Svo sannarlega segi ég yður að

„...þegar á íslandsströnd eru risnir þýskir fiskibæir og þýsk kauptún, hve leingi mun þess að bíða að þar rísi og þýskir kastalar með þýskum kastalaherrum og málaliði. Hver er þá orðinn hlutur þeirrar þjóðar sem skrifaði frægar bækur? Þeir íslensku mundu þá í hæsta lagi verða feitir þjónar þýsks leppríkis. Feitur þjónn er ekki mikill maður. Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima." (Eldur í Kaupinhafn. 13. kafli. Arnas Arnæus.)

Heimfæra má þessu fleygu orð skáldsins yfir á Ísland nútímans og Íslendinga. Við erum ekkert annað en feitir þjónar, lifum í allsnægtum, gónandi á örskjái og aldsendis menningarsnauðir, nýjar kynslóðir ólæsar á hvurnsdags íslensku og vita ekkert hvaðan þær koma, þekkja ekki einu sinni feður og mæður afa og ömmu með nafni. 

Nútíma Íslendingurinn er búinn að gleyma uppruna sínum, kerfið nennir ekki einu sinni að kenna krökkum grundvallar sögu og trú og slík þjóð eins og Íslendingar eru orðnir, er dæmt til að endurtaka mistökin aftur og aftur án haldreipi trúar. 

Íslendingar virðast vera staðráðnir að vera þjóð meðal þjóð en gleymir á sama tíma að vera þjóð með uppruna, tungu og menningu. Við erum í núvitund, hugsum ekkert um fortíð né framtíð. Það hefur aldrei verið talið gott veganesi að dýfa ekki hendi í kalt vatn með silfurskeiðina fasta í munni. Maðurinn er gerður fyrir andóf og mótlæti, sterkir karaktarar kvenmanna og karlmanna eru barðir og mótaðir á steðja lífsins.

Einn mætur fræðimaður sagði eitt sinni, þegar enn ein Pisa könnunin var birt, að það væri nóg að 10% þjóðarinnar kynni skil á þjóðararfinu og því mun íslenskan lifa. Hvers konar endems vitleysa er þetta. Slíkir (fræði)menn, sem eiga að heita hafa lesið opinbert mál Íslendinga 17. og 18. alda eiga að sjá danskt mál með íslenskublendingi en þeir sjá málstíl og tilbrigði íslensks máls.

Það þurfti að berjast fyrir íslenskunni á 19. öld, bjarga henni úr klóm dönskunnar. Nú er hún dauð í huga meginþorra þjóðarinnar. En nú eru við að berjast við engilsaxnesku og eru að tapa því stríði.  Prófið að fara niður í miðborg Reykjavíkur einn góðan veðurdag og sjáið hvort þið komist í gegnum daginn án þess að tala ensku. Það er ekki hægt.

Og Íslendingar hafa ákveðið að vera feitir þjónar erlent valds. Það er hægt að kalla það ýmsum nöfnum, NATÓ, Sameinuðu þjóðirnar, EFTA eða ESB. Í hvert sinn sem við göngum í slík samtök, töpuð við dálítið af frelsi okkar, þar til ekkert verður eftir af því.

Það voru ef til vill ekki byggðir þýskir kastalar en nútíma útgáfa af þeim var byggð á Suðurnesjum (og víða um land á stríðstímum) og amerískir dátar sátu þann kastala. Íslenskir ráðamenn, ekki leiðtogar, þeir eru ekki lengur til, ákváðu að fela frelsið í hendur heimsveldi sem er á hverfandi hveli og er víst til að taka okkur með í himnaför í sveppalögðu skýi.

Nú koma boð og bönn frá Brussel í stað Kaupmannahafnar. Nýr bústaður en sömu herrar. Ekki mikil munur þar á. Og íslenskir skriffinnar, kallast á íslensku Alþingismenn, munda stimplanna og skriffærin til að votta boðin en oftar en ekki bönnin frá stríðsóðri Evrópu sem enn og aftur er komin í stríð ekki reynslunni ríkari, enda nánast allir dauðir sem upplifðu ragnarök seinni heimsstyrjaldar.  Engin lærdómur er dreginn og sömu mistökin endurtekin. Apar fara í stríð.

„Mávera sigraðri þjóð sé best að útþurkast: ekki með orði skal ég biðja íslenskum vægðar. Vér íslenskir erum sannarlega ekki ofgóðir að deya. Og lífið er oss laungu einskisvert. Aðeins eitt getum vér ekki mist meðan einn maður, hvortheldur ríkur eða fátækur, stendur uppi af þessu fólki; og jafnvel dauðir getum vér ekki verið þess án; og þetta er það sem um er talað í því gamla kvæði, það sem vér köllum orðstír ..." (Eldur í Kaupinhafn. 10. kafli. Snæfríður Íslandssól.)

Orðstír okkar hefur beðið skaða með undirlægu hætti og sleikjugangi ráðamanna vorra (ég mun aldrei notað hugtakið leiðtogar um slíkt fólk, nema um fáeina menn (kk og kvk) sem nú sitja á Alþingi) og kristalaðist með Versala samkundunni í Hörpu um daginn. 

Utanríkisráðstýra vor, sem þverneitar að verja land og þjóð með a.m.k. heimavarnarliði, dásamar manndrápin og stríðsgjörðir í gersku martröðunni, ekki ævintýri. Tvísagna ráðstýra sem hræðir okkur með væntanlega formennsku í náinni framtíð í stærsta stjórnmálaflokkisins sem kennir sig við sjálfstæði en ætti frekar að kenna við frelsisafsal en sjálfstæði. Erum við sigruð? Töpuðum við fyrir sjálfum okkur?

Björt framtíð með blóm í haga framundan?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Birgir.

Ég er einlægur þjóðernissinni líkt og þú, þó yfirvöld séu jafn rotin og ógeðsleg eins og raun ber vitni.

Ég minnist 17. júní hátíðahalda frá barnæsku minni með birtu í hjarta og styð því sjálfstæði og friðarvilja, sem er auðvitað þvert á núverandi undirlægju okkar fyrir NATO.

Hvað allar hugmyndir um eigin her sem ég álít harla óraunverulegar, þá væru 10 - 12 orustuþotur ágæt búbót, því nóg er hér af flugmönnum af báðum kynjum og þannig gætum við annast eigin loftrýmisgæslu og staðið vörð um raunverulegt hlutleysi og sannan friðarvilja, hvort sem þoturnar væru bandarískar eða kínverskar að uppruna.

Jónatan Karlsson, 21.5.2023 kl. 15:11

2 Smámynd: Birgir Loftsson

Sæll Jónatan.  Ja, það má kalla mig meiri Íslandsmaður en Íslending. En á meðan ég bý á þessu guðs volaða landi, ráðast örlög mín og minna fjölskyldu, sem sannarlega er mín "þjóð", af afdrifaríkum ákvörðunum "stjórnenda" Íslands.

Ég gagnrýni því sjórnvöld fullum fetum enda leiðir lýðræðisfyrirkomulagið hér (samsteypustjórnir) til meðalmoðs og meðalmennsku, stundum afdalamennsku og vantrú á eigin getu í samfélagi þjóðanna, slíkur er heimóttuhátturinn ennþá dag í dag.

Árið 1930 voru Íslendingar fullir vantrúar á eigin getu gagnvart útlendingum og höfðu ekki vanist að vera sjálfstæð þjóð. Allt sem var útlenskt var æðri Íslendingum. Það þurfti að minna Íslendinga skriflega á að bera höfuðið hátt á Alþingishátíðinni sumarið 1930.

Ég fylgi hvorki stefnum og hugmyndafræði né leiðtogum nema viðkomandi eigi það skilið. Og ef hann fer út af brautinni eða mér finnst kenningin röng, þá segi ég bless við viðkomandi flokk, stefnu eða hugmyndafræði.

Vont er þeirra ranglæti, verra þeirra réttlæti sagði Halldór K. Laxness um íslenska höfðingja og hann sagði líka: "Ef maður vill stela í þjófafélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í því að setja lögin sjálfur." 

Hér er maður rændur af bankanum um leið og maður gengur inn um dyrnar á næsta útibúi. Og mestu bankaræningjarnir reyndust bankastjórar hinu einkareknu banka 21. aldar. En mesti þjófurinn hefur reynst ríkisapparatið fjármálaráðuneytið sem ákveður að skattleggja Íslendinga upp í rjáfur og láta lýðinn borga dýrustu matarkörfu EES..

Sagnfræðingar eru sömu kindurnar og bændur, þrjóskir, sjálfstæðir og geta verið þverlundaðir. Ég er í fyrrnefnda hópnum en kominn af síðarnefnda! Það er eitruð blanda.

Birgir Loftsson, 21.5.2023 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband