Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Siðapostular bálreiðir yfir að einkaaðilar selji áfengi

Bloggritara var hugsað til Íslands er hann var staddur í Austurríki í sumar, er hann stoppaði á bensínstöð, gekk inn og sá allt úrvalið af áfengi og gat valið úr. Þar er ekki komið fram við fullorðið fólk eins og börn og án siðapostula sem fara á límingunum bara við að sjá áfengi fyrir framan sig.

Alveg sama hvað siðapostularnir segja, verður þróunin ekki stöðvuð úr þessu. A.m.k. ekki á meðan við erum tengd ESB í gegnum EES samninginn. Í Evrópu er komið fram við fullorðið fólk eins og fullorðið fólk sem kann fótum fjör að launa og getur tekið upplýstar ákvarðanir, meðal annar um eigin lýðheilsu. Fólk tekur ákvörðun um eigin heilsu daglega, meðal annars hversu mikið áfengið það getur drukkið daglega. Mikill meirihluti fólks getur tekið þessa ákvörðun án afskipta ríkisvaldsins.

En svo eru það örlaga fyllibytturnar, sem drekka sama hvað lítið, takmarkað og dýrt aðgengið er að áfenginu. Það bara skipuleggur sig bara fram í tímann, svo það geti drukkið í friði. Það er akkurat ekkert samhengi við að ríkið selji áfengi eða einkaaðilar og lýðheilsa.

Þannig að stjórnmálamennirnir sem vilja hafa vit fyrir þér, frjálsum borgara og fullorðin manneskja, eru að lítillækka þig með forræðishyggju. Ekki væri bloggritari hissa ef viðkomandi siðapostulli sé hallur til vinstri og elskar ríkisafskipti af einkalífi borgarans! Látið okkur í friði, við getum sjálf ákveðið hvað er hollt fyrir okkur og líf okkar.

P.S. Áfengisbannið á Íslandi 1915 og í Bandaríkjunum gekk ekki upp.


Ísraelskan dróna fyrir Landhelgisgæsluna?

Vandræðagangur Landhelgisgæslunnar vegna einu eftirlitsflugvélar sínar hefur vakið athygli almennings. Sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnarsson hefur einhvern hluta vegna viljað spara við rekstur gæslunnar með því ráðast á rekstur eftirlitsvélarinnar. Þetta er skrýtinn málflutningur, því ef eitthvað er, ætti að bæta í og auka öryggið og eftirlitið innan efnahagslögsögu Íslands. Almenningur og sjómenn þar fremstir í flokki hafa lýst yfir algjöra andstöðu við minni viðbúnað gæslunnar en nú er og er lágmarks starfsemi. Sjálfur forstjórinn segir að ef vel ætti að vera, ætti önnur vél að vera tiltæk.

En er þetta ekki afturför ef mið er tekið af sögu eftirlitsflugs á Íslandi? Á vef gæslunnar segir að "Landhelgisgæslan hefur um áratuga skeið notast við flugvélar og þyrlur við löggæslu, eftirlit, leit og björgun auk annarra verkefna. Á árunum eftir síðari heimstyrjöld leigði Landhelgisgæslan stundum flugvélar til að fylgjast með skipaumferð og veiðum í landhelginni, fyrst árið 1948 þegar Grumman Goose-flugbátur var tekinn á leigu. Þetta flug var þó ekki með reglubundnum hætti." Sagan - flugdeildin 

Og höldum áfram með söguna: "10. desember 1955 eignaðist Landhelgisgæslan sína fyrstu flugvél og er almennt miðað við þá dagsetningu sem upphaf flugrekstrar stofnunarinnar. Þetta var flugbátur af gerðinni PBY-6A Catalina með einkennisstafina TF-RAN."  Það er því komin 70 ára reynsla og saga á notkun eftirlitsflugvéla við gæslu landhelgarinnar. Við skulum því ýta þessari hugmynd Jóns af borðinu, það er ekki nokkur áhugi neins á Íslandi, nema hans, að leggja niður eftirlitsflug. En hvað er þá til ráða?

Landhelgisgæslan hefur prófað aðra leið, hún fékk til reynslu mannlausan dróna um árið eða 2019. Grípum niður í frétt LHG af málinu:

"Landhelgisgæslan hefur fengið mannlaust loftfar til notkunar sem gert er út frá Egilsstaðaflugvelli. Um er að ræða samstarfsverkefni EMSA, Siglingaöryggisstofnunar Evrópu, og Landhelgisgæslunnar en loftfarið verður hér á landi í þrjá mánuði. Á tímabilinu verður dróninn prófaður við löggæslu, leit- og björgun og mengunareftirlit á hafinu umhverfis Ísland. EMSA er þjónustuaðili drónans og þetta er í fyrsta sinn sem stofnunin útvegar dróna af þessari stærð til notkunar. Loftfarið er af gerðinni Hermes 900 og er rúmt tonn að þyngd. Það hefur 800 kílómetra drægi og getur því auðveldlega flogið að lögsögumörkum Íslands fyrir austan landið og til baka. Dróninn kemst á um 120 kílómetra hraða, hefur afísingarbúnað, er stjórnað í gegnum gervitungl, þarf flugbraut til að taka á loft og er með fimmtán metra vænghaf. Þá er hann búinn myndavélum, ratsjá og í honum er einnig sérstakur búnaður sem greinir neyðarboð og sendir þau áfram í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Fjölmenn áhöfn fylgir loftfarinu sem er stýrt af flugmönnum. Meginhluti verkefnisins er fjármagnaður af EMSA." LHG lýsti því yfir að góð reynsla var rekstri drónans á meðan hann var  hér. Mannlaus dróni tekinn í notkun á Íslandi

En það eru færri sem vita að þessi dróni, Hermes 900 er ísraelskur að gerð. Hergagnaframleiðsla Ísraela er með ólíkindum og á mörgum sviðum hafa þeir farið framúr Bandaríkjamönnum. Sem dæmi hafa þeir tekið við herþotum og skriðdrekum Bandaríkjahers og endurbætt þau. Nýjasta dæmið eru endurbætur IDF á F-35 sem talin ein fullkomnasta herþota í heimi.  Ísraelar eru frumkvöðlar í loftvörnum og er frægasta dæmið "Iron dome" loftvarnarkerfi þeirra sem Bandaríkjamenn sjálfir eru að íhuga setja upp fyrir heimalandið, Bandaríkin.

En hefur blönk Landhelgisgæsla efni á eftirlitsdróna? Svarið kemur á óvart, en það er já. Verð á Hermes 900, samkvæmt erlendum skýrslum, getur numið 6,85 milljónum dollara hvern á meðan Hermes 450 kostar 2 milljónir dollara. Þannig að verðlistinn getur varað eftir hvaða gerð af drónum viðkomandi er að eltast við.

Ef litið er á lýsingu á Hermes 450, þá er hann framleiddur af Elbit Systems; er meðalstór dróni hannaður fyrir könnunar- og eftirlitsverkefni og getur flogið í meira en 20 klukkustundir samfleytt.  Dróninn er kallaður Zik af ísraelska hernum og getur náð tæplega 5,5 km hæð.

Þar sem dróninn er mannlaus, stjórnað af jörðu, er hægt að hafa hann á lofti megnið af deginum og hjálpað til við eftirlitsflugvélina að sjá um öryggiseftirlits landhelginnar. Í einu myndbandi má sjá drónann varpa niður björgunarhylki til nauðstaddra sjómanna og því getur hann einnig nýtts við björgunarstörf.

Í þessu myndbandi má sjá drónan í rekstri.

Og fyrir Alþingismenn sem væla og segja að engir peningar séu til, þá ættur þeir að lesa þessa frétt, en Íslendingar eru í stríðsrekstri í Úkraínu og eru að veita 3 milljarða í það peningahít. Svo er ekki til peningur til að reka þyrlusveit eða eftirlitsflugvél LHG! Hvernig væri að forgangsraða skattféi mínu og þínu betur! Þrír milljarðar í stríðs rekur í Úkraínu


Fákeppni og einokun - stórfyrirtæki versus ríkisvaldinu

Eins og með allt í lífinu, er gangverk þess flókið. Ein aðferðafræði eða hugmyndafræði dugar ekki til að leysa alla efnahagsvanda.

Helsti vandi og galli frjálst markaðshagkerfi er að á vissum sviðum þróast fyrirtækin yfir í að vera stórfyrirtæki, sem velta og eru með stærra efnahagskerfi en heilu ríkin.  Með yfirburðastöðu eyða þau alla samkeppni og annað hvort verður til einokun eða fákeppni.  Það er ekkert betra að ríkið sé með einokunina en einkafyrirtæki. Til dæmis geta einkafyrirtæki veitt betri þjónustu og verð en ÁTVR.  En þá verða að vera skilyrði fyrir samkeppni.

Það er til dæmis mjög erfitt að einkavæða járnbrautalestakerfi, því ekki er hægt að vera með samkeppni á einni leið. Þá er kannski örlítið skárra að hafa ríkisfyrirtæki í reksturinn sem hefur lágmarks samfélags ábyrgð.

En er ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir fákeppni og einokun stórfyrirtækja? Jú, það er hægt. Það kemur í hlut ríkisins að setja leikreglunar, þ.e.a.s. lögin. Þetta var gert í byrjun 20. aldar í Bandaríkjunum.

Í upphafi 20. aldar var einokun fyrirtækja í Bandaríkjunum upprætt fyrst og fremst með blöndu af framsæknum pólitískum umbótum, samkeppnislöggjöf og þrýstingi almennings. Meðal lykilþátta voru samkeppnislög, kölluð  Sherman Antitrust Act (1890). Þetta var fyrsta mikilvæga alríkislöggjöfin sem miðar að því að hefta einokun. Það gerði það ólöglegt fyrir fyrirtæki að taka þátt í samkeppnishamlandi vinnubrögðum eins og að mynda einokun eða fákeppni. Hins vegar var verknaðurinn í upphafi veikburða og oft árangurslaus vegna óljóss orðalags.

Undir stjórn Theodore Roosevelt forseta (1901–1909) varð fyrst breyting á og byrjaði ríkisstjórnin að nota harkalega lögin um Sherman Antitrust Act til að brjóta upp einokun. Roosevelt hlaut viðurnefnið „Trust Buster“ fyrir að lögsækja stór fyrirtæki eins og Northern Securities Company (stór járnbrautarsjóður) árið 1904. Svo kom Clayton Antitrust Act (1914) sem styrkti viðleitni ríkisvaldsins enn frekar.

En það var ekki bara ríkið sem barðist á móti stórfyrirtækjunum, heldur líka almenningur á tímabilinu 1890-1920 en það einkenndist af víðtækri andstöðu almennings við einokun fyrirtækja, sérstaklega í atvinnugreinum eins og járnbrautum, olíu og stáli og voru blaðamenn þar fremst í flokki í andstöðunni.

Theodore Roosevelt er ef til vill frægasti forsetinn sem sem barðist á móti auðhringjunum. Hann notaði Sherman Antitrust Act til að afnema einokun og hann stuðlaði að "Square Deal" stefnu þar sem hann talaði fyrir ríkisafskiptum til að tryggja sanngjarna viðskiptahætti sem og fleiri forsetar í kjölfarið.

Dómskerfið hjálpaði svo til við að ráða niðurlögu auðhringina og þar var Hæstiréttur Bandaríkjanna framarlega.

Auk aðgerða með samkeppniseftirliti var stjórnvaldsreglugerð lykillinn að því að hefta einokunarhætti. Dæmi: Hepburn-lögin (1906) veittu ICC enn frekar vald til að ákveða járnbrautartaxta, sem dró úr eftirliti járnbrautareinokunarinnar á verðlagningu.

Niðurstaðan var jákvæð. Í upphafi 20. aldar drógu þessar umbætur verulega úr völdum einokunar, ýttu undir samkeppni og lögðu grunninn að nútíma lögum og reglugerðum um samkeppnislög. Upplausn risafyrirtækja eins og Standard Oil og Northern Securities sýndi fram á skuldbindingu stjórnvalda til að takast á við samþjöppun fyrirtækja, merki um breytingu í átt að stjórnaðra kapítalískum hagkerfi.

En þetta er ekki gert í eitt skipti fyrir öll, það þarf stöðugt að vera vakandi fyrir einokunartilburði. Hér á Íslandi er það ekki einokun, heldur fákeppni, á matvörumarkaði, tryggingamarkaði, flutningamarkaði, bankamarkaði o.s.frv. Þarna er ríkisvaldið ekki að standa sig að fylgja eftir leikreglum markaðshagkerfisins. Úr því að ríkið stendur sig ekki, er eina von almennings að einhver einkaaðili stígi inn í og rjúfi fákeppnina eins og sjá má með Prís. Í íslenskri fákeppni er nefnilega "hálf" samkeppni. Það er keppt innbyrðis en innan ákveðina marka!  Þeigandi samkomulag að verðið sé svona.  Ef til vill má kalla þetta ósýnilega hönd markaðarins á neikvæðan hátt. Hún er í sjálfu sér ekki til, heldur má tala um hjarðhegðun markaðarins.

 

 

 

 

 

 


Ósannindi fjölmiðla og samfélagsmiðla

"Lýgin gerir yður sízt ófrjálsari en sannleikur. Lýgi er að minnsta kosti jafnörugg leið að marki einsog sannleikur. Það er að segja, illa predikuð lýgi verður náttúrlega heimaskítsmát fyrir vel predikuðum sannleik. En sannleikurinn kemst ekki uppi moðreyk fyrir vel predikaðri lýgi."

Vefarinn mikli frá Kasmír eftir Laxness, frá 1927
 
Þessi vísiorð eiga um marga eða suma fjölmiðla og samfélagsmiðla í dag sem virðast vera að þjóna öðrum tilgangi en að upplýsa almenning. Alltaf eru annarlegar hvatir sem liggja á bakið fréttaflutning þeirra eða hagsmunir hópa. 
 
Sjá má þetta með Facebook en í ljós hefur komið í þingyfirheyrslum í Bandaríkjunum nýverið að samfélagsmiðillinn leyfði stjórn Joe Bidens að ritskoða andstæðinga sinna. Þetta er bein ógnun við lýðræðið, stundum líka lýðheilsu eins og kom í ljós í Covid faraldrinum og í öðrum málum.
 
Það eru ekki góðar fréttir að samfélagsmiðillinn X er bannaður í Brasilíu. Ef það er ekki ritskoðun, þá hvað? Nóta bene, vinstri menn stjórna landinu í dag og líkt og með kollega þeirra í öðrum löndum, eru þeir ávallt tilbúnir að þagga niður í andstæðingum sínum. Er þetta tilviljun eða stendur þetta í sambandi við yfirlýstan stuðning Musk við Trump? Sjá þessa viðleiti hjá vinstri mönnum hjá fv. forsætisráðherra Íslands sem vildi setja "málfrelsinu" skorður með haturorðræðu heftun.
 
Ákveðin þöggun er í gangi hjá íslenskum fjölmiðlum um íslensk málefni en jafn slæmt er að erlendar fréttir eru þýddar án gagnrýna hugsun. Heimildir íslensku fjölmiðla eru oft umhugsunarverðar, sérstaklega varðandi bandarískar fréttir sem bloggritari þekkir best til.
 
Góðu fréttirnar eru að internetið með allt sitt podcast og frjálsa umræðu hefur tekið yfir sem helsti vettvangur og leit fjölmiðla neytenda að fréttaefni. Sumir frægir fréttamenn sem hraktir hafa verið úr störfum sínum, svo sem Tucker Carlson eða Bill OReilly, stofnuðu eigin fréttaveitur og er jafnvel stærri en þeir voru er þeir voru í vinnu fyrir stór fjölmiðlina. Dýptin í umræðunni jafnvel meiri en þeir láta engin tímamörk stjórna samræðum við viðmælendur.
 
Örsmáir fjölmiðlar, sem saman standa af nokkrum einstaklingum, gefa út net fjölmiðla, oft án mikils stuðnings eða auglýsinga tekna, eru gefnir út.
 
Hér er t.d. einn glærnýr, Þjóðólfur - Þjóðólfur
 
Hér er annar, Fréttin - Fréttin
 
Svo er það Heimildin - Heimildin
 
Viljinn - Viljinn
 
Aðrir smá miðlar hafa runnið undir sama hatt, svo sem Eyjan og Pressan undir DV - DV.
 
Niðurstaðan er því að maður verður að velja út fleiri en einn fjölmiðil til að reyna að fá sanna mynd af atburðum samtímans.  Það vita allir sem er, að margir fjölmiðlar eru áróðurs stofnanir ákveðina hagsmuna. Það eru eigendurnir sem vilja ráða heimsýn okkar borgaranna. Eigum við að trúa þeim?

Dýrt að reka eina eftirlitsflugvél?

"Jón Gunn­ars­son, alþing­ismaður í Suðvest­ur­kjör­dæmi og fyrr­ver­andi dóms­málaráðherra, seg­ir óheppi­legt ef til­lög­ur að hagræðingu í rekstri Land­helg­is­gæsl­unn­ar sem hann lét vinna fyr­ir ráðuneytið séu ekki til skoðunar. Spara megi háar fjár­hæðir með öðru rekstr­ar­formi í eft­ir­lits­flug­inu og nefn­ir hann 400-600 millj­ón­ir á ári í því sam­bandi..." Dýrt að reka eina vél

Já það kostar sitt að reka sjálfstætt ríki og gæta efnahagsöryggi þess. Sjálfstætt ríki ber skylda að gæta að öryggi. Gæsluvélin á jú að gæta fiskimiðin og öryggi sjómanna. En hún er notuð langtímum saman annars staðar, við eftirlit á Miðjarðarhafi, bara vegna vanfjármögnun.

Það er ótrúlegt að Jón skuli vekja athygli á þessu og vilja vélina feiga, því að dómsmálaráðherra hefur áður verið gerður afturrekur með svipaða tillögu. Það er enginn vilji meðal sjómanna né íslensku þjóðarinnar að minnka umsvif Landhelgisgæslunnar sem hefur verið í lamasessi um árabil. 

Forstjóri gæslunnar segir að stór hluti landhelginnar sé eftirlitslaus sem og firðir landsins. Smyglarar eiga greiða aðgang að landinu eftirlitslausir. Öryggi sjómanna er stefnt í hættu. Sama á við um þyrluflota gæslunnar, aðeins tvær þyrlur eru til taks 200 daga ársins. Vita vart hvað gerist inni á fjörðum

Það er hægt að spara og hagræða víða í ríkisbálkninu, t.d. nýstofnaða Mannréttindastofnun Íslands (hvað í ósköpunum mun fólkið sem starfar þar gera allan daginn?). Öryggi- og varnarmál eru bara ekki tekin alvarlega á Íslandi. Fyrirhugað Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála fæddist andvana, það var ekki til fjármagn til að stofnseta það.

Vill Jón ekki bara láta Bandaríkjaher reka líka Landhelgisgæsluna?


Flokksforysta Sjálfstæðisflokksins ennþá í fílabeinsturni

Flokksráðsfundur í skugga skoðanakannana kallar Jón Magnússon grein sína um fund Sjálfstæðismanna í gær. Lýsing hans á fundinum er dálítið merkileg og lýsir eftir vill hvernig lýðræðið er innanborðs.

Grípum inn í frásögn hans sem er hérna á blogginu.

"Sjálfstæðisflokkurinn státar af því einn íslenskra flokka að geta haldið fjöldasamkomur eins og Flokksráðsfundi og Landsfundi með slíkum glæsibrag, að fólki líði vel og nýtur samvista við vini sína og flokksfélaga jafnvel þó að ágreiningur kraumi undir niðri eða komi upp á yfirborðið."  Þarna er eins og hann sé að lýsa gamla Sjálfstæðisflokknum, þar sem grasrótarhreyfingar innan flokksins, þótt hann hafi þá verið risastór og með 1000 manna landþing, gátu komið og hreyft mál á vandamálum sem flokkurinn er að fást við.  Kíkjum aftur á grein Jóns:

"Nú er sá tími liðinn, að almennir fundarmenn geti farið í ræðustól á Flokksráðsfundi. Einu almennu umræðurnar fóru fram milli þeirra sem sátu við sama borð. Markviss málefnaumræða og/eða gagnrýni fékk því ekki rúm á fundinum."  Þarf að segja eitthvað meira um vanda Sjálfstæðisflokksins?  Flokksforystan situr við háborðið og furstinn í hásætinu. Þessi forysta býr í fílabeinsturni. Þótt allt logi í kringum turninn, fær aðeins  kóngurinn, afsakið, formaðurinn að halda flotta ræðu en aðrir "minions" örræður.

Svo veruleikafirrt er elítan, að sumir innan hennar eru farnir að láta sig dreyma um hásætið.  En kóngurinn er búinn að segja að sama hvað tautar eða rölar, hann ætli að sitja út tímabilið. Hann veit sem er, að hirð hans á þingi um minnka um meira en helming ef hann yfirgefur hásætið og hann kominn út á götuna, eða réttara sagt í stjórn fyrirtækis.

Það var viðtal við krónprisessuna sem segist vera tilbúin að setja í hásætið, þegar röðið kemur að henni. Afrekslistinn hennar er stuttur en afdrifaríkur. Hún fór í víking með öðrum riddurum hringborðsins austur í Kænugarð, kom fagnandi með vopn, klæði og gilta sjóði. Vei Bjarmalands konungi sem er að herja á bræður sína í Garðaríki. Hún var svo hugrökk að hún reif kjaft og sleit samskipti við þann kóna, rak erindreka hans úr landi, allt á meðan hún faldi sig bakvið víkingakónginn sem fer fyrir þann hernað.

Það er bara þannig, jafnvel eins og með risaskip eins og Títaník, þegar það byrjar að sökkva, getur ekkert náttúruafl stöðvað það. Sá kafteinn ákvað að fara niður með skipi sínu. Hvað með formann Sjálfstæðisflokksins? Hann er búinn að fá mörg skeyti um að það eru ísjakar framundan. Hvað gerir hann? Verður annar kapteinn dreginn fram 6 mánuðum fyrir kosningar og hann fer niður með áhöfn og skipi?


Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála andvana fætt?

Það er ekki annað en að sjá að rannsóknarsetrið hafi ekki verið stofnað samkvæmt þingsályktunar um rannsóknarsetur öryggis- og varnamála.  Það hafi ekki fengist fjármagn fyrir stofnsetningu stofnunnar var mér sagt. Það er ekki góðar fréttir, þótt bloggritari hafi talað gegn rannsóknarsetrinu á þeirri forsendu að það væri betra sett undir hatt endurreistrar Varnarmálastofnunar Íslands. Væri ríkisstofnun, ekki háskólastofnun og væri hluti af stærri starfsemi. En það er betra að hafa einhverja stofnun en enga.

Engin innlend sérfræðiþekking er því fyrir hendi í landinu og engin rannsóknarvinna er unnin sem er nauðsynleg á hverjum tíma. Að sjálfsögðu höfum við Íslendingar herfræðimenntaða menn en þeir eru fáir, dreifðir og e.t.v. ekki í réttum stöðum.  

Bloggritari sendi inn umsögn um þingályktunina og hún er eftirfarandi:

Dagsett: 28. febrúar, 2023

Efni: Umsögn um þingskjal 139: Tillaga til þingsályktunar um rannsóknasetur öryggis- og varnarmála

Ég tel, líkt og tillöguflytjendur, brýna þörf vera á að styrkja rannsóknir á sviði utanrÍkis- og öryggismála á Íslandi. En hins vegar tel ég að hvorki sé stigið nógu stórt skref né rétta. Rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála er framfaraskref en sem rannsóknarstofnun fyrir ríki per se er hún veik undir umsjónarvaldi háskólastofnunnar.

Ég tel brýnt að framkvæmdarvaldið, annað hvort undir stjórn Utanríkisráðuneytisins og undir hatt varnarmálaskrifstofu, eða Landhelgisgæsla Íslands, sem fer með framkvæmd varnarsamingsins og varnartengd verkefni, sjái um þessa nauðsynlegu rannsóknarvinnu. Best væri að sérstök varnarmálastofnun sæi um rannsóknarvinnuna.

Þann 27. október, 2005, reifaði ég fyrstur Íslendinga í blaðagrein þá hugmynd að koma á fót íslenska varnarmálastofnun.

Sjá eftirfarandi slóð: Um stofnun varnamálastofnunar

Þar sagði ég um samingaviðræður íslenskra stjórnvalda við bandaríska varnarliðið sem var þá á förum og raungerðist 2006:

"Engra grundvallarspurninga er spurt í þessu samningaferli né þeim svarað, s.s. hver er framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda í varnarmálum? Ætla þau sér að láta Bandaríkjaher annast landvarnir næstu 10 árin eða 50 ár...? Eru kannski aðrir valkostir í stöðunni, sem kynnu e.t.v. að myndast, t.d. með stofnun Evrópuhers? Eru varnir Íslands undir samningum við Bandaríkin komnar eða ber fyrst og fremst að líta á þær sem einkamál Íslendinga, sem þeir verða að ræða og koma sér saman um áður en talað er við vinaþjóðir? Ef svo er, þ.e.a.s. að varnarmálin séu í raun fyrst og fremst einkamál Íslendinga, þá er ljóst að fræðilegar umræður skortir sem og sérfræðinga á sviði varnamála og hvers vegna skyldi standa á því? Jú, það er ekki til nein stofnun hér á landi sem getur tekist á við slík mál."

Síðar í blaðagrein minni sagði ég:

"Hér er varpað fram þeirri hugmynd hvort ekki sé tímabært að koma á fót sérstakri varnamálastofnun. Fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna, James I. Gadsden, kom með þessa hugmynd áður en hann lét af embætti og er hún athyglisverð. Slík stofnun myndi tvímælalaust styrkja stöðu okkar innan NATÓ sem og samskiptin við bandalagið. Hún yrði skipuð hæfum sérfræðingum og gæti skapað fræðilegar umræður og staðið fyrir ráðstefnuhaldi og leiðtogafundum. Hún sæi um stefnumótun og framkvæmd ýmissa mála sem snerta beint varnarmál landsins en einnig mál sem gerast á alþjóðavettvangi. Hér má nefna að slík stofnun, sem gæti verið innan vébanda utanríkisráðuneytisins, væri mikill styrkur ef Íslendingar gengu í öryggisráð SÞ. Ef til vill hefði mátt koma í veg fyrir að Íslendingar hefðu dregist inn Í klúðrið kringum Íraksstríðið ef stjórnmálamennirnir hefðu fengið viturleg ráð. Önnur verksvið hennar gætu t.d. verið landvarnaræfingar, s.s. Samvörður og Norður-víkingur, almennar almannavarnir, verkefni tengd leyniþjónustustarfsemi, samstarf við friðargæsluna auk fræðilegra rannsókna og ótal annarra verkefna."

Með öðrum orðum lagði ég til að slík varnarmálastofnun sæi um rannsóknarvinnu tengdri öryggis- og varnarmálum. Ég tel eðlilegra að íslensk stjórnvöld sjái um slíka rannsóknarvinnu en háskólastofnanir enda ein af grundvallarskyldum ríkisvaldsins sjálfs, ekki háskólastofnanna.

Ég tel farsælast að tillöguflytjendur endurskoði málið aðeins betur og komi frekar með tillögu um endurreisn Varnarmálastofnunar Íslands sem ég hafi verið mikið óheilaskref að hafa verið lögð niður. Innan veggja slíkrar stofnunar væri öryggis- og varnarmálastefna Ísland mörkuð til framtíðar út frá öryggishagsmunum Íslendinga sjálfra, ekki annarra þjóðar sem og tilheyrandi rannsóknarvinna. Eins og staðan er í dag, eru það bandarískir hershöfðingjar og hernaðarsérfræðingar bandríska hersins sem ákveða hvað teljist vera íslenskir öryggishagsmunir, ekki

Íslendingar sjálfir sem hafa ekki þá þekkinguna sem til þarf. Sem sjálfstæð þjóð, ættu Íslendingar að hafa frumkvæðið að eigin vörnum og bera þá ábyrgð sem sérhvert fullvalda ríki ber að taka á sig í varnarmálum.

Virðingarfyllst, Birgir Loftsson, sagnfræðingur

---

Svo mörg voru þau orð. Enn verðum við því að reiða okkur á mat erlendra sérfræðinga um varnaþörf Íslands. Er það viturlegt?


Litróf stjórnmálanna á Íslandi - ekki er allt sem sýnist...

Nú fatast Sjálfstæðisflokkurinn flugið um þessar mundir og er orðinn þriðji stærsti flokkurinn samkvæmt skoðanakönnunum. Er Sjálfstæðismenn eru spurðir í fjölmiðlum hverjum er að kenna, er bent á allt annað en flokksforystuna.  Til dæmis að flokkurinn geldur þess að mynda breiðfylkingu með VG og Framsóknarflokknum. Hver segir það að flokkurinn þurfi að vera í ríkisstjórn með gjör ólíkum flokkum? Að flokkurinn standi ekki með sjálfum sér og sínum stefnumálum? Er það ekki á ábyrgð stjórnarelítuna að marka stefnuna og ákveða hvort setið sé í ríkisstjórn eður ei?

Auðvitað beinist kastljósið að flokksforystunni og þær ógöngur sem hún hefur skapað.  Hún ein ber alfarið ábyrgð. Almennir flokksmenn er löngu búnir að gefast upp á forystuleysi elítunnar í Sjálfstæðisflokknum og eru farnir annað. Bara allt annað en þessi hörmung....

Upphaf ófaranna má rekja til flokksþingsins 2015 þegar hægri menn í flokknum voru hraktir öfugir úr flokknum en síðan þá hefur de facto flokkurinn verið stefnulaus vindhani eins og sá sem er á kirkju Bessastaðakirkju. Er ekki eitt eða neitt og snýst eftir vindátt hverju sinni. Hann mun hljóta sömu örlög og Íhaldsflokkurinn breski, algjört afhroð í næstu Alþingis kosningum. Ekki dugar að staga í stögóttum sokkum útlendingamála til að laga ásýnd flokksins. Hljóð og mynd fara ekki saman.

Þá eru við komin að kannski eina sanna hægri flokk landsins - Miðflokknum. Hann er hægri flokkurinn í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn var stofnaður árið 2017 af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins eftir valdarán núverandi formann Framsóknarflokksins.

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn rekur sósíaldemókratíska stefnu fer fylgi hans yfir til Miðflokksins. Af hverju má skilgreina Miðflokkinn sem hægri flokk?

Miðflokkurinn leggur áherslu á íhaldssöm gildi, þjóðernishyggju, og ríkisborgararéttindi. Flokkurinn hefur talað fyrir takmörkun á innflytjendamálum, auknum áherslum á íslenska menningu, og sjálfstæði Íslands í alþjóðamálum. Í efnahagsmálum hefur flokkurinn verið hlynntur markaðslausnum en einnig bent á mikilvægi innlendra hagsmuna og landbúnaðar. Þessi stefnumál staðsetja Miðflokkinn hægra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum. Ekkert athugavert við þessa stefnu nema menn séu á móti Íslendingum, íslenskri menningu og tungu.

Svo er það með hina flokkana. Hvar er Samfylkingin sem virðist vera að skipta um kúrs og til hægri. Er hún hægri flokkur? Nei, Samfylkingin er ekki hægri flokkur. Samfylkingin er vinstrisinnuð stjórnmálahreyfing á Íslandi og hefur yfirleitt verið flokkuð sem sósíaldemókratískur flokkur. Flokkurinn leggur áherslu á velferðarkerfi, jöfnuð, og réttlæti, ásamt því að vera almennt hlynntur auknum ríkisafskiptum í efnahagsmálum. Þetta staðsetur Samfylkinguna vinstra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum.

Hægri flokkar, á hinn bóginn, leggja oftar áherslu á markaðsfrelsi, minni ríkisafskipti, og persónulegt frelsi í efnahagsmálum. Flokkar á hægri vængnum á Íslandi eru til dæmis Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn og jafnvel Flokkur fólksins.

Píratar eru allt og ekkert. Samkallaður stjórnleysingjaflokkur. Þeir eru almennt taldir vera vinstri flokkur í íslenskum stjórnmálum, þó að flokkurinn sé óhefðbundinn og oft ekki auðvelt að staðsetja nákvæmlega á hefðbundnum vinstri-hægri ási.

Píratar leggja mikla áherslu á borgaraleg réttindi, beint lýðræði, gagnsæi í stjórnsýslu, og persónuvernd. Þeir eru hlynntir frelsi á netinu, auknu aðgengi að upplýsingum, og verndun mannréttinda. Í efnahagsmálum hallast flokkurinn til vinstri, með áherslu á jöfnuð og velferðarkerfi, þó að hann sé líka hlynntur nýsköpun og tækniframförum sem gæti haft þverpólitísk áhrif.

Þar sem Píratar leggja áherslu á jöfnuð og réttindi, eru þeir oft flokkaðir sem vinstrisinnuð hreyfing, en sum stefnumál þeirra eru ekki eins auðveldlega flokkanleg innan hefðbundinna vinstri-hægri skilgreininga.  En þeir geta seint talist hafa hægri áherslur, ef til dæmis er tekið mið af stefnu þeirra í málefnum hælisleitenda, lögreglu og öryggi ríkisins. Þeir nenna aldrei að tala fyrir hönd atvinnulífsins eða kapitalisma. Hafa bara ekki áhuga á efnahagsmálum enda upp til hópa tölvunördar. Stefnuskrá þeirra bókstaflega rúmast á einu A-4 blaði! Kíkið á vefsetur þeirra ef þið trúið þessu ekki. Enginn formaður og stefnan er eftir því hverjir eru í þingliði flokksins hverju sinni. Vindhanastefna.

Hér er ráðherra Sjálfstæðismanna að verja það sem ekki er hægt að verja en reynir samt: 

Fólk tali um flokksforystu eftir hentugleika


Endanleg ábyrgð á lélegri stjórn ríkis og sveitafélaga er kjósenda

Íslendingar, a.m.k. þeir sem láta sig varða opinber mál, kvarta sáran um lélega stjórn ríkis og/eða sveitafélaga. Það er ekki spurning að bæði ríki og mörg sveitarfélög eru illa rekin, sjá má það í endalausum hallarekstri. Sveitarfélög með skuldasöfnun upp við hámarks viðmið skulda, sem nóta bene er búið að hækka úr 150% í 200%.  Ef þakið hefði ekki verið hækkað, væru mörg sveitarfélög, þar á meðal Reykjavíkurborg, komið undir stjórn Samtaka sveitafélag og fjármálanefndar hennar sem tæki yfir reksturinn.

Tveir stærstu aðilarnir, ríkið og Reykjavíkurborg, það síðarnefnda skagar upp í ríkið með veltu og umsvif, eru rekin með miklum halla og hafa verið lengi. Menn bölva en gera lítið. Ekki er ætt út á götu í mótmæli, það er bara þagað.

En það er kjósenda að skipta um stjórnendur. Því miður er bara hægt að reka þá á fjögurra ára fresti og því miður hefur stór hluti kjósenda gullfiska minni.

En svo er það, að fólk kaupir köttinn í sekkinn. Það kýs X flokk, til þess að Y flokkur komist ekki til valda. En svo ákveða X og Y að mynda samsteypustjórn, þvert á litróf og ás stjórnmálanna.

Ef kjósandinn kýs Sjálfstæðisflokkinn, er hann þá óbeint að kjósa VG til valda í landsstjórn? Hver ímyndaði sér að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík myndi svíkja umbjóðendur sína, eftir að hafa boðið breytinga, og farið í sömu sæng og Samfylkingin og aðrir vinstri flokkar í borginni? Vilji kjósenda var skýr, þeir vildu breytingar en fengu ekki. Verður Framsókn refsað í næstu kosningum?

Bjarni Benediktsson, sem veit að umboð ríkisstjórnar hans er ekkert samkvæmt skoðanakönnunum, segist ætlað að sitja út kjörtímabilið. Ekki er hægt að reka hann eða félaga hans fyrr en á næsta ári.

Ísland er eins og mörg önnur vestræn ríki á villigötum með margt. Í efnahagsmálum, hermálum og menningarmálum er stefna Íslands á við önnur vestræn ríki, þá helst í Vestur-, Suður- og Norður-Evrópu.  Púðurtunnan Evrópa, á eftir að springa aftur þegar hljóð og mynd fara ekki saman. Sjá má þetta nú þegar í Frakklandi, Svíþjóð og Bretlandi. Það vantar skörunga í stjórn landsins.


Verðlagshöft í sögunni, Kamala Harris og verðstjórn í íslenskri sögu

Demókratar hafa aldrei verið eins vinstri sinnaðir og í dag. Sögulega séð hafa þeir verið rétt vinstri megin við miðjuna en síðan Joe Biden tók við sem forseti (já, hann er þarna einhvers staðar á bakvið tjöldin), og forsetaefni þeirra, Kamala Harris, sem hefur ekki fengið eitt einasta atkvæði kjósenda demókrata í forkjöri, hafa þeir verið á jaðri þess að vera kommúnistar og virðist Harris ætla að slá karlinum við.

Demókratar berjast fyrir öllum helstu gildum sósíalista, svo sem ríkisbálkn og miðstýring, heftun málfrelsis og lýðræðis, verðstýringu, ríkisyfirráð yfir fjölskyldumálum, ættbálka stefnu (hópum beint gegn hvorum öðrum), niðurgreiðslur fyrir valda hópa, hærri skatta, endalaus stríð, afglæpavæðing og niðurskurður til lögregluna, friðþæging við einræðisherra o.s.frv.

Svo miklir sósíalistar eru þeir orðnir að Robert F. Kennedy, sem var hrakinn úr Demókrataflokknum er genginn í lið með Repúblikanaflokknum og Donald Trump. Hann hefur verið fulltrúi hefðbundina gilda demókrata, þótt hann hafi gengið mjög langt í mörgum málaflokkum sem kalla má umdeilt.

En hér er ætlunin að fjalla um verðstjórn í sögulegu samhengi, hugmyndir Kamala Harris og verðstjórn í íslenskri sögu. Byrjum á sögunni.

Verðlagshöft eiga sér langa sögu og hefur verið deilt um áhrif þeirra á hagkerfi öldum saman. Þau eru venjulega útfærð sem leið til að vernda neytendur gegn of háu verði, sérstaklega á krepputímum eða í nauðsynlegum geirum eins og húsnæði eða orku. Hins vegar hefur söguleg niðurstaða verðlagsaðgerða oft verið neikvæð. Byrjum á frægasta dæminu sem kemur frá Rómaveldi en sömu sögu má einnig segja um kínverska sögu og á Íslandi á miðöldum og árnýöld.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa langan texta, þá er hægt að segja í stuttu máli að verðlagsstjórn leiðir til svarta markaðs, spillingu og enn meiri verðbólgu sem verðstjórnin var beint gegn!

Eitt af elstu dæmunum um verðstýringu er að finna í Róm til forna, þar sem Diocletianus keisari innleiddi tilskipunina um hámarksverð árið 301 e.Kr. til að stemma stigu við hömlulausri verðbólgu. Afleiðingin var útbreiddur skortur, svartur markaður og samdráttur í gæðum vöru, þar sem framleiðendur gátu ekki lengur framleitt eða selt með hagnaði á tilsettu verði.

En Repúblikanar eru ekki alsaklausir á 20. öldinni. Í Bandaríkjunum setti Richard Nixon forseti á launa- og verðlagseftirliti til að reyna að berjast gegn verðbólgu. Í upphafi náðist nokkur árangur við að hemja verðbólgu, en með tímanum leiddu þessi höft til skorts, minnkandi framleiðslu og tilkomu svartra markaða. Þegar höftunum var aflétt jókst verðbólga og efnahagslífið stóð frammi fyrir samdrætti.

Sósíalistar á Íslandi hafa gælt við húsaleigu verðþaks. Í New York borg var þetta reynt og er við lýði eftir því sem bloggritari veit. Leiguverðs þaks hefur verið innleitt í borgum eins og New York til að bjóða húsnæði á viðráðanlegu verði. Þó að það hjálpi til við að halda leigu lægri fyrir suma leigjendur, hefur það einnig verið tengdir skertu framboði húsnæðis, versnandi gæðum húsnæðis og minni hvata til nýbygginga, sem leiðir til húsnæðisskorts með tímanum.

En hver er hugmyndafræðin á bakvið verðlagseftirlit og -stjórnun?Þegar stjórnvöld setja verðþak (hámarksverð) er ætlunin að gera vörur eða þjónustu  aðgengilegt á viðráðanlegu verði. Hins vegar, ef þakið er sett undir markaðsjafnvægisverð, getur það leitt til skorts. Framleiðendum gæti fundist óarðbært að útvega vöruna, sem leiðir til minnkandi framleiðslu. Neytendur geta staðið frammi fyrir löngum röðum, biðlistum eða geta alls ekki fundið vöruna. Og svo er það hinn hliðin á krónunni - verðgólf. Það (lágmarksverð) getur leitt til samdrátt atvinnumarkaði. Til dæmis geta lög um lágmarkslaun, þótt þau séu ætluð til að tryggja að launþegar fái lífvænleg laun, leitt til aukins atvinnuleysis ef vinnuveitendur hafa ekki efni á að ráða jafn marga starfsmenn á hærri launum.

Neikvæðar afleiðingar verðlagseftirlits eru margar. Fyrst og fremst er það skortur. Verðeftirlit leiðir oft til skorts þar sem birgjar draga úr framleiðslu eða draga sig alfarið af markaði. Til dæmis, í olíukreppunni á áttunda áratugnum, leiddi verðeftirlit til bensínskorts í Bandaríkjunum, sem leiddi til langar biðraðir á bensínstöðvum og skömmtun.

Svartir markaðir verða til. Þegar lokað er á opinbert verð, en eftirspurn er enn mikil, koma oft svartir markaðir fram. Vörur kunna að vera seldar ólöglega á hærra verði, sem stangast á við tilgang eftirlitsins og getur leitt til frekari efnahagslegrar röskunar.

Enn ein afleiðing verðlagshafta er minni fjárfesting. Í greinum eins og húsnæði getur húsaleigueftirlit dregið úr fjárfestingum í viðhaldi fasteigna og nýbyggingum, sem leiðir til versnandi gæðum húsnæðis og langtímaskorts á húsnæði á viðráðanlegu verði.

Þeir vilja beita verðlagseftirlit hafa þau rök að þetta sé neytendavernd. Í þeim tilfellum þar sem einokun eða fákeppni stjórna nauðsynlegum vörum eða þjónustu, getur verðeftirlit verndað neytendur gegn misnotkunarverðlagningu. Til dæmis, meðan á náttúruhamförum stendur, koma verðlagslög (eins konar verðstýring) í veg fyrir að fyrirtæki taki óhóflegt verð fyrir nauðsynlega hluti eins og vatn eða bensín og um tímabundin léttir sé að ræða. Á krepputímum geta tímabundnar verðstýringar veitt neytendum tafarlausa léttir með því að halda nauðsynlegum vörum á viðráðanlegu verði. Hins vegar er þessum ráðstöfunum venjulega ætlað að vera skammtímalausnir.

En Milton Friedman og flestir hagfræðingar hafa rústað þessum rökum og bent á að markaður, ef hann er látinn í friði, jafnar þetta út. Svarti markaðurinn er í raun kapitalískur markaður sem er tekinn ólöglega upp þegar höft og ánauð er beitt á markaðinn og hann starfar samhliða ófrjálsa markaðinum. Hann vinnur alltaf.

"Efnahagssnillingurinn" Kamala Harris og Biden-stjórnin hafa lagt til ráðstafanir eins og lyfjaverðseftirlit, sérstaklega til að gera nauðsynleg lyf á viðráðanlegu verði. Þessar tillögur hafa vakið umræðu þar sem stuðningsmenn halda því fram að þær séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að lyfjafyrirtæki hagnýti sér neytendur, á meðan gagnrýnendur vara við hugsanlegum neikvæðum afleiðingum, svo sem minni fjárfestingu í lyfjarannsóknum og -þróun, eða skorti á nauðsynlegum lyfjum. og nú vill hún verðlagshöft á matvæli! hvernig ætli það endi???

Verðlagsstjórn á Íslandi

Bloggritari hefur bent á að á Íslandi eru merki um mikla sósíalíska stýringu og forræðishyggju stjórnvalda. Ef til vill er það megin ástæðan, þrátt fyrir gjöful fiskimið, óendalega mikla orku og nátttúrugæði, hefur landinu verið illa stýrt síðan það fékk sjálfstæði.

Ísland hefur eigin reynslu af verðlagseftirliti, sérstaklega á tímum efnahagskreppna. Byrjum í seinni heimsstyrjöld en í raun má fara aftur til miðalda og byrja að rekja söguþráðinn þangað en hér er enginn tími til þess. Í stuttu máli: Verðlagsstjórnun íslenska miðaldarsamfélagssins og merkantalísminn á árnýjöld leiddi til staðnaðs samfélags, bæði efnahagslega og félagslega.

Aftur á 20. öld. Í seinni heimsstyrjöldinni innleiddi Ísland, eins og mörg önnur lönd, strangt verðlagseftirlit og skömmtun til að stjórna skorti á nauðsynjavörum. Þar sem Ísland var mjög háð innflutningi á mörgum vörum truflaði stríðið verslunarleiðir verulega og leiddi til skorts.

Verðlagseftirlitinu var ætlað að halda nauðsynjavörum á viðráðanlegu verði og koma í veg fyrir verðbólgu. Hins vegar, eins og í öðrum löndum, leiddi þetta eftirlit til svartra markaða þar sem vörur voru seldar á mun hærra verði. Þrátt fyrir eftirlitið voru miklar þrengingar, þar á meðal skortur á mat og öðrum nauðsynjum, til marks um erfiðleikana við að stjórna hagkerfinu á tímum alvarlegs ytra áfalls.  Allir muna eftir skömmuntartímabilsins eftir styrjöldina og spillinguna, biðraðirnar og skortsins sem þá var viðvarandi lengi vel.

Enn og aftur grípa Íslendingar til verðlagshafta í efnahagskreppunni 1980. Í lok áttunda áratugarins og snemma á níunda áratugnum var mikil verðbólga á Íslandi og fór hún stundum yfir 40% árlega. Til að bregðast við því gripu íslensk stjórnvöld til ýmissa verðlagsráðstafana til að reyna að stemma stigu við verðbólgu.

Eins og búast mátti við voru afleiðingar afleiddar. Verðlagshöftin á þessu tímabili voru að mestu ómarkviss til að stöðva verðbólgu. Þær leiddu til rangrar ráðstöfunar auðlinda, skorts á sumum vörum og röskunar á eðlilegri markaðsstarfsemi. Höftin stuðluðu að efnahagslegri óhagkvæmni og tóku ekki á undirliggjandi vandamálum sem ýttu undir verðbólgu, svo sem óhóflegan vöxt peningamagns og ytri efnahagsþrýsting.

Íslenskir hagfræðingar lærðu ekki af sögu 20. aldar. Sjá má þetta í fjármálakreppunni eftir 2008. Hún hafði alvarleg áhrif á efnahag Íslands, innleiddu stjórnvöld gjaldeyrishöft til að koma á stöðugleika í gjaldmiðlinum og koma í veg fyrir fjármagnsflótta. Þó að þetta hafi ekki verið hefðbundið verðlagseftirlit, hafði það svipuð áhrif með því að skekkja markaðinn og leiddu til tilbúins verðstöðugleika í sumum greinum. Er einhver búinn að gleyma aflandskrónunni?

Þó gjaldeyrishöft hafi hjálpað til við að koma á stöðugleika í hagkerfinu til skamms tíma, sköpuðu þau einnig langtímaáskoranir, þar á meðal minni erlenda fjárfestingu og erfiðleika við að komast á alþjóðlega markaði. Höftunum var að lokum aflétt, en þau varpa ljósi á margbreytileika og hugsanlega galla íhlutunarstefnu í efnahagsmálum.

Hver er stóri lærdómurinn af verðlagsstýringu stjórnvalda? Hann er sá að alltaf þegar stjórnvöld reyna að stjórna markaðinum, leiðir það til spillingu, skorts og svarta markaðs.


 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Feb. 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband