Hver á Donbass og Krímskaga? Hver á hvað yfirhöfuð?

Bloggritari lenti í skemmtilegum rökræðum um hver á hvað í Úkraínu. Spurningunni um Krímskaga reyndi hann að svara í upphaf núverandi átaka fyrir rúmum tveimur árum.  Engar fyrirfram ákveðnar niðurstöður gefnar, eða rökum safnað fyrir aðra hlið, bara eins og á að vera í sagnfræðilegum rannsóknum, gögnum safnað og niðurstaða fundin. 

Niðurstaðan kom á óvart og þó ekki. Krímskagi tilheyrir Rússlandi sögulega séð. Sjá hér: Hver á Krímskaga? Persónulega er ritara nákvæmlega sama hver á hvað. En fullyrðingar verða vera réttar og niðurstöður líka.

En hér kemur vandinn, við hvaða ártal eða öld á að miða þegar talað er um eignarrétt ríkis á landsvæði í Evrópu?  Hér á þessu bloggi hefur margoft verið komið inn á að landamæri Evrópu eru fljótandi í bókstaflegri merkingu. Líkja má þessu við bútasaum í teppi sem sífellt er verið að bæta við, taka úr eða stækka. Eru til dæmis núverandi landamæri Þýskalands réttlát? Held að fáir Þjóðverjar taki undir það. Eða landamæri Spánar, þar sem Baskar hafa gert tilkall til eigin lands eða Katalónía? Eða eru Danir ánægðir með sín landamæri o.s.frv. Meira segja í eyríki eins og Bretland, hafa landamærin verið síbreytileg. Get haldið áfram á nokkrum bls. en sný aftur til Rússlands.

Hvað er Rússland? Landið er sambandsríki, líkt og Þýskaland. Innan ríkisins eru mörg sjálfstjórnarríki og sum þeirra krefjast sjálfstæðis. Kíkjum á nokkrar kröfur: Koenigsberg: 72,1% fyrir sjálfstæði frá Moskvu, 27,9% á móti. Ingria: 66,2% með sjálfstæði, 33,8% á móti. Kuban: 55,7% fyrir sjálfstæði, 44,3% á móti. Síbería: 63,9% fyrir sjálfstæði, 36,1% á móti. Hér erum við ekki einu sinni að tala um viðurkennd sjálfstjórnarsvæði heldur kröfur íbúa! Og þjóðir og kynþættir í Rússlandi eru fleiri en ætla mætti. 

Kíkjum á uppbyggingu Rússlands í núverandi mynd: Rússneska sambandsríkið inniheldur 21 lýðveldi, 9 landsvæði, 46 svæði, 1 sjálfstjórnarsvæði, 4 sjálfstjórnarumdæmi og 2 borgir sem falla undir sambandsríkið: Moskvu og St. Pétursborg.  Líkt og Kína hefur Rússland haft breytileg landamæri í gegnum söguna. Öll svæði innan þeirra geta gert kröfur um sjálfstæði.

En Rússland á það sammerkt með Kína og Bandaríkin, að hafa þrátt fyrri töp stækkað hægt og bítandi í gegnum aldir.  Nú eru öll þessi ríki stórveldi og risaríki (get bætt við Indland ef menn vilja). Og þau vilja öll meira landsvæði (líka Bandaríkin sem þykjast ekki vilja meira - minni á tillögðu um kaup á Grænland og ótal tilköll til smáeyja í Kyrrahafi).

Komum aftur að Donbass, hver á svæðið? Þá verður að svara þeirri spurningu, hver eru raunveruleg landamæri Úkraínu? Þessari spurningu er nánast vonlaust að svara. Landið hefur eins og öll Evrópuríki tilheyrt hinu og þessu ríkjum í gegnum söguna, stækkað eða minnkað.

Reyndum samt að koma böndum á umfjöllunarefnið: Á 14. og 15. öld varð meirihluti úkraínskra landsvæða hluti af stórhertogadæminu Litháen, Rúteníu og Samogítíu, en Galisía og Zakarpattía féllu undir stjórn Pólverja og Ungverja. Litháen hélt staðbundnum rúþenskum hefðum og var smám saman undir áhrifum frá rúþenskri tungu, lögum og menningu, þar til Litháen varð sjálft undir pólskum áhrifum, í kjölfar sambands Krewo og sambands Lublin, sem leiddi til þess að tvö lönd sameinuðust í pólsk-litháíska samveldið og skildu eftir úkraínska. lönd undir yfirráðum pólsku krúnunnar. Á sama tíma var Suður-Úkraína undir yfirráðum Gullna hjarðarinnar og síðan Krímskanatsins, sem var undir vernd Tyrkjaveldisins, stóru svæðisveldisins í og við Svartahafið, sem hafði einnig nokkur af sínum eigin svæðum sem stjórnað var beint.

Það er því ljóst að engin niðurstaða fæst af þessari söguskoðun en athyglisvert er að t.d. Pólverjar renna hýru auga til Vestur-Úkraínu ennþá daginn í dag sem og fleiri lönd.

Við verðum að fara nær í tímann og líta sérstaklega á Donbass svæðið. Hér koma upplýsingar af netinu - Wikipedía: "Svæðið hefur verið setið um aldir af ýmsum hirðingjaættkvíslum, svo sem Skýþum, Alana, Húnum, Búlgarum, Pekksekkum (e. Pechenegum), Kipsakka, Túrkó-Mongólum, Tatörum og "Nogais" sem ritari kann ekki að þýða. Svæðið sem nú er þekkt sem Donbas var að mestu óbyggt þar til á síðari hluta 17. aldar, þegar Don kósakkar stofnuðu fyrstu varanlegu byggðirnar á svæðinu."

ChatGPT kemur með sömu niðurstöðu en segir svo: Svæðið komst undir rússneska heimsveldið (seint á 17. öld - 1917). Smám saman jókst rússnesk yfirráð yfir Donbas hófst seint á 17. og 18. öld sem hluti af herferðum Rússlands gegn Ottómanaveldi og Krímskanata.  Katrín mikla stuðlaði að landnámi og iðnvæðingu seint á 18. öld, bauð þangað erlendu starfsfólki og þróaði kolanám.

Þá komu kommúnistar til sögunnar og Sovétríkin urðu til. Til varð Úkraínska alþýðulýðveldið (1917–1920). Í rússneska borgarastyrjöldinni skipti svæðið margoft um hendur milli úkraínskra hersveita, hvít Rússa og bolsévika. Bolsévikar treystu að lokum yfirráðin og Donbas varð hluti af úkraínska sovéska sósíalíska lýðveldinu innan Sovétríkjanna. Innan sama ríkis - Sovétríkin - voru bæði núverandi ríki Úkraína og Rússland. Þá varð svæði iðnaðarmiðstöð (1920–1991). Donbass varð mikil iðnaðar- og námumiðstöð undir stjórn Sovétríkjanna, óaðskiljanlegur hluti af efnahag ríkjasambandinu.

Svo hrundu Sovétríkin. Eftir fall Sovétríkjanna urðu Donbashéruðin tvö hluti af sjálfstæðri Úkraínu. Hins vegar, sterk söguleg tengsl þess við Rússland og umtalsverða rússneskumælandi íbúa, gerðu það menningarlega og pólitískt aðgreint frá öðrum landsvæðum í Úkraínu. Samdráttur í efnahagslífinu á tíunda áratugnum leiddi til ólgu og óánægju á svæðinu og endaði með Eftir Euromaidan-byltinguna 2014 í Úkraínu og innlimun Rússa á Krím, lýstu aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum yfir sjálfstæði í hlutum Donetsk og Luhansk héruðanna.Rússar studdir þessa uppreisnaraðila - Donetsk alþýðulýðveldið (DPR) og Luhansk alþýðulýðveldið (LPR) - hafa stjórnað verulegum hluta svæðisins síðan þá. Átökin stigmagnuðust í allsherjar stríð með innrás Rússa í Úkraínu árið 2022, þar sem Moskvu sögðust innlima svæðin í september 2022 og hér standa málin stálin stinn er þetta er ritað.

Athyglisverðasta niðurstaða um landamæradeilu Evrópuríkja kom í kjölfar ósigurs Napóleons Í Napóleon styrjöldunum með Parísar friðargjörðinni 1814-15. Segja má að þessi niðurstaða ætti að endurspegla að mestu raunveruleg landamæri Evrópuríkja (tek ekki með sameiningu ríkja sem síðar urðu Þýskaland og Ítalía). Þarna skapaðist hundrað ára friðartímabil. Önnur niðurstaða varð í kjölfar seinni heimsstyrjaldar og skapaði bara 70 ára friðartímabil (Júgóslavíu stríðið var borgarastyrjöld) enda þau landamæri sköpuð með ofbeldi, ekki friðarsamningi líkt og í París 1815.

Stríðið í Úkraínu í dag er bein afleiðing upplausnar heimsveldisins Sovétríkin 1991. Niðurstaðan er ekki enn komin hjá flestum, ef ekki öllum fyrrum 15 Sovétríkjunum. Skammsýni stjórnmálamanna hefur leitt til núverandi stríðs. Hægt hefði verið eins og gerðist 1991 að leysa ágreiningsmál diplómatískt.

Rússland í núverandi mynd hangir á bláþræði í bókstaflegri merkingu. Rússar hafa ekki efni á að tapa þessu stríði, því annars getur allt farið í bál og brand innanlands.

Varðandi landamærakröfur, þá verða allar Evrópuþjóðir að miða við ákveðið tímabil og fara ekki of langt aftur í tímann. Mörg eru gerviríkin í Evrópu, Belgía og Holland eru dæmi. Kannski best að taka 19. öldina sem viðmið og fyrirmynd?

Spurningin um hver á Donbass svæðið er hreinlega pólitísk. Varanleg niðurstaða kemst á ef samið er diplómatískt líkt og í París 1815. Þvinguð landamæri líkt og komust á í lok seinni heimsstyrjaldar leiða ekki til varanlegan friðar (sbr. upplausn Júgóslavíu og Úkraínu). Það kraumar víðsvegar um Evrópu óánægja (dæmi um það er Kósóvó). Getur meistari samninganna Donald Trump komið á varanlegum friði?

P.S. Núverandi utanríkisráðherra mætti fara í sögunám áður en hann (hún) rífur kjaft um deilumál Evrópuríkja um landamæri. Þetta er púðurtunna sem Íslendingar hafa sloppið við að taka þátt í gegnum aldir vegna þess að við eru norður í ballarhafi og getað slepp að hafa standard her. Hún á að láta málefni Georgíu og Úkraínu í friði sem og önnur deilumál. Við erum engir beinir þátttakendur í Evrópu pólitíkinni, sem betur fer. Og við ættum að varast að dragast inn í þau með að ganga í ESB. Það bandalag getur hæglega breyst í hernaðarbandalag eins og sumir Evrópu leiðtogar láta sig dreyma um.

Að lokum, það skortir sérfræðiþekkingu í stjórnkerfið. Inn í það velst lögfræðinga stóð sem hafa bara vit á lögum en þeir vita lítið um alþjóðastjórnmál, sagnfræði eða hernaðarfræði. Þess vegna væri gott að endurreisa Varnarmálastofnun sem gæti sinnt og deilt rannsóknar- og ráðgjafaþættinum til misvitra ráðherra. Þetta á sérstaklega við um utanríkisráðuneytið.


Bloggfærslur 7. desember 2024

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband