Af hverju er Samfylkingin ósýnileg?

Samfylkingin er kannski ekki alveg ósýnileg en hún er vel falin í skugganum. Fyrir hinn almenna borgara, eins og mig, sem fylgist vel með íslenskri pólitík, heyrist ansi lítið frá þessum stærsta stjórnarandstöðuflokki landins samkvæmt skoðanakönnunum.

Það er nefnilega málið, einu skiptin sem minnst er á Samfylkinguna er þegar gerðar eru skoðanakannanir og niðurstöður kynntar. Oh jú, einnig að varð það fréttnæmt þegar Samfylkingin skipti um hinn óvinsæla formann Loga Einarson og Kristrún Frostadóttir tók við. Það var eins og ferskur vindblær færi um flokkinn enda allir orðnir þreyttir á væl um inngöngu í ESB þegar allir vita að það er ekki á dagskrá næstu árin. Fólk vildi fá afturhvarf til fortíðar, þegar Samfylkingin gaf von og við fyrstu sýn, virðist formannskiptin gefa von.

Formaðurinn

En hver er Kristrún sem virðist rífa upp fylgi flokksins? Kíkjum á æviágrip hennar á vef Alþingis. Þar segir:

"Starf meðfram hagfræðinámi á skrifstofu seðlabankastjóra 2009–2010. Hagfræðingur í greiningardeild Arion banka 2011–2012. Blaðamaður á Viðskiptablaðinu 2013–2014. Hagfræðingur í vinnuhópi á vegum forsætisráðuneytis 2014. Sérfræðingur í greiningardeild fjárfestingarbankans Morgan Stanley í New York og Lundúnum 2015–2017. Hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands 2017. Formaður verðlagsnefndar búvara í atvinnumálaráðuneyti 2017–2018. Aðjúnkt við hagfræðideild HÍ 2018–2020. Aðalhagfræðingur Kviku banka hf. 2018–2021.

Formaður Samfylkingarinnar síðan 2022.

Alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður síðan 2021 (Samfylkingin).

Fjárlaganefnd 2021–2023, efnahags- og viðskiptanefnd 2023–.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 2021–."

Hvað má lesa út úr þessum hráu upplýsingum? Jú, hún er hagfræðingur en nýgræðingur í stjórnmálum. Það hefur ekki reynt á hana í pólitík.  Hins vegar tengdist hún Kviku banka sterkum böndum sem aðalhagfræðingur bankans en hún starfaði þar til 2021. Eins og allir vita er Kviku banki tengdur umdeildri sölu á Íslandsbanka og hefur bankinn slitið samrunaviðræður við hinn síðarnefnda nú í sumar.

En Kristrún er óskrifað blað og hvort hún standi sig í daglegu amstri stjórnmálanna og þegar eða ef flokkurinn fær völdin, hvernig mun flokkurinn undir forystu hennar standa sig?

Stefnuskráin

Stefnuskráin er dæmigerð stefna sósíaldemókrata. Á vef Samfylkinginnar segir að flokkurinn er stjórnmálaflokkur sem aðhyllist markmið og leiðir jafnaðarstefnunnar. Stefna flokksins og störf byggjast á frelsi og lýðræði, kvenfrelsi, jafnrétti og samábyrgð. Í samræmi við stefnu sína hyggst flokkurinn og eiga náið samstarf við verkalýðshreyfinguna og frjáls félagasamtök, og vinna með öðrum jafnaðarflokkum á alþjóðavettvangi.

Svo koma undirkafla í stefnuskránni sem bera heitin; Opin sýn til umheimsins; jafnrétti; frelsi; samábyrgð(bræðralag); auðlindi og umhverfi - Framtíðin krefst svara; Mannauður - Tímar einstaklingsfrelsis og félagshyggju; Grunngildi á nýjum tímum.

Ef stefnuskráin er lesin vandlega má lesa yfirlýsingar sem flestallir íslenskir stjórnmálaflokkar geta tekið undir, enda er sagt að það eru sex þingflokkar á Alþingi 2023 sem eru til vinstri, einn í miðju og einn til hægri.  Þannig að það má spyrja hversu mikill valkostur Samfylkingin er í raun? Hvað hefur hún fram yfir Vinstri græna? Eða Viðreisn? Hvernig er hægt að dæma það? Jú, með störfum þingflokksins á Alþingi.  Og eins og ég sagði, hefur flokkurinn verið nánast ósýnilegur og óvirkur stjórnarandstöðuflokkur.

Samfylkingin hefur sex þingmenn sem lítið heyrist í og hefur flokkurinn veitt stjórnflokkunum lítið aðhald. Örflokkurinn Miðflokkurinn sem hefur aðeins tvo þingmenn, hefur verið háværari og gert harðar atlögur að annars vanhæfri ríkisstjórn. Flokkur fólksins kemur næst með sína sex þingmenn en sá þingflokkur hefur sínar þyrnirósir sem sofa vært.

Lokaorð

Það er nefnilega ekki nóg að vera með flotta stefnuskrá.  Stjórnarskrá Sovétríkjanna, ef hún er lesin, veitir meiri réttindi og frelsi en flestar stjórnarskrár Vesturvelda en í framkvæmt var hún skelfileg. Og ástæðan er flokksræðið og miðstýring stjórnmála- og efnahagskerfisins.

Samfylkingin, ef miðað er við reynsluna, mun ekki koma með neitt nýtt þegar og ef hún kemst til valda. Hún myndi hjálpa Sjálfstæðisflokknum að viðhalda bálkninu, viðhalda háu skattastigi, mikil ríkisafskipti af atvinnulífinu og heilbrigðiskerfinu og í raun engu breyta. Hún mun nudda sig upp við ESB eins þétt og hægt er. Nýtt andlit á flokknum breytir þar engu um. Og ef horft er á stóru mynda, hefur systurflokkum hennar í Evrópu tekist að eyðileggja Evrópu innan frá með ESB stefnu sinni og atlögunni að þjóðríkinu. Samfylkingin er ekki frábrugðin að því leitinu til. Verði þeim að góðu sem kjósa Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Lengi lifi "fjórflokkurinn". Hann verður áfram þó að einhverrar hrókeringar verða innan hans!

Sigurður I B Guðmundsson, 17.7.2023 kl. 18:10

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Hahaha, mikið rétt og hárrétt hugtak, fjórflokkurinn.

Þess vegna eru flokkar eins og Flokkur fólksins og Miðflokkurinn spennandi andstæða. Mig langaði að bæta Pírata við en ég hef bara aldrei verið verið hrifinn af anarkisma. En þeir a.m.k. hafa reynt að hræra upp í uppbyggingu flokksins (enginn formaður) en vitleysan með að leyfa eiturlyfjanotkun, andstaðan við lögregluna (þar með lög og reglu í þjóðfélaginu), opin landamæri o.s.frv. er ekki "sjálfbær" samfélags stefna og í raun brýtur það þjóðfélagið niður.

Viðreisn er nefspýtingur, úr vinstri nös Samfylkingin og úr þeirri hægri Sjálfstæðisflokkurinn. Pólitískt viðriðni og er bara þarna...ósýnileg. Hverjir kjósa Viðreisn?

Birgir Loftsson, 17.7.2023 kl. 18:51

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Íslendingar upp til hópa hneykslast á fjórflokknum í fjögur ár en kjósa hann aftur og aftur og halda svo áfram að hneykslast!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 18.7.2023 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband