Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Svörin við morðið á John F. Kennedy eru ekki að finna í birtum leyniskjölum

JFG skjölin sem birt hafa verið, sanna bara hversu yfirhylmingin var mikil. Ástæðan fyrir að þessi skjöl voru ekki birt fyrr er að þau sýna hveru mikil umsvif CIA voru um allan heim. Um 47% "diplómata" voru í raun útsendarar CIA á sjötta áratugnum.

Eins og sjá má af meðfylgjandi myndböndum liggja upplýsingar um meint samsæri um morð á Kennedy alls staðar annars staðar en í opinberum skjölum. Og ef CIA, hópur innan þessarar stofnunar, hafi staðið að þessu morði, þá hafa þeir passa sig á að hafa sem fæst á pappír, hvað þá að færa morðið til bókar í skjalasafni CIA!

Saga málsins er með ólíkindum.  Heili Kennedy hvarf eftir krufningu í Washington, læknir brenndi krufningaskjöl, byssukúlur hverfa og birtast á ný, byssa Oswald reyndist vera samtíningu rifla og við endurgerð morðsins, ítrekað klikkar á að skjóta. Hann á svo að hafa náð að skjóta ítrekað skotmark á ferð á fáeinum sekúndum. 

Byssukúlan sem fór í JFK fór um forsetabílinn eins og ping pong kúla, út um allt, lífverðir hans brugðust ekki við, bílstjórinn stöðvar augnablik og keyrir af stað rólega í fyrstu, forsetalestin er látin fara í gegnum "dauðagil" torgs með óteljandi skotmörk allt í kring, gert að kröfu Johnson, lífverðum meinað að taka sinn stað í lestinn á flugvellinum og þeir banda höndum í forundrum, skurðlæknarnir sem tóku á móti Kennedy fengu ekki að gera alvöru rannsókn því CIA menn skiptu sér af aðgerðinni (sem ekki var gert er Reagan var skotinn), ítrekaðar viðvaranir að það eigi að taka Kennedy af lífi og Dallas væri gryfja hatursmanna forsetans hunsað og lengi má telja ótrúlegan söguþráð. 

En tökum helstu rökin fyrir að þetta hafi verið samsæri sem mun aldrei finnast í opinberum skjölum.

"Töfrakúlu" kenningin

Opinber skýrsla Warren-nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ein byssukúla (kölluð „töfrakúlan“) hafi farið bæði í Kennedy forseta og John Connally ríkisstjóra Texas og valdið mörgum sárum. Þessi kúla er sögð hafa farið inn í bak Kennedys, farið út um hálsinn á honum, síðan lent í baki Connally, brotið rifbein, farið út úr brjósti hans, lent í úlnliðnum, brotið bein og loks verið í læri hans - allt á meðan kúlan var í nánast óspilltu ástandi þegar hún fannst síðar á sjúkrabörum. Mörgum finnst þessi braut ólíkleg. Og nóta bene, hver var í nefndinni? Allan W. Dulles fyrrum forstjóri CIA sem Kennedy hafði látið reka. Kennedy bræðurnir ætluðu að leysa CIA upp á þessum tíma, því þeim fannst stofnunin ógna lýðræðinu. Vilhöll nefnd sem hunsaði sönnunargögn?

Snögg handtaka og þægileg þögn Oswalds.  Lee Harvey Oswald var handtekinn aðeins 70 mínútum eftir morðið, þrátt fyrir að engin formleg rannsókn hafi enn verið gerð. Hann neitaði aðild að því og sagði við sjónvarpsmyndavélarnar: "Ég er bara blóðraböggull."  Innan við 48 tímum síðar, áður en hægt var að yfirheyra hann almennilega, var hann myrtur af Jack Ruby í beinni sjónvarpsútsendingu, sem kom í veg fyrir réttarhöld. Ruby var mafíumaður og tengdur þeim hluta mafíunnar sem vann náið með CIA við laumumorð. Mafían sjálf var bálreið út í Kennedy bræðurnar fyrir að svíka loforð um að þeir létu hana í friði. Mafían tryggði nauman sigur Kennedys með kosningasvindli.

Aðgerðir Jack Ruby

Jack Ruby, næturklúbbaeigandi með þekkt mafíutengsl, fullyrti að hann hefði myrt Oswald af sorg yfir Jackie Kennedy! Geta hans til að ganga inn á þungavörðu lögreglustöðina, bera hlaðna byssu, og skjóta Oswald á lausu færi vekur spurningar um hvort hann hafi verið að þagga niður í honum.

Misvísandi sönnunargögn Zapruder filmubútsins

Hin fræga Zapruder-mynd sýnir höfuð Kennedys kastast aftur og til vinstri eftir högg, sem margir telja benda til skots að framan, sem stangast á við opinbera niðurstöðu um að Oswald hafi skotið frá Texas School Book Depository fyrir aftan Kennedy.  Myndinni var einnig haldið frá almenningi í mörg ár, sem ýtti undir vangaveltur.

Vitnin á grashæðinni

Tugir vitna greindu frá því að hafa heyrt skot frá Grassy Knoll svæðinu, stað fyrir framan eðalvagn Kennedys.  Margir töldu sig hafa séð reyk eða skotmann, en þessum vitnisburði var að mestu vísað frá.

Dularfull dauðsföll vitna

Fjöldi fólks sem tengist málinu lést við óvenjulegar aðstæður á árunum eftir morðið.  Sumir vísindamenn halda því fram að þessi dauðsföll myndu grunsamlegt mynstur.

CIA, FBI, og mafíutengsl

Afléttuð skjöl benda til þess að CIA hafi haft áhuga á Oswald fyrir morðið, en fullyrti síðar að hann væri einn byssumaður án tengsla. Oswald hafði undarleg tengsl við hópa sem eru stuðningsmenn og andstæðingar Castro, sem vakti grunsemdir um aðkomu leyniþjónustunnar.  Mafíutengsl Jack Ruby vekja einnig spurningar um þátttöku skipulagðrar glæpastarfsemi.

Misvísandi krufningarskýrslur

Krufning Kennedys fór fram á Bethesda Naval Hospital, frekar en í Dallas þar sem hann var skotinn. Í krufningarskýrslunni eru frávik, þar á meðal vantar heilavef og breyttar lýsingar á sárum.

Álitshnekkur leyniþjónustunnar

Leyniþjónustan braut siðareglur með því að leyfa Dallas bílalestina að fara í gegnum krappar beygjur og minnkaðan hraða. Sumir leyniþjónustumenn virtust vera dregnir í burtu frá eðalvagninum rétt fyrir skotárásina.

Ályktun valnefndar þingsins (The House Select Committee) um morðið (1979)

Árið 1979 sneri valnefnd þingsins við niðurstöðum Warren-nefndarinnar og komst að þeirri niðurstöðu að Kennedy hafi líklega verið drepinn sem hluti af samsæri, þó að hún gæti ekki skorið úr um alla ábyrga aðila. Þrátt fyrir þetta var engin ný rannsókn hafin.

Er nokkur furða að í október 2023 bendir könnun Gallup til þess að 65% Bandaríkjamanna telji að morðið á John F. Kennedy forseta hafi falið í sér samsæri, sem bendir til þess að Lee Harvey Oswald hafi ekki verið einn að verki.

Ef þetta var ekki samsæri, þá hefur bloggritari ekki séð annað eins vanhæf leyniþjónustu- og lögregluyfirvöld og sjá má af aðgerðum CIA og FBI. Sem er nokkuð ótrúlegt miðað við hversu hæf þau eru að velta stjórnum úr sessi um allan heim.

Svo er það morðtilræðið við Trump...sem er önnur ótrúleg saga og er efni í aðra grein.

Leyndarmál JFK

Leyndarmál JFK 2


Hefur Ísland valkosti í varnarmálum?

Hverjir eru valkostir Íslendinga hvað varðar varnir Íslands?  Íslendingar byggja sínar varnir á tveimur stoðum. Annars vegar á tvíhliða varnarsamningi við Bandaríkin frá 1951 en hins vegar aðild að NATÓ frá 1949. 

Það er deginum ljósara að Íslendingar lifa ekki í tómarúmi og þeir verða að treysta varnir sínar einir eða í samvinnu við aðra. 

En athugum þessa staðreynd: Íslendingar gengu í NATÓ 1949 og voru í þessu hernaðarbandalagi í tvö ár og án Kanans. Hvar voru þá Bandaríkjamenn? Ekki komnir til Íslands. Þeir komu hins vegar 1951 en fóru með herafla sinn frá Íslandi 2006 og hafa notað herstöðina á Keflavíkurflugvelli sem stoppustöð.

Í raun hafa önnur aðildarríki í NATÓ séð um að manna lofteftirlit yfir Ísland, en að sjálfsögðu með Bandaríkjamönnum. Ástandið í dag minnir svolítið á þetta tveggja ára tímabil. 

Spurningin er, munu Bandaríkjamenn draga herlið sitt frá Vestur-Evrópu? Þeir virðast ætla að færa mannskapinn til, frá t.d. Þýskalandi til Ungverjalands. Þeir munu líklega halda mannskap í þeim ríkjum sem liggja að Rússlandi. Þetta er líkleg sviðsmynd. Viðvera Bandaríkjahers, sem er nú frekar lítil, mun minnka meir.

En svo er það hin sviðsmyndin, að Bandaríkin fari úr NATÓ, hvað gerist þá? Eftir verða þá 29 aðildarríki. Munu þau leysa upp bandalagið? Nei, mjög ólíklega því þau þora ekki að vera ein og sér. Ekkert þeirra er með getu til að verja sig gegn stórveldum, nema Frakkland og Bretland (rétt svo). Þá hafa Íslendingar valkost, hvorum megin Atlantshafs viljum við vera? Áfram í NATÓ eða í tvíhiða varnarbandalagi við Bandaríkin?  Hagsmunirnir liggja í Evrópu, síður í Ameríku.

Ef Íslendingar kjósa að fylgja Bandaríkjamönnum, má búast við tuddahegðun eins og Grænlendingum er sýnd. Ef Íslendingar kjósa Evrópuher/NATÓ, þá er það bandalag mjög veikt og ekki hægt að treysta á að aðildarþjóðir geti komið til aðstoðar, a.m.k. í upphafi. Slíkt bandalag myndi ótvírætt krefjast þess að Íslendingar taki þátt í eigin vörnum.  Það þýðir íslenskur her og Íslendingar borgi eigin varnir.

Viljum við vera undir hæl stórveldis? Er saga Bandaríkjahers það glæsileg að við eigum að eiga allt undir dutlungum Bandaríkjaforseta? Þetta hefur bloggritari verið að hamra á í áratugi (að sjálfsögðu fyrir daufum eyrum, því hann er bara Jón út í bæ). En það hefur bara sannast að bloggritari hefur haft rétt fyrir allar götur síðan hann hóf að skrifa um varnarmál. Hann sagði t.d. 1999/2000 að Bandaríkjaher væri að týgja sig til farar sem og gekk eftir 2006.  Bloggritari sagði að Íslendingar ættu að koma sér upp varnarmálastofnun sem hann skrifaði um árið 2005 og það gekk eftir. Og hann hefur sagt að hernaðarbandalagið NATÓ væri ekki eilíft. Það kann að rætast fyrr en ætla mætti.

Að lokum. Bloggritari hefur sagt að eigin varnir Íslands sé síðasta sjálfstæðismál landsins. Sjálfstæðisbaráttan hófst af krafti um miðja 19. öld og menn telja hana hafa lokið 1944 með lýðveldisstofnun. En það var bara ekki rétt. Það átti eftir að frelsa Íslandsmiðin, landhelgi Íslands frá erlendri ásókn. Það tókst loks 1976.

En sjálfstæðisbarátta er eilífð, sérstaklega hjá örríki eins og Ísland. Ein af frumskyldum sjálfstætt ríkis er að tryggja öryggi borgara sinna fyrir innlendri og erlendri ógn. Á meðan ríkið getur ekki gert það, er það ekki frjálst og telst á fræðimáli vera "failed state", ríki sem á sér ekki tilverurétt né framtíð.


Kreppuástand framundan í Bandaríkjunum?

Nú eru "snillingarnir", andstæðingar Trumps, farnir að reikna út efnahagskreppu í Bandaríkjunum á árinu! En stöldrum aðeins við. Við þurfum ákveðnar forsendur, byggðar á raungögnum til að fá út slíka niðurstöðu.

Fyrsta forsendan er: Að Trump standi við alla tollahækkanir sem hann boðar. Eins og staðan er í dag, er hann að rúlla fram og til baka með þessar tollahækkanir. Þær eru notaðar með öðrum orðum sem efnahagsvopn. Tollahækkanir á sumar vörur gagnast efnahagslíf Bandaríkjanna mjög vel, hvetur til innlendrar framleiðslu. Aðrar ekki. Það er nefnilega þannig að Bandaríkjamenn eru ekki að keppa á jafnréttis grundvelli gagnvart til dæmis ESB eða Kína. Þetta jafnar samkeppnisstöðuna. Ef hann stendur við áætlanir sínar, verður tímabundin hækkun á innfluttum vörum en á móti eiga innlend fyrirtæki að framleiða meira til að vega upp á móti.

Önnur forsenda er: Haldið verður áfram með sama áframhaldandi ríkishalla og hefur verið síðastliðin 4 ár. Trilljónir á yfirdrætti. En svo er ekki. D.O.G.E á einmitt að skera niður ríkisbálknið.  En þetta tekur tíma. Því að stjórn Biden sendi áfram eiturpillur, reikininginn á stjórn Trumps og því þarf að hækka skuldaþakið fram í september á þessu ári! Trump er að borga reikninga Biden fram eftir ári, en síðan kemur D.O.G.E. til fullra framkvæmda. Musk er að reyna að borga ekki þessa reikninga og hafa mörg mál því endað fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna til úrskurðar. Má stjórn Trumps hætta til dæmis að borga reikninga USAID?

Þriðja forsenda er: Að litlar fjárfestingar verði í Bandaríkjunum á árinu. En svo er ekki fyrirséð.  Árið 2025 er gert ráð fyrir að fyrirtæki frá löndum eins og Þýskalandi, Bretlandi, Kína, Japan, Sádi Arabíu og Kanada muni auka fjárfestingar sínar í Bandaríkjunum. Þessar fjárfestingar munu líklega beinast að fjölbreyttum geirum, þar á meðal upplýsingatækni, fjármálaþjónustu og framleiðslu. Talað er um trilljóna dollara innspýtingu í beinar fjárfestingar í lykil greinum eins og t.d. gervigreind. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins hafa helstu tæknifyrirtæki Bandaríkjanna, þar á meðal Amazon, Microsoft, Google og Meta, tilkynnt um áætlanir um að fjárfesta samanlagt yfir 320 milljörðum bandaríkjadala í þróun gervigreindar á þessu ári. Er þetta merki um samdrátt? Ríkisskuldir eru ávísun á hátt verðlag - verðbólgu en fjárfestingar á stærri þjóðarköku.

Fjórða forsenda er: Að orkuframleiðsla verði sú sama eða svipuð. En svo verður ekki. Búið er að henda út um gluggann reglugerðabókina og menn mega bora að vild og eins mikið og þeir geta. Drill, baby, drill! Í fyrri valdatíð Trumps urðu Bandaríkin sjálfbær með orku og fluttu meira segja mikla orku út. Í tíð Bidens, voru menn að taka út úr neyðarbirgðum Bandaríkjanna!

Fimmta forsendan er: Að skattaívilninga pakki sem Bandaríkjaþing er að vinna að, verði ekki að veruleika. En hann verður það, því að Repúblikanar ráða báðum deildum.  Áformað er að lækka skatta um 4,5 billjónir bandaríkjadala, meðal annars með því að afnema skatta á almannatryggingabætur, þjórfé og yfirvinnugreiðslur. Einnig er fyrirhugað að heimila frádrátt vegna vaxta af bílalánum fyrir bandarísk framleidda bíla. (heimild: Investopedia) Stefnt er að framlengja skattalækkanirnar sem samþykktar voru árið 2017, sem annars myndu renna út á næstu árum.

Samkvæmt mati bandarísku fjárlagaeftirlitsstofnunarinnar (CBO) gætu framlengingar á skattalækkunum frá 2017 aukið halla ríkissjóðs um meira en 4 billjónir dala á næstu tíu árum, ef ekki verða gerðar mótvægisaðgerðir í formi útgjaldalækkana en útgjaldalækkun á að dekka meira en þetta.

Talað er um að minnka ríkisbálknið umtalsvert. Árleg ríkisútgjöld Bandaríkjanna eru um 6 billjónir bandaríkjadala. Samkvæmt áætlunum D.O.G.E. er stefnt að því að spara um 560 milljarða bandaríkjadala árlega, sem samsvarar um 9,3% af heildarútgjöldum ríkisins. Þessi sparnaður á að nást með því að endurskoða og einfalda ferla, draga úr sóun og bæta nýtingu fjármuna í opinberum rekstri. Svo er fyrirséð að minni peningur fari í hælisleitendur, þótt það kosti pening að koma þeim úr landi en til langframa sparar það stórfé. Eins verður minni peningur eyddur í stríðsrekstur, t.d. Úkraínu og stór hluti bandarísks herafla fluttur til innan Evrópu eða frá álfunni. Tekið verður til í Pentagon en það apparat er peningahít mikil.

Er efnahagssamdráttur framundan í Bandaríkjunum? Ólíklegt en ársfjórðungs samdráttur gæti orðið og gæti staðið fram eftir árinu. Áhrif stjórnar Bidens gæta enn og það tekur tíma að rétta skútuna af.

 


Virkar rudda pólitík?

Við höfum séð ótrúlega umpólun á pólitískri stefnu Bandaríkjanna á innan við 2 mánuðum.  Stefna ríkisstjórnar Trumps, er gerólík þeirri sem hann stundaði á fyrra kjörtímabilinu.  Þá var hann nýgræðingur á sviði stjórnmála, raðaði ekki réttu fólki í kringum sig og mótspyrnan, bæði innan og utan eigin flokks, var meiri en hann réði við.

Trump náði að mestu sínum pólitískum stefnumálum á fyrri kjörtímabili en covid faraldurinn tryggði að hann næði ekki endurkjör. Við tók skelfileg stjórn Bidens, sem gerði ekki neitt og það að gera ekki neitt, hefur afleiðingar. Litlu einræðisherrarnir hugsuðu sig til hreyfings og létu til skara skríða.

Það er tvennt sem veldur þessari gjörbreyttu stefnu Trumps. Annars vegar rétt slapp Trump við að vera drepinn. Þetta hafði grundvallar breytingu á hegðun hans. Hann veit sem er, að hann hefur takmarkaðan tíma og þessu getur lokið á augnabliki.

Hins vegar veit Trump að hann er á seinna kjörtímabili, hann þarf ekki að hafa áhyggjur af endurkjöri og því geti hann farið sínu fram að vild.  Demókrataflokkurinn er algjörlega sundraður og ekki má búast við mikilli andstöðu frá þeim, aðra en kjánaleg mótmæli eins og við ræðu Trumps á Bandaríkjaþingi. 

Trump hefur haft átta ár til að skipta út andstæðingum sínum úr flokknum og nú er svo komið að andstæðingar hans innan flokksins má telja á annarri hendi.

Með fullt umboð kjósenda, hann vann fjölda kosninguna og fjölda kjörmanna ótvírætt, hefur hann umboð til verka.

Nú kom Trump vandlega undirbúinn til verka, með 4 ára undirbúning og 4 ára reynslu frá fyrra kjörtímabili.  Hann vinnur því hratt og sjaldan eða aldrei hafa menn séð eins mikinn hraða á verkum ríkisstjórnar.

Trump hefur markmið. Þeim skal náð, jafnvel með ruddaskap og vinaslit. Við erum að sjá valdapólitík eins og hún var stunduð í Evrópu á 19. öld og hún gíndi yfir öllum heiminum, nýlendukapplaupið mikla og stórvelda pólitík.  Munurinn er að nú höfum við fjölmiðla og netið sem fylgist með í rauntíma hráskinnaleik stórveldanna. Við getum meira séð leiðtoga (Úkraínu) tuktaðan til í beinni en áður (t.d. Hitler gerði í Tékkóslakíu) á bakvið tjöldin.

Eins og staðan er í dag virkar rudda pólitíkin vel. Heimurinn er í höndum Trumps. En spyrja verður að leikslokum. Trump mun ekki ná öllum sínum markmiðum, til þess er heimurinn of flókinn og menn ekki allir strengjabrúður sem hægt að sjá fyrir með viðbrögð.  Fyrir okkur Evrópubúa eru þessi umskipti ekki skemmtileg eða gleðileg. Okkur er hótað tollum, brotthvarf herverndar Bandaríkjanna o.s.frv.

En það er einn kostur við rudda pólitík, en hún er að hún hristir fólk til raunveruleikans. Fyrir Evrópumenn er hann að þeir eru algjörlega undir hæl Bandaríkjanna um varnir í áratugi og þeir hafa vanrækt að rækta eigin varnargarð. Bandaríkjamenn eru óvinir þeirra efnahagslega og efnahagsstríð er framundan við BNA. 

Annað er að sósíaldemókratíska stefna þeirra sem hefur verið við lýði undanfarna áratugi er á endastöð. Þeim hefur tekist að eyðileggja evrópskt lýðræði (yfirþjóðlegt vald ESB), málfrelsi, menningu, grunngildi og efnahagsstefnu vegna ný-marxíska hugmyndastefnu sem hefur aldrei átt samleið með raunveruleikanum. Evrópumenn verða e.t.v. að skipta yfir í stórveldapólitík nauðugir og úr því koma stórveldi eins og Frakkland, Bretland, Rússland og Þýskaland.


Kjarnorku regnhlíf Frakka dugar til að hjúpa Evrópu?

Frakkar bjóða núna kjarnorkuvopna hjúp yfir ríki Evrópu. Samkvæmt upplýsingum frá Vísindavefnum frá árinu 1997 var talið að Frakkland ætti þá um 500 kjarnorkuvopn.

Nýjustu opinberu upplýsingar um fjölda kjarnorkuvopna í heiminum eru ekki tiltækar í fyrirliggjandi gögnum, en almennt er talið að Frakkland eigi nú um 300 kjarnorkuvopn. Samkvæmt upplýsingum frá Vísindavefnum frá árinu 1997 var talið að Bretland ætti þá um 200 kjarnorkuvopn. Nýjustu opinberu upplýsingar um fjölda kjarnorkuvopna í heiminum eru ekki tiltækar í fyrirliggjandi gögnum, en almennt er talið að Bretland eigi nú um 225 kjarnorkuvopn. 

Segjum svo að þessar Evrópuþjóðir eigi til saman rúmlega 500 kjarnorkusprengjur. En geta þessi ríki varið alla Evrópu? Samkvæmt upplýsingum frá Vísindavefnum frá árinu 1997 var talið að Bretland ætti þá um 200 kjarnorkuvopn. Frakkland getur varla varið alla Evrópu eingöngu með sínum 300 kjarnorkusprengjum, en það getur veitt sterka fælingarmátt gegn árásum á franska hagsmuni og bandamenn þess. Frakkar líta á kjarnorkuvopn sín sem sjálfstætt fælingartæki (force de frappe) og hafa beitt þeirri stefnu síðan á tímum Charles de Gaulle.

Þessar þjóðir verða að binda þessa skuldbindingu formlega til að eitthvað sé að marka þessa yfirlýsingu. En þetta hefur einhvern fælingarmátt. Búast má við að Frakkar og Bretar fjölgi kjarnorkuvopnum sínum í ljósi þess að Bandaríkjaher er að minnka viðveru sína í Evrópu.  Munum að Rússar hafa eigin kjarnorkuvopnaher (já sérstaka hereiningu) og stríðskenning þeirra bygging á ef til innrásar kemur í Rússland, verði þeim beitt umsvifalaust. Þetta er sérstaklega hugsað gagnvart Kína sem er nátttúrulegur óvinur þeirra. Sama geta Evrópuríki gert. Það þarf þá ekki að fjölga svo mikið í evrópskum herjum.


Trump undir hæl Pútíns?

Trump hefur ekki tekið neinum silkihöndum á Zelenskí eins og sjá má af atburðarrás undanfarna daga.  Nú er Zelenskí nauðbeygður til að láta að vilja Trumps í jarðefnamálinu og gengur líklega til friðarsamninga á næstunni. Rússar eru afar ánægðir með framgöngu Trumps.

En svo er það stóra spurningin. Hvernig mun Trump taka á Pútín við samningsborðið? Ef hann fer mjúkum höndum um Rússa, verða spurningar um tök Rússa á honum áleitnar. Þetta á eftir að koma í ljós fljótlega.


Stjórnmálaelítan á Íslandi tekur afstöðu með Evrópu

Það er ekki annað að sjá en að með að taka skýra afstöðu með Evrópuþjóðum í Úkraínu stríðinu, sé Ísland að taka skrefið með Evrópu gegn Bandaríkjunum. Er ekki að segja að það sé rangt, enda Ísland Evrópuríki.  Spurningin er hins vegar, hvar liggja hagsmunirnir? Með Bandaríkjunum eða Evrópu (ESB)?

Hernaðarlegir/öryggishagsmunir liggja með Bandaríkjunum, en með Evrópu efnahagslega. Samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands, stunda Íslendingar meiri viðskipti við Evrópu en Bandaríkin. Hagstofa Íslands segir að fyrir árið 2020 námu útflutningstekjur til ríkja Evrópusambandsins um 162,5 milljörðum króna, en til Bandaríkjanna um 76,7 milljörðum króna. Þetta þýðir að útflutningur til ESB-ríkja var rúmlega tvöfalt meiri en til Bandaríkjanna. 

En öryggishagsmunir Íslands liggja með Bandaríkjunum. Án verndar Bandaríkjanna eru Íslendingar illa staddir, öruggislega séð. Hvaða Evrópuþjóð væri tilbúin að senda hingað herlið til lands til að verja landið? Við erum ekki með tvíhliða varnarsamning við annað ríki en Bandaríkin.

En skiptir efnahagslegs samskipti hér meginmáli? Viðskipti Íslands við Evrópu eru yfirgnæfandi í umfangi vegna nálægðar, samgönguleiða og EES-samningsins, sem einfaldar viðskipti. Hins vegar hafa viðskipti við aðrar heimsálfur vaxið, sérstaklega við Bandaríkin og Kína. Ísland stendur frammi fyrir áskorunum í viðskiptum utan Evrópu, þar sem samgöngur eru flóknari og tollar geta verið hærri. Þrátt fyrir það hefur alþjóðavæðing og aukinn áhugi á íslenskum afurðum stuðlað að fjölbreyttari markaðsaðgangi.

Hér er því jafnvægis leikur að ræða. Vegna þess að hagsmunir Íslands liggja bæði vestan hafs og austan, ættu Íslendingar ekki að taka skýra afstöðu með öðrum hvorum aðila. Sem örríki sem þarf það að eiga góð samskipti við öll ríki, er stundum best að segja sem minnst og gera enn minna. Þarna getur Ísland tekið sér Sviss til fyrirmyndar. Þeim hefur tekist að verja sjálfstæði sitt og viðskiptahagsmuni sem og hernaðarhagsmuni í gegnum aldir.  Allar ákvarðanir í utanríkismálum verða að vera byggðar á hagsmunum Íslands.


Veruleikafirring evrópskra stjórnmálamanna heldur áfram

Nýjasta nýtt er tilkynning Zelenskí um að hann sé tilbúinn að segja af sér embætti (hann er umboðslaus núna) ef það verði til þess að friður komist á Úkraínu og landið fái inngöngu í NATÓ. 

Annað hvort er maðurinn arfa vitlaus eða hann sér eitthvað sem við hin sjáum ekki. Afsögn hans skiptir engu máli um hvort landið fari í NATÓ eða ekki. Það eru ekki bara Bandaríkjamenn og Rússar sem eru á móti inngöngu landsins í bandalagið, heldur líka svo kallaðir bandamenn þeirra, Þjóðverjar og fleiri Evrópuþjóðir. Friður með inngöngu í NATÓ er hreinlega ekki á borðinu en ESB er það hins vegar og hefur Pútín sjálfur sagst ekki vera á móti slíkri þátttöku.  Zelenskí veit sem er, dagar hans eru taldir í embætti forseta.

Svo er það Friedrich Merz, leiðtogi Kristilegra demókrata, sem er ekki heldur jarðtengdur. Hans fyrsta verk eftir að flokkur hans fékk minna fylgi en skoðana kannanir sögðu til um, var að hringja í Lars Klingbeil, einn hæstráðenda Jafnaðarmannaflokksins, í gærkvöldi.  Kjósendur höfnuðu flokknum ótvírætt. Í könnun, sem beint var að fyrrverandi kjósendum Jafnaðarmannaflokksins, reyndist innflytjendastefna helsta ástæða þess að fólk yfirgaf flokkinn. Jafnaðarmenn hlutu sína verstu kosningu í 150 ára sögu flokksins. Olaf Scholz, formaður flokksins, getur ekki verið dauflegri "leiðtogi" en mögulegt er. Algjörlega sneiddur leiðtogahæfileikum. Maðurinn sem var bara þarna verða eftirmæli hans og maðurinn sem keyrði flokkinn niður í svaðið.

RÚV (já, bloggritari kíkir stundum á vefmiðillinn en aldrei á sjónvarpsfréttir) segir svo frá: "Í skoðanakönnun í síðasta mánuði sögðust 83% Þjóðverja hafa áhyggjur af stöðu innflytjendamála og 67% vildu varanlegt landamæraeftirlit, jafnvel þótt slíkt gangi þvert gegn samþykktum Schengen-samstarfsins."

Skilaboð kjósenda eru skýr en samt eiga fallistarnir að komast í ríkisstjórn áfram. Stundum endurspeglar lýðræðið ekki hug kjósenda.

En aftur að Merz. En hvað hefur blessaður maðurinn fyrst að segja? Jú, hann "veður" í Trump. Mbl.is segir frá í blaðagreininni Líkti Bandaríkjum Trumps við Rússland: "Friedrich Merz, verðandi kansl­ari Þýska­lands, beið ekki eft­ir loka­töl­um þing­kosn­ing­anna þar í landi um helg­ina með að til­kynna nýja tíma í Evr­ópu.

Lýsti Merz því yfir í gær­kvöldi að stjórn­völd­um í Banda­ríkj­un­um væri hjart­an­lega sama um ör­lög Evr­ópu. Kvaðst hann full­ur efa­semda um framtíð Atlants­hafs­banda­lags­ins NATO og krafðist þess að Evr­ópu­ríki gerðu skurk í varn­ar­mál­um álf­unn­ar. Taf­ar­laust."

Það er tími til kominn að brauðrisinn Þýskaland vakni af þyrnirósasvefninum og horfist í augun við veruleikann. Hann er einfaldur. Þjóðverjar hafa verið hersetnir af Bandaríkjunum síðan 1945 (Bandaríkjamenn velkomnir þó) og í litlu mæli af Bretum (1230 manns í júlí 2024). Þýskaland hefur orðið efnahagsveldi í skjóli Bandaríkjanna, m.a. vegna þess að þeir síðarnefndu komu í veg fyrir hersetu Sovétríkjanna og vernduðu landið allar götur síðan 1945 og Þjóðverjar hafa sloppið við að hervæðast og eyða fé í varnarmál. Bundeswehr - þýski herinn er illa staddur (sjá næstu grein) og getur ekki varið landið.

Já, það er kominn tími til að Þjóðverjar hysji upp um sig buxurnar og fari að haga sér eins og stórveldi (sem það er efnahagslega). Því miður virðast Þjóðverjar ætla að halda áfram með "grænu byltinguna" sem er ekki efnahagsleg hagkvæm og samkeppnishæfni landsins heldur áfram að vera í lágmarki. Hvernig ætla þeir að keppa við olíu- og gas risann í Bandaríkjunum eða kolaverksmiðjurnar í Kína (ein opnar vikulega)?

Líkti Metz Banda­ríkj­um Don­alds Trumps við Rúss­land – þau væru orðin ámóta ör­ygg­is­ógn gagn­vart Evr­ópu. Evr­ópa væri nú milli steins og sleggju þar sem Banda­rík­in og Rúss­land væru og því væri skjótra ákv­arðana þörf. Og hann minnist á Evrópuher.

Stóra myndin er þessi: Bandaríkin líta ekki lengur á Evrópu sem forgangs mál í varnarstefnu sinni. Bandaríkjaher á að geta háð næsta stríð í Asíu sem þeir veðja á að verði. Bandaríkjamenn líta á Evrópumenn sem efnahagslega keppinauta sem þeir eru.

En gangi Evrópumönnum vel að reyna að verja Úkraínu án Bandaríkjanna. Ef þeir ætla að reyna það, þá eru þeir veruleikafirrtari en maður getur órað fyrir. Þeir hafa haft 3 ár til að koma á friði í Úkraínu en hafa ekki einu sinni reynt að tala við deiluaðila. Forystulið Evrópu er ekki hæfara en þetta. Svo er hnýst í þann sem ætlar að koma á frið.

 

 


Niðurskurður í Pentagon og Evrópa úti í kuldanum?

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur fyrirskipað háttsettum herforingjum að skera niður 8% af fjárlögum ráðuneytisins fyrir hvert af næstu fimm árum, að því er The Washington Post greindi frá á miðvikudag.

Fjárhagsáætlun Pentagon fyrir árið 2025 er um það bil 850 milljarðar dollara og almenn skoðun á Capitol Hill er að sögn að gríðarleg útgjöld þurfi til að verjast ógnum Kínverja og Rússa.

Það að niðurskurður sé í gangi, þarf ekki endilega að bardagahæfni Bandaríkjahers minnki.  Ef peningar sem Pentagon fær eru betur notaðir, þá gæti jafnvel verið um innspýtingu að ræða. Ekki hefur verið hægt að staðfesta bókhald Pentagons í áratug og enginn veit hvað orðið hafi um tugir og hundruð milljarða Bandaríkjadollara. Menn bíða spenntir eftir hvað D.O.G.E. afhjúpar varðandi varnarútgjöld.

En í hvað fer fjármagnið? Sjá má áherslur Bandaríkjastjórnar með að skoða hvert féð fer. Þó að áframhaldandi fjármögnun "stuðningsstofnunar" til Indó-Kyrrahafsherstjórnar, Norðurherstjórnar og Geimsherstjórnar sé lýst í minnisblaði Hegseth, er evrópska herstjórnin áberandi fjarverandi á listanum, sem hefur gegnt lykilhlutverki við að innleiða stefnu Bandaríkjanna í stríðinu milli Rússlands og Úkraínu.

Einnig vantar á listann Miðherstjórn (e. Central Command), sem hefur umsjón með aðgerðum í Miðausturlöndum, og Afríkuherstjórn (e. Africa Command), sem stýrir nokkur þúsund hermönnum um alla álfuna.

Skilaboðin eru skýr frá stjórn Trumps.  Evrópumenn, hysjið upp um ykkur buxurnar, þið hafið lifað á okkur í áratugi og nú er því lokið.  Eyðið meira í varnarmál og með það erum við farnir að mestu úr Evrópu. Þýskaland, sem hefur ekki sinnt eigin varnir síðan 1945 af viti, þarf að sætta sig við að setulið Bandaríkjanna hverfi úr landinu. Í landinu eru 35 þúsund bandarískir hermenn. Trump er enginn vinur Evrópu (Hegseth húðskammaði evrópska ráðamenn um dögunum og menn sátu í áfalli yfir ásökunum Bandaríkjamanna).

Þetta kann að skýra algjört virðingaleysi gagnvart bandamönnum í NATÓ og ráðamenn Evrópu komi ekki að samningsborði friðarviðræðna um Úkraínu. Álit þeirra skiptir ekki máli og áherslan er á Asíu.

Menn einblína of mikið á rausið í Trump um hver beri ábyrgð á upphaf Úkraínu stríðsins. Það er aukaatriði og sagan sjálf, ekki Trump eða aðrir stjórnmálamenn, mun skera úr það mál. Og hver verður árangur friðarviðræðnanna? Það er það sem skiptir máli. Raunveruleiki á jörðu niðri skiptir máli, ekki orðræða og orðaskak.

En hvað eru margir bandarískir hermenn í Evrópu? Ekki eru til nýlegart tölur. Á meðan kalda stríðinu stóð, náði viðvera bandaríska hersins í Evrópu hámarki með yfir 450.000 hermönnum sem störfuðu á meira en 1.200 stöðum. worldbeyondwar.org

Eftir lok kalda stríðsins fækkaði bandarískum hermönnum í Evrópu verulega. Samkvæmt frétt frá febrúar 2022 voru um 75.000 til 80.000 bandarískir hermenn með fasta viðveru í Evrópu.

Þessi viðvera er dreifð yfir nokkur Evrópulönd, þar sem stærstu herstöðvarnar eru meðal annars í Þýskalandi, Ítalíu og Bretlandi.

Þetta kann að vera skynsamlegt fyrir Bandaríkjamenn í stöðunni eins og hún er í dag, en afar óskynsamleg ef horft er til framtíðar. Evrópa er stuðpúði varna úr austri fyrir Bandaríkjamenn og mikilvægur áfangastaður herliðs sem fer til Miðausturlanda, Afríku og Asíu. Þetta mun gefa hugmyndum um Evrópuher byr undir báða vængi og menn neyðast til að axla ábyrgð á eigin vörnum án stuðnings Bandaríkjahers. Ísland mun einangrast frá Evrópu, hernaðarlega séð, enda flokkast landið undir varnir Vesturheims og Bandaríkjaher vill vera hér áfram.

Spurningin í náinni framtíð er, hvort vilja Íslendingar vera undir verndarvæng Bandaríkjanna eða Evrópu? Hvort er hæfari til að verja Ísland? Svari hver fyrir sig. Við vitum hvað núverandi ríkisstjórn segir en vill Þorgerður Katrín utanríkisráðherra styggja Bandaríkjamenn? 

Að lokum, bloggritari hóf að skrifa hér á blogginu fyrir fjórum árum. Allar götur síðan, er hann fjallar um varnarmál, hefur hann varað við að treysta á einn eða neinn um eigin varnir. Hið ótrúlega getur gerst og er nú að gerast. Á ögurstundu getur orðið svo að Bandaríkjaher geti ekki varið landið (sbr. 2006) eða ef við treystum á Evrópuher, að þeir komi yfir höfuð okkur til varnar, enda varnir meginlands Evrópu mikilvægari. Það væri helst að Bretinn komi aftur og rifji upp úr sögubókum að einu sinn hafi "Britain rules the waves" hér á Atlantshafi.


Erik Prince um staðal her gagnvart þjóðvarðliði

Erik Dean Prince (fæddur júní 6, 1969) er bandarískur kaupsýslumaður, fjárfestir, rithöfundur og fyrrverandi SEAL yfirmaður bandaríska sjóhersins og stofnandi einkahernaðarfyrirtækisins Blackwater. Hann starfaði sem forstjóri Blackwater til 2009 og sem stjórnarformaður þar til það var selt til hóps fjárfesta árið 2010.

Óhætt er að segja að hugmyndir Eriks Prince séu ekki hefðbundnar eins og sjá má af meðfylgjandi myndbandi. Þar til dæmis kom hann með hugmyndir hvernig uppræta megi Hamas. Hann kom þremur vikum eftir fjöldamorðin 7. október til Ísraels með víðtæka hugmynd: bora og dæla sjó inn í Gaza-göngin, flæða þau með vatni og þannig neita Hamas um getu til að heyja neðanjarðarhernað. Í því skyni hitti hann háttsetta embættismenn hjá varnarmálastofnun rannsókna og þróunar (DDR&D eða MAFAT), sérsveitardeild Yahalom hersveita bardagaverkfræðideildar IDF og verkfræðinga suðurherstjórnarinnar. IDF, fyrir sitt leyti, byrjaði að reyna að hrinda hugmyndinni í framkvæmd, en hún var á endanum yfirgefin. IDF hermenn, eins og við vitum, sneru aftur í hefðbundnari bardagaaðferðir og fóru sjálfir niður neðanjarðar og sjá má árangurinn af því, sem er ekki ótvíræður sigur og ómældar þjáningar fyrir óbreytta borgara. 

En ætlunin er að fjalla um hugmyndir Prince um "standard army" eða staðalher.  Það að hugmynd hans um að fylla jarðgöng Hams sem ná um 300 km, var það enn ein sönnun þess að reglulegir herir og skrifræðiskerfi eiga erfitt með að hugsa út fyrir rammann og starfa á skapandi hátt. Það var líka sönnun þess að hann trúði því að Blackwater, einkaherinn sem hann stofnaði sem hefur sinnt sérstökum verkefnum fyrir Pentagon og CIA, hafi verið brautryðjandi og fyrirmynd.

Hann segir að þó að bandaríski herinn sé nú uppbyggður af sjálfboðaliðum og það sé frábært í sjálfu sér, þá séu atvinnuhermennirnir fastir í viðjum her skrifræðis. Bakgrunnur hermannanna sé einsleitur en svo sé ekki hjá þjóðvarðliðunum bandarísku sem starfa tímabundið og hluta úr ári.  Í því liði eru menn starfandi sem rafvirkjar í borgaralegu lífi, lögfræðingar o.s.frv. sem taka þekkingu og lausnir inn í herinn. Þannig hafi bandaríski herinn byggst upp í upphafi og með árangri að þeim tókst að reka Breta, heimsveldið sjálft úr Bandaríkjunum.

En svo eru aðrar hugmyndir hans umdeildari. Prince hefur lagt til að skipta um verulegan hluta bandarískra hermanna á átakasvæðum eins og Afganistan út fyrir einkaverktaka. Hann bendir á að minni liðsauki sérsveita, auk verktaka, gæti náð stefnumarkandi markmiðum á skilvirkari hátt og með minni kostnaði. Til dæmis hefur hann haldið því fram að aðferð hans myndi kosta minna en 20% af 48 milljörðum dala sem varið var árlega í Afganistan.

Hins vegar hafa tillögur Prince sætt verulegri gagnrýni. Andstæðingar halda því fram að það að reiða sig á einkaverktaka veki lagalegar, siðferðilegar og ábyrgðar vandamál. Til dæmis, Sean McFate, fyrrverandi herverktaki, heldur því fram að slíkar áætlanir séu "misráðnar og hættulegar" og undirstrikar möguleikann á auknum atvikum líkt og fjöldamorðin á Nisour Square, þar sem starfsmenn Blackwater drápu 17 íraska borgara.

Hvað um það, hugmyndir hans um og samanburður á staðalher og þjóðvarðlið er nokkuð sem Íslendingar mættu hugleiða er þeir loksins taka af skarið og komi sér upp vopnuðu varnarliði.  Þær falla algjörlega að hugmyndum bloggritara sem hefur mælt með að stíga skrefið varlega og koma eigi upp varaliði á stærð við undirfylki. Það má kalla það ýmsum nöfnum, það skiptir svo sem litlu máli, bara að þessar sveitir séu tiltækar þegar á reynir. Það gæti verið fyrr en ætla má.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Mars 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband