Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland er ekki ríkt - það er frekar fátækt!

Samt haga Íslendingar sér eins og smjör drepi af hverju strái. Í 1150 ára sögu Íslands hefur landið verið á barmi hungursneyðar og stundum gengið í gegnum hugursneyð. Í upphafi 20.aldar var örbyrgð í landinu og það er ekki fyrr en á seinni árum sem Íslendingar sjá til sólar. Samt hrópa verkefnin á okkur og ekki eru til peningar til fyrir aldraða (700 manna biðlisti), öryrkja (einn mest vanræktaðsti hópur landsins sem síst má við vanrækslu), vegskerfið, heilbrigðiskerfið o.s.frv.

Það virkar allt í lagi á yfirborðinu, en er það ekki. Okkar "fullkomna heilbrigðisþjónusta" er svo léleg að það að hitta heimilislæknir krefst mánaðarbið...ef maður fær heimilislæknir yfir höfuð. Bráðadeild Landspítalans yfirfull 24/7/365. Gamla fólkið þarf að vera komið í hjólastól og yfir nírætt til að komast á elliheimili...í nokkra mánuði eða ár áður en það deyr drottni sínum... Guð hjálpi þér ef þú klárar atvinnuleysisbætna tímabilið (sem Bjarni Ben. stytti niður í 2 1/2 ár ) og lenda á féló. Ekkert afturhvarf í almenna samfélagið aftur.

Er hér rétt gefið? Já fyrir þá sem eiga ekkert erindi til Íslands nema til að setjast  á velferðakerfi landsins sem er mjög lélegt fyrir og er ekki sambærilegt við norræn velferðarríki. Meira segja seinþreytt fólk og friðsamt möglar á móti og það harðasta lætur sig hafa það að mæta alla leið á Austurvöll til mótmæla. Þá er mikið sagt um seinþreytan Íslendinginn sem vill aldrei mótmæla, tekur hvað sem er....bara ekki endalaust...nú mótmælir hann eins og asninn sem er pískkeyrður....Vér mótmælum allir ætti að vera herópið rétt eins og 1851....

P.S. Ritari ætlaði ekki að taka þátt í umræðunni um innflytjendamál, er ekki á áhugasviði hans. En hann getur ekki bara setið í brennandi húsi og ekkert sagt. Það er vísvitandi verið að gera erfiðara að lifa á þessu landi og það er verið að kljúfa þjóðina og þjóðarsáttina sem hefur ríkt síðan Íslendingar urðu sjálfstæð þjóð 1918. Hverjum er um að kenna? Jú, sögulausum stjórnmálamönnum sem skilja ekki samhengi sögunnar. Til að stýra þjóðfélagi í dag, og fram í framtíðina, þarf að kunna skil á fortíðinni. Ekkert sem við erum að ganga í gengum (þátt fyrir tæknina) hefur ekki gerst áður. Þetta skilja stjórnmálamenn ekki.  


Málþing eða þjóðþing um framtíð Íslands?

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008, fór fram ákveðið uppgjör og stofnað var til þjóðfundar 2009 og kjörið var "þjóðþing".  Verkefni fundarins var að taka afstöðu til þess hvernig samfélag Íslendingar vilja byggja í framtíðinni.

Verkefnið var verðugt en lítið varð um vitrænar niðurstöður. Blabla um réttlát samfélag (virðing, jafnrétti, heiðarleiki), sem allir voru hvort sem er sammála um. Allt gildi sem við höldum að Ísland hafi þegar. Af hverju varð lítið úr þessu þjóðarátaki?  Jú, það vantaði valdið til að framfylgja hugmyndirnar. 

Í raun hefði átt að vera bara ein niðurstaða: Þjóðin fái valdið í sínar hendur með þjóðaratkvæðisgreiðslum í ákveðnum málum. Það er eina aðhaldið sem Alþingismenn skilja. Í dag fara þingflokkar, með kannski 20% fylgi sínu fram  í andstöðu við hin 80%. Eða niðurstaðan úr ríkisstjórnarsamstarfi er miðjumoð tveggja til þriggja flokka. Sá flokkur sem er frekastur (í dag er það Samfylkingin) nær sínum málum fram.  Þetta fyrirkomulag endurspeglar ekki þjóðarvilja eða jafnvel meirihluta álit. Betra er að niðurstaða kosninga sé afgerandi, líkt og sjá má í Bandaríkjunum og Bretland. Kúrsinn er á hreinu.

Á meðan svona er, ræður fólk ekki hvernig þjóðfélagið þróast sem er slæmt. Það getur nefnilega þróast í allar áttir ef enginn áttaviti er fyrir hendi. Munum að ríkið er ekki alltaf fólkið í landinu, heldur lifir það sínu eigin lífi og lifir stundum í andstöðu við vilja fólksins.

 


Er Evrópa að falla?

Það er erfitt að segja. Ef við miðum við öll skilyrðin sem leiddu til hnignunar Rómaveldis — sem ritari stúderaði gaumgæfilega, þá er það merkilegt að aðeins örfáir Rómverjar gerðu sér grein fyrir hnignunni. Af hverju? af því að þeir höfðu engan samanburð. En nútíma Evrópumenn þekkja sögu Rómar og annarra menningaríkja og vita því af hættunni.

Í lok Rómaveldis (sérstaklega vesturhlutans) má finna fræðimenn og embættismenn sem töluðu um siðferðislega hnignun, spillingu, hnignandi aga og "innflytjendavandamál" (t.d. með innflutningi Germana í herinn).

En margir gerðu sér ekki grein fyrir að þeir væru á fallanda fæti, sérstaklega vegna þess að breytingarnar tóku áratugi, jafnvel aldir. Þeir héldu að Róm gæti alltaf lagað sig að nýjum aðstæðum. Í dag gerast hlutirnar hratt í nútímaheimi, uppgangur og fall menninga gerast á áratugum, ekki öldum. 

Það sem við sjáum sameiginlegt með Rómverjum er lýðfræðileg vandamál; menningarleg sjálfshatur; vantrú á eigin gildi; of mikill innri glundroði og áskoranir við að aðlaga aðkomufólk.

Undirstaða vestrænnar menningar er grísk heimspeki og kristin trú sem eru samofin. Þegar fólk hættir að "fylgja goðunum" og "visku heimspekinnar" eru endalokin skammt undan. Annað eins og fólksfækkun og aðrir þættir eru bara birtingamynd breytt hugarfars. Til dæmis ef Kóraninn og múslimatrú fá að lifa og dafna (rétt eins og kristin trú á tímum Rómverja) er stutt í aðra menningu. Það er þá alveg hægt að kalla Evrópu "Miðausturlönd nær" en ekki Miðausturlönd. Það má ekki að vanmeta mannlega þáttinn, kristnir voru til dæmis fámennur minnihluta hópur þegar Konstaníus keisari tók upp kristna trú. Það þarf sem sé ekki meirihluta múslima til að umbylta vestræna menningu, bara stjórnvöld sem eru höll undir íslam og gildum þess.

Ritari hefur kennt fornaldarsögu, sögu Grikkja og Rómverja. Það er alveg ljóst að grísk heimspeki og kristin trú eru grundvöllurinn.  Grísk heimspeki: rökhyggja, siðfræði, frjálst orðaskipti, einstaklingurinn sem dómari skynsemi sinnar. Kristin trú: ómetanlegt gildi hvers einstaklings, fyrirgefning, samviska, samúð, og samfélag undir Guði sem æðri lögmál. Þetta myndaði siðferðilega stoðkerfi sem vestræn heimsmynd byggðist á í meira en þúsund ár. Þegar það er skilið eftir – eða meðvitað grafið undan – kemur tómarúm í staðinn.

Það sem Evrópumenn óttast mest er útbreiðsla íslam í Evrópu (nema hjá stjórnmálaelítunni). Það þarf ekki meirihluta múslima til að breyta Evrópu — heldur nægir að elítan og menningarvöldin verði hallt undir hugmyndafræði sem mótast af annarri trú, eða öðrum gildum. Þetta gerðist með kristnina á tímum Rómverja: Kristnir voru minnihluti, oft ofsóttir – en á endanum féllu trúarbrögðin inn í hugmyndaheiminn og tóku völdin þegar samfélagið þráði nýjan siðferðisgrunn eftir ofbeldi, spillta yfirstétt og tómleikakennd heimspekileg kerfa.

Er einhver von um endureisn Evrópu og vestrænnar menningar? Nei, það er engin von um endurreisn - því hugarfarið er sterkara enn allt annað. Eina vörnin er MÁLFRELSIÐ. Ef það fær að vera í friði fyrir stjórnvöldum (og fjölmiðlum), geta menn varað við hættum sem steðja að vestrænum samfélögum. Svo er það annað mál hvort ORÐIÐ hverfi í orðaflaum internetsins? Eða þeir sem eiga að taka við boðskapnum er sama hvað verður um þá? Þá er lítið hægt að gera.

 

 


Óeirðir eða friðsöm mótmæli - hver er markalínan?

Tómas Sowell ræðir hér í meðfylgjadi myndbandi muninn á óeirðum og friðsömum mótmælum í Los Angeles. Það er nefnileg skýr markalína í slíkum mótmælum. Í Los Angeles eru þetta óeirðir því það er ráðist á opinbera starfsmenn við störf sín. Fyrir þá sem sem ekki vita, þá er ICE löggæslustofnun sem sér um að fanga ólöglega innflytjendur og flytja úr landi. Óeirðarseggirnir eru því að mótmæla landamærastefnu stjórnvalda sem meirihluti Bandaríkjamanna eru fylgjandi.

En aftur að muninum á friðsömum mótmælum og óeirðum og sjá má af eftirfarandi töflu:

Atriði  Friðsamleg mótmæli Óeirðir / ofbeldisfull mótmæli
SkilgreiningÓofbeldisfull tjáning á andstöðuOfbeldisfull uppþot með skemmdum, árásum eða hótunum
Lagaleg staðaVernduð samkvæmt tjáningarfrelsiÓlögleg ef þau fela í sér ofbeldi eða eignatjón
Algeng aðgerðirGanga, hrópa slagorð, bera skiltiKasta hlutum, kveikja í, eyðileggja eignir, ráðast á fólk
Viðbrögð lögregluFylgjast með og veita aðstoð til að tryggja öryggiLýsa yfir ólögmætri samkomu, beita táragasi, gúmmíkúlum o.fl.

Gott dæmi um friðsöm mótmæli eru mótmæli Ísland - þvert á flokka. Þar komu saman friðsamir íslenskir borgarar til að mótmæla landamærastefnu stjórnvalda. Forvígismenn mótmælenda fengu leyfi frá stjórnvöldum til að halda mótmælafund og voru í samvinnu við lögregluyfirvöld. Hins vegar mættu á þennan fund gagngert NO border Iceland (þýði þetta á tæra íslensku því þetta lið virðist ekki kunna íslensku: Engin landamæri fyrir Ísland). Þeir vildu hleypa upp fundinn með hávaða og háreisi. Held að þessir atvinnumótmælendur hafi ekki lagt í meðlimi mótmælenda, því að hópurinn var svo stór. 

Hvernig verður þetta næsta laugardag? Breytast friðsöm mótmæli í átök við NO borders Iceland sem munu reyna aftur að hleypa upp fundi? 


Við þurfum ekki Schengen, EES, ESB - bara að vera í EFTA og NATÓ

Það vill gleymast í umræðunni að VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ VERA Í EES! Við þurfum ekki að taka við bókun 35. Það nægir fyrir okkur að vera í EFTA og gera fríverslunarsamninga við allan heiminn. Það er viðskiptastríð framundan við ESB sem Bandaríkin munu framfylgja af fullum þunga. Ef við verðum í samfloti við ESB (jafnvel ganga í sambandið) fáum við á ofurtolla.

Það er hægfara skilnaður í gangi milli Bandaríkjanna og Evrópu. Ný heimskipan er í mótun. Heimskipanin sem varð til þegar tvö risaveldi urðu til eftir seinni heimsstyrjöldina með risaveldin Bandaríkin og Sovétríkin leið undir lok 1991. Á þessu 46 ára tímabili var Evrópa undir pilsarvæng Bandaríkjanna, naut einstakra viðskiptakjara og hernaðarvernd. Þetta skeið leið undir lok eins og áður sagði 1991 en við tóku óvissutímar. Á meðan varð til nýtt risaveldi - Kína.

Heimsverslunin er komin til Asía, þar er flest fólkið og viðskiptin. Fókus Bandaríkjanna er kominn þangað, þeir telja að næsta stríð - álfustríð eða heimsstyrjöld verði við Kína.  Bandaríkjaher og -stjórn hafa verið að þrýsta á Evrópuríkin að taka meiri þátt í eigin vörnum. Af hverju? Svo að Bandaríkjaher geti fært meginþunga og herafla til Asíu. Það er ekki að skilja Evrópu eftir varnarlausa. En um leið eru viðskiptatengsl ESB og BNA veikari og munu einkennast af meiri hörku í náinni framtíð (næstu 4 árin a.m.k.).

Staðan í dag er þessi varðandi EFTA og EES. Ísland er í EFTA (Evrópska fríverslunarsambandinu), ásamt Noregi, Liechtenstein og Sviss. Ísland er einnig í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) í gegnum samning við ESB, ásamt Noregi og Liechtenstein – en ekki Sviss. Það fylgja ýmsir kostir EES-samningninn en hann tryggir aðgang að innri markaði ESB (frjáls vöru-, þjónustu-, fjármagns- og fólksflutningur). En helsti ókostur sem er farinn að vera of þungur en það regluinnleiðingu. Ísland þarf að innleiða stóran hluta ESB-reglugerða án þess að hafa atkvæðisrétt innan ESB. Að hugsa sér, samningurinn hefur ekki verið endurskoðaður allan þennan tíma þrátt fyrir stórkostlegar breytingar á inntaki ESB.

Helsta vandamálið varðandi EES er takmarkað lýðræðislegt aðhald. Ísland tekur við reglum frá ESB án þess að hafa atkvæði við borðið. Stöðug togstreita um innleiðingu laga eins og sjá með innleiðingu bókunar 35. Sum lög henta ekki íslenskum aðstæðum en þarf samt að innleiða þau.

Hvað er þá til ráða? Við getu farið svissnesku leiðina (ekki í EES). Sviss hafnaði EES-aðild 1992 í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í staðinn hefur Sviss gert tvíhliða samninga við ESB um viðskipti og aðra þætti (sem nú eru í pólitískri óvissu). Kostirnir fyrir Sviss eru að landið er sjálfstæðari í lagasetningu og er ekki bundið af öllum reglum ESB. Gallarnir eru að það er mikil flækjustig og pólitískur þrýstingur frá ESB. ESB hefur neitað að uppfæra samninga við Sviss nema þeir samþykki aðlögun að lögum ESB í auknum mæli. Sviss hefur tapað aðgangi að sumum sviðum markaðarins (t.d. verðbréfamiðlun) vegna togstreitu. En þá megum við ekki gleyma að heimurinn er ekki bara Evrópa, heldur stærstu markaðir heims sem eru í Asíu og Ameríku. Samflotið við ESB getur nefnilega líka verið helsi. ESB er TOLLABANDALAG gangvart heiminum.

Möguleikar okkar eru að halda áfram í EFTA + EES og nýta sér þá möguleika sem samningarnir bjóða, en reyna að hafa áhrif innan þeirra ramma. Endurskoða EES-aðild, mögulega með því að takmarka eða mótmæla innleiðingu tiltekinna ESB-reglna. Styrkja þjóðarlega stefnumörkun innan samningsins. Sækjast eftir svissneskri leið, en það væri áhættusamt og myndi krefjast mikils samningakrafts – auk þess sem ESB virðist óviljugt til að leyfa öðrum að fara þá leið núorðið. Tvíhliða fríverslunarsamningar utan EES er kostur – það gæti verið erfitt fyrir lítið ríki nema í gegnum EFTA en allir fríverslunarsamningar Íslands í gegnum árin hafa komið í gegnum samtakakraft EFTA.


Hnotskurður af íslensku þjóðinni mætti á Austurvöll í dag

Amma og afi, mamma og pabbi, sonur og dóttir, gamalt fólk og ungt fólk og allt þar á  milli mætti á Austurvöll í dag til að mótmæla tómlæti stjórnmálamanna (ekki allra en flestra) í landamæramálum landsins og sem og vanrækslu verndun íslenskrar menningar og tungu. Þetta áttu að vera friðsamleg mótmæli og þau voru það.

Eina fólkið sem vildi efna til ófriðar voru no border krakkarnir sem sagðist ætla að efna til gagnmótmæla en á öðrum stað, Ingólfstorgi. En þar sem enginn hafði áhuga á mótmælum þeirra, var stefnt á Austurvöll til að koma í veg fyrir friðsamleg mótmæli - tjáningarfrelsi sem er varið af íslensku stjórnarskránni. 

Þegar horft var yfir hópinn af no border sinnum, sem talist ekki vera nema 20 manns í mesta lagi, þá voru þetta bara krakkar sem finnst greinilega gaman að vera með læti. Þegar bloggritari fór á heim á leið sá hann suma af þessum krökkum, að bíða eftir strætó til að komast heim til mömmu og pabba.

En hinn hópurinn, hnotskurðurinn af íslensku þjóðinni hélt sín mótmæli áfram þegar no border liðið fékk engan hljómgrunn og skundaði á braut. 

Fólkið sem mætti á Austurvöll, venjulegt fólk sem myndi annars aldrei mótmæla, bara sinna sinni vinnu og einkalíf, kom þarna saman vegna þess að það óttast að íslenska þjóðfélagið sé að fara til fjandast.  Þetta er greinilega grasrótar hreyfing, sköpuð af einstaklingi út í bæ, sem sagði, andsk. ég get ekki lengur setið í sófanum og horft á ástandið verða verra og verra. Ég verð að gera eitthvað og eitthvað gerði hann!

Sökudólgarnir fyrir ástandinu, þingheimur Alþingis, lét ekki sjá sig með þjóðinni í dag. Kannski að hann viti upp á sig skömmina? Eða er þeim alveg sama?  Þetta sem gerðist í dag er ekki einangrað tilfelli, heldur má sjá svona sjálfsprottin mótmæli um alla Vestur-Evrópu.  

Að lokum. Vísir reyndi fyrirfram hvað það gat til að búa til úlfúð á milli hópanna með því að vísa í einhverja vitl...sem hóta ofbeldi á netinu (sem er dæmigert netkjaftæði og enginn tekur mark á) en varð fyrir vonbrigðum með afraksturinn. 

En annað vakti athygli var þegar mótmælendur mótmæltu RÚV og fréttaflutning þess! Held að góðvild Íslendinga gagnvart þessum ríkismiðli sé á enda og fáir sakni hans þegar þjóðin verður ekki nauðbeygð til að greiða skatta í þetta skattahít og hann lagður niður. Held reyndar líka að RÚV sleppi kaflanum þegar mótmælendur mótmæltu RÚV í kvöldfréttum!


Íhuga að verja 1,5% landsframleiðslu í varnarmál

For­sæt­is­ráðherra seg­ir að stjórn­völd séu að horfa til þess að verja 1,5 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu í „varn­artengd“ út­gjöld, eins og for­ysta NATÓ hef­ur óskað eft­ir af aðild­ar­ríkj­um. Miðað við lands­fram­leiðslu í fyrra næmi upp­hæðin 70 millj­örðum króna á ári.

Íslend­ing­ar verja nú um 0,14 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu í varnarmál.

Íhuga að verja 1,5% landsframleiðslu í varnarmál

Þetta yrði risaskref frá núverandi varnar framlögum en fyrir árið 2025 er varið 6,5 milljarðar í varnartengd málefni og þar af fer 1,5 milljarður í beint framlag í stríðið í Úkraínu. En það kemur ekki fram í fréttum hver féð á að fara.

Bloggritari giskar á að Landhelgisgæslan fái stærsta skerfinn, enda veitir ekki af en hún hefur verið fjársvelt allt frá því að síðasta þorskastríð lauk 1976.  Hún hefur aðeins tvö skip til umráða (þyrftu að vera að lágmarki þrjú) og það vantar sárlega þyrlur, aðra eftirlitsflugvél sem ekki er send í FRONTEX verkefni á Miðjarðarhafi.

Svo væri snjallt að LHG keypti sér eftirlitsdróna en ódýrasta týpan kostar um 200 milljónir ef keypt er frá Ísrael en góð reynsla fékkst af ísraelskum dróna sem var lánaður um árið til gæslunnar.

"Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2025 fær Landhelgisgæsla Íslands alls 2.882,2 milljónir króna í fjárveitingar. Af þeirri upphæð eru 2.629,2 milljónir króna ætlaðar til almenns rekstrar og 253 milljónir króna til viðhalds skipa og flugfarkosta. Auk þess fær Landhelgissjóður Íslands, sem sér um fjármögnun á kaupum eða leigu á skipum og loftförum fyrir Landhelgisgæsluna, 1.655,8 milljónir króna" Heimildir: Hagstofa Íslands og Stjórnarráðið.

En þetta er aðeins rúmur sex milljarður. Í hvað á hitt að fara? Lúmskur grunur er á að Skessustjórnin ætli sér að fara af fullum þunga inn í ESB og stofna íslenskan her til að vera þar með "fullgildur meðlimur". 

Annars efast ritari um að það sé einhver alvara að þessari hugmynd, líklegra er að hér er daður við Evrópu leiðtoga; skilaboðin er að við ætlum að vera memm! Svo getur verið að menn séu að undirbúa sig undir að Trump beini sjónum sínum að Ísland og vilji ekki fá skammir vegna lítillar þátttöku Íslendinga í eigin vörnum.


Landamæri Íslands og Bandaríkjanna - er einhver munur á?

Reynsla Bandaríkjamanna af landamærum sínum við Mexíkó er gott viðmið fyrir íslensk stjórnvöld og til samanburðar.

Í valdatíð Joe Bidens voru landamæri galopin, og enginn veit hversu margt fólk fór í gegnum suðurlandamærin. Áætlað er að það sé milli 10-20 milljónir manna en enginn veit í raun töluna. Flestir gáfu sig fram við landamæraverði enda vissi fólk það að það fengi rútumiða inn í hvaða ríki sem er í Bandaríkjunum án þess að bakgrunnur þess væri kannaður.  Aðrir forðuðust landamæraverðina, menn sem ætluðu sér að fremja glæpi og jafnvel hryðjuverk í Bandaríkjunum. Afraksturinn er 600 þúsund erlendir glæpamenn sem sitja í bandarískum fangelsum. Hvað er hlutfall erlendra glæpamanna í íslenskum fangelsum?

Á sínum tím sagði Biden stjórnin að það þyrfti að breyta lögum til að stemma stigi við landamæra vandann sem var heimatilbúinn. Demókratar voru (og eru enn) með óopinbera stefnu að vera með opin landamæri í óþökk meiri hluta Bandaríkjamanna og þess vegna töpuðu þeir síðustu forseta kosningum. Ólöglegir innflytjendur eiga að vera framtíðar kjósendur Demókrata.

En svo kom Trump til sögunnar. Landamærin í dag eru harðlokuð eftir aðeins 3ja mánaða valdatíð hans. Herinn gætir þeirra að hluta til og þeir sem reyna inngöngu mælast í prósentu tölu sem telja má á annarri hendi miðað við tíð Bidens. Það þurfti sem sé ekki að breyta neinum lögum, bara að framfylgja þeim og skipta um forseta.

Sama gildir um Ísland. Hér eru lög sem ættu að loka óheft innstreymi þeirra sem ætla sér að koma sér fyrir á Íslandi í misjöfnum tilgangi. Lagaheimildir eru ekki nýttar.

Vegna þess að lögum er ekki framfylgt á íslensku landamærunum er ástandið eins og það var hjá Joe Biden. Vantar betri lög? Já en núverandi lög duga að mestu eins og sjá má af afrekaskrá fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum. 

Málið snýst ekki um farþegalista, heldur að geta lokað landamærunum og það er hægt að gera á stundinni.Sem fullvalda ríki ætti Ísland að geta gert það.

Botlinn liggur hjá Alþingi sem getur sjaldan komið með afgerandi niðurstöður sbr. vansköpuð útlendingalög frá 2017 sem mætir menn vöruðu eindregið við en ekki var hlusta á þá sem hafa þekkingu, ekki frekar en hlustað var á leigubílstjóra er heimskuleg leigubílalöggjöf var sett í lög.  

Er ekki eitthvað skrýtið þegar Alþingi þarf að leiðrétta heildarlöggjöf sem það hefur sett aðeins nokkrum árum síðar? Eru vinnubrögðin boðleg? Spyr sá sem ekki veit. Vanskapaðir lagabálkar: Orkupakkar, leigubílalög, afréttalög (eignarréttur lands) útlendingalög...eitthvað fleira?


John Bolton um varnir Íslands

Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, John Bolton, ráðleggur Íslendingum að fara varlega að Trump. Beini hann sjónum sínum að Íslandi muni hann komast að því að hér sé enginn her. Íslensk stjórnvöld þurfi að undirbúa sig fyrir athygli forsetans.

Bloggritari hefur fylgst með John Bolton í áraraðir.  Maðurinn er svo kallaður stríð haukur, alltaf tilbúinn í að fara í næsta stríð en þegar Trump var og er ekki tilbúinn að leysa átök með stríði, snérist Bolton gegn honum og maðurinn var rekinn með skömm. Hann er greinilega kominn langt niður þegar hann lætur aktívistan Bjartmar Odd Þeyr Alexandersson, svo kallaðan rannsóknarblaðamann hjá Heimildinni, sem var í prófkjöri fyrir stjórnleysingjanna í Pítötum taka viðtal við sig. Eða kannski áttaði hann sig ekki á að þeir eru á sitthvorum enda stjórnmálanna?

Sem dæmi um vitleysuna sem vellur upp úr Bolton er eftirfarandi fullyrðing: "Bolton lýsir ákvörðunum Trumps sem handahófskenndum og segir forsetann ekki fylgja neinni heimspeki né setja sér stefnu í þjóðaröryggismálum."  Þetta er bara rangt. Trump vill koma á friði í heiminum, ekki vegna þess að hann er friðardúfa, heldur vegna þess stríð eru slæm fyrir viðskipti.  Trump er og verður alltaf kaupsýslumaður.  Fyrirtækið hans er núna Bandaríkin.  Sem forstjóri (forseti) þolir hann ekki taprekstur. Stríð leiðir alltaf til taps. Hann vill því koma á friði.

En Bolton hefur rétt fyrir sér með Grænland. Trump mun aldrei taka landið með hervaldi en hann mun sölsa undir sig námurekstur landsins eins og hann er að gera í Úkraínu. Og það er rétt hjá Bolton að augu Trump munu beinast að Íslandi, fyrr eða síðar, líklega síðar, því hann verður upptekinn fram á næsta ár. En þegar blaða bunkinn er horfinn af skrifborði sporöskju herbergisins, og honum fer að leiðast, fer hann að skoða heimskortið og sér þá Ísland. 

Bolton leggur til að Íslendingar efli Landhelgisgæsluna og veri viðbúnir þegar Trump snýr sér að Íslandi. Bloggritari er ekki svo viss um að það verði gleðileg samskipti, því líklegt er að hann krefjist að bandarískur her hafi hér varanlega hersetu. Viljum við það? Nei, bloggritari telur að það sé óráð! Bandaríkjamenn munu draga okkur inn í sín átök, ekki endilega þau sem koma okkur við.  Það er því nauðsynlegt að halda varanlegu setuliði frá landinu. Ef við getum sýnt fram á að við getum varið landið að minnsta kosti á friðartímum, fáum við ef til vill að vera í friði.

Er Þorgerður Katrín fær um að eiga við Trump í beinni útsendingu frá Hvíta húsinu með heimspressuna yfir sér? Veit hann ekki (með öflugustu leyniþjónustu í heimi og virku sendiráði á Íslandi) af afstöðu hennar gagnvart Bandaríkjunum? Hún er nefnilega ekki vinsamleg.

Trump mun krefjast "fair share" af Íslendingum þegar hann sér að þeir eyða aðeins 0,15% af vergri landsframleiðslu í varnarmál. Þetta veit utanríkisráðherra og er að undirbúa sig með því að skipa ráðherraskipaða öryggis- og varnarmálanefnd.

Svo er það hinn vandinn. Skessustjórnin er harðákveðin í að fylgja Evrópusambandinu fram í rauðan dauðann (í bókstaflegri merkingu) hvað varðar Úkraínu og inngöngu í ESB og þar með möguleikan á að Evrópuher verði stofnaður. Bloggritari telur að þá fyrst munu Íslendingar koma sér upp íslenskum her (að kröfu ESB sem við fylgjum í blindni í gegnum EES samninginn).

Ef Evrópuher verður stofnaður, það er næsta óhjákvæmilegt, þá verður Ísland að slíta á naflastrenginn við Bandaríkin. Og Evrópuherinn verður mun veikari en sá bandaríski, og því verður gerð skýr krafa um að Íslendingar axli ábyrgð á eigin varnir.

Varar Íslendinga við að vekja athygli Trumps


Getur íslenska lögreglan ein tryggt innanlandsfriðinn?

Í ansi breyttu þjóðfélagi, með miklum innflutningi erlends fólks, verður eðlisbreyting á því.  Einsleitni og samheldni hverfur.  Inn í þessum stóra hópi útlendinga (sem koma í gegnum hálf opinna landamæra) leynist margur svartur sauðurinn.  Sumir eru tengdir mafíustarfsemi en aðrir hryðjuverkahópum.  

Spurningin er því hvort að lögreglan sem er ansi fáliðug ráði við hóp manna (hvort sem þeir eru erlendir eða íslenskir), sem hafa illt í huga?  Það má minnast þegar tveir hryðjuverkamenn sem settu allt á annan enda í París með hryðjuverki 2015, fóru til Brussel og voru teknir þar. Það þurfti 200 belgíska lögreglumenn til að hreinlega að umkringja tvo einstaklinga.  Það þyrfti allt tiltækt lögreglulið höfuðborgarsvæðisins til að ráða við tvo einstaklinga.

Samkvæmt nýjustu opinberu upplýsingum frá Alþingi voru árið 2023 alls 895 starfandi lögreglumenn á Íslandi, þar af 704 menntaðir lögreglumenn. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fjöldi lögreglumanna dregist saman frá árinu 2007, þegar þeir voru 339, niður í 297 árið 2023, þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað verulega á sama tíma. Sjá slóð:

Svar dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um fjölda starfandi lögreglumanna

Þetta þýðir að hlutfall lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu er um 1,2 á hverja 1.000 íbúa, sem er lægsta hlutfallið á landinu.

Þó að nákvæmar tölur um skiptingu lögreglumanna milli götulögreglu og lögreglumanna sem sinna skrifstofustarfa séu ekki opinberar, hafa fulltrúar lögreglunnar bent á að í dag séu stundum færri en 20 lögreglumenn á vakt á öllu höfuðborgarsvæðinu, sem þýðir að aðeins 4–5 lögreglubílar séu tiltækir fyrir allt svæðið.  Þetta er stórkostleg fækkun frá árum áður þegar það voru 2-3 lögreglubílar í Hafnarfirði einum og sami fjöldi í Kópavogi. Þá er eftir Reykjavíkurlögreglan. Engar tölur eru til en áætla má að á árunum 1980 til 1990 hafi fjöldi lögreglumanna í Reykjavík verið á bilinu 250–300, en nákvæmar tölur eru ekki tiltækar. Samkvæmt upplýsingum frá 2019 voru 273 lögreglumenn starfandi á höfuðborgarsvæðinu, og þessi tala hefur staðið í stað í raun í áratugi, aðeins rokkað til um tugi. 

Bloggritari er að gerast áhyggjufullur vegna sífellt fleiri frétta um umsvif erlendra glæpagengja og jafnvel hryðjuverkamanna. Ræður íslenska lögreglan við þetta? Samkvæmt upplýsingum frá árinu 2019 voru 46 lögreglumenn starfandi í sérsveit Ríkislögreglustjóra. Þá var gert ráð fyrir að sveitin hefði 52 liðsmenn, en vegna niðurskurðar hafði þeim fækkað í 41! Þetta er eina vopnaða liðið sem Íslendingar hafa yfir að ráða.

Hefur bloggritari ekki bara rétt fyrir sér að það þarf að stofna heimavarnarlið sem getur brugðist við óvæntum hættum? Það gæti a.m.k. hjálpað lögreglunni ef út af bregður.

 

 


Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Júlí 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband