Færsluflokkur: Bloggar

D - dagur - innrásin í Normandí - Var þetta tímamóta atburður í seinni heimsstyrjöldinni?

Fræðimenn deila um þetta á 80 ára afmæli D-dags og sitt sýnist hverjum.  Sjálfur er ég á að opnun vestur vígstöðva hafi truflað stríðsrekstur Þjóðverja svo, að það flýtti fyrir lok stríðsins. Sumir halda því fram að Sovétmenn hefðu bara haldið áfram til vesturstrandar Frakkland eftir að Þýskaland hafi verið sigrað, enda enginn til að stöðva för Rauða hersins. Vestur-Evrópa hefði legið marflöt fyrir Rauða hernum.

Tæknibyltingin sem var að hefjast hjá Þjóðverjum kom of seint. Þeir fundu upp þyrlur, V-2 eldflaugar, herþotur, kafbáta sem gátu haldið sig óséðir neðansjávar, betri ratar kerfi o.m.fl. Hún breytti ekki gangi stríðsins en hefði gert það ef Þjóðverjar hefðu beðið í tvö ár í viðbót.

En D-dagur markaði upphaf innrásar bandamanna í Vestur-Evrópu, sem opnaði mikilvæga aðra vígstöð gegn öxulveldunum. Fram að því höfðu Sovétríkin borið hitann og þungann af baráttunni gegn Þýskalandi á austurvígstöðvunum. Opnun vesturvígstöðvanna neyddi Þýskaland til að flytja hermenn og fjármagn til að verjast framsveitum bandamanna og létta þannig þrýstingi á sovéska herinn.

Árangursrík framkvæmd aðgerðarinnar Overlord (kóðanafn orrustunnar við Normandí) veitti bandalagsherjum og hernumdu íbúum í Evrópu verulegan siðferðisstyrk. Það sýndi fram á að bandamenn voru færir um að hefja og halda uppi stórfelldri innrás og gætu beinlínis véfengt yfirráð nasista í Vestur-Evrópu.

Innrásin kom þýska hernum á óvart. Þrátt fyrir umfangsmikla varnargarða meðfram Atlantshafsmúrnum voru Þjóðverjar óviðbúnir umfang og staðsetningu innrásarinnar.

Til marks um hversu innviðir og mannskapur Þjóðverja var aðþrengt er að skipting þýskra hersveita eftir D-daginn endurspeglar þá mikilvægu stefnumörkun sem Þýskaland stóð frammi fyrir síðla árs 1944. Þó meirihluti þýskra herdeilda var áfram á austurvígstöðvunum til að vinna gegn Sovétríkjunum, neyddi aukinn þrýstingur frá herafla bandamanna á vesturvígstöðvunum Þýskalandi til að dreifa umtalsverðum auðlindum sínum og mannskap á tvær megin vígstöðvar og flýta fyrir ósigri þeirra.

Árangur innrásarinnar í Normandí flýtti fyrir falli Þýskalands nasista. Innan árs frá lendingunum höfðu herir bandamanna frelsað stóran hluta Vestur-Evrópu og sóttu til Þýskalands. Þessar hröðu framfarir flýttu fyrir endalokum stríðsins í Evrópu, sem náði hámarki með skilyrðislausri uppgjöf Þýskalands.

Þó að það hafi verið aðrir mikilvægir atburðir og bardagar í seinni heimsstyrjöldinni, var D-dagur lykilatriði sem stuðlaði verulega að lokum ósigurs á Þýskalandi nasista. Það markaði afgerandi breytingu á valdahlutföllum, þar sem bandamenn náðu yfirhöndinni í Evrópu. 

En ekki láta blekkjast af bandarískum bíómyndum eins og Band of Brothers eða Fury, þar sem Kaninn "stútar" nasistanna eins og flugur. Bandaríkjamenn og bandamenn á vesturvígstöðvum voru að berjast við leyfarnar af þýska hernum (unga drengi og gamla menn) sem var í dauðateygjum árið 1944.

Skoðum hversu margar herdeildir voru á vestur- og austurvígstöðvum. Í september 1944 á vesturvígstöðvum var fjöldi herdeilda komin í um 75 deildir þegar bandamenn þrýstu heraflan sinn í gegnum Frakkland og inn í Belgíu. Til samanburðar um mitt ár 1944 á austurvígstöðvum höfðu Þjóðverjar um 150-200 herdeildir bundnar til átaka. Þetta var meirihluti herstyrks þeirra, sem endurspeglaði mikla og stórfellda bardaga við Sovétríkin. Og þau höfðu barist við Þýskaland síðan sumarið 1941 og goldið fyrir með tug milljóna mannfalli. Rússland og hin 14 sovétveldin hafa aldrei borist þess bætur allar götur síðan, jafnvel ekki í ennþá daginn í dag.

Hver tapaði og hver vann er kannski ekki rétta spurningin. Kannski má segja að Evrópa hafi tapað. Líkt og í fyrri heimsstyrjöld féllu heimsveldi og ný stórveldi komu til sögunnar. 65+ milljónir (engin veit raunverulega tölu mannfalls í styrjöldinni) þeirra sem dóu skelfilega og hryllilegan dauðdaga er nákvæmlega um hvort að þeirra "lið" hafi unnið eða ekki. Harmleikurinn var svo ævintýralegur að líka má seinni heimsstyjöld við ragnarök. Til að reyna að skilja svona mikla tölu, ákvað bloggritari að deila töldu mannfalls niður á dag. Um 20 þúsund manns voru drepnir á hverjum degi stríðsins. Þetta er svakalegt blóðbað og ólýsanlegt. Hreinn hryllingur og eginlega ekki hægt að nota orð til lýsa þessu...á ekki til orð....

Og nú tala bjánanir í dag (réttnefni yfir stríðsæsingafólk sem hefur aldrei upplifað stríð) um nú verið að herða á stríðið við mesta kjarnorkuvopnaveldi heims Rússland! Sjá ræðu Bidens á D-degi minningarathafnarinnar. "Eruð þið gengin af göflunum" segir Pútín sem reyndar hóf stríðið við Úkraínu sem er svæðisstríð en getur endað í heimsstyrjöld. Sama gildir um stríðið í Gaza eða hugsanlega Taívan. Nú þarf mannkynið á að halda leiðtogum sem kunna að halda friðinn og herfræðinga þeim til ráðgjafar hvernig báðar heimstyrjaldarinnar á 20. öld stigmögnuðust upp í alls herjar stríð.

Lokaorð: Austurvígstöðvarnar og stríðið gegn Sovétríkjunum gerði útslagið um fall nasistaríkisins Þýskaland.

-----

P.S.  Hér kemur ef spurningin sem enginn sagnfræðingur á að spyrja en af því að þetta er blogg en ekki alvöru sagnfræði, ákvað bloggritari að spyrja ChatGPT að gamni að hvað hefði gerst ef D - dagur hefði ekki átt sér stað og hér kemur svarið:

Mögulegar niðurstöður án D-dags

Langvarandi stríð: Án D-dags hefði stríðið í Evrópu líklega staðið lengur. Skortur á annarri vígstöð hefði gert Þýskalandi kleift að einbeita sér meira herliði að austurvígstöðvunum, sem gæti hugsanlega hægt á framrás Sovétríkjanna.

Hærra mannfall Sovétríkjanna: Sovétríkin gætu hafa orðið fyrir enn meira mannfalli þar sem þeir hefðu staðið frammi fyrir stærri og einbeittari þýskri mótspyrnu. Fjarvera vesturvígstöðvanna hefði þýtt að beina mætti ​​fullum mætti ​​þýska hersins gegn Sovétríkjunum.

Aukinn ávinningur á sovéskum yfirráðasvæðum: Ef Sovétríkin hefðu að lokum sigrað Þýskaland án vesturvígstöðva gætu þeir hafa þrýst lengra inn í Mið- og Vestur-Evrópu. Þetta hefði getað breytt pólitísku landslagi eftir stríð verulega, hugsanlega aukið áhrif Sovétríkjanna og yfirráð yfir stærri hluta Evrópu.

Niðurstaða

Þó að það sé líklegt að Sovétríkin hefðu á endanum getað sigrað Þýskaland nasista án innrásar bandamanna í Normandí, hefði ferlið verið mun erfiðara og langvarandi. Opnun vesturvígstöðvanna af bandamönnum skipti sköpum til að flýta stríðslokum og draga úr álagi á sovéska herinn. D-dagur gegndi mikilvægu hlutverki í samræmdri stefnu bandamanna til að sigra nasista Þýskaland og fjarvera hans hefði haft djúpstæð áhrif á gang og niðurstöðu síðari heimsstyrjaldarinnar.

 


Heilabilaður forseti hættir á þriðju heimsstyrjöld og borgarastyrjöld

Það eru alveg ótrúlegar fréttir sem berast úr Hvíta húsinu. Maður sem enginn efast um að er orðinn elliær (um 70% Bandaríkjamanna segja það í skoðanakönnunum) er að gera mikinn ursla. Samt ætla 40%+ að kjósa þennan mann í næstu forsetakosningu! Maðurinn er með aðra hendina á kjarnorku boltanum sem fylgir honum hvert skref. Getur slíkur maður tekið upplýsta/rökræna ákvörðun á ögurstundu?

Í fyrsta lagi er hætta á stórfelldum innanlands átökum ef svo fer að Trump verði á endanum dæmdur í fangelsi og honum meinaður þátttöku í forsetakosningunum. Hægri menn - repúblikanar - hafa sýnt mikla þolinmæði gagnvart vígvægðingu dómskerfisins gagnvart forsetaframbjóðanda þeirra sem skorar hærra í öllum skoðanakönnunum en frambjóðandi demókrata. Ef maður sem er auðljóslega ekki hæfur í embætti og ætti heima á elliheimili í umsjá hjúkrunarfólks, verður áfram forseti, verður allt vitlaust. Svona auðljós kosningaafskipti með lögsóknum gegn forseta frambjóðanda hefur aldrei áður verið leyft í sögu Bandaríkjanna.

Hinn hættan er hættan gegn heimsfriðinum og upphaf að þriðju heimsstyrjöld. Kolvitlaus klíka í kringum Joe Biden (hann veit ekki hvort það er dagur eða nótt og ræður engu), er að magna upp Úkraínu stríðið. Engar áætlanir um hvað gerist ef Úkraína vinnur eða tapar. Nú er Biden stjórnin búin að leyfa eldflauga árásir með NATÓ vopn á Rússland! Já, þetta er rétt lesið. "Eruð þið alfarið gengin af göflunun?" spyr Pútín. Pútín segir að nú hafi Vesturlöndin misreiknað sig illilega og ýjar að hefndum – „Eruð þið alfarið gengin af göflunum?“

Sagan kennir okkur að Rússar hafa aldrei skeytt um mannfall og þeir eru tilbúnir í alls herjar styrjöld ef með þarf. 500 ára saga hefur kennt okkur það. Ef góður leiðtogi kemst til valda í Bandaríkjunum má með samningaviðræðum endurheimta land í Úkraínu og jafnvel að búa til stuðpúða með tveimur sjálfstjórnarsvæðum í Donbass. Vesturlönd hafa allt að vinna og fáu að tapa enda með tapstöðu á vígvellinum.

Ekki er stefna Íslands gagnvart Rússland eitthvað gáfulegri. Íslenskur diplómat segir um mikil mistök að ræða hjá óhæfum utanríkisráðherra að skipta sér af stríðinu í Úkraínu og hann er greinilega sammála bloggritara um að smáþjóð á að láta lítið fyrir sig fara í stórvelda pólitíkinni. Ekki beina reiði eða athygli annars stórveldisins að henni. 

„Hroka­full af­staða“ að skil­yrða stuðning við Úkraínu segir hrokafullur varnarmálaráðherra, afsakið, utanríkismálaráðherra Íslands. Rífur kjaft opinberlega við nýkjörinn forseta með ekkert á bakvið sig.

Hún ætti að einbeita sér að vörnum Íslands, ekki annarra þjóða. Það væri best gert með að koma upp varnarsveitir til varnar landi og þjóð.  Það eru til fjórir milljarðar á ári í fjögur ár til að fjármagna stríð Úkraínumanna. Fyrir fjóra milljarða á ári væri hægt að fjármagna auðveldlega heimavarnarlið eða öryggissveitir á stærð við undirfylki (200-240 manns). Eða veita meira fé í Landhelgisgæsluna sem getur ekki einu sinni rekið sómasamlega eina eftirlitsflugvél, hefur eitt varðskip og eitt dráttarskip til umráða.

Íslandi stefnt í óþarfa hættu


Leiðtogi sem breytti gangi sögunnar - Nigel Farage

Leiðtogar breyta gangi sögunnar, til góðs eða ills. Aðrir eru bara embættismenn sem eru kostnir í starf furstans. Nigel Farage er einn af þeim sem er leiðtogi og nú þegar hann hefur tilkynnt að hann ætli að vera formaður Reform UK sem er stjórnmálaflokkur sem er byggður á eldri flokki hans, hefur það valdið miklum skjálfta í breskri pólitík, en stutt er til næstu kosninga í landinu.

Íhaldsflokknum er spáð miklu fylgistapi en Verkamannaflokknum stórsigri. Talið er að Farage muni taka töluvert fylgi af Íhaldsmönnum en hann sjálfur segist muni taka einnig fylgi af Verkamannaflokknum.

Farage minnir svolítið á Sigmund Davíð og flokk hans, Miðflokkinn. Hann er með svipaða stefnu sem er byggð á "real politik! að hætti Helmut Smith.  Báðir segast ekki vera nein staðar á litrófinu, þótt Miðflokkurinn er kenndur við miðjuna. Raunsæispólitík er reyndar yfirleitt einhvers staðar á miðjunni.

Stjórnmálin á Vesturlöndum hafa sýnt að gamlar hugsjónir, til vinstri eða hægri, eru úreldar, því flokkarnir fara ekki eftir stefnuskrám sínum. Það þarf ekki nema að líta á VG og raunstefnu þeirra gagnvart NATÓ og Sjálftæðisflokkinn sem hefur viðhaldið hæstu skattastigi á byggðu bóli og opin landamæri. Og Framsóknarflokkurinn sem á að verja bændur og vera á miðjunni, gerir ekki neitt, í bókstaflegri merkingu.

En hér er ætlunin að fjalla um Farage. Í næstum þrjá áratugi hefur Nigel Farage verið andlit evrópska efahyggjunnar í Bretlandi. Hann barðist fyrir Brexit sem leiðtogi UKIP og hélt síðan áfram að leiða Brexit flokkinn og nú Reform UK. Hann hefur farið á milli stjórnmála- og fjölmiðlahlutverka og á milli stjórnmálaflokka á ferlinum.  Alls staðar hefur hann valdið miklum "ursla" og breytt gangi mála.

Farage var heiðursforseti Reform UK frá 2021 til 2024 þar til hann tilkynnti í vikunni að hann ætlar að vera formaður flokksins. Hann er kynnir á GB News og frambjóðandi fyrir þingkjördæmið Clacton en hann hélt fyrsta framboðsfund sinnar þar í gær. Hann starfaði sem þingmaður Evrópuþingsins (MEP) fyrir Suðaustur-England frá 1999 þar til Bretland gekk úr Evrópusambandinu árið 2020. Hann var andlit Brexit í Bretlandi og umheimsins og e.t.v. átti hann mestan þátt í brotthvarfinu.

Það sem er einstak við Farage, eru tengsl hans við Donald Trump en hann var á leið til Bandaríkjanna til að hjálpa Trump í hans kosningabaráttu þegar þessi skyndileg sinnaskipti áttu sér stað hjá honum.  Hann hefur sennilega séð sóknartækifæri í lélegri stöðu Íhaldsflokksins til að komast til valda.

Eitt af því sem einkennir góðan leiðtoga, er persónuljómi og frábær ræðumennska. Hann hefur hvoru tveggja. Líkt og Trump kemur hann úr viðskiptalífinu, þar sem raunveruleikinn - staðreyndir skipta meira máli við rekstur fyrirtækja en einhverjar hugmyndir og báðir hafa yfirfært þetta yfir á pólitíkina með góðum árangri.

Nigel sagði eitt sinn: "Við höfum barist fyrir lýðræði. Lýðræði skipti máli áður fyrr. Við lítum nú á það með fyrirlitningu. Við höfum snúið baki við gildum sem við höfum byggt upp í mörg hundruð ár, í þágu stjórnmálamanna í Evrópu. Fyrir mér er það hörmulegt."

Farage var eins og Cato forðum í Róm, sem vildi eyða Karþagó, en Farage ESB: Ceterum (autem) censeo Carthaginem esse delendam ("Ennfremur tel ég að Karþagó þurfi að eyða."). En Farage sagðist vilja Brexit og endaði oft mál sitt á þá vegu.

Hér er kveðjuræða Farage á Evrópuþinginu þar sem hann átti marga slagi við frjálslynda Evrópusinna.

 

 

 

Hér segir Farage þingheimi til syndana í frægri ræðu. "Þið eruð ónytjungar sem hafa ekki gert handtak á ævinni":

 

 


Forseti Íslands og bókun 35

Það mun líklega reyna strax á nýja forsetann í haust hvað varðar bókun 35. Ekkert reyndi á fyrrverandi forseta, sem sigldi lygnan sjó, jafnvel í miðjum covid faraldri og allan forseta feril sinn. Forsetinn þá var nánast ósýnilegur og ekkert "sameiningartákn" á erfiðleika tímum.

Nýi forsetinn verður hins vegar að taka ákvörðun í haust, þ.e.a.s ef einhver þrýstir á hann. Verður hann öryggisventill, eða verður bókun 35 að lögum, gegn stjórnarskránni, með fullri meðvitund Alþingis?

Svona lítur frumvarpið út - sjá slóð: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35).

"1. gr.    

4. gr. laganna orðast svo:
    Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum."

Rennum niður frumvarpið og niður á 4. gr. Þar segir í skýringum:

"Mikilvægt er að hafa í huga að skuldbindingin samkvæmt bókun 35 nær ekki til ákvæða stjórnarskrárinnar og raskar ekki rétthæð hennar að neinu leyti. Í aðfaraorðum bókunarinnar kemur skýrt fram að með EES-samningnum sé aðildarríkjunum ekki gert að framselja löggjafarvald. Með tilliti til rétthæðar réttarheimilda vísar bókun 35 þannig til skyldu EFTA-ríkjanna til að setja lagaákvæði til að leysa úr árekstrum milli lagaákvæða sem innleiða EES-reglur og annarra lagaákvæða (e. statutory provisions) en tekur ekki til ákvæða stjórnarskrár. Þannig ganga ákvæði stjórnarskrárinnar ávallt framar ákvæðum settra laga, þ.m.t. þeirra sem innleiða EES-rétt.


 Ákvæðið gerir einungis kröfu um að EES-reglur sem komnar eru til framkvæmdar/eða réttilega innleiddar EES-reglur sem eru nægjanlega skýrar og óskilyrtar gangi framar öðrum reglum. Þessi skylda tekur því einungis til reglna sem Alþingi hefur þegar ákveðið að innleiða beri í landsrétt, eða reglna sem innleiddar hafa verið með stjórnvaldsfyrirmælum. Ljóst er að regla EES-samningsins um forgangsáhrif er þannig annars eðlis en í ESB-rétti þar sem reglur sem settar eru af stofnunum ESB hafa að ákveðnum skilyrðum uppfylltum bein réttaráhrif og forgangsáhrif í landsrétti aðildarríkja ESB, þ.e. reglurnar geta haft forgangsáhrif án þess að aðildarríki ESB innleiði þær í landsrétt sinn og geta jafnframt gengið framar ákvæðum stjórnarskrár."

Nú, erum við þá örugg og stikkfrí?  NEI. Það er ástæða fyrir að bókun 35 hefur aldrei verið innleidd. Menn efuðust um að EES samningurinn stæðist stjórnarskránna er við gengum inn í EES en málið var leyst með að taka bókun 35 ekki inn.

Málið er að stjórnarskráin er ekki "undirbúin" undir svona valdaafsal né leyfir það.  Þannig að rökin að EES reglur sem innleidar eru, munu vera þannig gerðar að þær ekki stangast á við stjórnarskránna er rökleysa. Það er er verið að fara bakdyramegin inn og bakvið stjórnarskránna. Aðeins er vísað í að EES reglurnar brjóti ekki stjórnarskrá ákvæði.

Eftir sem áður, takið eftir fortölumenn!, EES reglur eru innleiddar og njóta forgang umfram íslenskum lögum ef ekkert stendur í vegi fyrir þeim. Er þetta ekki auðskilið!? Skýringarnar sem fylgja frumvarpinu stangast á og eru ruglingslegar.

Þetta er "óbeint" valdaafsal  til yfirþjóðlegt valds og íslenskir stjórnmálamenn mega ekki brjóta stjórnarskránna með slíku valdaafsali. Eins og fyrirkomulagið er í dag, er Alþingi stimpil stofnun fyrir ESB, EES reglur eru innleiddar í gegnum Alþingi sem ALDREI stöðvar nýja reglur, sama hversu fáranlegar þær eru miðað við íslenskar aðstæður. Alþingi verður að mæla fyrir um annað... sem það getur að sjálfsögðu ekki gert, því að það getur ekki séð fyrir hvað ESB ætlar að gera, nema það séu 63 spákonur á Alþingi. Þetta lítur út á yfirborðinu sem löglegt en er á gráu svæði.

Nú reynir á lesskilning fólks er það les skýringar frumvarpsins.

Ætla að orða þetta skýrar: erlend lög (reglur) eru innleidd ef engin íslensk lög eru fyrir hendi. Þar með er ESB komið með löggjafavald á Íslandi. Og ekki einu sinni þarf til Alþingi til að stimpla lögleysuna frá ESB eins og gert er í dag til að láta þetta líta út sem löglegt.

Hvað ætli nýi forsetinn að gera?


Er þörf á nýjum stjórnmálaflokki?

Arnar Þór Jónsson ýjaði að því að hann myndi stofna stjórnmálaflokk í kjölfar forsetaframboðs sitt.  En er þörf á því? Held að Flokkur fólksins eða Miðflokkurinn myndu passa ágætlega við stefnu hans. 

En það er ef til vill nauðsynlegt að stofna nýjan hægri flokk, því að gagnrýnendur innan frá eins og Arnar Þór Jónsson, Jón Magnússon og fleiri hafa verið kaffærðir á landsþingum Sjálfstæðisflokksins og ýtt út úr flokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn eins og hann er í dag, er ekki einu sinni til hægri á litrófi stjórnmálanna, hann hangir í lausu lofti, hugsjónarlaus og fylgislaus.  Hvaða flokkur væri ekki búinn að reka formann sem fer með fylgið úr 30%+ niður í 17% +-?  Þetta sýnir bara hversu valdaklíkan innan sjálfstæðisflokksins er öflug og ekki hægt að gera byltingu neðan frá. Þá er eins gott að stofna nýjan flokk eða fara í flokk sem er með svipaða stefnu.

Til er flott heiti á nýja flokknum, til dæmis Hægri flokkurinn, þannig að stefnan fari ekki á milli mála!  Lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki, minnka reglugerðar fargan, reka ríkissjóðin á núlli, ekki endalausan hallarekstur sem veldur viðvarandi verðbólgu. Bandaríkjamenn kvarta yfir 3% verðbólgu, á meðan við erum með 6%, og þetta mun kosta Biden forsetastólinn. En Íslendingar, hvað gera þeir? Þeigja. Kjósum sömu spilltu stjórnmálamennina aftur yfir okkur.


Forsetar í tveimur löndum og hæstiréttur Bandaríkjanna

Hér er byrjað á íslensku kosningunum sem komu ekki á óvart hvað varðar úrslit.

Skoðanakannanna fyrirtækin, skoðanamyndanda fyrirtæki réttara sagt, höfðu óeðlilega mikil áhrif á úrslit forsetakosninganna. 

Með því að stilla upp efstu frambjóðendur, var verið að senda þau skilaboð að kjósendur ættu að velja á milli, kjósa stratískt.  Þessi aðferð bar greinilega árangur, því að álitlegir frambjóðendur, svo sem Baldur og Jón Gnarr misstu mikið fylgi á loka sprettinum. Margir kusu stratískt.

Það kom bloggritara á óvart að Arnar Þór hafi ekki híft sig upp í 10% fylgi en svona er þetta. Miðað við hvað fólk talaði í kringum hann, hélt bloggritari að hann ætti inni leynifylgi, kannski er hópurinn sem hann umgengst svona einsleitur. En Arnar Þór er sennilega ekki horfinn úr sviðsljósinu, hann er líklegur til að fara í stjórnmálin seinna á árinu.

En úrslitin eru góð, því að stjórnmálaelítan fekk ekki sinn frambjóðanda í forsetastólinn. Samt kusu 25% landsmanna gerspilltan stjórnmálamann sem yfirgaf sökkvandi skip og eigin frama til bjargar. Enn og aftur, það er ekki eðlilegt að sigurvegarinn sem er með 30%+ fylgi setjist á forsetastólinn. Lýðræðið byggir á meirihluta kosningum og vilja og þetta getur við vissar aðstæður verið forsetanum farartálmi, sérstaklega við erfiðar ákvarðanir. 

Úr því að aðeins tveir forsetar hafa farið eftir stjórnarskránni hvað varðar völd forsetans, Sveinn Björnsson og Ólafur Ragnar Grímsson, og hefðin gert forsetavaldið valdalaust og skrautgrip á Bessastöðum, þá er tími til kominnn að breyta stjórnarskránni og um leið leyfa þjóðinni að fá beina rétt til þjóðaratkvæðisgreiðslna. Sleppa milliliðnum á Bessastöðum. Gerum þetta að svissneskri fyrirmynd.

Snúum okkur að Bandaríkjunum. Í RÚV er fjallað um bandaríska hæstaréttinn, og ekki er annað hægt að sjá að það sé hnýtt í hann og hann sakaður um annarlegar hvatir. Sjá slóð: 

Hæstiréttur Bandaríkjanna ekki á góðum stað í sinni sögu

Tekið er viðtal við Kára Hólmar Ragnarsson sem er lektor í lögfræði við Háskóla Íslands.  Hann virðist ekki vera sáttur við að hæstirétturinn séu í meirihluta íhaldsmanna og talar um að það sé ekki skrifað í skýin að þeir séu 9 talsins og tekur þannig undir málflutning demókrata sem eru mjög ósáttir að vera í minnihluta en þeir hafa stýrt hæstaréttinum í áratugi. Þeir vilja fjölga upp í 15 dómarar, sem að sjálfsögðu eru skipaðir af forseta demókrata.

Það er rétt að það er mikill ágreiningur (sem RÚV kallar skautun)innan bandarískt samfélags, og óhjákvæmilegt að hæstiréttur taki á þessum ágreiningsmálum, til þess eru dómstólar, ekki satt? En það sem fer í taugarnar á frjálslyndum (vinstri mönnum) að fyrirséð er að íhaldsmenn (repúblikanar) haldi völdum næstu áratug eða fleiri.

Aldrei hefur hæstiréttur verið svona mikilvægur, sérstaklega þegar annar flokkurinn, demókratar, hafa vígvætt dómskerfið og dæmt forsetaframbjóðanda repúblikana sekan um fáranlega glæp sem enginn hefur heyrt talað um áður. Og menn klóra sér ennþá í kollinn og vita ekki fyrir hvað fyrrverandi forsetinn hafði brotið af sér. Glæpur sem var löngu fyrntur, dæmt á dómstigi sem hefur ekkert umboð til að dæma í alríkismálum, en lögum breytt til að hægt væri að ákæra hann. Þessi lagabreyting gengur aftur innan árs enda búið að dæma forsetann en ekki er hægt að hafa réttarkerfið svona.  

Þetta eru sögulegir atburðir og getur reynst lýðræðinu skeinuhætt. Gleymum persónunni Donald Trump, sem er stundarfyrirbrigði og kominn undir græna torfu eftir x mörg ár.

Skemmdirnar á bandaríska réttarkerfinu eru óafturkræfar og nú geta þúsundir saksóknarar, úr báðum flokkum, ákveðið að sækja æðstu embættismenn og pólitíska andstæðinga til saka fyrir litlar sakir, helst pólitískar sakir. Þetta verður pólitískur sirkus og landið breytist í bananalýðveldi.

Það er ástæða fyrir að Bandaríkjaforsetar hafa notið friðhelgi og þeir ekki dæmdir af almennum dómstólum. Ef þeir geta ekki tekið erfiðar ákvarðanir á ögurstundu, fellur framkvæmdarvaldið um sjálft sig. Því að í Bandaríkjunum er forsetaræði, ólíkt því sem er á Íslandi. Forsetinn er ígildi forsætisráðherra og sem slíkur ákvörðunarmaður í erfiðum málum. Hann getur ekki sífellt verið að hugsa, ef ég hringi í Selenskí, verð ég sóttur til saka fyrir embættisafglöp?

Auðvitað er hægt að sækja Bandaríkjaforseta til saka en það fellur í hlut Bandaríkjaþings í heild og aukinn meirihluta til að fella hann.

En hvað hefur Hæstiréttur Bandaríkjanna gert sem veldur svona reiði vinstri manna? Kári tekur tvö dæmi:

"Síðan hefur dómstóllinn þróast mikið og færst til og frá með pólitíkinni dálítið og stundum á móti pólitíkinni. Það voru gríðarlegar deilur í tengslum við Hæstarétt Bandaríkjanna í kringum 1930 til 1940 í New Deal-tímanum þar sem Hæstiréttur, fyrri hluta þess tíma stillti sig upp á móti Roosevelt forseta og felldi úr gildi mikið af löggjöfinni sem var reynt að koma í gegnum þingið." En hann minnist ekki á að Roosvelt ætlaði að þynna út hæstaréttinn með að fjölga í honum og taka valdið af Öldungadeildinni sem er náttúrulega lögbrot. Forseti Bandaríkjanna skipar dómara í réttinn og Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að samþykkja þá skipun og er þetta frábær tilhögun, betri en á Íslandi þar sem dómarar sjálfir skipa félag sína í embætti.

"Kári minntist einnig á Roe-dóminn. Dómsúrskurður í máli Roe gegn Wade tryggði stjórnarskrárvarinn rétt kvenna til þungunarrofs og til að ráða yfir eigin líkama. Hann hafði gert það í næstum fimmtíu ár þegar hann var felldur úr gildi 24. júní 2022."  Eina sem hæstirétturinn gerði í þessu máli var að vísa þessum málum í hendur ríkjanna 50 en hann sagði að þetta væri ekki mál sem varðar alríkislög og hvergi minnst á fóstureyðingar í stjórnarskránni. Svo er annað mál að Roe-dómurinn var byggður á fölskum forsendum sem ekki verður farið út í hér.

Það er ekki skrýtið að fræðimenn tala um hnignun Vesturlanda á öllum sviðum.  Lýðræðið er vant að fremja sjálfsmorð á endanum. Og venjulega taka við einræðisherrar eða fámennis klíkur.


Ríkir tjáningarfrelsi á samfélagsmiðlum?

Bloggritari rekst við og við á gamlar glósur úr Facebook sem koma úr "minningum". Stundum man hann ekki hvort hann hafi endurbirt þessar greinar á Samfélagi og sögu, sýnist ekki miðað leit hér á blogginu. En eins og sagt er, góð vísa er aldrei of oft kveðin og hér kemur ein góð:

Svo virðist ekki vera við fyrstu sýn. Reglulega berast fréttir af að samfélagsmiðlar eins og Facebook og Twitter eru að loka fyrir aðgangi áskrifenda þessara miðla vegna meintra brota, svo sem haturorðræðu eða annarra brota. Hvergi kemur fram í þessum fréttum hver ákveður hvað er rétt að segja og hvað er hatursorðræða.

Þjóðfélög nútímans hafa ekki enn haldið í við hraða þróun samfélagsmiðla og menn átta sig ekki á hættum þeim sem fylgja því valdi sem þessir samfélagsmiðlar hafa á gang heimsmála. Flestir þessara samfélagsmiðla eru bandarískir og þeir taka mið af bandarískri menningu og hugsunarhátt. Hver gaf þessum miðlum vald til að ákveða hvað er viðeigandi að segja um víðan heim og hvað ekki? Eru það hópur ritskoðenda á vegum þessara miðla sem sía út ,,meinta haturorðræðu“ eða er það algrím forrit sem leita að ,,ljótum eða óviðeigandi orðum“? Ég held að það séu ritskoðunarsíur sem finna þá sem ,,brjóta af sér“ og það sé á endanum einstaklingur/ar á vegum þessara miðla sem ákveða að loka fyrir reikningi notandans sem þeir hafa í raun engan rétt til.

Í flestum stjórnarskrám þjóðríka eru ákvæði um tjáningarfrelsi, svo málfrelsi, prentfrelsi og fundarfrelsi en fæstar hafa fylgt hraða tæknibreytingar og breytingar á tjáningarmáta. Svo er einnig háttað um íslensku stjórnarskrána. Í henni er tjáningarfrelsið tryggt en stöðugt er verið að vega að því með setninga laga, sem ég tel vera í andstöðu við stjórnarskránna, svo sem setningu laga um hatursorðræðu og jafnvel hefur verið sett á fót embætti eða deild innan lögreglunnar sem á að ritskoða hvað fólk segir og lögreglufulltrúi vaktar. Nú ætlar ríkið að ákveða hvað er rétt að segja og hvað er rangt. Er ekki eitthvað skrýtið við þetta? Á ekki láta svona mál vera einkaréttarmál án afskipta ríkisvaldsins? Ef einhver ærumeiðir eða notar óviðeigandi orð, að einstaklingur geti þá gripið til dómstólaleiðina eins og hefur verið hægt í gegnum aldir? Þetta kallast á hreinni íslensku ritskoðun en það er ekki nógu gott orð, betra væri að tala um tjáningarheftun eða jafnvel tjáningarbann undir ægivaldi ríkisins.

Með tjáningarfrelsisréttarákvæðum stjórnaskráa hefur okkur í vestrænum samfélögum öllu verið gefið rétturinn til að láta í ljós hvaða skoðun sem er án ritskoðunar eða tálmana. Að vera fær um að láta orð rúlla af tungunni án þess að þurfa að seinna að endurskoða hugsanir þínar gætu hugsanlega verið einn af mesta réttindum í vestrænna samfélaga. Þess má geta í framhjá hlaupi að í Bandaríkjunum er málfrelsið óskorðað. Til að mynda eru ekki til sérstök lög gegn hatursorðræðu, heldur tala þeir um hatursglæpi sem haturorðræða er spyrnt saman við. Þ.e.a.s. ef þú fremur hatursglæp og hefur um leið ummæli sem teljast megi vera hatursorð, þá má auka við refsinguna fyrir glæpinn. Ekki er dæmt sérstaklega fyrir hatursorðræðu, nema hótað sé manndrápi eða líkamsmeiðingum.

 

Þó að við séum frjálst að segja það sem við viljum, er ekki heimilt að tjá neina skoðun sem brýtur, ógnar eða móðgar hópa, byggt á kynþáttum, litum, trúarbrögðum, þjóðernisstefnu eða fötlun (hatursorðræða). Á málfrelsi á netinu við ef við höfum fengið takmarkanir? Er hægt að málamiðla? Hefur línan til að vernda notendur með ritskoðun og leyfa ennþá einstaklingum að tjá sig frjálslega orðið óskýr?

Samfélagsmiðlar hafa orðið helsti viðkomustaður margra og oft sá eini, þeirra er fara á netið. Fylgis er með núverandi atburðum, slúðurfrétta, notað sem dagbók eða tól til að vaxa í viðskiptum.

Samfélagsmiðlar eins og og Facebook og Twitter hafa verið í meðvituðu átaki til að stjórna efni sem birtist á vettvangi þeirra. Samkvæmt grein í CBS News, gaf Facebook í sumar út lista yfir viðmiðunarreglur um hvað teljist vera stefnumótandi efni, sem olli undrum hjá mörgum vegna hugmyndarinnar um að aðferðafræði þeirra er í raun hlutdræg gagnvart umdeildum sögum og innleggum.

Ekki fyrir löngu fékk Facebook mikla gagnrýni vegna banns á birtingu Víetnamsstríðsmyndar en það gerðist vegna reglna um birtingu kláms. Facebook varð að gefa eftir í málinu. ,,vegna þess að stríðsmyndin gefur táknræna mynd af atburði með sögulegri skírskotun, gildi þess að leyfa vegur þyngra en gildi þess að vernda samfélagið með því að fjarlægja efnið, þannig að við höfum ákveðið að endurreisa myndina á Facebook þar sem við vitum að það hefur verið fjarlægt", sagði talsmaður fyrirtækisins.

Facebook hefur efnivið til að verða ein stærsta uppspretta heimsins fyrir fréttir og sterk afstaða miðilsins til ritskoðunar gæti haft áhrif á það sem notendur hafa aðgang að. Í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum vildi Facebook banna Donald Trump að nota miðil þeirra vegna meins brots en Mark Zuckerberg steig inn vegnað ótta um að þessar gætu eyðilagt kosningarnar.

Auðvitað er mikilvægt fyrir samfélagsmiðla að sía út barnaklám, áreitni, einelti á netinu og almennt ofbeldi en hvernig skapa þeir fullkomna jafnvægi?. Mikilvægt er að notendur geti nýtt sér samfélagmiðla án ótta og ekki líði eins og þeir séu dæmdir til að tjá skoðanir sínar á ákveðinn hátt. Hægara sagt en gert? Til þess að þetta verði gert á réttan hátt þurfa samfélagsmiðlarnir að finna sanngjarna málamiðlun, sem gefur notendum vettvang til að tjá sig án þess að þurfa óttast refsingu.

Twitter (X) gæti verið komið með uppskriftna að réttri lausn. Síðastliðinn október rákust notendur á eiginleika sem kallast “muted words” eða ,,þöggun orða“. Þessi valkostur gerði notendum kleift að búa til lista yfir óæskileg orð og orðasambönd sem þeir vildu ekki sjá á tímalínunni en leyfa aðra sjái sem vilja. Heimildmenn segja að þessum eiginleika í Twitter hafi verið birtur of snemma og hann tekinn út en yrði settur inn aftur í framtíðinni með uppfærslu. Þetta gæti verið leiðin til að halda friðnum milli andstæðra fylkinga.

Staðan eins og hún er í dag, að Facebook hefur varanlega bannað Infowars stofnandann Alex Jones, sem er hægri maður, samfélagsgagnrýninn Milo Yiannopoulos og Laura Loomer auk annarra sem eru áberandi lengt til hægri. Banninu fylgdi yfirlýsing um að miðillinn myndi ekki leyfa hvíta þjóðernishyggju og aðskilnaðarsinna á vettvangi sínu lengur.

Aðrir sem voru endanlega sagðir út af sakramentinu, eru meðal annars fræðimaðurinn Paul Joseph Watson og hvíta þjóðernissinninn Paul Nehlen. Einnig útilokaði Facebook Louis Farrakhan, leiðtogi þjóð Íslams, sem hefur verið gagnrýndur fyrir orðræðu sína. Hvað verður bannað næst og hvaða rétt hefur Facebook til að dæma í pólitískum málum? Hvar eru mörkin sem þessi miðlar eiga að búa við? Þarf að koma böndum á þessa miðla með lögum?


Þegar valdstjórnin beitir valdinu

Fyrsta sem bloggritari lærði í námi sínu er að í miðaldarsamfélaginu íslenska og í Evrópu voru menn vopnaðir. Það var ekki að ástæðulausu, því að ríkisvaldið í formi konunga og jarla, hafði ekki náð að einoka valdbeitinguna. 

Englandskonungur sem og Noregskonungur voru fremstir meðal jafningja en menn urðu að verja sig sjálfir, enda engin lögregla til en aðalsmenn voru ekki sérstaklega áhugasamir um að verja smælingjanna. Með valdatöku Noregskonungs á Íslandi 1262, átti svo að heita að sýslumenn og hirðstjórar/höfuðsmenn héldu upp lög og reglu en í raun var það í höndum héraðshöfðingja eftir sem áður og einokuðu valdastöður hjá konungsvaldinu.

Svo gerðist það að konungur náði loks að beygja aðalinn undir sig og vald hans. Þetta gerðist um siðskiptin hér á Íslandi, þegar biskuparnir (1550) og höfðingjarnir voru beygðir undir full vald konungs. Vopnin dregin úr höndum einstaklinga (vopnabrotið 1581) og í hendur embættismanna og danska sjóhersins. En þetta þýddi að ríkisvaldið bar skylda að halda uppi lögum og reglu. 

Forverar lögreglumanna á Íslandi kölluðust vaktarar frá tímum Skúla fógeta Magnússonar í nýja þéttbýlinu í Reykjavík. Á vef lögreglunnar segir: "Árið 1803 varð Reykjavík fullburða kaupstaður og bæjarfógetinn, Rasmus Frydensberg, fékk sér til aðstoðar tvo danska lögregluþjóna. Fyrsti íslenski lögregluþjónninn var Jón Benjamínsson en hann var ráðinn til starfa árið 1814. Síðasti danski lögregluþjóninn starfaði hér fram til ársins 1859. Eftir það var lögreglan alíslensk."

Slóð: Lögreglan - sagan

En lögreglan var ekki ein um að sjá um vörslu samfélagsins. Kaupmenn réðu næturverði og er þetta fyrirkomulag enn til í formi öryggisþjónustufyrirtækja sem sjá um vörslu fyrirtækja.

Íslenska lögreglan hefur verið þekkt fyrir að vera óljúft að beita valdinu. Þegar lögreglumenn ganga um miðborgina um helgina eru fortölur beittar, spjallað þannig að menn sjái ljósið. Einstökum sinnum hefur hún þurft að beita valdinu af afli, í Gúttóslagnum 1932, töluvert undir forystu Agnars Kofoed Hansen á stríðsárunum og í Alþingisslagnum 1949 er Ísland gékk í NATÓ. Í efnahagshruninu 2008 beitti lögreglan mikilli lagni er þjóðin var öskureið út í valdastéttina og varði Alþingishúsið af stakri snilld.

En tíminn gengur ekki aftur á bak. Þökk sé hugarfóstri góða fólksins að allir séu eins og allir sem koma hingað til Íslands, verði bara með að stíga á íslenska jörð, að það fólk sýni landi og þjóð virðingu. Aldrei er dreginn lærdómur af reynslu Norðurlandaþjóða að friðurinn er úti ef margir menningarheimar lifa hlið við hlið (sem menn kalla fjölmenning og er andstaða einmenningar). Í einmenningarsamfélagi eru menn sammála um leikreglur, gildi og siði. Þjóðfélagið nokkuð friðsamt eins og saga Norðurlanda á 20. hefur kennt okkur.

Í fjölmenningu hafa menn hins vegar mismundi skoðanir um gildi og menningu og hvernig ber að framfylgja þeim. Með öðrum orðum, er friðurinn úti og samheldnin sem skapast af sameiginlegri menningu, tungu og sögu er að hverfa. Þetta skapar óstöðugleika sem íslenskir stjórnmálamenn skynja ekki og halda að eina hlutverk þeirra sé að búa til lög en ekki að þau séu þannig að þjóðfélagið haldist saman.

Nú er svo komið eftir áratuga uppeldi ný-marxismans í háskólum landsins sem teygir sig alla leið niður í grunnskóla en þeim stýra kennarar sem hafa lært nýmarxíska kennsluhætti, að upp er komin veikgeðja kynslóð, sem hefur aldrei dýft hendi í kalt vatn, fengið allt upp í hendurnar og er uppfull af woke kenninga hugmyndafræði. Allsnægtir, án skorts skapar ekki úrræðagott fólk, heldur heimtufrekt fólk sem lifir eftir kennisetningum sem passa ekki við veruleikann.

Þetta fólk telur allt í lagi að vaða að ráðherrum með hótunum, þannig að lögreglan þarf að skerast í leikinn. Þegar þetta fólk vaknar við veruleikann, að jafnvel veikgeðja valdstjórnin þarf stundum að beita valdi og notar lögregluna til þess, þá verður það reitt og telur að það sé brotið á sig. Það gleymir að það var sjálft að valda uppþoti og fara ekki eftir lögum og reglum. Mótmæli eru hluti af reglum lýðræðisins, ekki uppþot, óeirðir og hótanir.  Með lögum skal land byggja og ólögum eyða.


Hver eru Kató krimmi, Bjarni bankster og Steingeldur J?

Sverrir Stormsker er of góður til að sleppa. Mesti orðhákur Íslands! Hver eru Kató krimmi, Bjarni Bankster og Steingeldur J? Eða Svíndís Stalínsdóttir eða Gauðni Wokehannson? Hver man ekki eftir þríeykið/ þríeitrið Víði víðáttuvitlausa, Flónólf fáráðling og Kára Klepptæka?
 
"Hlustaðu nú á mig elsku litla Kata klóakrotta. Þú hefur reynst traustur og dyggur og trúr og tryggur glæpapartner. Ef þú lætur mig fá forsætisráðherrastólinn þá skal ég sjá til þess að öll spillingaröflin og valdaöflin í samfélaginu munu styðja þig af alefli og koma þér í rafmagnsstó…, … ég meina forsetastólinn. Öllu skal tjaldað til.
 
Ég skal fá allra voldugustu og flottustu glæpamenn og stórfyrirtækjaeigendur landsins til að standa þétt við bakið á þér, ég skal fá minn helming Sjálfstæðisflokkinn til að styðja þig og ég skal fá Singa til að fá Framsóknarflokkinn til að styðja þig og ég skal fá fóstbræðurna Bubba Hólmstein og Hannes Morthens til að ausa þig lofi og ég skal fá Davíð uppá Mogga, pissudúkku auðvaldsins, til að berja á Harmonikku-Höllu og öðrum þeim frambjóðendum sem ógna þér og fá hann til að tala vel um gluggaskrautið sitt hana Kötu litlu og ég skal fá sægreifana til ausa hundruðum milljóna í framboðið þitt svo þú getir sómt þér vel sem gluggaskraut á Bessastöðum og skrifað undir öll okkar landráðalög hugsunarlaust einsog vinur okkar hann Gauðni Th. Wokehannesson hefur gert svo myndarlega til þessa."
 
Það er nokkuð ljóst þegar litið er á forsíðu Útvarps sögu á vefnum, að ekki er Kató krimmi vinsæl á þeim bæ. Kíkjum á fyrirsagnir:
 
 
 
 
 
Svo eru auðvitað aðrar greinar sem ekki fjalla um kosningarnar.
 
En háðið sem Sverrir Stormsker fer svo kostulega með, er hárbeitt og svíður undir.  Sverri Storm í forsetann, ekki Jón gnísk eða var það Jón írskur! Hann er a.m.k. fyndnari!
 
Heldur nokkur að kosningabaráttan í lýðræðisríkinu sé öðru vísi en í öðrum ríkjum? Spilling og valdamak er alls staðar þar sem völdin liggja. Líka í örríkinu Ísland. Alveg örugg að sá frambjóðandi sem elítan líkar við, er sá frambjóðandi sem maður á ekki að kjósa! Forsetinn er forseti okkar allra hinna sem eru ekki í klíkunni/elítunni. Forseti fólksins, ekki valdsins.

Formaður nýtir í varaþingmann Sjálfstæðisflokksins og fv. ráðherra VG styður ekki formann sinn

Bjarni Benediktsson skammast út í Arnar Þór og kallar hann ótrúverðugan. Í mínum eyru hljómar þetta sem mesta hrós og er hann þar með kominn ofarlega á blað þeirra sem koma til greina.

Annar ráðherra fyrrverandi úr VG segist ekki styðja Katrínu Jakobsdóttir og getur bloggritari ekki verið meira sammála af þeim ástæðum sem áður hafa verið talin upp hér á Samfélagi og sögu.

Í eyrum bloggritara er hann ræðir við fólk, koma upp þrjú nöfn, Katrín, Halla T. og Arnar Þór, sem það vill kjósa. Áberandi er stuðningurinn við Katrínu meðal eldri fólks sem hefur litla þekkingu á pólitík. Það metur hana eftir framkomu í fjölmiðlum en hún hefur baðað sig í sviðsljósinu í áratug en gamla fólkið hefur gleymt efnahagshruninu, framkomu VG við eldri borgara o.s.frv.

Flestir eru hissa á litlu fylgi Arnars Þórs í skoðanakönnunum og eru sammála um að raunfylgi hans sem kemur úr kjörkössunum verði meira, bloggritari spáir a.m.k. 15%, ekki 7% skoðanakannanna fylgi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Maí 2025

S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband