Var engin kristnitaka árið 1000?

Þegar menn eru að reyna að selja eigin bækur, þá er gripið til sjokkerandi fyrirsagnar til að grípa athygli væntanlegra lesenda.

Morgunblaðið segir svo frá nýkominni bók:

„Mín til­finn­ing er sú að Íslend­ing­ar hafi bara smám sam­an orðið kristn­ir eins og aðrar þjóðir og eng­in at­höfn farið fram, frek­ar en í Nor­egi.“

Þetta seg­ir Sig­urður Sig­urðar­son, höf­und­ur nýrr­ar bók­ar, Óminni tím­ans, sem fjall­ar um stór­merka at­b­urði úr Íslands­sög­unni, þar á meðal meinta kristni­töku. Í bók­inni eru rök leidd að því að eng­in kristni­taka hafi verið árið 1000. Einnig að orð Snorra goða séu skáld­skap­ur: „Um hvat reidd­ust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stönd­um vér á?“

Er hér einhver nýlunda á ferð, ný vitneskja fyrir sagnfræðinnar? Nei hreint ekki. Það er alveg ljós að það var komist að málamiðlun milli heiðina manna og kristina því það stefndi í meiriháttar átök og skiptingu lands milli andstæða hópa. Hvenær þetta gerðist, 999 eða 1000 e.Kr. skiptir litlu máli. 

Líklegt er að kristnir hafi verið fámennari enda landið heiðið en sterkir höfðingjar fóru fyrir minnilhlutanum. Það er athyglisvert að kristið fólk var meðal landnámsmanna á landnámsöld enda kom margt fólkið frá byggðum norræna manna á Bretlandseyjum. Sjá þennan árekstur á milli kristni og heiðni í Kjalnesinga sögu.

En hvers vegna dó kristnin út eftir landsnámsöld? Það er eiginlega meiri spennandi spurning. Blokkritari hefur rakið þá sögu áður er hann ritrýndi bókina "Eyjan hans Ingólfs" eftir Ásgeir Jónsson sagnfræðing og seðlabankastjóra. Sjá slóð: Eyjan hans Ingólfs og sjá einnig: Er Írafárið að byrja upp á nýtt?

Í stuttu máli má ætla að landnámið hafi átt sér stað í tveimur bylgjum. Fyrri bylgjan hafi komið að mestu frá Bretlandseyjum, þar sem norrænar byggðir stóðu höllum fæti en síðari komið frá Noregi með heiðið fólk að meginstofni og bændum. 

Ástæðan fyrir að keltnesk áhrif hurfu svo svo fljótt, úr menningunni, tungu og trú, er einmitt þessi ástæða. Keltneska fólkið var frekar í lágstéttinni og líkur á að koma genunum áfram mun minni en hjá hærri settum. Þrælastofninn hafi hreinlega dáið út á fyrstu öldinni en aðrir blandast. Sjá má þetta í DNA gena mengi Íslendinga, hversu mikið það breyttist frá upphafi landnáms til 11. aldar. 

En hér er ekki ætlunin að fjalla um frumkristni á Íslandi. Heldur hvernig kristnin komst varanlega á Íslandi upp úr 1000. Það er því nokkuð sennilegt að menn hafi komist að pólitísku samkomulagi um þetta leyti af mörgum ástæðum. Ein ástæðan var að kristni var komin á annars staðar á Norðurlöndum (Svíþjóð var heiðið mun lengra sem og Finnland) og því erfitt að eiga í samskiptum við Norðmenn ef menn væru heiðnir. Fyrst var reyna að leysa málið með að menn prímsignuðu, voru áfram heiðnir en gátu umgengið kristið fólk.

Í samkomulaginu var komist að málamiðlun eins og áður sagði. Heiðnir máttu blóta á laun og éta sitt hrosskjöt á meðan þeim eldist aldur. Það hefur því tekið langan tíma að koma kristni á Íslandi og margir trúboðar komu hingað, sumir alla leið frá austurvegi og boðuðu "villitrú".

Ástæðan fyrir því hversu langan tíma þetta tók er einmitt skortur á klerkastétt, tekjum og höfuðsetur kristni. Það kom með einni valdaætt.

Fyrsti biskup Íslands var Ísleifur Gissurarson, sem var vígður árið 1056 og gegndi embættinu í Skálholti. Hann hafði mikil áhrif á kirkjuskipulag landsins og var í raun fyrsti Íslendingurinn sem var vígður biskup. Hann hafði áður lært í Þýskalandi. Gissur Ísleifsson, var sonur Ísleifs Gissurarsonar og tók við embætti biskups í Skálholti eftir föður sinn árið 1082. Hann stóð fyrir því að gera Skálholt að varanlegu biskupssetri og efldi mjög kirkjustofnunina á Íslandi. Kristnhald komst því fyrst á Suðurlandi en festist ekki í sessi á Norðurlandi fyrr en eftir 1100. Jón Ögmundarson var fyrsti biskup Íslands og stóð fyrir því að Hólar í Hjaltadal voru gerð að biskupssetri árið 1106. Hann var vígður árið 1106 og gegndi starfi fram til dauðadags árið 1121. Jón lagði áherslu á kristindóminn í daglegu lífi Íslendinga og hreinsun goðatrúarinnar.

Þessir biskupar gegndu lykilhlutverki við að festa kristna trú í sessi og byggja upp kirkjustofnanir á Íslandi á 11. öld. Biskupsembættin í Skálholti og síðar Hólum urðu miðstöðvar trúarlífs og menntunar.

Það er því ekkert ólíklegt að menn hafi komist að samkomulagi á Alþingi um siðbreytingu og eiginlega bráðnauðsynlegt ef menn ætluðu halda upp eitt samfélag með lögum og geta átt í samskiptum við nágrannaþjóðir.

Fornsögurnar, Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar, Kristni saga, Landnámabók, Snorra-Edda og Heimskringla og saga Ólafs Tryggvasonar greina frá þessu. Þetta voru engir vitleysingar sem skrifuðu þessar sögur, þessir sagnaritarar voru "hámenntaðir" á þessum tíma og sögðust fylgja sannleikanum þar sem honum verður best komið að. Hafa skal það sem sannara kann að reynast var sagt.

Því er sagan sennileg um að ákvörðun um kristnitöku á Alþingi árið 1000 hafi tekin undir forystu Þorgeirs Ljósvetningagoða Þorkelssonar, sem var lögsögumaður Alþingis á þeim tíma. Hvern annan ef ekki lögsögumaðurinn sjálfur?

Hann var heiðinn goði en var fenginn til að leysa úr þessum ágreiningi milli kristinna manna og heiðinna, þar sem bæði hópar höfðu hótað að hafna sameiginlegum lögum ef ekki næðist niðurstaða.

Sagan segir að Þorgeir tók sér einn dag og eina nótt til að hugleiða málið. Að morgni lagði hann fram tillögu sína, sem fól í sér að allir Íslendingar skyldu fylgja einu lögskipulagi, og það yrði kristin trú. Hins vegar leyfði hann að nokkrir heiðnir siðir héldust í fyrstu til að milda breytinguna. Til dæmis máttu menn:

  • Borða hrossakjöt (sem kristni menn litu á sem heiðinn sið).
  • Blóta á laun (fremja heiðnar fórnir, svo lengi sem það var ekki opinbert).
  • Stunda barnaútburð (sem var bannaður samkvæmt kristnum siðum).

Þessi málamiðlun var talin nauðsynleg til að forðast átök og tryggja friðsamlega upptöku kristni í landinu. Með þessu var Ísland formlega kristið, þó að heiðnir siðir hafi haldist í nokkurn tíma á eftir eins og komið hefur verið hér inn á.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Menn gera ýmislegt til að selja bækurnar sínar. Fyrirsagnir í æsifréttastíl selja. Það er ekkert nýtt að menn efist um tímasetningu, en kristnitaka varð, því annars værum við öll heiðin ennþá. Staðreyndir tala. Annars er ég sammála honum um að "smám saman" hafi fólk orðið kristið, en ekki að það sé skáldskapur sem stendur í Landnámu. Orð Snorra goða eru sennilega nokkurn veginn rétt.

Ég man eftir gömlu fólki sem var fróðleiksbrunnur. Það mundi orðrétt eftir því sem var sagt, og gat sagt atburði nákvæmlega. Þetta var einkenni á alþýðumenningu á Íslandi. Ekki áttu allir bækur eða voru vel læsir eða skrifandi. Minnið var það sem fólk hélt við. 

Þegar fólk fór á milli bæja, þá voru sömu minningar, sömu sögurnar, og þetta hjálpaði til við að þjóðsögur urðu til, munnmæli og slíkt, Eitthvað getur verið ónákvæmlegt í slíku, en yfirleitt alltaf sannur kjarni, og sumt nákvæmlega rétt eftir haft, miklu meira en það sem nútímafólk getur munað, sem styður sig við tölvur og bækur.

Annað er það, að sögur af fyrirfólki, goðum, prestum, hetjum, landnámsmönnum, þær sögur lifðu mann fram af manni. Þetta var "Dallas" fyrri kynslóða, að segja frá merkilegu fólki.

Um leið og sögur urðu rangar, þá komu aðrir af sömu kynslóð og leiðréttu. Það var aðhald í þessum gömlu samfélögum. Rétt og sönn minning, það var ekki látið átölulaust að muna skakkt eftir eða segja skakkt frá. Almennur áhugi á ættfræði og sögu þjóðarinnar var þessvegna trygging fyrir nokkuð góðu sagnaminni.

Fornleifafræðin hefur staðfest Landámu og Íslendingasögurnar að svo miklu leyti sem það er hægt.

Þessi Sigurður er bara að reyna að vekja athygli.

Ingólfur Sigurðsson, 22.12.2024 kl. 16:21

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Ingólfur, ekki einn einast sagnfræðingur efast um að kristnitakan hafi tekið tíma. Ekkert nýtt þarna en honum er velkomið að skrifa bók um þetta. Er eiginlega meira að "hneykslast" að blaðamanninum sem skrifaði æsifrétta titillinn.

Málið er að nútíma sagnfræðingar (veit ekki hvort hann sé sagnfræðingur) eru að reyna að umskrifa Íslandssöguna því fátt nýtt hefur komið fram í sagnfræðinni í langan tíma. Það er helst að fornleifafræðin varpi nýju ljósi á fortíðina með uppgreftri. Það er búið að lúslesa allar skruddur sem skrifaðar voru fyrr á tíð.

Birgir Loftsson, 22.12.2024 kl. 18:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband