930 e.Kr. hafa menn getað leitað réttar síns vegna ærumeiðinga fyrir dómstóla. Það hefur ekkert breyst. Menn tóku ærumeiðingar og heiður sinn mun alvarlegra en í dag. En það var ákveðinn feril sem menn þurftu að fara í gegnum hjá dómstólum til þess að hnekkja ærumeiðingu. Helgi á rétt á þessum ferli en þangað til er hann saklaus.

Málið er auðljóst hverjum þeim sem fylgir stjórnarskrá Íslands. Nema kannski dómsmálaráðherra og saksóknara Íslands? Sem borgari landsins, hefur Helgi málfrelsi. Það þarf að sækja hann til saka fyrir dómstól til að svipta hann embætti. Þangað til á hann rétt á sinna sínum embættisstörfum og við skulum hafa í huga að borgarinn telst vera saklaus uns sekt finnst. Ekkert er í íslenskum lögum að málfrelsið hverfi við að starfa ákveðið starf. Hins vegar verður viðkomandi embættismaður að gæta þess að verða ekki vanhæfur í ákveðnum dómsmálum.


Vandi íslensku þjóðkirkjunnar er mikill

Mikil ógæfa hefur verið fyrir þjóðkirkjuna er að til forystu hefur valist einstaklingar sem hafa ekki reynst vera leiðtogar, með undantekningum þó. Kirkjan reyndi að skipta um gír með að skipta um kyn á biskupi en kynferði skiptir ekki sköpum ef sá einstaklingur sem velst í biskupsstólinn er ekki leiðtogi.

Fráfarandi biskup sem er kona, kom ekki ró á starfsemi kirkjunnar og deilur héldu áfram og hún flæktist í vandasöm mál. Hún því hreinlega hrökklaðist úr starfi og við er tekin önnur kona. Engin reynsla er komin á hana en miðað við hverngi hún tók á nýjasta vandamálinu sem er í raun stórmál, en það er kirkjugarðsmálið, byrjaði hún ekki vel í starfi. Ámátleg mótmæli heyrðist frá henni en hún virðist ekki ætla að taka hart á málinu.

Það er nú þannig að klerkar sinna ekki bara lifendur, heldur líka látna, eru sálusorgarar og sáluhirðar. Þeim ber því að vernda allar sálir. Það er því vont mál að enginn skuli verja látna sem í góðri trú, létu jarða sig í vígri jörð sem kirkjugarður er. Núna á að láta þá liggja í minningarreiti, rétt eins og minningarskildir eru settir fyrir minningu um einhver atburð.

Getur stjórn Kirkjugarða upp á sitt eins dæmi, skipt út krossinn og nafn og sett inn laufblað og nýtt heiti? Hvað með kirkjuna?  Hefur hún ekkert að segja? Er þetta gert með blessun borgarstjórnar Reykjavíkur? Án umræðu í þjóðfélaginu?

Á vef Kirkjugarða Reykjavíkur segir: "Kirkjugarðar Reykjavíkur eru sjálfseignarstofnun sem þjónustar sveitarfélögin Reykjavík, Kópavog og Seltjarnarnes." En geta þeir í krafti þess, að skjólstæðingar þeirra geta ekki mótmælt, bara ákveðið sí svona að breyta þessu? Hvað næst? Breyta kirkjugörðunum í skemmtigarða? Ingvar Stefánsson, framkvæmdarstjóri Kirkjugarða Reykjavíkur "...tekur fram að kirkjugarðar séu almenningsgarðar þar sem allir séu velkomnir;".

Hugmyndir um að hætta að nota orðið kirkjugarður og krossinn fjarlægður

Ef stjórn kirkjugarða vill skipta um einkennismerki, og hefur þegar gert það, og hugtakinu "kirkjugarðar" síðar, er þá ekki alveg eins gott að skipta um heiti á sjálfseignarstofnunni og hætta að kalla hana "Kirkjugarðar Reykjarvíkur"? "Minningarfélag Reykjavíkur" kemur fyrst upp í huga í staðinn.

Margir Íslendingar kjósa að liggja í kirkjugarði og e.t.v. verða kristnir menn að leggja drög að því að stofna til sérstaka kirkjugarða, þar sem þeir fá að liggja í friði fyrir Reykjavíkurborg eða undirstofnunum hennar.

En vandi kirkjunnar er stærri en bara kirkjugarðsmál. Það er hin almenna stefna sem hún hefur tekið í þjóðfélaginu. Hún virðist vera tilbúin að hoppa á næsta vagn í tískusveifum samfélagsins í stað þess að vera stoð í síbreytilegum heimi. Taka breytingum hægt. Kaþólska kirkjan er algjör andstæða mótmælendakirkjunni að þessu leiti, kannski of íhaldssöm? En a.m.k. er hægt að treysta að skoðanir hennar sveiflast ekki með vindinum hverju sinni.

En það má gera breytingar á þjóðkirkjunni. Messuformið er t.d. ævagamalt og hentar e.t.v. ekki nútímafólki.  Þótt það hafi fækkað mikið í þjóðkirkjunni, hefur kristnu fólki kannski ekki fækkað í takt við það. Margt kýs að vera utan trúfélag en margir skipta í aðra kristna söfnuði. Það sækir þangað, t.d. fríkirkjur, í Veginn, Íslenska Kristkirkjan, Kirkja sjöunda dags aðventista á Íslandi o.s.frv. Þar er kirkjustarfið öðruvísi, meira fjör og gaman. Sumir hafa frábæra predikara. Umgjörðin má breytast en boðskapurinn ekki.

Sjálfum finnst bloggritara gaman að hlusta á Frank Turek sem svarar spurningum sem hvíla á fólki og rökræðir við fólk af öðrum trúarbrögðum. Kristnin er nefnilega líka háspeki og getur svarað heimspekileg álitaefni. Frank Turek

Með þessu áframhaldi heldur sú þróun áfram að það kvartnast úr þjóðkirkjunni og fólk leiti að svörum við lífsgátunni í smærri söfnuðum. Það er nánast öruggt að svo verði á meðan þjóðkirkjan er leiðtoga laus.


Afkristni Reykjavíkurborgar

Atlaga nýmarxista að hefðum og gildum þjóðfélagsins heldur áfram af fullum krafti. Það er til efs að þeir sem fylgja þessari stefnu eru meðvitaðir um að þeir eru að fylgja henni.

Þegar nýjar hugmyndir koma fram, er aldrei sagt hvaða hugmyndafræði liggi þar að baki.  Wokisminn sem flestir kannast nú við er hluti af nýmaxisminum. Þar er kenningin að rífa niður gamlar og "úreldar" hugmyndir en oft koma annkanalegar hugmyndir í staðinn eða engar. Það er bara rifið niður.

Einn angi af þessu er atlagan að kristnum einkennum Kirkjugarða Reykjavíkur.  Þar sem Reykjavíkurborg hefur verið stjórnuð meira eða minna af vinstri mönnum síðan þessi öld hófst, er greið leiðin fyrir alls kyns vitleysinga hugmyndir og tísku strauma.

Nú á að rífa niður krossinn í merki kirkjugarða Reykjavíkur, því grafreitirnir eru ekki bara ætlaðir kristnu fólk. Samt er 88% Íslendinga ennþá skráðir kristnir. Það hefur alltaf verið pláss fyrir fólk af öðrum trúarbrögðum en kristnu í grafreitunum. Kirkjugarðar eru heilagir staðir, þ.e.a.s. vígðir staðir rétt eins og kirkjur. Þetta eru því engir venjulegir staðir og því atlaga að kristinni trú.

En málið snýst ekki bara um lifendur, heldur hinna látnu. Það hefur gleymst að verja það. Fólkið sem lætur panta pláss/grafreit, oft með áratuga fyrirvara, heldur að það sé grafið í kristnum reit en svo koma einhverjir spekingar og breyta þessu sí svona. Þetta snýst um hundruð þúsunda Íslendinga sem liggja í íslenskum kirkjugörðum víðsvegar um land sem létu grafa sig í kristnum grafleit en eru svo allt í einu lentir utan garðs, eins og þeir sem brutu af sér í gengum tíðina og urðu utangarðsmenn.

Reykjavíkurborg hlýtur að geta tekið pláss fyrir grafreiti fyrir fólk af öðrum trúarbrögðum, annars staðar, og látið það fólk sem telst vera kristið í friði. Það er enn nóg pláss á Íslandi, líka fyrir hinu látnu.

Svo er afkristni í grunnskólum landsins sér kapituli fyrir sig og efni í annan pistil.

 


Heimssjá dagsins - heimurinn bíður og Ísland líka

Það er biðstaða alls staðar, hvar sem litið er á heimsmálin. 

Úkraínumenn og Rússar eru að bíða eftir niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum, því þær skipta máli hvort samð verður um frið næsta misseri. Ef Trump kemst til valda, verður samið um frið en ef Harris kemst til valda, mun djúpríkið í Bandaríkjunum halda áfram að styðja Úkraínumenn. Hætta er á að Úkraínu verði skipt í tvennt varanlega. Pútín styður Trump á bakvið tjöldin, en Kínverjar og Íranir eru að reyna að eyðileggja framboð hans með hakki. Kínverjar óttast verndartolla stefnu Trumps en Íranir efnahagsþvinganir og Bandaríkjamenn styðji loftárásir Ísraela á kjarnorkuver landsins.

Harris skiptir ekki máli í neinum málum, hún hefur ekki það sem til þarf að vera leiðtogi. Hún getur orðið forseti, en enginn leiðtogi. Í raun tekur stjórnleysi við, wokismi, ofur skattlagning og ríkisafskipti, opin landamæri áfram og reynt að leyfa ólöglega innflytjendur að fá kosningarétt til að kjósa Demókrata.

Og það sem verra er, ef hún kemst til valda, fer allt í bál og brand í Miðausturlöndum, því að hún heldur áfram stefnu Biden/Harris í málefnum svæðisins, og hvað hefur hún leitt til? Miðausturlönd eru orðin að púðurtunnu, Íran heldur áfram sínu striki og ISIS í Afganistan, sem Biden missti og þar með álit Bandaríkjanna, hótar að færa starfsemi sína yfir landamæri til nágrannaríkja.

Ísraelar bíða eftir árás Írans.  Öll merki eru um að árásin komi fljótlega. Hezbollah hefur yfirgefið höfuðstöðvar sínar í Beirút, Bandaríkjamenn hafa sent flotadeildir með 90 herskip, flugmóðuskip og kafbáta til svæðisins og það sem meira er, Ísraelsher er að undirbúa innrás í Líbanon með öllum þeim skelfingum sem því fylgir fyrir almenna íbúa. Pólitísk skilaboð hafa ekki fylgt hervæðingu Bandaríkjanna, Biden segir ekkert við Írani, hendur af eða....Íranir halda því áfram sínu striki. Þeir hafa fimm mánaða glugga ásamt öðrum harðstjórnaríkjum til að leyfa villtustu drauma sína rætast áður en vondi karlinn Trump sest hugsanlega aftur í forsetastólinn.

Það fréttist seinast af Biden í Delaware á sólarströnd, í fríi. Biden verður "lame duck" forseti í fimm mánuði, engir talar við hann, eða jafnvel hugsar um hann en hann er samt ennþá forseti Bandaríkjanna. Sum sé, kafteininn liggur í koju meðvitundarlaus á meðan skipið siglir í strand á sjálfstýringu. Efnahagurinn er kominn í niðursveifu og stutt í efnahagskreppu. Hver stjórnar Bandaríkin dags daga?

Af heimastöðvum er það frétta að fólk bíður eftir að Alþingi komi saman á nýju. Stóra spurningin er, mun ríkisstjórnin springa á haustmánuðum eða lifa til vors? Límið í stjórninni, Katrín Jakobsdóttir, er farin og fylgið með í ruslflokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að grafa eigin gröf með elítuforystu sína sem hefur ekki hlustað á grasrótina síðan 2015 en þá hætti hún að hlusta á hinn almenna Sjálfstæðismann sem ákvað í staðinn að taka sitt hafurtask og yfirgefa flokkinn, því flokkurinn yfirgaf hann.

Píratar halda áfram að vera óstjórnhæfir og spurningin er, hvað eru kjósendur flokksins að sækjast eftir hjá flokknum? Hann hefur reynst vera stækur vinstri öfgaflokkur, á móti allt og öllu en getur samt aldrei tekið ákvarðanir sjálfur. Af hverju? Jú, strútúrinn á flokknum er þannig að það er enginn raunverulegur formaður og stefnan hverju sinni fer eftir því hverjir eru í þingmannahópnum hverju sinni. Hvernig getur slíkur flokkur sitið í ríkisstjórn? Aðrir flokkar, Viðreisn og Framsókn eru þarna...einhvers staðar en það heyrist við og við í Flokk fólksins.

Það stefnir í sömu kosningaúrslit og á Bretlandi. Samfylkingin vinnur næstu kosningar líkt og Verkamannaflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn bíður afhroð líkt og Íhaldsflokkurinn og Miðflokkurinn vinnur kosningasigur líkt og UK Reform, báðir tiltölulega nýlegir flokkar með sjarmandi leiðtoga við stjórnvölinn en stefnufastir. Kjósendur kunna að meta það. UK Reform og Miðflokkurinn hafa reynst skeinuhættir stjórnarandstöðuflokkar og væru öflugir stjórnarflokkar ef þeir kæmust til valda.


Ekki heil brú hjá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg?

Í frétt Útvarps sögu um málið segir: "Vinna við  tímabundna göngu- og hjólabrú yfir Sæbraut hefst nú í ágúst og er stefnt að því að hún verði opnuð í apríl 2025. Brúin tengist Snekkjuvogi/Barðavogi í vestri og Tranavogi/Dugguvogi í austri. Skiltabrúm verður komið fyrir sitt hvoru megin við hana til að varna því að ökutæki rekist upp í brúna verður. Brúin mun þjóna hlutverki sínu þar til Sæbraut verður sett í stokk."

Vegagerðin í samvinnu við Reykjavíkurborg eru ekki byrjuð á verkinu en samt er strax fyrirséð vandræði. Hæðin undir brúnna er of lág og því er biðlað til verktaka og flutningaaðila að gæta að sér. Svona verður örugglega ástandið í áratugi, því að ef framkvæmdarhraðinn er jafn hraður og við gerð Sundabrautar, þá verða komnar tvær nýjar kynslóðir áður en verkið hefst.  Svona er unnið hjá hinu opinbera, það er farið í verkin og hugsað svo eftir á eða á meðan framkvæmdir eru í gangi.

Er einhver önnur leið? Já, að sjálfsögðu. Undirgöng er varanleg leið og truflar enga umferð flutningafyrirtækja. En hér er vandinn að ætlunin er að setja Sæbraut í stokk. Stokkur og undirgöng fara ekki saman. En hvenær kemur stokkurinn? Og af hverju stokk? 

En segjum svo að undirgöng séu valin, þá er núverandi aðferð Íslendinga alveg fáránleg. Hægt er að forsmíða steypt undirgöng (þetta er fyrir gangandi umferð, ekki bíla) og setja á sinn stað á þremur dögum. Kosturinn við forsteypt undirgöng er að steypan er hörnuð (oft þarf að bíða marga mánuði eftir að steypan harni þannig að hún beri umferð) og lagning hennar í vegstæðið tekur skamman tíma. Ótrúlegt? Sjá þetta myndband af hollenskum framkvæmdaraðila sem gerði þetta á nokkrum dögum og það ekki smáræðis undirgöng eða mislæg gatnamót fyrir bílaumferð:

Á Sæbrautinni erum við að tala um einföld undirgöng fyrir gangandi umferð. 

Það hlýtur eitthvað vera að í yfirstjórn vegamála, hjá innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðinnar.

Hér á Samfélagi og sögu hefur áður verið rakið að einungis þriðjungur sem innheimtur er af farartækjum fer raunverulega í viðhald og gerð vega. Samt ætlar innviðaráðherra að innheimta meira með vegtollum!

Annað er að loftslags....hvað orð á að nota? "Loftslagsvá ruglið?", hefur áhrif á gerð vega. "Umhverfisvæn" efni, matarolía! - kölluð lífolía, er notuð við klæðningu vega. Þegar ruslefni er notað við gerð vega, endast veginn mun minna og aftur þarf að fara í framkvæmdir. Er það umhverfisvænt að framkvæma oftar? Vegblæðing hefur kostað mannslíf og líkamstjóni vegfarenda. Repja og nú sjávarlífolíu hefur komið í stað white-spirit eða terpentínu en hafa vegirnir eitthvað lagast? Vegirnir halda áfram að blæða. Sjá gagnrýni Félags íslenskra bifreiðaeigenda - gömul grein en hefur reynst vera rétt nú í fyllingu tímans: Ástand veganna og efnanotkun í veggklæðningu

Talað er um þrjár megingerðir vegefna. Malbik, steyptir vegir og plastvegir. Á Íslandi má bæta við olíu klædda vegi. Enda þennan pistil á að fjalla um plastvegi sem fáir Íslendingar vita af. Hér kemur lýsing á kosti og galla:

Efnissamsetning plastvegar:

Plastvegir eru nýstárleg nálgun sem fellir endurunnið plastúrgang, eins og PET-flöskur og plastpoka, inn í vegagerðarefni.

Kostir plastvega:

  • Hjálpar til við að draga úr plastúrgangi með því að nota endurvinnanlegt efni.
  • Þolir tæringu, vatnsskemmdum og sliti með tímanum.
  • Þolir varmaþenslu og samdrætti betur en hefðbundin efni.
  • Krefst minna viðhalds vegna aukinnar endingar.
  • Táknar framsýna nálgun að sjálfbærri uppbyggingu innviða.

Ókostir plastvega:

  • Áhyggjur af langtímaframmistöðu og gæðum endurunninna plastefna.
  • Krefst sérhæfðs búnaðar og tækni til byggingar.
  • Stofnkostnaður getur verið hærri vegna nýrrar tækni og efnisöflunar.
  • Enn er verið að meta langtímaþol og frammistöðu í ýmsum loftslagi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband