Endurlífgun Sjálfstæðisflokksins vonlaus?

Nú hefur einn ágætur bloggari hér á Moggablogginu, og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, verið skeleggur í að reyna að endurreisa flokkinn. Það sem virðist hafa fyllt mælir hans er bókun 35 um að reglugerðir (ekki lög) ESB séu rétthærri en íslensk lög nema þau síðarnefndu segja annað. Hann hefur reynt að virkja grasrótina með t.d. fundum Félags Sjálfstæðismanna sem einmitt hefur reynst trúrri stefnu flokksins en flokksforustan.

En það hljóta að vera önnur mál sem hafa gert margan Sjálfstæðismanninn reiðan. Af mörgu er að taka.  Fyrir hið fyrsta er að flokkurinn hefur ekki reynst standa vörð um stóru málin í efnahags- og stjórnkerfismálum, t.d. bálknið burt en í framkvæmd bálknið stækkað!  Kvótakerfið og sægreifarnir koma fyrst upp í huga en Framsóknarflokkurinn er reyndar faðir fiskveiðikerfisins. Kvótakerfið er ekki alveg byggt á frjálsum markaði. Veit ekki hvort hægt sé að hafa það öðruvísi.

En nærtækasta dæmið er hvalveiðibannið. Þjóðin skiptist í tvennt í afstöðu sinni til málsins en hógværar veiðar sem viðheldur jafnvægi geta ekki verið annað en jákvætt fyrir dýralíf sjávar. Flokkurinn sem gefur sig út fyrir að vera verndari frjáls framtaks, markaðshyggjuflokkur og einstaklingshyggju, guggnaði á að vernda þann hluta sjávarútvegar sem skiptir máli fyrir hundruð manna.

Að gerræðisákvörðun, tekin á augarbragði, annað er ekki hægt að segja með banni tveimur dögum fyrir vertíðarbyrjun, þótt ráðherra segist hafa hugleitt málið lengi. Mér virðist ráðherrann hafa byggt ákvörðun sína á drápi eins hvals. Hefur hann séð hvernig háhyrningar drepa hvalkálfa? En hvað um það, alvöru flokkur sem styður frjálst atvinnulíf, hefði sprengt ríkisstjórnina.

Innflytjendamál, ótrúlegt að maður sé að ræða þau mál, eru hreinlega farin úr böndunum.  Flestir útlendinganna hérna, og ég þekki marga, eru hingað komnir að vinna. Frábært fólk en svo eru það hinir sem koma hingað til að leita inn á kerfið. Það veit að það fær fría framfærslu í tvö ár (umsóknarferilinn er svo langur) og nýtir sér það. Þetta eru velferðaflóttamenn sem flakka á milli landa undir yfirskyn flótta og nota velferðakerfi Vesturlanda.  Mörg ríki hafa lokað á þetta og þá leitar fólk þangað sem varnirnar eru veikastar og þær eru veikastar á Íslandi.

Fyrir Jón og Gunnu, skapar þetta vandamál, því að velferðakerfið á Íslandi er lélegt. Margra vikna bið eftir viðtali við heimilislæknirinn (ef maður hefur slíkan), bráðamóttakan sprungin (6 klst bið síðast er ég fór) framfærsla öryrkja, aldraðra og atvinnulausra skorin við nögl o.s.frv.

Húsnæðismarkaðurinn er sprunginn vegna þessa og ótal margt annað, allt vegna of mikið innflæði innflytjenda.  Innflæðið er stýrt eftir þörfum atvinnulífsins, ekki þörfum hins almenna borgara. Reyndar hafa landamærin verið galopin um langt skeið og engin stjórn á innflæði gerviflóttamanna.

Hinn almenni borgari er látinn gjalda rangrar stefnu í innflytjendamálum. Með öðrum orðum, þetta er farið að hafa áhrif á daglegt líf Jóns og Gunnu. Þá er hægt á að fari að þykkna í hinum umburðalinda Íslendingi. Það er svo auðljóst að þetta gengur ekki upp. En vinstri flokkarnir, með Pírata fremst í flokki, vilja ekki almenna skynsemi í málaflokknum og því er allt í kalda koli. Flokksforyrsta Sjálfstæðisflokksins hefur brugðist í þessu máli. Aðeins einstaka þingmenn hafa staðið í lappirnar.

Annað er algjör fylgispeki við stefnu Bandaríkjanna og NATÓ í Úkraníu stríðin. Það er gott og vel að svo sé gert, en Sjálfstæðisflokkurinn (með utanríkismálin á sinni könnu) og sérstaklega VG skuli ekki beita sér fyrir friði í þessu ljóta stríði er hreint ótrúlegt.

Nei, það er beinlínis hvatt til átaka, farið og kysst og kjassað Zelenský, og ekki einu orði minnst á að kannski gæti Ísland verið sáttasemjari í málinu, boðið deilendur til Íslands til viðræðna í Höfða. Það er ekki hægt, enda búið að reka rússneska sendiherrann heim! Það er engin sjálfstæð utanríkisstefna Íslendinga til. Ísland er ein kindin í sauðarhjörðinni.

Þetta er í annað sinn sem diplómatísk samskipti eru rofin við erlent ríki (þriðja þorskastríðið og Bretland var fyrra skiptið). Stór mistök í utanríkispólitíkinni enda lýkur stríðinu einhvern tímann og samskipti við Rússa tekin upp á ný (hafa Bandaríkjamenn gert það?).  Þá verður alltaf farið í minnisbókina þegar eitthvað stórt gerist á milli Íslands og Rússlands og Rússinn segir...."aha, Íslendingar settu á okkur viðskiptabann (á meðan við hjálpuðum þeim í viðskiptabanni Breta og V-Þjóðverja í þorskastríðinu), þeir styðja óvini okkar bein með fjármagni og þjónustu. Þeir eru ekki vinveittir Rússum og Rússlandi."

Fjármálagerningar og spillingin í bankamálum hlýtur að gera margan flokksmanninn reiðan. Enginn lærdómur dreginn af bankahruninu 2008? Og alltaf er formaður flokksins tengdur spillingarmálum, enda fjármálaráðherra. Svo er reyndar með Kristrúnu formann Samfylkingarinnar sem var innsti koppur í Kviku. Ekki er sá flokkur gæfulegur.

Verst af öllu hlýtur að vera hugsjónarleysi flokksforystu Sjálfstæðisflokksins. Hvar eru gildi og hugsjónir flokksins? Varðveisla íslenskrar tungu og menningu? Tengingin við hinn almenna borgara? Formaðurinn hefur smá saman raðað í kringum sig já-fólk en slíkt gerist þegar formaður flokks hefur verið lengi við völd. Hefur einhver heyrt formanninn flytja eldmessu eða verið reglulega í fjölmiðlum að ræða vanda dagsins? Það kann ekki góðri lukku að stýra að vera með leiðtogalausan flokk. Jarðtenging flokksforystunnar hefur rofnað og fylgið horfið út í veður og vind. 20% fylgi fyrir eina hægri flokk landsins? Er það eðlilegt?

Ég er hræddur um að varaþingmaður flokksins sé að berjast við vindmyllu. Flokksforystan er kyrfilega föst í eigi neti og ekki er hlustað á grasrótina frekar en fyrri daginn. Þá er tvennt í stöðunni, stofna nýjan alvöru hægri flokk eða ganga í raðir Miðflokksins sem virðist hafa öll gildi Sjálfstæðisflokksins.


Bloggfærslur 13. júlí 2023

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2025

S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband