Trump og NATÓ...og Ísland

Ætla mætti að bloggritari væri n.k. stuðningsmaður Trumps miðað við þær greinar sem hér hafa verið skrifaðar. Það er langt í frá og er undirritaður ekki stuðningsmaður eins eða neins. Bara málefna, réttlætis eða sanninda.

Það er nú þannig að stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum er "abnormal", þar sem vegið er að grunnstoðum lýðræðis frá öllum hliðum. Sá sem stendur upp og ver þær fær stuðninginn og í þessum tilfellum er það Trump sem þrátt fyrir alla sína persónulegu galla reyndist vera ágætur forseti. Það verður alltaf að aðskilja einka persónuna frá hinni opinberu en sú síðarnefndu er sú sem skiptir máli. Trump er stundar fyrirbrigði eins og allir leiðtogar eru. Því verða menn að gæta þess að rífa ekki niður kerfið, bara til að taka einn mann niður.  Slíkt getur leitt til búmerang áhrifa, andstæðingar beiti sömu brögðum.

En aftur að Trump. En ekki voru allar hans ákvarðanir viturlegar né stefna hans. Það fór ekki framhjá bloggritara neikvæðni Trumps gagnvart NATÓ.  Ætla mætti að hótanir hans gagnvart því um árið er hann sagðist ekki ætla að verja það ef aðildarþjóðirnar hækkuðu ekki framlög sín til bandalagsins hafi verið þvingun til að borga meira. Ekki raunveruleg hætta á að Bandaríkin drægu sig úr samstarfinu. Eða hvað?

Í íslenskum fjölmiðlum er fjallað um hótun hans gagnvart Ursulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á  efna­hags­ráðstefn­unni í Dav­os í Sviss árið 2020. Sjá slóð:

Trump: Ef Evrópa sætir árás munum við ekki hjálpa

Þar á hann að hafa hótað að verja ekki Evrópu ef til stríðs kæmi.  Var þetta blekking eða þvingun til þess að láta Evrópuþjóðirnar bera meiri ábyrgð eða raunverulegur ásettningur? Það er erfitt að segja, því hann gerir út á að þykkjast vera óútreiknanlegur.

En sjá má út frá stjórnarstefnu hans í valdatíð hans, að hann var í raun einangrunarsinni.  "America first" eða "Make America great again" (MAGA). Og kaupsýslumaðurinn Trump réði för forsetans Trumps. Hann hikaði ekki að fara í viðskiptastríð við Kína og þvingaði Kanada og Mexíkó í nýjan viðskiptasamning eða -samvinnu. New Yorker-inn Trump beitti kjaftinum til ná sínu fram.

En Trump sýndi Íslandi óvenjulegan hlýjan hug (veit hvar það er á landakortinu) er Mike Pence var sendur til Íslands 2019 til að ræða viðskiptasamvinnu landanna. Íslendingar sýndu Pence dónaskap þegar gesturinn kom færandi hendi og líkur voru á fríverslunarsamning milli landanna, Íslandi í hag.  Sjá slóð: U.S.-Icelandic Business Round Table on the Occasion of the Visit of Vice President Mike Pence to Iceland

Góðmennska Bandaríkjamanna snérust í raun um halda í herstöðina á Keflavíkurflugvelli, ekki svo mikið um viðskipti. Þá erum við komin aftur að NATÓ. Var Trump alvara með orðum sínum?

Það verður að teljast ólíklegt, eiginlega óhugsandi. Herstöðvar Bandaríkjahers í Evrópu er margar. Bara í Þýskalandi eru þær 40 talsins. Bandaríkjaher er með yfir 100 þúsund hermenn stadda í Evrópu. Jafnvel þótt Trump vilji ekki verja Evrópu, verður hann að gera það, vegna heraflans þar.

Það eru margar ástæður fyrir viðvarandi herstöðvar Bandaríkjahers í Evrópu. Í fyrsta lagi er Evrópa notuð sem vígvallalína og orrustuvöllur gagnvart Rússlandi ef til stríðs kemur. Evrópa er bráðnauðsynleg til að flytja herafla til hernaðarátaka í Asíu og særða hermenn af vígvellinum. Ef Vestur-Evrópa félli í óvinahendur, væri aðeins Atlandshafið á milli Bandaríkjanna og hennar og það er of nálægt að mati Bandaríkjamanna. Viðbragðstíminn of lítill.

Þegar Austin varnarmálaráðherra BNA lá á spítala um daginn, og enginn vissi af, var talað um þjóðaröryggishættu vegna þess. Bandaríkjamenn segjast bara hafa 15 mínútur til að bregðast við hættur úr austri. Mun minni tími en ef árásin kæmi úr vestri, yfir Kyrrahafið sem er gríðar stórt.

NATÓ samstarfið er því ekki í hættu. Allra síðst í núverandi ástandi heimsmála. Bandaríkin eru einangruð og vinum þeirra fer fækkandi. Bandaríkjadollarinn er í hættu og þar með kverkatak þeirra á heimsviðskiptunum. Nei, Bandaríkin vantar tryggja vini og bestu vinir þeirra eru Evrópuþjóðirnar.

Að lokum, enginn stuðningur er í Bandaríkjunum við að hætta við samstarf BNA við Evrópu. Allir, stjórnmálamenn og hershöfðingjar, vilja áframhaldandi samstarf.

Klækjarefurinn Trump hefur þarna enn einu sinni tekist að æsa fjölmiðla upp (kannski vilja þeir það til að geta komið höggi á hann?) og hræða grunnhyggna stjórnmálamenn ESB, það er ekki erfitt.  En gagnvart okkur Íslendinga er þetta þörf áminning um að engum er treystandi í þessum heimi og ekki ber að treysta á Bandaríkin til að koma til varnar. Þau annað hvort geta það kannski ekki á ögurstundu eða vilja það ekki. Hvar eru þá Íslendingar staddir?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband