Lélegasti borgarstjóri sögunnar fer frá völdum

Borgarstjóraskipti eiga sér nú stað. Í stað Dags B. Eggertssonar, kemur Einar Þorsteinsson. Sá síðarnefndi tekur bókstaflega við þrotabúi. Tæknilega séð er Reykjavíkurborg gjaldþrota, skuldaþakið er komið upp í 199%. Það verður fróðlegt hvort að borgarsjóður, sem er rekinn á yfirdrætti, nái að borga skuldir sínar. Dagur B. er hins vegar hæstánægður með skilin og hrósar sjálfum sér fyrir "vel unnin" störf!

Einar gerði líklega sín fyrstu og væntanlega síðustu mistök sem stjórnmálamaður að semja við Dag um deilingu á borgastjórastólnum og taka við honum á seinni helmingi kjörtímabilsins. Dagur getur alltaf sagt að Einar hafi klúðrað málum eftir að hann lét af embætti.

Spekingar telja að Dagur renni hýrt auga á ráðherrastól þegar Samfylkingin tekur næst við völdum, en Samfylkingarmenn telja sig verða sigurvegara næstu Alþingiskosninga. Vonandi verður hann ekki heilbrigðisráðherra, þá verður fjandinn laus.

Eftir 10 ára feril, með sífellt minnkandi fylgi en pólitísk klókindi, hefur Degi tekist að halda í völdin með hækjum annarra flokka, sem gætu þess vegna verið snýtt úr nösum Samfylkingarinnar.  Kjósendur Framsóknar óraði ekki fyrir að Einar skuli hafa skipt um hest í miðri á en flokkurinn hlaut gengi einmitt vegna þess að kjósendur vildu annað en Dag B. við stjórnvölinn. Framsóknarflokkurinn mun þurrkast út í næstu borgarstjórnar kosningum.

Hæst ber af "afrekalista" Dags B. er braggamálið svokallað, sem er skólabókadæmi um spillinguna sem þrífst innan borgarinnar. Hálfur milljarður í bragga (sem kostar hjá BK hönnun um 10 milljónir króna nýr). Eina sem heldur borginni uppi eru gullgæsir borgarinnar, svo sem OR, en sjálfur borgarsjóður er rekinn á blússandi tapi.  

Stjórnarapparatið hefur þannist út í valdatíð Dags B. og blýants nögurunum fjölgað svo, að það eru 11 þúsund borgarstarfsmenn í 140 þúsund manna borg.

Verst er staðan innan borgarstjórnarinnar en þar eru líklega fleiri yfirmenn en undirmenn með óljós hlutverk.  Óþarfa innistörf sem gera ekkert annað en að hækka útsvarið hjá skattpíndum Reykvíkingum.

Mannréttindaskrifstofan sem heitir Mannréttinda og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur er eitt dæmi um bruðlið og með mannréttindastjórann í forsvari. Skrifstofan er í kafi í wokisma. Er mannréttindastjóri að bæta kjör aldraðra sem fá ekki inn á hjúkrunarheimili? Eru það ekki mannréttindabrot að fá ekki húsaskjól?

Á meðan geta menn ekki hirt sorptunnur á réttum tíma eða sinnt öldruðum með hjúkrunarrými eða útvegað leikskólabörnum vist á leikskólum (Samfylkingarmenn komu upp með þá "snilldarhugmynd" að bjóða upp á 6 klst. vist barna en flestir vinna 8 klst á dag). Skólar borgarinnar eru flestir með myglu enda illa byggðir og viðhaldi ekki sinnt. Þeir eru flestir undirmannaðir.

Ekki hefur verið farið stórframkvæmdir í borginni í valdatíð Dags en það vantar mislæg gatnamót alls staðar og síðan en ekki síst Sundabraut sem Dagur hefur lagt steininn í götuna. Til marks um veruleikafirringuna, kom ekki alls fyrir löngu yfirlýsing um að ekki væri búið að slá út Hvassahrauns flugvöllinn af borðinu, hann væri enn á teikniborðinu!!!

Mikið átak var lagt í að þrengja að götum og setja upp hraðahindranir (hátt í tvö þúsund talsins), svona svo að umferðaumþveitið verði aðeins meira á morgnanna.

Viðvarandi skortur er á íbúðahúsnæði, þannig að fólk flýr í nágrannasveitarfélögin í leit að húsnæði eða á Suðurnesin eða Suðurland. Fjandskapurinn gagnvart atvinnurekstur er slíkur að stofnanir (t.d. Hafrannsóknarstofnun) og fyrirtæki leita sér húsnæðis í Hafnarfirði. Þau flýja reglugerðarfarganið og afskiptasemi eftirlitstofnanna Reykjavíkurborgar. Var búið að gleyma að minnast á heimilislausa í fröken Reykjavík? Eða fátæklinganna?

Er eitthvað sem gleymdist af "afrekaskrá" Dags B.? Glæstur ferill?

 

 

 

 

 


Fallið ríki

Það geta verið margar ástæður fyrir að ríki falli. Það er ekki einsdæmi og í raun er mannkynssagan vörðug fallina ríkja og heimsvelda. Fall ríkja er í raun regla. Ekkert varir að eilífu.

Hvers vegna það gerist? Margvíslegar ástæður geta verið fyrir fallið. Það getur verið vegna innrásar eða borgarastyrjaldar eða ríkið missi tökin á landinu einhvern hluta vegna. Kíkjum á skilgreiningu hvað fallið eða misheppnað ríki er útskýrt á Wikipedia.

"Misheppnað ríki er ríki sem hefur misst getu sína til að sinna grundvallaröryggis- og þróunarhlutverkum, skortir skilvirkt eftirlit yfir yfirráðasvæði sínu og landamærum. Sameiginleg einkenni fallins ríkis eru meðal annars ríkisstjórn sem er ófær um skattheimtu, löggæslu, öryggistryggingu, svæðiseftirlit, starfsmannahald á pólitískum eða borgaralegum skrifstofum og viðhald innviða. Þegar slíkt gerist er mun líklegra að víðtæk spilling og glæpastarfsemi, afskipti ríkis og annarra aðila, útlit flóttafólks og ósjálfráðar flutningar íbúa, mikil efnahagsleg hnignun og hernaðaríhlutun bæði innan og utan ríkisins eigi sér stað." Í heiminum eru mörg fallin ríki, Sómaía, Sýrland og fleiri.

Nú kann þetta að virðast fjarlægur möguleiki fyrir Íslendinga en er það svo? Eru söguleg fordæmi fyrir skiptingu Íslands? Já, tvö dæmi eru til.  Annars vegar á 13. öld þegar ígildis borgarastyrjöld geysaði á Íslandi - á Sturlungaöld. Á þjóðveldisöld var algjör valdaskipting í landinu; landinu var skipt upp í goðorð, 12 á Norðurlandi en 9 í hinum landsfjórðungunum. Svo raskaðist þetta valddreifingarkerfi og ættir eins og Sturlungar, Ásbirningar, Svínfellingar, Oddverjar og Haukdælir sameinuðu goðorð undir sína stjórn og var þetta gert með vopnavaldi. Loks stóð Þórður Kakali einn uppi en Gissur Þorvaldsson var helsti andstæðingur hans. Til að gera langa sögu stutta, komst allt landið undir Noregskonungs í tveimur skrefum, 1262 og svo með falli Oddaverjans Þórð Andréssonar, sem Gissur lét drepa 27. september 1264. 

Í öllum þessum valdsamþjöppunarferli hefði baráttan getað endað með að landinu væri skipt upp í tvö ríki eða fleiri og Noregskonungur ekki komið við sögu.

Sama gerðist í siðbreytingu, Jón Arason gerði uppreisn gegn Kristjáni Danakonungi, leitaði stuðnings hjá óvini Kristjáns, Karli V í Þýskalandi. Valdabaráttan hefði getað endað með að landinu hefði verið skipt í tvennt, Norðurland sem hefði verið kaþólskt en hinir landsfjórðungarnir verið mótmælendatrúar. En svo varð ekki eins og allir vita. Jón var gripin óvænt og aflífaður en Danakonungur sendi herskipaflota til Íslands.  Í raun hefði skapast sama ástand og er í Írlandi, en á þessari litlu eyju eru tvö ríki.

Á Bretlandseyjum skiptist landið upp í Skotland, Wales og England, þrjú ríki. Ennþá heitir Bretland - sameinaða konungsríki á ensku.

Svo var um árþúsundið 1000, að Íslendingar skiptust í tvo helminga, heiðingja og kristna. Það lá við borgarastyrjöld en með stjórnkænsku tókst að miðla málum í frægum úrskurði Þorgeirs Ljósvetningagoða og Íslendingar urðu kristnir. Fleyg eru orð hans: "Það mun vera satt, er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn." Hann sagði jafnframt: "Í huga mínum var uppreisn og ólga gegn ýmsum venjum og kreddum. Ég gat ekki þagað. Þá sköpuðust sögurnar."

Það er því ekkert sjálfgefið að á Íslandi sé eitt ríki, þótt það sé fjarri hugum Íslendinga í dag að skipta landinu upp. En það getur komið upp sú staða, að eining Íslendinga verði rofin og friðurinn úti.

Límið sem heldur Íslendingum saman er menningararfurinn, sameiginleg saga, trú, tunga og siðir. Þegar hér verða til fjölmenningarkimar, þar sem íbúarnir eiga ekkert sameiginlegt með öðrum íbúum nema að deila saman landi, getur friðurinn verið úti. Meginefnið í líminu er íslensk tunga. Án hennar hverfur allt hitt. Hver er staðan hennar í dag?


Bloggfærslur 16. janúar 2024

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband