Áramóta hugleiðingar Samfélags og sögu í árslok 2024

Ekki mun bloggritari halda því fram að hann sé með fordómsgáfu og geta séð framtíðina. Í seinustu áramótaspá hans Framtíðarsýn völva og framtíðar könnuða - Völvuspá Samfélags og sögu  var spáð í spilin með almenna skynisemi sem leiðarljós. Kíkt var á síðust spánna í morgun og ótrúlegt en satt, margt af því sem þar var spáð rætti.  Sagt var (áður en Guðni tilkynnti afsögn sína) að hann væri að fara frá völdum og hann mundi una sér í nýja einbýlishúsinu sínu.

Svo var sagt frá að ríkisstjórnin myndi falla og Katrín og Bjarni myndu fara frá völdum. Við tæki Samfylkingin sem stærsti flokkurinn. Margt annað var spáð og geta menn lesið það ef þeir vilja á slóðinni hér fyrir ofan. En ekki gat bloggritari séð fyrir með sínum common sense hugleiðingum að Píratar og VG myndu falla af þingi. Bloggritari reyndi ekkert í þessari spá að velta um erlend málefni.

Ekki ætlar bloggritari að spá fyrir árið 2025, það er eiginlega tímaeyðsla.

Við að flétta til baka, kemur í ljós að bloggritari er að skrifa sína 1220 blogggrein. Og byrjað var í nóvember 2020 með greininni Málfrelsið - aðeins ætlað fáum? sem var eiginlega stefnuyfirlýsing um að ekki ætlar bloggritari að þeigja sem borgari landsins.

Og á árinu 2024 skrifaði hann 381 blogggreinar! Fleiri en eina grein á dag.  Skrifuð er að lágmarki A-4 blaðsíða í grein en stundum geta greinarnar verið smáritgerðir að stærð. Bloggritari hefur aldrei verið haldin ritstíflu og er að skrifa margt annað um leið, þar á meðal bók sem hann var að klára um jólin. Spurning hvort að handritið fari í skúffuna ásamt fleiri handritum því að bloggritara er eiginlega sama hvort efnið komi út eða ekki. Ekki er verið að skrifa fyrir lesendur, þannig séð, þótt þeir séu stundum ávarpaðir, heldur er verið að skrifa til skilnings og þau hugarefni sem bloggritari er að velta fyrir sér á hverri stundum. Stundum eru skrifaðar greinar sem bloggritari veit að fáir nenna að lesa en eru samt skrifaðar.

Skrifin varpa dýpri skilning á þessi hugarefni og oft kemur niðurstaðan sjálfan bloggritara á óvart. Til dæmis ætlaði bloggritari í dag að skrifa um upphaf kartöfluræktar í Danmörku 1755 og tengja saman við upphaf hennar á Íslandi síðar á öldinni. Þetta viðfangsefni kom upp í hendurnar eftir að hafa horft á dönsku stórmyndina Bastarten eða á ensku "The Promised Land" með Mad Mikkalsen í aðalhlutverki og fjallar um tilraun dansks kafteins til að rækta kartöflur á jósku heiðunum og erfiðleikanna við það. Þessi grein verður ekki skrifuð í dag en kannski síðar. En niðurstaðan kann að koma á óvart, líka fyrir bloggritara.

Skrifað hefur verið um allt á milli himins og jarðar. Ekkert er undanskilið. Það hefur þó verið ákveðið þema í gangi og í forgangi. En það eru varnarmál Íslands sem bloggritari finnst Íslendingar almennt sinnulausir um. Ástæðan fyrir sinnuleysinu, kemur á óvart, en má rekja til þriðja áratugar 20. aldar og er saga að segja frá en verður ekki rakið hér.

Af hverju varnarmál? Þetta viðfangsefni datt óvænt í hendur bloggritara í námi hans, þá hafði hann og hefur enn mikinn áhuga á verslunarsögu og hagsögu. Eftir þetta (B.A.-ritgerð) var ekki snúið. En eftir áratuga löng skrif um málefnið er niðurstaðan að varnarmál eru sjálfstæðismál

Umræðan um varnarmál var gegnumgangandi í sjálfstæðisbaráttunni og leiðtogar Íslands, eins og Jón Sigurðsson og Valtýr Guðmundsson og fleiri síðar, svo sem Bjarni Benediktsson, urðu ljóst að sjálfstætt ríki Íslendinga yrði ekki öruggt nema að varnarmálin væru komin í örugga höfn. Seinni heimsstyrjöldin sannaði það eftirminnilega að það mat var rétt.

Næst síðasta skrefið í sjálfstæðisbaráttunni voru yfirráðin yfir landhelgi Íslands. Þau voru tryggð 1976. En síðasta skrefið er að íslenska ríkið tryggi öryggi Íslands út á við sjálft. Hlutverk fyrstu ríki heims, fyrir 8- 10 þúsund árum, var fyrst og fremst vernd borgaranna. Fyrstu herir og lögregla (oft samtvinnuð) voru því stofnaðir. Þetta er frumskylda ríkisins og ef það getur ekki sinnt því, á ríkið sér engan tilveru grundvöll, annað hvort reka borgararnir valdhafanna frá völdum eða erlent ríki tekur það yfir.

Frá stofnun íslenska lýðveldisins, hefur íslenska ríkið ekki staðið sig sem skyldi í þessum efnum. Íslenska lögreglan og Landhelgisgæsla Íslands hafa allar götur síðan verið undirmannaðar stofnanir. Til allra lukku, hefur íslenskt þjóðfélag verið einsleit og þar af leiðandi friðsamt en nú er öldin önnur. Þá komust Íslendingar upp með þetta. En í dag er Ísland orðið svokallað fjölmenningarríki og hætturnar orðnar meiri og fjölbreyttari. Friðurinn er úti innanlands með sama áframhaldi.

En hann var úti þegar um 1939 fyrir Ísland út á við. Lausnin var innganga í NATÓ og útvistun hervarna til erlends stórveldis. Ísland, eins og aðrar smáþjóðir, verða að treysta á hernaðarbandalag sér til verndar. Það er vel. En Íslendingar geta borið meiri ábyrgð á eigin vörnum og reynt að halda landið frá erlendri hersetu á friðartímum. Tökum sem dæmi kafbátaeftirlitið sem Bandaríkjaher sinnir um þessar mundir og hefur 2-3 hundruð manns í að sinna. Íslendingar gætu alveg sinnt þessu fyrir hönd NATÓ.

Nú er bloggritari kominn of djúpt í varnarmálin í þessum hugleiðingum en áréttar að sjálfstætt ríki verður a.m.k. sýna á táknrænan hátt að það vilji vera sjálfstætt og vilji verja frelsi sitt og sjálfstæði með vopnavaldi ef þess þarf með.

Stórveldi koma og fara, sama á við um Bandaríkin. En vonandi ekki Ísland. Umræðan um kaup á Grænlandi lýsir því svart á hvítu að smáþjóðir eins og Grænlendingar og Íslendingar eru peð í valdaskák stórþjóðanna og varnir þeirra snúast um varnir stórveldanna, ekki þeirra eigin! Ekki vera peð í stórveldapólitíkinni í Evrópu eða heimsins. Íslendingar sluppu við hana allar miðaldir, árnýöld og fram á 20. öld. Allan þennan tíma börðust Evrópuþjóðir á banaspjótum, voru með valdasamsæri, innrásir, borgarastyrjaldir og gera enn í Úkraínu og annars staðar í Evrópu og munu gera áfram um ófyrirséða framtíð.

Vandi Íslendinga er að við erum nú hluti af þessu valdamakki, nýgræðingar, og við höfum enga reynslu né getu til að vera með. Verum sem mest hlutlaus, segjum bara já ef það hentar íslenskum hagsmunum og höldum okkur sem fjærst stórvelda pólitíkinni. Eftir allt, við erum örríki. Og síðan en ekki síst, stöndum á eigin fótum! Áfram Ísland!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Höfundur

Birgir Loftsson
Birgir Loftsson

Er áhugamaður um sögu og samfélag Íslendinga í nútíð og þátíð og tengslum Íslands við umheiminn. Móttó: ,Hafa skal það sem sannara kann að reynast."

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband