Þessari spurningu svarar Björn Þorsteinsson í grein sem ég ætla að birta hér tvo kafla úr. Greinin heitir: Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í skólastofunni og víðar (Björn Þorsteinsson, 2011):
I. Ég ætla hér að velta vöngum, í örfáum orðum, yfir nokkrum stórum hugtökum, einkanlega hinu gamalkunna hugtaki gagnrýnin hugsun sem leikið hefur býsna stórt hlutverk í íslenskri heimspekisögu síðustu áratuga, og svo hugtakinu um lýðræði. Ætlunin er nánar tiltekið að spyrja spurninga um hlutverk gagnrýninnar hugsunar í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði, en í því mun einnig felast að beita gagnrýninni hugsun á það lýðræði sem við búum við á Íslandi um þessar mundir. Þetta mun ég síðan reyna að tengja við það sem fram fer í skólastofum þessa lands, kannski þó fyrst og fremst með framhaldsskólana í huga, og þar kemur einmitt framtíðin inn í myndina, því það er eitt það merkilega við framhaldsskólana að þar fer menntun lýðræðislegra þegna framtíðarinnar fram.
VIII. En hvernig verður almenningur upplýstur? Hvernig má sjá til þess að hann verði sjálfráða og fær um að velja sér fulltrúa sem fara með valdið á réttmætan hátt? Svarið er tvíþætt: í fyrsta lagi gagnrýnin hugsun, í öðru lagi lýðræði.
Í fyrsta lagi: það þarf að kenna fólki að vera sjálfráða, og hugsa gagnrýnið, þ.e. standa á eigin fótum sem vitsmunaverur sem er ætlað að fara, og ætla sér að fara, með hið endanlega vald í þjóðfélaginu. Og í því að standa á eigin fótum felst ekki að hugsa eingöngu um eigin hag í þröngum skilningi, heldur ávallt líka, og raunar fyrst og fremst, um almannahag. Vegna þess að farsæld einstaklingsins stendur í órofa tengslum við farsæld heildarinnar. (Þetta hlýtur eiginlega að vera runnið upp fyrir okkur.) Þessi kennsla þarf auðvitað að fara fram vítt og breitt um samfélagið, en sér í lagi þarf að huga að henni í framhaldsskólunum, vegna þess að í þeim býr framtíð lýðræðisins, í bókstaflegum skilningi liggur mér við að segja.
Í öðru lagi: það þarf að sjá til þess að sjálf grunngerð samfélagsins sé sannarlega í anda lýðræðis, þannig að sjálfræðið verði annað og meira en orðin tóm. Með öðrum orðum þarf að sjá til þess að hið endanlega vald sé í reynd, og í verki, hjá þjóðinni, einstaklingunum sem eru ríkið, í öllum málum og á öllum sviðum. Við þurfum meira lýðræði, skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði, lýðræði sem stendur undir nafni, lýðræði sem virkar, virkt lýðræði. Beint lýðræði, íbúalýðræði, fyrirtækjalýðræði, alþjóðalýðræði. Lýðræði á öllum sviðum: í stjórnmálum, í efnahagslífinu, á meðal fólksins. Það er lýðræði framtíðarinnar.
Nú heyri ég efasemdamann kveða sér hljóðs og segja: þetta eru draumórar, þetta gengur aldrei, fólkið getur aldrei farið með valdið, fólki er ekki treystandi, fólk er breyskt, fólk er heimskt. Við þennan mann segi ég: þú hefur rangt fyrir þér, fólki er treystandi, fólk er fullfært um að fara með valdið ef það verður þess áskynja að því er treyst og að úrræðin sem það býr yfir eru annað og meira en orðin tóm. Fólk sem býr í samfélagi þar sem stofnanirnar og fyrirtækin lúta sannarlega lýðræðislegri stjórn gengst upp í, og gengst við, hlutverki sínu sem hinir eiginlegu valdhafar það axlar þá ábyrgð sem það finnur að því er ætluð. Og ég segi líka: við verðum einfaldlega að trúa því að fólk geti bjargað sér sjálft eða ætlum við kannski að ganga í lið með forráðamönnunum sem líta á fólk eins og húsdýr, og gera síðan allt til að forheimska þau, þ.e. sjá til þess að þau séu í raun eins og húsdýr? Þá kýs ég heldur að halda því fram að bjargræðis mannkyns sé hvergi annars staðar að leita en hjá fjöldanum.
----
Mér finnst málflutningur Björn vera það góður, að ég ákvað að leggja ekki út af honum en birta hann hér óbreyttan en athugið að þetta eru aðeins tveir kaflar af mörgum. Ég hvet þá sem hafa áhuga á þessu máli að lesa alla greinina.
En mergur málsins er að nútíma kjósandi er, sem er almennt séð mjög vel menntaður, fullfær um að mynda sér skoðun og taka beinan þátt í ákvörðunartöku þjóðarinnar. Mér er óskiljanlegt í ljósi möguleikanna með hjálp tækninnar, hvers vegna er ekki hægt að kjósa beint um flest mál sem rata á borð Alþingis? Líta má á Alþingismenn sem ,,skrifstofulið" sem vinnur frumvinnuna - lagagerð, úrvinnslu og framsetningu (laga)mála.
Ákvörðunin á svo að vera í höndum fjöldans enda er verið að taka ákvörðun í nafni fjöldans, ekki einstaklingsins. Það er ansi hart fyrir mann sem einstakingur að sjá stjórnmálamennina taka ákvarðanir um mál sem ég er alfarið á móti og eyða peningum mínum - skattfé mínu - í alls kyns rugl og óþarfi. Ef ég hins vegar fæ að taka þátt í ákvörðunartökunni, er það dálítil sárabót, þótt ég yrði undir, að hafa áhrif, þótt þau séu sáralítil.
Ekki gleyma að íslenska lýðræðið er gallað. Það er sniðið upp úr samfélagi og stjórnarskrá 19. aldar, þar sem fólk neyddist til að velja sér fulltrúa til að taka ákvörðun fyrir sig. Ekki var annað í boði í samfélagi lélegra samgangna og hægra dreifinga upplýsinga. Svo á ekki við um daginn í dag, þar sem við sjáum atburði oft í beinni útsendingu frétta og getum sjálf verið með beina útsendingu. Eins og staðan er í dag, getum við bara horft á störf Alþingis í beinni sjónvarpsútsendingu, mætt á staðinn og setið á pöllum efri hæðar en við sem heild höfum enga beina rödd. Jafnvel ekki þegar við kjósum á 4 ára fresti. Röddin er þögul.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Heimspeki, Stjórnmál og samfélag | 19.5.2022 | 10:08 (breytt 31.5.2022 kl. 11:09) | Facebook
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Evrópumál
- Fjármál
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Löggæsla
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Saga
- Samfélagsmiðlar
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Stjórnlagaþing
- Stjórnmál og samfélag
- Stríð
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Útvarp
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
Athugasemdir
Ég er mjög sammála um gildi gagnrýnnar hugsunar og efasemda í anda Sókratesar. En hvar á að byrja? Allt frá viðtölum í sjónvarpi, og tímaritum til kennslustofa er ekki gefinn tími til að spyrja viðmælendur eða láta þá efast um málflutning eða áróður, en á miklum hraða farið yfir efni - og svo í það næsta.
Fjölmiðlafólk þarf að endurmennta sig og gefa lesendum og hlustendum rúm til að sjá fleiri en eina hlið.
Á sama hátt þarf að kenna það á öllum menntunarstigum að þeir sem læra ættu að rökstyðja af hverju það sem kennt er ætti að vera rétt frekar en rangt, öðruvísi fæst varla skilningur, en páfagaukalærdómur sem gleymist.
Svo með snjalltækjum hefur flýtirinn enn aukizt, og athyglisbrestur í raun orðinn að einkenni menningarinnar frekar en vandamál örfárra einstaklinga.
Fólk veit yfirleitt mörg atriði sem eru hluti af samvitundinni, kynslóðaminnum og slíku, og svo er það pólitíska rétthugsunin, að fólki er kennt hvaða afstöðu það á að taka í öllum málum, sem nær auðvitað ekki nokkurri átt nema verið sé að búa til fótgönguliða í stríði.
Gott hefði verið að litlir flokkar hefði stækkað og fengið völd, þá hefðu fjölbreyttari sjónarmið komizt að, fleiri aðferðir.
En svo snýst þetta um launin, að vilja ekki missa stólana, peningamál og ekkert annað.
Beint lýðræði er mögulegra nú en áður, já, vegna tækninnar, en kerfið er svifaseint og hagsmunaárekstrar.
Ingólfur Sigurðsson, 20.5.2022 kl. 01:21
Sæll Ingólfur....hvar á að byrja? Fyrst á sjálfum sér (ég sendi þetta út í tómið og hver greip? Þú!) og svo að miðla. Það vill svo til að ég kenndi þetta í framhaldsskóla, þannig að skilaboðin eru komin út. Og aldrei að sætta sig við að vera ,,peð", því að peðið Sókrates var ekki meira peð en það að hann lifir ennþá dag í dag, 2500 árum síðar og samt skrifaði hann ekki neitt. Hann talaði út í loftið eins og ég, óviss um hver tæki við skilaboðunum! En þau bárust samt út.
Að lokum, öll kerfi falla að lokum, ekki örvænta Ingólfur, góða helgi...
Birgir Loftsson, 20.5.2022 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.