Til lesenda Samfélags og sögu

Bloggritari hóf að skrifa á blogginu fyrir rúmum fjórum árum.  Ætlunin var að "skrifa sig til skilnings" á einhverju málefni sem bloggritari er að lesa hverju sinni. Í stað þess að lesa ófullnægjandi fréttir með engu samhengi, vill bloggritari vita "allt" í kringum fréttina. T.d. af hverju hófst Úkraínu stríðið og hver er forsagan?

En þegar skrifað er svona á opinberum vettvangi, er ekki hjá því komist að einhver nennir að lesa efnið! Það þótt oft á tíðum er efnið tyrfið og höfðar ekki sérstaklega til hins almenna lesanda.

Blogg sem bloggarar skrifa, lifir aðeins einn dag á blog.is og er þá horfið sjónum lesenda. En þó ekki. Blogggreinin eða pistillinn lifir nefnilega sjálfstæðu lífi áfram um ókomna tíð á netinu. Bloggritari hefður því fengið símhringingar frá blaðamönnum en ekki síðan en ekki síst lesendum þessa bloggs varðandi gamlar greinar. 

Ég vil því þakka lesendum Samfélags og sögu fyrir að nenna að lesa pistlanna mína og fyrir að hringja í mig  og ræða málin sem þeim er í huga og þeir hafa lesið á bloggsíðu minni.

 


Dyggðir og gildi (góð)borgarans

Hvaða eiginleika þyrfti íslenski borgarinn að hafa til teljast nytsamur þátttakandi í þjóðfélaginu? Hvernig var þetta til dæmis hjá Rómverjum? Hjá þeim var hinn góði borgari tengdur hugmyndum um dyggðugt líferni (virtus) og hollustu við ríkið. Hugmyndin um mos maiorum („hefðir forfeðranna“) var afar mikilvæg, sem fól í sér virðingu fyrir hefðbundnum gildum og siðferði.

Góður borgari þurfti að vera Virtus (karlmannleg dyggð): Hugrekki, sjálfsagi og ábyrgð, sérstaklega í hernaði. Pietas (hollusta og skyldurækni) með eiginleikum eins og tryggð við guði, fjölskyldu og ríkið. Þetta fól í sér virðingu fyrir foreldrum, forföðrum og lögum ríkisins. Gravitas (alvörugefni og virðuleiki).Að sýna stöðugleika, ábyrgð og alvöru í öllum aðstæðum. Fides (áreiðanleiki og trúmennska). Að vera heiðarlegur, trúr skuldbindingum sínum og standa við orð sín. Disciplina (agi). Sérstaklega í hernaði, þar sem hlýðni og agi voru talin lykilatriði fyrir góða borgara. Clementia (mildi): Stjórnmálamenn og hershöfðingjar voru hvattir til að sýna mildi gagnvart sigruðum óvinum og samlöndum sínum.

Í Róm var lögð meiri áhersla á skyldur borgarans við ríkið og stöðugleika samfélagsins. Segja má að Rómverjar töldu hinn góða borgara þurfa að vera ábyrgur, hugrakkur, réttlátur og virðulegur. Er þetta eitthvað sem hægt er að heimfæra yfir á nútíma Íslendinginn?  Hvernig var hann á miðöldum og í raun fram yfir árnýöld, því að Íslendingar lásu Íslendingabækurnar og aðrar bækur sem innihéldu lýsingar á þessum dyggðum.

Á miðöldum var hugmyndin um hinn "góða Íslending" mótuð af samfélagsgerð þjóðveldisins, siðferðisgildum norrænna manna og kristinni trú sem festist í sessi eftir kristnitökuna árið 1000.

Dyggðir sem voru mikils metnar í íslensku samfélagi á þeim tíma voru meðal annars drengskapur og heiður (á opinberum vettvangi, t.d. að standa við samninga og heiðurinn var mannorð viðkomandi); hugrekki og hreysti (sem er enn metið eins og sjá má af hversu margir stunda líkamsrækt); ráðsnilld og kænska (kunna leikreglur samfélagsins og geta farið eftir viturlegri stefnumörkun og sýna skynsemi í deilumálum); samlyndi og tryggð (gagnvart fjölskyldunni), hagsýni og þrautseigja (Lífsbaráttan á Íslandi var erfið, svo fólk þurfti að sýna þolgæði og aðlögunarhæfni). 

Síðan komu nýjar dyggðir með kristni á 11. öld. Eftir kristnitökuna var auðmýkt, gjafmildi og miskunnsemi einnig taldar mikilvægar dyggðir. Guðrækni jókst með tímanum, en samt lifðu eldri norrænar dyggðir áfram með kristnum gildum.

Þessar dyggðir má sjá endurspeglast í Íslendingasögum og Sturlunga sögu, þar sem persónur eru dæmdar eftir því hversu vel þær fylgja þessum gildum.

Hvaða dyggðir eru eiginlega eftir í nútíma þjóðfélagi Íslands? Hefur ekki flostnað upp öll mörk og menn fara bara sínu fram? Það má glitra í leifar af ofan greindum dyggðum. 

Barnamálaráðherra sýndi mikinn drengskap að segja af sér er hún lenti í sínu máli og viðhélt mannorði sínu (heiður).

Sjá má auðmýkt, gjafmildi og miskunarsemi enn í dag með sjálfboðastarfi og góðgerðarsamtökum.

En ekki er hægt að sjá þessa eiginleika hjá öllum Íslendingum, af hverju ekki? Vantar að kenna siðferði - heimspeki í grunnskólum? 

Ef börnin læra þetta ekki heima, þá verður skólinn að grípa inn í.  Ef við ætlum að hafa réttlátt þjóðfélag, viturlega stjórnað, þá verðum við að kenna börnunum að verða dyggðugir borgarar.

Þetta náðu Rómverja að gera með sína klassísku menntun sem viðhélt rómversku samfélagi í 1000 ár og lengur. Það er eins og siðbrot hafi átt sér stað og nútíma Íslendingurinn er áttavilltur. Hann hefur óljósar hugmyndir um hvað er gott og rangt, en honum er ekki kennt þetta markvisst.


Búríkratía í örríkinu Ísland og þekkingaleysi þingmanna

Byrjum á skrifræðinu. Litlir kóngar og drottningar sem stjórna stofnunum hafa gríðarleg völd. Þeir taka þröngar ákvarðanir út frá hagsmunum stofnana sinna og reglugerðum þeirra. Ákvarðanir þeirra eru kannski réttar en í samhengi máls kolrangar. Tökum nýlegt dæmi. Trjáfelling í Öskjuhlíð.  Há tré ógnuðu aðflugsleið á eina flugbrautina. Bannað var því að nota þá braut og engin undantekning, jafnvel ekki fyrir sjúkraflug. Bannið átti sem sagt að bjarga mögulega mannslífum en ógnaði í raun bráðveiku fólk sem þurfti nauðlega komast undir læknishendur á stundinni. Ekki var kvikað frá "réttu" ákvörðunni.

Annað dæmi er Teigsskógur en ein stofnun, Skipulagsstofnun, kom í veg fyrir að vegur var lagður í gegnum hríslur og runna um árabil. Málið var í "ferli" kerfisins í tvo áratugi! Sjá slóð: 22 og 27/2020 Teigsskógur  Málið leystist á endanum og vegur lagður í gegnum hríslur og runna sem rifist var svo lengi um! Lengi má telja upp hversu möppudýrin, afsakið, skriffinnarnir eru að þvælast fyrir og tefja mál. Er ekki að segja að stofnanir taki ekki á málum, heldur vinnubrögðum þeirra.

Æðstu embættismenn ríkisins, eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar - Alþingismenn, erum margir hverjir óhæfir til starfa. Það er kannski ekki sanngjarnt að kenna kjósendum um mannavalið á Alþingi, því að það eru stjórnmálaflokkarnir sem raða á lista sína. Oftast eru það þeir sem eru þaulsetnastir á fundum og samkundum flokkanna, þeir sem eru í flokksstarfinu daginn út og inn, koma sér í mjúkinn hjá flokksforustunni og uppskera í laun sæti á þingi. Þarna situr þetta fólk og gerir lítið. Það tekur þátt í atkvæðagreiðslum með skýrum skilaboðum frá formanninum hvernig eiga að kjósa.

Nútíma þjóðfélag er flókið, angar þess eru fleiri en fólk almennt grunar. Atvinnulífið er t.d. með ótrúlega flott frumkvöðlastarf sem fáir vita af. En kerfið eða bálknið er stórt og flókið. Það tekur góðan tíma og þekkingu að kunna inn á það.  Margir þingmenn hafa enga þekkingu á stóru málunum og ætla sér ekki að þekkja þau. Þeir kvarta yfir að fá ekki að vaða inn á skítugum skóm á Alþingi, svona til að segja eitthvað!

Svo verður þingmaðurinn að kunna staðsetja sig í tíma og rúmi. Hvað er átt við með því? Jú, það væri til dæmis gott að kunna eitthvað í sögu og félagsfræði. Það er hvernig þetta þjóðfélag sem þeir eru að stjórna virkar og hvernig það hefur orðið svona. Ákvarðanir sem eru teknar í dag, eiga að taka mið af sögunni/reynslunni og varða leiðina inn í nána framtíð. Er nokkurn tímann teknar ákvarðanir og settar í lög, sem varða framtíðina? Þ.e.a.s. ekki bara út frá hvernig tiltekið mál er í dag, heldur hvernig það verður eftir nokkra áratugi?

Tökum dæmi. Kjaramál. Það væri til dæmis frábært fyrir ráðherrann eða þingmanninn að þekkja sögu verkalýðsbaráttunnar, til að skilja kröfur stéttafélaga í dag. Af hverju að krefjast 40 klst stundna vinnuviku? Og af hverju nú 36 klst vinnuviku? Getur verið að þjóðfélagið sé að fara í gegnum fjórðu "iðnbyltinguna" með tilkomu gervigreindarinnar og flest öll störf sem nú eru unnin, hverfa? Hvað á þá að gera?

Með öðrum orðum, Íslendingar þurfa á að halda að inn á Alþingi veljist fólk með mikla menntun (a.m.k. þekkingu) en ekki fólk sem er gott í að sleikja upp forystumenn flokkanna og er gott í bakherbergja makki. Er nokkur furða að þjóðfélaginu er illa stjórnað, ríkissjóður rekinn með halla í góðæri og illæri, innviðir handónýtir og ákvaðanir teknar út frá hagsmunum örminnihlutum og um leið troðið á réttum meirihlutans. Eiginleikar þeirra sem komast á þing, eru nefnilega ekki þeir persónuleika einkenni sem þjóðfélagið þarf á að halda! Heldur þvert á móti og á hinn veginn. Hér er verið að tala um dyggðir og gildi borgarans sem þingmenn eiga að enduspegla. Kem inn á það í næstu grein.


Svörin við morðið á John F. Kennedy eru ekki að finna í birtum leyniskjölum

JFG skjölin sem birt hafa verið, sanna bara hversu yfirhylmingin var mikil. Ástæðan fyrir að þessi skjöl voru ekki birt fyrr er að þau sýna hveru mikil umsvif CIA voru um allan heim. Um 47% "diplómata" voru í raun útsendarar CIA á sjötta áratugnum.

Eins og sjá má af meðfylgjandi myndböndum liggja upplýsingar um meint samsæri um morð á Kennedy alls staðar annars staðar en í opinberum skjölum. Og ef CIA, hópur innan þessarar stofnunar, hafi staðið að þessu morði, þá hafa þeir passa sig á að hafa sem fæst á pappír, hvað þá að færa morðið til bókar í skjalasafni CIA!

Saga málsins er með ólíkindum.  Heili Kennedy hvarf eftir krufningu í Washington, læknir brenndi krufningaskjöl, byssukúlur hverfa og birtast á ný, byssa Oswald reyndist vera samtíningu rifla og við endurgerð morðsins, ítrekað klikkar á að skjóta. Hann á svo að hafa náð að skjóta ítrekað skotmark á ferð á fáeinum sekúndum. 

Byssukúlan sem fór í JFK fór um forsetabílinn eins og ping pong kúla, út um allt, lífverðir hans brugðust ekki við, bílstjórinn stöðvar augnablik og keyrir af stað rólega í fyrstu, forsetalestin er látin fara í gegnum "dauðagil" torgs með óteljandi skotmörk allt í kring, gert að kröfu Johnson, lífverðum meinað að taka sinn stað í lestinn á flugvellinum og þeir banda höndum í forundrum, skurðlæknarnir sem tóku á móti Kennedy fengu ekki að gera alvöru rannsókn því CIA menn skiptu sér af aðgerðinni (sem ekki var gert er Reagan var skotinn), ítrekaðar viðvaranir að það eigi að taka Kennedy af lífi og Dallas væri gryfja hatursmanna forsetans hunsað og lengi má telja ótrúlegan söguþráð. 

En tökum helstu rökin fyrir að þetta hafi verið samsæri sem mun aldrei finnast í opinberum skjölum.

"Töfrakúlu" kenningin

Opinber skýrsla Warren-nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að ein byssukúla (kölluð „töfrakúlan“) hafi farið bæði í Kennedy forseta og John Connally ríkisstjóra Texas og valdið mörgum sárum. Þessi kúla er sögð hafa farið inn í bak Kennedys, farið út um hálsinn á honum, síðan lent í baki Connally, brotið rifbein, farið út úr brjósti hans, lent í úlnliðnum, brotið bein og loks verið í læri hans - allt á meðan kúlan var í nánast óspilltu ástandi þegar hún fannst síðar á sjúkrabörum. Mörgum finnst þessi braut ólíkleg. Og nóta bene, hver var í nefndinni? Allan W. Dulles fyrrum forstjóri CIA sem Kennedy hafði látið reka. Kennedy bræðurnir ætluðu að leysa CIA upp á þessum tíma, því þeim fannst stofnunin ógna lýðræðinu. Vilhöll nefnd sem hunsaði sönnunargögn?

Snögg handtaka og þægileg þögn Oswalds.  Lee Harvey Oswald var handtekinn aðeins 70 mínútum eftir morðið, þrátt fyrir að engin formleg rannsókn hafi enn verið gerð. Hann neitaði aðild að því og sagði við sjónvarpsmyndavélarnar: "Ég er bara blóðraböggull."  Innan við 48 tímum síðar, áður en hægt var að yfirheyra hann almennilega, var hann myrtur af Jack Ruby í beinni sjónvarpsútsendingu, sem kom í veg fyrir réttarhöld. Ruby var mafíumaður og tengdur þeim hluta mafíunnar sem vann náið með CIA við laumumorð. Mafían sjálf var bálreið út í Kennedy bræðurnar fyrir að svíka loforð um að þeir létu hana í friði. Mafían tryggði nauman sigur Kennedys með kosningasvindli.

Aðgerðir Jack Ruby

Jack Ruby, næturklúbbaeigandi með þekkt mafíutengsl, fullyrti að hann hefði myrt Oswald af sorg yfir Jackie Kennedy! Geta hans til að ganga inn á þungavörðu lögreglustöðina, bera hlaðna byssu, og skjóta Oswald á lausu færi vekur spurningar um hvort hann hafi verið að þagga niður í honum.

Misvísandi sönnunargögn Zapruder filmubútsins

Hin fræga Zapruder-mynd sýnir höfuð Kennedys kastast aftur og til vinstri eftir högg, sem margir telja benda til skots að framan, sem stangast á við opinbera niðurstöðu um að Oswald hafi skotið frá Texas School Book Depository fyrir aftan Kennedy.  Myndinni var einnig haldið frá almenningi í mörg ár, sem ýtti undir vangaveltur.

Vitnin á grashæðinni

Tugir vitna greindu frá því að hafa heyrt skot frá Grassy Knoll svæðinu, stað fyrir framan eðalvagn Kennedys.  Margir töldu sig hafa séð reyk eða skotmann, en þessum vitnisburði var að mestu vísað frá.

Dularfull dauðsföll vitna

Fjöldi fólks sem tengist málinu lést við óvenjulegar aðstæður á árunum eftir morðið.  Sumir vísindamenn halda því fram að þessi dauðsföll myndu grunsamlegt mynstur.

CIA, FBI, og mafíutengsl

Afléttuð skjöl benda til þess að CIA hafi haft áhuga á Oswald fyrir morðið, en fullyrti síðar að hann væri einn byssumaður án tengsla. Oswald hafði undarleg tengsl við hópa sem eru stuðningsmenn og andstæðingar Castro, sem vakti grunsemdir um aðkomu leyniþjónustunnar.  Mafíutengsl Jack Ruby vekja einnig spurningar um þátttöku skipulagðrar glæpastarfsemi.

Misvísandi krufningarskýrslur

Krufning Kennedys fór fram á Bethesda Naval Hospital, frekar en í Dallas þar sem hann var skotinn. Í krufningarskýrslunni eru frávik, þar á meðal vantar heilavef og breyttar lýsingar á sárum.

Álitshnekkur leyniþjónustunnar

Leyniþjónustan braut siðareglur með því að leyfa Dallas bílalestina að fara í gegnum krappar beygjur og minnkaðan hraða. Sumir leyniþjónustumenn virtust vera dregnir í burtu frá eðalvagninum rétt fyrir skotárásina.

Ályktun valnefndar þingsins (The House Select Committee) um morðið (1979)

Árið 1979 sneri valnefnd þingsins við niðurstöðum Warren-nefndarinnar og komst að þeirri niðurstöðu að Kennedy hafi líklega verið drepinn sem hluti af samsæri, þó að hún gæti ekki skorið úr um alla ábyrga aðila. Þrátt fyrir þetta var engin ný rannsókn hafin.

Er nokkur furða að í október 2023 bendir könnun Gallup til þess að 65% Bandaríkjamanna telji að morðið á John F. Kennedy forseta hafi falið í sér samsæri, sem bendir til þess að Lee Harvey Oswald hafi ekki verið einn að verki.

Ef þetta var ekki samsæri, þá hefur bloggritari ekki séð annað eins vanhæf leyniþjónustu- og lögregluyfirvöld og sjá má af aðgerðum CIA og FBI. Sem er nokkuð ótrúlegt miðað við hversu hæf þau eru að velta stjórnum úr sessi um allan heim.

Svo er það morðtilræðið við Trump...sem er önnur ótrúleg saga og er efni í aðra grein.

Leyndarmál JFK

Leyndarmál JFK 2


Tvíhugsun (e. doublethink) er geðklofa hugsunarháttur samtímans

Í bókinni 1984 hugsaði Orwell vandlega um mátt tungumálsins. Newspeak, uppfundið tungumál skáldsögunnar, er sérstaklega hannað til að stjórna hugsunarferlinu með takmörkuðum orðaforða og kerfi grimmilegrar einföldunar sem kemur í veg fyrir flókna hugsun eða tjáningu hvers kyns hugtaks sem er ekki í samræmi við rétttrúnað alræðisstjórnarinnar.

Það er eins og vinstrisinnaðir wokistar (lesist: ný-marxistar) hafi tekið bókina til fyrirmyndar en ekki til viðvörunnar.  George Orwell skrifaði bókina til að vara okkur við hættur sósísalismans sem ávallt getur af sér alræðisstjórnun á samfélaginu og sérstaklega einkalíf borgarans. Orðum og hugtökum er beitt markvisst til að stjórna hugsunum okkar hinna sem erum ekki woksinnar eða marxistar. Nóta bene, held að margir fatti ekki að þeir eru skilyrtir af þessu kennikerfi enda er það gert með óbeinum hætti í gegnum skólakerfið.  

Kíkjum á hvernig stóri bróðir misbeitir tungumálið. Orwell benti á hvernig ríkisstjórnir nota útúrsnúninga til að hylja raunveruleikann (t.d. "friðarráðuneytið fyrir stríðsmál). Í dag nota stjórnvöld og fjölmiðlar einnig mildað orðalag, svo sem: "Enhanced interrogation" = "bætt yfirheyrsla" sem er í raun pyntingar. Eða "Restructuring" í stað "layoffs" sem þýðist endurgera en þýðir í raun uppsagnir.

Svo eru það algjör endaskipti á þýðingu hugtaka. Dæmi: Tvíhugsun er að hafa tvö mótsagnakennd hugtök í huganum samtímis. Vera með stríði og á sama tíma á móti. "Raunveruleikaeftirlit", kölluðu þeir það í Newspeak.

Svo er það hugtakið hugsunarglæpur sem ný-marxistarnir hafa tekið upp á sína arma. Bannað er að nota röng hugtök og reynt er að afmá óæskilegar hugsanir. Þú mátt til dæmis ekki segja neitt ljótt um transfólk eða jafnvel að hugsa neikvætt um það. Tek fram að bloggritari hefur ekkert á móti trans eða annað fólk. Skilgreiningin er að hugsa eitthvað sem brýtur í bága við ákveðnar skoðanir stjórnvalda.

Markmið Newspeak og nýmarxista er að þrengja hugsunarsviðið. Að lokum munum við gera hugsunarglæpi bókstaflega ómögulega, því það verða engin orð til að tjá hann.

En versta sem ný-marxistarnir hafa gert okkur er að segja okkur að lýgi sé sannleikur. Til dæmis að það eru til 72 kyn, þegar nátttúran segir okkur að þau séu tvö og við getum auðveldlega skilið það og séð með eigin augum. Það að ætla okkur að taka undir lýgina er mesta ósvífa sem maður hefur séð. En þeir eru ekki einir, þeir eiga sér fyrirmyndir í nasistum og kommúnistum.

 


Er nokkuð vert að verja Ísland með hervaldi?

Bloggritari hefur kannski verið haldinn ranghugmyndum um Ísland og Íslendinga.  Hann hefur stúderað í bókstaflegri merkingu sögu Íslands, menningu og tungu í áratugi. Hann hóf sagnfræðinám meira til að fræðast um klassíska menningu, vildi þó fræðast um eigin menningu en fannst margt skrýtið hvernig Ísland þróaðist í gegnum aldir. Afstaðan til Íslands sögunnar var blendin. Plúsinn er að hér varðveitist norræn menningararfur, bókmenntirnar en þá er allt upptalið.  Saga Íslendinga er saga arðráns fárra yfir fjöldann og algjörar vesældar.

Sjálfselsk elíta sem tróð á meirihlutanum stjórnaði landinu en var ekki gáfaðri en það að hún gat ekki einu sinni byggt sér sómasamlegt húsnæði yfir sjálfa sig, eins og sjá má af að hér eru engar hallir, kastalar sem standa uppi eða gamlir bæir aðeins timburskemmur danskra kaupmanna frá 18. öld og fáeinar stjórnarbyggingar sem rugla má fyrir hýbýli efri millistéttarmanns frá Evrópu. Er elítan í dag nokkuð betri? Stjórnar hún af visku og hefur framtíðarsýn?

Líf Íslendingsins í gegnum aldir var myrkur, kuldi, sultur, sjúkdómar, undirlægjuháttur og almenn harneskja í harneskjulegu landi. Er það eitthvað til að vera stoltur af?  Þá segir bloggritarinn við sjálfan sig, já en hvað með bókmenntirnar? Réttlætir það ekki tilveru Íslendingsins? Jú, kannski ef hann vill halda í þá menningu sem bókmenntirnar varðveita, a.m.k. tungumálið og ræturnar við fortíðina. Og þráina eftir frelsið og þrjóskan við erlend yfirráð eins og sjá má af sjálfstæðisbaráttu íslenskra menntamanna á 19. og fram á 20. öld.

Væri betra að við værum hálf sjálfstæð eins og Færeyingar og bera frelsisþránna í brjósti? Eða upplifað sama og Norðmenn sem sannarlega þurftu að þola áþján nasista í seinni heimsstyrjöld og hafa ekki gleymt þeirri lexíu. Þeir vilja verja land sitt með kjafti og klóm. Vei þeim sem ræðst á Noreg í framtíðinni!

En eins og komið hefur verið inn á áður hér á blogginu, var Íslendingurinn ekki fyrr búinn að fá frelsið er hann hóf að afsala sér það í áföngum. Sjá pistilinn: Ris og hnignun Alþingis

Nú er svo komið að Ísleningar ætla sér beint í fang marghöfða þursann í Brussel sem hefur ekkert gert annað en að samræma helsið yfir frelsi Evrópubúans. Miðstýrt valdaapparat í Brussel sem ókjörnir embættismenn stjórna.  ESB hefur eitt sér kæft menningu Evrópubúa og gert þá að einsleitri hjörð. Evrópsk hámenning hornreka fyrir frumstæðri menningu úr suðri.

En áður en að því kemur, munu alþjóðasinnarnir á Alþingi, Evrópu aðdáendurnir, binda EFTA í gegnum EES samningum föstum böndum við ESB með bókun 35.

Bloggritari hefur talið að sjálfstæðisbaráttan hafi átt sér stað í áföngum, þar sem landið og lýður var fyrst frelsað en svo Íslandsmiðin/lögsagan í hafi. Og loka markið væri viljinn til að verja frelsið; að borgarnir væru tilbúnir að verja það með blóði, ef það væri ekki nema með táknrænum hætti. En Íslendingar hafa haga sér eins og snýkjudýr á evrópskum bræðrum og bandarískum og ætlast til að synir og dætur erlendra manna fórni lífi sínu fyrir frelsi Íslendingsins.

Og það þýðir ekkert fyrir Íslendinginn að halda að Ísland geti orðið hlutlaust land. Sá möguleiki varð úr sögunni strax um 1940. Ísland getur ekki sagt upp tvíhliðavarnarsamninginn við Bandaríkin né hætt í NATÓ og haft engar varnir eða verið hlutlaust. Því er þessi andstaða við að tala um varnarmál eða tala um stríðsæsing þegar talað er um að það þurfi að verja landið með einhverjum hætti dálítið undarleg.  Þú sem lest þetta, læsir húsi þínu á kvöldin, færð þér jafnvel þjófavarnarkerfi og treystir á að lögreglan komi til aðstoðar ef glæpamenn ráðast á heimilið, ekki satt? Ert þú haldinn ranghugmyndum? Sömu lögmál gilda fyrir ríki - þjóðarheimili og heimili borgarans.

Mannkynssagan kennir að það þarf að varðveita og verja frelsið með afli, alltaf, líka á friðartímum!

En þarf að verja þetta íslenska frelsi? Er ekki best að Ísland gangi í ESB, hætti allri sjálfblekkingu um að Íslendingar vilji vera Íslendingar áfram, tali íslensku og hafi íslenska menningu? Gerist bara borgríki, fjarstýrt frá Brussel, sem hefur þá búið til Evrópuher og getur sent evrópska dáta til verja Íslandshluta Evrópusambandsins?

Bloggritari er kannski bara haldinn ranghugmyndum að við eigum að verja frelsi okkar gegn öllum, líka svokölluðu "vinum", bæði úr vestri og austri. Að hér búi sjálfstæð þjóð, stolt og viljug til að verja sitt með kafti og klóm eins og hún gerði í Þorskastríðunum. Já, sjálfblekkingin getur verið mikil. Ef maður er orðinn útlendingur á Íslandi (maður þarf að tjá sig á ensku daglega til að komast í gegnum daginn), er ekki annars gott að vera útlendingur annars staðar, að minnsta kosti er hlýrra víðast annars staðar, lægra matvælaverð og ögn gáfaðri elíta til að stýra lýðnum. Kannski heldur fjölskyldutaugin frekar en ættjarðartaugin margan Íslendinginn við landið....


Gullforði Íslands í öruggum höndum?

Seðlabanki Íslands á gullforða. En það kemur kannski á óvart að hann er geymdur í Lundúnum. Maður spyr sig hvort það sé fullvalda ríki sem geymir allan gullforðann sinn utan landsteinanna? Gullforðinn er hluti af gjaldeyrisforða segir Seðlabankinn. 

Seðalbankastjóri segir að gullforðinn hefur verið nýttur í ákveðnum samningum erlendis með reglulegu millibili en þeir samningar hafa gefið af sér ákveðna ávöxtun. Gullforðinn hefur þannig verið geymdur erlendis í fjölmarga áratugi – frá því fyrir eða um síðari heimsstyrjöld, þ.e.a.s. í Bretlandi.  En hvað eiga þeir mikið af gulli? Þeir eiga 300 tonn. 

Gullforði Seðlabanka Íslands er u.þ.b. 2 tonn árið 2012 eða um 6 grömm á hvern Íslending.  Það gerir hann að 95. stærsta opinbera gullforða heims, stærri en gullforðar Albaníu, Jemens og Hondúras. Er það lítið? Einu sinni var gengi gjaldmiðils tryggt með gullfæti (trygging í gulli). Bandaríkjadollari minnkaði gildi sitt um leið og Bandaríkjamenn hættu að binda hann við gullfót í tíð Nixons.

Sum sé, gull sem hlutfall af heildar gjaldeyrisvaraforða var aðeins 2%. Spurning er hvort það sé nóg? Til samanburðar áttu Norðmenn 52 tonn árið 1940 en þeim tókst með ævintýralegum hætti að forða honum úr landi er nasistar réðust inn í landið. Sá forði dugði til að halda uppi útilagastjórn Norðmanna og uppbyggingu atvinnulífsins eftir stríð.

Í ljósi þess að rafmyntir eru komnar til sögunnar, gengi gjaldmiðla rokkar til og frá (með enga veðtryggingu í gulli), væri ekki svo vitlaust að Seðlabanki myndi hækka hlutfalls gulls í gjaldeyraforða sínum úr meira en 2%.  Gull hefur alltaf haldið gildi sínu í gegnum árþúsund.


Ris og hnignun Alþingis

Alþingi Íslendinga sem stofnað var formlega 930 e.Kr. var löggjafarsamkunda Íslendinga. En það var ekki bara löggjafi, var líka dómstóll. Aðalhlutverk þess var að "rétta lög". En svo komu hnignunarskeið. Alþingi missti löggjafarvald sitt í áföngum eftir að Ísland gekk undir danska konungsvaldið árið 1662 með einveldi konungs. Formlega hætti Alþingi að setja lög árið 1800, þegar það var lagt niður af dönskum stjórnvöldum.

Í raun var Alþingi búið að missa löggjafar hlutverk sitt að hluta til strax eru Íslendingar gengu Noregskonung á hönd.  Þar sem þjóðfélagið var mjög staðnað, giltu sömu lög um aldir. En kyrrstætt þjóðfélag er aldrei algjörlega kyrrstætt. Einhverjar breytingar urðu eftir því sem tímanum leið. 

Þá var til leið sem kallast Alþingissamþykktir sem jafngildu lögum (sama og Aþingisályktanir okkar tíma).  Þetta form var ríkjandi á síðmöldum og fram á nýöld. Alþingissamþykktir voru reglur sem Lögrétta samþykkti og höfðu lagagildi, sérstaklega ef þær fengu staðfestingu konungs.

Annað form sem Alþingi hafði voru Alþingisdómar. Þetta voru úrskurðir sem Lögrétta kvað upp og gátu einnig haft lagagildi ef þeir voru viðurkenndir sem fordæmi.

Þessar samþykktir og dómar voru mikilvægar fyrir réttarkerfið á Íslandi á miðöldum, sérstaklega þar sem ný lög voru ekki sett oft, heldur þróaðist rétturinn með þessum hætti. Konungurinn þurfti oft að staðfesta stærri breytingar, en í sumum tilvikum voru alþingissamþykktir teknar gildar án konungsstaðfestingar, ef þær voru samræmdar gildandi lögum. Á þessu tímabili komu einnig konungsbréf (tilskipanir frá Danakonungi), sem höfðu lagagildi og oft tóku fram fyrir íslenskum lögum.

Alþingi missti löggjafarvald sitt í áföngum eftir að Ísland gekk undir danska konungsvaldið árið 1662 með einveldi konungs. Aumingaskapur Íslendinga gagnvart erlendu valdi birtist í formi ályktanir eða bænaskrár. Þær höfðu ekki lagagildi nema dönsk stjórnvöld eða konungur náðsamlega samþykkut þær. Eftir endurreisn Alþingis árið 1845 starfaði það sem ráðgefandi þing, en hafði ekki löggjafarvald og ályktanir og bænarskrár teknar upp á ný. Lagasetning á Íslandi á 15. öld var því blanda af eldri íslenskum lögum og nýjum fyrirmælum frá Danakonungi.

Fullt löggjafarvald fékk Alþingi aftur árið 1874 með nýju stjórnarskránni sem Kristján IX gaf Íslendingum. Þá fékk þingið rétt til að setja innlend lög um öll málefni Íslands nema þau sem vörðuðu utanríkismál og hernað, sem voru áfram á hendi Dana. Með fullveldi Íslands 1918 og síðan lýðveldisstofnun 1944 fékk Alþingi fullt og óskorað löggjafarvald.

Glæsilegt! Nú erum við fullvalda þjóð og ráðum okkur sjálf. Eða hvað? Íslendingar voru ekki fyrr búnir að fá þessi réttindi, þegar þeir afsala þau í hendur yfirþjóðlegra stofnana og ríkjasambanda.

Það gerðist fyrst er við gengum í Sameinuðu þjóðirnar. Við þurfum að lúta mörgum alþjóðasamþykktum og -lögum. Tökum dæmi:Ísland er aðili að fjölmörgum mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna, t.d.Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (ICCPR, 1966), Alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (ICESCR, 1966), Barnasáttmála SÞ (1989) og Samningi SÞ gegn pyndingum (1984). Alþingi hefur skuldbundið Ísland til að fylgja þessum reglum, og íslenskir dómstólar geta tekið mið af þeim við túlkun laga.

Verra er þegar við þurfum að lúta EES samningum og valdaafsali með bókun 35. Þegar Ísland gekk í Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1994, skuldbatt ríkið sig til að taka upp ákveðnar reglur Evrópusambandsins (ESB) í íslensk lög. Bókun 35 í EES-samningnum kveður á um að EES-reglur hafi forgang yfir íslensk lög ef árekstur verður milli þeirra. Þetta þýðir að Alþingi hefur í raun samþykkt að lagaákvæði sem stangast á við innleiddar EES-reglur verða að víkja.

Þó hefur verið haldið fram að Alþingi geti í orði kveðnu neitað að innleiða einstakar reglugerðir, en í reynd myndi það raska samningnum og leiða til viðbragða frá EES/EFTA-ríkjunum.

Önnur dæmi um framsal valds

Schengen-samstarfið (1996): Ísland samþykkti reglur um sameiginlega landamærastjórnun ESB, sem fela í sér skuldbindingar um vegabréfaeftirlit og upplýsingamiðlun.

Þróun innan EES: Eftir 2000 hefur framsal löggjafarheimilda til stofnana eins og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og EFTA-dómstólsins aukist, þar sem þessar stofnanir geta haft áhrif á íslenskt lagakerfi með túlkun sinni á reglum.

Hvað þýðir þetta fyrir Alþingi?

Alþingi er enn löggjafarvald Íslands en hefur framselt hluta valdsins til alþjóðlegra stofnana.

Þetta þýðir að Alþingi samþykkir oft lög sem eru byggð á reglum sem hafa þegar verið mótaðar erlendis (t.d. af ESB).

Þetta hefur vakið umræður um fullveldi Íslands og hvort frekari framsal gæti krafist stjórnarskrárbreytinga.

Þannig hefur þróunin frá 20. öld og fram á 21. öld fært lagasetningarvald að hluta til yfirþjóðlegra stofnana, þó Alþingi hafi enn formlega lokaorðið í íslenskum lögum.


200 milljónir í hraðahindranir á handónýtum götum

Reykjavík er staður sem maður reynir að forðast í lengstu lög. Það er erfitt að ferðast um borgina. Það er rukkað fyrir allt í fröken Reykjavík. Ef bílnum er lagt, þarf að borga háar upphæðir. Ef keyrt er um borgina þá eru endalaus ljósagatnamót (og gangbrautaljós á Miklubraut!) og lítið reynt að snjallvæða götuvita. Úr þessu skapast umferðaumþveiti og tímatap.

Nú þegar keyrt er eftir stofnbrautum, er eins það sé keyrt eftir járnbrautteinum, svo djúp eru hjólförin á götunum. Í rigningu má vegfarandi þakka fyrir að fljóta ekki út í kant. Þá verður honum litið til hliðar og sér hann þá hraðbrautir hjólreiðastíga. Rennisléttar og vel gerðar, tvíbreiðar og með fallegum brúm yfir götur. Ekkert til sparað fyrir þá fáu sem hætta sig út í rysjótt veður á hjólum og geta það heilsunar vegna.

Þá komum við að hraðahindrunum (umferðahindrunum) borgarinnar. Það er til nægur peningur í að leggja stein í götu borgaranna en ekki í að sópa götur. Ómögulegt er að komast að því hversu margar hraðahindranir eru í borginni.  Hér kemur vísbending frá vefsetri Eiríks Jónssonar GUNNLAUGUR TALDI HRAÐAHINDRANIR Í REYKJAVÍK:

„Ég keyrði í fyrradag norður Kringlumýrarbrautina,“ segir Gunnlaugur Auðunn Júlíusson landsþekktur langhlaupari og sveitarstjórnarmaður um árabil:
„Svo beygði ég af henni austur Borgartún fram hjá sundlauginni í Laugardal, upp að Hrafnistu við Austurbrún og stoppaði þar smá stund.
 
Síðan keyrði ég Dyngjuveg niður á Langholtsveg, austur hann og síðan suður Skeiðarvog yfir Miklubrautina og heim í Rauðagerði.
Eftir að ég beygði út af Kringlumýrarbrautinni þá fór ég að telja hraðahindranir á fyrrgreindri leið.
Alls taldi ég rúmlega 20 hraðahindranir frá beygjunni út af Kringlumýrarbrautinni, þangað til ég kom heim, en þessi leið er nálægt 2,5 km. Sumar þeirra eru örstuttu millibili."
 
Sum sé, hraðahindrun á rúmum 100 metra millibili! Bíltíkurnar ná ekki einu sinni að komast upp í 30 km hraða þegar bílstjórarnir þurfa að hemla aftur og hossast yfir hraðahindun. Það er svo sérkapituli fyrir sig hversu illa þær eru gerðar. Brattinn svo mikill að það er eins og verið sé að keyra á kant.
 
Höfuðborgarsvæðið eitt Norðurlanda hefur hraðahindranir á strætisvagnaleiðum. Bloggritari þekkir strætisvagna bílstjóra sem keyrði eina leið, margsinnum á dag á vakt sinni og uppskar úr því brjósklos. Hann er hættur sem strætisvagna bílstjóri. Fyrir utan það að það þarf að styrkja undirvagna strætisvagna til þess að þeir þoli álagið. Sama gildir um einkabílinn, hjólabúnaður eyðileggst fyrr í þessum ófærum. Talandi ekki um meiri eldsneytis eyðslu og mengun.
 
Á árinu 2025 á að eyða pening í hraðahindranir eins og sjá má af vef Reykjavíkurborgar. Þar segir:

Á árinu 2025 verða endurgerðar eftirtaldar hraðahindranir: 

  • Við Álfheima í Laugardal 
  • Við Skeiðarvog í Laugardal 
  • Við Listabraut í Háaleitis- og Bústaðahverfi 
  • Við Langarima í Grafarvogi 
  • Í Norðurfelli við Fannarfell 
  • Í Norðurfelli við Eddufell 
  • Í Suðurhólum 
  • Í Austurbergi við Suðurhóla 
  • Í Vesturhólum við Arahóla

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdirnar er 200 milljónir króna. Markmiðið með verkefninu er að bæta öryggi og aðgengi vegfarenda segja snillingarnir í Reykjavík. Hver umferðahindrun kostar um 20 milljónir. Það er hægt að malbika drjúgan spotta fyrir þann pening.

Hér er ekki verið að segja að hraðahindranir eigi ekki rétt á sér við vissum aðstæðum, t.d. við skóla. En eru þær bara ekki orðnar of margar? Ein á 100 metra milli bili eins og kom hér fram að ofan.  Það má til dæmis koma með fleiri undirgöng eða göngubrýr.


Hvað kostar að stofnsetja fastaher á Íslandi?

Varnarmál eru mál málana í dag. Íslenskir ráðamenn eru að krafsa í bakkann og reyna að sýna viðleitni til að efla "varnir" Íslands. Veruleiki stórveldis pólitíkurnar hefur neytt þá niður á jörðina því í ljós hefur komið, eins og bloggritari hefur minnst á í áratugi, að engum er treystandi.

Staðreyndin er að ríki eiga bara hagsmuni, ekki vini. Hvernig væri hér umhorfs ef Trump væri með sama yfirgang gagnvart Íslandi og hann sýnir Grænland? Allt brjálað.

Nóta bene, Grænlandsmálið snýst ekki um öryggishagsmuni Bandaríkjanna, þeir geta fengið eins margar herstöðvar og þeir vilja á Grænlandi í samvinnu við Dani. Það er enginn að stoppa Trump. Pólitík hans er augljós öllum þeim sem vilja sjá, hann vill gera Norður-Ameríku, frá Panama til Grænland með Kanada innanborðs að nýjum Bandaríkjum! Ríki á par við Rússland að stærð. En aftur að hagmunum Íslands.

Margt hefur verið sagt um varnir Íslands og nánast allt út í hött. Fullyrðingum án tölfræðilegra gagna slengt fram og sagt, svona er þetta, Íslendingar eru varnarlausir og við getum ekkert gert okkur til varnar. Og þá er farið gamalkunnar leiðir, ruglast á bakarann og smiðinn, og sett fjármagn í lögreglu og Landhelgisgæsluna!  Þetta er bara ekki sami hlutinn. 

Hverjar eru aðgerðir núverandi ríkisstjórnar? Jú, það á að fjölga í lögreglunni um 200 manns. Gott og vel, gott fyrir varnir gegn glæpum. Svo á lappa upp á ræfilslega Landhelgisgæslu! Afgömul og úreld eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar á að hætta að vera í landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi (FRONTEX) í 11 mánuði og láta sjá sig við Ísland meira en einn mánuð á ári! Svo segir forstjóri LHG að þeim vanti ekki tæki, heldur mannskap! Það hefði verið hægt að dekka eftirlitið með lögsögu Íslands (lögreglu aðgerð, ekki her aðgerð) með því að kaup ódýra dróna frá Ísrael (kostar 200 milljónir kr. ódýrasta týpan) og LHG fékk að láni um árið með góðum árangri. Landhelgin gæti verið vöktuð úr lofti 24/7, því enginn er um borð og einn maður á jörðu stjórnar úr stjórnstöð.

Svo er keyptur ómannaður neðansjávardróni, hér kallaður kafbátur af Íslendingum! Íslensk uppfinning og sjálfsagt ódýr. Ekki vitlaust, því að sæstrengirnir sem liggja til Íslands eru óvarðir. En erfitt er að sjá að einn neðansjávardróni geti vaktað sæstrengina alla leið og alltaf. Ef óvinir ákveða að slíta sæstreng, er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Dæmin úr Eystrasalti sanna það.

Bloggritari hefur reiknað út kostnaðinn við stofnkostnað fastahers. Þessir útreikningar eru í skýrsluformi og verða ekki birtir hér. Aðeins heildarkostnaður. Hér er miðað við undirfylki hers (e. company) upp á 250 manns. Þetta er lægsta mögulega stærð hers. Tekið er mið af annars vegar hefðbundið fótgöngulið og hins vegar vélvætt fótgöngulið sem lágmarks mannskapur og tvö eldflauga batterí til að verja höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin.

  • Grunn undirfylki fyrir Ísland myndi kosta að minnsta kosti 3.486.250.000 m.kr. að stofna og 2.091.750.000 m.kr. + á ári að viðhalda.
  • Vélvæddur herafli kostar ca. 6.972.500.000 m.kr. + til að setja upp og 3.486.250.000 - 8.367.000.000 m. kr. á ári til að viðhalda.
  • Tvö eldflauga batterí. Kostnaður er ca. 14. milljarðar króna ef notað er svipað eldflaugakerfi og Norðmenn hafa.

Heildar stofnkostnaður ef allt er tekið með inn í reikninginn, 18,5 milljarða króna ef grunn fótgöngulið ásamt tveimur eldflauga batteríum er valið en 21,0 milljarða króna ef vélvætt fótgöngulið er valið.

Árlegur rekstrar kostnaður er 2-8 milljarðar króna. Er þetta óyfirstíganlegt?

Með því að  taka inn NATÓ í dæmið. gæti dregið verulega úr kostnaði með því að bjóða upp á þjálfun, búnað og samnýtingu herstöðva. Í raun er mjög ólíklegt að Íslendingar einir beri upp kostnaðinn, því að sjóðir NATÓ og Bandaríkjanna eru digrir og fyrirséð að þeir verða stærri næstu misseri. Sjá: NATO Security Investment Programme (NSIP).

Að lokum. Arnór Sigurjónsson talar um í bók sinni „Íslenskur her“ um að lágmarks fjöldi í íslenskum her yrði að vera um 1000 manns og 500 manna varalið  á stærð við herfylki (e. Battalion). Ólíklegt er að pólitískur vilji sé fyrir svo stóru skrefi. En það má vinna að þessu í skrefum.

Allra ódýrasta leiðin er að stofna hér heimavarnarlið, sem gæti gengið undir heitunum Þjóðvarðlið eða Varnarlið. Rekstur slíkra eininga er ódýr. Sem dæmi starfar Þjóðvarðlið Bandaríkjanna aðeins í einn mánuð á ári en foringjarnir eru atvinnumenn. 

Launakostnaður (250 manns) er um 500 milljónir+. Búnaður, rekstur og vopn: Ef notuð væru létt skotvopn, drónar, farartæki og loftvarnakerfi gæti stofnkostnaður verið frá 2-10 milljörðum króna (fer eftir umfangi). Aðstaða og þjálfun: Ef nota ætti núverandi innviði (t.d. öryggissvæði við Keflavík) væri kostnaður lægri.

Veikleikinn eftir sem áður verður loftvarnir. Það er alveg ljóst að Íslendingar hafa ekki efni á að kaupa herþotur. Það verður áfram úthýst til bandamanna. En eldflauga batterí er raunhæf leið.

Áður en menn froðufella kaffið er þeir lesa þetta, þá geta þeir huggað sig við að þetta eru aðeins hugleiðingar bloggritara sem kosta ekki krónu! 

Íslensk pólitík sér til þess að lítið verður gert og það sem verður gert, verður í skötulíki! Löggurnar í LHG verða látnar leika sóldáta áfram, kannski annar drátturbátur - fyrirgefið, varðskip, keyptur á tombólaverði og gamlar þyrlur leigðar. 

Af hverju? Af því að er enginn hefð fyrir hermennsku og her sem stofnun í íslenskum nútíma. Það er enginn þekking né menning, né málsvarar slíkt (kallaðir stríðsæsingarmenn ef menn impra á að kannski væri ekki svo vitlaust að læsa húsinu og hætta að treysta á nágrannanna?), aðeins áhugalausir stjórnmálamenn sem fjalla um varnir í hjáverkum og af illri nauðsyn, því umheimurinn lætur íslensku loftbóluna ekki í friði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Sept. 2025

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband