Sverris saga konungs

Uppáhalds fornbókin mín er Sverris saga. Hún greinir frá ungum manni, líklega fæddum í Færeyjum en ungur að aldri og þá orðinn prestur, fékk þær fréttir frá móður sinni að hann væri launsonur Sigurðar Noregskonungs Haraldssonar. Hvernig Sigurður hafi átt eða getað sængað hjá mömmum hans, suður í Færeyjum veit ég ekki en þetta virðast Norðmenn trúa. Sumir segja að hann hafi verið fæddur í Björgvini og þar hafi mamman hitt Sigurð konung sem getið hafi drenginn á laun, væntanlega utan hjónabands. En þegar Sverrir var orðinn fimm ára fluttu foreldrar hans, Gunnhildur og Unás kambari, til Færeyja en þaðan var Unás. Bróðir hans var Hrói biskup í Kirkjubæ og ólst Sverrir upp hjá honum, lærði til prests og hlaut vígslu.

Það var ekki fyrr en þá sem Gunnhildur móðir hans sagði honum – eftir því sem segir í sögu Sverris – að hann væri ekki sonur Unáss, heldur væri faðir hans Sigurður munnur, sem var konungur Noregs 1136–1155. Nútíma sagnfræðingar telja þetta þó útilokað. Í Færeyjum er enn haldið á lofti þeirri sögn, að Sverrir sé fæddur í helli ofan við Kirkjubæ. Ég held aftur á móti að hann hafi bara verið bastarður sem hafi leitað til Noregs í ævintýraleit. Þar bættist hann í hóp margra manna sem gerðu kröfu til konungsdóms, enda var upplausnarástand í landinu, langvarandi borgarastyrjöld í gangi. Mörgum lukkuriddurum með sverð í hendi leist vel á slíkt og freistuðu að komast til valda með vopnavaldi. Einn slíkra var Íslendingur sem tókst að safna saman 300 manna liði áður en hann og menn hans voru yfirbugaðir.

Saga Sverris minnir mig dálítið á Þórð sögu kakala sem til var í sjálfstæðri gerð, sem var einnig ævintýramaður sem tókst að komast til valda með vopnavaldi. Ég byggði M.A. ritgerð mína að hluta til á Sverris sögu. Hann hóf uppreisn í Noregi árið 1177, náði þar völdum og ætt hans stýrði síðan Noregi fram til 1387. Þórðar kakala saga og Sverris saga voru samtímasögur og því nokkuð áreiðanlegar heimildir. Karl Jónsson á Þingeyrum fór til Noregs og hitti þar Sverri líklega að boði hins síðarnefnda. Hann hóf að skrifa sögu hans mitt í átökunum sem þá áttu sér stað. Virðist sagan einum þræði samin til að staðfesta tilkall Sverris til valda og skýra að hann sé konungur valinn af guði með mikla hæfileika og sonur konungs. Óvíst er hver eða hverjir kláruðu bókina og eru enn deildar meiningar um það.

Sverrir fór fyrir Birkibeinum en andstæðingar hans kölluðust Baglar. Völd hans voru aldrei ótvíræð og þurfti hann að berjast til dauðadags en hann féll í umsátri um borgarvirki 1202. Á ýmsu gekk í borgarastyrjöldinni en 18. júní 1199 vann Sverrir stórsigur á her Bagla í Strindafirði og leifarnar af Baglahernum flúðu til Danmerkur. Það voru þó ekki endalok átakanna. 

Einhver sem skrifar á Wikipedíu segir að Sverrir hafi dáið á sóttarsæng í Björgvin 9. mars 1202. Það finnst mér undarlega orðað því að Sverrir og her hans sultu heilu hungri í umsátrinu og næringarskortur, vosbúð og erfiðleikar hafa dregið hann til dauða, það er það sem ég get lesið af lestri Sverris sögu. Umsátrið stóð í um fimm mánuði um hávetur. Sverrir var aðeins 51 árs þegar hann dó og því varla dáið úr hárri elli, fæddur um 1151 og dó 1202. Baglar nutu forystu Nikulási Árnasonar biskupi með stuðningi Eiríks erkibiskups. Konungsefni þeirra var Ingi, sem sagður var launsonur Magnúsar Erlingssonar. Ingi Baglakonungur gat þó ekki nýtt sér það færi sem skapaðist við dauða Sverris því hann dó sama ár.

Grípum nú niður í M.A. ritgerð mína þar sem ég fjalla um endalok Sverris en hér er ég að fjalla um mikilvægi borga (kastala) í norsku borgarastyrjöldinni:

,,Nýir andstæðingar komu ávallt í kjölfar þeirra sigruðu og nú þurfti Sverrir að berjast við flokk þann er nefndist Eyjaskeggjar. Sverrir hafði látið gera borg í Björgvin á berginu upp frá biskupsgarði, og höfðu Birkibeinar þar um veturinn mikla sveit. Hófu Eyjaskeggjar umsátur um borgina og veittu borgarmönnum jafnan atsókn en gátu lítið annað að gert en að skjóta á þá og þeir á móti. Dró Sverrir saman lið og kom Björgvinjarmönnum til bjargar. Afléttu eyjaskeggjar umsátrinu og voru sigraðir í sjóorrustu.

Öflugustu andstæðingar Sverris stormuðu nú inn á sjónarsviðið undir forystu Nikulásar Árnasonar, biskups í Ósló, árið 1196 og lögðu undir sig Víkina og Upplöndin. Sverrir fór að þeim og sigraði þá í mikilli orrustu í Ósló en eftirlifandi Baglar flýðu norður og réðust á borgina (Sverrisborg eða Síon öðru nafni, reist 1182-83) á Steinbjörgum í Niðarósi í Þrándheimi. Þar var fyrir 80 manna varnarlið og skorti það hvorki vopn, vistir né mat. Böglum tókst ekki að taka borgina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og brugðu þeir þá á það ráð að hóta að ræna bú fyrirliða borgarmanna. Sveikst hann þá undan merkjum og lét opna leynidyr á borginni og komust Baglar þar inn samkvæmt frásögn Sverris sögu. Var borgin brotin niður í kjölfarið og sýnir það hversu mikill þyrnir hún var í augum sigurvegaranna en það var mikið verk að brjóta niður borg. Hún hefur verið endurreist.

Enn sannaði borgin við Björgvin sig er Baglar réðust á hana. Nú var Aura-Páll forráðamaður hennar en Sverrir var þá í herleiðangri og því aðeins borgarmenn til varnar. Það voru kænskubrögð sem afléttu umsátrinu. Skömmu eftir þetta kom Sverrir í bæinn með liðsauka og Baglaherinn á eftir. Hófst nú umsátursástand sem Baglar áttu erfitt með að fylgja eftir vegna vistaskorts og urðu þeir að leita undan eftir vistum. Þegar þeir komu aftur stóð borgin enn í veginum fyrir þeim og tóku þeir þá til bragðs að brenna Björgvin en þrátt fyrir það náðu þeir ekki borginni heldur urðu að hörfa frá.

Var Sverrir nú kominn í sóknarham og færðist orrustuvöllurinn æ sunnar. Fór floti hans að Böglum er réðu fyrir Túnsbergi en þar var Hreiðar sendimaður við mikla sveit Vestfylda og höfðu þeir gert þar til varnar tvo kastala, annan norður á berginu en annan suður yfir götunni er upp liggur frá Lafranzkirkju. Sverrir varð frá að hverfa og sat um veturinn í Björgvin en fór um vorið til Túnsbergs og settist um bergið. Bjó Sverrir sig undir langt umsátur og lét flytja til sín leiðangra og vistir úr héruðum. Hann reyndi ítrekað að taka kastalana tvo en án árangurs.

Leitaði Sverrir margra bragða til að vinna bergið með bellibrögðum en tókst það ekki og hófst þá langt umsátur. Stóð umsátrið um kastalana fram á vetur en þá fóru Birkibeinar að kvarta um vistaskort en bændur gerðust tregir til að láta af birgðum sínum. Svo var einnig farið um kastalabúa en Hreiðar sendi bréf til Inga „konungs“ og þóttist ekki geta haldið lengra út en til Nikulásmessu og þá með hörðum kosti.

Sverrir sat um Túnsberg í 20 vikur eða fimm mánuði og fór þaðan um leið og hann vann það. Hann veiktist veturinn sem hann dvaldist í Túnsbergi og fór sjúkur til Björgvinjar, lá þar veikur og dó að lokum.

Nokkru síðar var barist um borgina við Björgvin en þar sat um nærri tvö hundruð manna setulið. Baglar réðust á borgina og skutu á en fengu ekki tekið hana en Birkibeinar gerðu skyndiárásir úr borginni í bæinn. Fóru Baglar úr bænum vegna vistaskorts en sneru aftur eftir þrjár vikur. Fór viðureign þeirra svo að liðsauki Birkibeina kom til bæjarins og var umsátrinu aflétt.

Áður en Birkibeinar fóru úr Björgvin var það ætlunin að borgin yrði varin með tvö hundruð manna setuliði en ákveðið var að það væri of fjölmennt og sæst var á hundrað manna setulið. Sýnir þetta hversu setuliðið var fámennt í köstulunum og svo fámennt lið talið duga móti stórum umsátursher. Baglaherinn kom þar aftur að og réðst á borgina en Birkibeinar gerðu útrás, þeir voru færri og hrukku inn af veggjunum og hlupu inn í meginborgina.

Baglar komust upp á útveggina og unnu útborgina, en er þeir sáu að þeir gátu ekki unnið meginborgina brenndu þeir útborgina og skipuðu sínum mönnum í kastalann. Birkibeinarnir í borginni urðu fljótlega vistalausir og gáfust upp og fengu þeir grið. Borgin í Björgvin var brotin niður eins og sú í Niðarósi.

Samkvæmt ofangreindum lýsingum má ætla að borgin við Björgvin hafi verið af þeirri kastalagerð er hlotið hefur heitið motte and bailey á ensku. Þetta voru meðal fyrstu gerða kastala. Slík hernaðarmannvirki voru gerð úr viði og steinum og stóðust betur umsátur en fyrri gerðir (sbr. trékastalar, e. wooden palisade). Þessir kastalar voru venjulega umkringdir kastala- eða borgardíki eða öðrum náttúrulegum hindrunum og staðsettir á hæðum. Kastalarnir höfðu tvo varnaveggi. Hinn ytri var utan um hallargarðinn eða forgarðinn en til þess að komast inn í hann varð að fara yfir brú sem lá yfir díkið. Inn af forgarðinum var innri varnarveggurinn sem myndaði hluta af húsaröð og lá oftast í ferhyrningi en þetta var rammgerðasti hluti kastalans. Til að komast inn í þennan innri hluta kastalans varð árásarliðið að fara yfir enn aðra brú. “

Sverrisborg í Þrándheimi, við Niðurós, aðalvígi Sverris. Í Sverris sögu er hún kölluð Síon eftir borg Davíðs í Jerúsalem. Barist var um borgina 1197 og áttust þar við Baglar og Birkibeinar. Sverrir var ekki á staðnum. Lauk umsátrinu með að það féll það í hendur Bagla. Var hún jöfnuð við jörðu í kjölfarið með aðstoð heimamanna sem skyldaðir voru til verksins. 

ATHUGIÐ: Til voru tvær Sverrisborgir, önnur við Niðurós en hin við Björgvin.

Sverrisborg við Niðurós, Þrándheimi, var byggð af konungi Sverri Sigurdssyni um 1182 eins og áður sagði, 250 metra norðaustur af Björgvinahús (Bergenhus) virki. Árið 1188 var ráðist á bærinn Niðarós, sem hafði verið yfirgefinn af konungmönnum Sverris. Mótherjar hans strunsuðu inn í bæinn og blóðbað fylgdi í kjölfarið. Þá var borgin sem var að mestu trévirki, rifin niður og borgin brend og lögð í rúst. Það er ekki vitað nákvæmlega hvenær hún var endurreist, en Sverris saga segir á að borgin hafði verið endurreist eftir 1197. Sverrisborg er síðast nefnd í valdatíð, Hákonar Hákonarsonar konungs árið 1263 þegar hann leyft að veggir Sverresborg væru brotnir niður.

Konungur Sverre Sigurðsson átti einnig Sverresborg byggða við Björgvin í Þrándheimi. Það er talið að vígi hafði ytri vegg úr steini og innri byggingar úr tré (kastalagerð). Sagan nefnir að 600 karlar og 40 göfugar konur bjuggu í víginu um 1207. Þessi Sverrisborg var vettvangur nokkurra bardaga í borgarastyrjöldinni. Kastalinn féll í hendur Bagla og var eytt, en var endurbyggð af Hákoni jarli. Baglar brutu hana í annað sinn en hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum.

Fornleyfauppgröftur staðfestir frásögn Sverris sögu: http://ruv.is/frett/bein-i-brunni-stadfesta-sverris-sogu

 

 


Bloggfærslur 12. febrúar 2023

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2024

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband