Bloggfærslur mánaðarins, mars 2025

Leiðtogar Evrópu með óraunhæfa friðartillögu

Aðgerðir Trumps hafa neytt leiðtoga Evrópu til að koma með friðartillögur. Í þrjú ár gerðu þeir ekkert til að koma á frið, fylgdu bara "forystu" Bidens en fólkið í kringum hann, sem í raun stjórnaði, vildi stríð. Knýja á Pútín til samningsborða með stríði. En Bandaríkjamenn og Evrópumenn hafa gleymt eða ekki lesið söguna, en hún er að Rússar eiga stærsta land í heimi og það ekki að ástæðulausu.

Í hartnær 500 ár hafa Rússar þanið út ríki sitt með ofbeldi, skeytingarlausir um eigin landsmenn. Allir leiðtogar Rússlands hafa verið grimmir leiðtogar, grimmastir við eigin þegna/borgara. Pútín er engin undantekning, heldur eðlileg framlenging.

Hvað hefur stríðið leitt í ljós? Stríðshagkerfi Rússa virkar betur en það evrópska og ekkert er í sjónmáli um að efnahagsþvinganir virki eða rússneska hagkerfið sé á vonarvöl. Rússar geta haldið áfram stríðinu næstu árin, kjötkvörn sem malar áfram endalaust.

Þetta ættu Evrópumenn og Bandaríkjamenn að vita, að barist verður til síðasta manns í Úkraínu, fremur en að bíða ósigur. Sá möguleiki er ekki í boði fyrir Pútín að tapa, því að hann verður að halda saman sambandsríkinu Rússland, sem hefur ótal sjálfstjórnarsvæði, þjóðir, tungumál og trúarbrögð. Hann getur ekki hætt á borgarastyrjöld. Það er eitt verra en að Úkraína tapi stríðinu, en það er ef Rússland leysist upp með sín 5000-7000 kjarnorkuvopn. Það vita Evrópu leiðtogar eða eiga að vita það.

En halda Evrópu leiðtogarnir virkilega, að Pútín gangi til samningsborða með þeim? Eftir allt skítkastið, hatrið, vopnasendingarnar, efnahagsstuðninginn við Úkraínu og vilja að senda inn evrópska friðargæsluliða?

Eða hann kjósi fremur að semja við Trump sem hefur heldur betur friðmælst við Rússa, sett ofan í við Zelenskí og Evrópu, lofað að Úkraína fari ekki í NATÓ? Er leið Trumps, sem er ansi óvenjuleg, ekki eina leiðin til að fá Pútín til samningsborða? Er leið hans að tengja efnahags Bandaríkjanna við Úkraínu ekki snjöll leið til að tryggja að Rússar fari ekki inn í Úkraínu aftur? Af hverju varð þetta riflildi í beinni útsendingu milli Trump/Vance og Zelenskí? Af því að demókratar höfðu fyrr um daginn beðinn hann um að standa ekki við samninginn við Trump? Ef Zelenskí er enn að hlusta á valdalausa Demókrata, er hann heldur betur veruleikafirrtur.

Evrópumenn vita ekki að þeir eru úr leik. Þeim munu ekki koma á frið. Trump hefur mörg spil á hendi og öll sem eru í boði. Evrópuleiðtogarnir eru margir og enginn einn skýr leiðtogi.

Hótunin að draga bandaríska hermenn frá Evrópu, tollastríð, úrsögn úr NATÓ o.s.frv virkar. Trump er greinilega búinn að ákveða að skilja Evrópumenn eftir í rykskýi og snúa sér að Kína sem næsta andstæðing. Evrópu leiðtogar geta haldið eins marga skátafundi eins og þeir vilja, þeir breyta ekki valdapólitíkinni næstu misserin.  Eina sem þeir geta gert, er að kynja ósigri, gera Evrópu sjálfbæra efnahagslega og hernaðarlega og hætta að treysta á Bandaríkjamenn. Það mun taka nokkur ár fyrir þá. Þeir geta það alveg. En þegar Evrópuherinn er kominn, hvar ætla Íslendingar að vera með í liði?


Tjörvi: Enginn ávinningur fyrir Ísland að taka þátt í hernaði

Um þetta geta flestir verið sammála en meira nær bloggritari ekki að saman sama sig við málflutning Tjörva Tchiöth sem er doktorsnemi í sagnfræði.

Tjörvi: Enginn ávinningur fyrir Ísland að taka þátt í hernaði

"Tjörvi sagði að hugmyndir um að Ísland stofnaði eigin her væru langt frá raunveruleikanum. Hann benti á að Ísland væri lítið land með takmarkaða efnahagslega burði og að rekstur herafla væri gríðarlega kostnaðarsamur. Hann sagði að jafnvel þótt herdeild yrði stofnuð væri ólíklegt að hún gæti gegnt raunverulegu hlutverki í varnarstefnu Vesturlanda og að í staðinn yrði hún háð utanaðkomandi stuðningi bæði fjárhagslega og hernaðarlega."

Og hver er lausn Tjörva? "Í máli Tjörva kom fram að frekar en að ræða um stofnun hers eða herskyldu ætti að beina athyglinni að því hvernig Ísland gæti tryggt öryggi sitt á raunhæfan hátt. Hann sagði að ef áhyggjur væru af varnarstöðunni væri skynsamlegra að efla borgaralega viðbúnaðargetu og landhelgisgæslu frekar en að reyna að skapa hernaðarlegt afl sem hefði enga raunverulega getu til að hafa áhrif í alþjóðlegum átökum. Hann sagði að varnarmál ættu að byggjast á skynsemi og raunhæfum aðgerðum frekar en táknrænum yfirlýsingum um aukinn hernaðarstuðning."

Í raun er Tjörvi ekki að segja neitt nýtt, það þrátt fyrir breytta heimsmynd, og við eigum áfram að efla borgaralega viðbúnaðargetu og landhelgisgæslu. Hvað á hann við með því? Stækka lögregluna og bæta varðskipi við? Efla löggæslustofnanir? Þarna er auðveldlega skautað fram hjá veruleikanum. Við erum að ræða hermál, ekki löggæslumál.

Bjarni Már Magnússon, deildarforseti og prófessor við lagadeild Háskólans á Bifröst er á annarri skoðun en vinstri sinnaðir sagnfræðingar. "Í fyrsta lagi veit ég hrein­lega ekki um neinn sér­fræðing á sviði varn­ar- og ör­ygg­is­mála sem lít­ur á her­leysi sem styrk," seg­ir Bjarni í viðtali við Morgunblaðið, en Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir, sam­starfs­kona hans á Bif­röst, gagn­rýndi mál­flutn­ing hans og sagði að styrk­ur Íslands fæl­ist í hyggju­viti og póli­tísk­um lausn­um, frek­ar en hervaldi. Og hann heldur áfram: "Fyr­ir utan það að Ísland er ekki herlaust. Önnur ríki eru með herafla hér­lend­is og hafa séð um varn­ir lands­ins," seg­ir Bjarni.

Raunsæið og tilfinningasemi takast á í varnarmálum

Þetta er kjarni málsins og hér eru staðreyndir:

  1. Ísland er ekki hlutlaust land og er í hernaðarbandalagi - NATÓ.
  2. Ísland er með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin og ef þau síðarnefndu fara að berjast í kringum Ísland, er landið þar með þátttakandi!
  3. Það er NATÓ herstöð á Íslandi og hún er á Keflavíkurflugvelli.
  4. NATÓ-hersveitir eru öllum stundum á Íslandi, 24/7/365. Þær eru ekki hér til skrauts, heldur til varnar Ísland.
  5. Fjárlög til varnarmála eru í ár um 6,5 milljarðar króna og um 100 Íslendingar starfa beint við varnartengd verkefni og þar er LHG ekki meðtalin.
  6. Landhelgisgæsla Íslands - löggæslustofnun, hefur tekið að sér varnarmál landsins. Hún sinnir loftrýmisgæslu (sem her gerir að jafnaði) og rekur loftvarnarkerfið. Hún sinnir öðrum varnartengdum verkefnum, svo sem umsjón varnaræfinga o.s.frv. Hún er þar með löggilt skotmark í næsta stríði.

Helsti vandi Íslendinga í varnarmálum er stjórnsýslulegur. Það að utanríkisráðuneytið sinnir varnarmálum í hjáverkum með varnarmálaskrifstofu er vandamál. Það að Ríkislögreglustjóri hefur hluta af varnarverkefnum á sinni er líka vandamál. Og það að Landhelgisgæslan sinnir vörnum Íslands er vandamál.

Það að hafa sett öll varnarmál undir einn hatt, Varnarmálastofnun Íslands var skynsamlegt skref en vanhugsað að leggja niður. Bjarni talar um varnarmálaráðuneyti, það er líka leið ef það væri íslenskur her hér en Varnarmálastofnun dugar fyrir núverandi ástand. Þetta geta Íslendingar gert nú þegar í dag.

Og svo eru það rök Tjörva um að Ísland geti ekki tekið þátt í eigin vörnum, er rökleysa. Af hverju ekki?

Tökum líklega sviðsmynd. Undan öllum innrásarherjum koma hermdarverkasveitir sem eiga að eyðileggja innviði. Undirfylki íslensks hers myndi ráða við slíkar sveitir á meðan beðið er eftir hjálp. Líklegra er þó að hér verði gerð hryðjuverkaárás því að hryðjuverkamenn ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og hann er það á Ísland ef ætlunin er að ráðast á NATÓ. Glæpahópar geta gert hér mikinn ursla.

Íslendingar geta að lágmarki hjálpað til við að vakta GIUK hliðið sem LHG gerir nú þegar með ratsjárstöðvarnar fjóru. LHG er nú að huga að setja upp litlar færanlegar ratsjárstöðvar til að vakta landhelgina og fiskimiðin. Annað sem Íslendingar gætu gert er að taka að sér kafbátaeftirlit og það getur LHG auðveldlega tekið að sér í núverandi mynd og rekið P 8a Poseidon kafbátaeftirlitsvél með stuðningi NATÓ (og slá þar með tvær flugur í einu höggi, hægt er að vakta landhelgina um leið).

En hverjar eru raunverulegar varnarþarfir Íslendinga (annað en að verja NATÓ-herstöðina á Keflavíkurflugvelli)?

Jú, loftvarnarkerfi fyrir Suður-Ísland. Er það óraunhæft? Tökum tvö loftvarnarkerfi fyrir. Annars vegar NASAMS (Bandaríkin/Noregur). Það er hannað sem loftvarnir gegn flugvélum, stýriflaugum og drónum. Drægnin er ~25-50 km (fer eftir eldflaugum, t.d. AMRAAM eða ESSM). En nú komum við að kostnaði. Batteríð kostar um ~20-50 milljónir USD. Eldflaugar kosta um 1-2 milljónir USD stykkið. Kostir kerfisins er að það hefur þegar verið notað í NATO-löndum, m.a. við vernd Washington D.C. Hægt að nota mismunandi eldflaugategundir eftir þörfum. Minni drægni en Patriot og Iron Dome í Ísrael.

Patriot eldflaugakerfið (Bandaríkin). Það er hannað sem varnir gegn stýriflaugum, eldflaugum með langdræga sprengihleðslu og flugvélum. Drægnin er ~70-160 km (fer eftir eldflaugum) Kostnaðurinn á batterí er ~1 milljarður USD. Eldflaug kostar 3-4 milljónir USD stykkið. Kostirnir eru að kerfið veitir fullkomnustu vörnina gegn langdrægum eldflaugum. Hefur verið notað í fjölmörgum stríðum með góðum árangri. Gallarnir eru að það er mrjög dýrt. Krefst umtalsverðs viðhalds og mannafla.

Ísland myndi líklega þurfa 2 batterí (eitt á höfuðborgarsvæðinu, eitt á Suðurnesjum).

Hver væri fjöldi hermanna á batterí? Áætlað 15-25 manns á hvert batterí í vaktavinnu (miðað við NATO-staðla). 2 batterí = 30-50 hermenn í samtals rekstri. Þar að auki þyrfti auka mannskap fyrir viðhald, birgðastjórnun og varalið → heildartala um 50-70 manns. NASAMS loftvarnir fyrir Suðvestur-Ísland myndu krefjast um 50-70 manna fast herlið í vaktakerfi.

Ef Ísland hefði varaliðssveitir(Reserve Force), gæti hluti þeirra verið í hlutaðstarfi (t.d. æfingar nokkrum sinnum á ári). Bandaríkin/NATO gætu aðstoðað við rekstur og þjálfun í byrjun, eins og gert hefur verið fyrir Úkraínu.

Hvaða kerfi hentar Íslandi best?

Ef markmiðið er að verja borgarsvæði gegn eldflaugum, drónum og stýriflaugum; væri NASAMS hagkvæmasti kosturinn. Ef hættan er helst frá skammdrægum eldflaugum (eins og Iron Dome var hannað fyrir), þá er Iron Dome besti kosturinn. Ef Ísland þyrfti vernd gegn langdrægum eldflaugum væri Patriot  eina raunhæfa lausnin, en kostnaðurinn er mjög mikill. En Bandaríkjamenn gætu gefið okkur þetta og þeir myndu líta á þetta kerfi sem varnarkerfi fyrir Ameríku sem það er.

Engin af þessum hugmyndum er óraunhæf. Eina sem til þarf er pólitískur vilji og hugsa út fyrir boxið. Íslendingar hafa haft höfuðið í sandi síðan 1949, sjá ekkert og heyra ekkert, og vonast eftir að bandamenn (við sáum þá að verki í efnahagshruninu 2008 eða þegar Kaninn yfirgaf Ísland einhliða 2006) komi Ísland til varnar. Það gæti verið vilji bandamönnum til þess en geta þeir komið þegar á reynir?  Íslendingar gætu neyðst til að taka af skarið nauðugir. Líklegt er að Repúblikanar verði við völdin næstu 8 ár ef J.D. Vance tekur við af Trump. Hann er ekki síður herskár en Trump. Hvað verður þá um Evrópu og Ísland þar með?

 

 

 


Frábær útskýring á aðdraganda Úkraínu stríðsins

Það er mikil saga á milli Rússland og Úkraínu. Þessi átök eru svæðisátök og snúast ekkert um að Pútín vilji halda áfram og ráðast á restina af Evrópu.

Þegar Evrópuleiðtogar segja að Pútín muni snúa sér næst að Austur-Evrópu, er það hræðsluáróður. Rússar eru smáveldi en með stórt kjarnorkuvopnabúr (sem er trygging gegn innrás en ekki árás á önnur ríki). Að ætla sér að ráðast á NATÓ ríki, með eða án Bandaríkjanna væri pólitískt sjálfsmorð en ríkin eru um 30 talsins.

Það að Rússar hafa aðeins tekið 20% af Úkraínu á þremur árum sýnir og sannar það. Tökum dæmi því til stuðnings.  Innrás Þjóðverja í Sovét-Úkraínu árið 1941. Þetta var hluti af Barbarossa-aðgerðinni sem hófst 22. júní 1941. Þjóðverjar fóru hratt fram og náðu mikilvægum úkraínskum borgum á nokkra mánuði:

Lviv féll 30. júní 1941 (Vestur-Úkraína). Kænugarður, höfuðborgin, féll 19. september 1941 eftir mikla umsáturbardaga þar sem yfir 600.000 sovéskir hermenn voru teknir til fanga.  Kharkov var tekin 24. október 1941.  Odessa, lykilhöfn í Svartahafi, hélt út til 16. október 1941, eftir tveggja mánaða umsátur. Sevastopol á Krím bar viðnám til 4. júlí 1942, eftir átta mánaða umsátur.

Í lok október 1941 var megnið af Úkraínu undir stjórn Þjóðverja, nema Krímskaga sem var ekki að fullu sigraður fyrr en um mitt ár 1942.

Þannig að það tók um það bil 4 til 5 mánuði fyrir Þjóðverja að ná meirihluta Úkraínu á sitt vald, með fullri stjórn eftir um það bil ár. Pútín er enn fastur í Austur-Úkraínu eftir þrjú ár.

 

 


Stríðið endalausa í Evrópu - 2500 ára saga stríðs í Evrópu

Í hjarta Rómar voru hin alræmdu hlið Janusar sem voru tvö á örsmáu hofi, en helgisiðaopnun þeirra boðaði stríðsátök og lokun þeirra endurkomu friðar. Goðsögnin segir að á ótrúlegu valda uppgangi Rómar hafi dyrnar verið opnir í næstum 400 ár frá Núma konungi til Ágústusar keisara með einni undantekningu. 

Á valdatíma Núma var hlið Janusar lokað þar sem friður var í Róm. Næsti konungur, Tullus Hostilius, opnaði hlið Janusar þegar hann fór í stríð við Alba Longa. Hlið Janusar voru opin næstu 400 árin þar til eftir fyrsta púnverska stríðið þegar A. Manlius Torquatus lokaði hliðum Janusar árið 241 f.Kr. Stríðið við Galla á Norður-Ítalíu neyddi Rómverja til opna aftur hlið Janusar, Þau lokuðust ekki aftur fyrr en 29 f.Kr., eftir dauða Antony og Kleópötru.

Frá 1 e.Kr. og til loka vesturhluta Rómaveldis 476 e.Kr. voru hliðin stundum lokuð en oftar opin.  Við vitum lítið um "myrku miðaldir" en eflaust hefur ekki verið friðsamt í álfunni.

Milli 1000 e.Kr. og 2000 e.Kr., voru fjölmörg átök í Evrópu, allt frá litlum átökum til stórfelldra stríðsátaka, með stuttum friðartímabilum á milli stórra átaka.Í stuttu máli sagt, ríkti stríðsástand í Evrópu nánast allar miðaldir.

Á hámiðöldum (1000–1300) voru fjölmörg stríð, þar á meðal krossferðirnar (1095–1291), stríð milli léns konunga og Hundrað ára stríðið (1337–1453) eftir þetta tímabil. Þetta tímabil felur einnig í sér átök eins og landvinninga Normanna og ýmis ættar- og trúarátök.

Á síðmiðöldum (1300–1500) voru tíð stríð, þar á meðal Hundrað ára stríðið, Rósastríðið (1455–1485) og fjölmörg smærri svæðisbundin átök.

Á árnýöld (1500–1700) geysaði stórstyrjöld eins og þrjátíu ára stríðið (1618–1648) sem var í raun álfustríð, siðbótarstríð og gagnsiðbót og stækkun heimsvelda.

Á nýöld (1700–1900) geysaði annað álfustríð,  Napóleonsstríðin (1803–1815), Krímstríðið (1853–1856) og fjölmörg önnur átök.

20. öld toppaði öll önnur tímabil enda getan til manndrápa komin á iðnaðarstig eða sláturhúsa stig. Heimsstyrjaldirnar tvær (1914–1918, 1939–1945) eru allsráðandi, samhliða tímum kalda stríðsins (1947–1991), og fjölmörgum smærri átökum seint á 20. öld, svo sem Júgóslavíustríðin (1991–2001).

En var einhvern tímann friður í Evrópu? Jú, á ármiðöldum var þrátt fyrir allt að oft hafi komið upp átök og staðbundin átök voru tiltölulega lengri friðartímabil á valdatíma ýmissa konungsvelda og heimsvelda.

Síðmiðaldir: Friður var algengari en stærri styrjaldir (stórstríð), en staðbundin átök voru algeng, sérstaklega þar sem Evrópuríki treystu völd sín sem þjóðríki.

Árnýöld var hlutfallslegur friður milli stórstyrjalda, en smærri átök héldu áfram. Til dæmis var tímabilið milli Napóleonsstríðanna og fyrri heimsstyrjaldarinnar að mestu friðsælt í samanburði. Kalla má tímabilið milli Napóleon styrjaldanna og fyrri heimstyrjaldar 100 ára friðinn.

Og þá erum við komin á 20. öld. Eftir seinni heimsstyrjöldina var friðsamlegt. Eftir seinni heimstyrjöldina kom áður óþekkt tímabil friðar í Evrópu, sérstaklega í Vestur-Evrópu, þar sem Evrópusambandið var stofnað og stuðlaði að friði með efnahagslegri samvinnu, þó að spennan í kalda stríðinu héldi áfram.

Spuringin er hvort nýtt tímabil ófriðar sé hafið í Evrópu með átökum í Júgóslavíu og svo Úkraínu (Georgíu, ef við teljum hana með í Evrópu)? Íslendingar blessunarlega sluppu við bræðravígin í 1000 ár í Evrópu, enda jarðaríki sem erfitt var að fara til og herja á.

En svo er ekki lengur, íslenskir stjórnmálamenn eru farnir að skipta sér af vígaferlum Evrópumanna og það sjá þeir síðarnefndu. Rússar eru t.d. búnir að nótera hjá sér að íslensk stjórnvöld séu fjandsamleg Kreml. Ísland er orðið skotmark í næsta álfustríði eða heimsstyrjöld. Væri ekki betra að þeigja og gera minna og ekki taka þátt í vitleysunni í Evrópu?

Það sem við sáum í gær í Hvíta húsinu var farsi. Enginn á að biðjast afsökunar, heldur halda áfram að ræða frið. Pútín, Trump eða Zenenskí verða ekki endalaust við völd en þjóðir þeirra verða áfram til (oftast nær).

Þjóðverjar þurftu að upplifa ósigur á eigin skinni og landamissir en Hitler ekki eftir lok heimsstyrjaldarinnar. En hver vann eiginlega heimsstyrjöldina? 26 milljónir Sovétmanna sem fengu ekki að lifa áfram? Var þetta sigur fyrir þetta fólk? Eða 60-70 milljónir sem létust í styrjöldinni í heild? Raganrök fyrir mannkyn er eina sem kemur upp í hugann.

Og af hverju í ósköpunum má sjá Kristrúnu Frostadóttir á "neyðarfundi" Evrópuríkja með Zelenskí rétt áður en hann fór vestur yfir haf? Hvaða hagsmuni er hún að verja? Íslendinga? Er viturlegt að rífast við Bandaríkin, þótt forseti þeirra sé "fífl" eða "hrekkjusvín" sem hrellir vini sína? 

En höldum Bandaríkjunum fyrir utan þetta og horfum bara á Evrópu per se. Misstu Íslendingar af miklu er 1000 ára stríðið í Evrópu geysaði með stuttum hléum? Friðelskandi Ísland náði bara að vera það af því að enginn náði að stefna innrásarflota yfir hafið til Íslands eða þar til 1940. Ef Ísland væri staðsett þar sem Bretland er núna, væri annað hljóð í skrokknum hjá íslenskum ráðamönnum. Við fengjum ekki að vera í friði og með nútíma tækni fáum við ekki að vera í friði...framvegis.

Og nú hafa "vitir" íslenskir stjórnmálamenn ætt inn á evrópska vígvelli og spyrja, megum við vera memm? Fara inn í sviðsljósið.  Íslenskir stjórnmálamenn eiga bara að hugsa um íslenska hagsmuni, period! Ekki evróska, bandaríska, úkraínska, rússneska eða hvaða hagsmunir það eru sem bandamenn eða óvinir okkar hafa. 

Vitur maður byggir ekki á sandi, kaupir lás á útidyrnar, læsir á kvöldin og passar sig á að rífast ekki við nágrannanna.

Íslendingar mættu spyrja Svisslendinga, hvað þeir eru að gera í dag? Hlutlausir en vopnaðir upp í rjáfur og steinhalda kjafti og telja peninga. Þeir fá að vera í friði.

Enda þennan pistill á málsgrein úr Macbeth:

"Life is but a walking shadow, a poor player that struts and frets his hour upon the stage, and then is heard no more. It is a tale told by an idiot, full of sound and fury, signifying nothing."

 


Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Mars 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband